Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 15. október 2007

Greinar 2007

Nanna Kristín Christiansen

Hver á eiginlega að ala börnin upp,
foreldrar eða kennarar?

Í greininni er fjallað um ný viðhorf til samstarfs heimila og skóla. Bent er á að þróun samfélagsins og ýmsar breytingar sem orðið hafa á þörfum og væntingum einstaklinga hafa vakið upp nýjar spurningar um faglegt hlutverk kennara. Þetta á ekki síst við þegar kemur að umræðunni um ábyrgð kennara á uppeldi nemenda en oft virðist óljóst hver á að bera ábyrgð á hverju. Fræðimenn hafa í þessu sambandi lagt áherslu á að kennarar tileinki sér nýja fagmennsku sem einkennist af því að þeir eigi að vera leiðtogar í samstarfi við foreldra og efla þá. Höfundur starfar við Vesturbæjarskóla og er stundakennari við Kennaraháskóla Íslands. Hún lauk M.Ed.-námi í uppeldis- og menntunarfræði frá Kennaraháskóla Íslands 2005 og fjallaði rannsókn hennar um faglegt hlutverk kennara í foreldrasamstarfi.

Inngangur

Algengt viðhorf meðal kennara er að kröfur á hendur þeim séu sífellt að aukast. Þetta er að miklu leyti rakið til þeirrar staðreyndar að börn dvelja æ lengur í skólanum, samfara því að vinna beggja foreldra utan heimilis hefur aukist. Vinnuálag foreldra virðist leiða til þess að þeir telji sig hafa minni tíma en áður til að sinna börnum sínum og að þeir treysti í auknum mæli á stuðning og umönnun kennara og annarra starfsmanna skólans.

Ekki eru allir jafn sáttir við þessa þróun og sumum finnst að með þessu séu foreldrar að afsala sér ábyrgð sinni og að þeir séu jafnvel farnir að koma fram sem kröfuharðir viðskiptavinir gagnvart skólanum. En er hér eingöngu við foreldrana að sakast? Gretar Marinósson (2002) bendir á að það komi sér vel fyrir önnum kafna foreldra samtímans að skólinn gefi þeim til kynna að hann vænti lítilla afskipta af þeirra hálfu. Foreldrar geri sér ljóst að það myndi þýða umtalsverðar breytingar í daglegu lífi þeirra ef þeir ætluðu að nýta sér ákvæði í lögum um hlutdeild foreldra í skólastarfinu. Því hafi foreldrar fallist á hlutverk undirgefinna stuðningsaðila eða viðskiptavina.

Vegna skorts á samræmingu virðist sífellt óljósara hver á að bera ábyrgð á hverju þegar kemur að velferð barna, hverjir eigi t.d. að efla siðferðis- og félagsþroska barnanna, aga þau og kenna þeim mannasiði. Væntanlega fallast kennarar almennt á að þeir beri umtalsverða ábyrgð á menntun nemenda sinna, hins vegar virðast þeir oft vera ósáttir við uppeldishlutverkið (Nanna Christiansen, 2005). Á meðan ekki fer fram umræða um hlutverk og ábyrgð kennara annars vegar og foreldra hins vegar er hætt við að börnin gjaldi þess.

Viðfangsefni þessarar greinar er að leita svara við því hver á að annast uppeldi barna. Eru það foreldrar eða kennarar?

Skólinn sér um menntun en foreldrar um uppeldið

Allt frá því skólaganga var gerð að skyldu í byrjun 20. aldar hefur hið hefðbundna viðhorf verið að heimilin skuli annast uppeldi og umönnun en skólinn taka ábyrgð á menntun og fræðslu. Þannig virtist litið svo á að umönnun og menntun væru óskyldir þættir. Telja má að þetta viðhorf tengist hugmyndum um tvíhyggju (dualisma) en samkvæmt Atla Harðarsyni (2005) er með hugtakinu tvíhyggja átt við að veruleikinn sé tvískiptur með einhverjum afgerandi hætti, þannig að ólík lögmál gildi um hlutana tvo. Þetta á t.d. við um sál og líkama.

Í samræmi við breytta þjóðfélagshætti, ekki síst aukna útivinnu beggja foreldra, koma stofnanir og sérfræðingar æ meira að uppeldi barna. Jafnframt leggja fræðimenn aukna áherslu á mikilvægi umhyggju en í því felst að velferð barna sé skoðuð heildrænt (Noddings, 1984; Lauvdal, 1990; Elliott, 1991). Þetta eru ekki ný sannindi því að menn hafa lengi gert sér grein fyrir því að menntun og uppeldi verða trauðlega skilin að, eins og fram kemur hjá einum helsta höfundi fræðslulaganna frá 1907, Guðmundi Finnbogasyni:

Að heimilin og skólarnir vinni saman að hinu sameiginlega takmarki, menntun æskulýðsins, eru lífsskilyrði góðs árangurs. Að öðrum kosti er hætt við, að önnur höndin rífi það sem hin byggir upp (Guðmundur Finnbogason [1903],1994,128).

Í Aðalnámskrá grunnskóla (1999) segir m.a. að foreldrar/forráðamenn beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna og að menntun og velferð barna sé sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Uppeldi og menntun barna á með öðrum orðum að vera samstarfsverkefni foreldra og kennara. Þrátt fyrir þetta sýna rannsóknir að samstarf kennara og foreldra er óverulegt (sjá t.d. Safran, 1996; Bø, 2001; Gretar Marinósson, 2002; Nordahl og Skibrei, 2002). Ein meginhindrunin í samstarfinu er að kennarar eru oft ósáttir við þær auknu kröfur sem gerðar eru til þeirra, ekki síst um uppeldislega ábyrgð. Þetta á einkum við um kennara eldri nemenda en kennarar yngstu nemendanna eru almennt sáttari við uppeldishlutverkið. Af viðræðum við kennara má ráða að þeir verða helst ósáttir þegar hugmyndir þeirra og foreldra um uppeldi fara ekki saman og einnig þegar foreldrar gera kröfur um að kennarar taki á sig uppeldislega ábyrgð sem foreldrarnir ættu að mati kennara sjálfir að bera (Nanna Christiansen, 2005).

Foreldrar og nám

Enda þótt kennarar vilji oft halda í hefðbundin viðhorf um skiptingu ábyrgðar, þar sem kennarar annast kennslu en foreldrar uppeldi, hafa þeir engu að síður væntingar um að foreldrar taki verulega ábyrgð á námi barna sinna. Þetta á ekki síst við þegar börn eiga við námsörðugleika að stríða (Nanna Christiansen, 2005). Foreldrar virðast einnig líta á það sem skyldu sína að taka ábyrgð á námi barna sinna og segjast jafnvel eyða mörgum klukkustundum á viku í heimanám með þeim. Þannig virðist kennarinn geta ráðstafað tíma foreldra án þess að ráðfæra sig við þá. Ein móðir lýsir því svo að heimanám dóttur hennar sé stundum svo mikið og erfitt að þær mæðgur gráti saman yfir því. Svo bætir hún við: „En ég virði skólann og geri eins og til er ætlast“ (Nanna Christiansen, 2005). Þannig tekur hún að sér hlutverk góða foreldrisins, en Ericsson og Larsen (2000) skilgreina góða foreldra þannig að það séu þeir foreldrar sem leggja sig af áhuga fram við að leysa verkefni sem kennarinn hefur skilgreint. Erfiða foreldrið er aftur á móti það foreldri sem ætlast til að kennarinn leysi verkefni sem foreldrið hefur skilgreint. Þær Ericsson og Larsen (2000) líkja foreldrum og kennurum við danspar þar sem enginn vafi leikur á því að það er kennarinn sem er dansherrann. Eftir þessu að dæma er hefðbundin skipting ábyrgðar á námi og uppeldi ekki jafn afdráttarlaus og stundum mætti ætla.

Samskipti og samstarf

Eins og fram hefur komið gerir Aðalnámskrá grunnskóla (1999) ráð fyrir samstarfi foreldra og kennara um menntun og velferð barna, og samkvæmt 15. gr. laga um grunnskóla er starfsmönnum skóla skylt að efla samstarf skóla og heimila. Líklega er flestum kennurum kunnugt um þessar skyldur. Það virðist hins vegar óljóst hver merking hugtaksins samstarf er, inntak þess og markmið. Sigrún Júlíusdóttir (2001) fjallar um þann vanda sem upp hefur komið í samstarfi kennara og foreldra í þeirri öru samfélagsþróun sem við búum við. Vegna skorts á samræmingu og samstarfi þessara aðila virðist æ óljósara hver á að sinna uppeldi barna. Hver á að kenna þeim mannasiði, umgengnishætti, setja þeim mörk og vera þeim fyrirmynd. Þetta öryggisleysi fullorðna fólksins bitnar vitaskuld á börnunum.

Ég hef kosið að skilgreina hugtakið samstarf með eftirfarandi hætti:

Samstarf á sér stað þegar tveir eða fleiri aðilar eiga sér sameiginlegt markmið sem báðir/allir stefna að og taka sameiginlega ábyrgð á.

Til að átta sig á muninum á samskiptum og samstarfi má hugsa sér þrjár fjölskyldur sem búa í sama húsi. Íbúarnir hittast oft og bjóða góðan daginn og stöku sinnum fá þeir sér kaffisopa saman og ræða málefni líðandi stundar. Íbúar hússins eiga þannig góð samskipti. Einn daginn bjóða hjónin á fyrstu hæðinni sambýlisfólki sínu í kvöldkaffi til að ræða hugsanlega möguleika á endurbótum á lóðinni. Málið fellur í góðan jarðveg enda eru allir sammála um að þörf sé fyrir upplyftingu lóðarinnar og áður en kvöldið er liðið hefur verið tekin sameiginleg ákvörðun um að smíða sólpall og búa til blómabeð með runnum og blómum. Íbúarnir skipta með sér verkum og gera áætlun um deilingu ábyrgðar á framkvæmdum og kostnaði. Þetta kvöld hefst samstarf sambýlinganna.

Til þess að samstarf geti átt sér stað þurfa þættir eins og jafnræði, gagnkvæm virðing og traust að vera fyrir hendi (sjá t.d. Kagan, 1991; Jesien, 1996;). Denzin (1984) hefur einnig bent á að mikilvæg forsenda samstarfs sé sameiginlegur skilningur á aðstæðum. Hann telur að á meðan foreldrar og kennarar sjái barnið nær aldrei við sömu aðstæður geti þeir ekki haft sama skilning á vandanum. Við hefðbundnar aðstæður, þar sem kennarinn sér nemandann nær eingöngu í skólanum þar sem foreldrarnir eru næstum aldrei en foreldrarnir sjá barnið hins vegar mest á heimilinu í allt öðrum aðstæðum, sé tilgangslaust að ræða um samstarf þessara aðila. Þessu ástandi má hugsanlega líkja við það þegar tveir menn ræða saman um rjúpu, annar hefur aðeins séð rjúpuna í vetrarham en hinn þekkir fuglinn eingöngu í sumarbúningi. Þegar sá fyrrnefndi ræðir um hvítan fugl skilur sá síðarnefndi ekkert hvað hann er að tala um, álítur hann jafnvel vera illa að sér eða ögrandi og öfugt. Hugsanlega getur þetta skýrt pirring foreldra og kennara, sem stundum verður vart, yfir skilningsleysi hvors annars þegar þeir ræða málefni einstakra barna.

Ef raunverulegur vilji er til þess að fara að tilmælum laga um grunnskóla og Aðalnámskrár grunnskóla um samstarf foreldra og kennara virðist nauðsynlegt að byrja á því að byggja upp gagnkvæmt traust og virðingu á jafnræðisgrunni. Það verður líklega ekki gert nema með því að skapa aðstæður fyrir sameiginlega reynslu væntanlegra samstarfsaðila og þar vil ég einnig leggja áherslu á mikilvæga hlutdeild nemenda sjálfra.

Áður en fjallað verður um hugsanleg úrræði til að byggja upp samstarf foreldra, nemenda og kennara verður athyglinni beint að áhrifum breyttra aðstæðna í samfélaginu á hlutverk foreldra og fagmennsku kennara.

Nýir neytendur – ný fagmennska

Lewis og Bridger (2001) eru höfundar bókarinnar The soul of the new consumer og fjalla um nýja neytandann, einkum út frá sjónarhóli viðskipta. Enda þótt ekki sé hægt að fullyrða að sömu lögmál gildi í viðskiptum og í skólanum er áhugavert að kynna sér hugmyndir þeirra. Megineinkenni nýja neytandans felast í því að hann er sjálfstæður, vel upplýstur einstaklingshyggjumaður sem á hlutdeild í málum sem hann varða. Nýi neytandinn væntir þess að kröfum hans sé mætt hratt og auðveldlega. Tímaskortur er annað einkenni nýja neytandans, hann hefur minna svigrúm til að sinna persónulegum samböndum, fjölskyldu og tómstundum. Afleiðingin er aukin streita og knýjandi þörf fyrir að spara tíma með næstum því hvaða ráðum sem er. Upplýsingar eru aflið sem knýr nýja neytandann áfram, þær opna honum fleiri valkosti og gera honum kleift að leggja mat á aðstæður.

Fagstéttir hafa reynt að mæta þörfum nýja neytandans með margvíslegum hætti, enda helst þróun fagstétta jafnan í hendur við þróun samfélagsins (sjá t.d. Abbot, 1988). Í því sambandi er áhugavert að skoða hvernig hin óumdeilda fagstétt, læknar, er hvött til að vinna að þróun fagmennsku sinnar í samskiptum við sjúklinga. Fram til þessa hafa samskiptin einkennst af hefðbundinni hugmynd um fagmennsku þar sem hinn betur vitandi sérfræðingur mætir skjólstæðingi sínum með valdi sérfræðingsins. Til þess að geta átt samstarf við nýja neytandann þurfa læknar að mati Nauberger (2001) að hverfa úr hlutverki stjórnenda en tileinka sér hlutverk leiðbeinenda sem hjálpa fólki að taka ákvarðanir um eigið heilsufar. Mettler (2001) telur tíma óvirka sjúklingsins, sem fylgdi fyrirmælum læknisins, vera liðinn. Sjúklingar vilja núorðið fá upplýsingar, valmöguleika og eiga kost á að sitja sjálfir við stjórnvölinn. Verði þeir ósáttir við þjónustu læknisins leita þeir annað. Áhersla hinnar nýju fagmennsku felst þannig í því að fagmaðurinn er leiðtogi meðal jafningja, þekking hans og reynsla annars vegar og viðhorf neytandans hins vegar vega jafn þungt. Þessar skoðanir eiga rætur að rekja til hugmynda um eflingu (empowerment) og notendalýðræði (user involvement) en hugtökin hafa sterka samfélagslega og stjórnmálalega skírskotun og vísa til lýðræðislegs réttar einstaklingsins til að hafa áhrif á eigin velferð.

Áhrif foreldra á velferð barna

Aanderaa (1996) er einn þeirra fræðimanna sem lagt hafa áherslu á að kennarar þrói með sér nýja fagmennsku en hún, líkt og margir aðrir, bendir á samfélagslega erfiðleika sem steðja að börnum og fjölskyldum þeirra, s.s. hjónaskilnaði, aukna neyslu fíkniefna, vaxandi ofbeldi og agaleysi. Þessu þurfi að bregðast við. Það telur hún best gert með eflingu foreldra því að ekkert sé börnum mikilvægara en foreldrar sem gera sér grein fyrir hve hlutverk þeirra er mikilvægt. Aanderaa (1996) varar við því að sumir foreldrar séu farnir að treysta um of á að fagmenn, s.s. kennarar, geti jafnvel tryggt velferð barna þeirra betur en foreldrarnir sjálfir. Hún leggur áherslu á að kennurum hafi aldrei verið ætlað að taka að sér hlutverk foreldra enda geti þeir það ekki. Þessar hugmyndir þarf að leiðrétta, fáar ef nokkrar stéttir eru í betri aðstöðu til þess en kennarar. Nýi kennarinn ætti að stuðla að eflingu foreldra með því að líta á það sem eitt mikilvægasta hlutverk sitt að finna leiðir sem veita foreldrum aukna hlutdeild í velferð barna sinna (sjá t.d. Elliott, 1991; Aanderaa, 1996). Eftirfarandi fullyrðing lýsir þessari hugmynd ágætlega:

Maður getur hvorki gefið börnum né foreldrum ábyrgð á sjálfu sér, hana fengu þau við fæðingu. Það er í mest lagi hægt að skila aftur því sem maður hefur tekið af þeim vegna þess að maður hefur ætlað sér of mikla ábyrgð (Juul, 1996).

Það er alþekkt meðal kennara og annarra sem starfa með börnum að viðhorf og stuðningur foreldra getur gert gæfumuninn um afstöðu barnanna og líðan þeirra. Niðurstöður rannsókna fræðimanna sem hafa kannað áhrif foreldra í sálfræðimeðferð barna (sjá t.d. Creswell O'Connor og Brewin, 2006) ber að sama brunni því að þær gefa m.a. til kynna að þátttaka foreldra í meðferðarferli hafi úrslitaáhrif á árangurinn. Þrátt fyrir góða menntun og færni verða fagmennirnir því fyrst og fremst góð viðbót við framlag foreldranna, það eru foreldrarnir sem eru lykilpersónur í lífi barna sinna.

Í ljósi þess hversu mikil áhrif foreldrar hafa á velferð barna, hlýtur það að vera áhyggjuefni hve miklum tíma börn verja í skólum þar sem foreldrar þeirra koma líklega aðeins stopult í hlutverki gesta og þátttaka þeirra í starfi barnanna er óveruleg. Það ætti því að vera kappsmál þeim sem vilja tryggja hagsmuni barna að finna leið til að auka hlutdeild foreldra í starfi barna sinna í skólanum.

Hindranir í starfsþróun kennara

Ýmislegt bendir til að kennurum hafi ekki að öllu leyti auðnast að þróa starf sitt í samræmi við aðstæður í samfélaginu og kemur það ekki síst fram í samskiptum við foreldra (sjá t.d. Hargreaves, 1999; Nanna Christiansen, 2005). Lasky (2000) álítur að hefðbundin viðhorf kennara til faglegs hlutverks síns einkennist enn um of af hugmyndinni um einhvers konar formlegt vald, m.a. yfir nemendum og foreldrum. Jafnframt bendir hún á að hinar upphaflegu fagstéttir, læknar og lögmenn, hafi lagt áherslu á tilfinningalega fjarlægð eða hlutleysi í samskiptum við skjólstæðinga sína en viðkomandi stéttir hafa að ýmsu leyti verið fyrirmynd annarra fagstétta, þ.á.m. kennara. Þetta telur Lasky (2000) geta sett kennara í vanda, ekki síst í ljósi aukinnar áherslu á uppeldi og umhyggju. Af þessu má ráða að kennarar upplifi þversögn í hugmyndinni um hefðbundna fagmennsku og samstarf við foreldra, ekki síst hvað varðar þátttöku í uppeldi nemenda. Eins og kunnugt er hefur uppeldi alla tíð fyrst og fremst verið í höndum kvenna, það hefur jafnan verið illa launað eða ólaunað og notið takmarkaðrar virðingar í samfélaginu. Almennt er ekki heldur talin þörf fyrir sérstaka menntun til að annast uppeldi barna. Það má því álykta sem svo að kennarar telji kröfur um uppeldisstörf jafnvel vera lítilsvirðingu við fagmennsku sína. Ekki verður heldur litið framhjá því að mörgum kennurum finnst starf þeirra lágt metið til launa og m.a. þess vegna eru þeir oft og tíðum lítt fúsir til að taka að sér ný verkefni eða breyta starfsvenjum, án þess að þeim sé ætlaður tími til þess að sinna þeim og að það sé metið til launa.

Viðskiptavinir eða notendur?

Á síðari árum hefur stundum verið vísað til skólans sem þjónustustofnunar. Kennarar eru ekki alltaf sáttir við þessa hugmynd og telja hana jafnvel grafa undan virðingu skólastarfsins. Einkum á þetta við ef kennarar túlka hugmyndina út frá viðskiptalegu sjónarmiði (Nanna Christiansen, 2005). Sumir foreldrar hafa líka tileinkað sér viðhorf viðskiptavina, „varan“ á að afhendast samkvæmt vissum gæðastaðli, annars verða þeir ósáttir og hafa rétt til að kvarta (Ericsson og Larsen, 2000). Í könnun Barkar Hansen, Ólafs H. Jóhannessonar og Steinunnar Helgu Lárusdóttur (2004) kemur í ljós að þótt foreldrar láti sig skólastarf meira varða en áður megi fyrst og fremst rekja aukin afskipti þeirra til breytts tíðaranda. Foreldrar séu almennt meira meðvitaðir um rétt sinn og láti í sér heyra ef þeir eru óánægðir. Hér virðist sem hugmyndin um hlutverk kennara og foreldra í samtímasamfélaginu hafi farið út af sporinu í stað þess að fylgja þeirri þróun sem t.d. hefur orðið í hugmyndum um samstarf lækna og sjúklinga. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvaða áhrif það hefur á uppeldi og aga í skólanum þegar nemendur tileinka sér viðhorf foreldra sinna sem viðskiptavina skólans, því að eins og kunnugt er þá hefur viðskiptavinurinn alltaf rétt fyrir sér. Það er réttur hans að gera kröfur til þjónustunnar, ekki öfugt.

Eins og áður hefur komið fram grundvallast viðhorf hinnar nýju fagmennsku lækna og heilbrigðisþjónustu gagnvart nýja neytandanum á eflingu, þ.e.a.s. hugmyndum um lýðræðislegan rétt einstaklingsins til að eiga hlutdeild í eigin velferð. Sömu áherslur eru í félagsþjónustunni hér á landi og í nágrannalöndum okkar (Nanna Christiansen, 2005). Vilji kennarar stuðla að hagsmunum nemenda sinna þurfa þeir að tileinka sér hugmyndafræði eflingar, líkt og fram kom hjá Aanderaa (1996). Kennarar taka þá að sér leiðtogahlutverk í samstarfi við foreldra og mæta þeim sem notendum (users) í stað viðskiptavina. Hugtökin notandi og viðskiptavinur skilgreini ég með eftirfarandi hætti:

Viðskiptavinur er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu á markaði, án þess að fyrir þurfi að liggja væntingar um frekari hlutdeild. Notandi leitast við að eiga hlutdeild í eigin velferð og barna sinna í samræmi við aðstæður, eins og hann hefur rétt til. Fagmönnum ber að stuðla að eflingu hans með gagnkvæmum upplýsingum og samræðu (dialog) í því skyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig þörfum notandans verði best mætt. Vissulega er fagmaðurinn alltaf bundinn af faglegri ábyrgð og þeim lögum og reglum sem hann starfar eftir.

Hugsanleg úrræði

Samkvæmt ofansögðu eru engir betur til þess fallnir að tryggja velferð barna en góðir foreldrar sem gera sér fulla grein fyrir mikilvægi sínu og líklega er engin stétt betur í stakk búin til að styðja foreldra í því verkefni en kennarar sem hafa tileinkað sér hugmyndir nýrrar fagmennsku. Kennarar eru í miklum og oft nánum samskiptum við nemendur sína og áhrif þeirra á líðan nemenda og námsárangur eru vissulega umtalsverð (sjá t.d. Nordahl, 2002). Samstarf foreldra og kennara um uppeldi og menntun er því brýnt hagsmunamál fyrir börn. Sé um raunverulegt samstarf að ræða ríkir gagnkvæmt traust og virðing milli aðila, allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í samráði og hlutverk og ábyrgð hvers og eins er skilgreint. Til þess að slíkt samstarf nái að þróast þarf að leita leiða til að foreldrar og kennari sjái barnið reglulega í sömu aðstæðum, þannig að þeir upplifi vandann á sama hátt. Slíkar aðstæður eru líklega vandfundnar í dag því að flest samskipti foreldra við skóla virðast einkennast af því að þeir séu valdalitlir stuðningsaðilar, gestir eða í versta falli viðskiptavinir (Nanna Christiansen, 2005).

Skólayfirvöld ættu að standa fyrir umræðu um foreldra sem notendur að þjónustu skólans en hafna hugmyndum um foreldra sem viðskiptavini. Kennarar þurfa að tileinka sér viðhorf nýrrar fagmennsku og opna umræðuna við foreldra um samræmingu, ábyrgð og skyldur. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að í fjölmenningarsamfélagi eru ríkjandi margvísleg gildi og ekki eru allir sammála um í hverju gott uppeldi er fólgið.

Eins og fram hefur komið sprettur samstarf foreldra og kennara ekki fram fullskapað líkt og Aþena úr höfði Seifs. Samstarfið verður að þróa og til þess þarf tíma og markvisst uppbyggð verkefni. Nokkrir kennarar í Vesturbæjarskóla hafa á síðustu árum unnið að þróun verkefnis sem hefur það að markmiði að skapa grundvöll að samstarfi foreldra, kennara og nemenda. Verkefnið, sem nefnist Allir í sama liði, hlaut styrk frá KÍ skólaárið 2004–2005 og kennararnir Hera Sigurðardóttir og Bryndís Gunnarsdóttir hlutu hvatningarverðlaun Heimilis og skóla fyrir framlag sitt til verkefnisins vorið 2006. Með verkefninu er foreldrum m.a. gefið tækifæri til að taka þátt í sérstökum heimaverkefnum með börnum sínum og aðstoða þau síðan við kynningu verkefnanna í skólanum. Þannig verða foreldrar virkir þátttakendur í skólastarfinu.

Önnur verkefni miða að því að foreldrar meti frammistöðu barna sinna með sértökum matstækjum. Með því móti gefst foreldrum m.a. kostur á að sjá barnið í sömu aðstæðum og kennarinn auk þess sem þeir verða betur í stakk búnir að taka þátt í að setja börnum sínum námsmarkmið. Jafnframt er stuðlað markvisst að því að byggja upp gagnkvæmt traust og virðingu milli kennara, foreldra og nemenda, t.d. með svonefndum gullkornum. Það eru sérstök kort sem kennarinn skrifar vikulega á jákvæða athugasemd um eitthvað sem nemandinn hefur gert í skólanum og nemandinn tekur með sér heim og sýnir foreldrum.

Loks má nefna óformlegt morgunkaffi sem kennari og nemendur bjóða foreldrum til nokkrum sinnum á vetri, fyrir utan önnur hefðbundin verkefni, s.s. vikulegan tölvupóst, námsefniskynningar og skemmtanir. Í Vesturbæjarskóla nefnast svokölluð foreldraviðtöl samráðsfundir en eins og nafnið gefur til kynna er þar gert ráð fyrir samráði eða samstarfi kennara, foreldra og nemenda um nám og annað sem viðkemur velferð nemandans. Áætlaður tími til samráðsfundanna er 25 mínútur á hvorri önn og oftar þegar þörf krefur. Verkefnið Allir í sama liði er enn á byrjunarreit en það mun vonandi halda áfram að þróast í höndum áhugasamra kennara, þakklátra foreldra og jákvæðra nemenda. Kennarar þurfa að halda áfram og finna nýjar leiðir til að skapa jarðveg fyrir samstarf foreldra, kennara og nemenda, jafnframt er áríðandi að vekja skilning í samfélaginu á mikilvægi foreldrahlutverksins.

Lokaorð

Hverjir eiga þá að annast uppeldi barna? Í Skólastefnu KÍ (Kennarasamband Íslands, 2002) kemur fram að hlutverk kennara sé m.a. að stuðla að hagsmunum nemenda sinna. Því markmiði nær kennarinn best með umhyggju en í því felst að hann lítur heildrænt á þarfir nemenda sinna. Nám og uppeldi verða ekki skilin að. Þegar tryggja á velferð nemenda kemur enginn í stað góðra foreldra sem gera sér grein fyrir hve hlutverk þeirra er mikilvægt. Kennarinn þarf því að gera sér far um að stuðla að eflingu foreldra með því að leita leiða sem veita þeim aukna hlutdeild í starfi barnanna. Í starfsþróun sinni ættu kennarar að líta á samstarfið við foreldrana og nemendur sem veigamikinn þátt í velferð nemenda og faglegu hlutverki sínu þar sem kennarinn er leiðtogi meðal jafningja. Með þessum hætti verður uppeldi barna samstarfsverkefni foreldra og kennara.

Almennt gildir um samstarf að eigi það að skila árangri verða allir aðilar að sjá sér hag í því. Vissulega ætti það að vera hagsmunamál kennara að þróa fagmennsku sína til samræmis við breytta samfélagshætti, að öðrum kosti er hætt við að stéttin dagi uppi eins og nátttröll. Nýja fagmennskan grundvallast fyrst og fremst á nýrri hugsun og á auknu samstarfi við foreldra og það krefst tíma. Tæplega er hægt að vænta þess að kennarar séu fúsir til að bæta á sig verkefnum, hversu nauðsynleg sem þau eru, án þess að gert sé ráð fyrir þeim í vinnuramma.

Kennarastéttin þarf á virðingu samfélagsins að halda og starfsþróun er mikilvæg forsenda hennar. Ný fagmennska mun ekki leysa öll vandamál kennara en allt bendir til að hún mun verða þeim, ekki síður en nemendum, til mikilla hagsbóta.

 

 

Heimildir

Aanderaa, B. (1996). Barnehage- og småskoleutvikling – for familiens skyld. Í M. Sandbæk og G. Tveiten (ritstj.), Sammen með familien. Arbeid i partnerskap med barn og familier (bls. 213–227). Osló: Kommuneforlaget AS.

Abbott, A. (1988). The System of Professions. An Essay on the Divension of Expert Labor. Chicago, London: The University of Chicago press.

Aðalnámskrá Grunnskóla – Almennur hluti (1999). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Atli Harðarson [án ártals]. Tvíhyggja. Sótt 15. janúar 2005 á http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=507

Bø, A. K. (2001). Foreldre; skolens forlengede arm? Í M. Sandbæk (ritstj.), Fra mottaker til aktør. Brukernes plass i praktisk sosialt arbeid og forskning (bls. 226–242). Oslo: Gyldendal Norsk Forlag AS.

Börkur Hansen, Ólafur H. Jóhannesson og Steinunn Helga Lárusdóttir (2004). Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Valddreifing eða miðstýring? Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 1. nóvember. Vefslóð: http://netla.khi.is/greinar/2004/007/prent/index.htm

Creswell, C., O´Connor, T., og Brewin, C. (2006). A longitudinal investigation of maternal and child anxious cognitions. Cognitive Therapy and Research, 30, 135–147.

Denzin, N. (1984). On understanding emotion. San Francisco, London: Jossey-Bass.

Elliott, J. (1991). A model of professionalism and its implications for teacher education. British Educational Research Journal 17(4), 309–328.

Ericsson, K. og Larsen, G. (2000). Skolebarn og skoleforeldre. Om forholdet mellom hjem og skole. Oslo: Pax Forlag AS.

Gretar L. Marinósson (2002). The response to pupil diversity by compulsory mainstream school in Iceland. Óbirt doktorsritgerð, Kennaraháskóli Íslands og University of London. Reykjavík og London.

Guðmundur Finnbogason (1903). Lýðmenntun. Endurútgefin 1994 sem fyrsta rit í ritröðinni Heimildarrit í íslenskri uppeldis- og skólasögu. Loftur Guttormsson (ritstjóri). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.

Hargreaves, A. (1999). Professional and parents. Social movement for educational change. Sótt 23. maí 2003 á http://www.keele.ac.uk/depts/ed/kisnet/interviews/hargreaves.htm.

Hargreaves, A. (2000). Changing teachers, changing times. Teachers´ work and culture in the postmodern age. London, New York: Continiuum.

Jesien, G.S. (1996). Interagency collaboration. What, why, and with whom? Í M. Colleen, P. Clark og M. Chisholm (ritstj.), Counseling and guidance in schools. Developing policy and practice (bls. 187–201). London: David Fulton Publishers.

Juul, J. (1996) Familierádgivning. Bedre samspil med foreldre. Oslo: Kommuneforlaget.

Kagan, S. K. (1991). United we stand. Collaboration for child care and early education services. New York, London: Teachers College Press.

Kennarasamband Íslands (2002). Skólastefna Kennarasambands Íslands 2002–2005. Sótt 14. janúar 2005 á http://www.ki.is.

Lasky, S. (2000). The cultural and emotional politics of teacher-parent interactions. Teaching and Teacher Education 16, 843–860. Vefrit. Vefslóð: www.elsevier.com/locate/tate.

Lauvdal, T. (1990). Lad nu de satans børn blive statens børn. Í K. Jensen (ritstj.), Moderne omsorgsbillder (bls.185–210). Oslo: Ad Notham Gyldendal.

Lewis, D. og Bridger D. (2001). The soul of the new consumer. London: Nicholas Brealey Publishing.

Lög um grunnskóla, nr. 66/1995.

Mettler, M. (2001). Untangling the web: Bringing information therapy to the new healthcare consumer. Journal of Innovative Management 7 (1), 47–54.

Nanna Kristín Christiansen (2005). Faglegt hlutverk kennara i foreldrasamstarfi. Óbirt meistaraprófsritgerð. Kennaraháskóli Íslands. Reykjavík.

Nauberger, J. (2000). The educated patient: New challenges for the medical profession. Journal of Internal Medicine, 247, 6–10.

Noddings, N. (1984). Caring: A feminine approach to ethics & moral education. Berkeley: University of California Press.

Nordahl, T. (2000). Eleven som aktør, fokus på elevens læring og handlinger i skolen. Osló: Universitetsforlaget.

Safran, D. (1996). Menntun er samstarfsverkefni. Í Guðni Olgeirsson (ritstj.), Samantekt frá alþjóðlegri ráðstefnu í Kaupmannahöfn 21.–24. nóv. 1996. Sótt 10. október 2002 á: http://www.raduneyti.is/mrn.nsf/pages/upplysingar-utgefid-samstarf-11.

Sigrún Júlíusdóttir (2001). Fjölskyldur við aldahvörf. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Prentútgáfa     Viðbrögð