Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Grein birt 15. desember 2007

Greinar 2007

Anna Kristín Sigurðardóttir

Þróun einstaklingsmiðaðs náms
í grunnskólum Reykjavíkur

Í þessari grein er lýst stefnumótun Reykjavíkurborgar í átt til einstaklingsmiðaðs náms og lagt mat á stöðu þeirra mála við grunnskóla borgarinnar. Fjallað er um skilgreiningar á hugtakinu einstaklingsmiðað nám, sagt frá þróun og stöðu, m.a. með tilliti til símenntunar, kynningar á heimasíðum skóla, matstækis, einstaklingsáætlana, skipulags skólatíma og skiptingar nemenda í grunnhópa. Þá er umfjöllun um samstarf og teymisvinnu kennara og námsmat. Loks er umræða um skipulag húsnæðis og samantekt um stöðuna í grunnskólum Reykjavíkur. Höfundur tók virkan þátt í stefnumótun um einstaklingsmiðað nám sem stjórnandi á Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og síðar Menntasviði Reykjavíkurborgar í áratug og lauk  doktorsgráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskólanum í Exeter árið 2006. Höfundur er forstöðumaður kennarabrautar Kennaraháskóla Íslands. 

Fræðsluyfirvöld í Reykjavík hafa um nokkurra ára bil lagt áherslu á þróun náms- og kennsluhátta frá bekkjarmiðaðri kennslu til einstaklingsmiðaðs náms og samvinnu í grunnskólum borgarinnar. Þessi áhersla var fyrst orðuð í starfsáætlun fræðslumála fyrir árið 2000 (Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2000) þar sem fjallað var um nemendamiðað nám þótt umræðan hafi byrjað all nokkru fyrr, t.d. í blaði sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur gaf út um framtíðarskólann haustið 1999 (Steinunn Stefánsdóttir, 1999) og dreift var til allra kennara og foreldra. Ári síðar, eða árið 2001, er hugtakið einstaklingsmiðað nám notað í fyrirsögn í starfsáætlun fræðslumála. Síðan þá hefur markvisst verið unnið að þessari þróun eftir ýmsum leiðum en hún tengist einum af fimm áhersluþáttum í framtíðarsýn til tíu ára fyrir grunnskóla Reykjavíkur. Hinir áhersluþættirnir eru um skóla án aðgreiningar, góða andlega og félagslega líðan, tengsl við grenndarsamfélagið og sjálfstæði skóla.

Í mars 2004 birtist í Netlu viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur, þáverandi fræðslustjóra Reykjavíkur, þar sem hún lýsti m.a. aðdraganda að stefnumörkun um einstaklingsmiðað nám og hvað hefði verið gert til að auðvelda þróun skólastarfs í átt að því fram að þeim tíma (Ingvar Sigurgeirsson, 2004). Gerður er reyndar talin vera upphafsmaður þessa hugtaks í umræðu um skólamál hér á landi (Ingvar Sigurgeirsson, 2005). Hún fjallaði um einstaklingsmiðað nám og skólann á 21. öld í litlu hefti sem gefið var út af Fræðslumiðstöð Reykjavíkur árið 2003 undir heitinu Skólastarf á nýrri öld (sjá vefskjal) og segja má að eftir þá útgáfu hafi legið skýrar fyrir en áður hvað lá að baki hugtakinu. Áhugavert er að skoða hvar þróunin frá bekkjarmiðaðri kennslu til einstaklingsmiðaðs náms er nú stödd.

Í þessari grein er leitast við að varpa ljósi á ofannefnda þróun og stöðuna eins og hún er um þessar mundir. Byggt var á gögnum sem fyrir liggja á aðalskrifstofu Menntasviðs Reykjavíkurborgar, einkum niðurstöðum úr árlegri spurningakönnun til skólastjóra grunnskólanna í borginni. Fyrst er fjallað um skilgreiningar á hugtakinu einstaklingsmiðað nám. Síðar er sagt frá núverandi stöðu, m.a. hvað varðar símenntun, kynningu á heimasíðum skóla, matstæki, einstaklingsáætlanir nemenda, skipulag skólatímans og skiptingu nemenda í grunnhópa. Þá er umfjöllun um samstarf og teymisvinnu kennara og námsmat. Loks er umræða um skipulag húsnæðis. Fróðlegt hefði verið að skoða fleiri þætti, s.s. samþættingu námsgreina og þemanáms, mismunandi verkefni nemenda og sjálfstæði þeirra en umfjöllun takmarkast við þær upplýsingar sem lágu fyrir.

Markmið þessarar greinar er að gefa yfirlit um stöðu þróunarinnar frá bekkjarmiðaðri kennslu til einstaklingsmiðaðs náms í grunnskólum Reykjavíkur. Greinin er hugsuð sem innlegg í umræðuna um einstaklingsmiðað nám og áframhaldandi þróun grunnskólans með hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi.

Hvað felst í hugtakinu einstaklingsmiðað nám og samvinna nemenda?

Í fylgiskjali 23 með Stefnu og starfsáætlun Leikskólasviðs og Menntasviðs Reykjavíkurborgar 2007 er að finna eftirfarandi skilgreiningu á einstaklingsmiðuðu námi og samvinnu nemenda:

Skipulag náms sem tekur mið af stöðu hvers og eins en ekki hóps nemenda eða heils bekkjar í grunnskóla. Nemendur eru ekki að læra það sama á sama tíma heldur geta þeir verið að fást við ólík viðfangsefni og verkefni einir sér eða í hópum. Nemendur bera ábyrgð á námi sínu og nám hvers og eins byggir á einstaklingsáætlun. (Menntasvið Reykjavíkurborgar 2007).

Sömu skilgreiningu er reyndar að finna í eldri starfsáætlunum allt frá 2004 (Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2004). Meginatriði er að fyrirkomulag náms og kennslu tekur mið af stöðu sérhvers nemanda í námi hans á hverjum tíma fremur en hóps. Til að fyrirbyggja þann misskilning að einstaklingsmiðað nám sé það sama og einstaklingskennsla er mikilvægt að leggja áherslu á þann þátt skilgreiningarinnar hér að ofan sem felst í samvinnu nemenda. Hugmyndin byggist m.a. á kenningum um einstaklingsmun, ólíkan námsstíl einstaklinga og fjölgreind (Ingvar Sigurgeirsson, 2005). Mikilvægt er að hafa í huga að hugtakið einstaklingsmiðað nám vísar til skipulags og umgjarðar fremur en tiltekinna kennsluaðferða eða þess hvernig einstaklingur lærir. Margar leiðir eru færar í skipulagi einstaklingsmiðaðs náms.

Af umræðu meðal skólafólks má greina að skilningur á hugtakinu einstaklingsmiðað nám er oft ólíkur. Í raun má segja að mörg önnur hugtök sem notuð hafa verið í umræðu um skólaþróun undanfarna áratugi hafi sömu eða svipaða merkingu og einstaklingsmiðað nám. Nefna má hugtakið námsaðlögun (sbr. norska hugtakið tilpasset oplæring) eða námsaðgreining (sbr. enska hugtakið differentiation). Einnig má segja að einstaklingsmiðað nám feli í sér mörg önnur hugtök, s.s. þemanám, samvinnunám, heildstætt nám og sveigjanlega kennsluhætti. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Kennaraháskóla Íslands hefur í skrifum sínum gert ítarlega grein fyrir sögu þessa hugtaks og skyldleika þess við önnur hugtök (2005). Ekki eru þó allir á eitt sáttir um merkingu eða notkun hugtaksins. Sem dæmi má nefna að Hafþór Guðjónsson dósent við Kennaraháskóla Íslands (2005) telur það nánast ónothæft vegna þess hve skólafólk leggi ólíkan skilning í merkingu þess. Sá sem þetta ritar leggur á hinn bóginn áherslu á að forðast beri að nota mörg mismunandi hugtök um þá stefnu eða aðferð sem verið er að innleiða. Vænlegra sé að sameinast um hugtak eða hugtök sem verði síðan leiðandi í umræðunni. Þar með séu meiri líkur á að smátt og smátt verði til sameiginlegur skilningur sem byggja megi á. Auk þess auðveldar það umræðu um stefnu og framkvæmd að nota sömu hugtök þar sem notkun margra orða yfir sama fyrirbærið geti verið ruglandi og jafnvel hamlað þróun. Þessu eru margir fræðimenn sem fjallað hafa um skólaþróun sammála (sjá t.d. Tyack og Cuban, 2003).

Ljóst er að hugmyndir um einstaklingsmiðað nám eru leiðandi í þróun náms og kennslu og þar með skólastarfs á 21. öldinni í nágrannalöndum okkar. Á Englandi er notað hugtakið personalised learning sem skilgreint er sem viðleitni til að koma til móts við fleiri nemendur og á árangursríkari hátt en hingað til hefur verið mögulegt (Department for Education and Skills, 2004). Markmiðið er að tryggja að allir nemendur nýti hæfileika sína til fullnustu í skólanum og séu betur búnir undir að læra allt lífið (Hargreaves, 2005). Á Norðurlöndum er unnið samkvæmt sömu hugsun og m.a. lögð áhersla á gerð einstaklingsáætlana og teymiskennslu kennara. Í Noregi hefur hugtakið tilpasset oplæring svipaða merkingu og í Danmörku er talað um individuell oplæring. Sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum. Þar eru víða notuð hugtökin differentiated learning,  individualized learning eða individualized and co-operative learning. Það er því ljóst að grunnskólarnir í Reykjavík stefna mjög í sömu átt og skólar í nágrannalöndunum og þeim löndum sem við berum okkur mest saman við.

Símenntun og umræða innan og utan skóla

Til að skapa sameiginlegan skilning og auka þekkingu á einstaklingsmiðuðu námi sátu skólastjórar í Reykjavík umfangsmikið námskeið (80 stundir) á vegum Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur skólaárið 2003–2004. Segja má að það hafi markað ákveðna umgjörð um þessa umræðu (Gerður G. Óskarsdóttir, 2005). Á námskeiðinu, sem var skipulagt af Ingvari Sigurgeirssyni prófessor við Kennaraháskóla Íslands, var m.a. farið yfir ýmsar skilgreiningar á einstaklingsmiðuðu námi og hvernig það gæti birst í skólastarfi. Aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar sátu sambærilegt námskeið. Samkvæmt upplýsingum frá skólastjórum í reglubundinni upplýsingaöflun Menntasviðs haustið 2006 höfðu þá verið haldin einnar annar námskeið fyrir kennara í nítján skólum til að styrkja starfsmenn skólanna í áframhaldandi uppbyggingu á einstaklingsmiðuðu námi. Greinilegt er að unnið er markvisst að því víða í skólum borgarinnar að festa þessa kennsluhætti í sessi með fræðslu, þjálfun og umræðu.

Sama ár og námskeiðið fyrir skólastjórana hófst, var í fyrsta sinn haldin ráðstefna fyrir alla kennara í Reykjavík um einstaklingsmiðað nám og samvinnu nemenda, nánar tiltekið 13. febrúar 2003, undir heitinu Skóli á nýrri öld. Slíkar ráðstefnur hafa verið haldnar árlega síðan og jafnan verið vel sóttar af skólafólki í borginni. Ráðstefnurnar hafa verið mikilvægur vettvangur til að fræðast og skiptast á hugmyndum en ekki síður til að vekja athygli á stefnu borgarinnar og starfi skólanna.

Jafnvel þótt stjórnendur og starfsmenn skólanna hafi verið að ræða einstaklingsmiðað nám í nokkur misseri virðist sem þeir hafi sjálfir ekki leitt þá umræðu út fyrir skólann nema að takmörkuðu leyti. Til að mynda var innan við þriðjungur skóla með upplýsingar um einstaklingsmiðað nám á heimasíðu sinni samkvæmt óformlegri könnun upplýsingafulltrúa Menntasviðs haustið 2006.

Matstæki um einstaklingsmiðað nám

Haustið 2005 gaf Menntasvið Reykjavíkurborgar út Matstæki um einstaklingsmiðað nám (sjá vefskjal) í þeim tilgangi að auðvelda skólafólki að meta hversu langt það væri komið í að skipuleggja einstaklingsmiðað nám í sínum skóla. Því var einnig ætlað að auðvelda þeim að taka frekari skref í þróuninni og hvetja til umræðu meðal starfsmanna skólanna. Tækið varð til í samstarfi skólastjóra og starfsmanna á Fræðslumiðstöð og skiptist í sex þætti. Þeir eru skipulag, námsumhverfi, viðhorf, kennarar, nemendur og foreldrar. Gerð er grein fyrir hverjum þætti í fimm stigum. Lýst er starfi eins og það var í hefðbundnum skóla á 20. öld (1. stig), hvernig það gæti þróast (2. til 4. stig) og síðan hvernig starfið gæti verið í skóla sem þróað hefur einstaklingsmiðað nám og mikla samvinnu nemenda (5. stig). Skólastjórar hafa margir látið í ljós þá skoðun að tækið hafi auðveldað mjög umræðuna meðal kennara og stutt við málefnalegra umfjöllun og skoðanaskipti. Nauðsynlegt er að endurskoða þetta tæki með reglulegu millibili eftir því sem hugmyndir þróast og breytast.

Samkvæmt niðurstöðum úr árlegri spurningakönnun Menntasviðs til skólastjóra hafði tækið verið til umræðu í 25 skólum (71% af almennum grunnskólum í Reykjavík) á haustdögum 2005. Haustið 2006 höfðu fimm skólar til viðbótar nýtt sér það til umræðu (samtals 30 skólar af 35 eða um 86%).

Mynd 1 Úr matstæki Menntasviðs Reykjavíkurborgar (2005): Nemendastoðin
(stoðirnar eru alls sex, hinar eru skipulagsstoð, námsumhverfisstoð, viðhorfastoð,
kennarastoð og foreldrastoð).

Einstaklingsáætlanir fyrir nemendur

Mikilvægur þáttur í skipulagi einstaklingsmiðaðs náms er gerð einstaklingsáætlana fyrir alla nemendur. Með þeim setja nemendur sér markmið, í samvinnu við kennara sína og foreldra, og marka sér leið að þeim. Auk þess er í einstaklingsáætlun gert ráð fyrir því að nemendur meti stöðu sína á þeirri leið með reglubundnu millibili. Einstaklingsáætlanir eru jafnframt tæki fyrir kennara til að greina stöðu hvers og eins, auk þess að vera öflugt verkfæri til að auka ábyrgð nemenda á sínu eigin námi þar sem þeir þurfa að setja sér markmið og eru knúnir til að gera sér grein fyrir stöðu sinni. Þátttaka foreldra í gerð slíkra áætlana skiptir miklu máli.

Í reglubundinni upplýsingaöflun Menntasviðs haustið 2006 sögðu skólastjórar 33ja skóla að gerðar væru einstaklingsáætlanir í einhverjum greinum eða árgöngum í skólum þeirra. Það eru fleiri skólar en haustið 2005 (sjá töflu 1) en í tveimur skólum var verið að undirbúa slíka vinnu.
 

Tafla 1 – Fjöldi almennra grunnskóla þar sem gerðar eru einstaklingsáætlanir
  Fjöldi skóla 2005 Fjöldi skóla 2006
Einstaklingsáætlanir í einhverjum
greinum eða árgöngum
30 33
Einstaklingsáætlanir
í undirbúningi
2 2
Engar einstaklingsáætlanir
og ekki í undirbúningi
3 0
Alls 35 35


Í flestum skólum þar sem gerðar voru einstaklingsáætlanir var einungis um lítinn hluta nemenda að ræða eða innan við þriðjung (28 skólar bæði árin). Í þremur skólum voru einstaklingsáætlanir gerðar fyrir um 31–63% nemenda haustið 2006 (voru tveir árið áður) og í fjórum voru gerðar áætlanir fyrir um 64–100% nemenda (voru þrír árið áður).
 

Tafla 2 – Áætlað hlutfall nemenda í almennum grunnskólum
samkvæmt mati skólastjóra sem gera einstaklingsáætlanir
í samvinnu við kennara sína og foreldra
Einstaklingsáætlanir gerðar fyrir ... Fjöldi skóla 2005 Fjöldi skóla 2006
< 30% nemenda 28 28
3163% nemenda 2 3
> 64% nemenda 3 4
Svara ekki 2  
Alls 35 35


Ljóst er að mikið verk er óunnið á þessu sviði í grunnskólum Reykjavíkur. Hægt er að sækja þekkingu í smiðju nágrannaþjóða okkar en t.d. í Danmörku og Svíþjóð er gerð einstaklingsáætlana nú bundin í lög. Einnig hafa verið skrifaðar handbækur fyrir kennara um þetta efni (t.d. Sjorup, 2006).

Skipulag skólatíma og skipting nemenda í grunnhópa

Sveigjanleiki í skipulagi og starfsháttum er samofinn áherslu skóla á einstaklingsmiðað nám, t.d. hvað varðar nýtingu á tíma og hvernig nemendum er skipað í hópa. Sjö grunnskólar í Reykjavík hafa fengið sérstakt leyfi menntamálaráðuneytis til að víkja frá viðmiðunarstundaskrá. Þetta eru Víkurskóli, Fellaskóli, Ingunnarskóli, Sæmundarskóli, Norðlingaskóli, Hlíðaskóli og Breiðagerðisskóli. Í þessum skólum hefur stundatöflu verið breytt þannig að í stað þess að skipta tímanum í 40 eða 80 mínútna lotur, sem merktar eru ákveðnum námsgreinum, er deginum skipt í lengri vinnulotur og einungis nokkrar merktar ákveðnum greinum.

Meiri fjölbreytni er jafnframt í því hvernig nemendum er skipað í námshópa en áður var. Í nokkrum skólum er ekki lengur miðað við bekk með að meðaltali um 20 nemendum sem grunneiningu í skólastarfinu heldur er litið á stærri námshópa sem í eru nemendur í einum eða tveimur árgöngum, sem grunneiningu (t.d. í Ingunnarskóla, Korpuskóla og Laugalækjarskóla). Þá ber hópur kennara sameiginlega ábyrgð á kennslu nemendahópsins þótt hver og einn sé umsjónarkennari ákveðins hóps nemenda.

Rétt er að taka fram að í einstaklingsmiðuðu námi er nemendum ekki skipt í bekki eftir getu þótt slík skipting í hópa geti vel átt við í einstökum greinum í takmarkaðan tíma. Meginatriði er að fyrirkomulag kennslu og náms ákvarðist af stöðu sérhvers nemanda í námi á hverjum tíma fremur en hóps.

Samstarf og teymisvinna kennara

Mikilvægur þáttur í þróuninni til einstaklingsmiðaðs náms er að kennarar vinni saman í teymum með sameiginlega ábyrgð á nemendahópum. Þannig nýtist betur sérþekking hvers og eins og tækifæri skapast til miðlunar þekkingar og reynslu milli manna.

Í upplýsingaöflun Menntasviðs haustið 2006 sögðu skólastjórar í 25 skólum að slík teymisvinna tíðkaðist í þeirra skólum, í flestum tilvikum í yngri árgöngum. Skólastjórar sjö skóla sögðu að engin teymisvinna væri í skólum þeirra en í einum þeirra var verið að undirbúa að koma henni á (skólastjórar tveggja skóla svöruðu ekki).

Í rannsókn á viðhorfum kennara til samstarfs, sem Guðbjörg Halldórsdóttir (2005) fyrrverandi skólastjóri Vogaskóla gerði meðal 124 kennara sem valdir voru af handahófi úr grunnskólum Reykjavíkur, kom fram að kennarar tóku einungis þátt í teymiskennslu í að meðaltali um eina klukkustund á viku. Sömu kennarar sögðust taka þátt í samstarfi af einhverju tagi í rúmlega fimm klst. á viku. Þessir kennarar höfðu ekki áhuga á að auka þann tíma mikið en töldu engu að síður að það hefði mikið gildi fyrir þá sjálfa og skólastarfið að eiga samstarf við aðra kennara.

Á einni af mörgum málstofum ráðstefnunnar Skóli á nýrri öld, sem haldin var í Reykjavík í febrúar 2007, lýstu kennarar þriggja skóla (Víkurskóla, Álftamýrarskóla og Borgaskóla) árangursríku skipulagi teymiskennslu. Þeir töldu allir að mikill ávinningur væri af teymiskennslu, bæði fyrir nemendur og starfsaðstæður þeirra sjálfra. Í námsferð skólastjóra til Danmerkur og Svíþjóðar í mars 2007 mátti sjá skipulagða teymiskennslu í þeim skólum sem heimsóttir voru. Lýstu kennarar þar yfir mikilli ánægju með fyrirkomulagið og vildu alls ekki snúa til baka í eldra fyrirkomulag. Höfundur þessarar greinar tók þátt í þessari ferð en skýrsla um hana mun brátt birtast á heimasíðu Menntasviðs Reykjavíkurborgar.

Námsmat

Í einstaklingsmiðuðu námi er óhjákvæmilegt að námsmat sé einnig einstaklingsmiðað, a.m.k. að miklu leyti. Miklar umræður eru meðal kennara og fræðimanna um þennan þátt. Samræmd hóppróf til að kanna stöðu árgangs eða nemendahópa á afmörkuðum sviðum þurfa þó ekki, að mínu mati, að hamla þróun í átt til einstaklingsmiðaðs náms eins og oft hefur verið haldið fram. Þau eru þvert á móti mikilvæg fyrir bæði nemandann og kennarann til að geta borið stöðu sína eða nemenda sinna saman við aðra, ekki síst þegar verið er að bregða út af venju og prófa nýjungar í skólastarfi. Um þetta eru þó skiptar skoðanir meðal skólafólks. Margir hafa bent á að hugmyndafræðilega samræmist samræmd próf illa áherslu á einstaklingsmiðað nám þar sem sama mælistika er notuð fyrir alla nemendur óháð því hverjar hafa verið áherslur í námi þeirra. Auk þess hefur gagnrýni á samræmd próf beinst að áhrifum þeirra á framkvæmd kennslu (Rúnar Sigþórsson, 2005; Börkur Vígþórsson, 2003). Nýjar hugmyndir um einstaklingsmiðuð tölvuvædd próf gætu komið vel til móts við hugmyndir um einstaklingsmiðað nám. Farið er að nýta slík próf í nágrannalöndum okkar og án efa verður einnig farið að gera það hér á landi á næstunni.

Mestu er um vert að kennarar beiti fjölbreyttum aðferðum við námsmat og nýti niðurstöður við áætlanagerð og markmiðssetningu, þar með talið einstaklingsbundið símat sem tengist markmiðum hvers nemanda. Nokkrir skólar í Reykjavík hafa tekið upp verk- eða námsmöppur (portfolio) sem meginaðferð við námsmat. Slíkt mat felur m.a. í sér markmiðssetningu, skráningu á framförum og mat á árangri. Áhersla er lögð á að nemendur taki virkan þátt í að velja sýnishorn af verkefnum sem þeir eru ánægðir með. Námsmat sem byggist á námsmöppum hefur m.a. verið þróað í Laugalækjarskóla og Ölduselsskóla. Auk þess eru margir skólar að þróa sitt námsmat í átt til meiri fjölbreytni, s.s. að auknu sjálfsmati nemenda, jafningjamati og mati á hópvinnu. Frá hausti 2006 eru tveir skólar móðurskólar í fjölbreyttu námsmati, Ingunnarskóli og Norðlingaskóli.

Skipulag húsnæðis

Til að auðvelda kennurum að skipuleggja einstaklingsmiðað nám þarf meiri sveigjanleika í skipulagi skólahúsnæðis en tíðkast hefur í hefðbundnu húsnæði skóla fram til þessa. Í skýrslu um greiningu á þörf fyrir byggingar og endurbætur á húsnæði grunnskóla Reykjavíkur er í stuttu máli fjallað um hvernig húsnæði þarf fyrir skóla sem leggur áherslu á einstaklingsmiðað nám. Þar segir m.a.:

Sveigjanleiki þarf að vera í stærð kennslurýma sem skapar nemendum möguleika á að starfa saman í misstórum hópum og einstaklingslega. Hið hefðbundna bekkjarkerfi er nú ekki eins niðurnjörvað og áður og það færist í vöxt að árgöngum sé skipt upp á mismunandi vegu eftir viðfangsefnum og nemendum jafnvel skipt í hópa þvert á árganga. Til að auðvelda þessa uppstokkun og styðja jafnframt við markmið um samábyrgð og samstarf kennara um námshópa þarf vinnuaðstaða kennara að vera í nánd við kennslusvæðið. … Skólasafn er miðstöð þekkingar og upplýsingaöflunar og þarf því að vera staðsett miðlægt í skólahúsinu. Þangað koma nemendur ýmist í hópum eða til að vinna sjálfstætt. Greiður aðgangur nemenda að tölvum víðs vegar um kennslusvæðið er grundvallaratriði. Skjávarpi kemur í stað kortabrauta og myndvarpa í kennslurými á næstu árum. Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999 gerir ráð fyrir talsvert breyttum áherslum í kennslu verk- og listgreina, sérstaklega í smíði sem nú heitir tæknimennt. Megináhersla er lögð á að nemendur tileinki sér vinnubrögð við að raungera hugmynd frá fyrstu hugdettu að lokaafurð. Til viðbótar koma svo áherslur fræðsluyfirvalda í Reykjavík um sveigjanleika í kennsluháttum og einstaklingsmiðað nám. Þetta felur í sér breytingar á húsnæði og búnaði frá því sem nú er. Til að auka sveigjanleika mætti líta á það rými sem ætlað er til kennslu í textilmennt, tæknimennt og myndmennt sem eitt verkstæði og opna meira á milli þeirra til að skapa möguleika á meiri fjölbreytni í vinnubrögðum og sveigjanleika. Nemendur eru að vinna ólík verkefni og dreifast um svæðið, einir eða í minni hópum eftir því sem hæfir þeirra viðfangsefni. Tryggja þarf eðlilega yfirsýn kennara yfir svæðið. Miðlægt eða í góðum tengslum við verkstæðið þarf að vera aðstaða til hönnunar með tölvum og forritum til hönnunar. Vinnuaðstaða kennara þarf líka að vera í góðum tengslum við kennslurýmið með góðri yfirsýn.
                                      (Fasteignastofa Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2004)

Við hönnun á nýbyggingum og viðbyggingum við eldri skóla í Reykjavík undanfarin ár hefur verið unnið eftir þessum áherslum þó útfærsla sé með ólíkum hætti á hverjum stað. Flestir skólar sem byggðir eru á síðustu árum bera vott um breyttar áherslur í skólastarfi. Á þetta bæði við um nýbyggingar og viðbyggingar. Nefna má skóla eins og Ingunnarskóla og Korpuskóla og viðbyggingar við Laugarnesskóla, Breiðagerðisskóla, Seljaskóla og Vogaskóla, ásamt Sæmundarskóla og Norðlingaskóla sem eru á hönnunarstigi.

Samantekt

Stefnumótun um einstaklingsmiðað nám (eða hvaða orð sem menn kjósa að nota yfir það sem hér hefur verið lýst) er langt í frá bundin við Ísland. Í flestum löndum sem við berum okkur saman við er unnið í anda þessarar hugmyndafræði. Sums staðar er þróunin komin vel á veg en annars staðar er verið að taka fyrstu skrefin. Skólafólk í Reykjavík, og reyndar á öllu landinu, er duglegt að sækja sér fyrirmyndir, hugmyndir og þekkingu erlendis frá og sýnir þar með áhuga á að finna samhljóm með því sem þar er að gerast.

Einstaklingsmiðað nám vísar til hugmyndafræði um skólastarf sem miðast við þarfir hvers einstaklings og felur í sér opnun og sveigjanleika á öllum sviðum.

Markmið þessarar greinar var að gefa yfirlit yfir stöðu þróunarinnar í grunnskólum Reykjavíkur frá bekkjarmiðaðri kennslu til einstaklingsmiðaðs náms í þeim tilgangi að styrkja umræðuna. Byggt var á niðurstöðum úr árlegri spurningakönnun Menntasviðs Reykjavíkurborgar til skólastjóra og öðrum upplýsingum frá Menntasviði. Í stuttu máli voru niðurstöður þessar: Ætla má að auðvelt sé nú orðið fyrir kennara að finna skilgreiningar og lýsingar á því sem nefnt er einstaklingsmiðað nám og samvinna nemenda en skortur á skilgreiningum eða misskilningur hamlaði án efa umræðu og þróun framan af. Löng og efnismikil námskeið hafa verið haldin fyrir skólastjórnendur, þ.e. skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra. Hliðstæð námskeið hafa einnig verið haldin fyrir starfsmenn í nítján af almennu gunnskólunum þrjátíu og fimm.

Fátítt er að skólar kynni á heimasíðum hvað felist í einstaklingsmiðuðu námi og hvað skólarnir eru að gera í þeim efnum Innan við þriðjungur skólanna var með slíkt efni á heimasíðu sinni haustið 2006. Matstæki um einstaklingsmiðað nám hefur verið mikið notað en 30 almennir skólar höfðu nýtt sér það til umræðu. Gerð einstaklingsáætlana nemenda er á byrjunarstigi. Engu að síður voru sjö skólar með einstaklingsáætlanir fyrir meira en 30% nemenda sinna. Alls eru sjö skólar að gera tilraunir með breytt skipulag skólatímans og nokkrir skólar skipta nemendum í stærri grunnhópa en hefðbundið viðmið segir til um (u.þ.b. 20 nemendur í bekk). Samstarf og teymisvinna kennara er greinlega að aukast. Í 25 skólum var slík teymisvinna, a.m.k. í yngstu árgöngunum. Skólaárið 2006–2007 voru tveir skólar móðurskólar í einstaklingsmiðuðu námsmati og nokkrir skólar hafa tekið upp námsmat þar sem byggt er á námsmöppum (portfolio). Skipulag skólahúsnæðis hefur greinilega breyst á undanförnum áratug, einkum þó á allra síðustu árum.

Af framansögðu er ljóst að flestir grunnskólar í Reykjavík hafa hægt og sígandi verið að þróa kennsluhætti sína í átt til einstaklingsmiðaðs náms. Sumum finnst of hægt farið á meðan öðrum finnst farið of geyst. Mikilvægt er að starfsmenn hvers skóla finni í sameiningu eigin leiðir og sinn takt. Hlutverk fræðsluyfirvalda er að móta stefnu og fylgja henni eftir með því að veita viðeigandi stuðning og fylgjast með hvernig gengur. Slíkt utanumhald og samstaða eru lykilatriði svo ekki verði rof í þróuninni (Tyack og Cuban, 2003). Menntaráð Reykjavíkur hefur reyndar þegar ákveðið að á skólaárinu 2007–2008 skuli gerð ýtarleg könnun á því hvernig staðan er í grunnskólum borgarinnar hvað varðar einstaklingsmiðað nám.

Framundan er að stíga ákveðnari skref í að gera einstaklingsáætlanir fyrir alla nemendur líkt og þegar hefur verið bundið í lög, t.d. í Danmörku og Svíþjóð. Halda þarf áfram við þróun námsmats og viðmiðunarstundaskrár. Jafnframt er mikilvægt að hönnun á skólahúsnæði hverju sinni taki mið af hugmyndum um skólastarf framtíðar.

Heimildir


Börkur Vígþórsson (2003). Bót eða dót? Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 8. maí 2007 af http://netla.khi.is/greinar/2003/002/prent/index.htm

Department for Education and Skills (DfES) (2004). A national conversation about personalised learning. London: DfES Publications.

Fasteignastofa Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur ( 2004). Húsnæði grunnskóla Reykjavíkur. Greining á þörf fyrir byggingar og endurbætur. Reykjavík: Fasteignastofa Reykjavíkur og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur/Menntasvið Reykjavíkurborgar (2005). Ársskýrsla fræðslumála í Reykjavík 2004. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur/Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur (2000). Starfsáætlun fræðslumála í Reykjavík 2000. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur (2004). Starfsáætlun fræðslumála í Reykjavík 2004. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Gerður G. Óskarsdóttir (2003). Skólastarf á nýrri öld. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.
Sjá vefskjal sótt 8. maí af http://www.rvk.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/menntasvid/
pdf_skjol/skyrslur/Skolastarf_a_nyrri_old[1].pdf.  

Gerður G. Óskarsdóttir (2005). Horft um öxl. Fræðsluráð Reykjavíkur sem starfaði frá ágúst 1996 til desember 2004 og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur sem starfaði frá ágúst 1996 til maí 2005. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Guðbjörg Halldórsdóttir (2005). Liðsheild er lykilatriði. Rannsókn á viðhorfum grunnskólakennara í Reykjavík til samstarfs. Óbirt M.Ed.-ritgerð. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Hafþór Guðjónsson. (2005). (Einstaklingsmiðað) NÁM. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 16. júní 2005. Sótt 6. desember 2007 af http://netla.khi.is/greinar/2005/009/index.htm.

Hargreaves, D.H. (2005). Personalising learning. Sótt 12. maí 2007 af http://www.ssat-inet.net/what_we_do/personalising_learning.aspx.

Ingvar Sigurgeirsson (2004). Einstaklingsmiðað nám í grunnskólum Reykjavíkur. Athyglisvert skólaþróunarverkefni. Viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur fræðslustjóra. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 10. maí af http://netla.khi.is/vidtol/2004/001/index.htm

Ingvar Sigurgeirsson (2005). Um einstaklingsmiðað nám, opinn skóla og enn fleiri hugtök ... Uppeldi og menntun. 14(2):9–32.

Menntasvið Reykjavíkurborgar (2005). Matstæki um einstaklingsmiðað nám. Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkurborgar. Sjá vefskjal sótt 8. maí af http://www.rvk.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/
menntasvid/pdf_skjol/skyrslur/einstaklingsmidad-nam%5b1%5d.pdf.

Menntasvið Reykjavíkurborgar (2006). Ársskýrsla Menntasviðs Reykjavíkurborgar 2005. Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Menntasvið Reykjavíkurborgar (2007). Stefna og starfsáætlun Leikskólasviðs og Menntasviðs Reykjavíkurborgar 2007. Reykjavík: Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Rúnar Sigþórsson (2005). Að skilja matinn frá moðinu. Um gagn eða ógagn af samræmdum lokaprófum í grunnskóla. Erindi flutt á 9. málþingi Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands í október 2005. Sótt 15. maí 2007 af http://notendur.unak.is/not/runar/Rannsoknir_erindi/
Matinn_modinu_files/frame.htm.

Sjorup, U. (2006). Elevplaner – en nogle til vækst og læring. Kaupmannahöfn: Dafolo.

Steinunn Stefánsdóttir (ritstj.) (1999). Reykjavíkurskólar. Framtíðarskólinn, 3 (1). Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Tyack, D. og Cuban, L. (2003). Tinkering towards utopia. A century of public school reform. Cambridge, Mass., London: Harvard University Press.

Prentútgáfa    Viðbrögð