Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 16. apríl 2007

Greinar 2007

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Herdís Sveinsdóttir
og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Birtingarmyndir vanlíðanar hjá konum
í hópi grunnskólakennara

Í þessari grein er greint frá niðurstöðum rannsóknar á birtingarmyndum vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara sem mátu heilsu sína, líkamlega líðan eða andlega líðan sæmilega eða slæma. Þessi hópur var borinn saman við hóp þeirra sem mat heilsu sína og líðan góða eða mjög góða. Spurningalisti með tvíkosta spurningum og einföldum fjölvalsspurningum var sendur til 600 kvenna úrtaks kennara úr félagaskrá Félags grunnskólakennara. Svörun var 69%. Reiknuð voru líkindahlutföll með 95% vikmörkum. Niðurstöðurnar sýndu að vanlíðan hjá kennurum kom fram bæði í andlegum og líkamlegum einkennum. Líkindahlutfallið var hátt í mörgum tilfellum. Þær sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan sæmilega eða slæma töldu sig óvirkari en aðrar konur á sama aldri, leituðu oftar læknis, áttu erfiðara með svefn og stunduðu síður líkamsrækt en þær sem létu betur af heilsu sinni og líðan. Vanlíðanin birtist einnig í þreytu, vöðvabólgu, höfuðverk, bakverkjum, skapsveiflum og kvíða svo nokkuð sé nefnt. Konurnar voru einnig líklegri en aðrar til að nota lyf af ýmsu tagi. Birtingarmyndir vanlíðanar kvenna í hópi grunnskólakennara eru margar og mismunandi og full ástæða til að huga að fleiri þáttum en þeim sem flestar rannsóknir á heilsu kennara hafa hingað til beinst að, þ.e. streitu, kulnun og raddheilsu.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir er sérfræðingur við rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins. Herdís Sveinsdóttir er prófessor við Háskóla Íslands og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir er dósent við Háskóla Íslands. Allir höfundarnir tengjast jafnframt Rannsóknastofu í vinnuvernd sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Vinnueftirlitsins.
 

How Icelandic female teachers assess their health

Background: This study aims to explore what symptoms prevail among those female teachers at primary and lower secondary schools who assess their general health, psychological or physical well-being as passable or bad. This group was compared to a group of teachers who assessed their health or well-being as good or very good.

Methods: A self-administered questionnaire based on dichotomous questions and simple multiple choice questions was mailed to a sample of 600 female teachers, members of the Association of Teachers in Primary and Lower Secondary Schools in Iceland. The Response rate was 69%. Odds ratios with 95% confidence limits were calculated.

Findings: Teachers, who assessed their health as passable or bad, turned out to be much more likely than other teachers to experience various physical or psychological symptoms. The odds ratios were high in many instances. These teachers assessed themselves as less active than other women at the same age, they were much more likely than those who assessed their health as good or very good to have sought medical advice, to have sleeping problems and not to exercise regularly. They were also more likely to have various symptoms of discomfort, e.g. exhaustion, myalgia, headache, mood swings and anxiety. In addition they were more likely to have used anxiolytica, antidepressants, painkillers, sedatives or asthma medications.

Conclusion: The results show that the manifestations of teachers’ discomfort are numerous and diverse. In the future it is important not to restrict studies to those factors that have been the focus of most studies on teachers' health hitherto, i.e. stress, burn-out and voice-problems.

 

Inngangur

Fólk finnur oft fyrir vanlíðan án þess að gera sér grein fyrir því af hverju hún stafar. Vanlíðan getur tengst vinnuaðstæðum í víðum skilningi, vinnunni sjálfri, vinnuskipulaginu, mannlegum samskiptum á vinnustað eða átt sér allt aðrar orsakir sem ekki tengjast vinnunni. Heilsuvernd á vinnustað hefur verið skilgreind sem forvarnir byggðar á áhættumati og aðrar aðgerðir til að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna en vinnuverndarstarf eru allar aðgerðir eða ráðstafanir er stuðla að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum (Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006). Vinnutengd heilsa (e. work-related health) tengist vinnu og vinnuaðstæðum fólks að meira eða minna leyti – en þetta hugtak hefur, að því er við best vitum, ekki verið skilgreint sérstaklega í íslenskum lögum eða reglum. Í rannsókn okkar voru hugtökin heilsa, líðan, vanlíðan ekki heldur skilgreind sérstaklega fyrir þátttakendum en spurt um heilsu almennt, líkamlega og andlega líðan. Þegar talað er í þessari grein um sjálfmetna heilsu er átt við mat einstaklingsins á eigin heilsu (e. self-assessed health).

Vinnuverndarstarf á Íslandi byggir m.a. á rammatilskipun Evrópusambandsins frá 1989 (Tilskipun ráðsins um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum 89/391/EBE), samþykktum Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, sem Ísland hefur fullgilt (Elín Blöndal, 2003), svo sem Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi (Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi nr. 155, 1981) og íslensku vinnuverndarlögunum (Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980). Heilsuvernd á vinnustað byggist á áhættumati og það nýmæli er í íslensku vinnuverndarlögunum, sem gerðar voru breytingar á sumarið 2003, að öllum atvinnurekendum er nú skylt að gera skriflegt áhættumat á vinnustaðnum. Við gerð matsins skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi (Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum). Í reglugerð frá 2006, sem byggir á lögunum, er áhættumat skilgreint sem greining áhættuþátta á vinnustað og mat á líkum á því að starfsmaður verði fyrir heilsutjóni (Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, 2006).

Með breytingum á ofangreindum lögum og með því að skylda alla atvinnurekendur til að gera áhættumat felst viðurkenning á því að aðstæður í vinnunni geti haft áhrif á heilsufar og líðan. Heilsufar og líðan starfsmanna hefur á hinn bóginn áhrif á það hvernig starfsmenn skila störfum sínum; um gagnverkandi áhrif er því að ræða (Harrington, Gill, Aw og Gardiner, 1998). Ekki er aðeins hætta á að mengandi efni, hávaði, röng lýsing, sýklar og önnur smitefni geti stefnt heilsu starfandi fólks í voða, heldur geta aðstæður á vinnustað, vinnuskipulagið, vinnuálag eða verkefnaskortur, mannleg samskipti og fleira leitt til vanlíðanar (Harrington, o.fl., 1998).

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna birtingarmyndir vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara, þ.e. að athuga hvað helst amaði að þeim sem meta heilsu sína og líðan sæmilega eða slæma samanborið við þær sem meta heilsu sína og líðan góða eða mjög góða. Til þessa var valið úrtak úr þýði kvenna í hópi grunnskólakennara.

Konur, sem kenna í grunnskólum eru áhugaverðar m.a. í ljósi þess að um er að ræða rótgróna og fjölmenna kvennastétt. Athuguð voru tengsl heilsu og líðanar annars vegar og hins vegar lífshátta, andlegrar og líkamlegrar líðanar og lyfjanotkunar hjá hópnum.

Fræðilegur bakgrunnur

Þegar leitað var að rannsóknum á heilsufari og líðan kennara virtust flestar beinast að streitu eða kulnun í starfi (Chan, Lai, Ko og Boey, 2000; Koustelios, 2001; Kyriacou, 2001; Taris, Peeters, Le Blanc, Schreurs og Schaufeli, 2001; van Dick og Wagner, 2001). Því hefur jafnvel verið haldið fram að um þriðjungur kennara þjáist af mikilli streitu og/eða kulnun (van Dick og Wagner, 2001).

Vinnuálag virðist greið leið til kulnunar meðal kennara (Anna Þóra Baldursdóttir, 2000). Það sem við er að glíma í starfinu skiptir þó ekki alltaf höfuðmáli heldur hitt hvernig hverjum og einum tekst að ráða fram úr þeim vanda sem hann ratar í (Kyriacou, 2001). Þessi ályktun er mjög í anda kenninga Antonovskys sem leggur áherslu á mikilvægi þess að skynja samhengi hlutanna og geta þannig ráðið við erfiðar aðstæður (Antonovsky, 1988).

Chan og félagar rannsökuðu vinnutengda streitu hjá sex starfsstéttum í Singapore: heimilislæknum, lögfræðingum, verkfræðingum, kennurum, hjúkrunarfræðingum og starfsfólki líftryggingafélaga. Kennarar mældust með mesta streitu en þar á eftir komu lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, tryggingasalar og læknar. Niðurstöðurnar sýndu að kröfur um afköst og árekstrar milli vinnu og fjölskyldulífs voru helstu streituvaldarnir. Þessir tveir þættir og slæmar atvinnuhorfur höfðu líka neikvæð áhrif á vinnugleðina. Í rannsókninni kom fram að læknarnir voru ánægðastir í starfi og síst streittir. Hjúkrunarfræðingarnir og kennararnir, sem voru að miklum meiri hluta konur (71,4%), komu svipað út varðandi marga þætti og bentu höfundar á að þessar starfstéttir njóti ekki sama sjálfræðis, virðingar, launa né starfsaðstöðu og hinar. Þegar árekstrar á milli krafna fjölskyldu og vinnu voru skoðaðir komu kennarar verst út. Á það er bent að konur axli oft aðalábyrgðina á heimilinu og að undirbúningsvinna, sem unnin er heima og tengist skólanum, geti valdið streitu hjá þeim (Chan o.fl., 2000).

Þetta er í samræmi við rannsóknir Frankenhaeuser sem sýndi fram á að konum fremur en körlum hættir til að taka áhyggjur af vinnunni með sér heim, þótt konur hafi oftast aðalábyrgðina á heimilishaldinu. Vinna og kröfur heima fyrir stangast fremur á hjá konum en körlum. Frankenhaeuser telur að konur hafi yfirleitt minna sjálfræði í vinnunni en karlar og stuðli það einnig að streitu (Frankenhaeuser, 1993).

Til að komast að raun um hverjar væru meginorsakir streitu, kulnunar og álags hjá kennurum og hins vegar hvað mætti helst til varnar verða könnuðu van Dick og Wagner tengsl streitu (e. stress), álags (e. strain) og nokkurra mildandi þátta, s.s. trúar á eigin getu, félagslegs stuðnings og bjargráða hjá kennurum í grunnskólum, framhaldsskólum og sérskólum. Niðurstöðurnar bentu til þess að streita leiddi til líkamlegra einkenna og kulnunar þegar fram í sækti en vísbendingar voru um að persónulegir eiginleikar og félagslegur stuðningur skipti máli til að draga úr áhrifum streitunnar. Stuðningur skólastjóra vó þyngst í þessu efni. Bæði kulnun og líkamleg vanlíðan leiddu til fjarveru frá vinnu (van Dick og Wagner, 2001).

Rannsóknirnar á tengslum streitu og vanlíðanar meðal kennara hafa reyndar verið gagnrýndar á þeim forsendum að yfirleitt sé um þversniðsrannsóknir að ræða og því ekki unnt að fullyrða neitt um orsakir eða afleiðingar (Guglielmi og Tatrow, 1998).

Sænska rannsóknastofnunin í vinnuvernd (Arbetslivsinstitutet) hefur gefið út handbók fyrir alla í grunnskólum, bæði nemendur og kennara, þar sem vinnuumhverfi kennara er lýst og komið með ýmis ráð til úrbóta (Kindenberg, 2005). Þar kemur fram að í könnun, sem sænsk skólayfirvöld gerðu árið 2003, hafi 47% kennara sagt að þeir séu alltaf eða oftast streittir í starfi. Konur voru streittari en karlar (Kindenberg, 2005). Samkvæmt sömu heimild voru 25% aðspurðra kvenna og 15% karla í hópi kennara með vanlíðanareinkenni sem þau töldu að ættu rætur að rekja til streitu og andlegs álags.

Rannsókn, sem gerð var meðal danskra kennara, leiddi á hinn bóginn í ljós að kennarar lágu síður á sjúkrahúsum en annað vinnandi fólk. Þetta gilti bæði um karla og konur (Hannerz, Albertsen og Tüchsen, 2002). Dánarmeinarannsókn, sem gerð var í Japan, sýndi að dánartíðni var um helmingi lægri meðal grunnskólakennara, bæði hjá konum og körlum, en búast mátti við samanborið við japönsku þjóðina almennt og allt starfandi fólk í Japan (Tanaka, Nishio, Murakami, Mukai, Kinoshita og Mori, 2001).

Anna Þóra Baldursdóttir kannaði sérstaklega kulnun í starfi hjá kennurum og leiðbeinendum í grunnskólum á Íslandi í meistaraprófsverkefni sínu til M.Ed. gráðu í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands (Anna Þóra Baldursdóttir, 2000). Meginniðurstaða Önnu Þóru var að kulnunar verði vart meðal íslenskra grunnskólakennara og leiðbeinenda en minni kulnunar gæti þó hjá þeim en sést hafi í erlendum rannsóknum meðal grunnskólakennara. Rannsakandi taldi að ýmsir áhrifaþættir í starfsumhverfinu leiddu helst til kulnunar í starfi, s.s. vinnuálag, launakjör, aga- og hegðunarvandamál, hlutverkaárekstrar og óskýr hlutverk ásamt neikvæðum samskiptum og virðingarleysi fyrir starfi kennarans (Anna Þóra Baldursdóttir, 2000).

Valdís Jónsdóttir rannsakaði raddvandamál meðal íslenskra kennara og varði doktorsrit um efnið (Valdís Jónsdóttir, 2003). Valdís leggur áherslu á að bæði kennarar og nemendur líði fyrir lélegan hljómburð í skólastofum. Það sé erfitt fyrir kennara að tala svo að vel heyrist til allra nemenda. Þetta leiði til þess að kennarar brýni raustina og reyni meir á raddböndin en æskilegt sé. Valdís mælir með því að magnarakerfi sé notað í skólastofum.

Hjúkrunarfræðingarnir Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir skrifuðu lokaverkefni til B.Sc. prófs í hjúkrunarfræði vorið 2001 um líðan og heilsufar kennara, bæði kvenna og karla (Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir, 2001). Þar kom fram að streita hafi mest verið rannsökuð hjá kennurum, því næst kulnun, þá krabbamein og loks vandamál sem tengjast raddbeitingu. Kennarar greini frá miklu vinnuálagi og séu orsakir þess margþættar. Rannsóknir sýni að agaleysi, ofbeldi meðal nemenda, virðingarleysi gagnvart starfi kennarans og auknar kröfur þjóðfélagsins til kennara vegi þungt í þessu efni. Kennurum, sem búi við gott sjálfstraust og innra öryggi, hætti síður en öðrum við kulnun í starfi (Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir, 2001).

Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kvenna í hópi flugfreyja, hjúkrunarfræðinga og kennara á Íslandi var metið með spurningalistakönnun árið 2002. Rannsóknin var gerð í samvinnu Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands og rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins. Helstu niðurstöður voru birtar sérstaklega í skýrslum um hvern starfshóp og eru þær allar aðgengilegar á heimasíðu Vinnueftirlitsins http://www.vinnueftirlit.is/is/rannsoknir/.

Skýrslan um kennara ber heitið Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara (Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir, 2003).

Þegar horft var sérstaklega til lífshátta, áreitni á vinnustað og sjálfmetinnar heilsu þessara hópa kom í ljós að bæði hjúkrunarfræðingar og kennarar mátu heilsu sína og líkamlega líðan lakari en flugfreyjur, munurinn var tölfræðilega marktækur að því er varðaði kennara en ekki hjúkrunarfræðinga (Holmfridur K. Gunnarsdottir, Herdis Sveinsdottir, Jon Gunnar Bernburg og Hildur Fridriksdottir, 2006). Streita og þreyta mældust meiri meðal flugfreyja og kennara en meðal hjúkrunarfræðinga (Herdís Sveinsdóttir og Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, í prentun).

Í ljósi þessa var ákveðið að kanna sérstaklega birtingarmyndir vanlíðanar hjá þeim konum í hópi grunnskólakennara, sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan sæmilega eða slæma, samanborið við þær sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan góða eða mjög góða.

Efniviður og aðferðir

Efniviður rannsóknarinnar voru svör þeirra 415 kvenna í hópi grunnskólakennara sem voru á skrá hjá Félagi grunnskólakennara og svöruðu spurningalistanum sem var sendur út á vegum Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði og rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins vorið 2002. Á skrá hjá félaginu voru þá 3.368 konur og var tekið 600 kvenna úrtak (17,8% þýðis).

Orðið kennari er karlkyns en allir kennararnir í rannsókninni voru konur. Málfræðilegt kyn verður notað í greininni þegar orðið kennari krefst þess í setningunni en annars verður talað um hópinn í kvenkyni.

Rannsóknaraðferð

Spurningalistinn Heilsufar kvenna. Spurningalisti um heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara skiptist í níu hluta en margar spurningarnar voru í mörgum liðum: Bakgrunnur (15 spurningar um lýðfræðilega þætti og vinnu); Samspil vinnu og einkalífs (5 spurningar); Heilsa og lífstíll (17 spurningar); Svefn og hvíld (4 spurningar ); Þættir tengdir frjósemisskeiði kvenna og kvensjúkdómum (20 spurningar); Veikindi, meðferð og forvarnir (20 spurningar); Starf (5 spurningar); Áreitni á vinnustað (6 spurningar); Vinnuumhverfi (18 spurningar). Spurningalistinn byggist á nokkrum spurningalistum svo sem lista frá rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins sem hefur verið notaður við nokkrar kannanir á ólíkum starfshópum hérlendis. Sá listi byggist m.a. á erlendum spurningalistum s.s. spurningalista um einkenni frá stoðkerfi (Kuorinka, o.fl., 1987), sem hefur verið lengi í notkun á Norðurlöndunum. Enn fremur voru spurningar sem áður hafa verið notaðar til að kanna svefnvenjur og áfengisnotkun (Bryndís Benediktsdóttir, Kristinn Tómasson og Þórarinn Gíslason, 2000). Að auki var stuðst við spurningalista, sem lagður var fyrir hjúkrunarfræðinga árið 1999, í rannsókn sem hafði það að markmiði að kanna vinnuálag og starfsánægju þeirra (Páll Biering, 2000). Spurningar um heilsufar byggðust m.a. á bandarískum lista, sem hefur verið þýddur og staðfærður á íslensku, og notaður í rannsóknum á heilsufari og blæðingum íslenskra kvenna (Herdís Sveinsdóttir, 1993, 2000).

Spurningalistann í heild má sjá í skýrslunni Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara (Herdís Sveinsdóttir, o.fl., 2003). Spurningarnar, sem lagðar voru til grundvallar í rannsókn okkar, voru eftirfarandi: Telur þú heilsu þína almennt vera mjög góða, góða, sæmilega, slæma? Hversu góð eða slæm er líkamleg líðan þín (mjög góð, góð, sæmileg, slæm)? Hversu góð eða slæm er andleg líðan þín (mjög góð, góð, sæmileg, slæm)? Út frá þessum spurningum var spurt um sjálfmetna heilsu miðað við aðrar konur á sama aldri, líkamlega virkni miðað við aðrar konur á sama aldri, fjarvistir frá vinnu, líkamsrækt, líkamsþyngd, svefnvenjur, 39 vanlíðanareinkenni og lyfjanotkun.

Um þrenns konar samanburð var að ræða: Þeir kennarar, sem mátu heilsu sína sæmilega eða slæma, voru bornir saman við þá sem mátu heilsu sína góða eða mjög góða. Í öðru lagi voru þeir kennarar, sem mátu líkamlega líðan sína sæmilega eða slæma, bornir saman við þá sem mátu líkamlega líðan sína góða eða mjög góða. Í þriðja lagi voru þeir kennarar, sem mátu andlega líðan sína sæmilega eða slæma, bornir saman við þá sem mátu andlega líðan sína góða eða mjög góða.

Reiknuð voru hlutföll hlutfallslíkna (e. odds ratios) (Hernberg, 1992). Þannig er unnt að bera saman tvo hópa sem ólíkt er ástatt fyrir. Samfelldum breytum (mjög góð, góð, sæmileg, slæm) var breytt í tvíkosta breytur þannig að mjög góð og góð flokkaðist saman og sæmileg og slæm flokkaðist saman. Álíka líkamlega virk/virkari flokkaðist saman á móti minna virkari. Regluleg líkamsrækt einu sinni til tvisvar í viku eða oftar var flokkað saman á móti sjaldnar en einu sinni í viku. Líkamsþyngd var flokkuð þannig; af eðlilegri þyngd, aðeins/nokkuð eða alltof létt á móti alltof, aðeins/nokkuð of þung. Þegar spurt var um svefnvenjur var stuðst við flokkunina aldrei/sjaldnar en einu sinni í viku á móti einu sinni í viku eða oftar. Þá var stuðst við flokkunina leitaði aldrei/einu sinni til þrisvar sinnum læknis á síðasta ári á móti oftar en þrisvar. Aldrei/einu sinni til þrisvar fjarverandi frá vinnu á s.l. ári vegna eigin veikinda eða annarra flokkaðist á móti oftar en þrisvar. Um einkennin var spurt: „Hefur þú fundið fyrir eftirfarandi einkennum á síðustu 12 mánuðum?“ og notuð eftirfarandi flokkun: Aldrei á móti stundum/oft/stöðugt. Spurt var um 39 einkenni. Um lyfin var spurt. „Hefur þú sl. 12 mánuði notað eftirfarandi?“ Kvíðastillandi lyf, þunglyndislyf, róandi lyf, verkjalyf, astmalyf. Svarmöguleikarnir voru já eða nei.

Vegna þess hve orðasambandið hlutföll hlutfallslíkna er óþjált verður í þessari grein notast við orðið líkindahlutföll. Áhugasömum um orðanotkun í þessu sambandi skal bent á grein Maríu Heimisdóttur (María Heimisdóttir, 2001). Þær, sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan sæmilega eða slæma, voru skilgreindar sem tilfelli og bornar saman við þær sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan góða eða mjög góða og voru skilgreindar sem viðmið. Ef líkindahlutfallið er hærra en 1 (einn) er það, sem verið er að mæla, líklegra meðal tilfella en viðmiða. Þeim mun hærra sem líkindahlutfallið er, þeim mun meiri er munurinn. Reiknuð voru 95% vikmörk. Ef vikmörkin innihalda ekki 1 (einn) eru að minnsta kosti 95% líkur á að niðurstaðan sé ekki tilviljun háð og því talin tölfræðilega marktæk. Útreikningar voru gerðir í tölvuforritinu SPSS (SPSS, 1999).

Leyfi Vísindasiðanefndar (VSN 01-26) fékkst fyrir rannsókninni og Persónuvernd var tilkynnt um hana.

Niðurstöður

Listanum svöruðu 415 kennarar sem gaf 69% svörun. Meðalaldur var 43,3 ár. Spurningunni um almenna heilsu sína svöruðu 411. Af þeim töldu 344 (84%) heilsuna góða eða mjög góða en 67 (16%) mátu hana sæmilega eða slæma. Spurningunni um líkamlega líðan sína svöruðu 413. Af þeim mátu 314 (76%) hana mjög góða eða góða en 99 (24%) töldu hana sæmilega eða slæma. Allir kennararnir svöruðu spurningunni um andlega líðan sína. Af þeim töldu 336 (81%) hana mjög góða eða góða en 79 (19%) töldu hana sæmilega eða slæma. Í töflu 1 má sjá algengi þess, sem spurt var um, raðað eftir því hvað algengið var hátt.

Tafla 1
Algengi þeirra atriða sem spurt var um og varða sjálfmetna heilsu, andlega
eða líkamlega líðan og lyfjatöku kvenna í hópi grunnskólakennara.

Atriði sem 10% eða fleiri svöruðu játandi

Algengi
Verkjalyf á sl.12 mánuðum (já/nei)
70%
Of þung að eigin áliti (alltof þung/aðeins eða nokkuð of þung) 66%
Vaknar ekki úthvíld oftar en 1x í viku 51%
Vaknar upp að nóttu til oftar en 1x í viku 45%
Vaknar of snemma oftar en 1x í viku 33%
Leitaði læknis oftar en 3svar á síðasta ári 33%
Höfuðverkur (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 30%
Stundar líkamsrækt sjaldnar en 1x í viku 29%
Bólgnir vöðvar/liðamót (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 23%
Bakverkir (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 23%
Oftar en 3svar fjarverandi frá vinnu vegna eigin veikinda 21%
Kvíði eða spenna (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 18%
Síþreyta (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 17%
Oftar en 3svar fjarverandi frá vinnu vegna veikinda annarra í fjölskyldunni 16%
Á erfitt með að sofna oftar en 1x í viku 16%
Vanlíðan í fótum/fótleggjum við langstöður
(stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum)
15%
Þreyta/örmögnun (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 14%
Hæsi (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 11%
Skapsveiflur (stundum/oft/stöðugt á sl. 12 mánuðum) 11%
Líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri 10%


Eins og sjá má höfðu 70% notað verkjalyf á síðasta ári og 66% töldu sig of þungar. Svefntruflanir voru algengar og höfuðverkur, bólgnir vöðvar/liðamót og bakverkir voru talsvert algeng einkenni. Kvíða/spennu eða síþreytu gætti hjá 18 og 17 af hundraði.

Þegar þær, sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan sæmilega eða slæma voru bornar saman við þær sem mátu heilsu sína, líkamlega eða andlega líðan góða eða mjög góða voru niðurstöðurnar eins og sjá má í töflum 2–4. Líkindahlutföllin voru há í mörgum tilfellum en aðeins tölfræðilegar niðurstöður eru sýndar í töflunum þrem.

Tafla 2
Lífshættir, líðan og lyfjanotkun þeirra kennara, sem mátu heilsu sína
sæmilega eða slæma, samanborið við þá sem mátu heilsu sína
góða eða mjög góða. Líkindahlutföll (e. odds ratios) og 95% vikmörk.

Lífshættir, líðan, lyfjanotkun

Líkindahlutföll 95% vikmörk
Líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri 8,86 4,47–17, 56
Leitaði læknis oftar en 3x á ári 6,75 3,78–12,07
Fjarverandi frá vinnu 4x eða oftar á sl. ári vegna eigin veikinda 5,96 3,38–10,52
Fjarverandi frá vinnu lengur en 14 daga á sl. ári vegna eigin veikinda eða annarra 4,66 2,20–9,88
Líkamsrækt sjaldnar en 1x í viku 2,25 1,30–3,88
Of þung að eigin áliti 2,19 1,17–4,10
Svefn og hvíld
Vaknar ekki úthvíld 1x eða oftar í viku 6,71 3,30–13,62
Á erfitt með að sofna 1x eða oftar í viku 3,10 1,68–5,77
Vaknar of snemma 1x eða oftar í viku 2,89 1,68–4,97
Vaknar upp að nóttu til 1x eða oftar í viku 2,62 1,51–4,54

Andleg/líkamleg líðan

Þreyta/örmögnun 10,88 4,56–25,91
Síþreyta 10,71 5,11–22,46
Bólgnir vöðvar/liðamót 10,56 4,43–25,17
Höfuðverkur 8,30 1,98–34,79
Hiti eða hrollur 4,36 2,40–7,91
Bakverkir 4,01 1,77–9,09
Tíð þvaglát 3,52 2,02–6,14
Andþyngsli 3,50 1,98–6,20
Vanlíðan í fótum/fótleggjum við langstöður 3,39 1,88–6,13
Dúndrandi hjartsláttur 3,21 1,82–5,69
Yfirlið eða svimi 3,06 1,74–5,37
Brjóstsviði 2,75 1,58–4,79
Meltingartruflanir 2,74 1,57–4,78
Sinadráttur 2,66 1,53–4,62
Astmi 2,52 1,09–5,84
Kvíði eða spenna 2,36 1,12–4,98
Magaverkur 2,35 1,35–4,10
Hægðatregða 2,31 1,35–3,96
Sviti eða skjálfti 2,28 1,25–4,16
Of hár blóðþrýstingur 2,28 1,23–4,23
Skapsveiflur 1,89 1,03–3,47

Lyfjanotkun (einhvern tíma
á sl. 12 mánuðum)

Kvíðastillandi lyf 13,42 3,37–53,43
Svefnlyf oftar en 1x í viku 6,19 2,46–15,58
Þunglyndislyf 4,86 2,21–10,69
Verkjalyf 4,35 1,92–9,83
Astmalyf 2,89 1,32–6,30


Atriðum í Töflu 2 er raðað innan hvers kafla eftir því hvað líkindahlutföllin voru há en einungis sýndar tölfræðilega marktækar niðurstöður. Sjá má að þær, sem töldu heilsu sína sæmilega eða slæma, voru nærri níu sinnum líklegri en aðrar til að telja sig líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri. Þær voru einnig mun líklegri en aðrar konur í hópi kennara til að leita oft læknis, vera fjarverandi oft eða lengi vegna eigin veikinda eða annarra, stunda ekki reglulega líkamsrækt eða vera of þungar að eigin áliti. Ýmis andleg einkenni voru áberandi í þessum hópi svo sem þreyta/örmögnun, síþreyta og svefntruflanir. Líkamlegu einkennin, sem líklegast var að þessi hópur fyndi fyrir fremur en aðrar konur í hópi kennara, voru: bólgnir vöðvar/liðamót, höfuðverkur, hiti eða hrollur og bakverkir. Þessi hópur var líka mun líklegri en hinn til að hafa á síðasta ári notað allar þær tegundir lyfja sem taldar eru upp í töflunni en líkindahlutföllin voru hæst varðandi kvíðastillandi lyf og svefnlyf (Tafla 2).

Þeir kennarar, sem mátu heilsu sína sæmilega eða slæma, mátu bæði andlega (líkindahlutfall 2,7 (vikmörk 1,53–4,89) og líkamlega líðan sína slæma (líkindahlutfall 142,21 (vikmörk 48,74–414,98). (Ekki sýnt í töflu). Þar sem skýr tengsl komu fram á milli þessara þátta þótti áhugavert að skoða sérstaklega hvaða einkenni tengdust sérstaklega líkamlegri líðan og andlegri líðan kennaranna (töflur 3–4).

Tafla 3
Lífshættir, líðan og lyfjanotkun þeirra kennara, sem mátu líkamlega líðan sína
sæmilega eða slæma, samanborið við þá sem mátu líkamlega líðan sína
góða eða mjög góða. Líkindahlutföll (e. odds ratios) og 95% vikmörk.

Lífshættir, líðan, lyfjanotkun

Líkindahlutföll 95% vikmörk
Líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri 7,45 3,77–14,75
Stundar ekki líkamsrækt reglulega 3,77 2,33–6,09
Fjarverandi frá vinnu lengur en 14 daga á sl. ári vegna eigin veikinda eða annarra 3,63 1,77–7,44
Of þung að eigin áliti 1,97 1,17–3,32

Andleg einkenni (stundum/oft/stöðugt
á sl. 12 mánuðum)

Síþreyta 8,12 4,59–14,35
Þreyta/örmögnun 7,36 3,92–13,81
Vaknar ekki úthvíld 1x eða oftar í viku 3,80 2,27–6,36
Á erfitt með að sofna 1x eða oftar í viku 3,32 1,89–5,84
Vaknar upp að nóttu til 1x eða oftar í viku 2,92 1,81–4,69
Kvíði eða spenna 2,55 1,35–4,83
Skapsveiflur 2,05 1,21–3,47
Vaknar of snemma 1x eða oftar í viku 1,78 1,11–2,87
Líkamleg einkenni (stundum/oft/stöðugt
á sl. 12 mánuðum)
Höfuðverkur 9,07 2,78–29,54
Bólgnir vöðvar/liðamót 6,75 3,66–12,48
Bakverkir 5,15 2,49–10,66
Andþyngsli 4,67 2,80–7,79
Dúndrandi hjartsláttur 3,80 2,26–6,38
Hiti eða hrollur 3,67 2,21–6,08
Vanlíðan í fótum/fótleggjum við langstöður 3,09 1,88–5,10
Tíð þvaglát 2,80 1,73–4,54
Meltingartruflanir 2,68 1,65–4,35
Yfirlið eða svimi 2,57 1,57–4,19
Magaverkur 2,52 1,55–4,10

Astmi

2,38 1,10–5,17
Brjóstsviði 2,36 1,45–3,85
Hósti 2,34 1,26–4,36
Sviti eða skjálfti 2,23 1,30–3,81
Sinadráttur 2,08 1,27–3,38
Bólgur í ennis-/ kinnholum 2,02 1,23–3,32
Of hár blóðþrýstingur 1,98 1,12–3,49
Hægðatregða 1,83 1,14–2,94

Lyfjanotkun (einhvern tíma
á sl. 12 mánuðum)

Kvíðastillandi lyf 14,10 2,94–67,64
Notar svefnlyf oftar en 1x í viku 5,51 2,18–13,92
Þunglyndislyf 3,88 1,80–8,38
Astmalyf 3,24 1,58–6,65
Verkjalyf 2,72 1,52–4,89


Atriðum í Töflu 3 er raðað eftir því hvað líkindahlutföllin voru há. Einungis eru sýndar tölfræðilega marktækar niðurstöður. Þær, sem mátu líkamlega líðan sína sæmilega eða slæma, voru, auk þess að vera mun líklegri en aðrar til að telja sig líkamlega óvirkari en aðrar konur, líklegri til að leita oft læknis eða hafa verið lengi fjarverandi frá vinnu vegna eigin veikinda eða annarra. Þær voru einnig líklegri en aðrar til að telja sig of þungar.

Þegar litið er til andlegra einkenna þeirra, sem sögðu líkamlega líðan sína sæmilega eða slæma, voru líkindahlutföllin sérstaklega há varðandi síþreytu, þreytu/örmögnun, svefntruflanir, kvíða/spennu og skapsveiflur. Þessar konur voru mun líklegri en aðrar konur í hópi kennara til að hafa á síðasta ári fundið fyrir einhverju þeirra líkamlegu einkenna, sem talin eru upp í töflunni, en hæst voru líkindahlutföllin varðandi höfuðverk, bólgna vöðva/liðamót, bakverki og andþyngsli. Þessar konur voru einnig mun líklegri til að hafa á síðastliðnu ári þurft á að halda einhverju þeirra lyfja sem talin eru upp í töflunni. Líkindahlutfallið var hæst fyrir kvíðastillandi lyf.

Tafla 4
Lífshættir, líðan og lyfjanotkun þeirra kennara, sem mátu andlega líðan sína
sæmilega eða slæma, samanborið við þá sem mátu andlega líðan sína
góða eða mjög góða. Líkindahlutföll (e. odds ratios) og 95% vikmörk.

Lífshættir, líðan, lyfjanotkun

Líkindahlutföll 95% vikmörk
Líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri 2,97 1,51–5,86
Stundar ekki líkamsrækt reglulega 2,00 1,20–3,34

Andleg einkenni (stundum/oft/stöðugt
á sl. 12 mánuðum)

Kvíði eða spenna 10,84 3,33–35,24
Síþreyta 6,37 3,50–11,59
Skapsveiflur 5,46 2,63–11,34
Þreyta/örmögnun 3,62 2,02–6,49
Á erfitt með að sofna 1x eða oftar í viku 2,93 1,63–5,27
Vaknar ekki úthvíld 1x eða oftar í viku 2,40 1,42–4,05
Vaknar upp að nóttu til 1x eða oftar í viku 2,08 1,26–3,42
Vaknar of snemma 1x eða oftar í viku 1,88 1,14–3,12
Líkamleg einkenni (stundum/oft/stöðugt
á sl. 12 mánuðum)
Höfuðverkur 4,79 1,69–13,57
Sviti eða skjálfti 3,52 2,02–6,14
Andþyngsli 2,96 1,73–5,08
Dúndrandi hjartsláttur 2,63 1,52–4,57
Bakverkir 2,47 1,27–4,78
Meltingartruflanir 2,41 1,44–4,03
Magaverkur 2,23 1,32–3,75
Tíð þvaglát 2,21 1,32–3,70
Bólgur í ennis-/ kinnholum 2,13 1,26–3,61
Yfirlið eða svimi 1,92 1,14–3,22
Hiti eða hrollur 1,89 1,13–3,17

Vanlíðan í fótum/fótleggjum við langstöður

1,81 1,08–3,02

Lyfjanotkun (einhvern tíma
á sl. 12 mánuðum)

Kvíðastillandi lyf 10,78 2,72–42,73
Þunglyndislyf 5,00 2,32–10,76


Atriðum í Töflu 4 er raðað eftir því hvað líkindahlutföllin voru há. Einungis eru sýndar tölfræðilega marktækar niðurstöður. Sjá má að þær, sem mátu andlega líðan sína sæmilega eða slæma, voru líklegar til að telja sig líkamlega óvirkari en aðrar konur á sama aldri og þær voru síður en aðrar líklegar til að stunda reglulega líkamsrækt. Þær voru mun líklegri en aðrar til að finna fyrir kvíða/spennu, síþreytu, skapsveiflum, þreytu/örmögnun og svefntruflunum.

Meðal þeirra líkamlegu einkenna, sem líklegra var að þessi hópur fyndi fyrir en aðrar konur í hópi kennara, voru t.d.: höfuðverkur, sviti eða skjálfti, andþyngsli, dúndrandi hjartsláttur og bakverkir. Þegar kom að lyfjanotkun voru líkindahlutföllin hæst varðandi kvíðastillandi lyf og þunglyndislyf.

Umræða

Markmið rannsóknarinnar var að kanna birtingarmyndir vanlíðanar hjá konum í hópi grunnskólakennara, þ.e. að athuga hvað helst amaði að þeim sem meta heilsu sína og líðan sæmilega eða slæma samanborið við þær sem meta heilsu sína og líðan góða eða mjög góða. Eins og sjá má af niðurstöðunum birtist líkamleg og andleg vanlíðan kvenna í hópi kennara á margvíslegan hátt. Margar þeirra (70%) höfðu þurft á verkjalyfjum að halda og svefntruflanir voru algengar en 51% vaknaði ekki úthvíld oftar en einu sinni í viku, 45% vöknuðu upp að nóttu til oftar en einu sinni í viku og 33% vöknuðu of snemma oftar en einu sinni í viku. Um þriðjungur hafði þurft að leita læknis oftar en þrisvar á undangengnu ári og einkennin höfuðverkur, lið- eða bakverkir, kvíði, spenna og síþreyta voru talsvert algeng í hópnum. Um 66% töldu sig of þungar. Birtingarmyndir vanlíðanar voru svipaðar hvort sem um var að ræða andlega eða líkamlega vanlíðan.

Ekki er unnt að fullyrða neitt um orsakir vanlíðanar kennara en spurningar vakna um það hvort heilbrigðisstarfsmenn geri nóg af því að athuga hvort vanlíðan skjólstæðinga þeirra geti átt rót að rekja til aðstæðna í vinnunni eða heima fyrir. Þótt rannsóknin, sem hér er til umræðu, hafi beinst að kennurum, má leiða getum að því að svipað gildi um aðra hópa í þjóðfélaginu. Hafa skal í huga að rannsóknin beindist eingöngu að konum en annað gæti verið uppi á teningnum ef um karlahóp væri að ræða. Vert er einnig að benda á að stærstur hluti kennaranna taldi heilsu sína og líðan góða eða mjög góða.

Að því er við best vitum hefur ekki áður verið gerð sérstök athugun hérlendis á heilsufari og birtingarmyndum vanlíðanar kennara en heilsufar, líðan og vinnuumhverfi hefur verið kannað á vegum rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins meðal ýmissa annarra starfshópa. Sem dæmi má nefna rannsókn á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi starfsfólks í öldrunarþjónustu (Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Kristinn Tómasson og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, 2004) og starfsmanna í útibúum banka og sparisjóða (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Kristinn Tómasson, 2004). Í rannsókninni, sem hér birtist, var ekki um samanburð á milli starfshópa að ræða en þegar gerður var samanburður á flugfreyjum, konum í hópi grunnskólakennara og hjúkrunarfræðingum kom í ljós að kennararnir og flugfreyjurnar voru undir meira streituálagi og kvörtuðu meira um þreytu en hjúkrunarfræðingarnir (Herdís Sveinsdóttir og Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, í prentun). Í rannsókninni á streitu hjá sex starfsstéttum, sem gerð var í Singapore, mældust kennarar með mesta streitu en þar á eftir komu lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, tryggingasalar og læknar. Niðurstöðurnar sýndu að kröfur um afköst og árekstrar milli vinnu og fjölskyldulífs voru helstu streituvaldarnir (Chan, o.fl., 2000). Kennarar virðast því vera undir meira álagi en ýmsar aðrar starfsstéttir.

Í könnuninni sem greint er frá í skýrslunni Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara kom fram að margar konur í hópi kennara vinna heima eftir að beinni kennslu lýkur (Herdís Sveinsdóttir, o.fl., 2003). Það má velta því fyrir sér hvort það auðveldi samspil fjölskyldu- og atvinnulífs eða stuðli að álagi vegna þess að mörk vinnu og frítíma eru óljós (Chan, o.fl., 2000). Frankenhaeuser benti á að konum fremur en körlum hætti til að taka áhyggjur af vinnunni með sér heim, þótt konur hafi oftast aðalábyrgðina á heimilishaldinu. Hún benti líka á að konur hafi yfirleitt minna sjálfræði í vinnunni en karlar og það gæti stuðlað að streitu og vanlíðan (Frankenhaeuser, 1993). Í rannsókn okkar var ekki spurt sérstaklega um streitu en byggt á rannsóknum annarra (Kindenberg, 2005; van Dick og Wagner, 2001) mætti geta sér þess til að streita af einhverju tagi og álag geti átt hér hlut að máli þ.e. að ójafnvægi sé á milli áreitis og bjargráða (Antonovsky, 1988).

Konur eru síður skólastjórar en karlar hérlendis þótt konur séu í miklum meirihluta meðal grunnskólakennara (Hagstofa Íslands, 2006). Þetta endurspeglar það, sem sést annars staðar í þjóðfélaginu, að sú sterka staða kvenna á vinnumarkaði, sem almenn atvinnuþátttaka ber vitni um, skilar sér ekki í jafnræði meðal stjórnenda (Eiríkur Hilmarsson, 2002). Ef konur hafa almennt minna sjálfræði í vinnunni en karlar og það eitt og sér stuðlar að vanlíðan gæti það hugsanlega komið hér við sögu.

Rannsóknir hérlendis hafa sýnt að konur leita meir en karlar til heilsugæslunnar (Þorsteinn Njálsson, 1998) og í óhefðbundna meðferð (Sigríður Haraldsdóttir, 1998). Ýmissa skýringa hefur verið leitað. Spurt hefur verið hvort skorti á aga og yfirsýn heilbrigðisstarfsfólks, hvort konur séu veikari en karlar (Þorsteinn Njálsson, 1998) eða hvort konur fái síður en karlar ásættanlega úrlausn umkvörtunarefna sinna hjá hefðbundinni heilbrigðisþjónustu og leiti því fremur en þeir í óhefðbundin úrræði (Sigríður Haraldsdóttir, 1998). Athyglisvert er að mun oftar er vísað á róandi og kvíðastillandi lyf hjá konum en körlum í heilsugæslunni (Þorsteinn Njálsson, 1998). Kennararnir í rannsókn okkar, sem meta heilsu sína sæmilega eða slæma, virðast hafa ýmis einkenni sem krefjast úrlausnar og birtingarmyndir vanlíðanar eru bæði líkamlegar og andlegar hverjar sem orsakirnar kunna að vera. Spurningar vakna um það hvaða úrlausn þessar konur fá hjá heilbrigðisþjónustunni, ef eftir henni er leitað.

Árið 1994 sást að legur á sjúkrahúsum voru almennt tíðari meðal kvenna en karla hérlendis en þegar á heildina var litið skýrðist hluti þessa af barneignum og öðru sem tengist kynhlutverki kvenna (Sigríður Haraldsdóttir, 1998). Þótt konur leiti meir til heilbrigðisþjónustunnar en karlar er ekki vitað hvort konur í hópi grunnskólakennara leiti meir slíkrar aðstoðar hérlendis en aðrar konur. Rannsóknir erlendis frá benda reyndar til að svo muni ekki vera (Hannerz, o.fl., 2002). Niðurstöður dánarmeinarannsóknarinnar, sem gerð var í Japan og sýndi langlífi kennara, vakti höfunda þeirrar rannsóknar til umhugsunar um hvort rétt væri að rannsaka vinnuumhverfi kennara og lífshætti þeirra sérstaklega ef vera mætti til fyrirmyndar fyrir aðra sem lifa skemur (Tanaka, o.fl., 2001). Eins og fyrr segir lét langstærsti hluti kennaranna (84%) í rannsókn okkar vel af heilsu sinni og líðan og gæti þess vegna verið öðrum hópum að einhverju leyti til fyrirmyndar að því er varðar hreysti og heilsusamlega lifnaðarhætti.

Mikið reynir á röddina í starfi kennarans og helstu vandamálin þessu tengd eru: þurrkur í hálsi, erting, sviði, hæsi, raddþreyta, kökkur, verkir í hálsi, raddþreyta, raddbrestur og hnútar á raddböndum (Kristinn Hilmarsson, 2001; Valdís Jónsdóttir, 2001, 2003). Í grein Kristins Hilmarssonar er þess getið að í sænskri rannsókn hafi komið fram að konur, fremur en karlar í hópi kennara, hafi leitað sér sérfræðihjálpar vegna raddvandamála og telji rannsakandinn mögulegt að það sé vegna þess að raddir kvenna þoli síður vinnutengt álag og hávaðasamt umhverfi.

Enginn tölfræðilega marktækur munur sást á hæsi meðal kennaranna í rannsókn okkar en á hinn bóginn voru tilfellin líklegri en viðmiðin til að kvarta um hósta. Hæsi er ef til vill það algeng meðal kennara að munur sést ekki á milli hópa.

Ekki er að efa að gott væri ef kennarar gætu farið í endurmenntun á þessu sviði þegar þeir hafa starfað um eitthvert skeið og vita betur hvar skórinn kreppir.

Meðal veikleika rannsóknarinnar má nefna:

Spurningalistakannanir, sem eru þversniðsrannsóknir, hafa þekkta galla svo sem að ekki er unnt að staðhæfa hvað er orsök og hvað afleiðing ef um orsakasamband er yfirleitt að ræða (Guglielmi og Tatrow, 1998; Laufey Tryggvadóttir, 2003). Ef fólk er beðið að svara spurningum um liðna atburði er hætta á að ónákvæmni sé nokkur. Á móti má segja að tilfinning hvers einstaklings sé góður og gildur mælikvarði út af fyrir sig, ef aðeins er haft í huga að um huglægt, einstaklingsbundið mat er að ræða og fólk er ekki beðið að segja til um eitthvað langt aftur í tímann. Þegar bornir eru saman tveir hópar, sem svara sama spurningalista á sama tíma, eins og gert er í þessari rannsókn, má segja að nákvæmni eða ónákvæmni mælingarinnar ætti að vera svipuð í báðum hópum.

Meðal styrkleika rannsóknarinnar má nefna að hún gefur upplýsingar um hvers konar vanlíðan hrjáir konur í hópi grunnskólakennara sem meta líðan sína og heilsu sæmilega eða slæma og gefur vísbendingar um að vanlíðan getur hvort heldur sem er birst í andlegum eða líkamlegum einkennum. Þetta ætti að vera til umhugsunar bæði fyrir kennara og heilbrigðisstarfsfólk.

Kennarastéttin er stór starfsstétt á Íslandi og þar eru konur fjölmennar. Ekki er ólíklegt að líðan kennara í starfi hafi áhrif á árangur og velferð þess fjölda nemenda sem eru skjólstæðingar þeirra. Því er hér um mikilvægt málefni að ræða.

Vinnutengd heilsa er gildur þáttur lýðheilsu. Vinnan hefur áhrif á heilsuna bæði beint og óbeint. Kyrrsetur, líkamlegt álag, andlegt álag og mannleg samskipti eru aðeins nokkur atriði sem nefna má í því sambandi. Segja má að vinnan skapi manninn að nokkru leyti. Þegar í upphafi 18. aldar var bent á það hve vinnan er mikilvægur þáttur í heilsu fólks (Ramazzini, 1991).

Rannsóknir á vinnutengdri heilsu bæði kvenna og karla hérlendis er verðugt viðfangsefni framtíðarinnar. Í ljósi þeirrar auknu áherslu sem áhættumat hefur nýverið fengið í íslensku vinnuumhverfi skv. vinnuverndarlögunum (Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum) má jafnframt ætla að þeim rannsóknum fari fjölgandi. Slíkar rannsóknir ættu ekki aðeins að beinast að hugsanlegum tengslum tiltekinna áreita eða álags og heilsufars, heldur ekki síður að þeim óbeinu áhrifum sem vinnan og vinnuaðstæðurnar í víðum skilningi hafa á heilsu fólks.
 

Þakkir

Félag grunnskólakennara, Flugfreyjufélag Íslands, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands og Vísindasjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga styrktu rannsóknina á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi flugfreyja, hjúkrunarfræðinga og kennara sem þessi rannsókn er hluti af.

Áslaugu Einarsdóttur lögfræðingi er þökkuð ábending á lagagreinar, Gerði Garðarsdóttur bókasafnsfræðingi er þökkuð aðstoð við heimildaleit.

 

Heimildir

Anna Þóra Baldursdóttir. (2000). Hvernig líður kennurum? Könnun á kulnun í starfi grunnskólakennara og leiðbeinenda í grunnskólum. Óbirt meistaraprófsritgerð: Kennaraháskóli Íslands.

Antonovsky, A. (1988). Unraveling the mystery of health. How people manage stress and stay well. San Francisco: Jossey-Bass Publishers.

Bára Þorgrímsdóttir og Guðrún Erla Gunnarsdóttir. (2001). Um líðan og heilsufar kennara. Óbirt BA-ritgerð: Háskóli Íslands.

Bryndís Benediktsdóttir, Kristinn Tómasson og Þórarinn Gíslason. (2000). Einkenni breytingaskeiðs og meðferð þeirra hjá 50 ára íslenskum konum. Læknablaðið, 86, 501–507.

Chan, K. B., Lai, G., Ko, Y. C. og Boey, K. W. (2000). Work stress among six professional groups: The Singapore experience. Social Science and Medicine, 50, 1415–1432.

Eiríkur Hilmarsson. (2002). Forysta kvenna í atvinnurekstri og nýsköpun á Íslandi. Erindi flutt 23. maí 2002 á ráðstefnu Félags kvenna í atvinnurekstri undir yfirskriftinni Stefnumót við nýsköpun. Sótt 6. júlí 2006 af http://www.hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=881.

Elín Blöndal. (2003). Alþjóðavinnumálastofnunin og áhrif samþykkta hennar á íslenskan rétt. (Sérprentun). Lögberg. Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands.

Frankenhaeuser M. (1993). Kvinnligt, manligt, stressigt. Höganäs: Bra böcker/Wiken.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Kristinn Tómasson. (2004). Einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna. Læknablaðið, 90, 847–851.

Guglielmi, R. S. og Tatrow, K. (1998). Occupational stress, burnout, and health in teachers: A methodological and theoretical analysis. Review of Educational Research, 68, 61–99.

Hagstofa Íslands. Starfsfólk við kennslu í grunnskólum eftir starfssviðum og kyni 1998–2005. (Tafla). Sótt 6. júlí 2006 af http://www.hagstofa.is/temp/Dialog/Print.asp?Matrix=SKO02307&timeid=20067645676&lang=3.

Hannerz, H., Albertsen, K. og Tüchsen, F. (2002). Hospitalization among teachers in Denmark, 1981–1997. International Journal of Occupational Medicine and Environmental Health, 15, 257–266.

Harrington, J. M., Gill, F. S., Aw, T. C. og Gardiner, K. (1998). Occupational Health (4. útgáfa). Oxford: Blackwell Science.

Herdís Sveinsdóttir. (1993). The attitudes towards menstruation among Icelandic nursing students: Their relationship with menstrual preparation and menstrual characteristics. Scandinavian Journal of Caring Sciences, 7, 37–41.

Herdís Sveinsdóttir. (2000). Premenstrual syndrome: A myth or reality in women's lives? A community study on premenstrual experiences in Icelandic women. Óbirt dokorsritgerð: Háskólinn í Umeå.

Herdís Sveinsdóttir, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir og Hildur Friðriksdóttir. (2003). Heilsufar, líðan og vinnuumhverfi kennara [Rafræn útgáfa]. Háskóli Íslands, Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði. Ritröð í hjúkrunarfræði, 3. árg., nr. 4. Sótt 9. október 2006 af http://www.vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/upload/files/arsskyrslur/rannsoknir/kennaraskyrsla.pdf.

Herdís Sveinsdóttir og Hólmfríður K. Gunnarsdóttir (í prentun). Self-assessed occupational health and working environment of female nurses, cabin crew and teachers. Scandinavian Journal of Caring Sciences.

Hernberg, S. (1992). Introduction to occupational epidemiology. Chelsea, Michigan: Lewis Publishers, Inc.

Holmfridur K. Gunnarsdottir, Herdis Sveinsdottir, Jon Gunnar Bernburg, Hildur Fridriksdottir og Kristinn Tomasson. (2006). Lifestyle, harassment at work and self-assessed health of female flight attendants, nurses and teachers. WORK: A Journal of Prevention, Assessment & Rehabilitation, 27, 165–172.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Kristinn Tómasson og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir. (2004). Vinnuálag og líðan mismunandi starfshópa í öldrunarþjónustu. Læknablaðið, 90, 217–222.

Kindenberg, U. (2005). Skolans arbetsmiljöhandbok för alla i skolan. Stockholm: Arbetslivsinstitutet/Liber Idéförlag.

Koustelios, A. (2001). Organizational factors as predictors of teachers’ burnout. Psychological Reports, 88, 627–634.

Kristinn Hilmarsson. (2001). Raddmein – atvinnusjúkdómur talandi stétta. Hvað er til ráða? Sótt 2. janúar 2006 af http://www.rnb.is/upload/files/raddnamskeid.pdf.

Kuorinka, I., Jonsson, B., Kilbom, A., Vinterberg, H., Biering-Sörensen, F., Andersson, G. og Jörgensen, K. (1987). Standardised Nordic questionnaires for the analysis of musculoskeletal symptoms. Applied Ergonomics, 18, 233–237.

Kyriacou, C. (2001). Teacher Stress: Directions for future research. Educational Review, 53, 27–35.

Laufey Tryggvadóttir. (2003). Faraldsfræðilegar rannsóknir. Í Sigríður Halldórsdóttir og Kristján Kristjánsson (ritstj.), Handbók í aðferðafræði og rannsóknum í heilbrigðisvísindum (bls. 379). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 með áorðnum breytingum. Sótt 20. júní 2006 af http://www.vinnueftirlit.is/page/log.

María Heimisdóttir. (2001). Faraldsfræði í dag: Líkur og hlutfallslíkur. Læknablaðið, 87, 487.

Páll Biering. (2000). Könnun á vinnuálagi og starfsánægju íslenskra hjúkrunarfræðinga. Háskóli Íslands, Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði.

Ramazzini, B. (1991). De Morbis Artificum. Om arbetares sjukdomar (Delin, B., Gerhardsson, G. og Nelson, P. þýddu). Åkersberga: Arbetsmiljöförlaget/Bertil Delin. (Upphaflega gefið út 1700. Þýðingin er á bandarísku útgáfunni Diseases of workers sem byggð er á 2. útgáfu ritsins árið 1713).

Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006. Sótt 27. febrúar 2007 af http://www.vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/is/log%5Fog%5Freglur/reglur%5Fog%5Freglugerdir%5Fsem%5Fheyra%5Fundir%5Fvinnuverndarl/.

Samþykkt um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi nr. 155/1981. Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt. Sótt 6. júlí 2006 af http://www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/vinnumal/ilo/nr/721.

Sigríður Haraldsdóttir. (1998). Notkun kvenna og karla á heilbrigðisþjónustu. Í Lilja Sigrún Jónsdóttir (ritstj.), Heilsufar kvenna (bls. 109–115). Reykjavík: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Rit 1.

SPSS Base 10.0 User's Guide. (1999). [Tölvuforrit]. Chicago: SPSS Inc.

Tanaka, H., Nishio, N., Murakami, E., Mukai, M., Kinoshita, N. og Mori, I. (2001). Mortality and causes of death among Japanese school personnel between 1992 and 1996. Journal of Occupational Health, 43, 129–135.

Taris, T. W., Peeters, M. C. W., Le Blanc, P. M., Schreurs, P. J. G. og Schaufeli, W. B. (2001). From inequity to burnout: The role of job stress. Journal of Occupational Health Psychology, 6, 303–323.

Tilskipun ráðsins um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum 89/391/EBE. Stjórnartíðindi EB. nr. L 183/1989. Sótt 20. júní 2006 af http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/385499142c7e4810002567590058573a/
F67AE775F930930C00256700004E17FF/$file/389l0391.pdf.

Valdís Jónsdóttir. (2001). Notkun hljóðkerfis bætir raddheilsu. Kennarar! Heyra nemendur til ykkar? Skólavarðan, málgagn Kennarasambands Íslands, 1(2), 12–13. Sótt 11. janúar 2006 af http://vyre.ki.is/files/filemanager/website336973/file510953.pdf.

Valdís I. Jónsdóttir. (2003). The Voice: An Occupational Tool. A study of teacher’s classroom speech and the effects of amplification. Óbirt doktorsritgerð: Háskólinn í Tampere. Sótt 20. janúar 2006 af http://acta.uta.fi/english/haku.phtml.

van Dick, R. og Wagner, U. (2001). Stress and strain in teaching: A structural equation approach. British Journal of Educational Psychology, 71, 243–259.

Þorsteinn Njálsson. (1998). Heilsugæsla og konur. Í Lilja Sigrún Jónsdóttir (ritstj.), Heilsufar kvenna (bls. 103–108). Reykjavík: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Rit 1.

Prentútgáfa     Viðbrögð