Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 12. nóvember 2007

Greinar 2007

Sigríður Pálmadóttir

Tónlist í munnlegri geymd

Rannsókn á stemmum og þululögum
frá Ytra-Fjalli í Aðaldal

Greinin lýsir rannsókn höfundar á stemmum og þululögum frá Ytra-Fjalli í Aðaldal í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða einkenni tónmáls sem varðveitt er í munnlegri geymd hjá sama einstaklingi á 30 ára tímabili. Greind eru skýr grundvallaratriði í tónmáli, formúlur til grundvallar tóngerðinni og stöðugleiki í tónmáli en jafnframt dregur rannsóknin fram breytileika sem undirstrikar eðli tónlistar í munnlegri geymd. Greininni fylgja nótur og fjöldi tóndæma. Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.
 

Ása Ketilsdóttir

 

Þegar breiðast bros um kinn,
björtu augun skína,
horfi ég í himininn,
hugsa um auðlegð mína.

Ása Ketilsdóttir fer með stemmu við eigin stöku.
Upptakan er frá árinu 1980 og var gerð í Reykjavík
af Helgu Jóhannsdóttur.

Ágrip

Greint er frá rannsóknum á stemmum og þululögum í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða einkenni tónmáls sem varðveitt er í munnlegri geymd hjá sama einstaklingi á 30 ára tímabili.

Þegar tónmálið var greint komu í ljós skýr grundvallaratriði. Laglínurnar eru með lítið hreyfisvið og hrynmyndir eru líkar hrynjandi talaðs máls. Þröng tónbil og endurteknir tónar eru algengir en sjaldgæft er að stór stökk komi fyrir í laglínu. Meiri hluti laganna er í dúr-tóntegund. Eingöngu í undantekningartilfellum er höfð föst stemma við stökurnar og þululögin eru aðlöguð síbreytilegu ljóðformi þulunnar.

Sýnt er fram á að ákveðnar formúlur liggi til grundvallar tóngerðinni. Þær eiga rætur sínar í nánu samspili ljóðforms og tónefnis. Hvað varðar stemmurnar er það hrynjandi stökunnar í mæltu máli með ákveðnum tilbrigðum sem mótar laghryninn. Þululögin aftur á móti byggja á tónstefjum sem flytjandi hefur á hraðbergi; þau eru uppistaða sem gripið er til og spunnið út frá eftir þörfum.

Í heild má greina stöðugleika sem lýsir sér í sama eða svipuðu tónmáli frá elstu upptökunni (1969) til þeirrar yngstu (1999). Jafnframt er breytileiki ríkjandi sem undirstrikar eðli tónlistar í munnlegri geymd. Þar má nefna tilbrigði í hrynmynd, tenginótur og flúr í laglínu. Tónefnið byggir á ákveðnum grunni sem jafnframt er litaður af sköpun einstaklingsins og túlkun í flutningi hverju sinni.
 

The paper discusses the results of a study of rhymes and chants sung by the folksinger Ása Ketilsdóttir. The aim of the study was to examine melodies preserved through oral tradition, i.e. by memory of the person concerned, over a period of 30 years.

Analysis of the tunes revealed some basic characteristics. The melodies have restricted tonal range and rhythmic motives much like the rhythm of spoken language. Small intervals and repeated tones are common and big leaps seldom occur. The tonality of the melodies is mainly major key mode. The ditties are only rarely bound in fixed tunes and the chant melodies are adjusted to the variable poetic form.

The study shows that certain formulas are fundamental for the musical context. They are based on the holistic connections between poetry and music. The rhythmic form of the spoken ditties makes with certain variations the formula for the melodic rhythm. The chant melodies build on melodic motives which the performer uses as a base which is variated if need be.

In general, the melodies remained stable over time and the same or similar tunes persisted from the first recording (1969) to the last one (1999). Some variation occurs, such as deviation in rhythmic motives, passing notes and ornamentation, which conveys the essence of music preserved through oral tradition. The musical material is structurally uniform, but at the same time influenced by the creativity of the performer.

Efnisyfirlit

Inngangur

Árið 2002 birtust í Netlu niðurstöður rannsóknar sem höfundur gerði á stemmum og þululögum í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu. Efnið var fengið úr þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er þar flokkað sem barnagælur og þulur. Hljóðritun gerði Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur árið 1999.

Efni það sem hér er kynnt er framhald fyrrgreindrar rannsóknar og er sem fyrr hugað að stemmum og þululögum sem kveðin voru við börn. Kastljósinu er nú beint að eldri upptökum sem til eru á Árnastofnun með söng Ásu en þær voru gerðar af hjónunum Helgu Jóhannsdóttur tónlistarfræðingi og Jóni Samsonarsyni cand. mag. á árunum 1969, 1970 og 1980. Gerður er samanburður á þessum upptökum og fyrrnefndri upptöku frá árinu 1999. Kjarni rannsóknarinnar er að skoða munnlega geymd tónlistar. Notar Ása sömu stemmur og þululög í upptökunum sem spanna 30 ára tímabil? Til að styrkja rannsóknina er tónmál Ásu borið saman við upptökur sem til eru í safninu af söng föður hennar, Ketils Indriðasonar og föðursystur, Sólveigar Indriðadóttur.

Til þess að fá sem skýrasta mynd af tónmálinu var í rannsókninni einnig lögð áhersla á að skoða það félags- og menningarlega umhverfi sem framangreind tónlist á rætur í. Á meðal heimilda um það er viðtal sem höfundur tók við Ásu Ketilsdóttur sumarið 2004 og eru myndskeiðin sem fylgja greininni tekin úr því viðtali.

Efnisyfirlit

Munnleg geymd

Það er eðli tónlistar, sem varðveitt er munnlega, að taka breytingum. Ekki er sjálfgefið að endurtekinn flutningur sömu tónlistar sé eins, tón fyrir tón. Um er að ræða endursköpun sem getur falið í sér greinanlegan mun af ýmsum toga. Tónmálið er ljóst í huga flytjanda en hin nákvæma vitneskja sem fæst við að vinna endurtekið með skráða nótnamynd eða með því að hlusta á sömu upptökuna er ekki fyrir hendi.

Tónlist sem lifir áratugum saman munnlega með einstaklingi eða berst frá einni kynslóð til annarrar án skráningar getur tekið umtalsverðum breytingum. Ljóst er að auðveldara er að festa í minni og halda óbreyttum stuttum laglínum og því má ætla að ýmis þjóðlög sem eru einföld að laggerð breytist minna en viðameiri tónlist.

Í tengslum við munnlega geymd tónlistar skiptir tónminni einstaklingsins miklu máli. Tónminni er hæfileikinn til að greina röð af tónum sem eina heild. Viðkomandi hlustar á tónlist og hún greypist í minni hans sem ákveðið form. Hann á auðvelt með að framkalla sömu tónmynd aftur jafnvel þó langur tími líði á milli.

Bandaríski fræðimaðurinn Edwin E. Gordon rannsakaði og kom fram með kenningar um tónminni sem hann ber saman við minni tungumálsins. Gordon telur að á sama hátt og einstaklingurinn þurfi að vera fær um að hugsa á tungumálinu til þess að geta hlustað á, skilið, talað, lesið og skrifað málið þurfi hann að hugsa í tónlistinni til þess að geta hlustað á, flutt tónlist, skilið hana, lesið og skráð. Yfir þann eiginleika notar Gordon hugtakið audiation (latína audire: að heyra). Hann áréttar að fyrirbærið sé ekki það sama og tónskynjun sem gerist um leið og við tökum á móti hljóðinu. Audiation er vitrænt ferli þar sem heilinn gefur tónlistarlegum hljóðáreitum merkingu. Þegar hlustað er á tónlist er ætíð verið að skipuleggja og lesa í hljóðin. Oft er hægt að geta sér til um hvað framundan er vegna fyrri reynslu af ámóta efni. Að hugsa í tónlistinni tengist bæði ytra læsi tónefnis, t.d. nótnamynd, og innra læsi sem byggir á minninu. Tónlist er lesin af blaði, skráð niður eftir heyrn, kölluð fram í hugann og flutt eftir minni og tónsköpun getur átt sér stað í huganum eða í beinum flutningi raddar eða hljóðfæris svo dæmi séu nefnd (Gordon 1997: 3–24).

Guðmundur Finnbogason prófessor (1873–1944) skrifar um tónhugsun í ritinu Hugur og heimur (1912). Hann telur að til þess að hægt sé að skilja sönglag verði að hugsa í tónum og slíkar hugsanir geti nægt til þess að skilja lag til fulls. Guðmundur útskýrir tónhugsunina á eftirfarandi hátt:

Þegar ég hlusta á lag sem ég hef aldrei heyrt áður þá heyri ég ekki aðeins hvernig einn tónninn tekur við af öðrum um leið og hann kemur og hvernig hann fellur við það sem á undan fór og myndar einkennilegt áframhald þess, heldur vakna ósjálfrátt hjá mér ljósar eða óljósar eftirvæntingar um það, hvað á eftir muni koma; hugurinn fylgir ekki aðeins tónunum fet fyrir fet, heldur er jafnframt á öðru leiti á undan þeim. Þessi hugboð rætast stundum og stundum ekki. Stundum kemur það fyrir, að það sem kom var allt annað en mann óraði fyrir, og langt um betra, eitthvað sem manni fannst því aðdáanlegra sem það var ófyrirsjáanlegra, og það er einkenni alls sem bezt er og göfugast, að það kemur yfir mann eins og guðleg náðargjöf og yfirgengur alt sem maður kunni að óska og vænta og biðja um.
                                                                        (Guðmundur Finnbogason 1912:292–293).

Guðmundur segir réttan skilning á sönglagi vera að heyra það eins og það hljómaði í sál tónskáldsins. Hver hluti þess komi heim og saman við það sem á undan er gengið og undirbúi það sem á eftir fari.

Lagið er eins og ferð að heiman og heim aftur. (Guðmundur Finnbogason, 1912:293)

John Sloboda er prófessor í sálfræði við Keele-háskólann í Bretlandi. Í umfjöllun um tónhugsun talar hann um að ráða í tónlist (make sense of music). Sloboda telur að hjá flestum þroskist þessi hæfileiki á fyrsta áratug ævinnar fyrir áhrif umhverfis (enculturation). Hvort hæfnin nái að þróast áfram tengir Sloboda þjálfun í að vinna með tónefni og æfingu í að flytja tónlist. Hér eigi sér stað vitsmunalegt ferli sem reyni á tækni og túlkun. Sloboda segir músíkalskan einstakling hafa hæfni til að:

 • muna betur tónlist sem er einkennandi fyrir ríkjandi menningarhefð
  heldur en þá tónlist sem er sprottin úr öðru menningarumhverfi.

 • nema tónlistina sem heild (ekki nótu fyrir nótu) og geta þess vegna
  endursagt frá eigin brjósti músíkalska upplifun sína.

 • geta dæmt hvort ákveðin einkenni tónlistar fari eftir reglum tónmenningar þeirrar
  sem umlykur hann.

 • greina tilfinningalegt gildi tónlistar.
                                                                                                 (Sloboda, 1985)

Hér má finna tengingu við Blacking (1928–1990) sem segir tónlistargreind vera vitsmuna- og tilfinningalegt verkfæri heilans sem menn nota til að gefa umheiminum tónlistarlega merkingu. John Blacking var breskur mannfræðingur og tónvísindamaður sem helgaði líf sitt rannsóknum á hlutverki tónlistar í samfélagi og menningu. Hann taldi að til þess að geta skilgreint músíkalskan einstakling þyrfti að rannsaka tónlistina í félagslegu, líffræðilegu og sögulegu samhengi. Rannsóknir þær sem Blacking hóf árið 1956 meðal Venda-fólksins í Transvaal í Suður-Afríku urðu grunnur að kenningum hans um að tónlistarvirkni sé fólki í blóð borin, um sé að ræða meðfætt upplag sem skoða megi út frá sama sjónarhorni og málþroska. Tónlist er sköpun mannsins sem vex út frá líkamlegri og andlegri virkni. Hjá Venda-þjóðflokknum er tónlist eðlislægur þáttur til að eiga samskipti við annað fólk, hún er hluti af vitund einstaklingsins og samfélagsins í heild. Venda-fólkið telur alla vera músíkalska og sérhver einstaklingur í samfélaginu er flytjandi tónlistar. Ástæða þess að sumir hafi meiri tónlistarfærni en aðrir sé eingöngu sú að þeir hafi lagt harðar að sér til að öðlast aukna færni og þekkingu (Blacking, 1973).

Stór hluti þeirra sem eru læsir og skrifandi, hvað tungumál varðar, notast við munnlega varðveislu tónlistar, þ.e. eru ekki læsir á nótur. Einnig geta þeir sem lesa og skrifa nótur haft ákveðin svið sem þeir nálgast eingöngu munnlega eins og t.d. djass-, þjóðlaga- og dægurtónlist. Þannig eru ekki alltaf skýrar línur á milli munnlegrar geymdar og þess sem er skráð í nótum. Þá er annar þáttur við varðveislu tónlistar sem hefur eflst mjög, það er hvers kyns hljóðritun. Áður var slík tækni aðeins aðgengileg fáum en í dag er lítill vandi fyrir áhugasama að taka upp og varðveita hvers kyns tónlist. Eftir sem áður er hefðbundið tónlæsi forsenda þess að geta miðlað áfram í skriflegu formi tónlist sem varðveitt hefur verið munnlega. Sloboda telur nótnaskráningu hafa eftirfarandi áhrif:

 • Tónlist sem skráð er í nótur leyfir tón- og hrynrétta endurtekningu á langri, flókinni heild.

 • Nótnaskráning stuðlar að flutningi og útbreiðslu tónmáls sem er flóknara og viðameira en svo að einstaklingar geti varðveitt það munnlega.

 • Nótnaskráning aðgreinir tónefni frá tjáningu og auðveldar að skoða sjálfstætt hvorn þátt um sig.

 • Með nótnaskráningu eru valdir til varðveislu ákveðnir þættir hljóðsins. Þar með fæst hlutstæð mynd af ríkjandi formum en skráningin hefur á vissan hátt tilhneigingu til að takmarka framþróun tónlistarinnar.
                                                                                                   (Sloboda 1985:242)

Margir meta nótnaskráningu og nótnalestur það mikils að þeir telja raunveruleika tónlistarinnar vera fólginn í skráningunni. Það sem unnt er að skrifa niður og geyma sé rétt og endanlegt, túlkun og minni hvíli á hinu skrifaða. Í munnlegri menningu er þekking og minni stundarinnar aftur á móti eina leiðarljósið. Þarna er um tvo mismunandi heima að ræða (Sloboda 1985:243).

Efnisyfirlit

Rannsóknarþættir

Þegar bera skal saman tónefni sem varðveitt hefur verið í munnlegri geymd getur rannsakandinn gert samanburðinn með mismunandi áherslur á huga. Hér má nefna þrjá ólíka uppistöðuþræði sem fléttast saman á mismunandi vegu.

Í fyrsta lagi er að skoða tónefnið út frá innri tengslum og dýnamísku samspili frum- og túlkunarþátta í tónlistinni. Skilningur á músíkölsku samhengi fæst með því að skoða inngerð tónlistarinnar. Það er gert með því að greina laglínu og hrynmynd, tónsvið og takttegundir, samhljóm og hljómagang, skipan hendinga og heildarform. Út frá þessari vitneskju er tónlistin skráð niður og flokkuð. Inn í þennan þátt kemur túlkun einstaklingsins þar sem endurtekinn flutningur sama tónefnis hefur oft mun meiri breytur, en þegar túlkað er út frá skriflegri nótnamynd (Merriam 1978:14).

Annar þráðurinn snýst um að skoða tónlistina sem hvata eða áreiti sem hefur áhrif á taugakerfið og tengsl hugsunar og tilfinninga í tónlistinni. Trainor og Schmidt settu fram athyglisverða tilgátu varðandi spurninguna hvers vegna tónlist virkar svo sterkt á taugakerfið þar sem hún hefur ekkert augljóst hlutverk í lífsbaráttu mannsins. Vísindamennirnir veltu fyrir sér hvort svarið væri að finna í þróun hugsunar áður en máltaka hefst. Tjáskipti á fyrstu mánuðum í lífi kornabarns og þess sem annast barnið eru tónlistarlegs eðlis. Barnamálið (motherese) er byggt upp af hljóðlíkingum sem samanstanda af frum- og túlkunarþáttum tónlistar svo sem tónhæð, tónblæ, tónstyrk, hryn og laglínuhendingum. Notkun þessara þátta virðist meðfædd, eðlislæg virkni sem er mikilvæg fyrir einstaklinginn. Ómálga kornabarnið er hjálparlaust og háð öðrum í upphafi lífs síns. Tilfinningabönd og jákvæð, verndandi samskipti eru nauðsynleg til að lifa af. Þessi samskipti eru römmuð inn af tónlistarlegri tjáningu milli barns og þess sem annast það. Á mismunandi tímabilum sögunnar og ólíkum menningarsvæðum hafa börn verið hugguð og haft hefur verið ofan af fyrir þeim á þennan hátt. Tónlistin er styrkjandi þáttur í samskiptunum og hefur áhrif á hugarástand barnsins. Þessi tjáning víkur smám saman fyrir öðru samskiptaformi svo sem tungumálinu.

En ef til vill heldur tónlistin samt sem áður þessu hlutverki í sambandi við að lifa af. Hlutverki sem leyfir að iðka tilfinningar án þess að eiga á hættu ákveðnar afleiðingar sem tengjast þessum tilfinningum. Þannig höfum við frelsi til að hlæja og gráta með tónlistinni, skynja hjartað slá hraðar og halda niðri í okkur andanum og jafnvel finna okkur aftur sem kornabarnið sem með svo miklu næmi er innstillt á tilfinningar í rödd móður sinnar.
                                                                                (Trainor og Schmidt 2004:318–321)

Loks er þriðji þráðurinn sem lýtur að tónlistinni sem mannlegu atferli sem er mótað af og mótar ákveðna menningu. Tónlist hefur sterka stöðu sem félagslegur þáttur í mannlegum samskiptum. Söngur er t.d. samskiptaform sem sameinar ólíkt fólk á ýmsum vettvangi. Félagslegt hlutverk tónlistar hefur einnig frá fyrstu tíð verið viðamikið í sambandi við ýmiss konar formlegar athafnir samfélagsins ekki hvað síst trúar- og hernaðarlegar athafnir.

Með aukinni tækni í framleiðslu og dreifingu er tónlist að hluta til orðin alþjóðleg og lýtur efnahags- og markaðsmálum. Í æ ríkara mæli er tónlist gerð að tískuvöru sem byggir á framboði og eftirspurn. Innan þessa geira er skemmtanaiðnaðurinn þar sem ákveðin konsept ráða ríkjum og tónlistin er í félagsskap margmiðlunar og flókinnar upptökutækni.

Áhrifamáttur tónlistar er mikill í sambandi við auglýsingar sem tengja hana mynd og/eða texta. Tónlist er óumdeilanlega stór þáttur í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði þar sem henni er m.a. ætlað það hlutverk að undirstrika ákveðna atburðarás og hugarástand og hafa þannig áhrif á tilfinningar áhorfenda.

Fjöldi fólks býr daglega við bakgrunnstónlist af ýmsu tagi. Í verslunum, lyftum, veitingahúsum og á vinnustöðum er spiluð tónlist sem sérstaklega hefur verið meðhöndluð [1] svo að sá sem heyrir tónlistina hlusti ekki (heard but not listened to) heldur sé með tónlistinni skapað andrúmsloft sem þjónar ákveðnum tilgangi, t.d. þeim að viðskiptavinurinn dvelji lengur í versluninni (Radocy og Boyle 1997:34–55).

Af þeim dæmum sem hér hafa verið talin upp má sjá að mismunandi tónlist þjónar ólíkum tilgangi og það eru margir þættir sem hafa áhrif á tónlistarlegt atferli einstaklingsins. Tónlist getur örvað eða róað. Umfram allt er hún samskiptaform sem maðurinn getur notið í einrúmi eða í samfélagi við aðra.

Í þessari rannsókn var unnið út frá fyrsta þræðinum, þ.e. greiningu á tónefninu. Þá var lögð áhersla á að bera saman efni og flutning skyldra einstaklinga. Samfara þessu var þriðji þráðurinn íhugaður, þ.e. sú menning sem tónlistin lifði og dafnaði í. Söngurinn var skoðaður í ljósi ákveðins umhverfis þar sem hann birtist sem skapandi tjáningar- og samskiptaleið í dagsins önn.

Efnisyfirlit

Íslensk þjóðlög

Ekki er hægt að fjalla um íslensk þjóðlög án þess að geta merks starfs Bjarna Þorsteinssonar sem á seinni hluta 19. aldar vann að því að bjarga íslenskum tónlistararfi frá glötun. Hið mikla rit hans Íslenzk þjóðlög var prentað í Kaupmannahöfn á árunum 1906–1909. Verkið er afrakstur 25 ára vinnu en í ritinu er fjöldinn allur af lögum úr munnlegri geymd, handritum og bókum auk þess að geyma íslenska söngsögu. Í inngangi að þjóðlagasafni sínu fjallar Bjarni um tilurð íslenskra þjóðlaga. Hann segir að annars vegar séu það lög sem hafi orðið til hjá þjóðinni og hins vegar erlend lög sem mótast hafi í meðförum manna og fengið íslenskt yfirbragð:

Sum þjóðlög ferðast úr einu landi í annað, eins og þegar þjóðflokkar flytja sig; er það þá stundum að lagið gleymist í hinu upprunalega heimkynni þess, en festir rætur í hinu nýja landi, og verður þar reglulegt þjóðlag. Á margan hátt getur þetta breyzt, og er ákaflega mikil fyrirhöfn að rekja slík ferðalög laganna og rannsaka allar þær breytingar, sem þau taka, eptir því, sem tímarnir líða.
                                                                                     (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:1)

Ljóst er að hlutverk tónefnis þess sem hér er til umfjöllunar er að þjóna orðinu. Melódíurnar gera frásögnina blæbrigðaríkari og laghrynurinn gefur inntakinu festu. Þannig má ætla að tilurð margra íslenskra þjóðlaga sé. En hvað einkennir tónmálið tónfræðilega séð? Í grein sem birtist í Skírni (1922) og ber heitið Íslenzkt tónlistareðli fjallar Jón Leifs (1899–1968) um einkenni íslenskra þjóðlaga og tekur fram að hann styðjist aðallega við þjóðlagasafn Bjarna. Í formála segir Jón:

Þjóðlög nefnast söng- og leiklög þau sem þjóð hefir skapað, mótað og geymt æfum og öldum saman. Í þeim býr oftast skapandi hugvit, sem veitir þeim langlífi eða eilíft líf. Ekki geta þó þjóðlög talist list, heldur efni í list, og oft eru ekki þjóðlögin sjálf listarefni, heldur eðli þeirra. Ekki geta þau lög talist þjóðlög sem alþýða iðkar eitt eða fleiri ár, en hverfa síðan. Sjérstaklega varist menn að telja þjóðlög þann lagaleirburð, sem hvert ár í nýrri mynd geysar meðal alþjóðaskrílsins. Dásamlegt er, að hið ljélega verður sjaldan langlíft.
                                                                                                (Jón Leifs 1922:130)

Jón telur að rannsóknir á íslenskum þjóðlögum hafi aðallega beinst að því hvort einstök lög væru íslensk eða aðflutt (sbr. skrif Bjarna hér að framan) og álítur að þar hafi oft verið rætt um sviplausustu lögin. Að hans mati er mikilvægast að rannsaka hvort til sé skapandi íslenskt tónlistareðli. Greina þurfi íslensk þjóðlög sem heild og skýra einkenni þeirra. Jón nefnir tíu þætti sem hann telur almenn einkenni allra íslenskra þjóðlaga. og styður kenningu sína með dæmum úr þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar.

I. Lítið hreyfisvið

Tónsviðið er þröngt, oft aðeins þríund og fer sjaldan yfir eina áttund.

Sjá í Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909: 875.

II. Endurteknar nótur

Endurteknar nótur (tónar) eru mjög algengir og oft með þungum áherslum.

Sjá í Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909: 234.

III. Stökk

Stokkið er af einum tóni á annan án tengitóna. Sbr. tóndæmið í lið 2.

IV, Nótum sleppt

Við framangreind stökk er hlaupið yfir nótur (tóna) eins og þær séu ekki til.

V. Stækkuð tónskref

Stækkuð tónbil eru algeng, sérstaklega í tvísöngslögum.

Sjá í Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909: 213.

VI. Fallandin

Hljóðfall (hrynur) laganna er stirðlegt og punkteraðar nótur koma sjaldan fyrir. Taktskipti eru algeng, einkum í rímnalögum.

VII. Viðbætir

Endir laganna er oft nokkurs konar viðbætir (coda) án samhengis við það sem á undan er gengið. Stundum lýsir þetta gáska, stundum þungri alvöru. [2]

VIII. Seinkanir

Við niðurlag er oft hægt á söngnum og lokatóni haldið mjög lengi. Algengt er að þegar einn söng hafi aðrir tekið undir seinustu nóturnar (tónana) eða nótuna og haldið henni lengi.

IX. Rykkir

Oft enda lögin með frjálsum rykkjum sem einnig geta komið fyrir í miðju lagi og í önnur hendingalok.

Sjá í Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909: 911, 851.

X. Tónalt eðli

Heimfæra má flest lögin til kirkjutóntegunda, annarra þekktra tóntegunda eða tilbrigða þeirra. Frávik frá þessu eru þó nokkur þar sem „hið tónala eðli laganna er svo frjálst, að það virðist takmarkalaust“.
                                                                                (Jón Leifs 1922:131–136).

Framangreindu einkennin tíu telur Jón ganga sem rauðan þráð gegnum „heildarsafn íslenskra þjóðlaga frá öllum tímum“ og sé sönnun þess að um sérstakt íslenskt tónlistareðli sé að ræða.

Hallgrímur Helgason fjallar í tímaritinu Tónlistin (1945) um íslensk þjóðlög og ber saman við þá sönglist sem barst að utan á seinni hluta 19. aldar og hafði mikil áhrif á íslenska söngmenningu upp frá því. Leggur hann áherslu á að erlendu lögin og íslensk lög samin í svipuðum stíl, séu hljómbundin (harmónísk), íslensku þjóðlögin séu aftur á móti lagbundin (melódísk), þ.e. ekki byggð á hljómrænum grunni. Hann skilgreinir þetta nánar með því að benda á að fyrrnefndu lögin styðjist við „reglubundna samhljóma, ákveðna aðalhljóma í dúr- og moll-tóntegundum“, íslensku þjóðlögin aftur á móti eru „frekar sjálfum sér nóg og hvíla í eigin frumformi alveg eins og tónlist fornaldarinnar og fyrri miðalda, þá er margraddaður söngur var óþekkt fyrirbæri“ (Hallgrímur Helgason 1945:74). Þá tjáir Hallgrímur sig um gildi íslensku þjóðlaganna:

Nú kynni einhver að segja, að þessi „fornaldarstefna“ væri kyrrsett í rykföllnum söngstefjum og óhæf til að samlagast nútíðinni, enda væru þessir „gömlu“ tónar máðir úr vitund vorri. Forni tíminn óbreyttur á að vísu ekki erindi til vor, en lífskraftur hans getur verið í mörgu til fyrirmyndar og orkað til nýsköpunar. Forni tíminn á að verka frjóvgandi á brautir þær, sem feður vorir og forfeður tróðu, og skapa þannig nýja framtíðarleið ... Þjóð, sem býr í þessu umhverfi og á sér mikla og merka bókmenningu, getur ekki til lengdar – ef hún vill halda heiðri sínum og sjálfstæði – fundið fullnaðarsvölun í því að syngja „Kolbrún“ og „Eg veit ekki af hvers konar völdum“. Hún verður að hætta að fá allt að láni frá öðrum þjóðum. Hún verður að syngja sinn eigin söng með nýrri og hreinni laglínu og hljóðfalli.
                                                                                     (Hallgrímur Helgason 1945:74)

Hér vísar Hallgrímur til vinsælda erlendra sönglaga sem mörg hver höfðuðu sterkar til almennings hér á landi en gömlu íslensku þjóðlögin. Fyrra lagið sem hann nefnir er erlent lag við ljóð úr kvæðaflokknum Kolbrún eftir Bertel Þorleifsson, þýtt úr dönsku af Hannesi Hafstein (Ljóð og lög 1947:40-41; Hannes Hafstein 1925:118). Það síðara, lag eftir þýska tónskáldið Friedrich Silcher við ljóðið Lorelei eftir Heinrich Heine, í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar (Íslenskt Söngvasafn 1915:13; Steingrímur Thorsteinsson 1924:116–117).

Jón Leifs og Hallgrímur Helgason áttu báðir eftir að skrá og útsetja íslensk þjóðlög og sem tónskáld nota efnivið þeirra í tónsmíðum. Fleiri íslensk tónskáld hafa verið mikilvirk á þessum vettvangi og skal hér getið tveggja sem mótað hafa íslenskt tónlistarlíf hvað þetta varðar. Jórunn Viðar (f. 1918) hefur útsett íslenskar stemmur og samið lög við gamla húsganga auk þess að nota íslensk þjóðlög sem stef í öðrum tónverkum sínum. Jón Ágeirsson (f. 1928) hefur frá upphafi verið ötull talsmaður íslenskra þjóðlaga og eftir hann liggja fjölmargar raddsetningar á þeim, t.d. fyrir kóra. Áhrifa þjóðlaganna gætir víða í verkum hans, í sönglögum jafnt sem stærri tónsmíðum.

Á seinni hluta 20. aldar var nokkuð um einstaklinga sem hljóðrituðu þjóðlög, aðallega var um flutning eldra fólks að ræða. Þar má nefna Hallfreð Örn Eiríksson, Svend Nielsen, Helgu Jóhannsdóttur, Jón Samsonarson og Njál Sigurðsson. Stofnun Árna Magnússonar varðveitir þessar hljóðritanir sem nú eru orðnar aðgengilegri eftir að efnið var tölvuskráð. Sú vinna hefur að verulegu leyti hvílt á herðum Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðings sem einnig hefur staðið að því að kynna efnið almenningi. Þannig er tilkominn geisladiskurinn Raddir með úrval af hljóðritunum af þjóðlögum frá árunum 1903–1973. Rósa sá um útgáfuna og valdi efnið ásamt Andra Snæ Magnasyni rithöfundi. Diskurinn var gefinn út af Smekkleysu (Án ártals). Þá hafði Rósa einnig umsjón með útgáfu á völdu barnaefni úr safninu. Um er að ræða vísnabókina Einu sinni átti ég gott og fylgja henni tveir geisladiskar með hljóðritun vísnanna. Upptökurnar eru flestar frá 7. áratug 20. aldar. Útgefendur eru Smekkleysa og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (2006). Í þessu sambandi er vert að minnast á að á árunum 1960–1962 önnuðust Þuríður Pálsdóttir söngkona og Jórunn Viðar tónskáld Tónlistartíma barnanna í Ríkisútvarpinu. Þar fluttu þær fjölþætt söngefni fyrir börn í útsetningum Jórunnar fyrir söngrödd og píanó. Við val laganna var m.a. stuðst við Vísnabókina sem kom fyrst út árið 1946 og hefur verið endurútgefin mörgum sinnum síðan. Í bókinni má finna finna stökur, þulur og ljóð sem mikið hafa verið sungin fyrir og með börnum allt frá því að bókin kom út í fyrsta sinn og njóta enn vinsælda hjá yngstu kynslóðinni. Upptökur af flutningi Þuríðar og Jórunnar eru varðveittar í segulbandasafni útvarpsins og var efnið gefið út á tveimur geisladiskum af Smekkleysu árið 2001. Ber diskurinn heitið Fljúga hvítu fiðrildin og er það vel við hæfi því líklega er það sú staka sem oftast er sungin við íslensk börn í dag.

Bjarni Þorsteinsson leggur áherslu á ferðalag tónmálsins milli landa. Viðfangsefni þessarar greinar eru sönglög sem settust að í íslenskum torfbæ á fyrri hluta 20. aldar og fylgdu heimafólki æ síðan. Til þess að fá gleggri mynd af umhverfinu sem stemmurnar og þululögin eru sprottin úr verður hér vikið örfáum orðum að fjölskyldu Ásu í Aðaldalnum.

Efnisyfirlit

Kveðið og sungið á Ytra-Fjalli

Ása Ketilsdóttir fæddist á Ytra-Fjalli [3] í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1935. Foreldrar hennar voru Jóhanna Björnsdóttir húsfreyja og Ketill Indriðason, bóndi og skáld. Afi og amma Ásu í föðurætt, Indriði Þorkelsson, skáld og fræðimaður frá Syðra-Fjalli og Kristín Friðlaugsdóttir frá Hafralæk í Aðaldal, hófu búskap að Ytra-Fjalli árið 1896 en eftir daga þeirra tók Ketill við jörðinni og bjó til æviloka, árið 1971.

Fjögur af föðursystkinum Ásu: Úlfur, Sólveig, Indriði og Högni í túninu heima.
Gamli bærinn í baksýn (1921).

Á Ytra-Fjalli var torfbær sem fjölskyldan bjó í þar til hann var rifinn og flutt var í nýtt hús árið 1960. Í eftirmælum um gamla bæinn á Ytra-Fjalli bregður Ása upp æskuminningum sælu jafnt sem sorgar:

Nú ertu lagður lágt minn gamli vin,
er lengi hafðir boðið yl og skjól.
Kynslóð eftir kynslóð hlaut hér ból.
Kætin ríkti oft í þessum bæ,
sem er nú brotin rúst á bæjarhól.

Sú burnirót, er bjó í þínum vegg
er burtu flutt og slitin hennar rót.
Maríerla, sem með fiman fót
fann sér hreiður skemmukampi í,
aldrei framar á þar vinamót.

Þú hlaust að víkja, enginn aftur snýr
þá óraleið, er sagan greinir frá.
Það mannlíf er nú orðið minjaskrá
og moldu hulið allt það gamla stríð,
en stundum læðist að mér þögul þrá.

Ég man þá sælu um sumarbjartan dag,
er sentist ég um rökkvuð bæjargöng.
Hver stofa umdi af æskuglöðum söng
og ærslaleikjum – hvert sem litið var.
Sú gleði þurfti ei glæst né mikil föng.

Er hríðarbylur þökin barði og þil
var þreyttum gott að hvíla og sofa rótt.
Kertaljósin, kveikt á jólanótt,
þau kasta birtu á súð og reisifjöl,
sem skúruð var og skreytt af hjartans gnótt.

Þú vissir bæði um sælu og sorgartár,
því sorgin barði líka á þínar dyr
og æskugleðin aldrei varð sem fyrr,
er ástkært blóm var hrifið burt svo skjótt
að fölskva sló á bjartan heimahyr.

En gróðursetjið græna björk og ösp.
Greni og reynir finni í moldu skjól
og teygi sig mót himni og hlýrri sól,
því hér skal standa minnisvarði þinn –
lundur grænn, á gömlum bæjarhól.

                    (Ása Ketilsdóttir 1984:5–7)

 


Ása á ekki langt að sækja það að vera hagmælt. Tækifærisvísur eftir föður hennar, afa, langafa og langalangafa í föðurætt bera vitni um hversu létt þeir áttu með að yrkja.

 Áttu létt með yrkja

Gamlar hefðir og þjóðlegur kveðskapur í bundnu og óbundnu máli var í heiðri haft á æskuheimili Ásu. Á kvöldin las Ketill oft upphátt fyrir börnin og sagði frá ferðum sínum, kvað rímur og fór með þulur. Jóhanna, móðir Ásu, sagði börnum sínum sögur og ævintýri, fór með stökur og ljóð. Hún var einnig hagmælt og fékkst nokkuð við að yrkja, ekki síst á efri árum.

Þegar Ása var innt eftir því hvenær hún hafi lært fyrstu vísurnar svaraði hún því til að það hafi komið til mjög snemma. Það hafi verið svo ríkt í heimilisbragnum að kveða og syngja.

  Að kveða og syngja

Og margar urðu þær stökurnar sem hún og systkini hennar lærðu. Ása á í fórum sínum hefti þar sem hún skrifaði upphaf mörg hundruð vísna sem hún kunni strax á unga aldri.

  Hundruð vísna á ungum aldri

Systkinin kváðust mikið á og þá var betra að hafa nægan vísnaforða til að komast hjá því að vera kveðinn í kútinn. Þau höfðu þann hátt á að upphafsstafur í síðasta orði vísu varð byrjunarstafur í næstu vísu og alltaf var kveðist á undir lagi.

  Kváðust á undir lagi

Ung að árum yfirgaf Ása Aðaldalinn og flutti vestur á firði. Hún giftist Halldóri Þórðarsyni (f. 1920) frá Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp og eignuðust þau fjögur börn. Ása stundaði búskap að Laugalandi, fyrst með eiginmanni sínum og síðar sonum þeirra eftir að Halldór féll frá árið 1995.

Fjarri æskuslóðum hefur Ása varðveitt minni heimahaganna. Birtingarmyndin er tvíþætt. Annars vegar er ljóðmálið sem að stórum hluta á sér langa sögu, t.d. rekur Ása þulurnar til langömmu sinnar í föðurætt, Sigurlaugar Jósepsdóttur (1846–1933) sem aftur lærði af ömmu sinni, Helgu Sæmundsdóttur, ættaðri úr Bárðardal. Hins vegar er tónmálið en vegferð þess er meira á huldu. En með umfjöllun þeirri sem hér fylgir er leitast við að varpa ljósi á og skýra nánar þátt tónlistarinnar.

Efnisyfirlit

Rannsóknarefni – aðferð

Markmið rannsóknarinnar var að skoða tónmál sem varðveitt er í munnlegri geymd hjá sama einstaklingi á 30 ára tímabili. Athugað var hvort Ása syngi sömu stemmurnar og notaði sömu þululögin í hljóðritunum sem gerðar voru með löngu millibili. Einnig voru einkenni tónmálsins greind og borin saman við það sem áður hefur verið skrifað um einkenni íslenskra þjóðlaga. Loks var hugað að hvort finna mætti skyldleika efnis og flutningsmáta þriggja einstaklinga sem eiga sameiginlegar rætur og íhugað hvort daglegt umhverfi hafi áhrif á gerð og varðveislu tónefnisins.

Rannsóknarefnið er upptökur fengnar úr þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar. Voru þær gerðar af Helgu Jóhannsdóttur tónlistarfræðingi og cand. mag. Jóni Samsonarsyni, nema sú sem er frá árinu 1999, en hún er verk Rósu Þorsteinsdóttur þjóðfræðings:

Tafla 1 – Yfirlit um hljóðrit


 Ása Ketilsdóttir 1999
 
Tekið upp í Reykjavík, apríl 1999 (viðfangsefni greinar í Netlu 2002).

 Ása Ketilsdóttir 1980
 
Tekið upp í Reykjavík, febrúar 1980.

 Ása Ketilsdóttir 1970
 
Tekið upp að Laugalandi, Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp, september 1970.

 Ása Ketilsdóttir 1969
 
Tekið upp að Ytra-Fjalli í Aðaldal, Suður-Þingeyjarsýslu, júlí 1969.

 Ketill Indriðason 1969
 
Tekið upp að Ytra-Fjalli í Aðaldal, júní 1969.

 Sólveig Indriðadóttir 1969
 
Tekið upp að Syðri-Brekkum í Sauðaneshreppi, í Norður-Þingeyjarsýslu, ágúst 1969.


Í Netlu-grein höfundar árið 2002 (Barnagælur og þulur, Netla - Veftímarit um uppeldi og menntun 2002) var gerð grein fyrir hljóðritinu frá 1999 en nú eru eldri upptökur með Ásu teknar fyrir. Einnig er fjallað um hljóðritin sem til eru með flutningi Ketils föður Ásu og Sólveigar föðursystur hennar. Auk þess er nýtt sem heimild myndbandsupptaka sem höfundur gerði í Reykjavík í ágústmánuði 2004. Þar segir Ása m.a. frá hvað stökurnar, þulurnar og kveðlingarnir voru sterkir þættir í uppeldinu á Fjalli.

Hljóð- og myndefnið var fært í tölvutækt form og klippt með forritunum Sound Forge og Windows Movie Maker. Hljóðskjölin af upptökunum eru hátt á fjórða hundrað. Byrjað var á að greina laglínurnar sem í kjölfarið voru færðar á nótur með forritinu Sibelius 3. Jafnframt voru textarnir skráðir. Þá var tónefnið flokkað, annars vegar undir stemmur og hins vegar þululög. Einkenni laglínanna voru skoðuð og niðurstöður túlkaðar. Leitað var heimilda sem styrkt gætu rannsóknina hvað varðar sjálft tónmálið og einnig skoðað það menningarumhverfi sem þessi tónsköpun óx og dafnaði í.

Framsetning efnisins sem hér fylgir er eftirfarandi: Eftir almenna skilgreiningu á ljóð- og tónmálinu er fjallað um stemmur út frá heimildum. Gerð er grein fyrir stemmum Ásu úr hljóðritunum frá 1969, 1970 og 1980 sem ekki komu fyrir í upptökunni frá 1999. Þá er kafli þar sem vitnað er í heimildir varðandi þululögin og þau skilgreind á sama hátt og stemmurnar. Loks er tónefni og flutningur systkinanna Ketils og Sólveigar kynnt og borið saman við áðurnefnt efni og flutning Ásu. Niðurstöður eru dregnar saman, fjallað um trúverðugleika gagna og gildi rannsóknarinnar.

Efnisyfirlit

Ljóðmál

Ljóðmálið í rannsókn þessari hefur verið flokkað í stökur, þulur og kveðlinga. Í umfjölluninni sem hér fylgir eru dregin fram nokkur atriði sem tengjast efninu.

Lausavísur kallast sjálfstæðar vísur sem ekki eru hluti af stærri heild t.d. rímu eða kvæði. Staka er annað heiti á lausavísu og er það notað í grein þessari. Einnig er orðið baga þekkt í þessu sambandi. Síðari tíma lausavísur ortar undir rímnaháttum skiptast í þrjá meginflokka, ferskeytt, braghent og afhent. Af hverjum flokki eru svo margir hættir sem aðgreindir eru m.a. eftir atkvæðafjölda í ljóðlínum og mismunandi rímaðferðum. Ferskeytti hátturinn er algengastur en þar hefur hver vísa fjórar ljóðlínur, einnig nefndar vísuorð eða braglínur. Braghenda er með þrjár ljóðlínur og afhending tvær.

Ljóð eru sett saman úr svokölluðum bragliðum. Vísur ortar undir rímnaháttum nota bragliði sem kallast tvíliðir, stúfar og forliðir. Tvíliður er bragliður sem er tvö atkvæði með áherslu á því fyrra. Kallast það ris. Áherslulausa atkvæðið er nefnt hnig. Þegar aðeins er ris, en ekki hnig á eftir, heitir bragliðurinn stúfur. Forliður er áherslulítið atkvæði fremst í ljóðlínu. Sameiginlegt með vísum ortum undir rímnaháttum er að í þeim eru ljóðstafir, eða stuðlar og höfuðstafur, sem tengjast í tveimur samstæðum ljóðlínum. Sú fyrri hefur tvo bragliði sem byrja á sama hljóði sem kallast stuðull. Fyrsti bragliður seinni ljóðlínunnar byrjar á sama hljóði sem kallast höfuðstafur (Ögmundur Helgason 1989:356–360; Pétur Björnsson og Rósa Þorsteinsdóttir 2004:15–18).

Stökurnar höfðu í áraraðir veigamikið hlutverk sem samskiptaform og var t.d leikurinn að kveðast á vinsæl afþreying á kvöldvökum yfir vetrartímann. Tveir einstaklingar eða tvö jöfn lið þreyttu með því að fara með vísur til skiptis og aldrei mátti endurtaka vísu í sama leik. Raunar mátti nota vísur úr rímum til jafns við stökurnar en allt skyldi vera undir rímnaháttum. Tvær aðferðir voru algengastar í leiknum, annars vegar vísnasópur og hins vegar skandering. Í sópnum var engin regla um val vísnanna en í skanderingunni þurfti hver vísa sem farið var með að að byrja á sama staf og hin endaði á eða fyrsta staf í síðasta orðinu. Leikslok voru með ýmsu móti en algengt var að tala um að sá sem varð uppiskroppa með vísur hafi verið kveðinn í kútinn. Önnur keppni var hendingaskipti sem fólst í að botna fyrri part sem kastað var fram. Einnig var stundum spunnið framan við, þ.e. gerður fyrri partur við áður ortan seinni part. Loks má nefna nokkuð er til af gátum í vísnaformi og hafa sem slíkar verið vinsæl dægradvöl fram á þennan dag (Ögmundur Helgason 1989:367–369).

Oft hefur verið talað um þjóðaríþrótt í sambandi við stökuna og sá sem á létt með að kasta fram vísu fær gjarnan sæmdarheitið hagyrðingur. Hagmæltir einstaklingar heyra hvenær rétt er kveðið því þeir hafa ræktað brageyrað og kunna þær reglur sem gilda um viðkomandi bragarhætti. Margir hafa litið skáldgyðjuna hýru auga hvað þetta snertir og lagt allnokkuð á sig til að ná árangri:

Á unglingsaldri fer venjulega að koma í ljós hverjir kynnu að luma á hagmælsku. Fullorðna fólkið átti það til að glettast við krakkana og telja þeim trú um að þeir sem gætu teygt tungubroddinn upp að nefinu á sér væru öðrum líklegri til að geta ort vísu. Munu ýmsir hafa reynt til þess á unga aldri þegar lítið bar á eða í laumi. Það þótti a.m.k. ómaksins vert að reyna ef leyndist sannleikskorn í þessum orðum.
                                                                                   (Ögmundur Helgason 1989:369)

Enn lifir lausavísan góðu lífi þótt minna sé orðið um að ort sé og kastað fram stöku í dagsins önn. Urmull er til af vísum, ætluðum börnum, sem ortar eru undir rímnaháttum og eru þar ferskeyttar algengastar sbr. það efni sem kynnt er hér úr fórum fólksins frá Fjalli.

Þulurnar eru langir rímaðir bragir. Margar þeirra eru samsettar, þ.e. tvær eða fleiri þulur hafa runnið saman. Kveðlingarnir eru stutt kvæði sem hafa ekki sérstakan bragarhátt. Hluti af þeim er það sem Jón Samsonarson kallar ljóðaleiki, þ.e. kvæðunum fylgir hreyfing, aðallega að stíga eða róa (2002:103–108). Undir kveðlinga flokkast þulubrot og kvæði sem ekki hafa sérstakan bragarhátt.

Rannsóknir á þulum hafa fram að þessu fyrst og fremst beinst að ljóðforminu. Fræðimenn hafa í því sambandi ritað um tilurð þulunnar og útbreiðslu. Varðandi þessa þætti hefur Jón Samsonarson cand. mag. unnið mikið verk. Hann telur barnaþulur ekki hafa verið skráðar að marki fyrr en á 19. öld en þá hafi þær verið algengar um allt land og verið á hvers manns vörum (Jón Samsonarson 2002:86). Um einkenni þulunnar segir Jón:

Þulur eru margbreyttar, og eitt einkenni þeirra að þær geta fléttast saman á mismunandi hátt; oft með því móti að heilar þulur eða þuluhlutar tengjast, svo að sífellt koma fram nýjar og nýjar þuluheildir; þrátt fyrir það að einstakir hlutar séu gamalkunnir; hver þuluhlutinn tekur við af öðrum í langri röð án þess að texti hvers um sig breytist að marki; hitt getur líka gerst að þulur séu rifnar sundur í smátætlur og komi fram nýjar þulugerðir úr brotum héðan og handan; það hendir líka að þula dregur til sín skáldskap úr allt annarri átt, og getur hún þá innbyrt viðlag eða rímnaerindi sem á það til að breyta hrynjandi þulunnar og öllu yfirbragði.
                                                                                   (Jón Samsonarson 2002:78–79)

Í Landsbókasafni Íslands eru varðveitt drög að inngangi að þulusafni sem Jón Árnason þjóðsagnasafnari ætlaði að gefa út með þjóðsagnasafni sínu (Þjóðsögur I og II, útgefnar 1862 og 1864) en vegna þess hve sögurnar voru fyrirferðamiklar varð ekki rúm fyrir þulurnar. Í skrifum Jóns kemur fram að þulur ætlaðar börnum endurspegli talmál þeirra og hugsanir. Hann segir þuluna vera

[...] eins og skuggsjá, sem grípur allt er við horfir án þess að hugsa um hvort nokkuð eðlilegt samhengi er milli hinna einstöku parta; börnin eru ánægð með gullastokkinn sinn, þegar hann er fullur af margskonar hlutum, skeljum, hnöppum, leggjum og glerbrotum, og þulurnar eru í sinni röð ekki ósvipaðar. Hugmyndirnar leika lausar, hoppa og stökkva eins og ljósgeisli í marglitu gleri (Lbs. 587 4to VII. Sjá í Jón Samsonarson 2002:75–76).

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á skrif Theodóru Thoroddsen og Guðmundar Finnbogasonar um þulurnar sem birtust í Skírni, 1. hefti 1914 (sjá einnig Sigríður Pálmadóttir 2002:2–4). Af nýlegum heimildum má nefna rannsóknir Yelenu Sesselju Helgadóttur á þulum sem m.a. hafa beinst að því að rannsaka á hvern hátt þulur síðari alda hafa skapað sína eigin veröld:

Heimur þulna er bæði sundurlaus og heildstæður: sundurlaus að því leyti að í honum er að finna fyrirbæri, sem eru komin úr gjörólíkum áttum og eru gjörólík í eðli sínu, en heildstæður að því leyti að þessir gjörólíku hlutir standa hlið við hlið og virðast eiga jafneðlilega heima í þuluheiminum, enda rúmar þessi heimur allt mögulegt í einni heilsteyptri og samræmdri mynd. Heimur þessi er bæði háleitur og lágleitur, raunsæislegur og ekki.
                                                                                   (Yelena Sesselja Helgadóttir 2000:8).

Þulurnar sem hér um ræðir segja á ævintýralegan hátt frá hversdaglegum atburðum og á hversdaglegan hátt frá ævintýrum. Þær eru að hluta til illskiljanlegar en í raun þarf ekki að skilja þær til fullnustu því það er ekki síst leikur að orðum sem gefur þulunni líf. Um margt minna þessir bálkar á rapptexta 21. aldarinnar. Í þeim tilvikum þegar hrynjandi textans tekst á flug verður útkoman einn allsherjar seiður.

Efnisyfirlit

Tónmál

Hugtakið stemma er notað yfir þau lög sem höfð eru við stökurnar. Lög við þulur eru nefnd þululög. Við kveðlingana er annað hvort notuð stemma eða þulustef. Þessi flokkun er í samræmi við framsetningu Ásu á efninu og þótti eðlilegt að halda henni hér.
 

Tafla 2 – FlokkunLjóðmál
 
  Tónmál
             

Stökur
Þulur
Kveðlingar
 
 
Stemmur
Þululög
 

 

Ljóst er að önnur flokkun væri hugsanleg út frá ljóðmálinu. T.d. má nefna að í greininni Om den isländska folkmusiken och dess källor flokkar Njáll Sigurðsson þjóðlög sem tengjast börnum í þulur, barnagælur og vögguvísur (Njáll Sigurðsson 1998:179). Hvað flutningsmáta varðar má segja að allt efnið falli undir hefðbundna skilgreiningu á söng þó svo að flytjendur noti oft sögnina að kveða, ekki síst um þulurnar. Í þessari grein eru sagnirnar syngja, kveða og fara með notaðar jöfnum höndum um flutninginn.

Efnisyfirlit

Stemmur

Í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar Íslensk þjóðlög (1906–1909) er sérstakur kafli með titlinum Rímnalög. Þar eru 250 stemmur sem Bjarni og aðstoðarmenn hans söfnuðu og skráðu eftir ýmsum einstaklingum í lok 19. aldar. Bjarni notar ýmist hugtakið rímnalög eða kvæðalög yfir stemmurnar:

Kvæðalögin eru sum almenn, og kunna mjög margir þau og kveða þau nær því eins um margar sveitir. Ýmsir einstakir kvæðamenn hafa sjerstök kvæðalög, er þeir hafa fundið upp sjálfir og hafa ávallt eins og ávallt sama lag við sama bragarhátt. Er það þá ýmist, að slík lög gleymast og deyja út með þessum mönnum, einkum ef lítið þykir varið í þau, eða að alþýða lærir þau, ef þau þykja falleg, og geymir þau svo sem endurminningu um hinn dána kvæðamann, og verða þau þannig að almennum lögum ...
                                                                                   (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:810 ).

Meðal mikilvirkustu heimildarmanna Bjarna var Benedikt Jónsson bóndi á Auðnum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Benedikt var mikill atorkumaður í þingeysku samfélagi, lét menningarmál til sín taka, var sjálfmenntaður í tónlist og söngmaður góður. Hann vann að þjóðlagasöfnun fyrir Bjarna, skráði lög á nótur og skrifaði hugleiðingar um þjóðlögin. Um kvæðalögin segir Benedikt að þegar menn kveði þá fari „hver eptir sínu höfði. Menn séu með eigin kvæðalög en þau séu ekki alltaf eins, það fari eftir efni, hætti og áhrifum augnabliksins hvernig lagið mótast. Kveði einhver sérlega vel þá verða ýmsir til að taka viðkomandi kvæðalag upp. Urmull af kvæðalögum gangi á milli manna með margvíslegum breytingum en þrátt fyrir framangreint form- og festuleysi í kvæðalögunum séu til mörg sem finnist í sömu mynd víða um land. Benedikt segir kveðskapinn að sínu leyti eins og rímurnar; meiri hluti þeirra sé lítils virði en innan um séu gullkorn sem beri að varðveita, þau séu þjóðleg og einstök, þarna sé efniviður sem hugsanlega mætti vinna úr. „En - til þess að grafa þessi gullkorn úr sorpinu þarf mikla elju, innilega rækt, smekkvísi, víðsýni og hleypidómaleysi“ (Sveinn Skorri Höskuldsson 1993: 539–540). Benedikt setur síðan fram hugmynd um að flokka kvæðalögin:

Mér virðist að öllum kvæðalögum megi skipta í tvo flokka, sem að vísu hafa ekki glögg takmörk, en eru talsvert ólíkir í heild sinni: 1° kvæðalög, sem fylgja vissum vísnaflokkum, svo sem hestavísum, siglingavísum, ástavísum, tækifærisvísum, skamma- eða kesknivísum o.s.frv., og 2° hin eiginlegu rímnalög, sem brúkuð eru þegar kveðnar eru langar rímur og kvæðamaðurinn verður að kveða heilar kvöldvökur.
                                                                                   (Sveinn Skorri Höskuldsson 1993:540)

Benedikt telur lögin í fyrri flokknum líkjast hefðbundnum sönglögum og tekur fram að oft séu þau með stærra tónsvið en hin eiginlegu rímnalög. Hér sé um að ræða kvæðalög sem gangi lítið breytt manna á milli og auðvelt að skrá þau með nótnatáknum. Rímnalögin í seinni flokknum segir hann vera formlausari og flest ómelódísk. Grunnur laganna sé örfáir tónar sem kvæðamaðurinn kryddar með „dynamiskum kunstum, hljómbreytingum, áherslum, slögum, trillum og öllum þeim tilbreytingum, sem raddfærin leyfa“. Þessar laglínur er að mati Benedikts erfitt að skrá svo skiljanlegt verði, líf lagsins liggi ekki í laggrunninum heldur framangreindum túlkunarþáttum sem sífellt breytist eftir efni og aðstæðum kvæðamannsins (Sveinn Skorri Höskuldsson 1993:540).

Þessi skrif Benedikts sem og önnur um ámóta efni sýna næmi hans og skilning á eðli stemmunnar. Í riti sínu Íslenzk þjóðlög nefnir Bjarni Þorsteinsson sérstaklega að Benedikt sé sá maður sem einna mest hafi hjálpað við söfnunina og segir hann hafa „lagt einna ríkulegastan skerf af þjóðlögum“ í safnið (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:581). Bjarni tekur upp langa kafla úr bréfum þeim sem Benedikt skrifaði honum og staðfestir einnig ýmsar hugmyndir hans í sambandi við þjóðlögin.

Efnisyfirlit

Greining

Í hljóðritinu frá árinu 1999 flutti Ása 17 stemmur (Sigríður Pálmadóttir 2002: 5–6) og eru þær skráðar hér sem númer 1–17.

  17 stemmur fluttar 1999

Stemmurnar úr hljóðritunum frá 1969, 1970 og 1980 sem ekki voru kveðnar árið 1999 eru 16 talsins og eru þær skráðar með númerum 18–33. Alls er því um 33 stemmur að ræða.

Upptökurnar hafa að geyma stökur sem að stærstum hluta eru húsgangar, nokkrir höfundar eru nafngreindir, þar á meðal úr fjölskyldu Ásu.

Í flutningi á stökunum hefur Ása þann háttinn á að nota að jafnaði ekki fast lag heldur grípur hún þá stemmu sem kemur upp í hugann hverju sinni. Í hljóðritunum koma sumar stemmur margoft fyrir, aðrar sjaldnar og loks eru nokkrar stemmur sem aðeins heyrast einu sinni. Með stemmunum sem hér fylgja eru aðeins skráðar ein eða tvær stökur sem dæmi. Loks ber að geta þess að margar stemmurnar eru kveðnar í lágri legu, oftast á talraddarsviðinu. Til hægðarauka hafa þær verið tónfluttar og skráðar í hærri sönglegu.

Við skráningu á stemmunum hefur verið fylgt sömu reglu og fyrr (Sigríður Pálmadóttir 2002), þ.e. reynt var að greina grunnmynd frá túlkunarþáttum. Sama stemman getur haft mörg afbrigði í flutningi. Sem dæmi má nefna að innbyggður, stöðugur púls er oft sveigður til, hægt á eða hraðað og mislangar öndunarþagnir á milli hendinga eru algengar. Stundum er eins og stemman líði áfram og hafi tilhneigingu til að losa sig við takttegundina. Til að undirstrika þennan sveigjanleika eru taktvísar ekki skráðir og taktstrik aðeins gefin til kynna með stuttu striki.

Tvíliðir með risi og hnigi eru algengir í stökunum. Einkennandi er að sama stemman hefur oft mismunandi hryn í tvíliðnum. Stundum er fylgt áherslu tvíliðsins og er þá annað hvort um jafna tóna að ræða (dæmi a) eins og gerist þegar vísan er sögð fram eða sá fyrri er lengri, þ.e. hvílt er í sérhljóða fyrra atkvæðis. Hlutföllin í lengingu geta verið mismunandi en í hljóðritunum sem hér um ræðir nálgast þau oft að vera tveir á móti einum (dæmi b). Loks er andkveðandi, þ.e. fyrra atkvæði tvíliðsins er stytt (áhersluatkvæði er stutt) og við það fær seinna atkvæðið (létt atkvæði) aukið vægi, það lengist í hlutfalli við fyrrnefnda styttingu. Algengt er að skrá andkveðandi (Hallgrímur Helgason 1980:126) sem einn á móti þremur, þ.e. sextándapartur og punkteraður áttundapartur (dæmi c). Skerpa hrynsins fer eftir túlkun hverju sinni, en oft nálgast andkveðandin hjá Ásu það að vera einn á móti tveimur. Þessir túlkunarhættir eru þekkt fyrirbæri í tónlist barokktímans (notes égales, inégales). Við skráningu kom upp sú spurning hvort skrá ætti tvíliðina jafna eða gefa til kynna mismunandi túlkun á fyrirbærinu því sama stemman kemur oft fyrir í hljóðritunum í öllum þremur myndunum (a, b, c).

a) b) c)

Fyrir valinu varð það síðarnefnda, þ.e. að skrá inn þennan túlkunarþátt til að sýna fjölbreytnina. Ekki er gerð tilraun til að skrá ýmsa aðra þætti, sem tengdir eru túlkun, svo sem þegar rennt er upp í tón eða skreytt með trillum enda eru þessir þættir sköpun augnabliksins sem sjaldnast eru eins í endurtekningu. [4] Í endurteknum flutningi sömu stemmunnar má einnig finna tilbrigði í laglínunni. Þá er oft álitamál hvernig skráningin eigi að vera. [5]

Stemma 18

Upptakan er frá árinu 1969. Heyra má nokkrar stökur sungnar við stemmu nr. 18. Í sjöunda takti stemmunnar er laglínan ýmist eins og skráð er hér að neðan eða með viðbættum tengitónum.

  Stemma 18

Þessu bregður einnig fyrir í þriðja takti. Þessi skreyting setur meiri hreyfingu í laglínuna. Það er Jóhanna, dóttir Ásu, sem tekur undir með móður sinni.

  Skreyting hreyfir laglínu

Sama stemma, hljóðrituð 1980, er með einfaldað niðurlag í annarri og fjórðu hendingu stökunnar (fjórði og áttundi taktur).Tóntegundin er moll.

  Einfaldað niðurlag

Rauður minn er sterkur stór


Stemmur nr. 19 – 28 koma eingöngu fyrir í hljóðritinu frá 1980.

Stemma 19

Þessa stemmu er að finna í nokkuð breyttri mynd í bókinni Silfurplötur Iðunnar (Reykjavík 2004:166) og er þar sögð víða kunnug. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 19

Fingramána foldin mín

Reið ég Grána yfir ána,
aftur hána færðu nú,
ljós við mána teygði’ hann tána,
takk fyrir lánið, hringabrú.

Stemma 20

Ása flytur stemmu nr. 20 með andkveðandi (notes inégales). Í Netlu-grein höfundar árið 2002 er sett fram sú tilgáta að þessi hrynmynd, þ.e. tvíliður með stuttu áhersluatkvæði og hlutfallslega lengdu léttu atkvæði, eigi uppruna í hreyfingu sem iðulega er viðhöfð þegar kveðið er. Stutti áherslutónninn setur festu í hryninn en langi áherslulausi tónninn gefur tíma fyrir hreyfinguna. Í hljóðritinu má greina tilbrigði í laglínu þegar stemman er flutt öðru sinni.Tóntegundin er dúr.

  Stemma 20

Ég er að leita´ að einni á

Stemma 21

Runuform (a,b,c,d) einkennir þessa stemmu. Önnur og þriðja hending eru kveðnar saman. Taktskipti eru í laginu. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 21

Vertu afa væn og fín

Stemma 22

Hér er stemma sem finna má í bókinni Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum (1949:20) og er hún skráð sem danskt lag og sungin við stöku Einars Benediktssonar Láttu smátt en hyggðu hátt. Flúrið (tenginótur) sem Ása notar er ekki til staðar í skráðu heimildinni. Þar er heldur ekki að finna andkveðandi sbr. 5. og 6. takt í nótnamyndinni hér að neðan. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 22

Við skulum ekki hafa hátt

Stemma 23

Stemma nr. 23 sýnir andstæðu við andkveðandi þ.e. hrynmynd sem einkennist af því að hvílt er á sérhljóða fyrra atkvæðis í tvíliðnum og gefur stemmunni mjúkt, líðandi yfirbragð. Önnur og þriðja hending er kveðin saman. Taktskipti koma fyrir í laginu. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 23

Hafðu ekki hátt um þig

Stemma 24

Þessi stemma hefur sömu einkenni og stemma nr. 23, þ.e. lengingu fyrra atkvæðis í tvíliðnum á kostnað seinna atkvæðis. Taktskipti koma fyrir í laginu. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 24

Pabbi, mamma, afi, amma

Stemma 25

Andkveðandi í upphafi hverrar braglínu setur sterkan svip á stemmu nr. 25. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 25

Ranka undir rúminu

Stemma 26

Í upphafi stemmu nr. 26 er laglínan mótuð af endurteknum grunntóni. Þetta má túlka sem ákveðin spunaeinkenni þ.e. að flytjandi dvelur á sama tóni á meðan hugsunin mótar framhald laglínunnar. Þriðja og fjórða hending renna saman.Tóntegundin er dúr.

  Stemma 26

Við skulum lúra

Stemma 27

Þessi staka er eftir Sigurbjörn Jóhannsson á Fótaskinni (1839–1903) og yrkir hann hér til Jakobínu dóttur sinnar sem seinna varð þekkt sem vesturíslenska skáldkonan Jakobína Johnson (1883–1977). í stemmunni eru fyrstu þrjár hendingarnar kveðnar saman og setur það ákveðinn kraft í framvindu laglínunnar. Taktskipti koma fyrir í laginu. Tóntegundin er dúr.

  Stemma 27

Augun bláu una þín

Stemma 28

Stakan er eftir móður Ásu, Jóhönnu Björnsdóttur. Stemman er í moll. Tónsviðið er þröngt og er laglínan byggð upp á flúri í kringum grunntón með örlitlu tónrisi í þriðju hendingu. Önnur og þriðja hending er kveðin saman.

  Stemma 28

Vertu okkar vernd og hlíf

Stemma 29 og 30

Hér renna tvær stemmur saman í svokölluðu ABA-formi, þ.e. þær eru fluttar saman í einni lotu og síðan er sú fyrri endurtekin (með nýrri stöku). Ása syngur þær á þennan hátt í hljóðritinu frá 1969 og 1980. Sömu laglínur er að finna í nótnabókinni Íslenskt söngvasafn II (1916:2) en þar er sama stakan, Bí, bí og blaka, endurtekin þrisvar og formið á stemmunum er ABB, þ.e. sú fyrri er flutt einu sinni og sú seinni tvítekin. Höfundur lagsins er danskt tónskáld, Rudolph Bay (1791–1856). Tóntegund er dúr.

  Stemma 29 og 30

Loksins eru lömbin nú

Stemma 31

Hér er upptaka frá árinu 1980. Þá er myndskeið frá 2004 þar sem Ása fer með sömu stemmu. Í upptöku frá 1969 kveða feðginin, Ketill og Ása, stemmuna saman. Áhugavert er að bera saman þessi hljóðrit, en þrjátíu og fimm ár eru á milli elstu og yngstu upptökunnar. Athygli vekur að í hljóðritunum þremur er alltaf kveðið í sömu tónlegu. Stemman er eingöngu höfð við þessar vísur. Taktskipti eru í laginu.Tóntegundin er dúr.

  Upptaka frá 1980         Myndskeið frá 2004        Upptaka frá 1969

Loks greinir Ása frá þjóðsögu sem liggur að baki vísunum en þar er kölski á ferð í dulklæðum.

  Greint frá þjóðsögu

Í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar er að finna skylda vísu:

Vinduteininn firðar fundu,
fór sú grein af vinduteini,
vinduteinn ljet aldrei undan,
einatt hvein í vinduteini.

Bjarni er ekki með lag við kvæðið en segir það eignað kölska sem „hafi viljað apa sig og kveða eptir bragarhætti sem hafi verið mjög afhaldinn” og komi fram m.a. í Krosskvæði sem tíðkast hafi að syngja og kveða. Og Bjarni bætir við að vísan sé gott sýnishorn af ljóðagerð kölska því hann hafi verið talinn hagmæltur (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:33).

Vinduteinn er boginn í hendi

Gambanteininn fyrðar fundu,
fannst þeim mein að gambanteini.
Gambanteinn lét aldrei undan,
einatt hvein í gambanteini.

Stemma 32 (tvær gerðir)

Ása segir móður sína hafa oft sungið um Manga og hafi hún sjálf sem barn hrifist af vísunni, líklega vegna þess að nefndar voru fíkjur og sykur en ekki hafi hún leitt hugann sérstaklega að hvað átt væri með hripinu. Hljóðupptakan með Ásu er frá 1980 (fyrri tónmynd), þá fer Ketill með kvæðið (seinni tónmynd) en heyra má Ásu taka undir með föður sínum. Upptakan er frá 1969. Hér eins og í Vinduteininum er kveðið í sömu tónlegu í báðum hljóðritunum. Lagið syngur Ása eingöngu við þessar vísur enda er form þeirra frábrugðið hefðbundnum stökum. Lagið hefur á sér dúr-blæ en niðurlagstónninn fellur samt ekki að þeim ramma. Smári Ólason tónlistarfræðingur greinir lagið sem dúr með dórískum endi (Munnleg heimild: 05.11.06).

  Fyrri tónmynd frá 1980        Seinni tónmynd frá 1969

Í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar má finna framangreint lag í örlítið breyttri mynd (1906–1909:669). . Bjarni tekur það upp eins og það er skráð í Söngbók hins íslenska stúdentafjelags (1894:81) en nefnir að lagið sé sungið á marga vegu (1906–1909:538). Vitnar hann í því sambandi í kvæðið Keisari nokkur mætur mann sem annað af tveimur lögum sem Konrad Maurer birti í ritgerð með titlinum Ein Isländisches Lied auf Kaiser Friedrich den Rotbart sem kom út í Sitzungsberichte der königlichen bayerischen Akademie der Wissenschaften zu München árið 1867 (1906–1909:497–499). Angul Hammerich skráir þessi lög í grein sinni Studien über Isländische Musik (1900:348–349) og nefnir að danska tónskáldið Johan S. Svendsen hafi notað þau í tónverki sem hann samdi fyrir strengjasveit (sjá einnig Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:498–499).

Hættu að gráta Mangi minn

 

Hættu að gráta Mangi minn

Stemma 33

Stemmu þessa, hafða við stökuna Austan kaldinn á oss blés, má finna hjá Hallgrími Helgasyni sem segir stemmuna tvístígandi á milli dúr- og moll-tóntegundar (1980:110). Í því sambandi vitnar Hallgrímur í útsetningu Sveinbjörns Sveinbjörnsson (1949:1) á stemmunni þar sem hljómsetningin í upphafi lags er í f-dúr en niðurlagshljómurinn er d-moll. Flutningur Ásu einkennist af flúri (hér sýnt með skráðum sextándapartsnótum) sem ekki er að finna hjá Hallgrími og í mun minna mæli í skráningu Sveinbjörns.

  Stemma 33

Dal í þröngum


 

Stakan sem skráð er hér að ofan er eignuð Baldvini Jónssyni skáldi (1826–1886). Auk þess kveður Ása tvær stökur eftir Hallgrím Pétursson (1614–1674).

Nú er mér á kinnum kalt,
kuldinn bítur rauði,
Ekki finn ég fé mitt allt,
fjóra vantar sauði.
Kuldinn bítur kinnar manns,
kólnar jarðarfræið.
Ekki’ er heitur andinn hans,
undir sólarlagi

Hér hefur verið gerð grein fyrir þeim stemmum af eldri upptökum (1969, 1970 og 1980) sem ekki finnast í hljóðritinu frá 1999. Nánar um stemmurnar er að finna í kaflanum Niðurstöður en þar er fjallað er um efnið í heild.

Efnisyfirlit

Lög við þulur og kveðlinga

Ekki er sérstakur kafli um þululögin í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar og samanborið við kvæðalögin fjallar hann ekki mikið um þau. Þrjú þululög eru skráð og tilgreind sérstaklega sem slík. Eru þau frá séra Sigtryggi Guðlaugssyni á Þóroddstað í Köldukinn og fylgir þeim athugasemd hans að þau séu sýnishorn þess hvernig þulurnar hafi verið kveðnar eða sungnar:

Líklega hefur hver hagað því eins og andinn inn gaf honum, og ættu þá að koma þar fram lyndiseinkenni söngvaranna. En mjer hefur líka dottið í hug, að vjer hefðum hér máske nokkuð meira, c: að þulurnar, að minnsta kosti sumar þeirra, sjeu gömul danskvæði, og ekki væri þá ómögulegt, að vjer í lögunum við þær, þótt fábreytt séu, eigum leifar af danslögunum okkar gömlu. Opt hefur mjer þótt það einkennilegt, hve fast hefur verið haldið við taktinn, er ég hef heyrt þulur sungnar.
                                                                                    (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:608)

Ekki er margt sem bendir til þess að hugmynd Sigtryggs um dansinn eigi sér stoð í veruleikanum, yfirleitt hallast fræðimenn að því að litrík frásögn þulunnar með skarpri hrynjandi hafi þjónað því hlutverki að hafa ofan af fyrir börnum, fræða, sefa þau og svæfa.

Þululögin virðast ekki hafa þótt merkileg samanber skrif Sigtryggs hér að framan og einnig hefur verið talað um gamla þululagið eins og aðeins eitt lag sé notað í flutningi (Rósa Þorsteinsdóttir 2000:61). Heimildir sýna að til er aragrúi af þululögum. Í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar hafa verið skráðar um 3500 upptökur af þulum og þar af er rúmlega þriðjungur sunginn. Um flutninginn segir Jón Samsonarson:

...að þulurnar eru ýmist mæltar fram, stundum með taktfastri hrynjandi, eða þær eru raulaðar með lagi [...] (Jón Samsonarson, 2002:86).

Það sem Jón nefnir hér taktfasta hrynjandi er sú framsögn sem er þekkt víða um lönd í flutningi á barnagælum. Svo notuð séu tónfræðileg hugtök þá er taktföst hrynjandi þulunnar sambærileg við laghryn en í stað söngs er textinn sagður fram.

Efnisyfirlit

Greining

Tónmál þulanna sem Ása fer með byggir á grunnstefjum og spuna í kringum þau. Um er að ræða þrjú stef [6] sem notuð eru með ýmsum tilbrigðum:

 • Stef 1 myndar yfirleitt grunninn.

 • Þegar stef 2 kemur fyrir er það fléttað inn á milli.

 • Stef 3 er algengast í kveðlingum.

Tóntegundin er dúr.

Þulustef


Meiri hluti þulanna hefst á stefi 1 eða tilbrigði þess. Það stef má finna í safni Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög í III. kafla sem ber heitið Lög skrifuð upp eptir ýmsu fólki. Í undirkafla þar sem fjallað er um lög úr Húnavatnssýslu er þetta lag skráð við Gimbill eftir götu rann. Þar segir:

Þetta lag lærði ég á Kornsá í Vatnsdal árið 1885, en síðan hef ég fengið það nóterað alveg eins frá Benedikt Jónnsyni á Auðnum í Þingeyjarsýslu, og segir hann lagið þar mjög algengt við ýmsar barnagælur og þulur t.d. Bíum, bíum bamba | börnin litlu ramba | fram á fjallakamba | að leita sér lamba.
                                                                             (Bjarni Þorsteinsson 1906–1909:564)

Þar sem form þulunnar er mjög óreglulegt bæði hvað varðar lengd og fjölda hendinga spinnur Ása og bætir við þegar þörf er á að tengja ljóð- og lagform saman.

  Gimbill mælti

Hér eru tvö dæmi um flutning Ásu á þulunni Bárður Björgúlfsson. Upptökurnar eru frá 1970 og 1980.

  Bárður Björgúlfsson 1970      Bárður Björgúlfsson 1980

Bárður Björgúlfsson

 

Undantekning frá fyrrgreindum stefjum er þululagið við Vappaðu með mér Vala sem er laglína í moll og er túlkun Ásu á þulunni í öllum upptökunum (1969, 1970, 1980, 1999) mjög tilfinningarík. Ef til vill á sú mynd sem dregin er upp í þulunni af smala og hundinum hans með fjárhópinn í stórhríð þátt í að móta þennan sterka blæ.

         Vappaðu með mér Vala

Vappaðu með mér Vala

 

Ása notar sama þululag við Bíum, bíum bamba en þar sem kveðlingurinn er ekki með sama form og Vappaðu með mér Vala er þululagið aðlagað að honum.

  Bíum, bíum bamba

Önnur þula Nú skal syngja um karlinn er einnig í sérflokki en þar er um að ræða form sem er ólíkt hinum þulunum, þ.e. upptalningu sem lengist stöðugt og mótar það að sjálfsögðu lagið.

  Nú skal syngja um karlinn

Við kveðlingana eru þulustefin viðhöfð eða stemma nr. 6.

  Þulustef        Stemma 6

Hér er kveðlingur sem segir frá krumma og annar sem fjallar um Grýlu.

  Kveðlingur um krumma        Kveðlingur um Grýlu

Efnisyfirlit

Tónefni Ketils og Sólveigar

Sumarið 1969 heimsóttu hjónin Helga Jóhannsdóttir og Jón Samsonarson Ytra–Fjall í Aðaldal og kvað Ketill fyrir þau. Voru það einkum þulur og kveðlingar sem hann fór með. Upptökuna með Sólveigu Indriðadóttur (1910–2000) gerðu Helga og Jón einnig sumarið 1969. Fór hún fram á heimili hennar, Syðri-Brekkum í Sauðaneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Ketill og Sólveig kveða sömu þulurnar og Ása og þulustef 1 myndar á sama hátt grunninn í söngnum.

Þegar um er að ræða þulur sem hafa runnið saman er formið einnig svipað. Túlkun þeirra er nokkuð ólík. Yfirleitt er meiri hraði í flutningi Ketils en Sólveigar sem dvelur meira í textanum.

  Flutningur Ketils         Flutningur Sólveigar

Þulustef 1 er Sólveigu tamt og hefur hún það við stökurnar og kveðlingana. Hrynurinn í tvíliðunum í stökunum er ýmist jafn eða ójafn (langt/stutt) en andkveðandi kemur ekki fyrir eins og svo algengt er í flutningi Ásu á stökunum.

  Þulustef 1

Undantekning frá þulustefinu er lagið sem hún hefur við Hún er suðr í hólunum. Stemman er í lýdískri tóntegund og minnir á lagið sem oft er sungið við stökuna Ljósið kemur langt og mjótt (Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909:533). Ketill bróðir hennar flytur stemmuna nánast eins, meira að segja út frá sama tóni.

  Hún er suðr í hólunum í flutningi Sólveigar

  Hún er suðr í hólunum í flutningi Ketils

Eitt lag sker sig úr öðru efni í flutningi Sólveigar, því hún syngur Gilsbakkaþulu með dönsku lagi sem þekkt er hér á landi sem Kokkurinn við kabyssuna stóð, fallira.

  Gilsbakkaþula

Efnisyfirlit

Niðurstöður

Séu stemmurnar skoðaðar í heild er ljóst að sumt af því sem Jón Leifs skilgreinir sem einkenni íslenskra þjóðlaga er að finna í þeim, annað ekki. Fyrstu atriðin sem Jón telur upp, þ.e. lítið hreyfisvið og endurteknir tónar eru áberandi í upptökunum. Þær stemmur sem byrja á endurteknum tónum bera með sér ákveðin spunaeinkenni það er eins og að ekki sé búið að ákveða ferðalag stemmunnar í upphafi og því dvalið á sama tóni (sbr. stemmur 3, 15, 16, 17, 18, 20, 26).

Flestar stemmurnar eru í dúr, þær byrja yfirleitt á grunntóni, þríund eða fortóni og enda á grunntóni. Ekki ber mikið á þeim frávikum sem Jón nefnir sem „takmarkalausa notkun tóntegunda en þar er hann m.a. að vísa til kirkjutóntegunda. Aftur á móti má heimfæra upp á stemmurnar skilgreiningu Hallgríms Helgasonar að íslensk þjóðlög séu lagbundin (melódísk) frekar en hljómbundin (harmónísk). Einradda flutningur án undirspils er einkenni þeirra en það útilokar ekki hljómsetningu þó að hefðbundin hljómskipti sem byggja á I–IV–V grunni séu almennt ekki sá stíll sem hentar stemmunum.

Jón segir stirðleika einkenna hljóðfall (hryn) íslenskra þjóðlaga. Hér er um afstætt hugtak að ræða og á ekki við hér því flutningur Ásu á stemmunum einkennist af náttúrulegu flæði. Laghrynurinn er yfirleitt líkur hrynjandi stökunnar í mæltu máli með þeim tilbrigðum helstum sem koma fram þegar teygt er á sérhljóðum og áherslubreytingum sem andkveðandin hefur í för með sér. Líta má á þetta sem hrynformúlu sem í endursköpuninni mótar blæ laglínunnar á ýmsa vegu (Sjá umfjöllun um notes égales, inégales í kaflanum um greiningu á stemmunum hér að framan).

Þýski tónvísindamaðurinn Fritz Metzler rannsakaði rímnalög þau sem Bjarni Þorsteinsson birti í þjóðlagasafni sínu. Hann nefnir sérstaklega þá hneigð stemmunnar að tengja saman ljóðlínur (vísuorð). T.d. sé algengt að kveða saman tvær eða þrjár ljóðlínur á einum andardrætti og enda með lengdri nótu sem oft fylgir þögn (Metzler, 1950:166). Dæmi um þetta má finna í flutningi Ásu. Í stemmu nr. 21, 22 og 28 eru önnur og þriðja hending kveðnar saman, í nr. 26 eru það þriðja og fjórða hending og í stemmu nr. 27 er það fyrsta, önnur og þriðja hending. Við slíkan samruna koma oft fram taktskipti. Dæmi: Stemma nr. 27.

Augun bláu una þín

 

Jóns Leifs og fleiri tónskáld sem nýtt hafa rímnalög í tónsköpun sinni draga sterkt fram áherslur ljóðstafa sérstaklega í sambandi við taktskipti. Í túlkun Ásu er ekki um slíkt að ræða, flutningur hennar er jafnaði ljóðrænn með mjúku yfirbragði þó að vissulega komi fram áherslur sem form stökunnar kallar á. Hugsanlega má skýra þennan mun út frá efninu. Barnagælurnar voru gjarnan raulaðar en fyrirmynd tónskáldanna gæti frekar verið flutningur manna á rímum þar sem efnið gefur tilefni til átakameiri túlkunar.

Hvað lagformið snertir eru heldur fleiri stemmur með runuformi (a b c d) en endurteknum hendingum (t.d. a b a b eða a b a bt).

Hljóðritin fjögur sýna eftirfarandi heildareinkenni í flutningi Ásu:

 • Margar mismunandi stemmur með einfalda uppbyggingu í stefjum.

 • Tilbrigði í laglínu, oft í formi tengi- og skreytitóna (flúrs).

 • Hrynmynd, í grunninn lík hrynjandi talaðs mál.

 • Breytingar á hrynmynd: lengdir sérhljóðar (langt/stutt), andkveðandi (stutt/langt).

 • Taktskipti koma oftast fyrir samfara að tvær eða fleiri hendingar renna saman.

 • Aðeins fáar stökur hafa fasta stemmu.

Hér að neðan (Tafla 3) eru stemmurnar flokkaðar eftir árum. Flestar eru þær á árinu 1980 eða rúmlega 2/3 af heildarfjölda. Árið 1999 kveður hún 17 stemmur, 1970 fimm og árið 1969 átta.
 

Tafla  3 – Fjöldi stemma í hljóðritum eftir árum

 

1999       17
           
1980         23
           
1970   5
           
1969     8

 Tafla 4
gefur yfirlit yfir stemmurnar sem Ása fer með. Krossað er við í hvaða hljóðriti hver stemma kemur fyrir.

 

Tafla 4 – Yfirlit um stemmur sem Ása fer með

Stemma

1999 1980 1970 1969
1 X     X
2 X X X X
3 X X    
4 X      
5 X X    
6 X      
7 X X    
8 X X    
9 X      
10 X      
11 X      
12 X X X  
13 X X X  
14 X X X  
15 X      
16 X   X  
17 X      
18   X   X
19   X    
20   X    
21   X    
22   X    
23   X    
24   X    
25   X    
26   X    
27   X    
28   X    
29   X   X
30   X   X
31   X   X
32   X   X
33       X


Sé borið saman fjöldi stemma sem koma fyrir í fleiri en einu hljóðritit við fjölda þeirra sem koma eingöngu einu sinni fyrir fæst eftirfarandi mynd:
 

Tafla 5 – Stemmur eftir fjölda á upptökum

 

Í tveimur eða
fleiri upptökum
        19
           
Í einni
upptöku
      14

 Af stemmunum þrjátíu og þremur koma nítján fyrir í fleiri en einu af hljóðritunum fjórum. Fjórtán koma aðeins fyrir í einu hljóðriti. Stemmur nr. 12, 13, og 14 koma fyrir í þremur upptökum; nr. 1, 3, 5, 16, 18, 29, 30, 31 og 32 eru í upptökum frá tveimur árum. Tekið skal fram að þó stemma sé aðeins skráð í einni upptöku er hún yfirleitt flutt oftar og þá við mismunandi stökur.

Stemma nr. 2 er sú eina sem kemur fyrir í öllum upptökunum fjórum. Stundum er hún kveðin með jöfnum tvílið eins og nótnamyndin sýnir en einnig með lengingu (langt/stutt) og andkveðandi.

Stemma 2


Ása og Sólveig flytja að stórum hluta sömu vísurnar en á meðan Sólveig heldur sig við sömu stemmuna (þulustef 1) grípur Ása nýja og nýja. Áhugavert hefði verið að heyra hvaða stemmur Ketill notaði en því er ekki að heilsa þar sem hljóðritunin með honum beindist fyrst og fremst að þulunum og kveðlingunum. Af þeim 33 stemmum sem skráðar hafa verið af flutningi Ásu hefur höfundur fundið 15 í skráðum heimildum. Ætla má að flestar hinna hafi Ása numið heima á Fjalli. Hugsanlega eru þær komnar frá móður hennar sem fór mikið með stökur og kvæði. Hluti af stemmunum gæti einnig verið eigin tónsköpun Ásu. Ákveðnar stemmur koma aftur og aftur; aðrar koma aðeins í mýflugumynd sem bendir til þess að þær séu spuni augnabliksins. Hvað það síðastnefnda varðar vill höfundur þessarar greinar setja fram þá tilgátu að Ása noti þar fyrrnefnda formúluaðferð. Hrynjandi stökunnar í mæltu máli með ákveðnum tilbrigðum mótar laghryninn. Á þessum grunni er síðan laglínan spunnin. Hluti af þessari formúlu eru tilbrigðin sem hún viðhefur í tvílið stökunnar (sbr. kaflann um greiningu á stökunum). Slík hæfni er sambærileg við þá sem tónlistarmenn öðlast sem vinna mikið með spuna t.d. í djass- og dægurtónlist.

Hvað þulurnar varðar er ljóð- og tónmálið að stærstum hluta það sama hjá Ásu, Katli og Sólveigu. Eins og áður sagði lærðu Ketill og Sólveig þulurnar af ömmu sinni, Sigurlaugu Jósepsdóttur, sem aftur lærði af ömmu sinni Helgu Sæmundsdóttur, ættaðri úr Bárðardal. Í upptökunum með Sólveigu og Katli kemur ítrekað fram að „svona hafði hún amma þetta“ og „svona raulaði hún amma þetta“. Áður var þess getið að lagið sem Ása hefur við þuluna Vappaðu með mér Vala sé ólíkt öðru efni. Þetta hljómræna moll-lag flytur Ása í öll skiptin á sama hátt. Í flutningi Ketils er þessi þula einnig í moll og þó laglínan sé ekki sú sama er blærinn áþekkur. Sólveig heldur sig í flutningi á þessari þulu sem fyrr við þulustef 1 sem hún kveður eins og stökurnar af yfirvegun og festu.

  Vappaðu með mér Vala í flutningi Ketils

  Vappaðu með mér Vala í flutningi Sólveigar

Hér má til gamans geta þess að systkinin Sólveig og Ketill fara á mjög svipaðan hátt með þulubrot um kisuna sem fór á lyngmó. Þetta var það eina sem höfundur fann í upptökum þeirra systkina sem Ása kannaðist ekki við. Aftur á móti kann hún styttri útgáfu af ferðalagi kisu.

  Þulubrot um kisu í flutningi Sólveigar

  Þulubrot um kisu í flutningi Ketils

  Þulubrot um kisu í flutningi Ásu

Túlkunin á þulunum sýnir mjög sterka munnlega geymd:

 • Eitt þululag er ríkjandi byggt á stuttum stefjum með litlu tónsviði sem eru endurtekin með tilbrigðum aftur og aftur.

 • Stef 1 er yfirleitt í upphafi.

 • Laghrynur í flutningi þulunnar er líkur hrynjandi þulunnar í mæltu máli.

 • Stef 2 er notað til að brjóta upp og setja blæbrigði á laglínuna.

Út frá framangreindu er hér sett fram sams konar tilgáta og með stemmurnar, þ.e. að um sé að ræða formúluaðferð en nú ekki eingöngu hvað varðar hryninn heldur einnig laglínuna, þ.e. stefin eru formúla sem flytjandi hefur á hraðbergi, uppistaða sem gripið er til, prjónað við og spunnið út frá eftir þörfum. Hér birtist tónhugsun sem felur í sér virkni þar sem hugsað er í og með tónum í tengslum við ákveðna formgerð.

Þulurnar, bæði ljóð- og tónmál, bera sterk einkenni sama uppruna um leið og persónueinkenni flytjendanna þriggja endurspeglast í flutningnum. Hjá Katli er púlsinn (taktslagið) hraðari en hjá Ásu og Sólveigu og laglínan á stundum nær talmáli en söng. Kveðandi Sólveigar er yfirveguð og sami blær á öllum flutningi hennar. Tjáning Ásu er litríkari, t.d. skiptir hún í þululögunum meira á milli stefja 1 og 2 en faðir hennar og föðursystir. Stór hluti tónefnisins er fluttur í talraddarlegu, t.d. kveður Sólveig stemmurnar (þulustef 1) mest í litlu áttundinni í Fís-dúr, F-dúr og E-dúr. Athygli vekur að endurtekinn flutningur sama tónefnis er oft í sömu tónlegu. Þannig flytur Ása Vappaðu með mér Vala oftast í c-moll. Sjá einnig umfjöllun um Vinduteininn og Hættu að gráta Mangi minn í kaflanum um stemmurnar.

Þegar litið er í heild á upptökurnar sem spanna 30 ára tímabil má greina stöðugleika sem lýsir sér í sama eða svipuðu tónmáli sem mótað er af ákveðnum stíl. Sterk tónhugsun og minni kemur fram í því að geta kallað fram án nokkurs undirbúnings ljóð og lag. Jafnframt er breytileiki ríkjandi sem undirstrikar eðli tónlistar í munnlegri geymd, þ.e. að hver flutningur er að einhverju leyti endursköpun. Ljóðmálið er fastmótað og setur ákveðinn ramma en tónmálið hefur frelsi innan þessa ramma. Þarna kristallast munnleg geymd í sinni tærustu mynd.

Efnisyfirlit

Lokaorð

Ása ólst upp í gjöfulu umhverfi varðandi kveðskap og söng. Hugarþjálfunin, sem fólst í að læra stökur, kvæði og þulur, byrjaði snemma og var mikilvægur hluti uppeldisins. Það vekur athygli hversu mikið var sungið á heimilinu, t.d. tekur Ása fram að alltaf hafi verið notaðar stemmur þegar kveðist var á. Þessi menningarhefð sem ræktuð var í dagsins önn styrkti meðfætt tónnæmið strax á unga aldri, ljóð- og tónmál Ásu og systkina hennar þroskaðist í jákvæðu umhverfi sem var mótað af og mótaði sjálft ákveðna menningu.

   Menningarhefð

Kveðskapurinn og sönglistin var börnunum á Ytra–Fjalli náms- og þroskaleið, hvetjandi samskiptaform í dagsins önn. Stökurnar eru að stórum hluta smámyndir þar sem kveðið er um börn og umhverfi þeirra. Í stökunum felast líka huggunarorð, hugsuð til að sefa eða svæfa. Einnig koma fyrir ógnvaldar eins og Boli og Grýla. Þulurnar eru leikur að orðum, þær hafa að geyma frásagnir þar sem ekki er alltaf auðvelt að henda reiður á söguþræðinum. Aðspurð hvort barnshugurinn hafi tengt efnið að einhverju leyti við umhverfið svaraði Ása með dæmum um Grýlu; Bokka og Brúsaskegg.

   Grýla         Bokki         Brúsaskeggur

Margt hefur breyst í samfélaginu á þeim tíma sem liðinn er frá því að Ása og systkini hennar kváðust á í gamla torfbænum á Ytra–Fjalli. Spyrja má hvort ljóð- og tónmálið sem þau tileinkuðu sér í bernsku eigi erindi við ungviði tuttugustu og fyrstu aldar sem unir sér við Barbí og Batman á meðan hlustað er í iPod-inum á nýjustu lögin af alþjóðlegum vinsældalistum. Aðgengi að hljóðrituðu efni í tali og tónum er orðið allt annað en var og mikið af nýju efni sem tengist nútímanum er gefið út sérstaklega handa börnum. Þrátt fyrir mikið framboð er staðreynd að efni eins og það sem hér hefur verið til umræðu höfðar enn sem fyrr til barna. Þulur, kveðnar með taktfastri hrynjandi, hafa fylgt íslenskum börnum fram á þennan dag og munu gera það áfram fái þau tækifæri til að kynnast þeim. Enn njóta ung börn þess að setið sé með þau og raulað. Í slíkum tilvikum eru stemmurnar kjörið söngefni. Auk þess er hér verðugur efniviður fyrir nýsköpun, t.d. nýjar vísur við stemmurnar sem og söng- og hljóðfæraútsetningar við þær jafnt sem þululögin.

Þegar laglína er skráð í nótur eða hljóðrituð festist ein mynd. Hún er gagnleg til þess að hægt sé að syngja eða spila eftir henni, t.d. fleiri saman en síbreytileikinn og þar með líf munnlegu geymdarinnar hverfur við skráninguna. Þetta ber að hafa í huga í sambandi við nótnadæmin sem hér eru kynnt. Þessar tónperlur eru þannig að vissu marki að eignast nýtt líf þar sem endursköpun þeirra verður undir öðrum formerkjum.

Á komandi ári stendur til að gefa út söngvasafn ætlað til notkunar í leikskólastarfi. Þar verður meðal annarra sönglaga hluti af því efni sem hér hefur verið kynnt. Þannig vonast höfundur til að ljóð- og tónmálið frá Ytra–Fjalli eigi eftir að lifa áfram og syngja sig inn í vitund uppvaxandi kynslóðar.

Efnisyfirlit
 

Tilvísanir

 1. Eitt stærsta fyrirtækið á þessum markaði er bandaríska fyrirtækið Muzak sem hefur sérhæft sig í að framleiða slíka tónlist.

 2. Jón telur að bragarhátturinn skýri þetta oft vel og vitnar í lögin Sá ljósi dagur liðinn er og tvö lög við Keisari nokkur mætur mann (Bjarni Þorsteinsson, 1906–1909:450, 499500).

 3. Bæjarnafnið er skráð með bandstriki en þessi ritháttur er viðtekinn hjá heimafólki, sbr. einnig Ytri-Tunga og Syðri-Brekkur.

 4. Hér skal bent á umfjöllun Gunnsteins Ólafssonar um skráningu kvæðalaga og leitinni að höfundum þeirra í bókinni Silfurplötur Iðunnar (2004:3639).

 5. Dæmi: Stemma nr. 20.

 6. Horfið hefur verið frá þeirri greiningu sem sett var fram í fyrri Netlu-grein að um væri að ræða fjögur stef en þar var stef 1tilbrigði 2 skilgreint sem sérstakt stef.

 

Heimildir

Ása Ketilsdóttir (1984). Gamli bærinn. Árbók Þingeyinga 27:5–7.

Bjarni Þorsteinsson (1906–1909). Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: Carlsbergsjóðurinn.

Blacking, J. (1973). How musical is man? Seattle: University of Washington Press.

Einu sinni átti ég gott (2006). Umsjón með útgáfu Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Smekkleysa; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2006.

Fljúga hvítu fiðrildin: Tónlistartími barnanna. (2001) Þuríður Pálsdóttir syngur. Jórunn Viðar útsetti og leikur með á píanó. Reykjavík: Smekkleysa.

Gordon, E.E. (1997). Learning sequences in music. Chicago: GIA Publications, Inc.

Guðmundur Finnbogason. (1912). Um sönglistina. Hugur og heimur. Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.

Guðmundur Finnbogason. (1914). Ritfregnir. Skírnir — Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 1:89–102.

Gunnsteinn Ólafsson (2004). Skráning kvæðalaga og leitin að höfundum þeirra. Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson. Silfurplötur Iðunnar. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn, Smekkleysa.

Hallgrímur Helgason (1980). Íslenzkar tónmenntir. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur.

Hallgrímur Helgason (1945). Endursagt úr tónheimum. Tónlistin, 4(3–4): 72–74.

Hammerich, A. (1900). Studien über isländische Musik. Leipzig: Breitkopf & Härtel.

Hannes Hafstein (1925). Ljóða-bók. Reykjavík: Útgef. Þorsteinn Gíslason.

Jón Árnason (1862, 1864) Þjóðsögur I–II. Leipzig: Að forlagi J.C. Hinrichs's bókaverzlunar.

Jón Leifs (1922). Íslenskt tónlistareðli. Skírnir – Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 96:130–143.

Jón Samsonarson (2002) Ljóðmál – Fornir þjóðlífsþættir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar.

Íslenskt Söngvasafn I (1915). Safnað hafa og búið til prentunar Sigfús Einarson og Halldór Jónsson. Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.

Íslenskt Söngvasafn II (1916). Safnað hafa og búið til prentunar Sigfús Einarson og Halldór Jónsson. Reykjavík: Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar.

Ljóð og lög – 75 söngvar handa samkórum II. (1947). Þórður Kristleifsson tók saman. Reykjavík: Félagsprentsmiðjan h.f.

Merriam, A.P. (1964). The anthropology of music. Chicago: Northwestern Univerity Press.

Metzler, F. (1950). Tonalität und melodische Struktur der älteren deutschen und nordischen Volksweise. Mit besonderer Berücksichtigung der isländsichen Kleinmelodik. Dokorsritgerð við háskólann í Tübingen, Þýskalandi.

Njáll Sigurðsson (1998). Om den isländska folksmusiken och dess källor. Í Häggman, A.M. (ritstj) Volk och Musik 6:177–211.

Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum. (1949). Friðrik Bjarnason og Páll Halldórsson bjuggu til prentunar [Gefið úr fyrir atbeina fræðslumálastjórnar].

Pétur Björnsson og Rósa Þorsteinsdóttir (2004). Bragfræði rímna. Silfurplötur Iðunnar. Ritstj. Gunnsteinn Ólafsson. Reykjavík: Kvæðamannafélagið Iðunn, Smekkleysa.

Raddir: Ómennskukvæði, ókindarkvæði, Grýlukvæði, rímur, sagnadansar, drykkjuvísur, þulur, barnagælur og önnur íslensk þjóðlög. (Án ártals) Reykjavík: Smekkleysa; Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, s.a.

Radocy, R.E. og Boyle, D. (1997). Psychological foundations of musical behavior. Springfield: Thomas.

Rósa Þorsteinsdóttir (2000). Þulur og barnagælur. Í Davíð Ólafsson og Úlfhildur Dagsdóttir (ritstj). Orðið tónlist. Reykjavík: Smekkleysa.

Sigríður Pálmadóttir (2002). Barnagælur og þulur. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. 9. janúar 2002. http://netla.khi.is/greinar/2002/002/index.htm

Sloboda. J.A. (1985). The musical mind – The cognitive psychology of music. Oxford: Clarendon Press.

Steingrímur Thorsteinsson (1924). Ljóðaþýðingar. Reykjavík: útgef. Axel Thorsteinsson.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1949). Íslenzk þjóðlög. Edinburgh: Pentland.

Sveinn Skorri Höskuldsson (1993). Benedikt á Auðnum: Íslenskur endurreisnarmaður. Reykjavík: Mál og menning.

Söngbók hins íslenzka stúdentafjelags (1894). Reykjavík: Hið íslenzka stúdentafjelag.

Theodora Thoroddsen (1914). Þulur. Skírnir – Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 4:413–420.

Trainor L.J. og Schmidt L.A. (2004). Processing Emotions induced by Music. Í Peretz I. og R. Zatorre (ritstj.) The cognitive neuroscience of music. Oxford: Oxford University Press.

Vísnabókin (1946). Vísurnar valdi Símon Jóh. Ágústsson. Reykjavík: Iðunn.

Yelena Sesselja Helgadóttir (2000) Heimur og hlutverk þulna. Reykjavík: Óbirt handrit, styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Ögmundur Helgason (1989). Lausavísur. Þjóðmenning VI Munnmenntir og bókmenning. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.

Efnisyfirlit     Prentútgáfa     Viðbrögð