Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 31. desember 2006

Anna Ólafsdóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir

Evrópuverkefnið CEEWIT

Þróun og mat á tölvunámi fyrir landsbyggðarkonur

Í greininni er fjallað um evrópska samvinnuverkefnið CEEWIT (Communication, Education and Employment for Women through Information Technology). Verkefnið var styrkt af Leonardo-áætluninni. Markmið verkefnisins var að þróa aðferðir sniðnar að þörfum kvenna á landsbyggðinni til að efla þekkingu þeirra og færni í tölvunotkun. Auk Íslendinga tóku Norðmenn, Slóvakar og Írar þátt í verkefninu.

Undirbúningsvinna hófst árið 1998. Námskeið sem hannað var á vegum verkefnisins var kennt sem tilraunaverkefni í löndunum fjórum árið 2000, þar af á fjórum stöðum á Íslandi með þátttöku 52 kvenna. Námskeiðið stóð yfir í eitt misseri. Meðan á verkefninu stóð, var það metið með sjálfsmati þátttakenda, jafningjamati, gagnsemismati, vettvangskönnunum og viðtölum við kennara námskeiðsins á þremur af fjórum stöðunum (42 konur). Rætt var við þátttakendur á lokastigi námskeiðsins á einum af fjórum stöðunum og síðan á sama stað í eftirfylgnirannsókn fjórum árum síðar.

Matið leiddi í ljós að konurnar mátu sig nokkuð raunhæft og þær töldu sig hafa náð nokkuð góðum tökum á námsefninu. Konurnar voru almennt mjög ánægðar með námskeiðið. Þær voru þó misánægðar með námsþættina, einn hlutann virðist þurfa að endurbæta. Vettvangskönnun sýndi að andrúmsloftið var notalegt. Kennarar voru almennt ánægðir og þátttakendur höfðu flestir skráð sig í fjarnám í lok námskeiðsins. Um fjórum árum síðar höfðu nokkrar þeirra farið í fjarnámið en ýmsar hindranir höfðu orðið á vegi annarra. Almennt má draga þá ályktun af matinu að árangur af verkefninu hafi verið mjög góður.

Höfundar eru háskólakennarar. Anna er lektor í uppeldis- og menntunarfræðum við kennaradeild Háskólans á Akureyri, Sigurlína er dósent í uppeldis- og menntunarfræðum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og Sólveig er dósent í fjarkennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands.
 

This article focuses on the European cooperative project CEEWIT (Communication, Education and Employment for Women through Information Technology), funded by the Leonardo programme. The project was aimed at the development of methods suitable for women in rural areas for enhancing their knowledge and skills in computer use. Iceland participated in the programme, together with Norway, Slovakia and Ireland. Preparations started in 1998 and a one semester course designed as part of the project was piloted in Iceland in 2000. While implemented, the course was evaluated, using self-assessment, peer assessment, field observations and interviews with teachers. When the course was about to finish, interviews were conducted with some participants. They were also interviewed in a follow-up study four years later. Results showed that the women assessed themselves quite realistically and they felt confident of their own skills in the course content. They evaluated the course quite positively. The course components were not evaluated equally well, some seemingly needed improvement. Field observations indicated a relaxed atmosphere. Teachers were generally content, and participants said they were going to start studying through distance-education after taking the course. Four years later, some of them had done so, while some obstacles had hindered others. The evaluation indicates that the programme was quite a success.

 

Inngangur

Stórfelldar breytingar í tækni og vinnslu upplýsinga og mikil áhrif þeirra á líf fólks á síðasta hluta 20. aldar, urðu til þess að auka til muna áhuga stjórnvalda í vestrænum ríkjum á því að efla menntun og færni fólks til að nýta tölvur og upplýsingatækni við nám og störf. Árið 1996 setti Evrópusambandið til dæmis fram framkvæmdaáætlun um nám í upplýsingasamfélaginu – Learning in the Information Society (European Commission, 1996). Sama ár kom út framtíðarsýn ríkistjórnar Íslands um þróun upplýsingasamfélagsins á Íslandi (Ríkisstjórn Íslands, 1996) ásamt stefnu menntamálaráðuneytisins Í krafti upplýsinga (Menntamálaráðuneytið, 1996). Mikið átak var gert í íslenska menntakerfinu til að stuðla að betri menntun ungs fólks á þessu sviði. [1]

Ljóst var hins vegar að ýmsir hópar í þjóðfélaginu áttu á hættu að verða langt á eftir öðrum hvað varðaði tölvu- og upplýsingalæsi og draga þar með mjög úr starfs- og menntamöguleikum sínum. Umfangsmikil Gallup könnun frá 1998 (Forsætisráðuneytið,1998) sýndi t.d. að konur höfðu mun minni reynslu af notkun tölva og upplýsingatækni en karlar, og landsbyggðin kom mjög illa út í samanburði við Reykjavík og nágrenni hvað varðaði tölvuaðgang og tölvunotkun. Þá var einnig ljóst að atvinnuleysi var mun meira meðal kvenna en karla hér á landi (Vinnumálastofnun, 2005).

Slíkt ójafnræði var alls ekki bundið við Ísland eingöngu. Þegar fulltrúar Fræðslusambandsins Símennt og Iðntæknistofnunar fóru af stað árið 1998 með hugmynd að verkefni um hönnun sérstakra námskeiða í tölvunotkun fyrir landsbyggðarkonur fengust strax samstarfsaðilar frá Írlandi, Noregi og Slóvakíu. Í þeim löndum stóðu menn einnig frammi fyrir því að efla þyrfti atvinnu- og menntamöguleika í dreifbýli með tilkomu nýrrar tækni, og ýmsir hópar, ekki síst konur með takmarkaða menntun, gátu ekki nýtt sér sem skyldi starfs-, menntunar- og samskiptamöguleika vegna ónógrar reynslu af tölvu- og upplýsingatækni.

Í kjölfar hugmyndavinnu var ákveðið að stofna til samstarfs ofangreindra þjóða um evrópskt verkefni undir nafninu CEEWIT (Communications, Education and Employment for Women through Information Technology) og fékkst til þess styrkur úr Leonardo áætluninni. Meginmarkmið CEEWIT-verkefnisins var að hanna, þróa og halda námskeið á landsbyggðinni sem sérstaklega væru sniðin að þörfum kvenna með litla eða enga tölvureynslu. [2]

Meginmarkmið námskeiðanna var að stuðla að því að konur á landsbyggðinni tileinkuðu sér næga tölvufærni til að þær gætu nýtt sér hana sem stökkpall til frekara náms, atvinnutækifæra og persónulegs þroska. Í þessari grein verður hönnun námskeiðanna lýst, fjallað um framkvæmd íslenska verkefnisins og mat á því. Meginspurningin sem leitað var svara við í matinu var sú, hvort námskeiðin næðu ofangreindu markmiði. Þá var athugað hversu góðum tökum konurnar virtust ná á námsefninu og hversu ánægðar þær og kennarar námskeiðsins voru með það.

Bakgrunnur

Færð hafa verið rök fyrir því að tölvuvæðing leiði til aukinnar stéttskiptingar (Yeaman, 1997) og að aukin notkun tölva og tækni hafi yfirleitt haft neikvæð áhrif á líf kvenna, t.d. með því að gera störf þeirra sífellt einhæfari og stýrðari (Perry og Greber, 1990). Í því samhengi má nefna hvernig ný tækni hefur verið notuð í fiskvinnslu á Íslandi til að fylgjast nákvæmlega með vinnuframlagi kvenna og stýra vinnuhraða þeirra sem að mörgu leyti hefur leitt til þess að vinnuumhverfi þeirra hefur versnað auk þess að fækka atvinnutækifærum (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, 2004; Unnur Dís Skaptadóttir, 2000). Spurning er hins vegar hvað gerist þegar konur taka tæknina í meira mæli í sína þjónustu eins og mjög margar konur hér á landi og erlendis hafa nú þegar gert. Í Evrópuverkefni (E-LIVING: Live in a digital Europe (sjá http://www.eurescom.de/e-living), þar sem gögnum var safnað nýlega í sex löndum kom fram að það væri ekki síður munur milli kvenna innbyrðis í notkun upplýsinga- og samskiptatækni heldur en milli karla og kvenna. Á því sviði væri mikill munur á konum sem lítinn þátt tækju í atvinnulífi eða væru í einhæfum láglaunastörfum og öðrum kvennahópum (Brynin, Raban og Soffer, 2004).

Nýlegar rannsóknir benda til að dregið hafi úr kynjamun hvað varðar reynslu, færni og sjálfstraust í tengslum við tölvunotkun meðal unglinga. Það virðist t.d. jafnt eiga við um Ísland (Sólveig Jakobsdóttir, 2006; Sólveig Jakobsdóttir, Bára Mjöll Jónsdóttir og Torfi Hjartarson, 2004; Solveig Jakobsdottir og Torfi Hjartarson, 2003) og Taiwan (Tsai og Lin, 2004). Einnig virðist sambærileg þróun hafa orðið meðal fullorðinna, t.d. hjá íslenskum kennurum hvað varðar vefnotkun (Sólveig Jakobsdóttir, 2004), meðal almennings á Íslandi hvað varðar tölvu- og netnotkun (Forsætisráðuneytið, 1998, 1999, 2000, 2001; Hagstofa Íslands, 2004) og í Evrópu (Faulkner o.fl., 2004). Mjög stór könnun meðal 157.000 Bandaríkjamanna á 50.000 heimilum sem gerð var árið 2001 (Banerjee, Kang, Bagchi-Sen og Rao, 2005) leiddi einnig í ljós að konur voru komnar fram úr körlum í Bandaríkjunum hvað varðaði ýmsar tegundir netnotkunar. Konur notuðu Netið meira en karlar til að senda tölvupóst og skyndiskilaboð (instant messaging) og einnig nýttu þær Netið m.a. í meira mæli til að taka námsáfanga á Netinu, til innkaupa, leita að upplýsingum tengdum heilsu og stjórnmálum eða til atvinnuleitar. Karlar nýttu hins vegar Netið meira en konur til leikja og notuðu meira spjall (chat rooms), póstlistaþjónustu (listserv), frétta- og íþróttavefi og netsíma. Einnig notuðu þeir Netið í meira mæli en konur til að horfa á sjónvarp og kvikmyndir, sinna fjármálum og hlusta á útvarp.

Ljóst virðist því að enn sé til staðar mikill munur í því hvernig kynin nýta sér upplýsingatæknina. Einnig er það staðreynd að þó að dregið hafi saman með kynjunum hvað varðar færni og heildarnotkun tölva og Nets þá hafa sterkar vísbendingar um „stafræna gjá“ (digital divide) milli mismunandi hópa komið fram í rannsóknum víða um heim (Kuttan og Peters, 2003; Norris, 2001; Servon, 2002; Warschauer, 2003).

Enn virðast því vera til hópar fólks, og þá ekki síst konur, sem gagn hafa af námskeiðum á borð við CEEWIT enda hefur eftirspurn eftir þessum námskeiðum verið stöðug síðan verkefnið var unnið. Þess vegna teljum við mikilvægt að koma á framfæri upplýsingum um hugmyndafræði þess, hönnun, framkvæmd og mat. Einnig vegna þess að mikill skortur virðist vera á mati og athugunum á langtímaáhrifum aðgerða af þessum toga (Sanders, 2005).

Aðferð

Verkefnið fór af stað árið 1998 en undirbúnings- og þróunarvinna fór að mestu fram árið 1999. Eftirfarandi fjórir hópar voru myndaðir með að minnsta kosti einum þátttakanda frá hverju af þátttökulöndunum fjórum:

 1. Aðferðahópurinn (methodology group) setti fram aðferðir til að kenna landsbyggðarkonum
  á tölvur og hannaði námskeiðin.

 2. Kennarahópurinn (trainers) sá um að þjálfa kennara og kenndi einnig á námskeiðunum.

 3. Matshópurinn (transnational evaluators) setti fram matsáætlun og mat verkefnið.

 4. Stjórnunarhópurinn (project management group) hafði yfirumsjón með verkefninu.

Kennsla á námskeiðum fór fram í öllum þátttökulöndum árið 2000 og mat á þeim samkvæmt matsáætlun var framkvæmt sama ár. Alls tóku 52 konur á Íslandi þátt í fyrstu námskeiðunum en í greininni verður gerð grein fyrir framkvæmd námskeiðanna hérlendis og mati á þeim en það fór fram á þremur af fjórum þátttökustöðum. Matsniðurstöður taka til sjálfsmats þátttakendanna, mats þeirra á sessunautum sínum og gagnsemi námskeiðsþátta, vefumhverfis, vettvangskannana, viðtala við kennara og nokkra þátttakendur.

Vorið 2004 voru síðan aftur tekin viðtöl við 15 konur sem tekið höfðu þátt í CEEWIT námskeiðinu og mati á því fjórum árum áður til að reyna að átta sig á hugsanlegum langtímaáhrifum og síðari tíma viðbrögðum við þátttöku á námskeiðinu. Sex þessara kvenna hafði verið talað við árið 2000 á einum kennslustaðnum. Talað var við þessar konur aftur en einnig við allar aðrar konur sem sátu sama námskeið á sama kennslustað og þær (ekki náðist í eina þeirra).

Undirbúningur

Fyrsta spurningin sem aðferðahópurinn þurfti að svara var sú hvernig best yrði staðið að hönnun námskeiðs um notkun tölva og upplýsingatækni sem tæki sérstaklega mið af þörfum og áhuga kvenna. Þegar rannsóknir og fyrri reynsla voru skoðuð komu í ljós átta atriði sem hópurinn áleit vænleg að byggja á í hugmyndavinnunni (Sólveig Jakobsdóttir, 1998):

 1. Mikilvægt væri að leggja áherslu á hagnýta notkun tækninnar og kosti hennar fyrir viðkomandi
  í stað þess að kenna UM tölvur og tækni.

 2. Miða skyldi námsefnið sem mest við áhugamál kvennanna sjálfra.

 3. Tryggt skyldi að hver einstaklingur hefði aðgang að tölvu fyrir sig
  og fengi beina reynslu í að nota hana.

 4. Bjóða ætti upp á félagsleg samskipti (beinan aðgang að vinum/öðrum konum)
  í staðnámi og á Neti.

 5. Tryggja þyrfti mikla aðstoð, sérstaklega í upphafi en þó þannig að hlutirnir
  væru ekki gerðir fyrir nemandann.

 6. Lögð skyldi áhersla á gott skipulag námskeiðsins.

 7. Leitast yrði við að gera námsefni og umhverfi aðlaðandi.

 8. Gera skyldi ráð fyrir ákveðnum undirbúningi, t.d. í formi slökunaræfinga
  til að draga úr líkum á tölvufælni.

Til viðbótar við þá forvinnu sem fjallað hefur verið um hér að framan var vorið 1999 ákveðið að vinna einnig þarfagreiningu meðal kvenna sem þá sóttu eða höfðu sótt námskeið á vegum Menntasmiðjunnar á Akureyri. Menntasmiðja kvenna hefur til margra ára haldið úti formlegu dagskólanámi fyrir konur þar sem sjálfstyrking, hagnýtt nám og sköpun eru lykilhugtök. Einn þáttur í námi kvennanna hefur verið þjálfun í tölvunotkun (Anna Ólafsdóttir, 2000). Þarfagreining meðal nemenda Menntasmiðjunnar fólst í símakönnun og fengust svör frá 22 konum. Niðurstöðurnar gáfu ýmsar hugmyndir sem einnig voru nýttar sem vörður í hugmyndavinnu starfshópsins. Upplýsingar komu fram varðandi þarfir og áhugasvið kvennanna, vísbendingar um hvaða áherslur væri vænlegt að leggja í efnisvali og auk þess hagnýtar upplýsingar sem lutu að skipulagi námskeiða, s.s. lengd námskeiðs og tíðni tíma (Anna Ólafsdóttir, 1999).

Hönnun námskeiðsins

Þegar aðferðahópurinn hafði lokið hugmyndavinnu og gagnasöfnun var niðurstaðan sú að eftirtaldir þættir skyldu hafðir að leiðarljósi við hönnun námskeiðsins:

 • Leggja skyldi áherslu á sjálfstæði í vinnubrögðum; að konurnar hefðu vald yfir eigin námi og þróuðu þannig með sér sjálfstæði sem í fælist m.a. að þora að fikra sig inn á ókunn svið án aðstoðar kennara. Með því væri ýtt undir sjálfstæði kvennanna og stuðlað að því að konurnar yrðu færar um að nýta sér ýmis tækifæri til endur- og símenntunar sem síðar kynnu að verða á vegi þeirra. Ennfremur væri mikilvægt að kennarar tækju mið af getu kvennanna, veittu stöðuga endurgjöf, gerðu lítið úr mistökum en legðu áherslu á jákvæða endugjöf fyrir það sem vel gengi.

 • Setja skyldi í öndvegi það meginmarkmið CEEWIT-verkefnisins að sporna gegn þeim áhrifum sem takmarkaðir möguleikar kvenna í dreifbýli hefðu í för með sér; þ.e. reyna að veita þeim sömu tækifæri og möguleika og öðrum sem búa í þéttbýli til að sækja sér menntun sem skapað getur aukin atvinnutækifæri; þannig mætti ýta undir þróun í átt til aukins jafnréttis.

 • Að upplýsingatækni væri ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki til að ná markmiðum.

 • Leitast skyldi við að ýta sem mest undir samvinnu þátttakenda í námskeiðinu. Láta þetta ekki einungis gilda um samskipti kvennanna heldur skyldu tengsl þeirra við kennara einnig byggja á slíkri samvinnu; kennarinn væri þannig sá eða sú sem ynni að því með nemendum að efla færni þeirra í tölvunotkun.

 • Beina skyldi athyglinni að ábyrgð kvennanna sjálfra á eigin námsferli og líta þannig á að kennarinn hefði það hlutverk að auðvelda námið með stuðningi sínum við námsferlið. Fagmennska kennarans endurspeglaðist þannig í kunnáttu á sviði tölvunotkunar og því að hafa vald á námsefninu.

 • Leggja skyldi áherslu á að kennarar sköpuðu þær aðstæður og umhverfi sem tæki tillit til ólíks bakgrunns kvennanna og leituðust við að byggja upp andrúmsloft sem einkenndist af vináttu og trausti. Með því skapaðist síður hætta á að konurnar upplifðu streitu og óöryggi í námsferlinu.

 • Hvetja skyldi til þess að konurnar kæmu saman í litlum hópum á milli þess sem þær mættu í tíma námskeiðsins. Vænlegast væri í því sambandi ef á þyrfti að halda að leita eftir samvinnu við samtök eða opinbera aðila varðandi aðstöðu og horfa þar til stofnana eins og bókasafna eða skóla.

 • Líta skyldi svo á að mikilvægara væri að skipulag og röðun námsþátta tæki fremur mið af áhuga og þörfum kvennanna heldur en fyrirframgefnum hugmyndum um það hvernig best væri að kenna efnið.

Eins og síðasti liður ber með sér var starfshópurinn sammála um að horfið skyldi frá hinu hefðbundna línulega ferli í skipulagi námskeiðsins, þ.e. því að nemendur þyrftu að ljúka öllum námsþáttum tölvunámskeiðisins í fyrirfram ákveðinni röð.

Við hönnunarferlið þróaðist með hópnum ákveðið leiðarstef: „CEEWIT opnar dyr“. Með því varð til eins konar myndlíking þar sem efni námskeiðsins í heild var líkt við stóra byggingu með mörgum herbergjum eða rýmum og litið var á hvern námsþátt sem ákveðið rými í byggingunni. Auk þessa voru í byggingunni ýmsir „samkomustaðir“ þar sem konurnar gátu „hist“ og átt samskipti, veitt hver annarri stuðning, farið gegnum jafningjamat o.s.frv. Einnig var hægt að fá leiðsögn um skipulag „byggingarinnar“. Lykilatriði var að konurnar réðu sjálfar hvernig þær skipulegðu ferðalagið. Á Mynd 1 má sjá hvernig myndlíkingin var nýtt:

Mynd 1 - Skipulag námskeiðsins

Það var ljóst fljótlega í ferlinu að vegna þeirrar nálgunar sem valin var ætti betur við að hanna námsefnið eingöngu á vef fremur en að miða það við prentað námsefni. Með því hefðu konurnar greiðan aðgang að námsefninu og öllum samskiptaleiðum á sama stað og væru líklegri til virkni í tölvunotkun utan tölvutímanna sjálfra.

Námsþættir námskeiðsins voru eftirfarandi:

 • Undirstöðuþættir: Stýrikerfi og skjalastjórnun.

 • Helstu þættir í daglegri notkun: Ritvinnsla, tölvusamskipti, vefurinn.

 • Einnig voru þátttakendum kynnt helstu atriði í vélbúnaði tölva.

Aðferðahópurinn skipti með sér verkum við hönnun námsþáttanna en íslensku þátttakendurnir hönnuðu vefumhverfið, auk þess að semja hluta námsefnis. Námsefnið var fyrst samið á ensku en síðar þýtt á tungumál hvers þátttökulands fyrir sig eftir að vefumhverfið hafði verið hannað. Í hverjum námsþætti var að finna upplýsingar um áætlaðan tíma sem gert var ráð fyrir að yfirferð námsþáttarins tæki og einnig gert ráð fyrir skráningu á því hvaða færni konurnar hefðu tileinkað sér við lok kaflans. Námsþátturinn samanstóð af kennsluefni og verkefnum sem lögð var áhersla á að væru sem hagnýtust. Hverjum námsþætti fylgdi innbyggð hjálp þannig að konurnar fengju tækifæri til að þjálfast í að nýta sér innbyggð hjálparkerfi sem fylgja velflestum tegundum hugbúnaðar. Konurnar höfðu líka möguleika innan sumra námsþáttanna að velja á milli þess að fá ábendingar eða lausnir á verkefnum. Þannig var þeim gert mögulegt að prófa fyrst að spreyta sig með smáhjálp áður en lausnin væri lögð upp. Í lok hvers námsþáttar fóru konurnar inn í matshornið þar sem þær mátu eigin færni og fengu jafnframt mat frá jafningjum. Nánar verður sagt frá matsþættinum í sérstökum kafla hér á eftir.

Framkvæmd verkefnisins

Settir voru af stað hópar á fjórum stöðum á landinu til að prófa námskeiðin. Sambærilegir hópar voru myndaðir í hinum þátttökulöndunum en hér verður athyglinni eingöngu beint að framkvæmdinni á Íslandi. Í hverjum hópi, á stöðunum fjórum, voru 10–18 konur (á stað A 12, B 18, C 12 og D 10). Námskeiðinu var skipt í þrettán lotur og komu konurnar að jafnaði saman einu sinni í viku, u.þ.b. þrjár klukkustundir í senn og tvær saman við hverja tölvu.

Mikið var gert af því að hvetja konurnar til netsamskipta og til að hittast á milli tíma. Til þess að það væri hægt var samið við netþjónustufyrirtækið Ísmennt um aðgang að vefráðstefnukerfinu Webboard og var það í notkun í öllum námskeiðum. Settir voru upp umræðuþræðir bæði fyrir innbyrðis samskipti hópa en einnig sérstök svæði þar sem allar konurnar úr tilraunahópunum gátu hist og átt samskipti. Þegar konurnar fóru í gegnum námsþáttinn tölvusamskipti fólst eitt verkefnið í að verða sér úti um frítt netfang og nýttu þær gjarnan nýfengið netfang til tölvupóstsamskipta sín á milli.

Í kaflanum hér á eftir er fjallað um hvernig matið á verkefninu var framkvæmt og greint frá helstu niðurstöðum þess.

Mat á verkefninu

Þar sem námskeiðið var byggt á þörfum kvenna, var ákveðið að matsáætlunin yrði einnig í samræmi við þarfir kvenna. Tekið var mið af þessu þegar aðferðir til gagnaöflunar voru ákveðnar (Sigurlína Davíðsdóttir, 2000). Þannig var tekið mið af markmiðum námskeiðsins og athugað hvort þau næðust eða ekki, í samræmi við aðferðir Tylers (1950; 1991) við mat. Með tilliti til þessa var t.d. skoðað hvort lögð væri áhersla á hagnýta notkun tölva í tengslum við áhugamál kvennanna, hvort aðstoð sem í boði var væri hæfilega mikil og hvort félagsleg samskipti í námskeiðinu þjónuðu þeim tilgangi að rjúfa landfræðilega einangrun kvennanna. Meginmarkmiðið var að konur tileinkuðu sér næga tölvufærni til að þær gætu nýtt sér hana sem stökkpall til frekara náms, nýrra atvinnutækifæra og persónulegs þroska.

Þátttakendur

Í Töflu 1 er sýndur fjöldi þátttakenda á hverjum stað fyrir sig fyrir hverja tegund gagnaöflunar. Ekki svöruðu allir þátttakendur matsþáttunum þremur. Til dæmis svöruðu hverri sjálfsmatsspurningu allt frá einum þátttakanda upp í 12 á stað A, frá engum til 8 á stað B og frá engum til 12 á stað C. Taka þarf til greina að á stað A komu 60 svör við gagnsemismati en hvert svar vísaði til mats á einum þætti svo að hver þátttakandi gat hafa sent inn mörg svör. Hið sama á við um hina staðina.

Tafla 1 - Fjöldi þátttakenda í mati og tegund gagnasöfnunar

Staður

Sjálfsmat Jafningja-
mat
Gagnsemis-
mat
Vettvangs-
kannanir
Viðtöl 1 Viðtöl 2
A 0–12 0–10 60 12 0 0
B 0–8 0–6 16 18 6 15
C 0–12 0–9 27 12 0 0

Aðferðir til gagnaöflunar

Sjálfsmat. Færnilisti hafði verið búinn til sem markmið fyrir námskeiðið. Þetta var gert til að gera markmið í tölvufærni sýnilegri fyrir konurnar og gera þeim kleift að meta sjálfar hvort þær hefðu náð þeim. Þetta er einnig hluti af þeim viðmiðum að skipulag sé skýrt. Til dæmis var búist við því að konurnar sem þátt tóku gætu að námskeiðinu loknu búið til nýja skrá, afritað og límt texta, vitað hvar músinni væri stungið í samband, notað tölvupóst o.s.frv. Þessi færnilisti var notaður sem viðmið. Konurnar voru beðnar í lok hvers námskeiðsþáttar að svara nokkrum spurningum um hæfni sína í þessum þáttum. Þannig voru þær ekki dæmdar utan frá, þeirra eigin hugmyndir um færni sína voru notaðar. Þær voru beðnar að segja til um hvort þær hefðu náð tökum á ýmiss konar tækni. Í námsþættinum um skjalastjórnun voru þær beðnar um að segja til um hvort þær gætu eytt möppu, fært skrá úr einni möppu í aðra, endurnefnt skrá, o.s.frv. Svarmöguleikar voru 1 (já) eða 2 (nei).

Jafningjamat. Sami færnilisti var notaður í jafningjamati. Konurnar voru beðnar um að meta færni sessunautar síns á ofangreindum þáttum. Venjulega unnu þær þessa lista saman.

Gagnsemismat. Þegar konurnar höfðu lokið námi sínu í hverjum námsþætti fyrir sig (skjalastjórnun, stýrikerfi, ritvinnslu, tölvusamskiptum, vefnum og vélbúnaði) voru þær beðnar að meta gagnsemi þessa þáttar með spurningunni Hversu mikið gagn fannst þér þú hafa af þessum hluta námskeiðsins? með svarmöguleikum frá 1 (mjög lítið) til 5 (mjög mikið).

Vettvangskannanir. Tveir nemendur í framhaldsnámi við KHÍ [3] gerðu vettvangskannanir á þremur kennslustöðum. Þetta var gert til að reyna að átta sig á andrúmslofti og menningu á stöðunum og samskiptum innan skólastofunnar. Gátlisti var notaður, þar sem nemendunum var ætlað að líta eftir þeim atriðum sem talin voru mikilvægust til að markmið námskeiðsins næðust, svo sem samvinnu þátttakenda, hjálp sem þeir fengju við æfingar, hvort þátttakendur væru hvattir til spurninga og hvort kennarinn notaði auðskiljanlegt mál í kennslunni. Þá var einnig fylgst kerfisbundið með einum einstaklingi völdum af handahófi í fimm mínútur af hverjum hálftíma til klukkutíma þar sem nákvæm lýsing á athæfi og umhverfisþáttum var skráð.

Vefumhverfi. Athuguð voru samskipti kvennanna í vef námskeiðsins til að athuga hvort þær hefðu samskipti sín á milli en þetta var eitt af markmiðum námskeiðsins.

Viðtöl við kennarana. Framhaldsnemendurnir tóku viðtöl við kennarana þegar þeir voru á staðnum í vettvangskönnunum. Þetta voru hálfopin viðtöl þar sem notaður var fyrirfram ákveðinn spurningarammi og bætt við hann spurningum eftir því sem viðtalið gaf tilefni til. Í viðtölunum var spurt um námsefni, árangur nemenda og skipulag verkefnisins.

Viðtöl við þátttakendur í lok námskeiðs. Tekin voru viðtöl við sex þátttakendur í einum af síðustu tímum námskeiðsins. Þetta var gert til að fá dýpri skilning á viðhorfum þessara kvenna um námskeiðið og þá þýðingu sem það hefði haft fyrir þær. Viðtölin voru hálfopin, þar sem leitað var eftir hugmyndum þeirra um árangur sinn og gagnsemi námskeiðsins, hvað það hefði gert fyrir þær persónulega og markmið þeirra í framtíðinni.

Viðtöl við þátttakendur að fjórum árum liðnum frá námskeiðinu. Tveir framhaldsnemendur [4] tóku u.þ.b. fjórum árum eftir námskeiðið viðtöl við alla þátttakendur sem í náðist úr sama hópnum og viðtöl höfðu verið tekin við í lok námskeiðsins. Þetta var gert til að athuga hvort væntingar nemenda um ávinning af námskeiðinu hefðu gengið eftir og hversu vel kunnátta þeirra nýttist þeim í daglegu lífi.

Niðurstöður mats

Birtar eru niðurstöður úr hverjum þætti gagnaöflunar fyrir sig:

Sjálfsmat og jafningjamat þátttakenda

Þegar litið er á tölfræðimatið í heild virðist jafningjamatið sýna fram á að mat kvennanna á sjálfum sér sé réttmætt. Yfirleitt kemur sjálfsmat kvennanna og mat sessunauta þeirra á hæfni þeirra svipað út, jafnvel er sessunautamatið hærra. Því virðist mega treysta því að sú færni sem konurnar segjast hafa náð sé raunhæft mat þeirra á því sem þær geta að loknu námskeiðinu. Þær töldu sig almennt hafa náð góðum tökum á efni námskeiðsins og sessunautarnir jafnvel enn betri. Fram koma þó nokkrir þættir sem þær segjast ekki hafa náð eins góðum tökum á og þyrfti að skoða nánar. Þessi atriði skáru sig úr í hverjum námsþætti fyrir sig að því leyti að fæstir sögðust hafa náð tökum á þeim:

 • að taka afrit af möppum og skrám og vista á disk (52,6%)

 • að skilja orðin tengi (69,2%) og kort (61,5%) og vita hvað við er átt
  með inntaksbúnaði (61,5%) og úttaksbúnaði (61,5%)

 • að vista skrár með mismunandi sniði (38,9%)

 • að afrita texta í einu skjali og líma í annað (61,1%)

 • að búa til töflur í skjali (61,1%).

Ljóst var hins vegar að erfitt yrði að bregðast við umkvörtunum kvennanna um að þeim gengi illa að notfæra sér hjálpina í forritunum vegna skorts á enskukunnáttu þar sem íslenskt notendaviðmót var ekki tilbúið til almennrar notkunar á þeim tíma sem námskeiðin voru kennd.

Konurnar voru beðnar um að meta gagnsemi hvers námsþáttar fyrir sig þegar þær höfðu metið eigin kunnáttu og sessunauta sinna í þessum þáttum. Niðurstöður eru birtar í Töflu 2.

Tafla 2 - Fjöldi kvennanna sem skiluðu mati og meðaltal mats þeirra á gagnsemi námsþátta

Námsþættir Sjálfsmat
Fjöldi
Jafningjamat
Fjöldi
Gagnsemismat
Fjöldi
Gagnsemismat
Meðaltal
Skjalastjórnun 19 5 19 4,26
Windows-
stýrikerfið
13 6 13 4,23
Tölvusamskipti 20 16 20 4,15
Vefurinn 28 17 28 4,00
Ritvinnsla 17 11 17 3,82
Vélbúnaður 13 7 13 3,23
Meðaltal alls   3,38


Munur milli námsþáttanna reyndist vera marktækur (F(5,104)=3,194, p<0,05). Þegar athugað var hvar munurinn væri kom í ljós að þátttakendum fannst vélbúnaðarþátturinn gagnsminni en skjalastjórnun. Munurinn var tölfræðilega marktækur (p<0,05). Þótt ekki hafi komið fram tölfræðilega marktækur munur á fleiri þáttum, kom víðar fram tilhneiging til tölfræðilegrar marktækni í gögnunum. Þannig virtist þátttakendum finnast vélbúnaðurinn gagnsminni en bæði vefurinn (p=0,09) og stýrikerfið (p=0,09). Þannig er það vélbúnaðurinn sem sker sig úr hinum námsþáttunum að þessu leyti.

Vettvangskannanir

Áberandi var hve áhugasamar konurnar voru á öllum stöðunum. Þær unnu áfram þótt boðið væri upp á hlé og voru svo uppteknar af eigin viðfangsefnum að kennarar gáfust upp á að kenna öllum hópnum í einu. Þær voru nokkuð óöruggar í byrjun en smátt og smátt jókst öryggi þeirra og frumkvæði. Þær virtust hafa gaman af náminu og mættu vel í tíma. Víða kom fram að konurnar leituðu ekki eftir aðstoð fyrr en í fulla hnefana en reyndu frekar að glíma sjálfar við viðfangsefnin, jafnvel þótt þær lentu í vandræðum með úrlausnir. Á einum af kennslustöðunum var aðstoðarmanneskja inni í tímanum sem konurnar gátu leitað til. Þetta reyndist mjög vel og var mikið notað. Þar voru einnig til sölu disklingar með kennslu í fingrasetningu. Konurnar notfærðu sér þetta gjarnan til að æfa sig heima. Þetta gæti verið góð hugmynd, því að kunnátta í fingrasetningu er óneitanlega þægileg, sérstaklega þegar verið er að vinna við ritvinnslu. Það virtist koma vel út að sessunautar ynnu saman í pörum. Samskipti voru fjörug í hópnum og mikil vinnugleði sem ætti að vinna gegn einangrun og verða til þess að konurnar leiti sér frekar aðstoðar ef þær lenda í erfiðleikum. Þær sem komnar voru lengst voru farnar að leika sér að því að skoða aðrar slóðir inni á vefnum og þurftu að slíta sig frá því til að ljúka verkefnum sínum. Allt slíkt er væntanlega áhugahvetjandi til að halda áfram að kynna sér vefinn og möguleika hans. Allir kennararnir virtust vera áhugasamir og hvetja til sjálfstæðs náms og spurninga. Það markmið að andrúmsloftið væri streitulítið og mikil samvinna ætti sér stað hafði greinilega náðst og streitan minnkaði eftir því sem á námskeiðið leið.

Vefumhverfi

Í ljós kom að konurnar voru virkar í notkun vefráðstefnukerfisins og deildu gjarnan nýfenginni þekkingu eða færni hver með annarri. Mátti þar m.a. sjá framlög eins og þau sem gefur að líta hér:

Sælar konur í hóp 3. Ég rakst á innlegg á ráðstefnuna frá ykkur. Ég er í fyrsta hópnum, það er mjög gaman hjá okkur. Við erum að verða mjög flínkar á tölvuna, á morgun ætlum við að hittast á kaffihúsi. Gangi ykkur vel.

Hafið þið prófað konur.is á netinu? Hann er alveg þrælgóður, þar er hægt að finna allt milli himins og jarðar!!!

Ég held að maður geti með góðu móti gleymt sér við að fikta í tölvunni svo margir eru möguleikarnir, sérstaklega á netinu, og næsta mál hjá mér verður að nota tölvuna í tungumálanámi. (Anna Ólafsdóttir, 2000)

Ef rýnt er í framlögin hér að ofan virðist sem konurnar hafi ekki einungis fundið sig tilheyra hópnum sem þær voru hluti af á námskeiðunum sjálfum heldur hafi þær einnig skynjað sjálfar sig sem hluta af stærra samfélagi. Geta má þess að í sumum hópum sendu konurnar þátttakendum á CEEWIT-námskeiðum í hinum þátttökulöndunum kveðju í tölvupósti þar sem þær höfðu aðgang að tölvunetföngum nokkurra nemendahópa gegnum tengla á námskeiðsvefnum.

Viðtöl við kennara

Kennararnir voru almennt ánægðir með framgang námskeiðsins. Þeir höfðu smávægilegar ábendingar um kennsluefnið og nokkra skipulagsþætti en þeir mæltu allir með sessunautaaðferðinni og sjálfsnámi með nokkrum smávægilegum breytingum. Ein þeirra orðaði sýn sína á sessunautaaðferðina þannig: „Ætli það endi ekki með því að kennarinn verði óþarfur?“ Í viðtölunum við kennarana kom fram að þær konur sem áttu sjálfar tölvu heima voru í mun betri aðstöðu til að hafa gagn af námskeiðinu en þær sem ekki áttu tölvu enda keyptu nokkrar þeirra sér tölvu meðan á námskeiðinu stóð.

Viðtöl við konurnar í lok námskeiðs

Þegar tekin eru saman svör kvennanna úr viðtölunum kemur fram mikil ánægja með námskeiðið. Þær voru komnar mismunandi langt áleiðis í upphafi og mörgum þeirra fannst að meira hefði þurft að stjórna náminu í upphafi. Nokkrar konur keyptu sér tölvur til að geta æft sig. Þær voru allar ánægðar með sessunautaskipulagið og samvinnuna. Þetta virtist gefa þeim sérstaklega mikið. Almennt voru þær mjög áhugasamar um það sem þær höfðu fengið út úr námskeiðinu og ætluðu allar að læra meira með hjálp Internetsins. Þær höfðu allar skráð sig í fjarnám einhversstaðar á næstu önn. Þar að auki höfðu þær kynnst mörgum nýjum vinkonum í þátttakendahópnum og höfðu þannig að einhverju leyti brotist út úr landfræðilegri einangrun sinni. Þær höfðu líka sýnt sérstaklega mikinn áhuga með því að mæta alltaf hvernig sem viðraði og þreifa sig áfram með námsefnið í sameiningu. Þeim fannst sjálfstraustið hafa aukist og að þær hefðu fengið mikið út úr námskeiðinu persónulega. Ein þeirra hafði þetta um árangurinn að segja:

Ég er rosalega montin. Það er líka, ég hef alltaf séð eftir að hafa ekki getað klárað, farið í Iðnskólann, horft löngunaraugum á þá sem eru að fara í skóla. En nú byrja ég á mánudaginn.

Viðtöl við þátttakendur að fjórum árum liðnum

Þegar rætt var við konurnar að fjórum árum liðnum voru þær enn afar jákvæðar út í þann árangur sem þær töldu sig hafa fengið út úr námskeiðinu. Margar þeirra lýstu reynslu sinni þannig, að það hefði opnast fyrir þeim nýr heimur. Eins og áður hefur komið fram keyptu margar þeirra sér tölvu í tengslum við þátttöku á námskeiðinu og gátu þá nýtt sér hana. Í upphafi ætluðu þær allar í fjarnám og það gerðu þær líka langflestar en þeim hefur gengið misjafnlega að halda sig við það nám. Sumar eru búnar að ljúka því sem þær ætluðu, ein er til dæmis að ljúka kennaraprófi í fjarnámi frá Kennaraháskóla Íslands, önnur er búin með fjarnám frá Rafiðnaðarskólanum og er í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Aðrar eru í hléi af ýmsum ástæðum, t.d. vegna veikinda eða bilaðrar tölvutengingar. Enn aðrar segjast ekki ætla að halda áfram í náminu. Þetta er svipað því sem gerist í fjarnámi yfirleitt og engin ástæða til að búast við öðru í þessum hópi.

Sumar konurnar segjast hafa notfært sér nýfengna tölvukunnáttu í starfi sínu. Til dæmis sagðist ein þeirra beinlínis hafa fengið starf vegna þessarar kunnáttu, önnur sagðist nota tölvuna mikið vegna ferðaþjónustu sem hún rekur heima hjá sér og margar sögðust nota tölvuna mikið til útreikninga, innkaupa, bankaviðskipta og að leita sér ýmissa upplýsinga sem tengdust bæði starfi og einkalífi. Þá töluðu nokkrar þeirra um að tölvupósturinn skipti miklu máli fyrir þær félagslega, þær ættu auðveldara með að halda sambandi við vini og ættingja, sérstaklega þá sem byggju í útlöndum. Konurnar héldu vel sambandi sín á milli í upphafi en það hefur eitthvað fennt yfir þessi samskipti eftir því sem á hefur liðið þótt þær hittist og spjalli á förnum vegi. Þær tala frekar um að auðveldara sé í gegnum tölvupóstinn að halda sambandi við þá vini sem þær áttu fyrir. Þegar þær voru spurðar hvort þær notuðu tölvuna til afþreyingar eða skemmtunar sagðist aðeins ein konan nota tölvuleiki. Hún hafði veikst og átti erfitt um vinnu en gleymdi sér stundum í Sims-leiknum. Nokkrar sögðust stundum leggja kapal og einnig töluðu nokkrar um að vafra að gamni sínu inni á vefnum. Ein þeirra sem ekkert kunni á tölvu í upphafi og keypti sér eina þegar hún var að byrja námskeiðið var núna upptekin af að búa sér til bloggsíðu sem hún var að vinna við í öllum frístundum.

Þegar beðið var um gagnrýni á námskeiðið höfðu þær fæstar neina slíka. Helst töluðu þær um að kunnátta nemenda hefði verið of misjöfn í upphafi og betra hefði verið að koma þeim aðeins af stað fyrst sem minnst kunnu. Þá töluðu þær um vondan árstíma fyrir sveitafólk (janúar og febrúar, allra veðra von), betra væri að halda svona námskeið að lokinni sláturtíð í október. Ein konan talaði um að hún vildi líka sjá tölvunámskeið fyrir karla í dreifbýli. Flestar töluðu þó helst um að námskeiðið hefði mátt vera lengra og ítarlegra. Ein orðaði það svona:

Ég var rétt orðin heit þegar við urðum að hætta.

Konurnar voru beðnar að segja hver væri helsti kosturinn við námskeiðið. Fram kom að þeim fannst kennararnir góðir og þátttakendur skemmtilegir og þótti vænt um að þar voru aðeins konur, karlar vinna öðruvísi, sögðu þær. Einnig fannst þeim frábært að láta ýta sér af stað í tölvunotkun sem þær höfðu ekki áður haft reynslu af og hafði síðan nýst vel, sérstaklega þar sem ótti þeirra um að þetta yrði alltof flókið til að þær gætu nokkurn tíma lært það reyndist ástæðulaus. Dæmi um umsagnir þeirra:

Þetta námskeið var snilld.

Mér fannst það bara vera tómir kostir, frá A til Ö.

Því virðist augljóst að konurnar voru afskaplega ánægðar með námskeiðið þegar frá leið og þær fengu meiri yfirsýn yfir það sem þær höfðu fengið út úr því.

Samantekt og umræða

Meginmarkmið CEEWIT-námskeiðsins var að stuðla að því að konur á landsbyggðinni tileinkuðu sér næga tölvufærni til að þær gætu nýtt sér hana sem stökkpall til frekara náms, atvinnutækifæra og persónulegs þroska. Matsspurningin var hvort þessi markmið hefðu náðst. Hér á eftir verður reynt að svara þessari spurningu.

Reynslan af þessu námskeiði sýnir að hægt er að bæta með markvissu átaki stöðu þeirra hópa sem hafa ekki getað nýtt sér vel þau tækifæri sem upplýsingasamfélagið býður upp á. Námskeiðið er því mjög í takti við markmið ríkisstjórnarinnar (1996; 2004) og menntamálaráðuneytisins (1996; 2005) undanfarinn áratug. Ný stefna ríkistjórnarinnar í upplýsingamálum frá 2004 ber einmitt heitið Auðlindir í allra þágu en í henni er m.a. lögð áhersla á að tækifæri einstaklinga verði aukin til að miðla, sækja þekkingu og eiga samskipti og stefnt er að því að tryggt verði framboð á námskeiðum fyrir þá sem standa höllum fæti í upplýsingasamfélaginu.

Meðal ástæðna fyrir því að markmiðið um CEEWIT sem stökkpall var sett var að atvinnuleysi hafði verið mun meira meðal kvenna en karla í landinu (Vinnumálastofnun, 2005) en þetta hefði verið hugsanlegt að skýra með því að um þrefalt til fjórfalt hærra hlutfall kvenna en karla hafði eingöngu lokið grunnmenntun (34% á móti 12% í aldurshópnum 30–39 ára; 41% á móti 11% í aldurshópnum 40–49 ára) (Hagstofa Íslands, 1997). Námskeið eins og að framan hefur verið lýst ætti að geta minnkað þá „stafrænu gjá“ sem rannsakendur hafa lýst (Kuttan og Peters, 2003; Norris, 2001; Servon, 2002; Warschauer, 2003) og virðist vera ennþá til staðar, t.d. í Evrópu, milli kvenna sem gengið hafa menntaveginn og kvenna með litla sem enga menntun (Brynin, Raban og Soffer, 2004). Ljóst er að gífurleg aukning hefur orðið í framboði á fjarnámi hér á landi á undanförnum árum. Til þess að geta nýtt sér slík tækifæri þarf þó ákveðinn grunn en í viðtali Sólveigar Jakobsdóttur fyrir um ári síðan við skólameistara framhaldsskóla í landinu kom fram að í einum landshluta voru margar konur sem treystu sér illa til að stunda netnám vegna lélegrar tölvukunnáttu. Var reynt að koma til móts við þann hóp með því að skipuleggja fjarnám fremur með fjarfundabúnaði en á Netinu (Sólveig Jakobsdóttir, 2005). Það er því greinilega full þörf á aðgerðum til að bæta færni kvenna á sviði upplýsingatækni þar sem mun meira framboð er og verður væntanlega af fjarnámi á Netinu en með öðrum leiðum.

Konurnar sem þátt tóku í CEEWIT-námskeiðinu upplifðu valdeflingu og opin tækifæri að námskeiðinu loknu. Þær aðferðir sem notaðar voru reyndust skila sér vel. Þannig voru konurnar á því að námskeiðið hefði verið afar hagnýtt. Margar rannsóknir sýna að konur (eða stúlkur) líti fremur á tölvur sem verkfæri en sem leikföng (Busch, 1995; Collis og Williams, 1987; Eccles, Wigfield, Harold og Blumenfeld, 1993; Giacquinta, Bauer og Levin, 1993; Nolan, McKinnon og Soler, 1992; Sanders og Stone, 1986; Sólveig Jakobsdóttir, 1996a; Volman, 1995). Það ætti því að vera vænlegt til árangurs í námskeiðum sem þessum að leggja áherslu á hagnýtt gildi. Sú virtist líka vera raunin en reynt var að tengja notkunina við áhugamál kvenna til að gagnsemin yrði augljósari og til að draga úr þeirri ímynd sem tölvur hafa haft sem tæki eða leikföng fyrir karlkynið.

Þá var einnig lögð áhersla á samskipti og félagslega þætti í samræmi við fyrri rannsóknaniðurstöður og reynslu (t.d. Sanders og Stone, 1986). Slíkar áherslur virtust einnig skipta konurnar á CEEWIT-námskeiðinu miklu máli.

Konurnar höfðu aðgengi að tölvum á námskeiðinu en margar þeirra keyptu sér tölvur til heimilisnota þótt þær hefðu ekki átt þær fyrir. Ekki varð séð að þetta væri sérstök hindrun en kennarar héldu því fram að þær konur sem áttu tölvur eða keyptu þær meðan á námskeiðinu stóð hefðu verið í mun betri aðstöðu en aðrar. Þetta getur farið eftir tekjum þeirra en margar konur hafa minni tekjur en karlar í sambærilegri stöðu (Félagsmálaráðuneytið, 2006). Eins og Spender (1995) bendir á getur kynjamunur í efnahag valdið aðstöðumun hvað varðar tölvur og tæki. Þannig geta konur verið verr settar en karlar hvað það varðar að koma sér upp tölvu til einkanotkunar.

Námsþættir námskeiðsins voru yfirleitt metnir gagnlegir en vélbúnaðarþátturinn virtist þurfa að endurskoðast gaumgæfilega þar sem konurnar mátu gagnsemi hans áberandi minni en hinna þáttanna. Sú niðurstaða kemur þó ekki á óvart þar sem athyglin í þeim námsþætti, ólíkt öðrum, beindist fyrst og fremst að vélbúnaðinum sjálfum frekar en notkun hans. En ef til vill hefði verið hægt að gera hann aðgengilegri og gagnsemina ljósari.

Þá þótti konunum mjög gott að nota sessunautakerfið sem virðist benda til að rétt sé að þeim þyki gott að sitja nálægt hver annarri í tölvutímum (Sanders og Stone, 1986; Sólveig Jakobsdóttir, 1996a). Þetta gæti einnig komið að gagni til að hindra tölvufælni.

Námskeiðið var mjög skýrt uppsett en rannsóknir benda til þess að stúlkum eða konum geðjist það vel hvað varðar skipulag tölvutíma (Arch og Cummins, 1989; King 1994–1995; Kinnear, 1995; Sólveig Jakobsdóttir, 1996a; Volman, 1995), leiðbeiningar um tölvunotkun (Sólveig Jakobsdóttir, 1996a) og það að kennsluáætlanir í netnámi séu skýrar (Sólveig Jakobsdóttir, 1996b; Jón Jónasson, munnleg heimild, 16.nóvember, 2006). Þá var einnig reynt að hafa námsumhverfið streitulítið, aðlaðandi og vinalegt en þetta skiptir máli til að draga úr tölvufælni (Weil og Rosen, 1995; Rosen, o.fl., 1993) og virtist takast.

Það virðist því ljóst að konurnar kunnu að meta þá samvinnu sem boðið var upp í námskeiðinu og að hún kæmi bæði einstaklingunum innan hópanna og hópunum sjálfum til góða (Johnson, Johnson og Holubec, 1993). Hugmyndir sem námskeiðið byggðist á (Sólveig Jakobsdóttir, 1998) og þróuðust áfram í alþjóðlega samstarfinu og í samvinnu við Menntasmiðju kvenna reyndust vel.

Óhætt er að segja að niðurstöður matsins bendi ótvírætt til að þau markmið sem lagt var af stað með hafi náðst og verkefnið skilað þeim árangri sem vonir stóðu til. Ánægjulegt er til þess að vita að þrátt fyrir að tölvuforrit og efni tengt þeim úreldist hratt í þeirri hröðu þróun sem á sér stað á sviði upplýsingatækni eru CEEWIT-námskeið enn, þegar þessi grein er skrifuð, haldin reglulega. Má t.d. nefna að mikill áhugi hefur verið á CEEWIT-námskeiðum á Akureyri þar sem haldin hafa verið að jafnaði tvö til fjögur námskeið á ári síðan verkefninu lauk formlega. Einnig hafa stjórnendur Menntasmiðjunnar komið á samstarfi við þá sem eru í forsvari fyrir verkefnið Virkjum alla um notkun CEEWIT-námskeiða þar sem notast er við hugmyndafræði námskeiðsins en efnið aðlagað og uppfært (Þorbjörg Ásgeirsdóttir, munnleg heimild, 14. ágúst, 2005). Þannig má segja að CEEWIT-verkefnið hafi lagt og haldi áfram að leggja sitt af mörkum til að jafna aðstöðumun sem var og er líklega ennþá víða til staðar. Eins og komið hefur fram hér áður var við hugmyndavinnu og hönnun námskeiðsins tekið mið af reynslunni í Menntasmiðju kvenna (Anna Ólafsdóttir, 2000). Það að ennþá sé hægt að bjóða upp á CEEWIT-námskeið í því síbreytilega umhverfi sem einkennir nám á sviði tölvutækni bendir til að einmitt sú leið að horfa fyrst og fremst á hugmyndafræðilega þætti við hönnun námskeiðsins fremur en tæknina sjálfa hafi reynst farsæl þegar upp er staðið. Þannig virðist áhersla á hagnýtt gildi, skýrt skipulag, samskipti og samvinnu ásamt því að byggja upp sjálfstraust þátttakenda hafa haft mikið að segja fyrir árangurinn af verkefninu.

Í Evrópuverkefninu Strategies of Inclusion: Gender and the Information Society (SIGIS) voru skoðaðar aðferðir sem notaðar hafa verið til að ýta undir þátttöku kvenna í upplýsingasamfélaginu í Evrópu (Faulkner o.fl., 2004). Niðurstöður voru meðal annars þær að hönnuðir voru varaðir við því að hanna vörur sérstaklega með konur í huga – afleiðingar yrðu oft þær að miðað væri við einhverja staðalímynd og gert ráð fyrir að konur væru einsleitur hópur. Á hinn bóginn var komist að þeirri niðurstöðu að sérstakar aðgerðir sem miðuðu að því að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í upplýsingasamfélaginu (inclusion strategies) væru mjög mikilvægar. Árangursríkar aðgerðir af þeim toga væru til dæmis þjálfun á sviði upplýsingatækni eingöngu ætluð konum eða þar sem sérstakt rými væri skapað sérstaklega fyrir konur (women-only training; women-centred spaces). Slíkar aðgerðir stuðluðu mjög að því að skapa aukið sjálfstraust og meira sjálfsálit kvenna á þessu sviði. Og einnig það að skapa félagslegt net sem styddi konur í notkun sinni á upplýsingatækni.

Eins og fram kemur hér að framan voru konur í CEEWIT-verkefninu þjálfaðar í félagsskap annarra kvenna og mikið lagt upp úr því að mynda félagslegt net þeirra á milli í streitulitlu andrúmslofti og á þeim hraða sem hentaði hverri og einni þannig að þær fengju sem mest út úr námskeiðinu. Einnig sýndu niðurstöður að sjálfstraust og sjálfsálit kvennanna í tengslum við tölvunotkun þeirra batnaði verulega, en þær voru flestar nýliðar á þessu sviði í upphafi en fannst að lokum að þær væru orðnar sæmilega færar í tölvunotkun. Þetta kemur fram í viðtölum við þær að námskeiðinu loknu. Þannig er ljóst að CEEWIT-verkefnið og árangur þess er í takt við þær aðferðir sem mælt hefur verið með til að auka þátttöku kvenna í upplýsingasamfélaginu. Einnig er ljóst að markmið verkefnisinsað konur á landsbyggðinni tileinkuðu sér næga tölvufærni til að þær gætu nýtt sér hana sem stökkpall til frekara náms, atvinnutækifæra og persónulegs þroskanáðist.

Tilvísanir

 1. Má þar nefna Aðalnámskrá grunnskóla frá 1999, en þá kom út í fyrsta sinn sérstök námskrá í upplýsinga- og tæknimennt; og styrki til þróunarskóla á sviði upplýsingatækni (Jón Torfi Jónasson, Andrea G. Torfadóttir og Kristjana Stella Blöndal, 2002).
 2. Verkefnistjórn var í höndum Greenfield Co-ordinators LTD á Írlandi.  Íslenskir þátttakendur voru Iðntæknistofnun (fulltrúi í verkefnisstjórn var Guðrún Hallgrímsdóttir), Kennaraháskóli Íslands (Sólveig Jakobsdóttir), Símennt (Ingibjörg Stefánsdóttir) og Menntasmiðjan á Akureyri (Valgerður Bjarnadóttir).  Aðrir íslenskir þátttakendur sem komu að verkefninu voru Anna Ólafsdóttir sem vann að þarfagreiningu, vali á kennsluaðferðum,  námsefnisgerð og kennslu og Sigurlína Davíðsdóttir sem stýrði matinu.
 3. Kristín Guðmundsdóttir og Margrét Guðmundsdóttir.
 4. Björk Ólafsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir, meistaraprófsnemar í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á matsfræði við Háskóla Íslands.

 

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. (1999). Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.ismennt.is/vefir/namskra/g/taekni/ut_tm.rtf.

Anna Ólafsdóttir. (1999). Women´s Educational Centre. Erindi flutt á Nordiske Seminar i Voksenpædagogik (NSV), Kennaraháskóla Íslands, 20. apríl, 1999. Sótt 17.nóvember 2006 af http://soljak.khi.is/islandsmodul/ceewit.ppt.

Anna Ólafsdóttir. (2000). CEEWIT – Sívit: Þróunarverkefni um konur og upplýsingatækni. Erindi flutt á ráðstefnunni Konur og upplýsingasamfélagið, Grand Hotel, Reykjavík, 14. apríl 2000. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.simnet.is/konur/erindi/ceewit_kynn.ppt.

Arch, E. C. og Cummins, D. E. (1989). Structured and unstructured exposure to computers: Sex differences in attitutde and use among college students. Sex Roles: A Journal of Research, 20(5/6), 245–254.

Banerjee, S., Kang, H., Bagchi-Sen, S. og Rao, H.R. (2005). Gender divide in the use of the Internet applications. International Journal of E-Business Research, 1(2), 24–39. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.idea-group.com/articles/details.asp?id=4800.

Brynin, M., Raban, Y. og Soffer, T. (2004). Chapter 5: The new ICTs: age, gender and the family. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.eurescom.de/e-living/deliverables/e-liv-D14-Ch5-Family.pdf

Busch, T. (1995). Gender differences in self-efficacy and attitudes toward computers. Journal of Educational Computing Research, 12, 147–158.

Collis, B. A. og Williams, R. L. (1987). Cross-cultural comparison of gender differences in adolescents' attitudes toward computers and selected school subjects. Journal of Educational Research, 81, 17–27.

Eccles, J., Wigfield, A., Harold, R. D., og Blumenfeld, P. (1993). Age and gender differences in children's self- and task perceptions during elementary school. Child Development, 64, 830–847.

European Commission. (1996). Learning in the information society: Action plan for a European education initiative (199698). (Communication to the European Parliament, the Council, the Economic and Social Committee and the Committee of the Regions Nr. XXII/285/96-EN).

Faulkner, W., Sørensen, K., Gansmø, H, Rommes, E., Pitt, L., Lagesen Berg, V. o.fl. (2004). Strategies of Inclusion: Gender and the Information Society. Final Report (Public Version). Edinburgh: University of Edinburgh. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.rcss.ed.ac.uk/sigis/public/displaydoc/full/D08_Final_Public.

Félagsmálaráðuneytið. (2006). Launamyndun og kynbundinn launamunur. Sótt 17. nóvember 2006 af http://www.felagsmalaraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Launamunur_og_kynbundinn_launamunur_2006.pdf.

Forsætisráðuneytið. (1998). Könnun á aðgengi og áhuga landsmanna á tölvum og Interneti framkvæmd í febrúar 1998. Sótt 17.nóvember 2006 af http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/217.

Forsætisráðuneytið. (1999). Internetkönnun gerð af Gallup í nóvember 1999. Sótt 17.nóvember 2006 af http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/837.

Forsætisráðuneytið. (2000). Niðurstöður rannsóknar sem unnin var af PricewaterhouseCoopers fyrir Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, forsætisráðuneyti í september 2000 um Internetaðgang landsmanna. Sótt 17.nóvember 2006 af http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/78.

Forsætisráðuneytið. (2001). Niðurstöður rannsóknar um aðgang að Interneti í mars og apríl 2001. Sótt 17.nóvember 2006 af http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/958.

Giacquinta, J. B., Bauer, J. A., & Levin, J. E. (1993). Beyond technology's promise: An examination of children's educational computing at home. Cambridge, England: Cambridge University Press.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Margrét Lilja Guðmundsdóttir. (2004). New technology and its impact on well being. WORK: A Journal of Prevention, Assessment & Rehabilitation, 22, 31–39. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/upload/files/arsskyrslur/
rannsoknir/new_technology_work.pdf.

Hagstofa Íslands. (1997). Konur og karlar 1997. Reykjavík: Hagstofa Íslands.

Hagstofa Íslands. (2004, 15.mars). Notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti 2002 og 2003 (Use of ICT and Internet by households and invidividuals 2002 and 2003). Hagtíðindi, 2004(3). Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.statice.is/lisalib/getfile.aspx?ItemID=921

Johnson, D. W., Johnson, R. T. og Holubec, E. J. (1993). Cooperation in the classroom (6. útgáfa). Edina, MN: Interaction Book Company.

Jón Torfi Jónasson, Andrea G. Dofradóttir og Kristjana Stella Blöndal. (2002). Hvaða lærdóm má draga af þróunarskólaverkefninu í upplýsingatækni? Mat á framkvæmd og ávinningi verkefnisins. Reykjavík: Félagsvísindastofnun HÍ, unnið fyrir menntamálaráðuneytið.

King, J. A. (1994–1995). Fear or frustration? Students' attitudes toward computers and school. Journal of Research on Computing in Education, 27, 154–170.

Kinnear, A. (1995). Introduction of microcomputers: A case study of patterns of use and children's perceptions. Journal of Educational Computing Research, 13, 27–40.

Kuttan, A. og Peters, L. (2003). From digital divide to digital opportunity. Lanham, Maryland: Scarecrow Press.

Menntamálaráðuneytið. (1996). Í krafti upplýsinga. Tillögur menntamálaráðuneytisins um menntun, menningu og upplýsingatækni 1996–1999. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið. Sótt 17. nóvember 2006 af http://menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/utgefin-rit-og-skyrslur/HTMLrit/nr/2024.

Menntamálaráðuneytið. (2005). Áræði með ábyrgð – stefna menntamálráðuneytis um upplýsingatækni í menntun, menningu og vísindum 2005–2008. Sótt 17.nóvember 2006 af http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/aredi.pdf.

Nolan, P. C. J., McKinnon, D. H., & Soler, J. (1992). Computers in education: Achieving equitable access and use. Journal of Research on Computing in Education, 24, 299–314.

Norris, P. (2001). Digital divide? Civic engagement, information poverty, and the Internet worldwide. Cambridge: Cambridge University Press.

Perry, R. og Greber, L. (1990). Women and computers: An introduction. Signs, 16(1), 74–101

Ríkisstjórn Íslands (1996). Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Reykjavík: Ríkisstjórn Íslands.

Ríkisstjórn Íslands. (2004). Auðlindir í allra þágu – Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004–2007. Reykjavík: Forsætisráðuneytið. Sótt 17.nóvember 2006 af http://forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/UpplStefna2004.pdf.

Rosen, L. D., Sears, D. C. og Weil, M. (1993). Treating technophobia: A longitudinal evaluation of the computerphobia reduction program. Computers in Human Behavior, 9, 27–50.

Sanders, J. (2005). Gender and tecnology in education: a research review. Sótt 15.desember 2005 af http://www.josanders.com/pdf/gendertech0705.pdf.

Sanders, J. S. og Stone, A. (1986). The neuter computer: Computers for girls and boys. New York: Neil-Schuman.

Servon, Lisa J. (2002). Bridging the digital divide: technology, community, and public policy. Oxford: Blackwell Publishers.

Sigurlína Davíðsdóttir (2000). Mat á námskeiðum fyrir dreifbýliskonur í tölvunotkun – CEEWIT. Skýrsla, birt á fjölþjóðlegri LEONARDO ráðstefnu um CEEWIT, einnig birt Iðntæknistofnun, Kennaraháskóla Íslands og Menntasmiðjunni á Akureyri.

Sólveig Jakobsdóttir. (1996a). Elementary school computer culture: Gender and age differences in student reactions to computer use. Óbirt doktorsritgerð, University of Minnesota. Sótt 17.nóvember 2006 af http://soljak.khi.is/thesisvef.

Sólveig Jakobsdóttir. (1996b). Interviews with the first cohort of distance education students at a midwestern women's college. Óútgefið handrit.

Sólveig Jakobsdóttir. (1998). CEE-WIT (Communications, Education & Employment for Women through Information Tecnology). Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.ismennt.is/vefir/ceewit/ire/ceewitweb/groundwork.htm.

Sólveig Jakobsdóttir. (2004). Netnotkun íslenskra kennara 1997 og 2004. Erindi flutt 16.10.2004 á málþingi RKHÍ – Þróun og nýbreytni í skólum Reykjavík. Sótt 17.nóvember 2006 af http://soljak.khi.is/erindi/netkenn04.ppt.

Sólveig Jakobsdóttir. (2005). Á öndverðum meiði eða allt í bland? Um þróun kennsluaðferða og tæknilausna í fjarkennslu. Aðalerindi flutt 14. október 2005 á málþingi um fjarnám og –kennslu í Reykjanesbæ. Sótt 17.nóvember 2006 af http://soljak.khi.is/erindi/blandadnam/
blandadnam_files/Default.htm.

Sólveig Jakobsdóttir. (2006). Up on a straight line? ICT-related skill development of Icelandic students. Í P. Kommers og G. Richards (ritstj.), Edmedia – World Conference on Educational Multimedia, Hypermedia and Telecommunications (bls. 67–74). Chesapeake, VA: AACE.

Sólveig Jakobsdóttir, Bára Mjöll Jónsdóttir og Torfi Hjartarson. (2004). Gender, ICT-related student skills, and the role of a school library in an Icelandic school. School Libraries Worldwide, 10(1&2), 52–72.

Sólveig Jakobsdóttir og Torfi Hjartarson. (2003). Information and Communications Technology (ICT) Use among Icelandic Students: Moving into the New Millennium. Í David Lassner og Carmel NcNaught (ritstj.), ED-MEDIA (bls. 2841–2844). Honolulu: AACE.

Spender, D. (1995). Nattering on the net: women, power and cyberspace. North Melbourne, Australia: Spinifex Press.

Tsai, C. og Lin, C. (2004). Taiwanese adolescents' perceptions and attitudes regarding the Internet: exploring gender differences. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.findarticles.com/p/articles/mi_m2248/is_156_39/ai_n9487162 úr Findarticles.

Tyler, R.W. (1950). Basic principles of curriculum and instruction. Chicago: University of Chigago Press.

Tyler, R.W. (1991). General statement on program evaluation. Í M.W. McLaughlin & D.C. Phillips (ritstj.) Evaluation and education: At quarter century. Ninetieth Yearbook of the National Society for the Study of Education, Part II. Chicago: University of Chicago Press.

Unnur Dís Skaptadóttir. (2000). Women coping with change in an Icelandic fishing community: A case study. Women's Studies International Forum, 23(3), 311-321. Sótt 19.júlí 2005 úr ScienceDirect.

Vinnumálastofnun. (2005). Atvinnuleysi frá 1980 ársmeðaltöl. Reykjavík. Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.vinnumalastofnun.is/utgefid-efni-og-talnaefni/tolulegar-upplysingar/.

Volman, M. (1995). Gender-related effects of computer and information literacy education. Erindi var flutt 22.apríl, 1995 á AERA San Francisco.

Warschauer, M. (2003). Technology and social inclusion: Rethinking the digital divide. Cambridge, Massachusetts: MIT Press.

Weil, M. M. og Rosen, L. D. (1995). Byting back: Is tecnophobia keeping you off the Internet? Sótt 17.nóvember 2006 af http://www.csudh.edu/psych/OTI.htm.

Yeaman, A. R. J. (1997). The discourse on technology. Í Robert Maribe Branch, Barbara B. Minor og Donald Ely (ritstj.), Educational media and technology yearbook (bls. 46–60). Englewood, CO: Libraries Unlimited.

Þakkir

Höfundar þakka eftirtöldum aðilum sem auk Evrópusambandsins styrktu verkefnið: Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti þarfagreiningu og námsefnisgerð, RANNÍS styrkti matshluta verkefnisins og Landsíminn styrkti tilraunakennsluna.

Einnig þakka höfundar samstarfsfólki sínu í verkefninu og öðrum sem komu að því, ekki síst konunum sem luku CEEWIT-námskeiðinu og tóku þátt í matinu.