Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Kennaraháskóli Íslands

Ritrýnd grein birt 17. október 2007

Greinar 2007

Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ólafur H. Jóhannsson

Deildarstjórar í grunnskólum

Hver er afstaða skólastjóra og kennara
til deildarstjórastarfsins, hlutverks þess
og mikilvægis?

Í greininni er rætt um niðurstöður rannsóknar á afstöðu skólastjóra og kennara til starfa deildarstjóra í grunnskólum. Rannsóknin var gerð haustið 2005 og þátttakendur voru skólastjórar og kennarar í grunnskólum á Íslandi þar sem deildarstjórar starfa. Úrtakið var 785 kennarar í 22 grunnskólum og svöruðu 539 eða um 69%. Allir skólastjórar sem hafa starfandi deildarstjóra voru með í rannsókninni, eða 78 talsins, og svöruðu 52 eða um 67%. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru viðhorf skólastjóra og kennara til starfa deildarstjóra jákvæð. Skólastjórar eru þó ánægðari með störf deildarstjóra en kennarar. Fleiri skólastjórar en kennarar telja ábyrgð og völd deildarstjóra mikil og að gæði skólastarfsins hafi aukist með tilkomu þeirra. Einnig telja fleiri skólastjórar en kennarar að störf deildarstjóranna séu mikilvæg fyrir gæði skólastarfsins og að skólum sé betur stjórnað með tilkomu þeirra. Samskipti skólastjóra við deildarstjóra eru mikil og mun meiri en samskipti kennara við deildarstjóra. Kennarar þekkja ekki nægilega vel til starfa deildarstjóra og er þörf á að upplýsa þá betur um þau efni.

Fyrsti höfundur er verkefnastjóri hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og er greinin byggð á meistaraprófsritgerð hennar við Kennaraháskóla Íslands þar sem hinir höfundar greinarinnar leiðbeindu um ritgerðina.
 

Department heads: Headmasters’ and teachers’ view
of the work of middle managers

The research, based on a questionnaire, was done in 2005 and participants were headmasters and teachers in basic schools in Iceland that have middle managers. The sample included 785 teachers in 22 basic schools (response rate 69%) and the headmasters of all basic schools that have middle managers (response rate 67%). The results show that headmasters’ and teachers’ view of the work of middle managers is very positive, especially the headmasters view. Both headmasters and teachers believe that the middle managers have a great responsibility and power and that the quality of schooling has increased after launching middle management structure in the schools. They also believe that the management of their schools has improved. The interaction between headmasters and middle managers is more frequent than between teachers and middle manager. Some of the teachers are not fully aware of the work done by the middle managers and there seems to be a need to improve the cooperation between these two groups.

Baksvið rannsóknarinnar

Stjórnun skóla hefur breyst á fremur stuttum tíma frá því að gegna aukahlutverki í það að skipa þýðingarmikið aðalhlutverk. Áður fyrr var dæmigerður barnaskóli fámennur vinnustaður þar sem störfuðu einn til tveir kennarar. Skólastjórinn var aðalkennarinn við skólann og sinnti stjórnunarstörfum í hjáverkum. Með fólksfjölgun og byggðaþróun á tuttugustu öldinni hefur skólinn breyst í fjölmennan vinnustað með mörg hundruð börnum og stórum starfsmannahópi. Starf skólastjóra hefur að sama skapi breyst úr því að vera viðbót við hefðbundin kennslustörf í aðalstarf (Börkur Hansen og Smári S. Sigurðsson, 1998).

Störf árganga- og fagstjóra voru innleidd í íslenska grunnskóla í lok níunda áratugar síðustu aldar (Lög um grunnskóla nr. 87/1991) með því að sveitarfélög heimiluðu skólastjórnendum að nýta sérstakt viðbótarfjármagn til aukinnar stjórnunarhlutdeildar. Með kjarasamningunum frá 1. janúar 2001 voru þessi störf lögð niður og starfsheitið deildarstjóri tekið upp. Fyrirmæli af hálfu yfirvalda um ráðstöfun aukinna stjórnunarheimilda voru ekki ítarleg og var skólum veitt umtalsvert sjálfstæði við útfærslu. Litið var á þessi störf sem miðstöð þróunar fyrir nám og kennslu innan skólanna. Við bættist lag í valdapíramídann milli skólastjóra og hins almenna kennara. Með tilkomu árganga- og fagstjóra jókst verkaskiptingin og boðleiðirnar urðu lengri innan skólanna að mati þeirra Barkar Hansen og Smára S. Sigurðssonar (1998). Eitt af markmiðum grunnskólalaganna frá 1995 var að gera grunnskólana að sjálfstæðari stofnunum en áður hafði verið með því að færa vald og ábyrgð sem næst þeim sem eiga að njóta þjónustunnar (Lög um grunnskóla nr. 66/1995). Ákvarðanir um daglegan rekstur og þjónustu voru þar með komnar sem næst vettvangi. Skólastjórnendum og sveitarstjórnarmönnum var þannig í sjálfsvald sett hvernig þeir ráku og þróuðu sína skóla svo fremi sem starfið var í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá (Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir, 2002).

Könnun Barkar Hansens og félaga (2002), sem gerð var meðal skólastjóra í grunnskólum árið 2001, leiddi í ljós mikla ánægju skólastjóra með áhrif þeirrar stefnu sem mörkuð var með grunnskólalögunum frá 1995, að auka sjálfstæði skóla með flutningi hans frá ríki til sveitarfélaga. Yfirgnæfandi meirihluti skólastjóranna telur að flutningurinn hafi aukið möguleika grunnskólans til að móta innra starf sitt. Til að kanna frekar þessi áhrif gerðu sömu fræðimenn rannsókn árið 2004 á viðhorfum kennara, foreldra, millistjórnenda og skólastjórnenda í fjórum skólum (Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir, 2004). Niðurstöður leiddu m.a. í ljós að kennarar töldu hlutverk skólastjóra hafa breyst mikið frá því sem áður var og að þeim gæfist ekki nægur tími til að sinna faglegu forystuhlutverki. Sá hluti starfsins væri kominn á borð millistjórnenda. Kennarar töldu að meiri breytinga hefði verið að vænta með tilkomu millistjórnenda og þrátt fyrir aukinn stjórnunarkvóta dygði það ekki til að sinna auknum verkefnum. Skólastjórnendur virtust vera að fjarlægjast kennara í umræðunni um faglegt starf og sums staðar virtist það sama vera að gerast milli kennara og millistjórnenda. Að mati kennaranna beindist vinna skólastjóra og millistjórnenda í of ríkum mæli að rekstrarlegum þáttum á kostnað náms og kennslu.

Í ljósi þessa er forvitnilegt að skoða viðhorf millistjórnendanna sjálfra en Laufey María Hreiðarsdóttir (2002) gerði rannsókn meðal 36 millistjórnenda (grunnskólakennara) í grunnskólum tveggja þéttbýliskjarna í tveimur fræðsluumdæmum. Spurningalisti var lagður fyrir kennarana en einnig voru tekin viðtöl við skólastjórnendur þessara sömu skóla. Niðurstöður gáfu vísbendingar um að ýmsir þættir innan grunnskólanna sem sneru að millistjórnendum þörfnuðust úrbóta. Álagsþættir í starfsumhverfinu virtust helst leiða til óánægju í starfi hjá millistjórnendum. Þar voru óskýrar starfslýsingar, slök boðskipti milli þeirra og skólastjórnenda og mikil kennsluskylda á kostnað stjórnunarstarfsins nefndar sem ástæður óánægjunnar. Auk þess nefndu þátttakendur að lítið samstarf væri á milli millistjórnenda og að þeirra mati virtist sérþekking þeirra ekki vera nýtt sem skyldi af skólastjórnendum.

Í rannsókn á störfum deildarstjóra í grunnskólum landsins vorið 2004 (Sigríður Anna Guðjónsdóttir, 2004) lýstu 72% allra starfandi deildarstjóra á landinu störfum sínum. Spurt var um þau störf sem deildarstjórarnir hefðu unnið áður en þeir urðu deildarstjórar og kom í ljós að langflestir höfðu starfað við kennslu, eða um 80%. Nokkuð var um að þeir hefðu unnið við fagstjórnun, stigsstjórnun og árgangastjórnun áður en þeir gerðust deildarstjórar. Flestir deildarstjóranna voru kennaramenntaðir og einungis lítill hluti með stjórnunarmenntun (Sigríður Anna Guðjónsdóttir, 2004).

Tæplega helmingur deildarstjóra var óánægður með launin (43%) en meirihlutinn var ánægður með starfið (73%) og vinnuaðstöðuna (66%). Deildarstjórar höfðu áhyggjur af því að geta ekki sinnt starfi sínu sem skyldi enda verkefnin mörg og starfið erilsamt. Þessar niðurstöður eru samhljóma niðurstöðum í rannsókn Laufeyjar hér að framan. Verkefni deildarstjóra reyndust fjölþætt og þeir höfðu gjarnan umsjón með fundum, samhæfingu á stigi, agamálum, skólanámskrá og þróunarverkefnum ásamt fjölda annarra verkefna. Skýrar starfslýsingar lágu sjaldan fyrir sem hugsanlega var orsök þeirra miklu anna sem margir nefndu að gerði starf deildarstjóra þungt í vöfum. Deildarstjórar eiga samskipti við fjölda nemenda, kennara og foreldra yfir daginn og þurfa að bregðast við ólíkum þörfum þessa breiða hagsmunahóps grunnskólanna. Þegar deildarstjórar voru spurðir að því hvort viðhorf samstarfsmanna þeirra til starfsins væri jákvætt eða neikvætt kom í ljós að mikill meirihluti, eða um 83%, taldi viðhorfið jákvætt. Deildarstjórar höfðu yfirleitt lítinn áhuga á frekari frama í stjórnun innan grunnskólanna og einungis um þriðjungur þeirra lýsti yfir áhuga á stöðuhækkun. Niðurstöður bentu til þess að stefna og markmið varðandi starf deildarstjóranna hafi yfirleitt ekki verið skýrt skilgreind og þegar deildarstjórastaðan var tekin upp var víða ekki búið að móta neina stefnu um vinnutilhögun eða lýsingu á starfinu (Sigríður Anna Guðjónsdóttir, 2004).

Árangursrík stjórnun

Gæði skólastarfsins ráðast af flóknu samspili fólks þar sem viðhorf, hugsanir, hlutverk, vald, menning og félagslegar aðstæður koma við sögu. Forysta og stjórnun eru lykilatriði svo árangur náist í skólastarfi og hlutur skólastjórnenda margslunginn. Forysta felst m.a. í því að virkja þekkingu, hæfileika og reynslu sem flestra starfsmanna í verkefnum skólans. Skólastjórnendur þurfa að finna leiðir sem stuðla að samábyrgð og samstarfi allra starfsmanna er leitt geta til varanlegra umbóta í skólastarfinu. Árangursríkt skólastarf er m.a. talið einkennast af stjórnun þar sem markmiðum skóla er fylgt fast eftir af stjórnendum og þar sem stöðug leit fer fram að bættum starfsháttum nemendum til góða (Sergiovanni, 2001).

Eitt af höfuðeinkennum árangursríkrar stjórnunar er geta stjórnenda til þess að skilgreina stöðu sína. Til þess að svo megi verða þurfa þeir að gera greinarmun á breytilegum hlutverkum sínum í dagsins önn. Það er því grundvallaratriði að þeir skilji hvað starfið felur í sér (Blandford, 1997). Því miður benda fyrri rannsóknir (Laufey María Hreiðarsdóttir, 2002; Sigríður Anna Guðjónsdóttir, 2004) til þess að staða millistjórnenda hér á landi sé ekki nógu vel skilgreind.

Markviss forysta er talin veigamikil forsenda fyrir framþróun í skólastarfi og fyrir því að árangur umbóta nái að festast í sessi. Forysta og stjórnun eru þó ekki samheiti. Hægt er að stjórna stofnun án þess að veita henni forystu og hægt er að hafa forystu um ýmis mál án þess að fylgja þeim eftir með skipulegum stjórnunarháttum. Árangursrík stjórnun er þó vart talin möguleg án þess að fela í sér annars vegar leiðsögn og hins vegar forgöngu um að móta stefnu og aðgerðir sem miða að því að framfylgja áætlun og stöðugleika (Rúnar Sigþórsson o.fl., 1999).

Til þess að skilja hvað felst í árangursríkri skólastjórnun er nauðsynlegt að átta sig á tilgangi hennar. Skólastjórnendur skapa sýn og setja stofnunum sínum markmið. Til að stofnun nái að blómstra og vaxa þarf að vera ákveðin sýn innan hennar sem grundvallast á því markmiði að árangur náist á fyrirfram ákveðnum sviðum. Með því að hafa skýra sýn er skólastjórnendum fært að skapa og koma á framfæri eftirsóttum markmiðum sem leitt geta til hollustu starfsmanna stofnunarinnar og bjartrar framtíðar hennar (Sergiovanni, 2001).

Þeir sem eru næstir skólastjóra að völdum, þ.e.a.s. millistjórnendur, eru oft á tíðum mikilvægustu hlekkirnir þegar kemur að bættum kennslu- og námsþáttum vegna nálægðar sinnar við nemendur, kennara og skólastarfið í heild (Sergiovanni, 2001). Samkvæmt skilgreiningu Blandford (1997) er millistjórnandi kennari sem er stigsstjóri eða fagstjóri sérkennslu eða deildarstjóri sem starfar í umboði skólastjóra og fer með vald sem skólastjóri felur honum.

Gold og Evans (2002) vitna í John Sayer þar sem hann lýsir millistjórnendum sem „þröngri síu milli kennslu og náms í skólanum og reksturs hans“. Staða millistjórnenda í skólum getur verið flókin og valdið togstreitu. Þeir tengjast yfirstjórn upp á við, kennurum og öðru starfsfólki niður á við og innbyrðis hver öðrum. Hættan á að einangrast er fyrir hendi í lagskiptu kerfi skólanna. Gold (1998) bendir á að hæfileikar millistjórnenda og hugmyndir þeirra um menntun og nám séu lykilatriði þegar kemur að samskiptum við hina ýmsu hópa innan skólanna. Þess vegna þurfi að hlúa sérstaklega að þessum hópi stjórnenda svo að þeir nái að styrkjast og þroskast í starfi.

Störf millistjórnenda í skólum snúast að miklu leyti um að samhæfa og samstilla hina ýmsu þætti í starfsemi skólanna í takt við þá stefnu sem mörkuð hefur verið. Þessi störf eru að ýmsu leyti vandasöm. Til þess að vel takist til þurfa millistjórnendur að hafa góða þekkingu á skólastarfi í heild ekki síður en þeim afmörkuðu viðfangsefnum sem þeir þurfa að sinna. Færni í mannlegum samskiptum ræður miklu eins og hjá öllum sem taka að sér stjórnun og forystu (Rúnar Sigþórsson o.fl., 1999).

Tilkoma millistjórnenda hefur leitt til þess að einu lagi hefur verið bætt í valdapíramídann innan skólanna. Bilið milli skólastjóra og kennara hefur því aukist frá því sem var. Mörg verkefni sem áður tilheyrðu skólastjórum eru komin í hendur millistjórnenda og ný verkefni hafa bæst við. Þessi skipan mála felur í sér meiri valddreifingu og verkaskiptingu, valdapíramídinn hækkar og boðleiðirnar lengjast. Með þessu móti eykst ábyrgð millistjórnenda en ábyrgð skólastjóra dreifist (Blandford, 1997). Slík valddreifing útheimtir að stjórnendur, skólastjórar jafnt sem deildarstjórar, búi yfir heildarsýn og hæfni svo þeir geti greint helstu þræði starfsins skólanum til framdráttar.

Millistjórnendur í skólum þurfa að tileinka sér jákvæða stjórnunarhætti og gott siðferði og mynda tengsl við starfsfólkið. Þeirra starf og staða á ekki að einkennast af því að „vera allt fyrir alla“, heldur þurfa þeir að tileinka sér sinn eigin stíl sem uppfyllir skilgreindar þarfir. Lykillinn að farsæld í starfi er að vita til hvers er ætlast. Millistjórnendur þurfa að greina og hanna starfið eftir þörfum, meta það sem vel er gert og læra af því sem miður fer. Það hjálpar til við að skilja stöðuna gagnvart meðstjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki skóla. Það er mikilvægt fyrir millistjórnendur að hlutverk og starfsskilyrði séu tilgreind í starfslýsingu þeirra. Skýrleiki er nauðsynlegur til þess að komast hjá ruglingi og þannig má koma í veg fyrir óþarfa vandamál í stjórnun skólanna (Blandford, 1997).

Valddreifing er talin ein forsenda þess að umbætur í skólastarfi nái fram að ganga. Skólastjóri þarf að fela starfsmönnum sínum vald og ábyrgð svo að gæði skólastarfsins, ánægja starfsfólks og virkni aukist (Sergiovanni, 2001). Fullan (1997) telur verkefni skólastjóra hafa aukist til muna og leiðin til þess að komast yfir þau öll sé að dreifa valdi. Með því móti gefst honum tækifæri til þess að treysta starfsmönnum fyrir verkefnum sem annars væru á hans borði og fylgjast með gangi mála í stað þess að sitja einn uppi með verkefnin og ábyrgðina. Dreifistýring og valddreifing (e. decentralization/ power sharing) eru einmitt einkennandi þættir í skólum sem sýna góðan árangur við að innleiða nýjungar í skólastarfi. Í slíkum skólum eiga skólastjórarnir oftar en ekki hugmyndirnar að nýjungum en fela þær starfsmönnum sínum og styðja við frumkvæði meðstjórnenda jafnt og annarra hópa við að koma þeim á fót. Samvinna starfsmanna leiðir til samábyrgðar og eykur líkurnar á því að verkefnin nái fótfestu.

Niðurstöður rannsóknar (Schmidt, 2000) sem gerð var meðal deildarstjóra í grunnskólum í Kanada bentu til þess að spenna milli þeirra sem kenna og þeirra sem fara með stjórnina byggðist upp á væntingum til þeirra sem fara með völdin. Samskiptin leiddu til tilfinningalegs óöryggis meðal deildarstjóranna vegna þess að staða þeirra og valdsvið var ekki nógu skýrt. Sá stuðningur sem deildarstjórar fengu hafði afgerandi áhrif á upplifun þeirra á persónubundnu valdi sínu og valdi annarra. Jákvæðar og neikvæðar tilfinningar gagnvart starfinu voru afdráttarlaust tengdar hvatningu eða fortölum sem þeir töldu sig fá frá samstarfsfólki, þá sérstaklega frá skólastjórum. Margir sem tóku að sér deildarstjórastöðu töldu sig ekki fá þann stuðning sem þeir þurftu til þess að takast á við breytingarnar og fannst þeir vera komnir í stjórnunarstöðu með óskýra starfslýsingu og óskilgreint valdsvið. Þeir sem töldu sig ekki hafa stuðning skólastjóranna fundu sig illa í starfinu og margir upplifðu rof á tilfinningatengslum við samstarfsfólk sem leiddi til óöryggis. Þeir sem upplifðu aftur á móti að þeir fengju hvatningu og velþóknun frá samstarfsfólki, og sérstaklega frá skólastjórunum, fyrir störf sín töldu sig færa í flestan sjó og hafa það vald sem þeir þyrftu til þess að sinna starfinu með sóma.

Til að leiðtogahæfileikar fái notið sín innan stofnunar er ekki vænlegt til árangurs að beita formlegu valdi eingöngu. Nauðsynlegt er að blanda saman formlegu og óformlegu valdi. Með því að treysta samstarfsmönnum sínum, fagmennsku þeirra og hollustu, og sýna þeim stuðning í störfum þeirra er líklegra að leiðtoginn nái að laða fram það besta hjá sínu fólki og nái þannig meiri árangri í starfi en ella (Hoy og Miskel, 2001).

Leiðin að stjórnunarstarfi

Kennurum gefast ekki mörg tækifæri til stjórnunarstarfa innan skólakerfisins. Leiðin að stjórnunarstarfi er ekki greið og oftast fá kennarar stjórnunarstöður eftir áralanga kennslu og afskipti af skólamálum (Usdan, McCloud og Podmostko, 2001).

En hvað eiga þeir kennarar sameiginlegt sem farsællega hafa tekið að sér stjórnun innan sinna skóla? Þrír þættir virðast standa þar upp úr. Þeir hafa allir ákveðin markmið sem virka hvetjandi á aðra. Þeir hafa ákveðna sýn á hvernig þeir vilja sjá skóla sína þróast og vinna af ástríðu og þrautseigju að brautargengi hennar. Þeir líta jákvæðum augum á þær breytingar og þann árangur sem næst í skólasamfélaginu hverju sinni, taka heils hugar og glaðir þátt í því sem ávinnst en dvelja ekki við það sem ekki næst fram (Barth, 2001).

Tækifæri til að taka þátt í stefnumótun stofnunar er talið hafa jákvæð áhrif á starfsmenn og áhuga þeirra á málefnum hennar (Sergiovanni, 2001). Undanfarin ár hefur starf kennarans orðið æ viðameira og flóknara. Aukin ábyrgð fylgir kennarastarfinu þar sem m.a. foreldrasamstarf og undirbúningsvinna hefur stóraukist. Það er almennt viðurkennt að hlutur kennarans í uppeldi nemendanna sé orðinn meiri og krafa um faglega endurmenntun er mikil. Verkefnalistinn er langur og mörgum finnst ekki á ábyrgðina bætandi. Flestir kjósa því að kenna fremur en að taka að sér stjórnunarstörf.

Mikilvægur þáttur í þessari umræðu er tíminn eða öllu heldur tímaskorturinn. Kennarar eru hlaðnir störfum og telja sig ekki hafa tíma til að bæta við sig fleiri skyldum. Þegar kennarar standa frammi fyrir því að taka að sér störf sem krefjast tíma og fyrirhafnar er líklegt að þeir telji launin fyrir slíka vinnu ekki í samræmi við vinnuframlagið. Margir neita því slíkum boðum (Barth, 2001).

Lífið fyrir utan skólann er líka krefjandi og tímafrekt. Mikill meirihluti kennara eru konur sem bera yfirleitt einnig ábyrgð á sínum eigin börnum. Flestir þurfa að sinna sínum nánustu, halda heimili og standa sig í hraða nútímans og hluti kennara vinnur auk þess aðra vinnu með kennarastarfinu. Allt þetta, ásamt ýmsum fleiri tengdum þáttum, dregur úr áhuga á að taka á sig meiri ábyrgð (Barth, 2001).

Fyrir marga kennara virðast samkennarar vera aðalfyrirstaða þess að þeir taki að sér stjórnun innan skólans. Margir sem hafa tekið að sér stjórnunarstörf telja sig hafa orðið fyrir höfnun frá félögunum. Kennarar telja sig ekki fá jákvæða svörun frá samkennurunum eða óttast að fá hana ekki. Kennarar eiga að kenna og stjórnendur eiga að stjórna er viðkvæði sem oft heyrist (Barth, 2001).

Rannsóknir (Gold, 1998) hafa sýnt að þeir sem hafa tekið að sér stöður millistjórnenda í skólum hafa átt í erfiðleikum með að skilgreina sig sem stjórnendur, bæði gagnvart sjálfum sér og starfsfélögum sínum. Leitt er getum að því að þetta stafi af því að kennurum stafi ógn af stjórnendum sem vilja koma á formföstu kerfi sem dregur úr sköpunarmætti og árangri í skólastarfinu. Af því sem nú hefur komið fram þarf því ekki að koma á óvart að í rannsókn Gold og Evans (2002) á stöðu stjórnenda í grunnskólum, framhaldsskólum og sérskólum á Englandi hafi þátttakan verið minnst hjá millistjórnendum og svörin frá þeim voru neikvæðari en annarra sem tóku þátt í rannsókninni. Þetta vakti áhuga rannsakenda á að komast að því hvers vegna áhuginn á að svara var lítill og hvers vegna svörin frá þessum hópi voru eins neikvæð og raun bar vitni. Þær rannsökuðu sérstaklega þennan hóp ásamt fleirum og komust að þeirri niðurstöðu að tengsl eru á milli streitu og áhugaleysis margra millistjórnenda á frekari stöðuhækkun. Þrjár ástæður voru helst gefnar fyrir því að millistjórnendur vildu ekki stöðuhækkun. Í fyrsta lagi að það myndi leiða til of mikillar pappírsvinnu, í öðru lagi að það myndi leiða til of mikillar fjarveru frá fjölskyldu vegna vinnuálags og í þriðja lagi að það hefði í för með sér litla sem enga vinnu með börnum. Einnig kom fram að þriðjungur millistjórnenda taldi að meiri ábyrgð innan skólakerfisins væri líkleg til að auka streitu í starfi. Í sömu rannsókn kom fram að aldur hafði áhrif á áhuga á stöðuhækkun. Því eldri sem svarendur voru því minni áhuga höfðu þeir á að gerast aðstoðarskólastjórar eða skólastjórar. Aftur á móti höfðu 95% yngri svarendanna áform um stöðuhækkun.

Millistjórnendur verða að búa yfir ákveðnum hæfileikum til að geta sinnt starfi sínu sem skyldi. Löngunin og getan til að taka þátt í markmiðssetningu og eiga hlut að máli í að greiða fyrir því að framtíðarsýn skóla nái fram að ganga eru nauðsynlegir eiginleikar sem millistjórnendur í skólastarfi á nýrri öld þurfa að hafa. Þeir verða að líta á stjórnunina sem ferli og skólann sem skipulagsheild og þurfa að þróa með sér tilfinningu fyrir mannlegum samskiptum sem leitt geti til árangursríks skólastarfs. Menntun og þjálfun millistjórnenda er brýn og talin forsenda þess að þeir nái tökum á verkefnunum og verði farsælir í starfi (Brown, Boyle og Boyle, 2002). Hlutdeild skólastjóra í mótun hlutverks millistjórnenda skiptir ekki síður máli. Þeir eru í lykilaðstöðu til að stýra þeirri þróun sem talin er nauðsynleg til þess að störf millistjórnenda verði farsæl, þ.e. að millistjórnendurnir viti til hvers er ætlast af þeim og að þeir upplifi sig sem hluta af stjórnunarteyminu. Samvinna skólastjóra og millistjórnenda, þar sem ígrundun og gagnrýnin hugsun er höfð að leiðarljósi, er talin líkleg til að skila árangri og framþróun í skólastarfi (Blandford og Gibson, 2000).

Rannsókn á stöðu og störfum millistjórnenda í grunnskólum í Englandi (Wise og Bennett, 2003) styður þá hugmynd að sérhanna þurfi nám fyrir þessa starfsmenn. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu m.a. í ljós að sú menntun og þjálfun sem millistjórnendur höfðu fengið til þess að efla sig í starfi höfðu ekki skilað miklum breytingum né framþróun á stöðu þeirra innan skólanna. Fleiri rannsóknir styðja þessar vísbendingar og niðurstöður Office for standards in education (1998) benda til þess að þjálfun millistjórnenda sé af skornum skammti.

Með auknum stjórnunarkvóta til skólanna hafa væntingar um faglegra og metnaðarfyllra skólastarf aukist og spjótin beinast að deildarstjórunum. Þeir eru millistjórnendur skólanna og mikilvægt að átta sig enn frekar á hlut þeirra í skólastarfinu. Því er mikilvægt skref til skilnings að kanna viðhorf skólastjóra og kennara til starfa deildarstjóra.

Aðferð

Þátttakendur

Til þess að leita svara við rannsóknarspurningunni Hver er afstaða skólastjóra og kennara til deildarstjórastarfsins, hlutverks þess og mikilvægis var ákveðið leggja spurningakönnun fyrir hóp kennara í grunnskólum með starfandi deildarstjóra og fyrir skólastjóra allra grunnskóla þar sem starfa deildarstjórar.

Spurningalisti

Saminn var sérstakur spurningalisti sem lagður var fyrir kennara og skólastjóra. Til hliðsjónar var spurningalisti úr rannsókn Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur (2004) þar sem leitað var eftir skoðunum deildarstjóra á þeirra eigin starfi, ábyrgð og áherslum. Listinn var forprófaður með aðstoð átján kennara og skólastjóra í einum grunnskóla og í framhaldi af prófuninni var orðalag og skipulag spurningalistans endurskoðað.

Í þessari grein verður gerð grein fyrir spurningum listans sem lúta að afstöðu skólastjóra og kennara til starfa og hlutverka deildarstjóra og því hvort áhugi á deildarstjórastöðu sé fyrir hendi.

Framkvæmd

Dregnir voru út 23 skólar af handahófi, lagskipt eftir kjördæmum. Bréf var sent til skólastjóra þessara skóla þar sem óskað var eftir að fá að heimsækja og leggja spurningalista fyrir þá sem sinna kennslu og skólastjóra. Á sama tíma var sent bréf til þeirra 55 skólastjóra sem ekki lentu í úrtakinu en hafa starfandi deildarstjóra og þeir beðnir að svara. Í nokkrum skólum reyndist ekki henta að rannsakandi legði spurningalista fyrir og sá þá starfsmaður skólans um fyrirlögn. Spurningalistinn var ýmist lagður fyrir á fundum eða honum dreift til kennara. Reynt var að ná til sem flestra og þeir sem ekki voru mættir eða voru bundnir í öðrum verkefnum fengu afhentan listann við annað tækifæri. Fjöldi kennara í úrtakinu var 785 og af þeim svöruðu 539 spurningalistanum, eða 69%. Allir skólastjórar sem hafa starfandi deildarstjóra voru með í rannsókninni, eða 78 talsins, og svöruðu 52, eða 67%.

Niðurstöður

Rétt er í upphafi að draga upp mynd af þátttakendum en þar voru konur í meirihluta, eða um 78%, en karlar um 22% í hópi kennara en í hópi skólastjórnenda var hlutfallið 52% karlar og konur voru 48%. Flestir þátttakenda voru á aldrinum 35–49 ára eða 42%, 25% voru yngri en 34 ára og rúmlega 33% voru eldri en 50 ára. Enginn skólastjóri var yngri en 35 ára og 76% þeirra voru yfir fimmtugt.

Meirihluti þátttakenda starfar sem kennarar, eða 88%, 9% sem skólastjórar og um 3% nefna annað. Þeir sem merkja við annað eru þroskaþjálfar, námsráðgjafar, aðstoðar¬skólastjórar o.fl. Þátttakendur, aðrir en skólastjórar, vinna flestir á yngsta stigi eða 46%, á miðstigi eru 45% og á unglingastigi 43%. Flestir karlanna, eða 61%, starfa á unglingastigi en flestar konurnar á yngsta stigi, eða rúmlega 50%. Þar sem deildarstjóra starfa aðeins í fjölmennum skóla þarf ekki að koma á óvart að 90% þeirra eru í skólum með 301 nemanda eða fleiri. Þar af eru 10% í skólum með fleiri en 700 nemendur.

Upplýsingum um nánari afmörkun á starfsheitum deildarstjóra í skólum þátttakenda var safnað sérstaklega. Í 73% tilfella segja þátttakendur að í skólanum séu að störfum deildarstjórar stiga, um 38% eru með deildarstjóra sérkennslu og um 17% með deildarstjóra nýbúa. Nokkur starfsheiti féllu í flokkinn annað en þar má nefna deildarstjóra skólavistunar og almennan deildarstjóra.

Mismunandi er eftir svæðum hvers konar aðrir deildarstjórar eru starfandi. Enginn þátttakenda í Suðurkjördæmi er með deildarstjóra sérkennslu en aftur á móti eru 81% þátttakenda í Reykjavík í skólum þar sem eru starfandi slíkir deildarstjórar. Aðeins 6% þátttakenda úr Suðvesturkjördæmi eru með deildarstjóra sérkennslu í sínum skólum. Deildarstjórar nýbúa eru í skólum þátttakenda í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi og deildarstjórar tölvumála eru einungis í skólum þátttakenda í Reykjavík.

Þátttakendur höfðu mislangan starfsaldur að baki í störfum sínum en um 50% þátttakenda hafa verið í 10 ár eða skemur í störfum sínum en fjórðungur hafði starfað í 21 ár eða lengur. Þegar skoðað er hversu lengi þátttakendur hafa starfað við núverandi skóla kemur í ljós að tæplega 74% hafa starfað við skólann í 10 ár eða skemur og um 10% hafa starfað í 21 ár eða lengur.

Mat þátttakenda á störfum deildarstjóra var aðalviðfangsefni þessarar rannsóknar. Einn af þeim þáttum sem skoðaður var í spurningalistanum var hversu vel þátttakendur þekktu til starfa deildarstjóra. Í ljós kom að skólastjórar telja sig þekkja betur til starfa deildarstjóra en kennarar (χ²(4, N=590) = 127,10, p<0,001). Dreifingu svara má sjá á mynd 1 en 95% skólastjóra telja sig þekkja mjög vel eða fremur vel til starfa deildarstjóra og um 59% kennara.

Mynd 1 - Þekking þátttakenda á störfum deildarstjóra.

Spurt var hversu mikil eða lítil samskipti þátttakendur hefðu við deildarstjóra í sínum skóla. Eins og sést á mynd 2 eru samskipti skólastjóra við deildarstjóra tíðari en samskipti kennara við deildarstjóra (χ²(5, N=575) = 93,52, p<0,001) en 93% skólastjóra eiga samskipti við deildarstjóra nokkrum sinnum í viku eða oftar en um 63% kennara. Í ljós kom að meirihluti kennara hefur mikil samskipti við skólastjóra en rúmlega 15% höfðu dagleg samskipti við skólastjóra og tæplega 37% höfðu samskipti nokkrum sinnum í viku.

Mynd 2 - Samskipti þátttakenda við stjórnendur.

Jákvæð fylgni mælist milli þekkingar þátttakenda á störfum deildarstjóra og hversu mikil samskipti þeir hafa við þá (rs(584) = 0,56, p<0,05) og þarf það ekki að koma á óvart. Einnig kom í ljós tengsl í þá átt að þeir sem hafa mikil samskipti við deildarstjóra hafa einnig mikil samskipti við skólastjóra (rs(523) = 0,46, p<0,05).

Þegar skoðað er hversu tíð samskipti þátttakenda, annarra en skólastjóra, eru við deildarstjóra eftir stærð skóla kemur í ljós, eins og sést á mynd 3, að þau virðast minnka eftir því sem skólarnir verða stærri (rs(530) = 0,27, p<0,05). Í skólum með 101−300 nemendur hafa 85% þeirra samskipti daglega eða nokkrum sinnum í viku en um 38% í skólum með fleiri en 700 nemendur. Samskonar tengsl finnast á milli samskipta við skólastjóra og stærðar skóla (rs(583) = 0,24, p<0,01). Þannig hafa 78% kennara í skólum með 101−300 nemendur samskipti daglega eða nokkrum sinnum í viku við skólastjóra en 37% í skólum með fleiri en 700 nemendur.

Mynd 3 - Tíðni samskipta við stjórnendur eftir stærð skóla.

Kannað var hvort samskipti við skólastjóra hafi aukist eða minnkað með tilkomu deildarstjóra. Í ljós kom að rúmlega helmingur telur þau hvorki hafa aukist né minnkað, um 22% telja samskiptin hafa minnkað og 2% að þau hafi aukist.

Þátttakendur voru beðnir að leggja mat á hvaða verkefnum, af þeim sem þeir telja að deildarstjórar eigi að sinna, þeir sinna í þeirra skólum og hvað verkefnum þeir ættu að sinna en sinna ekki núna. Eins og fram kemur í töflu 1 eru skólastjórar í 86−94% tilfella sammála um að kennsla, agamál, samhæfing á stigi og samstarf við heimili nemenda séu verkefni sem deildarstjórar sinni og eigi að sinna. Kennarar eru sammála um að þeir sinni og eigi að sinna þessum störfum í 61−83% tilvika. Nokkuð er um, eða í 10−28% tilvika, að kennarar viti ekki hvort deildarstjórar sinna þessum störfum.

Í 63−80% tilvika eru skólastjórar sammála um að þróunarstörf, umsjón vegna samræmdra prófa, próftöflugerð, námsmat, sérkennslumál, sjálfsmat skóla og umsjón með skólanámskrá séu verkefni sem deildarstjórar sinni og eigi að sinna. Kennarar eru sama sinnis í 42−56% tilvika um að þessi verkefni séu réttilega á borði deildarstjóra, en í 10−44% tilvika vita kennarar ekki hvort deildarstjórar sinni þessum verkefnum.

Önnur verkefni fá minna vægi hjá þátttakendum og nokkuð ber á vanþekkingu kennara á störfum deildarstjóra.

Tafla 1
Mat þátttakenda á því hvaða verkefnum deildarstjórar sinna
og þeim sem þeir sinna ekki en ættu að sinna
Verkefni Sinnir og á að sinna Sinnir ekki en ætti að sinna
Skólastjórar Kennarar Skólastjórar Kennarar

Samhæfing á stigi (samskipti við starfsfólk)*   

89% 

72%

2%

5%

Þróunarstörf*  80% 56% 14% 5%
Námsmat*  72%   46% 5% 4%
Skipulag starfsdaga*  72%   56% 7% 3%
Sérkennslumál*  69%   49% 10% 4%
Sjálfsmat skóla*  66%   51% 14% 2%
Umsjón vegna útgáfu skólanámskrár*  62%   52% 15% 1%
Agamál**  94% 83% 2% 2%
Samstarf við heimili**  94%   61% 0% 4%
Kennsla** 86%    66% 0% 2%
Forföll**  40%   36% 3% 4%
Félagsmál nemenda** 39%    26% 18% 5%
Umsjón vegna samræmdra prófa*** 77%    50% 2% 2%
Prófatöflur***  73%    42% 4% 2%
Stundatöflugerð***  42%   30% 19% 5%
Bókapantanir***  28%    26% 6% 4%

Umsjón með vikutíðindum***

 26%    30% 18% 3%
Umsjón með bóka-
og gagnageymslu***
22%   15% 13% 6%

* Fagleg verkefni **Nemendatengd verkefni ***Skrifstofustörf

Þegar þátttakendur voru beðnir að leggja mat á hvaða verkefnum deildarstjórar ættu að sinna en sinna ekki kemur í ljós að aðeins 1−6% kennara taka afstöðu til þessa liðar eins og sjá má í töflu 1. Skólastjórar eru sammála í 10−19% tilvika um að deildarstjórar ættu að sinna stundatöflugerð, félagsmálum nemenda, umsjón með vikutíðindum, umsjón vegna útgáfu skólanámskrár, þróunarstörfum, sjálfsmati skóla, umsjón með bóka- og gagnageymslu og sérkennslumálum. Önnur verkefni fá minna vægi.

Ljóst er að bæði ábyrgð og völd hvíla á deildarstjórum. Þegar spurt var hversu mikil eða lítil ábyrgð þátttakendur teldu að hvíldi á þeim kemur í ljós að skólastjórar telja ábyrgðina meiri en kennarar (χ²(4, N=574) = 17,71, p<0,001). Rúmlega 88% skólastjóra telja mjög eða fremur mikla ábyrgð hvíla á deildarstjórum og 65% kennara telja svo vera eins og sjá má á mynd 4.

Mynd 4 - Mat þátttakenda á ábyrgð deildarstjóra.

Einnig var spurt um hversu mikil eða lítil völd þátttakendur teldu deildarstjóra hafa og má sjá niðurstöður á mynd 5. Tæplega 73% skólastjóra telja þá hafa mjög eða fremur mikil völd og 42% kennara telja svo vera og er munur á svörum hópanna (χ²(4, N=575) = 6,06, p<0,001).

Mynd 5 - Mat þátttakenda á völdum deildarstjóra.

Ábyrgð og völd fara saman að mati þátttakenda en jákvæð fylgni mælist milli þessara þátta (rs(564) = 0,47, p<0,05), þ.e. því meiri völd sem þátttakendur telja deildarstjóra hafa því meiri ábyrgð telja þeir að hvíli á þeim.

Þegar spurt er um ánægju með störf deildarstjóra kemur í ljós að skólastjórar eru ánægðari en kennarar (χ²(4, N=574) = 25,70, p<0,001) en 91% skólastjóra eru mjög eða fremur ánægð með störf þeirra en rúmlega 66% kennara. Enginn skólastjóri er óánægður með störf deildarstjóra en rúmlega 7% kennara eru það eins og sést á mynd 6.

Mynd 6 - Ánægja þátttakenda með störf deildarstjóra.

Þátttakendur voru síðan spurðir að því hvort þeir teldu að störf deildarstjóra hefðu aukið gæði skólastarfsins í þeirra skóla. Eins og sést á mynd 7 telja fleiri skólastjórar en kennarar gæðin hafa aukist með tilkomu þeirra. Um 87% skólastjóra og um 57% kennara telja gæði skólastarfsins hafa aukist (χ²(5, N=579) = 66,52, p<0,001).

Mynd 7 - Breytingar á gæðum skólastarfs með tilkomu deildarstjóra.

Fylgni mælist milli þess hversu mikil samskipti kennarar hafa við skólastjóra og þess hversu mikið þeir telja störf deildarstjóra hafa aukið gæði skólastarfsins (rs(521) = 0,21, p<0,05). Því meiri sem samskipti þeirra eru við skólastjóra því meira telja þeir deildarstjóra hafa aukið gæði skólastarfsins. Jákvæð fylgni fannst einnig milli samskipta þátttakenda við deildarstjóra og þess hversu mikið þeir telja störf deildarstjóranna hafa aukið gæði skólastarfsins (rs(572) = 0,35, p<0,05).

Eins og áður segir var einn af þeim þáttum sem skoðaður var í spurningalistanum mikilvægi starfa deildarstjóra fyrir gæði skólastarfsins. Fylgni mælist milli þess hversu mikilvæg þátttakendur telja störf deildarstjóra vera fyrir gæði skólastarfsins og þess hversu mikil ábyrgð þátttakendur telja að hvíli á deildarstjórum, hve mikil völd þeir telja deildarstjóra hafa og hversu mikið þeir telja störf deildarstjóra hafa aukið gæði skólastarfsins. Því mikilvægari sem þeir telja störf deildarstjóra vera því meiri ábyrgð og völd telja þeir þá hafa og því meira telja þeir störf þeirra hafa aukið gæði skólastarfsins eins og sést í töflu 2

Tafla 2
Fylgni milli viðhorfa þátttakenda til starfa deildarstjóra
og ýmissa þátta tengdum störfum þeirra
Spearmans rho Hversu mikilvæg eða léttvæg telur þú störf deildarstjóra vera fyrir gæði skólastarfsins?

Hversu mikil eða lítil ábyrgð telur þú
að hvíli á deildarstjórum?

0,49**

Hversu mikil eða lítil völd telur þú
deildarstjóra hafa?
0,37**
Telur þú að störf deildarstjóra hafi aukið
eða minnkað gæði skólastarfsins?
0,58**

*p<0,05 **p<0,01

Þátttakendur voru einnig spurðir að því að hve miklu leyti þeir teldu deildarstjóra efla eða styrkja kennara og aðra faglega. Munur er á svörum hópanna (χ²(4, N=562) = 31,23, p<0,001) en eins og sést á mynd 8 telja rúmlega 77% skólastjóra og 48% kennara að deildarstjórar efli kennara faglega að mjög eða fremur miklu leyti. Um 33% kennara og um 19% skólastjóra telja þá hvorki efla kennara faglega að miklu né litlu leyti.

Mynd 8 - Efling eða styrking faglegra þátta hjá kennurum.

Skólastjórar telja störf deildarstjóra mikilvægari fyrir andann (stofnanamenninguna) en kennarar (χ²(5, N=579) = 37,33, p<0,001). Yfir 90% skólastjóra og 58% kennara telja þau mjög eða fremur jákvæð fyrir andann eins og sést á mynd 9.

Mynd 9 - Mikilvægi starfa deildarstjóra fyrir andann í skólanum.

Þátttakendur voru beðnir að svara hvert viðhorf þeirra væri til starfa deildarstjóra og eru skólastjórar jákvæðari en kennarar. Mynd 10 sýnir að um 99% skólastjóra segja það mjög eða frekar jákvætt en rúmlega 77% kennara telja svo vera (χ²(5, N=568) = 25,81, p<0,001). Tæplega 15% kennara telja það hvorki jákvætt né neikvætt.

Mynd 10 - Viðhorf til starfa deildarstjóra.

Því næst voru þátttakendur spurðir að því hvort þeir teldu að skólanum væri betur eða verr stjórnað með tilkomu deildarstjóra. Eins og sést á mynd 11 svara 87% skólastjóra að honum sé miklu betur eða betur stjórnað en 62% kennara telja svo vera. Hér eru svör skólastjóra ákveðnari (χ²(5, N=569) = 17,77, p<0,01). Um 25% kennara og um 10% skólastjóra telja að honum sé hvorki betur né verr stjórnað.

 

Mynd 11 - Stjórnun skóla með tilkomu deildarstjóra.

Viðhorf þátttakenda til starfa deildarstjóra var skoðað með tilliti til ánægju með störfin. Marktæk fylgni mælist milli viðhorfs til starfa deildarstjóra og ánægju með störf þeirra. Því jákvæðari sem þátttakendur eru því meiri ánægja eins og sést í töflu 3 hér á eftir.

Einnig mældist marktæk fylgni milli þess hve miklu betur þátttakendur telja skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóra og ánægju með störf þeirra. Því betur sem þeir telja skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóra því meiri ábyrgð telja þeir að hvíli á þeim, því meiri völd telja þeir deildarstjóra hafa, því meira telja þeir störf deildarstjóra hafa aukið gæði skólastarfsins, því mikilvægari telja þeir störf deildarstjóra vera fyrir gæði, því jákvæðari telja þeir störf deildarstjóra vera fyrir andann í skólanum og því meira telja þeir deildarstjóra efla kennara faglega eins og sést í næstu töflu.

Tafla 3
Fylgni milli viðhorfa þátttakenda til starfa deildarstjóra
og ýmissa þátta tengdum störfum þeirra
Spearmans rho Hvert er viðhorf þitt
til starfa deildarstjóra
í þínum skóla?
Telur þú að skólanum
sé betur eða verr
stjórnað með tilkomu
deildarstjóra?

Hversu mikil eða lítil ábyrgð telur þú
að hvíli á deildarstjórum?

0,48**

 0,40**
Hversu mikil eða lítil völd telur þú
deildarstjóra hafa?
0,32** 0,59**
Telur þú að störf deildarstjóra hafi aukið
eða minnkað gæði skólastarfsins?
0,53** 0,59**
Hversu mikilvæg eða léttvæg telur þú
störf deildarstjóra vera fyrir gæði
skólastarfsins?
0,60** 0,53**
Hversu jákvæð eða neikvæð telur þú störf
deildarstjóra vera fyrir andann?
0,59** 0,50**
Að hve miklu leyti telur þú deildarstjóra
efla/styrkja kennara faglega?
0,62** 0,46**

*p<0,05 **p<0,01

Fylgni mælist milli þess hve mikil samskipti kennarar hafa við skólastjóra og þess hversu miklu betur þeir telja skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóra (rs(518) = 0,15, p<0,05). Því meiri sem samskiptin eru við skólastjóra því betur telja þeir skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóranna. Enn og aftur mælist fylgni þegar skoðuð eru samskipti þátttakenda við deildarstjóra og hversu mikið betur þeir telja skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóra (rs(559) = 0,31, p<0,05). Því meiri sem samskiptin eru því betur telja þeir skólanum stjórnað með tilkomu deildarstjóranna.

Ekki er mikill áhugi á deildarstjórastarfi hjá þátttakendum en rúmlega 87% sögðust ekki hafa áhuga á slíku starfi. Ekki var munur á svörum þátttakenda eftir kyni. Þátttakendur voru spurðir um ástæður og gefinn kostur á að merkja við fleiri en einn svarmöguleika. Tæplega helmingur merkti við möguleikann „hef ekki áhuga“ og svipað hlutfall sagðist vera „ánægður í núverandi starfi“. Færri nefna aukið vinnuálag, aukna streitu, aukna viðveru og að þeir stefni á annan starfsvettvang.

Af þeim 13% sem hafa áhuga á deildarstjórastöðu velja langflestir að nefna aukin áhrif á skólastarf og aukna fjölbreytni í starfi þegar þeir eru spurðir um áhuga á deildarstjórastarfi. Færri nefna aukna áherslu á stjórnun, minni kennslu, aukin völd og aukna virðingu. Þeir sem velja „annað“ nefna helst hærri laun.

Umræða

Yfirgnæfandi meirihluti skólastjóra er mjög ánægður með störf deildarstjóra, þeir telja gæði skólastarfsins hafa aukist mikið með tilkomu þeirra og að störf þeirra séu mikilvæg fyrir gæði skólastarfsins. Því má segja að nær allir skólastjórar séu ánægðir með störf deildarstjóra og þá viðbót við stjórnunarteymið sem þeir svo sannarlega eru. Þegar þessar niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður Barkar Hansens, Ólafs H. Jóhannssonar og Steinunnar Helgu Lárusdóttur (2002) bendir allt til þess að ósk skólastjóra um aukið svigrúm skólans til að efla innra starf og til að fela millistjórnendum umsjón faglegra viðfangsefna hafi ræst.

Viðhorf skólastjóra til starfa deildarstjóra eru jákvæðari en viðhorf kennara. Ljóst er að kennarar sjá ekki gildi starfa deildarstjóranna í sama ljósi og skólastjórarnir. Það kann að hafa verið erfitt að meta störf þeirra út frá upptalningunni og skiptingunni í spurningalistanum og að kennarar hafi lagt mismunandi skilning í matið. Líklega má þó frekar skýra viðhorf þeirra með því að allt að helmingurinn telur sig ekki vita í hverju störf deildarstjóra felast. Í ljósi þess er áhugavert að velta fyrir sér hvort kennarar hafi næga vitneskju um störf deildarstjóra almennt og hvort þörf sé að gera þar bragarbót. Hugmyndir Blandford (1997) benda til þess að verksvið millistjórnenda þurfi að vera vel skilgreind og vitneskja um hlutverk þeirra og starfsskilyrði sé nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir óþarfa vandamál við stjórnun skólanna.

Í ljós kemur að þátttakendur í rannsókninni telja ábyrgð og völd deildarstjóra mikil. Bæði skólastjórar og kennarar telja þó að þeir beri meiri ábyrgð en völd þeirra segi til um. Enn er afstaða skólastjóra meira afgerandi en kennara. Jákvæðni þátttakenda, og þá sérstaklega skólastjóra, í garð deildarstjóra endurspeglast í þessum viðhorfum og má telja víst að þessi stuðningur hafi hvetjandi áhrif á stöðu deildarstjóra innan skólanna. Niðurstöður Schmidt (2000) bentu einmitt til þess að stuðningur starfsfólks og þá sérstaklega skólastjóra hefðu afgerandi áhrif á skynjun deildarstjóra á persónubundnu valdi sínu og réði miklu um hvernig þeim tækist að fóta sig í starfinu. Þeir sem upplifðu að þeir fengju hvatningu og velþóknun frá samstarfsfólkinu töldu sig færa í flestan sjó og hafa það vald sem þeir þyrftu til þess að sinna starfinu með sóma.

Eins og áður kom fram leiddu niðurstöður úr rannsókn Barkar Hansens, Ólafs H. Jóhannssonar og Steinunnar Helgu Lárusdóttur (2004) í ljós að kennarar og aðrir teldu hlutverk skólastjóra hafa breyst mikið og að þeim gæfist ekki nægur tími til að sinna faglegu forystuhlutverki. Sá hluti starfsins væri kominn á borð millistjórnenda. Hins vegar bendir ýmislegt til þess að þessi afstaða hafi breyst og að skólastjórum og kennurum finnist nú eðlilegt að deildarstjórar sinni að einhverju leyti faglegu forystuhlutverki skólastjóra. Mikill meirihluti skólastjóra er sammála um að deildarstjórar sinni og eigi að sinna þeim faglegu verkefnum sem koma fram í upptalningu á störfum þeirra. Mun færri kennarar eru þeirrar skoðunar að deildarstjórar sinni og eigi að sinna þessum sömu verkefnum, en eins og áður hefur komið fram er það sennilega ekki skýrt í hugum kennara hvað deildarstjórar gera yfirleitt. Það styður síðan þá skýringu að kennararnir hafa ekki ákveðnar skoðanir á því hvaða störfum deildarstjórar sinna ekki en ættu að sinna. Allt bendir þó til þess að störf deildarstjóra hafi aukið á faglegt starf innan skólanna og hlutur þeirra sé vel metinn af kennurum en þó sérstaklega af skólastjórum, en töluverður munur er á svörum skólastjóra annars vegar og kennara hins vegar.

Í rannsókninni voru kennarar og skólastjórar beðnir um að skilgreina störf deildarstjóranna, m.a. með því að haka við lista af verkefnum sem líklegt var talið að deildarstjórar sinntu. Séu verkefni deildarstjóra skoðuð út frá upptalningu á þeim störfum sem þeir sinna kemur í ljós að undir fagleg störf falla sjö verkefni, undir nemendatengd verkefni falla fimm og undir skrifstofustörf falla sex verkefni. Það er umhugsunarvert hversu mikið af því sem deildarstjórar hafa á sinni könnu eru verkefni sem heyra undir almenna skipulagsvinnu og vekur upp spurningar um hlut faglegra verkefna hjá deildarstjórum. Deila má um hvort þau faglegu verkefni sem nefnd eru hér teljast fagleg í strangasta skilningi. Samhæfing á stigi er til að mynda ekki endilega faglegs eðlis þótt það teljist til faglegra verkefna hér. Þróunarstörf eru að sama skapi margslungin og venjulega beinist einungis hluti þeirra fyrst og fremst að námi og kennslu. Með þetta í huga má spyrja sig hvar fagleg forysta liggi helst hjá deildarstjórunum. Þeir hafa margt á sinni könnu og verkefnalistinn er langur sem gefur tilefni til að ætla að tími fyrir fagleg verkefni sé af skornum skammti. Niðurstöður nokkurra rannsókna (Blandford, 1997; Gold 1998; Blandford og Gibson, 2000; Sigríður Anna Guðjónsdóttir, 2004) benda til þess að greinagóð skilgreining á störfum millistjórnenda sé lykilatriði svo þau verði í samræmi við faglegar áherslur skólanna.

Faglegt hlutverk skólastjóra er mikilvægt fyrir framþróun í skólastarfi og fyrir því að árangur umbóta nái að festast í sessi (Rúnar Sigþórsson, o.fl.). Þeir eru í aðstöðu til þess að virkja hæfileika og reynslu deildarstjóranna í verkefnum skólans og hafa úrslitaáhrif á þá stefnu sem störf þeirra taka. Blandford og Gibson (2000) komust að því að hlutdeild skólastjóra í mótun hlutverks millistjórnenda skipti miklu máli og skólastjórar séu í lykilstöðu til að stýra framvindu starfsins. Ábyrgðin er því skólastjóranna og undir þeim komið hvernig störf deildarstjóranna þróast. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vilji skólastjóra sé sá að deildarstjórar sinni faglegum verkefnum en lendi ekki sífellt í tímafrekri skipulagsvinnu.

Mikilvægt er að nefna að viðhorf skólastjóra er töluvert jákvæðara en kennara til starfa deildarstjóranna. Hugsanlega má rekja ástæðuna að einhverju leyti til þess að samstarf skólastjóra og deildarstjóra er mjög náið og ekki byggt á sama grunni og samstarf deildarstjóra og kennara. Samstarf skólastjóra og deildarstjóra beinist að öllum líkindum í ríkari mæli að markmiðssetningu og stefnumörkun (Blandford, 1997) á meðan samstarf deildarstjóra og kennara beinist að því að samhæfa og samstilla hina ýmsu þætti í starfsemi skólanna í takt við þá stefnu sem mörkuð hefur verið (Rúnar Sigþórsson o.fl., 1999). Eins benda rannsóknaniðurstöður til þess að ýmsir þættir í samskiptum kennara og millistjórnenda geti haft neikvæð áhrif á viðhorf kennara til millistjórnenda. Til dæmis bentu niðurstöður Gold (1998) til þess að kennurum stafi ógn af stjórnendum sem vilja koma á formföstu kerfi og það kunni að hafa neikvæð áhrif á viðhorf þeirra. Einnig komst Barth (2001) að því að kennarar sem tekið höfðu að sér stjórnunarstöður töldu sig ekki hafa fengið jákvæða svörun frá samkennurunum eða óttuðust að fá hana ekki.

Þegar skoðuð eru annars vegar samskipti milli skólastjóra og deildarstjóra og hins vegar milli kennara og stjórnenda kemur fram töluverður munur. Skólastjórar og deildarstjórar eiga mikil samskipti sín á milli og ljóst er að skólastjórar meta þau mikils. Flestir skólastjórar segjast hafa samskipti við deildarstjóra daglega eða nokkrum sinnum í viku sem verður að teljast mikið. Aftur á móti hafa töluvert færri kennarar samskipti við deildarstjóra daglega eða nokkrum sinnum í viku og enn færri, eða um helmingur, kennara hafa samskipti við skólastjóra daglega eða nokkrum sinnum í viku. Athygli vekur að um helmingur kennara telur samskiptin við skólastjóra hvorki hafa aukist né minnkað með tilkomu deildarstjóranna en samkvæmt kenningu Blandford (1997) ættu boðleiðirnar að hafa lengst með tilkomu þeirra. Valdapíramídinn ætti að hafa hækkað, valddreifing og verkaskipting aukist og aðgengi að skólastjóra ætti ekki að vera eins greitt. Niðurstöður eru enn meira afgerandi ef skoðuð eru samskipti kennara við skólastjóra út frá stærð skóla. Í minni skólunum hefur yfirgnæfandi meirihluti þeirra samskipti daglega eða nokkrum sinnum í viku við skólastjóra á meðan rúmlega þriðjungur hefur samskipti daglega eða nokkrum sinnum í viku í stærstu skólunum. Margt bendir til þess að staða skólastjóranna sé sterk, þeir séu í góðu sambandi við sitt fólk og aðgengi að þeim hafi síst minnkað. Minni samskipti kennara við deildarstjóra eru athyglisverð í ljósi þess að þeir eru sú stétt innan skólanna sem hefur hvað best aðgengi að hinum ýmsu hópum innan þeirra (Blandford, 1997; Sergiovanni, 2001). Velta má fyrir sér hvort staða deildarstjóranna gagnvart kennurum sé veik þar sem flestir deildarstjórarnir koma úr röðum kennara sem fæstir hafa aflað sér menntunar á sviði stjórnunar. Rannsóknir Gold (1998) benda til þess að millistjórnendur eigi í erfiðleikum með að skilgreina sig sem stjórnendur bæði gagnvart sjálfum sér og starfsfélögum sínum sem, ef rétt reynist, er ekki vænlegt til árangursríks samstarfs.

Mikill munur er á svörum skólastjóra og kennara þegar kemur að því að meta mikilvægi starfa deildarstjóra fyrir stofnanamenninguna. Skólastjórar eru flestir sammála um að þeir hafi jákvæð áhrif á hana meðan aðeins um helmingur kennara er þeirrar skoðunar. Muninn á viðhorfum hópanna má hugsanlega skýra með því, eins og áður hefur komið fram, að samstarf kennara við deildarstjórana er mun minna en samstarfið milli skólastjóra og deildarstjóra. Tækifæri deildarstjóranna til þess að nýta tengslin við kennara koma ekki fram í þessum niðurstöðum og velta má fyrir sér hvort þeir séu of önnum kafnir við önnur störf til þess að sinna þessum þætti svo vel sé. Ef svo er tapast mikilvæg tækifæri til þess að þróa samkennd og skilning innan skólanna sem talið er geta leitt til árangursríkara skólastarfs (Börkur Hansen, 1994; Fullan, 2001). Aftur á móti er áhugavert að sjá hversu mikil samskipti allir hóparnir hafa við skólastjórana og gefur það eitt og sér tilefni til að meta hlut skólastjóranna í stofnanamenningunni sérstaklega.

Áhugaleysi á stöðuhækkun er staðreynd meðal deildarstjóra og kennara. Ívið fleiri deildarstjórar en kennarar sýna þó áhuga. Vera kann að annasamt starf deildarstjóra sé fráhrindandi og ekki eftirsóknarvert. Eins má vera að kennarar hafi ekki næga vitneskju um hvað felst í starfinu eins og áður segir og hafi því ekki nægilegar forsendur til þess að meta hvort þeir gætu hugsað sér starfið. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru svipaðar niðurstöðum fyrri rannsókna sem staðfesta áhugaleysi kennara á stöðuhækkun (Barth, 2001; Gold og Evans 2002).

Breytt hlutverk og auknar kröfur til grunnskólanna kalla á breytta starfshætti. Með auknum fjárframlögum til stjórnunar í skólunum hafa væntingar um faglegt og metnaðarfullt skólastarf aukist og spjótin beinast nú að deildarstjórastarfinu.

Hugmyndin að deildarstjórastarfinu kom fyrst upp þegar farið var að ræða aukna áherslu á stjórnun í starfi grunnskólanna og kom fyrst fram skriflega í kjarasamningum grunnskólakennara 2001. Reynslan af störfum deildarstjóra í grunnskólunum er ekki mikil og þar af leiðandi er mikilvægt að fylgjast vel með þróun deildarstjórastarfsins til að breytingar á skipulagi þess verði vel ígrundaðar. Það er á ábyrgð okkar skólafólks að rannsaka og leggja mat á gæði breytinga og afla traustra heimilda um skólastarfið. Markmiðið með starfi deildarstjóra í grunnskólunum er ekki skýrt. Þegar deildarstjórastaðan var tekin upp var víða ekki búið að móta neina stefnu varðandi vinnutilhögun eða lýsingu á starfinu. Hverjum skóla var gefinn kostur á að móta starfið að eigin þörfum og því er mótunin enn í gangi.

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að störf deildarstjóra hafi haft mikil áhrif á stjórnun grunnskólanna. Skólastjórar hafa tekið tækifærinu til að stofna stöður deildarstjóra opum örmun í flestu tilfellum og kennarar eru jákvæðir í þeirra garð. Mun fleiri skólastjórar en kennarar telja ábyrgð og völd deildarstjóra mikil og að gæði skólastarfsins hafi aukist mikið með tilkomu þeirra. Einnig telja fleiri skólastjórar en kennarar að störf deildarstjóra séu mikilvæg fyrir gæði skólastarfsins og að skólum sé betur stjórnað með tilkomu þeirra. Skólastjórar eru jákvæðir í afstöðu sinni til deildarstjóra sem gefur tilefni til þess að ætla að deildarstjórastaðan hafi verið góð viðbót við stjórnunarteymi skólanna og styrkt stjórnun þeirra. Tíð samskipti skólastjóra við deildarstjóra renna einnig stoðum undir þá skoðun að kraftar deildarstjóra nýtist helst við stjórnun skólanna á kostnað faglegs starfs. Stöðu deildarstjóra gagnvart kennurum þarf að styrkja svo þeir verði betri stjórnendur.

Sá óskýri rammi sem starfið hafði í byrjun hefur eftir á að hyggja kannski verið til góðs vegna þess að þar með gafst tækifæri til að þróa og móta deildarstjórastarfið jöfnum höndum. Deildarstjórastarfið hefur mótast í samhengi við aðrar breytingar innan skólanna og í samræmi við mismunandi stærðir þeirra. Starfið hefur styrkt stoðir skólastarfsins og staðfest mikilvægi þess að starfsemi skólanna sé í takti við þá stefnu sem mörkuð hefur verið. En betur má ef duga skal. Staða deildarstjóra í hugum kennara er óskýr á meðan einhugur er meðal skólastjóra um ágæti starfa þeirra. Þörf er á að upplýsa kennara betur en nú er raunin, um þau störf sem deildarstjórar sinna og auka þannig árangursríka stjórnun í skólum landsins. Þáttur skólastjóra í mótun deildarstjórastarfsins er mikill og getur ráðið úrslitum um hvernig starfið þróast í framtíðinni.

Lykillinn að farsælu skólastarfi er gott starfsfólk. Með því að skyggnast inn í heim þeirra sem fara með stjórn skólanna fæst vitneskja sem vonandi nýtist til eflingar skólastarfi almennt. Það væri verðugt rannsóknarverkefni að meta menntunarþörf deildarstjóra og finna leiðir til þess að auka færni þeirra við stjórnun skólanna. Staða skólastjóra virðist hafa tekið breytingum og vænkast með tilkomu deildarstjóra ef marka má niðurstöður rannsóknarinnar.

Heimildaskrá

Barth, R. S. (2001). Teacher Leader. Phi Delta Kappan, 82, 6, 443−449.

Blandford, S. (1997). Middle management in schools. How to harmonise managing and teaching for an effective school. London: Pitman Publishing.

Blandford, S. og Gibson, S. (2000). Middle management in schools: A special educational needs perspective. Sótt 17. apríl 2006 af http://www.leeds.ac.uk/educol/documents/00001621.htm

Brown, M., Boyle, B. og Boyle, T. (2002). Professional development and management training needs for heads of department in UK secondary schools [Rafræn útgáfa]. Journal of Educational Administration, 1, 31−44.

Börkur Hansen (1994). Svona gerum við hlutina hér! Stofnanamenning, stjórnun, gæði. Uppeldi og menntun, 3, 53−62.

Börkur Hansen og Smári S. Sigurðsson (1998). Skólastarf og gæðastjórnun. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir (2002). Hlutverk skólastjóra og mat þeirra á yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga. Uppeldi og menntun, 11, 191−206.

Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir (2004). Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Valddreifing eða miðstýring? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 1. nóvember. Sótt 19. september 2005 af http://netla.khi.is/greinar/2004/007/prent/index.htm

Fullan, M. (1997). What´s worth fighting for in the principalship. New York: Teachers College Press.

Fullan, M. (2001). The new meaning of educational change (3. útgáfa). New York: Teachers College Press.

Gold, A. (1998). Head of department. London: Cassell.

Gold, A. og Evans, J. (2002). Piggy in the middle: Managers, emergent leaders or prospective senior leaders? London: University of London, Institute of Education.

Hoy, W. K. og Miskel, C. G. (2001). Educational administration. Theory, research, and practice. New York: McGraw−Hill.

Laufey María Hreiðarsdóttir (2002). Millistjórnendur í skólastarfi. Hlutverk og störf millistjórnenda í grunnskólum. Óbirt meistaraprófsritgerð: Háskólinn á Akureyri.

Lög um grunnskóla nr. 87/1991.

Lög um grunnskóla nr. 66/1995.

Office for standards in education. (1998). Secondary education 1993−97. A review of secondary education schools in England. [S.l.]: The Stationery Office. Sótt 18. febrúar 2006 af
http://www.archive.officialdocuments.co.uk/document/ofsted/seced/review.htm

Ólafur H. Jóhannsson (2003). Framtíðarsýn og forysta stjórnenda. Í Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannsson og Steinunn Helga Lárusdóttir (ritstjórar), Fagmennska og forysta. Þættir í
skólastjórnun
(bls. 63−75). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Rúnar Sigþórsson, Börkur Hansen, Jón Baldvin Hannesson, Ólafur H. Jóhannsson, Rósa Eggertsdóttir og Mel West (1999). Aukin gæði náms. Skólaþróun í þágu nemenda. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Sarason, S. B. (1973). The culture of the school and the problem of change. Boston: Allyn and Bacon.

Schmidt, M. (2000). Role theory, emotions, and identity in department headship of secondary schooling. Teaching and Teacher Education, 16, 827−842. Sótt 5. febrúar 2006 af www.elsevier.com/locate/tate

Sergiovanni, T. J. (2001). The Principalship. A reflective practice perspective. Boston: Allyn and Bacon.

Sigríður Anna Guðjónsdóttir (2004). Deildarstjórar i íslenskum grunnskólum. Viðhorfskönnun. Óbirt lokaverkefni í diplomanámi: Kennaraháskóli Íslands.

Usdan, M., McCloud, B. og Podmostko, M. (2001). Leadership for student learning: Redefining the teacher as leader. Washington: Institute of Educational Leadership.

Wise, C. og Bennett, N. (2003). The future role of middle leaders in secondary schools. Sótt 10. maí 2005 af http://mail.google.com/mail/?view=att&disp=attd&attid=0.1&h=10a07dcf70e44dfd.

Prentútgáfa     Viðbrögð