Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Grein birt 21. nóvemberl 2007

Greinar 2007

Erna Ingibjörg Pálsdóttir

Að hafa forystu um þróun námsmats

Í greininni fjallar Erna Ingibjörg Pálsdóttir um hugmyndir Richards J. Stiggins um námsmat. Stiggins er þekktur fræðimaður í námsmatsfræðum og höfundur margra bóka, bókarkafla og greina um efnið. Hann stofnaði og rekur ásamt fleirum stofnun í Portland í Oregon sem ber heitið Assessment Training Institute (http://www.assessmentinst.com). Greinarhöfundur, sem er deildarstjóri í Álftanesskóla og verkefnastjóri þróunarverkefnis skólans í námsmati, sótti í nóvember á síðasta ári námskeið hjá stofnuninni þar sem fjallað var markvissar leiðir í námsmati.

Inngangur

Dagana 13.–15. nóvember 2006 sótti greinarhöfundur, ásamt Steinunni Sigurbergsdóttur, kennara við Álftanesskóla, námskeið hjá bandarískri stofnun, Assessment Training Institute (http://www.assessmentinst.com) í Portland í Oregon. Námskeiðið bar heitið Leading Professional Development in Classroom Assessment en stofnunin heldur slíkt námskeið tvisvar sinnum á hverju ári. Meginmarkmið námskeiðsins er að kynna skólafólki markvissar leiðir til að stuðla að vönduðu námsmati (quality assessment) og þjálfa þátttakendur í að leiða þróun í námsmati. Greinarhöfundur ákvað að miðla öðru skólafólki því helsta sem fram kom á námskeiðinu og benda á námsgögn sem stofnunin gefur út og ætluð eru kennurum en þau eru að dómi höfundar afar notadrjúg.

Álftanesskóli fékk styrk frá Þróunarsjóði grunnskóla skólaárið 2006–2007 til að vinna að umræðum um námsmat og breytingum á því. Greinarhöfundur hefur lengi átt sér þann draum að sækja námskeið hjá Assessment Training Institute (ATI) og nálgast eitthvað af námsgögnum þeirra og nú gafst tækifærið. Meginhluti þátttakenda var frá Bandaríkjunum, nokkrir frá Kanada og við tvær frá Íslandi.

Rick Stiggins stofnaði Assessment Training Institute (ATI) árið 1992 en hann var aðalleiðbeinandi á námskeiðinu ásamt þeim Judy Arter og Jan Chappuis. Vorið 2006 sameinaðist ATI námsmatsstofnuninni Educational Testing Service (ETS) og starfa leiðbeinendurnir allir hjá þessari nýju stofnun. Meginhlutverk stofnunarinnar er að stuðla að faglegri þróun í námsmati. Rick Stiggins hefur fengist við þróun námsmats í rúm tuttugu ár. Hann hefur staðið fyrir fjölmörgum námskeiðum ásamt því að vinna að þróun skriflegra prófa og þjálfa kennara í námsmatsaðferðum. Stiggins leggur áherslu á að sýna skólafólki fjölbreyttar, skilvirkar og hagnýtar leiðir til að meta nám og m.a. þess vegna er hann eftirsóttur fyrirlesari og ráðgjafi. Að hans mati er vandað námsmat lykill að skilvirku skólastarfi, auknum námsáhuga og betri námsárangri. Stiggins hefur skrifað fjölmargar greinar og bækur um námsmat og er bók hans Student-Involved Assessment for Learning (2005, 4. útg.) notuð sem lesefni í námsmatsfræðum við marga bandaríska háskóla. Hann er, ásamt Judy Arter, Jan Chappuis og Steven Chappuis, einnig höfundur að bókinni sem lögð var til grundvallar námskeiðinu sem við sóttum og ber heitið Classroom Assessment for Student Learning: Doing It Right – Using It Well (Stiggins, Arter, Chappuis og Chappuis, 2006).

Judy Arter er þekktur sérfræðingur um frammistöðumat (performance assessment). Hún hefur unnið við að þróa markvissar leiðir í frammistöðumati og m.a. gert myndbönd fyrir kennara með leiðbeiningum um námsmat. Hún var deildarstjóri hjá Northwest Regional Educational Laboratory´s (NWREL) og lagði þar m.a. áherslu á námsmat í stærðfræði, sérkennslu, ritun og listgreinum. Judy er ásamt Jan Chappuis höfundur að bókinni Creating and Recognizing Quality Rubrics (2006).

Jan Chappuis, þriðji aðalleiðbeinandinn á námskeiðinu, hefur áratuga reynslu af því að þjálfa kennara í námsmati og hefur haldið mörg námskeið þar sem lögð var áhersla á samþættingu markmiða, námsmats og kennslu. Hún var einnig sérfræðingur í námskrárgerð í Washington. Chappuis hefur kennt á öllum aldursstigum grunnskólans og hefur því dágóða þekkingu á því hvernig á að auka námshvatningu og vilja nemenda til náms. Hún er ásamt Steven Chappuis höfundur að bókinni Understanding School Assessment – A Parent and Community Guide to Helping Students Learn (2002).
 

Rick Stiggins

 

Judy Arter

 

Jan Chappuis


Í bókinni Classroom Assessment for Student Learning: Doing It Right – Using It Well leggja höfundar grunninn að hugmyndum og áherslum í námsmati sem þeir hafa m.a. þróað með hliðsjón af rannsóknum á ólíkum námsmatsaðferðum. Einnig byggja þeir á skrifum annarra fræðimanna og fjalla m.a. um mikilvægi námsmats í námi og kennslu, hlutverk og framsetningu námsmarkmiða, fjölbreyttar námsmatsaðferðir, endurgjöf, einkunnir og vitnisburði. Ástæða er til þess að vekja athygli á námsgögnum eða bókum ETS/ATI en þær eru mjög aðgengilegar og fullar af hugmyndum sem kennarar geta nýtt sér. Á heimasíðu ETS/ATI (http://www.ets.org/ati) er hægt að skoða öll námsgögn sem stofnanirnar gefa út og jafnframt er hægt að vera áskrifandi að veftímariti þeirra.

Á námskeiðinu sem hér er gert að umtalsefni fóru Stiggins, Arter og Chappuis yfir mikið efni og fjölmörg atriði bar á góma. Þau eru mjög góðir fyrirlesarar og námskeiðið var vel skipulagt. Þátttakendur tóku virkan þátt í að ræða ýmis áhugaverð málefni og var megintilgangur þess að vekja þá til umhugsunar um margvíslega þætti í námsmati. Námskeiðið var sérstaklega skipulagt fyrir þá sem bera ábyrgð á að þróa námsmat í skólastarfi, s.s. starfsfólk menntastofnana, þróunarfulltrúa, skólastjórnendur, kennsluráðgjafa og deildarstjóra í skólum. Ekki var gert ráð fyrir þátttöku almennra kennara en þeir gátu þó setið námskeiðið með því skilyrði að þeir hefðu tekið þátt í að þróa námsmat eða væru ráðgefandi um námsmatsaðferðir. Eindregið var mælt með því að fleiri en einn þátttakandi kæmi frá hverri stofnun. Jafnframt var gerð krafa um að umsækjendur sendu ferilskrá og greinargerð um þekkingu sína á námsmati áður en námskeiðið hófst. Loks þurftu þátttakendur að undirbúa sig fyrir námskeiðið með því að lesa bókina Classroom Assessment for Student Learning: Doing It Right – Using It Well og einnig áttu þeir að vera undir það búnir að gera áætlun um að kynna fyrir öðrum meginhugmyndir námskeiðsins.

Fagleg þróun í námsmati – námsteymi

Rick Stiggins á samstarf við marga sérfræðinga í námsmati, m.a. frá Bretlandi, Nýja Sjálandi, Ástralíu og auðvitað Bandaríkjunum. Samstarf þeirra felst m.a. í að miðla milli sín hugmyndum, þekkingu og reynslu og halda þeir á tveggja ára fresti ráðstefnu um námsmat. Verður næsta ráðstefna á Nýja Sjálandi 2008. Að baki hugmyndum Rick Stiggins, Judy Arter og Jan og Steven Chappuis um vandað námsmat eru fimm lyklar (sjá síðar í greininni). Einnig leggja þau áherslu á sjö leiðir að mati í þágu náms (seven strategies of assessment for learning) sem byggjast á kenningum Sadlers (Ástralía).

Á síðasta áratug hafa margir skólar á Bretlandi og í Bandaríkjunum lagt meiri áherslu á leiðsagnarmat sem ætla má að sé vegna áhrifa af niðurstöðum viðamikillar rannsóknar Black og Wiliam (1998) en niðurstöður þeirra sýna að leiðsagnarmat hefur talsverð áhrif á námsárangur. Þeir benda á að í þeim skólum þar sem áhersla er lögð á leiðsagnarmat hafi námsárangur nemenda aukist, ekki síst vegna þess að þar hafi nemendur skýra sýn á námsmarkmiðin og fái endurgjöf sem sýnir þeim hvar þeir eru staddir í náminu. Þeir leggja mat á eigið nám og fá leiðsögn um hvernig þeir geti bætt sig. Svipaðar niðurstöður komu fram í rannsókn Sadlers árið 1989 en hann bendir á að til að auka námsárangur þurfi nemandinn að vita hvert hann stefni, hvar hann er staddur í náminu og hvernig hann geti náð námsmarkmiðunum.

Grunnur að vönduðu námsmati í skóla, að mati Stiggins og félaga, er að þar starfi sérstakt námsteymi. Mælt er með því að í námsteymi séu þrír til sex þátttakendur sem hittast reglulega og fara skipulega yfir hvern þátt námsmatsins í skólanum, gjarnan með hliðsjón af köflum bókarinnar Classroom Assessment for Student Learning: Doing It Right – Using It Well.

Námsteymi er ekki leshringur. Umræður við samstarfsfélaga er ekki markmiðið, heldur leiðin að markmiðinu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur í námsteymi geti hjálpað hver öðrum við námsmat og að milli funda lesi þeir efnið og prófi sig áfram með þær hugmyndir sem þar er að finna og tengi eigin hugmyndum um námsmat í kennslu. Lögð er áhersla á samvinnu þátttakendanna, stuðning og umræður um framkvæmd námsmatsaðferða í anda hugmynda um námsmat í þágu náms (assessment for learning). Í námsefninu er farið skipulega yfir alla þætti námsmatsins og gert ráð fyrir ítarlegum umræðum um þá innan teymisins. Meginmarkmið ETS/ATI er að hjálpa kennurum að skilja hvernig best er að nota námsmatið og niðurstöður þess til að styðja sem allra best við nám nemenda.

Stiggins (2005) telur að það séu sterk tengsl milli innri áhugahvatar og námsmats. Hann álítur að kennarar þurfi að hjálpa nemendum til þess að nýta sér námsmatið. Námsmatið þarf að sýna þeim hvernig þeim gengur í náminu og hvernig þeir geta náð betri árangri. Þá er mikilvægt að kennarar velti fyrir sér hvernig þeir geta notað námsmatið til að ýta undir vilja nemenda til að læra eða til að leggja sig fram við námið.

Mikilvægt er að kennarar gefi nemendum ekki einungis einkunn fyrir próf heldur fái nemendur til að velta fyrir sér eigin frammistöðu til að þeir geti bætt sig og þá hvernig. Reglubundið námsmat og endurgjöf hjálpar nemendum til að sjá hvað þeir geta gert vel og hvað þeir þurfa að bæta, ásamt því að gera sér grein fyrir hæfileikum sínum á mismunandi sviðum.

Markmiðið er vitaskuld að námskrá skólans geri öllum nemendum kleift að ná árangri og tryggi eftir því sem unnt er, að þeir fái stuðning, aðstoð og hvatningu í náminu. Kennarar þurfa umfram allt að leggja áherslu á gæði námsins. Enn fremur er mikilvægt að nemendur finni að þeir geti lært og að þeir telji að námið sé þess virði að leggja sig fram við það.

Í þjálfunaráætlun fyrir námsteymin er lögð megináhersla á að námsmatið:

 • Veiti upplýsingar sem hægt er að nota við kennslufræðilegar ákvarðanir.

 • Gefi áreiðanlegar upplýsingar um námsárangur og hjálpi nemendum að læra, þ.e. að sýna þeim hvert þeir stefna, hjálpi þeim að sjá hvar þeir eru staddir í náminu og hvernig þeir geta náð námsmarkmiðunum.

Segja má að þetta sé kjarninn í hugmyndum um mat í þágu náms, sem á ensku er kallað Assessment for Learning.

Mat í þágu náms – mat á námi

Kennarar verja miklum tíma í að leggja mat á nám og vinnu nemenda til að sjá hvernig þeim gengur í náminu. Jafnframt nýta þeir upplýsingar úr niðurstöðum þess til að skipuleggja kennslu (leiðsagnarmat) og veita nemendum og foreldrum upplýsingar um námsstöðu og framfarir nemenda (lokamat).

Leiðsagnarmat (formative assessment), eða mat í þágu náms, miðast við að meta framfarir nemenda í námsefninu í þeim tilgangi að nota niðurstöðurnar til að framkvæma nauðsynlegar breytingar á námi og kennslu. Leiðsagnarmat hefur þann megintilgang að styðja við nám og kennslu. Í leiðsagnarmati er verið að fylgjast með og leiðbeina nemendum á námstímanum. 

Lokamat (summative assessment), eða mat á námi, segir til um árangur nemenda yfir skólaárið og er tilgangur þess að ákvarða hvort þeir hafi náð viðhlítandi árangri. Megintilgangur þess er að veita upplýsingar um árangur námsins við lok námstímans. Tafla 1 sýnir samanburð á þessum tveimur nálgunum.
 


Tafla 1

Samanburður á hugtökunum mat á námi og mat í þágu náms
 

 

Mat á námi

Mat í þágu náms

Tilgangur

Að athuga námstöðu

Að bæta námið

Upplýsingar

Fyrir aðra um námið

Upplýsa nemendur um
framfarir þeirra í námi

Áhersla á

Áfangamarkmið
og viðmið

Sett námsmarkmið

Dæmi

Samræmd próf,
skrifleg skólapróf

Námsmat sem greinir þarfir nemenda og hjálpar þeim að sjá eigin framfarir

Tími

Þegar námi er lokið

Meðan á námi stendur


Stiggins (2005) heldur því fram að báðar þessar leiðir séu mikilvægar en leggur á hinn bóginn áherslu á að þær séu ólíkar og þjóni mismunandi tilgangi. Kennurum hætti hugsanlega til að vilja aðhyllast aðra leiðina og útiloka hina. Að áliti Stiggins skiptir miklu að gæta þess að hafa gott jafnvægi milli þessara tveggja leiða og því þurfi að leggja áherslu á báðar.

Áður en námskeiðið, sem fjallað hefur verið um í þessari grein, hófst þurftu þátttakendur að kynna sér hugmyndir Stiggins með því að hlýða á fyrirlestur sem hann nefnir New Mission, New Beliefs: Assessment for Learning (Stiggins, 2005) og gefinn hefur verið út á geisladiski. Í fyrirlestrinum ræðir Stiggins m.a. um hefðina í námsmati og þær nýju hugmyndir sem hafa verið að mótast á síðustu árum. Hægt er að fá diskinn ókeypis á heimasíðu ETS/ATI (http://www.ets.org/ati).

Í töflu 2 má sjá hvernig Stiggins lýsir þróun námsmats í átt til aukinnar fjölbreytni í anda hugmynda um námsmat í þágu náms.
 


Tafla 2

Breytingar í átt frá hefðbundnu námsmati í átt til aukinnar fjölbreytni
í anda hugmynda um námsmat í þágu náms

Frá Til
Föstum tíma Sveigjanlegs tíma
Stuðningi við nemendahópinn (hópmiðað) Stuðnings við einstaklinginn (einstaklingsmiðað)
Ásökun og refsingu Hvatningar og umhyggju
Að kennari tali og nemandi hlusti Að kennari veiti leiðsögn og nemandi framkvæmi
Að verðlauna fáa nemendur Að fagna árangri allra nemenda
Meðaltali nemendahópsins Framvindu einstaklingsins
Samanburði Væntinga um framfarir
Einstaklingsvinnu Samvinnu, hópastarfs


Það eru ekki sjálfar matsaðferðirnar sem segja okkur hvort matið sé leiðsagnarmat eða lokamat. Margar matsaðferðir er hægt að nota bæði sem leiðsagnarmat og lokamat, s.s. próf, skriflegar úrlausnir nemenda og sóknarkvarða. Stiggins telur afar mikilvægt að þátttakendum námsteyma sé gerð grein fyrir hvernig þeir geta tengt upplýsingar úr niðurstöðum námsmats við þarfir hina mismunandi notenda matsins, sérstaklega nemenda. Hann telur mjög mikilvægt að þeir:

 • Skoði hlutverk eða tilgang námsmatsins og geri sér grein fyrir að kennsla, nám og námsmat sé órjúfanlega háð hvert öðru.

 • Skilji mikilvægi þess að útskýra markmiðin vel fyrir nemendum og að þau endurspegli námsmatið.

 • Geri námsmatsáætlun og velji þá matsaðferð sem henti best markmiðum og tilgangi matsins.

 • Skrái reglulega upplýsingar um námsframvindu sérhvers nemanda og miðli niðurstöðum reglulega til nemenda, foreldra og annarra sem málið varðar.

 • Stuðli að þátttöku nemenda í námsmatinu, þ.e. að nemandi meti og fylgist með eigin frammistöðu og setji sér þau markmið sem hann hyggst ná í náminu.

Allt eru þetta meginþættir í vönduðu námsmati sem Stiggins telur að leiði til aukins náms. Stiggins, Arter, Chappuis og Chappuis (2006) telja mikilvægt að námsmatið sé leiðbeinandi, bæði fyrir kennara og nemendur, því vandað námsmat stuðli að umbótum í kennslu. Mat þarf að vera óhlutdrægt, sanngjarnt, skýrt og ótvírætt.

Fimm lyklar að vönduðu námsmati

Samkvæmt hugmyndum Stiggins eru fimm lyklar að vönduðu námsmati. Þeir eru: Skýr tilgangur (clear purpose), skýr markmið (clear targets), traust skipulag (sound design), árangursrík miðlun (effective communication) og þátttaka nemenda (student involvement).

Hér verður fjallað stuttlega um hvern lykil og bent á hvað sé mikilvægt fyrir kennara að hafa í huga þegar námsmat er skipulagt (Stiggins, Arter, Chappuis og Chappuis, 2006, bls. 13).

1. Skýr tilgangur

Í byrjun þarf að skilgreina tilgang námsmatsins. Ef megintilgangur þess er að safna upplýsingum fyrir ákvarðanatöku, þurfa kennarar að spyrja: Hvaða ákvarðanir þarf að taka og hver tekur þær? Svarið á að hjálpa kennurum að fá gott yfirlit yfir námsmatið og hvaða upplýsingar gagnast best til að ná hámarksárangri.

Hver er tilgangur matsins?

Mikilvægt er að:

 • Koma til móts við þarfir þeirra sem nota námsmatið og niðurstöður þess.

 • Huga að því hvernig niðurstöður eru notaðar.

 • Skilja að námsmatsferlið og niðurstöður þess geta verið leiðsögn í námi.

 • Nota niðurstöður sem loka- eða heildarmat til að upplýsa nemendur og utanaðkomandi aðila um árangur nemenda á ákveðnum tíma.

 • Gera námsmatsáætlun sem fléttar saman mati í þágu náms og mati á námi.

2. Skýr markmið

Ef markmið eru vel skilgreind og skýr auðveldar það kennurum að skipuleggja skólastarfið, þ.e. ef þau sýna hvað þeir ætla að kenna og hvað þeir ætlast til að nemendur læri. Á námskeiðinu var mikið rætt um hvernig kennarar geta notað markmið aðalnámskrár og gert þau nemendavænni (student-friendly language) sem að áliti Stiggins er mikilvægur grunnur að vönduðu námsmati. Í því felst m.a. að nemendur viti og skilji til hvers er ætlast af þeim og að kennari skoði markmið námsins með nemendum og þjálfi þá í að skilgreina þau og kenni þeim að setja þau fram á einfaldan hátt. Dæmi: Ég get stigbreytt lýsingarorð eða Eg er að læra að lífverur hafa áhrif hver á aðra.

Mikilvægt er að:

 • Hafa skýr markmið og geta gert þrepamarkmið nemendavænni.

 • Gera sér grein fyrir að það eru mismunandi gerðir af námsmarkmiðum sem útskýra þarf vel fyrir nemendum.

 • Setja markmið um mikilvægustu námsþættina, það sem nemendur eiga að vita og geta gert.

 • Gera ítarlega námsmatsáætlun.

3. Traust skipulag

Þegar tilgangur og markmið hafa verið ákveðin er komið að því að skipuleggja námsmatsferlið. Mikilvægt er að kennarar velji viðeigandi matsaðferð og hugi að innihaldi námsmatsins. Þjálfunaráætlunin er m.a. til að hjálpa kennurum að læra um hinar fjölbreyttu matsaðferðir, s.s. skriflegt mat (próf), mat á ritunarverkefnum, frammistöðumat eða umræður (viðtöl). Þessar aðferðir geta stuðlað að eða gefið upplýsingar um árangur nemenda.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að:

 • Það eru til mismunandi matsaðferðir.

 • Velja þarf matsaðferð sem hentar þeim námsmarkmiðum sem verið er að meta.

 • Námsmatið sé í samræmi við tilgang þess.

 • Safna þarf viðeigandi gögnum og hafa matsspurningar fjölbreytilegar.

 • Forðast þarf hlutdrægni sem getur gert niðurstöður ónákvæmar.

4. Árangursrík miðlun

Næst eru það niðurstöður matsins en þeim þarf að skila fljótlega eftir að mat hefur farið fram og gera nemendum grein fyrir þeim. Hægt er að fara mismunandi leiðir við endurgjöf og vitnisburð. Á námskeiðinu var stuttlega fjallað um einkunnir en megináherslan var á lýsandi endurgjöf (decriptive feedback) til nemenda og hvernig hún getur hjálpað þeim í náminu.

Mikilvægt er að:

 • Miðla upplýsingum á viðeigandi hátt og huga að því hvernig upplýsingum er komið á framfæri, s.s. einkunn, umsögn, viðtal allt eftir því hvaða námsmarkmið verið er að meta og hverjir eiga að nota niðurstöðurnar. 

 • Huga vel að því hvernig nemendum er gefin einkunn, hvað liggur að baki henni og hvernig henni er komið á framfæri við nemendur.

 • Túlka og nota niðurstöður samræmdra prófa.

 • Miðla gagnlegum upplýsingum til nemenda og annarra (foreldra, skólastjórnenda, fræðsluyfirvalda).

5. Þátttaka nemenda

Einn af meginlyklunum að vönduðu námsmati er að nemendur taki þátt í námsmatsferlinu. Leggja þarf áherslu á að veita nemendum upplýsingar um framkvæmdina, fá þá til samstarfs um skipulag og framkvæmd námsmatsins og taka þátt í að miðla niðurstöðum. Segja má að í þessu felist að gera nemendur færa um að segja sögu af eigin árangri.

Mikilvægt er að:

 • Útskýra námsmarkmiðin vel fyrir nemendum.

 • Fá nemendur til að taka þátt í matinu, að fylgjast með eigin árangri og að setja sér markmið um námið.

 • Fá nemendur til að taka þátt í að miðla upplýsingum um eigið nám.

Lyklarnir að vel unnu námsmati eru byggðir á niðurstöðum rannsókna og talið er að sé eftir þeim farið geti það haft mjög jákvæð áhrif á nám nemenda. Hlutverk þjálfunaráætlunarinnar er m.a. að hjálpa kennurum að auka fjölbreytni námsmats með það að markmiði að auka námsárangur. Það má vera ljóst að ekki er nóg að lesa um lyklana því til að stuðla að breytingum á námsmati er mikilvægt að kennarar gefi sér tíma og séu viljugir að vinna saman að því að breyta hefðinni í námsmati. Reynslan af því að nota lyklana hefur sýnt að nemendur öðlast aukna hæfni í að stjórna eigin námi, bæði til skemmri og lengri tíma litið.

Mynd 1 Lykilatriði í vönduðu námsmati (ETS. Educational Testing Service, Portland OR: http://www.ets.org/ati

Sjö leiðir að mati í þágu náms

Mat í þágu náms er samspil milli kennara og nemanda. Lögð er áhersla á sjálfsmat sem á að draga fram styrk nemenda og fá þá til að hugleiða hvað þeir geti gert til að verða enn betri námsmenn, þ.e. að nemendur taki virkan þátt í eigin mati og setji sér markmið og viðmið um árangur. Meginhlutverk kennara í mati í þágu náms er að leiðbeina nemendum og aðstoða þá við að ígrunda eftirfarandi spurningar:

 • Hvert stefni ég?

 • Hvar er ég núna?

 • Hvernig næ ég markmiðunum?

Með leiðunum sjö að mati í þágu náms er verið að búa til ramma um framkvæmdina sem eru í ákveðinni röð þannig að kennarar sjái hana fyrir sér og hvernig hægt er að nota hana í kennslu og námsmati (sjá mynd 2).
 


Hvert stefni ég?
 

1. Skýra námsmarkmiðin og gera þau sýnileg og skiljanleg öllum.
2. Nota dæmi eða sýnishorn af góðum og slökum verkefnum.

Hvar er ég núna?

3. Gefa lýsandi endurgjöf reglulega.
4. Kenna nemendum að meta eigið nám og að setja sér markmið.

Hvernig næ ég markmiðunum?

5. Beina kennslunni að einum þætti í einu.
6. Kenna nemendum að rifja skipulega upp.
7. Hvetja nemendur til ígrundunar, til að hafa skipulag á því sem þeir læra og deila því með öðrum.
 

 
Mynd 2 - Námsmat í þágu náms: Sjö leiðir

Með þessum leiðum er verið að leggja áherslu á hvernig kennarinn getur leiðbeint nemendum, þ.e. að nemendur átti sig á og ígrundi eigin framfarir, fái leiðsögn og dæmi um hvað sé góð vinna eða geri sér grein fyrir hvernig vönduð verkefni líta út. Stefnt er að því að nemendur geti borið vinnu sína saman við ákveðin viðmið, sjái hvað þeir eru færir um og fái tillögur um hvernig þeir geti bætt sig. Nemendur þurfa að glöggva sig á og hafa stjórn á eigin árangri; þeir þurfa að vita frá upphafi skólaárs hvert ferðinni er heitið, þ.e. hvaða verkefni eru framundan og hvernig þeir geta gert betur næst. Í þessu felst að nemendur viti hvert þeir stefna, hvar þeir eru staddir í náminu og hvernig þeir geta náð námsmarkmiðunum (Sadler, 1989; Stiggins, Arter, Chappuis og Chappuis, 2006, bls 42).

Hér á eftir verður fjallað stuttlega um leiðir kennarans að mati í þágu náms.

Hvert stefni ég?


1. Kennarinn þarf að hafa skýra mynd af námsmarkmiðunum og gera þau sýnileg og skiljanleg öllum viðkomandi. Áður en kennslan hefst er mikilvægt að kennarinn geri nemendum grein fyrir námsmarkmiðunum, þ.e. að nemendur viti hvað þeir eiga að læra og til hvers er ætlast af þeim. Með því að einfalda og umorða námsmarkmiðin með nemendum og útskýra lykilhugtök eru meiri líkur á að þeir skilji til hvers er ætlast. Eins og áður hefur komið fram er æskilegt að setja fram staðhæfingar sem byrja t.d. á ég er að læra að eða biðja nemendur að setja markmiðin fram með eigin orðum.

2. Kennarinn noti dæmi eða sýnishorn af góðum og slökum verkefnum til að hjálpa nemanda að svara spurningunum: Hvernig lítur vel unnið verkefni út? Hvernig veit ég hvort vinnan mín er góð? Hvað á ég að forðast? Til að nemendur geri sér grein fyrir hvernig vönduð verkefni líta út er lögð áhersla á að skoða með þeim og meta t.d. skriflegar úrlausnir ónafngreindra nemenda (sem gætu verið verkefni frá öðrum kennurum). Kennari og nemendur ræða hvað einkennir verkefnin og kennari aðstoðar síðan nemendur við að flokka þau eftir styrkleikum (góð – miðlungs – slök). Þá er nemendum kennt að bera þau saman við ákveðin viðmið, t.d. í sóknarkvarða. Tilgangurinn er að nemendur fari síðan yfir eigin vinnu með það í huga hvort verkefni þeirra séu vel unnin eða ekki.

Hvar er ég núna?

3. Kennarinn gefi lýsandi endurgjöf reglulega, þ.e. hjálpi nemandanum að svara spurningunum: Hvernig stend ég mig? Hvað þarf ég að gera betur? Hvað gerði ég rangt og hvernig get ég bætt mig? Lögð er áhersla á að kennarinn veiti reglulega endurgjöf sem sýni á skýran hátt styrk, veikleika og framfarir hvers nemanda og er þá miðað við markmið ákveðins verkefnis. Kennari skilgreinir hvað hefur tekist vel og hvað þarf að vinna betur. Mikilvægt er að hafa endurgjöfina ekki of ítarlega, heldur leggja áherslu á það sem skiptir meginmáli. Að gefa nemendum lýsandi endurgjöf er mikilvægur þáttur í að stuðla að betri námsárangri. Endurgjöfin á að hjálpa nemanda að svara spurningunni: Hvar er ég núna frekar en hvar á ég að vera?

4. Kennarinn kenni nemendum að meta eigið nám og að setja sér markmið. Sjálfsmat getur verið öflugt leiðsagnarmat. Til að nemendur geti metið sig sjálfir er mikilvægt að þeir viti hvaða kröfur eru gerðar til þeirra í námi og hvaða markmið eru með hverju verkefni. Þar sem margir nemendur eru ekki vanir að meta eigið nám er líklegt að þeir telji að það sé kennarinn sem hafi vald til að ákveða hvað og hvernig eigi að meta. Þar af leiðandi er hætta á að þeir reyni að meta námið út frá því sem þeir telja vera væntingar kennarans. Kennarinn þarf því að þjálfa nemendur í að meta og útskýra fyrir þeim tilgang sjálfsmats í námsferlinu. Þá þarf að hvetja nemendur til að taka þátt í að setja þau viðmið sem matið á að byggjast á og hjálpar þeim að öðlast meiri skilning á því hvað þeir hafa lært eða gert í skólanum. Nemendur geta m.a. notað námsmats- eða prófáætlun til að meta eigin styrkleika og til að gera sér grein fyrir hvað þeir hafa lært eða þurfa að læra betur. Einnig geta þeir geymt námsmarkmiðalista og athugað reglulega hvaða markmiðum þeir hafa náð.

Hvernig næ ég markmiðunum?

5. Kennarinn beini kennslunni að einum þætti í einu, þ.e.a.s. leggi áherslu á einn þátt sem er hluti af ákveðinni heild. Til að nemendur geti t.d. skrifað skýrslu um tilraun í eðlisfræði þurfa þeir að geta sett fram tilgátu (fyrsti hluti), safnað gögnum og greint niðurstöður tilraunarinnar (annar hluti) og loks túlkað og sett niðurstöður fram á skýran hátt (þriðji hluti). Þess er gætt að veita endurgjöf fyrir hvern hluta, einkum þegar um er að ræða nemendur sem eiga í námserfiðleikum. Nemendur þurfa að vita að allir þessir þættir eru hluti af heild og tilgangurinn er að nemendur taki framförum áður en kemur að lokaafrakstrinum.

6. Kennarinn kenni nemendum að rifja skipulega upp og ígrunda gæði verkefna. Kennarinn útskýrir fyrir nemendum hvernig hann ætlar sér að fara yfir tiltekið verkefni (eftir hverju hann er að leita), fær þá síðan til að skoða svipaða þætti í öðru verkefni og setja fram tillögur að breytingum á því. Meginatriði er að nemendur skilji hvað liggur að baki matinu. Tilgangurinn er að hjálpa nemendum að sjá að hvaða atriðum þeir þurfa að einbeita sér að til rifja upp. Kennari getur einnig valið verkefni sem þarfnast endurskoðunar og beðið nemendahópinn að koma með tillögur um hvernig hægt væri að bæta verkefnið (þankahríð / hugflæði) og skrá síðan hugmyndir þeirra jafnóðum á töflu. Hægt væri að skipta nemendahópnum í minni hópa sem fengju það verkefni að skoða verkefnið nánar og endurskoða það með eigin tillögur í huga. Hver hópur gæti t.d. skrifað bréf til höfundar verksins. Í bréfinu kæmi fram hvað sé gott og hvernig eða hvað mætti bæta. Þannig gefst nemendum tækifæri til að ræða efnið við bekkjarfélaga og móta hugmyndir sínar.

7. Kennarinn hvetji nemendur til ígrundunar, til að hafa skipulag á því sem þeir læra og deila því með öðrum. Kennarinn fær nemendur til að skoða leiðina að markmiðinu, m.a. til að sjá hvar þeir voru staddir og hversu langt þeir hafa náð. Í þessu felst einnig að fá nemendur til að fylgjast með námi sínu, skoða eigin framfarir og deila árangri sínum með öðrum. Mat í þágu náms krefst þátttöku nemenda og að þjálfa þá í að meta og fá þá til að ígrunda hvernig þeir læra. Nemendur geta t.d. skrifað bréf til foreldra um ákveðið verkefni eða námsgrein og útskýrt hvað þeir hafa gert vel og hvað þeir ætli sér að gera næst eða aðstoðað við að undirbúa og stýra nemendasamtali (kennara – foreldra – nemenda) þar sem þeir gera grein fyrir eigin frammistöðu og framförum.

Námsmat er mikilvægur þáttur í skólastarfi. Kennarar eru stöðugt að skoða og fylgjast með nemendum. Þeir verja einnig miklum tíma í að leggja mat á nám og vinnu nemenda. Þess vegna gætu sumir talið að það taki of mikinn tíma að læra og breyta áherslum í námsmati. Stiggins, Arter og Chappuis telja að ef horft er til lengri tíma þá taki þessar breyttu áherslur í námsmati ekki endilega meiri tíma en hefðbundnar leiðir.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér nánar hugmyndir Stiggins, Arter og Chappuis má benda á heimasíðu ETS/ATI (http://www.ets.org/ati) en þar er finna margvísleg námsgögn. Áhugasömum lesendum má benda á að nokkrar af bókum þeirra og tímarit með greinum þeirra eru til á bókasafni Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) og Háskólans á Akureyri (HA) og sjálfsagt í fleiri söfnum hér á landi.

Heimildir

Arter, Judith A. og Chappuis, Jan (2006). Creating and recognizing quality rubrics. Portland: Assessment Training Institute.

Black, Paul og Wiliam, Dylan (1998). Inside the black box. Raising standard through
classroom assessment. Phi Delta Kappan 80(2),139–147.

Black, Paul, Wiliam, Dylan, Harrison, Christine, Lee, Clare og Marshall, Bethan (2004).
Assessment for learning. Putting it into practice. Berkshire: Open University Press.

Chappuis, Jan og Chappuis, Steven (2002). Understanding school assessment – A parent
and community guide to helping students learn.
Portland: Assessment Training Institute.

Chappuis, Jan. 2005. Helping students understand assessment. Educational Leadership

63(3), 38–43. Sótt 3. júní 2007 á slóðina: http://www.ascd.org/authors/ed_lead/el200511_chappuis.html 

Educational Testing Service (ETS/ATI). Sótt 28. apríl 2007 á slóðina: http://www.ets.org/ati

Sadler, D. R. (1989). Formative assessment and the design of instructional systems.
Instructional Science 18, 119–144.

Stiggins, Richard. J. (2005). New mission, new beliefs: Assessment for learning. Portland:
Assessment Training Institute. (DVD).

Stiggins, Richard. J. (2005). Student-involved assessment for learning. 4. útg. Upper
Saddle River: Merrill Prentice-Hall.

Stiggins, Richard J., Arter, Judith A., Chappuis, Jan og Chappuis, Steven (2006). Classroom assessment for student learning: Doing it right – Using it well. Princeton: Educational Testing Service.

Prentútgáfa     Viðbrögð