Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 1. nóvember 2006

Gyða Jóhannsdóttir

Rannsóknir í Kennaraháskóla Íslands
á áttunda áratugnum

Sýn og veruleiki

Árið 1971 færðist Kennaraskóli Íslands á háskólastig og varð Kennaraháskóli Íslands. Í lögum um hann frá 1971 er kveðið á um rannsóknarhlutverk skólans og er það nýmæli dæmi um menntabreytingu. Í þessari grein er greint frá rannsókn þar sem kannað er hvernig tókst að hrinda í framkvæmd ákvæðum laganna frá 1971 um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands á tímabilinu 1971–1978. Litið er á menntabreytingar sem ferli er á sér stað í sögulegu og menntapólitísku samhengi. Menntapólitískir og sögulegir þættir geta bæði hindrað og stuðlað að framkvæmd boðaðra menntabreytinga. Þessir þættir geta enn fremur verið fyrirsjáanlegir og ófyrirsjáanlegir.

Byggt er á og unnið úr síðara hluta rannsóknar þar sem kannaðar eru hugmyndir um flutning menntunar íslenskra barnakennara á háskólastig. Rannsóknin var gerð á árunum 1997–2001. Skriflegar heimildar voru greindar og viðtöl tekin við lykilpersónur. Greining gagna felur í sér könnun á því hvort staða íslensks menntakerfis 1971, afstaða menntamálaráðuneytis svo og saga og hefðir Kennaraháskóla Íslands hafi hindrað eða stuðlað að rannsóknarvirkni við hinn nýja háskóla. Áhrifaþættir eru greindir í fyrirsjáanlega og ófyrirsjáanlega þætti. Í ljós kemur að flestir þættir eru fyrirsjáanlegir og má rekja til félags- og menntapólitískra aðstæðna en einnig til uppbyggingar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Þætti sem stuðluðu að rannsóknum er helst að finna í reglugerð frá 1974 og frumvarpi til laga um endurskoðun laganna frá 1971 en frumvarpið var kynnt á Alþingi vorið 1977. Margir þættir hindruðu hins vegar rannsóknir svo sem skortur á íslenskri rannsóknarhefð í uppeldis- og félagsgreinum, djúpstæður ágreiningur um hvort öll kennaramenntun ætti að vera innan Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands. Hefðir og saga Kennaraskóla Íslands sem stofnunar á mennta- og sérskólastigi voru langlífar og endurspegluðust í afstöðu menntamálaráðuneytisins gagnvart Kennaraháskóla Íslands svo sem tregðu til þess að ráða háskólakennara. Þrátt fyrir erfið skilyrði til rannsókna stunduðu kennarar hins nýja Kennaraháskóla nokkrar rannsóknir þó svo að þær hafi verið í mun minna mæli en vænta mátti samkvæmt lögunum.

Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.
 

This study is based on the second part of a research study examining the upgrading of teacher education for Icelandic elementary teachers to university level. In 1971 the former Icelandic Teacher Training College was upgraded to university level and became Iceland University of Education. One of the specifications of the upgrading was that the new university teachers should engage in research, which is an example of educational change. In this article the realization of the stipulated research activities during the period 1971–1978 is investigated. The study was carried out in 1997–2001. The data is derived from an analysis of written documents and interviews that were done with key persons. Educational change is seen as a process taking place in a historical and political context. Historical and socio–political factors can encourage or hinder the realization of stipulated educational change. These factors can both be predictable and unpredictable. The analysis looks at whether the status of the educational system in 1971 and the orientation of political actors towards the new University of Education, as well as the history and traditions of the former Teacher Training College encouraged or hindered the stipulated research activity. The influential factors are classified as predictable and unpredictable. The main results show that the legal framework affects the realization of research to a very small extent. Most of the influential factors are traced to historical and social–political context and are predictable. Factors that encouraged research activities are mostly found in the Regulation about the university from 1974 and in a bill introduced in the Parliament in 1977 in which the Act from 1971 was revised. Numerous factors hindered the realization of research, such as the lack of tradition in educational research in 1971 and profound political friction regarding whether all teacher education should be located within Iceland University of Education or the University of Iceland. The history and former traditions of the Icelandic Teacher Training College were long–lived and reflected in the Ministry of Education orientation towards Iceland University of Education and the ministry’s reluctance to hire the necessary number of university teachers. In spite of difficult circumstances, some of the new university teachers engaged in research activity, even though it was less than intended according to the legal framework.

 

Inngangur

Örar breytingar eru eitt helsta einkenni nútíma samfélags og menntageirinn hefur ekki farið varhluta af þeim. [1] Seinni helmingur tuttugustu aldarinnar var vettvangur stórhuga menntabreytinga í iðnvæddum samfélögum og voru þær boðaðar ein af annarri en með misjöfnum árangri (Nieto, 1998; Bascia og Hargreaves, 2000). Oft á tíðum er mikið ósamræmi á milli þeirra sýnar sem birtist annars vegar í boðuðum menntabreytingum svo sem í lagaákvæðum eða öðrum ákvörðunum um breytingar og hinsvegar í framkvæmd þessara áformuðu breytinga (Fullan, 1993; Sarason, 1993; Bascia og Hargreaves, 2000). Ísland fór ekki varhluta af víðtækum menntabreytingum, sem dæmi má nefna lög um fræðslu barna frá 1946. Árið 1966 var ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu á skyldunáminu og semja átti nýtt námsefni fyrir allar greinar. Grunnskólalögin frá 1974 eru m.a. afrakstur þessara umbóta (Wolfgang Edelstein, 1988; Gunnar Finnbogason, 1995).

Breytingar beinast þó ekki eingöngu að skólastarfi heldur hefur orðið breyting á hvar nám ýmissa fagstétta er staðsett í skólakerfinu en það hefur smám saman færst á háskólastig á síðustu áratugum bæði hérlendis og erlendis. Á Íslandi var riðið á vaðið með flutningi menntunar íslenskra barnakennara á háskólastig árið 1971 en þá færðist Kennaraskóli Íslands af mennta- og sérskólastigi yfir á háskólastig og breyttist í Kennaraháskóla Íslands. [2] Hann varð annar háskóli Íslendinga en Háskóli Íslands hafði verið eini háskólinn í landinu frá 1911. Smám saman færðist fleira starfsnám á háskólastig svo sem nám hjúkrunarkvenna og ljósmæðra, nám í listum, nám leikskólakennara, þroskaþjálfa og íþróttakennara svo eitthvað sé nefnt.

Hér verður athygli fyrst og fremst beint að kjarna laganna frá 1971 sem var að Kennaraháskóli Íslands átti að verða vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun á sviði uppeldis- og kennslufræði (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971). Það ákvæði felur í sér mikla breytingu á stofnun sem hafði fram að því starfað á framhaldsskólastigi en á því skólastigi voru starfræktir menntaskólar og ýmsir sérskólar sem önnuðust starfsmenntun.

Markmið greinarinnar er að beina sjónum lesenda að því hve flókið það getur verið að hrinda fyrirhuguðum lögbundnum áætlunum í framkvæmd. Leitast er við að bera kennsl á aðstæður og aðila sem komu að eða tengdust framkvæmd laganna um Kennaraháskólann. Einnig er kannað hvort og hvernig mismunandi sjónarmið ólíkra aðila endurspeglast með eða á móti framkvæmdinni. Þannig er mögulegt að kanna misræmi á milli boðaðra breytinga og framkvæmd þeirra. Leitað er svara við eftirfarandi spurningum:

 1. Hvernig var kveðið á um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands og rannsóknariðkun nýrra háskólakennara í lögum frá 1971 og reglugerð frá 1974?

 2. Hvaða rannsóknir voru stundaðar við Kennaraháskóla Íslands 1971–1978?

 3. Hvaða aðilar og aðstæður höfðu mest áhrif á framkvæmd lögboðins rannsóknarhlutverks Kennaraháskóla Íslands og rannsóknariðkunar nýráðinna háskólakennara?

 4. Hvernig endurspegluðust aðstæður og afstaða áhrifaaðila til Kennaraháskóla Íslands í framkvæmd lögboðins rannsóknarhlutverks og rannsóknariðkunnar innan hins nýja háskóla? Var stuðlað að rannsóknariðkun háskólakennara eða ekki?

 5. Var misræmi á milli þeirrar sýnar sem birtist í ákvæðum laganna frá 1971 og í reglugerð frá 1974 um rannsóknarhlutverk og rannsóknariðkunnar innan Kennaraháskóla Íslands og framkvæmdar þessara ákvæða?

Byggt er á niðurstöðum síðari hluta rannsóknar höfundar á hugmyndum um flutning menntunar íslenskra barnakennara á háskólastig 1971. Í þeirri rannsókn er litið svo á að flutningsferlið hefði staðið yfir árin 1963–1978 og skipst í tvö tímabil; 1963–1971 og 1971–1978. Upphaf ferlisins miðast við samþykkt laganna frá 1963 sem höfðu afdrifarík áhrif á þróun menntunar barnakennara. Samþykkt laganna um Kennaraháskóla Íslands markar lok þess tímabils. [3] Tom Fox (1990), sem menntamálaráðuneytið fól að kanna reynslu fjögurra skóla sem þegar höfðu flust á háskólastig, heldur því fram að flutningi starfsmenntunar á háskólastig ljúki ekki með samþykkt laga þar um, heldur taki við einhvers konar millibilsástand (e. transition period) þar sem hin nýja háskólastofnun er hvorki sú stofnun sem hún var eða á að verða. Ég kaus að skilgreina byrjun ársins 1978 sem lok ferlisins en vorið 1977 var kynnt á Alþingi frumvarp til laga um Kennaraháskóla Íslands en það frumvarp fól í sér lögboðna endurskoðun á lögunum frá 1971. Meðal helstu nýmæla var efling Kennaraháskóla Íslands sem rannsóknarstofnunar á sviði uppeldis- og kennslufræði. Þessi nýmæli frumvarpsins mæltust ekki vel fyrir og endurspegluðu umsagnir um frumvarpið og umræður á Alþingi ólíkar skoðanir á stöðu og eðli kennaramenntunar og ekki hvað síst stöðu Kennaraháskóla Íslands sem vísindastofnunar. Umræðum lauk snemma árs 1978 en þá dagaði frumvarpið uppi. Þetta eru ákveðin þáttaskil þar sem endurskoðun laga og efling rannsókna tókst ekki og þurfti Kennaraháskólinn að búa við óbreytt lagaumhverfi um árabil en ný lög voru ekki samþykkt fyrr en 1988.

Í þessari grein er greint frá bakgrunni lagaákvæðanna um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands frá 1971. Einnig er fjallað um fræðilegar hugmyndir um flókið félagslegt og pólitískt samhengi menntabreytinga. Gerð er grein fyrir aðferðum, sagt frá helstu niðurstöðum og þær ræddar í ljós fræðanna.

Bakgrunnur

Flutningur starfsmenntunar á háskólastig gerist ekki á einni nóttu heldur á hann sér mislangan aðdraganda. Aðdragandinn að flutningi menntunar barnakennara var nokkuð langur og hafði að auki áhrif á aðstæður og viðfangsefni Kennaraháskólans fyrstu starfsárin. Flutningur starfsmenntunar á sér einnig stað í menntapólitísku umhverfi en sérstakir þættir þess geta haft mikil áhrif á hvernig til tekst við framkvæmd boðaðra breytinga. Ætla má að framkvæmd lögboðinna rannsókna í uppeldis- og kennslufræðum tengist almennri stöðu uppeldis- og félagsgreina sem vísindagreina.
Hér er því annarsvegar fjallað um aðdraganda flutnings menntunar barnakennara á háskólastig og hinsvegar um stöðu uppeldis- og félagsgreina á Íslandi 1971.

Aðdragandi að flutningi menntunar barnakennara á háskólastig

Aðdraganda flutnings menntunar barnakennara á háskólastig má rekja til samþykktar laga um Kennaraskóla Íslands frá 1963. Fram að þeim tíma önnuðu gagnfræða- og menntaskólar ekki eftirspurn eftir framhaldsskólanámi þar sem einungis þrír menntaskólar auk Verslunarskóla Íslands útskrifuðu stúdenta.

Í lögunum frá 1963 varð gagnfræðapróf bóknámsdeildar með lágmarkseinkunn í ákveðnum greinum fullgilt inntökuskilyrði í almennt kennaranám auk landsprófs. Í greinargerð laganefndar með frumvarpi um Kennaraháskóla Íslands kemur þó fram að gagnfræðingar höfðu verið teknir inn í kennaranám fyrir 1963 þar sem of fáir nemendur með gott landspróf sóttu um inngöngu (Alþingistíðindi 1962 A, bls. 1331). Kennaranámið var áfram fjögur ár en eitt ár fyrir nemendur með stúdentspróf. Helstu nýmæli laganna voru að Kennaraskólanum var heimilað að starfrækja tvenns konar eins árs framhaldsnám fyrir barnakennara. Í fyrsta lagi var um að ræða eins árs námsbraut sem lauk með stúdentsprófi og tryggði það langþráðan aðgang barnakennara að Háskóla Íslands. [4] Í öðru lagi var námsbraut þar sem barnakennarar gátu dýpkað þekkingu sína í þremur greinum og átti próf úr henni að tryggja aðgang í B.A. nám í Háskóla Íslands (Alþingistíðindi 1962 A, bls. 1325; Broddi Jóhannesson, 1984; Sigríður Valgeirsdóttir, 1987). Síðari námsbrautin stóð þó ekki undir væntingum. Í fyrsta lagi var henni ekki hrundið í framkvæmd fyrr en árið 1968 og að auki veitti hún mjög takmarkaðan aðgang að Háskóla Íslands. Ég held því fram að Kennaraskólinn hafi í raun orðið fimmti menntaskóli landsins.

Í kjölfar laganna jókst aðsókn að Kennaraskólanum stórlega og yfirfylltist hann á nokkrum árum. Árið 1969 voru 954 nemendur í hálfbyggðri nýbyggingu sem átti að rúma 200–300 nemendur (Broddi Jóhannesson, 1984). Árið 1970 voru um tveir þriðju nemendahópsins með gagnfræðapróf (Alþingistíðindi 1970 B, d. 1360). Fall á fyrsta námsári var um 30% (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1197). Líkleg skýring á aukinni aðsókn er að þarna opnaðist leið fyrir gagnfræðinga til þess að ljúka stúdentsprófi án þess að taka landspróf. Broddi Jóhannesson gerði ítrekaðar en árangurslausar tilraunir til þess að fá samþykki menntamálaráðuneytisins fyrir að hækka lágmarkseinkun gagnfræðinga. Skólanum var þvert á móti gert að taka inn tvo bekki í venjulegt menntaskólanám þar sem ekki var hægt að taka þá inn í kennaranám sökum skorts á verknámsplássum. Mikið öngþveiti ríkti innan Kennaraskólans á þessum árum (Broddi Jóhannesson [óútg.]; Sigríður Valgeirsdóttir, 1987).

Stjórnvöld tóku ekki á hinum almenna vanda menntaskóla- og sérskólastigsins fyrr en 1969, en það ár var stofnuð tveggja ára framhaldsdeild sem rekin var innan gagnfræðaskólanna (Sigríður Valgeirsdóttir, 1987). Lög um heimild til að stofna fjölbrautaskóla voru ekki samþykkt fyrr en 1973.

Við samþykkt laganna um Kennaraháskóla Íslands 1971 urðu inntökuskilyrði stúdentspróf eða ígildi þess og lengd kennaranáms þrjú ár. Rétt er að benda á að haustið 1969 var eins árs kennaranám fyrir nemendur með stúdentspróf lengt í tvö ár. Breytingin varð því ekki svo ýkja mikil þegar námið var lengt í þrjú ár. Breytt inntökuskilyrði ollu ekki umtalverðum ágreiningi meðal alþingismanna, stærsta ágreiningsmálið snerist um hvort stofna ætti annan háskóla eða flytja námið inn í Háskóla Íslands þar sem hann annaðist uppeldis- og kennslufræðilega menntun kennara í gagnfræða- og menntaskólum. Kennarar þessara skóla þurftu þó ekki að ljúka námskeiðum í uppeldis- og kennslufræði til að fá fastráðningu en þeir þurftu að ljúka námi í faggrein, þ.e.a.s. kennslugrein skólanna.

Hlutverk og starfsvið Háskóla Íslands var auk þess til endurskoðunar á þessum tíma (Háskólanefnd, 1969). Þessi ágreiningur varð til þess að samþykkt frumvarpsins um Kennaraháskólann var í hættu. Á síðustu stundu var sæst á að samþykkja frumvarpið og að tillögu Einars Ágústssonar var bætt inn bráðabirgðaákvæði sem kvað á um endurskoðun laganna tveimur árum eftir gildistöku þeirra (Alþingistíðindi 1970 B, d. 1447–1448), sjá einnig umfjöllun Gyðu Jóhannsdóttur um þetta efni (2001, 2004).

Staða uppeldis- og félagsgreina á Íslandi 1971

Þegar nám íslenskra barnakennara var flutt af mennta- og sérskólastigi á háskólastig var nær engin hefð fyrir rannsóknum í uppeldis- og sálfræði ef undan eru skildar viðamiklar greindarmælingar Matthíasar Jónassonar (1956) á íslenskum börnum á árunum 1945–1955. [5] Sigurjón Björnsson sálfræðingur vann einnig að rannsóknum bæði fyrir og eftir að hann varð prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands árið 1971 en það ár var fyrst boðið upp á B.A. nám í greininni. Árið 1970 var stofnuð námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands og hófst þá kennsla í félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands er ekki stofnuð fyrr en árið 1976 og flyst námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum í deildina auk sálfræði, uppeldisfræði og bókasafnsfræði en þær greinar heyrðu áður undir Heimspekideild. Uppeldisfræði sem hafði verið kennd frá fyrri hluta sjötta áratugarins og var ætluð kennurum í kennslugreinum gagnfræða- og menntaskóla færðist einnig í Félagsvísindadeild en auk þess bættist við nám í uppeldisfræði til B.A. gráðu við stofnun deildarinnar. Rannsóknir innan allra þessara greina voru af skornum skammti frá 1970 og svo var einnig fyrstu árin eftir að Félagsvísindadeild komst á laggirnar. Kennarar í uppeldisfræði, félags- og sálfræði voru fáir og þurftu að verja mest öllum tíma sínum í uppbyggingu brautanna og kennslu (Inga Dóra Sigfúsdóttir, 1997). Á þessum árum áttu Íslendingar því ekki kost á rannsóknarþjálfun í þessum greinum hérlendis heldur þurftu þeir að leita út fyrir landsteinana í því skyni. Staða þessara greina í Háskóla Íslands var því ekki ólík stöðu kennaramenntunar í Kennaraháskóla Íslands. Á báðum stöðum var verið að skipuleggja nýjar námsbrautir á háskólastigi og stíga fyrstu skref í íslenskum rannsóknum á sviði uppeldis- og félagsvísinda.

Á sama tíma og uppeldis- og félagsgreinar voru í burðarliðnum í báðum háskólunum var unnið að athugun og mati á skólastarfi á öðrum vettvangi. Árið 1966 réðst þáverandi menntamálaráðherra Gylfi Þ. Gíslason í viðamiklar menntaumbætur á landsvísu. Markmiðið var að endurskipuleggja allt skyldunámið; meta og semja nýtt námsefni fyrir allar greinar í barna- og gagnfræðaskólum. Umbótastarfið var unnið innan Skólarannsóknadeildar menntamálaráðuneytisins sem var stofnuð 1968 og veitti Andri Ísaksson henni forstöðu. Wolfgang Edelstein var sérstakur ráðgjafi umbótastarfsins og virkur þátttakandi. Vegna skorts á íslenskum sérfræðingum í menntunarfræðum var umbótastarfið að öðru leyti að mestu unnið af dugmiklum kennurum og skólastjórum sem þóttu jafnframt opnir fyrir nýjungum. Ákveðið var að ráðast ekki í rannsóknir á stöðu íslensks skólakerfis heldur byggja starfið á niðurstöðum erlendra rannsókna (Gunnar Finnbogason, 1995).

Þrátt fyrir að viðfangsefni umbótastarfsins og hins nýja Kennaraháskóla væru óneitanlega tengd var ekki formlegt samstarf á milli Skólarannsóknadeildar og Kennaraháskólans á þessum tíma, en nokkrir kennarar skólans og Háskóla Íslands tóku þátt í umbótastarfinu sem einstaklingar. Allmargir starfsmenn Skólarannsóknadeildar fóru síðar í hefðbundið háskólanám og réðust nokkrir þeirra síðar til Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands (Ingólfur Á. Jóhannesson, 1991, 1993; Gyða Jóhannsdóttir, 2001).

Kennarar hins nýja Kennaraháskóla voru óöruggir um stöðu sína innan íslensks háskólasamfélags og börðust fyrir viðurkenningu Háskóla Íslands (Sigurjón Mýrdal, 1996). Árið 1989 fól menntamálaráðuneytið Tom Fox að kanna reynslu fjögurra skóla sem höfðu flust á háskólastig. Skólarnir voru Kennaraháskóli Íslands, Hjúkrunarbraut Háskóla Íslands, Samvinnuháskólinn á Bifröst og Tækniskóli Íslands. Ástæðan fyrir rannsókninni var sú að í lok níunda áratugarins stóðu menntamálayfirvöld frammi fyrir því að fleiri skólar eða námsbrautir færðust eða sæktu um flutning á háskólastig. Þess var vænst að könnun á reynslu þeirra stofnana sem þegar höfðu færst á háskólastig leiddi til aukinnar þekkingar á flutningsferlinu sem gæti komið að gagni í framtíðinni. Þetta var viðtalsrannsókn og fékk Fox tíu vikur til verksins. Viðmælendur hans minntust á að einstaka kennarar Háskóla Íslands hafi opinberlega borið brigður á að hinn nýi Kennaraháskóli stæði undir nafni sem háskóli og hafi það komið illa við ýmsa kennara hans. Ástæður þeirrar viðkvæmni telur Fox einfaldlega vera þá inngrónu virðingu sem Íslendingar bera fyrir formlegu námi, svo sem stúdentsprófi og háskólanámi.

„Kennaraháskóli Íslands bar ákaflega mikla virðingu fyrir hugmyndum um virðingarstöðu háskóla. Breytingin varð Kennaraháskólanum þeim mun sársaukafyllri þar sem þeir drógu eigin frammistöðu sífellt í efa í ljósi innbyggðrar virðingar fyrir fræðastörfum og þeirri þekkingu sem fæst við formlega langskólagöngu. Sökum þessa efa um eigið ágæti varð Kennaraháskólinn auðveld bráð þeirra sem gagnrýndu hann sem harðast [þýð. höf.]“ (Fox, 1990, bls. 33).

Þetta óöryggi kennara Kennaraháskólans er ekki séríslenskt fyrirbæri. Menntun bandarískra barnakennara var til dæmis komin inn í ríkisháskóla um 1960 og Finnar færðu kennaramenntun inn í háskóla á miðjum áttunda áratugnum. Bandarískir og finnskir fræðimenn halda því fram að staða kennara kennaranema innan háskólasamfélagsins hafi verið veikari en staða kennara í hefðbundnum háskólagreinum. Fræðilegar stoðir kennaramenntunar voru óljósar (Simola, 1996; Kivinen og Rinne, 1994, 1996). Fæstir kennarar kennaranema voru með menntun í rannsóknum og þjálfun í ritun faggreina og oft skorti áhuga þeirra á þessu sviði (Labaree, 1992, 2004).

Er eðlilegt að draga þá ályktun að veik staða kennara kennaranema innan háskólasamfélagsins hljóti að leiða til þess að flutningur menntunar barnakennara á háskólastig hljóti að misheppnast? Svarið er nei, niðurstöður segja ekki til um það, þær benda fyrst og fremst á nokkra byrjunarörðugleika. Til þess að skilja betur hvernig framkvæmd lagaákvæða um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands tókst í raun er í fyrsta lagi nauðsynlegt að kanna hvaða rannsóknir voru stundaðar 1971–1978 og hvaða önnur störf kennarar unnu. Í öðru lagi þarf að kanna nánar aðstæður háskólakennara til rannsóknarstarfa og beina sjónum að breytingarferlinu sjálfu og athuga hvaða aðilar komu að því ferli. Því er leitað í smiðju til fræðimanna sem hafa kannað tilurð, framkvæmd og árangur margskonar menntabreytinga.

Fræðilegrar hugmyndir um flókið samhengi menntabreytinga

Menntabreytingar eiga sér yfirleitt ekki stað á einni nóttu heldur er um breytingarferli að ræða sem tekur tíma (Fox, 1990; Fullan, 1993; Sarason, 1993; Nieto, 1998). Menntabreytingar eiga sér auk þess stað í mjög flóknum veruleika og ógerlegt er að líkja tilurð, framkvæmd og árangri þeirra við einfaldar tækniaðgerðir, þar sem hægt er að hafa stjórn á öllum áhrifaþáttum. Ef litið er á menntabreytingar út frá slíku tæknisjónarmiði er líklegt að árangurinn valdi vonbrigðum (Sarason, 1993; Bascia og Hargreaves, 2000).

Senge (1990) fjallar um nauðsyn þess að gera sér grein fyrir og hafa stjórn á þeim margvíslegu öflum sem hafa áhrif á lausn ýmissa vandamála sem tengjast framkvæmd og útkomu boðaðra menntabreytinga eða stefnumörkunar. Hann greinir á milli detailed complexity og dynamic complexity (bls. 71–72). Hið fyrra er hér þýtt sem fyrirsjáanlegir þættir sem hafa áhrif á framkvæmd breytinganna. Það ætti að vera fræðilegur möguleiki að gera lista yfir slíka þætti og velta upp leiðum til þess að takast á við þá. Án efa yrði þó erfitt að gera lista sem næði yfir alla fyrirsjáanlega áhrifaþætti. Dynamic complexity er þýtt sem ófyrirsjáanlegir þættir sem hafa áhrif á framkvæmd breytinga. Þeir breyta þeim grundvelli sem unnið er út frá samkvæmt fyrirsjáanlegum áhrifaþáttum. Þessi breyting (af völdum ófyrirsjáanlegra þátta) krefst því endurskoðunar á aðstæðum og viðbrögðum og verður endurskoðunin þá nýr grundvöllur aðgerða þar til nýir ófyrirsjáanlegir þættir koma upp o. s. frv. Mikilvægt er að átta sig á að bæði fyrirsjáanlegir og ófyrirsjáanlegir þættir geta bæði stuðlað að eða hindrað framkvæmd breytinga. Fræðimenn sem hafa rannsakað ferli og eðli menntabreytinga undrast hversu oft talsmenn breytinganna vanmeta hið flókna samhengi þeirra þrátt fyrir viðamikil fræðaskrif um efnið. Þetta vanmat leiðir til vonbrigða um árangur (Sarason, 1993; Bascia og Hargreaves, 2000).

Menntapólitískar aðstæður geta einnig haft áhrif á framkvæmd boðaðra breytinga. Framkvæmdin á sér stað í félagslegu samhengi og fellur hún oft í hlut félagslegra afla sem eru með ólík sjónarmið. Ólík afstaða þessara aðila til boðaðra breytinga getur haft áhrif á hvort og hve hratt framkvæmdin á sér stað (Fullan, 1993; Nieto 1998). Nieto (1998) fjallar um menntabreytingar og áhrif þeirra á ólíka menningarhópa. Hún bendir á nauðsyn þess að setja menntabreytingar í félagspólitískt samhengi en það felur í sér viðurkenningu á því að margvísleg félagspólitísk öfl geta haft áhrif á tilurð og framkvæmd breytinga í viðkomandi þjóðfélagi. Hún telur einnig afar mikilvægt að taka með í reikninginn að milli þessara afla er oft djúpstæður ágreiningur sem snertir grundvallarsýn á viðfangsefnið. Hún telur mjög mikilvægt að taka þennan ágreining með í reikninginn þegar hugað er að menntabreytingum og framkvæmd þeirra. Ef það er ekki gert verður áætluð breyting ekki annað en óskhyggja þar sem byrjunarreitur er gefinn og ekki tengdur flóknum álitamálum. Menntabreytingar samkvæmt Nieto eru því pólitískt ferli þar sem nauðsynlegt er að átta sig á að pólitískar áherslur varðandi uppbyggingu skóla og samfélaga geta hindrað eða stuðlað að breytingum.

Fox (1990) leggur einnig áherslu á mikilvægi félagspólitísks samhengis. Í fyrrnefndri könnun á flutningi fjögurra skóla á háskólastig heldur hann því fram að til þess að skilja flutning starfsmenntunar á háskólastig sé nauðsynlegt að setja hann í félagspólitískt samhengi hverju sinni. Niðurstöður rannsóknar hans frá 1990 benda til að margvíslegir þættir hafi haft áhrif á flutning íslenskrar kennaramenntunar á háskólastig og nefnir hann sem dæmi virðingarstöðu íslenskra barnakennara og stöðu menntunar þeirra innan íslensks menntakerfis, sögu og hefðir Kennaraskóla Íslands, þróun íslensks menntakerfis og þróun og stöðu kennaramenntunar í öðrum löndum.

Umfjöllun Fox og Nieto um félagspólitískt sjónarhorn er nokkuð almenn og þau gefa litlar vísbendingar um hvernig staðið skuli að verki við könnun á þessum þætti. Engu að síður er sjónarhorn þeirra áhugavert í þessari rannsókn. Það leiðir hugann að afstöðu yfirvalda menntamála og stjórnmálamanna til nýs háskólahlutverks Kennaraháskóla Íslands. Í rannsókn minni frá 2001 um hugmyndir um flutning menntunar barnakennara á háskólastig 1971 kom eimitt í ljós alvarlegur ágreiningur alþingismanna um hvort Kennaraskólinn ætti að verða háskóli, bæði sökum þess að landið væri of lítið fyrir tvo háskóla en einnig efuðust nokkrir alþingismenn um að Kennaraskólinn hefði burði til þessa að breytast í háskóla og spurðu hvort ekki væri einungis um að ræða sókn í aukna virðingarstöðu Kennaraskólans og kennara hans? Mér þykir því áhugavert að kanna framkvæmd lagaákvæðisins um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands frá 1971 út frá þessum niðurstöðum, þ.e.a.s. kanna hvaða aðilar og aðstæður höfðu mest áhrif á framkvæmdina. Var um ólík sjónarhorn áhrifaaðila að ræða? Hver var til dæmis afstaða menntamálayfirvalda til Kennaraháskóla Íslands og rannsóknarhlutverks hans eftir flutninginn? Var fyrri ágreiningur um einn eða tvo háskóla enn fyrir hendi? Einnig er forvitnilegt að greina hvort uppbygging nýs háskóla sem átti allt aðrar rætur en Háskóli Íslands (þ.e.a.s. breytist úr sérskóla á menntaskóla- og sérskólastigi í háskóla með mjög litlum fyrirvara) hafi haft einhver áhrif á framkvæmd laganna. Hvaða áhrif hafa gamlar hefðir Kennaraskóla Íslands á framkvæmd nýs rannsóknarhlutverks hans? Þessi greining er nánari útfærsla á hugmyndum Nieto og Fox og byggir á skilgreiningu á íslenskum aðstæðum þess tímabils sem íslenska rannsóknin nær yfir. Mér þykir einnig forvitnilegt að greina þetta íslenska viðfangsefni út frá hugtökum Senge um fyrirsjáanlegt og ófyrirsjáanlegt samhengi breytinganna. Slík greining gefur nokkra hugmynd um hve flókið samhengið var. Þessari greiningu er ætlað að varpa nýju ljósi á félagspólitískt samhengi breytinganna 1971–1978 og þar með auka skilning okkar á hvernig til tókst í raun.

Aðferðir

Meginaðferðir eru í fyrsta lagi greining ritaðra heimilda sem tengjast framkvæmd rannsókna innan Kennaraháskóla Íslands. Í öðru lagi eru tekin viðtöl við lykilpersónur. Hér er fjallað um greiningu heimilda á síðara tímabili rannsóknarinnar frá 2001 en það náði yfir árin 1971–1978. Heimildir sem tengdust rannsóknariðkun hinna nýju háskólakennara voru fyrst og fremst:

 • Ýmis lög og reglugerðir um Kennaraskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

 • Alþingistíðindi 1962, 1970 og Alþingistíðindi 1976–1977 og 1977–1978 (frumvörp greinargerðir og umræður).

 • Bréf, skýrslur, ályktanir, ræður og önnur skjöl sem tengdust flutningsferlinu og þá sérstaklega viðfangsefnum Kennaraháskólans fyrstu sjö árin.

Ritaðar heimildir voru mjög gagnlegar en þó takmarkaðar. Ýmislegt kom á óvart og þarfnaðist frekari könnunar. Þess vegna voru tekin viðtöl við 10 lykilpersónur sem höfðu tekið þátt í flutningsferlinu eða tengdust því á einhvern hátt og voru því sérstaklega fróðar um einstök atriði. [6] Í þessari grein er byggt á viðtölum sem snertu sérstaklega þá þætti sem hér eru kannaðir en einnig var tekið nýtt viðtal sérstaklega vegna þessa rannsóknarefnis.

Greining gagna byggir á hugmyndum Nieto (1998) og Senge (1990). Samkvæmt hugmyndum Nieto um áhrif pólitískra áherslna og uppbyggingar stofnana á framkvæmd boðaðra breytinga greindi ég afstöðu pólitískra áhrifaaðila gagnvart rannsóknarhlutverki Kennaraháskóla Íslands fyrstu árin eftir stofnun hans; var stutt við bakið á stofnuninni eða ekki? Ég greindi einnig hvort saga og hefðir Kennaraskóla Íslands hafi haft hvetjandi eða letjandi áhrif á hið nýja rannsóknarhlutverk Kennaraháskólans. Að lokum var leitast við að meta hvort áhrifaþættirnir hafi verið fyrirsjáanlegri eða ófyrirsjáanlegir.

Niðurstöður

Í þessum kafla er greint frá helstu niðurstöðum greiningarinnar. Annars vegar er fjallað um ákvæði í lögum og reglugerð um nauðsynlegan fjölda háskólakennara og hve miklar og hverskonar rannsóknir skyldu stundaðar innan Kennaraháskóla Íslands. Hins vegar er fjallað um hvernig tókst til í raun varðandi ráðningu háskólakennara og rannsóknariðkun þeirra. Niðurstöður leiða í ljós að hinn lagalegi rammi segir lítið til um mönnun rannsókna í Kennaraháskóla Íslands, þ.e.a.s. fjölda kennara með rannsóknarskyldu. Framkvæmdin var að mestu leyti í höndum menntamálaráðuneytis og háð vilja þess óháð lagaákvæðum. Einnig er greint frá ýmsum fyrirsjáanlegum og ófyrirsjáanlegum aðstæðum og aðgerðum sem ætla má að hafi stuðlað að eða hindrað rannsóknarvirkni kennara.

Ákvæði um rannsóknir Kennaraháskóla Íslands samkvæmt lögunum frá 1971

Eins og áður er getið fól breyting Kennaraskóla Íslands í Kennaraháskóla Íslands í sér breytingar á hlutverki skólans. Samkvæmt 1. grein laganna frá 1971 átti Kennaraháskólinn að verða vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun í uppeldis- og kennslufræði í landinu. Í 4. tölulið sömu greinar er kveðið á um að skólinn eigi „að taka mið af markverðum nýjungum í vísindum og viðhorfum, er uppeldismál varða, hafa frumkvæði um að sannreyna gildi þeirra í íslensku umhverfi, leita nýrri og betri kenninga og aðferða í námi og kennslu“ (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971).

Samkvæmt lögunum fá kennarar skólans háskólatitla; prófessor, dósent, lektor og adjunkt. Í 11. grein laganna er kveðið á um skipun sjö prófessora og níu dósenta. Skipun lektora og ákvörðun um fjölda þeirra var í höndum Menntamálaráðuneytis að fengnum tillögum skólaráðs. Hæfniskröfur fyrir fasta kennara skólans voru fullnaðarpróf frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun, auk prófs í uppeldis- og kennslufræði. Samkvæmt 12. gr. laganna átti þriggja manna dómnefnd að meta hæfni þeirra sem sóttu um störf prófessora og dósenta og byggja matið á námi og störfum umsækjenda svo og vísindagildi rita þeirra og rannsókna (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971). Skólaráð Kennaraháskólans átti hins vegar að meta hæfni lektora en gat óskað eftir skipun dómnefndar ef vafi þótti leika á hæfni umsækjenda (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1195). Við samanburð á hæfniskröfum kennara Kennaraskólans og kennara Kennaraháskólans samkvæmt lögunum frá 1963 og lögunum frá 1971 kemur í ljós að kröfurnar eru þær sömu að því undanskildu að dómnefnd mat hæfni prófessora og dósenta. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að benda á að þær kröfur sem gerðar voru um hæfni kennara Kennaraskóla Íslands árið 1963 voru þær sömu og gerðar voru til menntaskólakennara (Lög um Kennaraskóla Íslands, 1963; Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971). Þetta kemur þó ekki á óvart þar sem Kennaraskóli Íslands féll undir mennta- og sérskólastig árið 1963 og fram til 1971. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna frá 1971 áttu skipaðir bóklegir kennarar við Kennaraskóla Íslands forgangsrétt á skipun í lektorsstöður Kennaraháskóla Íslands sem voru veittar innan fjögurra ára frá gildistöku laganna (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971).

Kennsluskylda háskólakennara skyldi ákvörðuð í reglugerð um Kennaraháskólann (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971). Í greinargerð með frumvarpi er útskýrt nánar hvers konar rannsóknir kennarar skólans áttu að stunda. Um 11. grein segir svo:

Störf kennaranna skiptast einkum á kennslu og rannsóknarstörf: Prófessorar munu auk kennslu sinnar bera meginábyrgð á rannsóknarstörfum innan hverrar skorar, en dósentar og aðrir kennarar munu einnig sinna vísindastörfum eftir því sem rétt þykir og við verður komið. Rannsóknarstörfin munu einkum beinast að uppeldislegum markmiðum, námsefni, uppeldis- og kennsluaðferðum (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1194).

Kennararnir áttu einkum að kanna kennslufræði greina en einnig átti að rannsaka aðstöðu greinanna innan skólakerfisins og meta vinnubrögð og aðferðir skólanna. Þessar rannsóknir áttu kennarar að tengja kennslu (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1194).

Til þess að styrkja rannsóknarstöðu hins nýja kennaraháskóla var kveðið á um stofnun Rannsóknarstofnunar uppeldismála en Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands áttu að reka hana í sameiningu. Þar skyldi unnið að fræðilegum rannsóknum á sviði sálar- og félagsvísinda og áhersla lögð á verkefni sem snertu hagnýtt skólastarf. Leyfilegt var að fela föstum kennurum við báða háskólana að vinna við stofnunina. Stofnunin átti einnig að þjálfa kennaranema og háskólastúdenta í vísindalegum vinnubrögðum á sviði sál- og félagsvísindavísinda.

Æfinga og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands skyldi eins og aðstæður leyfðu fást við uppeldisfræðilegar athuganir og tilraunir undir stjórn rektors Kennaraháskólans, prófessors í uppeldis- og sálarfræði og skólastjóra Æfingaskólans (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971).

Þessi ákvæði laganna um rannsóknarstarfsemi fela í sér sýn um forystu Kennaraháskólans í rannsóknum sem tengjast sálarfræði, uppeldisfræði og kennslufræði; sýn sem felur í sér bjartsýni og traust á samráði og samvinnu. Var bjartsýnin raunsæ miðað við aðstæður?

Ráðning háskólakennara og skipting vinnuskyldu

Mun hægar gekk að fá samþykkta ráðningu háskólakennara en áætlað var. Kennsla háskólanema hófst strax haustið 1971 en ekki reyndist ráðrúm til að auglýsa stöður prófessora og dósenta. Það var því brugðið á það ráð að leita samþykkis menntamálaráðuneytisins um ráðningu tólf lektora. Talið var að sá fjöldi myndi anna kennsluþörf og vinnu vegna samningar reglugerðar og nýrrar námsskrár (KHÍ, skýrslur til ráðuneytis 1963–1975 II). Menntamálaráðherra heimilaði einungis ráðningu sex lektora sem skiptust á eftirfarandi greinar: Uppeldisfræði, félagsfræði, kristinfræði, stærðfræði, verk- og listgreinar (ekki tilgreint hvaða grein). Tveir lektorar deildu einni stöðu í íslensku (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 31. janúar 1972). Í skjalasafni Kennaraháskóla Íslands var ekki að finna nafnalista yfir fasta kennara frá 1970–1971 en skólaárið 1969–1970 voru fastir kennarar Kennaraskólans alls þrjátíu og voru nýju lektorarnir úr þeirra hópi (KHÍ, EA 213/2, listi yfir fasta kennara 1969–1970). Í viðtölum staðfestu Loftur Guttormsson prófessor (munnleg heimild, 17. nóvember 2000) og Sigríður Valgeirsdóttir fyrrverandi prófessor (munnleg heimild, 20. ágúst 2000) að ráðning lektoranna hafi verið byggð á forgangsrétti þeirra til lektorsstarfa samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna frá 1971; háskólaráð hafi metið hæfni þeirra ásamt umfangi kennslugreina. Hér kemur glöggt fram hve lögin segja lítið um raunverulegar ákvarðanir ráðuneytisins um mönnun í ný störf háskólakennara og þar með í rannsóknarstöður. Lektorum fjölgar þó á næstu árum. Árið 1973 eru fimm lektorar ráðnir til viðbótar; þrír skiptast á ensku, dönsku og landafræði (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 25. apríl 1973), að auki er ráðinn einn lektor í líffræði og annar í eðlis- og efnafræði (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 30. júlí 1973). Í árslok 1976 eru stöðugildi lektora orðin tuttugu og eitt, þar af eru nýráðnir níu lektorar í list og verkgreinum (KHÍ, EB 216/1, félagar í Kennarafélagi KHÍ í október 1976). Enginn lektor var ráðinn 1977.

Á árunum 1973–1978 voru einungis skipaðir þrír prófessorar og enginn dósent þrátt fyrir ákvæði laganna frá 1971 um skipun sjö prófessora og níu dósenta. Tveir prófessorar í uppeldissálfræði voru ráðnir, annar 1973 (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 23. september 1973) og hinn 1974 (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 22. ágúst 1974). Prófessor í eðlis- og efnafræði var skipaður 1976 (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 10. ágúst 1976 ). Alls fengu 20 kennarar úr hópi 30 fastra kennara 1969–1970 lektors eða prófessorsstöðu. Rétt er að geta þess að nokkrir þessara lektora hættu störfum eða fóru í orlof á því tímabili sem hér er rannsakað og voru aðrir ráðnir í þeirra stað sem ekki endilega voru í hópi fastra kennara 1969–1970.

Í 42. gr. reglugerðar Kennaraháskóla Íslands frá 1974 er hlutfall ólíkra þátta í starfi háskólakennara ákvarðað í megindráttum. Rannsóknir áttu að jafnaði að vera stærsti hluti heildarstarfs prófessora; stjórnunarþátturinn mátti ekki fara yfir 15–20%. Kennsla dósents átti að jafnaði að vera um helmingur heildarstarfs og stjórnun mátti ekki fara yfir 10 %; það sama átti við um stjórnunarhlutfall lektors en kennsla hans átti að vera meira en helmingur af heildarstarfi en ekki er getið um hámark kennsluþáttarins. Háskólakennarar áttu að skila rektor rannsóknarskýrslu árlega.

Nánari útreikninga á ólíkum þáttum vinnuskyldu háskólakennara er að finna í samningi milli fjármálaráðherra og félags háskólakennara frá maí 1974 en í 3 gr. er kveðið á um að 40–60 % af vinnutíma háskólakennara skuli varið til kennslu, undirbúnings hennar og stjórnunar. Þeim tíma sem eftir stendur skal varið til rannsókna (KHÍ, EB 211/3, samningur milli fjármálaráðherra og háskólakennara, 1974). Þetta ákvæði er í samræmi við reglur Háskóla Íslands um vinnuskyldu fastra kennara frá 1973 en þar var vinna við kennslu og próf 50%, vinna vegna stjórnunar 10% og rannsóknir 40% (KHÍ, EB 211/3, reglur um vinnuskyldu fastra kennara, 1973). Í bókun 1 við samninginn frá 1974 er lýst yfir nauðsyn þess að koma á reglulegri skýrslugerð um þær rannsóknir sem háskólakennarar eiga að inna af hendi samkvæmt vinnuskyldu sinni. Auk þess er kveðið á um nauðsyn þess að koma á skipulögðu matskerfi innan Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands auk framgangskerfis í starfi og áttu háskólarnir tveir að vinna að þessu á samningstímanum. Það er ljóst að á tímabilinu sem hér er kannað er verið að semja og koma sér saman um reglur sem lúta að rannsóknarhlutverki kennara og mati á því.

Rannsóknir innan Kennaraháskóla Íslands 1971–1978

Í greinargerð um rannsóknarstörf Kennaraháskóla Íslands sem Broddi Jóhannesson sendi menntamálaráðuneytinu í byrjun árs 1975 kemur í ljós að nokkrir háskólakennarar unnu að rannsóknum fyrstu árin. Þrjár þeirra voru á sviði kennslufræði og uppeldissálarfræði og hófst vinna við tvær þeirra árið 1969. Fyrst ber að nefna viðamikla rannsóknarvinnu við stöðlun hæfileikaprófa Lorge-Thorndike og Hagen en unnið var að henni í mörg ár. Í öðru lagi var um að ræða ferilrannsókn þar sem könnuð voru áhrif mismunandi forskólareynslu á námsárangur og aðlögun 200 barna í barnaskóla. Börnin voru fædd 1963, fyrsta athugun var gerð 1969 og áætlað að fylgja þeim eftir til ársins 1976 eða jafnvel 1978. Í þriðja lagi var rannsókn á áhrifum námsmarkmiða og hlítarnáms á nám nemenda á skyldunámsstigi. Hún hófst 1974 og stóð í nokkur ár (KHÍ, skýrslur til ráðuneytis, 1963–1975 III).

Fáar rannsóknarskýrslur eru til frá þessum árum en þó eru til skýrslur þar sem fram kemur að unnið var að ýmsum rannsóknum tengdum faggreinum. Unnið var að margbreytilegum rannsóknum í íslensku. Árið 1973 fór menntamálaráðuneytið þess á leit að lektor í íslensku yrði heimilað að nota þann tíma sem var ætlaður til rannsóknarstarfa til undirbúnings að samningu tilraunanámsefnis í málvísi fyrir nemendur í barnaskólum (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 19. september 1973). Unnið var að þessu verkefni í mörg ár. Aðrar rannsóknir voru 1) Gerð hljóðmynda af íslenskum málhljóðum til notkunar við kennslu og hófst hún 1975. 2) Búið til hljóðmyndasafn með íslensku tali. 3) Orðatíðnikönnun þar sem tíðni viðtengingarháttar í þátíð var könnuð í dagblaðamáli; könnun unnin af lektor og nemendum í sameiningu. 4) Athugun var gerð á stafsetningarkennslu kennara sem sóttu námskeið í móðurmálskennslu eldri barna (KHÍ, EA 259/1, íslenska 1975 og 1976). Árið 1977 hófst könnun í íslenskri hljóðfræði og var skaftfellskur nútímaframburður viðfangsefnið (KHÍ, EA 259/1, íslenska 1978). Þá var unnið að rannsókn í sögulegri mannfjöldafræði (KHÍ, EA 259/1, félagsfræði 1975–1976).

Samkvæmt rannsóknarskýrslu Kennaraháskólans til Rannsóknarráðs ríkisins fyrir árið 1977 var unnið að eftirfarandi rannsóknum: 1) Stöðlun hæfileikaprófa og rannsóknir á tölfræðilegum aðferðum við gerð prófa. 2) Saga sveitastjórna á Íslandi. 3) Rannsóknir á tilurð Íslandsklukkunnar. 4) Könnun á lestrarvenjum barna og unglinga, sem unnin var af hópi nemenda i samvinnu við lektor í íslensku. 5) Könnun á höfundarverki Benedikts Gröndals og íslenskri upplýsingu. 6) Rannsókn á sögu Saltverksins á Reykjanesi og ritun þess (KHÍ, EA 259/1). Lektorar í íslensku, félagsfræði og sögu rituðu í fræðitímarit sinna greina á þessu tímabili.

Háskólakennarar sinntu einnig annarskonar störfum sem tengdust rannsóknum og störfum háskólakennara á þessu tímabili. Unnið var að samningu bráðabirgðareglugerðar en þar birtist námskrá fyrir fyrsta ár hins nýja kennaranáms árið 1971. Haldið var áfram við samningu námskrár og birtist hún í heild í reglugerð frá 1974. [7] Við þetta bættist að kennarar þurftu að huga að nýju námsefni og gaumgæfa hvað kennsla á háskólastigi fæli í sér. Unnið var að orðaskrá í uppeldis- og sálarfræði. Lektor í dönsku skipulagði námskeið í dönsku sem haldin voru á vegum Kennaraháskólans og menntamálaráðuneytisins. Hann var einnig fulltrúi Kennaraháskólans í nefnd sem átti að samræma kennsluskrá Kennaraháskólans og Háskóla Íslands í dönsku (KHÍ, EA 196/2, Ásthildur Erlingsdóttur 8. október 1973). Lektorar í félagsfræði, íslensku, kristinfræði og eðlis- og efnafræði unnu að námskrárgerð og námsefnisgerð í tengslum við Skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins. Þeir gerðu það hins vegar ekki sem fulltrúar Kennaraháskóla Íslands heldur sem einstaklingar.

Af ofangreindu er ljóst að nokkrir háskólakennaranna hófu rannsóknarstörf skömmu eftir flutning þó að almennt hafi rannsóknariðkun ekki verið sérlega mikil. Hafa ber í huga að mun meiri stjórnunarstörf lentu á lektorum en upphaflega var ráðgert sökum þess hve fáir prófessorar og engir dósentar voru ráðnir.

Fyrirsjáanlegar aðgerðir sem stuðluðu að rannsóknum

Nokkuð var að gert til þess að örva rannsóknarvirkni háskólakennara. Í fyrsta lagi var gerð tilraun til að kom á rannsóknarsamfélagi innan Kennaraháskóla Íslands. Í öðru lagi fól frumvarp til laga um endurskoðun á lögunum frá 1971 í sér tilraun til að efla Kennaraháskólann sem rannsóknarstofnun. Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir þessum aðgerðum.

Áætlun um samvinnu prófessora og lektora

Haustið 1974 hófst skipuleg samvinna prófessora og allra lektora við skólann. Fundir voru haldnir tvisvar í mánuði. Markmið þessarar samvinnu var í fyrsta lagi kynning á grundvallaratriðum rannsóknarstarfa á sviði uppeldis og kennslumála. Í öðru lagi átti að efna til umræðna um aðkallandi rannsóknarverkefni bæði hvað snerti einstakar greinar og sameiginlega þætti náms og kennslu á skyldunámstigi. Í þriðja lagi átti að hefja umræðu um mögulega samvinnu fastra kennara við skipulagningu einstakra verkefna eða verkefnaflokka og rannsókna á þeim grundvelli (KHÍ, skýrslur til ráðuneytis,1963–1975 III).

Fyrsta markmiðið bendir til að tiltölulega fáir kennarar hafi verið með reynslu í menntunarfræðum og vísindalegum aðferðum á því sviði. Í viðtölum við tvo fyrstu prófessorana í uppeldissálfræði, þær Þuríði J. Kristjánsdóttur og Sigríði Valgeirsdóttur, kom fram að þær hefðu stýrt þessum fundum. Þær kynntu rannsóknaraðferðir svo sem tölfræði og rannsóknarsnið og fjölluðu um framkvæmd rannsókna, gagnasöfnun og gagnavinnslu. Kennarar Kennaraháskólans voru misjafnlega á vegi staddir hvað þetta snerti. Þuríður komst svo að orði: „Ekki má gleyma því að rannsóknaraðferðir greina eru ólíkar; rannsóknaraðferðir í sögu eru til dæmis mjög ólíkar þeim aðferðum sem við Sigríður kynntum. Sagnfræðingarnir, félagsfræðingarnir og íslenskufræðingarnir kunnu vel rannsóknaraðferðir sinna greina. Samstarfið náði ekki lengra en til þessarar kynningar okkar Sigríðar.“ (munnleg heimild, 26.september 2000). Í viðtalinu kemur fram að ekki var unnið að markmiðum tvö og þrjú. Hér er því haldið fram að þessi tilraun til skipulegrar samvinnu prófessora og lektora hafi orðið til af fyrirsjáanlegri þörf á að kynna öllum kennurum undirstöðuatriði rannsókna í uppeldis- og kennslufræði. Það sama á við um áætlaða umræðu um aðkallandi rannsóknarviðfangsefni og skipulagningu einstakra verkefna og verkefnaflokka svo og rannsókna á þeim grundvelli. Þetta var meðvituð tilraun til þess koma á rannsóknarsamfélagi og þjappa kennarahópnum saman.

Lögboðin endurskoðun á lögum Kennaraháskóla Íslands frá 1971

Eins og fram hefur komið voru lögin um Kennaraháskóla Íslands samþykkt með þeim skilyrðum að þau yrðu endurskoðuð að tveim árum liðnum. Í febrúar 1977 var frumvarp til laga um Kennaraháskóla Íslands kynnt á Alþingi. Eitt meginmarkmið frumvarpsins var að styrkja stöðu Kennaraháskólans sem vísindastofnunar; samkvæmt frumvarpinu átti hann að verða miðstöð vísindalegra rannsókna í uppeldis- og kennslufræði í landinu. Í frumvarpinu var einnig kveðið á um að Kennaraháskólinn skyldi annast uppeldis- og kennslufræðilega menntun allra kennara á grunnskólastigi og í öllum skólum á framhaldsskólastigi. Til þess að ná þessum markmiðum var álitið nauðsynlegt að flytja alla kennaramenntun og rannsóknarviðfangsefni inn í Kennaraháskóla Íslands. Einnig var kveðið á um heimild skólans til þess að sjá um fullnaðarmenntun í þeim greinum sem kenndar voru í sérskólum (Alþingistíðindi 1976–1977 A, bls. 2474).

Þessi ákvæði fólu í sér flutning tveggja námsbrauta sem voru starfræktar innan Háskóla Íslands yfir í Kennaraháskólann; annarsvegar eins árs námsbraut fyrir verðandi framhaldsskólakennara og hins vegar nýja námsbraut sem lauk með B.A. prófi í uppeldisfræði og tengdist hún ekki kennaramenntun. Uppeldis- og kennslufræðigreinar skyldu einnig fluttar úr sérgreinaskólum yfir í Kennaraháskóla Íslands.

Í 21. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild Kennaraháskólans til að koma á fót framhaldsnámi í uppeldisgreinum til æðri prófgráðu en B.A. gráðu og skyldi það gert „samkvæmt ákvörðun skólaráðs og að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins” (Alþingistíðindi 1976–1977 A, bls. 2478). Kveðið var á um stofnun rannsóknarstofnunar sem skyldi eingöngu rekin af Kennaraháskólanum. Þetta ákvæði kom til sökum þess að Rannsóknarstofnun uppeldismála hafði ekki verið stofnuð eins og kveðið var á um í lögunum frá 1971. Rekstur slíkar stofnunar innan Kennaraháskóla Íslands var einnig í samræmi við hlutverk hans sem miðstöðvar kennslu og rannsókna í uppeldis- og kennslufræði (Alþingistíðindi 1976–1977 A, bls. 2478).

Einnig var kveðið á um aukið hlutverk Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskóla Íslands sem skyldi rekinn sem þróunarstofnun á grunnskólastigi og átti að fylgjast með breytingum í skólastarfi, vinna að nýbreytnistarfi og prófa það skipulega. Skólinn átti einnig að vinna að þróunarverkefnum í samráði við skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins (Alþingistíðindi 1976–1977 A, bls. 2481).

Þetta voru stórhuga og róttækar breytingartillögur. Þegar Árni Gunnarsson skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu var spurður um tilurð þessara ákvæða hafði hann þetta að segja:

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun okkar tengdist þeirri staðreynd að Kennaraháskólinn varð háskóli með mjög stuttum fyrirvara. Hann hafði ekki breyst í þá stofnun sem honum var ætlað að verða. Við höfðum áhyggjur af því að stofnunin væri of veik til þess að flytjast inn í Háskóla Íslands án þess að eiga á hættu að hverfa innan mun stærri stofnunar sem byggði auk þess á annarskonar hefðum ... Ég viðurkenni að mér fannst þetta mikið ágreiningsmál og hin lausnin var freistandi. En við féllumst allir á þessa lausn á þessum tímapunkti ... Það vakti einnig fyrir okkur að þetta yrði alvöru tilraun til þess að reyna að styrkja stofnunina, ekki bara orð á pappír. Sökum þessa lögðum við til flutning námsbrauta til þess að styrkja Kennaraháskólann sem háskóla og einnig til þess að gefa honum tækifæri til þess að mennta nemendur og veita æðri háskólagráður ... Auðvitað höfðum við einnig áhyggjur af því að aðskilja faggreinar og uppeldisfræði á þennan hátt en á þessum tíma var í raun ekkert samband á milli þessara greina. Það breyttist síðar (munnleg heimild, 22. september 2000).

Hér birtist skilningur laganefndarinnar á erfiðleikum fyrstu áranna eftir flutning og tilraun til þess að styrkja stöðu stofnunarinnar. Tilraunin er vissulega róttæk en hafa ber í huga að megin ágreiningurinn varðandi samþykkt laganna 1971 um Kennaraháskóla Íslands snerist um það hvort það þyrfti nýjan háskóla. Hvers vegna var öll kennaramenntun ekki flutt í Háskóla Íslands? Með þetta í huga kemur lausn nefndarinnar ekki á óvart og er meðvituð og beinskeytt tilraun til þess að efla rannsóknir innan Kennaraháskóla Íslands. Frumvarpið endurspeglar því ákveðinn vilja stjórnvalda til þess að styrkja veika stöðu Kennaraháskóla Íslands, en afdrif frumvarpsins verða til þess að hindra eflingu rannsókna og verður fjallað um það síðar.

Þrátt fyrir nokkra viðleitni til að efla rannsóknarvirkni kennara voru þó mun fleiri þættir, bæði fyrirsjáanlegir og ófyrirsjáanlegir, sem drógu úr rannsóknarvirkni þeirra. Þetta voru bæði séríslenskar aðstæður á þessum tíma, svo sem skortur á rannsóknarhefð í uppeldis- og félagsgreinum og staða íslensks menntakerfis en einnig aðgerðir stofnana og stjórnvalda sem vissulega tengdust þessum aðstæðum að einhverju leyti. Hér á eftir er fjallað um þessa þætti.

Fyrirsjáanlegar aðstæður og aðgerðir sem höfðu letjandi áhrif
á rannsóknarvirkni kennara

Skortur á rannsóknarhefð í uppeldis- og félagsgreinum á Íslandi 1971

Þegar hefur verið greint frá því að nær engin hefð var fyrir rannsóknum í uppeldis- og félagsgreinum á þessum tíma. Þessar greinar voru í burðarliðnum, bæði í Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Þessi skortur á rannsóknarhefð hafði áreiðanlega letjandi áhrif á rannsóknir í þessum greinum. Það þurfti að byggja upp háskólakennslu í þeim frá grunni og það tók sinn tíma. Þessi skortur á hefð var hins vegar kunnur og ekki erfitt að sjá fyrir að þessar aðstæður torvelduðu rannsóknir á þessu sviði.

Lítill fjárhagslegur hvati til að stunda rannsóknir

Þessum skorti á rannsóknarhefð fylgdi lítil umbun fyrir rannsóknarvirkni háskólakennara. Yfirvinna var greidd ef kennari vann umfram ákvarðaða kennsluskyldu en það sama átti ekki við um rannsóknir enda var enginn kvarði fyrir hendi til að meta rannsóknarvirkni. Á þessu var þó ein undantekning; samkvæmt 2. grein samnings milli fjármálaráðherra og háskólakennara frá 1974 var heimilt með samþykki menntamálaráðuneytis að greiða háskólakennara eða sérfræðingi allt að tveim mánaðarlaunum sem aukaþóknun fyrir óvenju umfangsmikil vísindastörf (KHÍ, EB 211/3, samningur milli fjármálaráðherra og háskólakennara, 1974). Í Kennaraháskóla Íslands var slík aukaþóknun ekki samþykkt á því tímabili sem þessi rannsókn nær til en hún var fyrst samþykkt árið 1979 fyrir ritið Saga sveitastjórna á Íslandi.

Lagalega heimild um framgang lektors í dósentsstöðu er ekki að finna fyrr en árið 1981 (Lög um breytingu á lögum um Kennaraháskóla Íslands, 1981). Í frumvarpinu frá 1977 var ákvæði um slíka heimild en lögin náðu ekki fram að ganga (Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls. 1579). Fyrsti dósentinn var í félagsfræði og skipaður 1983.

Þrátt fyrir að bein umbun fyrir rannsóknarstörf væri lítil, áttu nokkrir lektorar möguleika á aukastarfi í tengslum við kennslugrein sína en skólarannsóknadeild falaðist eftir sumum lektorum Kennaraháskólans í afmörkuð verkefni. Ekki fundust áreiðanleg gögn um fyrirkomulag þessara samninga í skjalasafni Kennaraháskólans en svo virðist sem samið hafi verið um þessa vinnu beint við viðkomandi lektora. Undantekning frá þessu er þó beiðni ráðuneytisins um að störf lektors í íslensku fyrir ráðuneytið verði metin sem rannsóknarvinna hans við skólann (KHÍ, EA 196/2, menntamálaráðuneyti 19. september 1973). Ég fann ekki önnur merki þess að vinna við Skólarannsóknadeild hafi verið metin sem rannsóknir. Í ljósi þessa álykta ég að fjárhagslegur hvati til að iðka rannsóknir hafi almennt verið lítill, enda reglur um mat á rannsóknarstarfi í gerjun eins og áður er greint frá.

Langvarandi menntaskólahlutverk Kennaraháskóla Íslands

Auk rannsóknarstarfa og annarra starfa sem nokkrir háskólakennarar gegndu á tímabilinu þurftu þeir einnig að sinna mjög umfangsmikilli kennslu á mennta- og sérskólastigi.

Brautir á háskólastigi voru aðeins tvær, í fyrsta lagi þriggja ára kennaranám en einnig má telja eins árs framhaldsdeild sem námsbraut á háskólastigi. Aðeins níu nemendur sóttu um inngöngu í kennaranám á háskólastigi fyrsta árið og ekki nema 30 árið eftir. Nemendum í kennaranámi á háskólastigi fjölgaði ekki verulega fyrr en eftir 1973 (Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls. 1613). Fjallað verður um þá fjölgun síðar.

Fyrstu tvö til þrjú árin var hins vegar gífurlegur fjöldi nemenda að ljúka námi á námsbrautum sem tengdust mennta- og sérskólastigi. Árið 1971 voru til dæmis yfir 500 nemendur á þriðja og fjórða námsári í almennu kennaranámi samkvæmt gamla skipulaginu (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1203). Auk almenna kennaranámsins voru fjórar aðrar brautir á mennta- og sérskólastigi fyrstu árin. [8] Til viðbótar við þessar brautir var enn aukið á menntaskólahlutverk Kennaraháskólans haustið 1973 en þá var komið á fót svokölluðu aðfaranámi fyrir gagnfræðinga. Þetta var 2–4 ára námsbraut. Hún átti rætur sínar að rekja til bráðabirgðaákvæðis laganna frá 1971 um heimild skólans til að „annast starfrækslu framhaldsdeilda á gagnfræðastigi og búa nemendur úr framhaldsdeildum undir próf jafngilt stúdentsprófi“ (Lög um Kennaraháskóla Íslands, 1971). Þetta ákvæði tengdist því að tveggja ára nám að loknu námi úr tveggja ára framhaldsdeildum gagnfræðadeildanna var óráðstafað í kerfinu. Rétt þótti því að miða skipulag þessa undirbúningsnáms við væntanlegt kennaranám (Alþingistíðindi 1970 A, bls. 1197). Nemendur gátu komið inn í þetta fjögurra ára aðfaranám allt eftir því hve mikinn undirbúning þeir höfðu að loknu gagnfræðaprófi eða úr menntaskóla. Síðustu nemendur brautskráðust sem stúdentar vorið 1977 og þar með lauk menntaskólahlutverki Kennaraháskólans. Þuríður J. Kristjánsdóttir lýsir þessu ástandi og afleiðingum þess vel í viðtali:

Þetta var algert kaos. Yfir 500 nemendum í almennu kennaranámi var kennt í þessu húsi og kirkjunni sem notuð var til kennslu. Það var kennt í öllum hornum. Þrátt fyrir það hafði nemendafjöldi verið mun meiri á árunum á undan. Ég veit ekki hvernig fólk fór að. Ég vissi að einhverstaðar úti í horni voru 9 nemendur sem voru kallaðir Kennaraháskóli Íslands. Auðvitað tók þetta enda en þó var stofnað aðfaranám fyrir gagnfræðinga. Það tók mörg ár að byggja upp Kennaraháskóla Íslands, semja námskrá og ákveða hverskonar stofnun þetta átti að vera ... Það er mjög erfitt að skipta úr einu kerfi í annað, eiga skyndilega að kenna á háskólastigi, þurfa að breyta kennslukerfinu og kennsluaðferðum svo og námsefni ... Að auki átti að stunda rannsóknir. Þetta er ekki hægt, þetta eru alltof miklar kröfur (munnleg heimild, 26 september 2000).

Þetta voru vissulega miklar kröfur og í viðtali við Auði Torfadóttur dósent kom fram að rannsóknir hafi ekki verið efstar á forgangslistanum þessi árin. Þær hafi ekki verið mikið ræddar og að ekki hafi verið gengið eftir því að kennarar skiluðu rannsóknarskýrslum. Hún benti einnig á að ekki hafi verið vettvangur til birtingar og að greinar hafi ekki setið við sama borð hvað það snerti. „Auk þess fannst mér einhvern veginn ekki vera mikil hvatning í sambandi við rannsóknir, þær skiptu auðvitað einhverju máli en það var eins og að þær væru ekki neitt aðalatriði“ (munnleg heimild, 18. maí 2005).

Fjöldi námsbrauta á mennta- og sérskólastigi var svo sannarlega fyrirsjáanlegur svo og sá fjöldi nemenda sem átti eftir að ljúka námi af þessum brautum.

Andstaða gegn frumvarpi um endurskoðun laga
um Kennaraháskóla Íslands frá 1977

Þær vonir sem voru bundnar við að styrkja stöðu Kennaraháskóla Íslands sem rannsóknarstofnunar samkvæmt frumvarpinu frá 1977 urðu smám saman að engu. Alþingi sendi fjölmörgum aðilum frumvarpið til umsagnar. [9] Nokkur kennarafélög og Hússtjórnarkennaraskóli Íslands lýstu yfir stuðningi við nýmæli frumvarpsins svo sem það að Kennaraháskóli Íslands yrði miðstöð rannsókna í uppeldis- og kennslufræði og studdu þar með flutning námsbrauta inn í Kennaraháskólann (Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls. 1615 –1624; 1641–42).

Ekki kemur á óvart að Háskóli Íslands mótmælti frumvarpinu harkalega og lagðist gegn flutningi námsbrauta yfir í Kennaraháskólann. Talið var að flutningurinn myndi ógna þróun kennsluhátta sem hafði átt sér stað áratuginn á undan í Háskóla Íslands og fólst í auknum sveigjanleika í kennslu sem byggði á samstarfi deilda og skora. Flutningurinn myndi einnig rjúfa samband faggreina og uppeldisfræða. Skipulagi nýstofnaðrar félagsvísindadeildar væri sömuleiðis stofnað í hættu en forsenda þess að hún var stofnuð var samvinna þvert á greinar, þ.e.a.s. félagsfræði, sálarfræði og uppeldisfræði. Ef uppeldisfræðin yrði flutt væru þessar forsendur rofnar. Lagt var til að flytja kennaramenntun úr Kennaraháskólanum yfir í Háskóla Íslands (Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls.1629–1641).

Í umsögn Wolfgangs Edelsteins um frumvarpið tekur hann að nokkru leyti undir rök Háskóla Íslands. Hann vísar til reynslu annarra landa og sér í lagi erfiðleika kennaramenntunarstofnana við að laða til sín fræðimenn í félags- og sálfræði. Stefnan hafi því orðið sú að flytja menntun í háskóla og rétt væri að gera það hér (Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls. 1649–1653). Nær engin umræða varð um frumvarpið á Alþingi. Menntamálaráðherra, Vilhjálmur Hjálmarsson, vitnaði einungis í frumvarpið í kynningarræðu sinni, nær ekkert kom frá honum sjálfum nema að frumvarpið hefði ekki átt að koma Háskóla Íslands á óvart, forráðamönnum hefði átt að vera kunnugt um að til breytinga af þessu tagi gæti komið (Alþingistíðindi 1977–1978 B, d. 2557). Frumvarpið var sent til menntamálanefndar Alþingis og dagaði uppi. Ný lög um Kennaraháskóla Íslands voru ekki samþykkt fyrr en 1988.

Andstaða Háskóla Íslands við frumvarpið er talin fyrirsjáanleg. Báðir háskólarnir voru að byggja upp kennslu og rannsóknir á skyldum fræðasviðum. Báðir færðu rök fyrir mikilvægi eigin uppbyggingar.

Ófyrirsjáanlegir þættir sem höfðu letjandi áhrif á rannsóknarvirkni kennara

Aðsókn í kennaranám á háskólastigi fyrstu árin

Aðsókn nemenda í kennaranám á tímabilinu sem um ræðir getur ekki hafa verið fyrirsjáanleg. Þetta á bæði við um litla aðsókn í byrjun og aukna aðsókn á síðustu árum tímabilsins. Þuríður J. Kristjánsdóttir taldi að líklegasta ástæðan fyrir lítilli aðsókn hafi verið sú að um svipað leyti var hafin kennsla í sálfræði og almennum þjóðfélagsvísindum innan Háskóla Íslands. Þetta eru þó einungis getgátur. Aðsókn í kennaranám á háskólastigi jókst hins vegar jafnt og þétt og samkvæmt Töflu 1 voru átján sinnum fleiri nemendur skráðir á fyrsta námsár í kennaranámi til B.Ed. gráðu haustið 1977 en haustið 1971. Þessi mikla aukning var heldur ekki fyrirsjáanleg þar sem aðsókn 1974 var meiri en ráð hafði verið gert fyrir (KHÍ, EA 196/2, Broddi Jóhannesson 22. ágúst 1974). Aðsóknin 1977 hafði meira en tvöfaldast frá 1974.

Tafla 1 –  Fjöldi nemenda í kennaranámi til B. Ed. gráðu
á tímabilinu 1971–1978
  1971–72 1972–73 1973–74 1974–75 1975–76 1976–77 1977–78
1. námsár 9 30 27 66 98 105 164
2. námsár   9 27 22 57 86 87
3. námsár     8 28 20 56 85
Samtals 9 39 62 116 175 247 336

(Tafla 1, Alþingistíðindi 1977–1978 A, bls. 1611).

Hér eru leiddar líkur að því að fjölgun háskólakennara hafi ekki haldist í hendur við þessa aðsókn. Árið 1972 voru einungis ráðnir sex lektorar. Árið 1977 höfðu einungis þrír prófessorar verið ráðnir en enginn dósent og stöðugildi lektora voru 21 eða samtals 24 stöðugildi háskólakennara. Samkvæmt lögunum frá 1971 voru meira en 16 stöðugildi háskólakennara áætluð nauðsynleg í byrjun, þ.e.a.s. sjö prófessorar og níu dósentar auk ráðningar lektora en fjölda þeirra var ekki getið. Tekið skal fram að hér er einungis um ályktun mína að ræða þar sem ég fann engin gögn um að gerð hafi verið heildaráætlun um nauðsynlegan fjölda háskólakennara miðað við væntanlegan nemendafjölda.

Tregða menntamálaráðuneytisins til að ráða háskólakennara

Þegar hefur verið fjallað um tregðu ráðuneytisins til þess veita heimild til þess að ráða þá háskólakennara sem gert var ráð fyrir í lögunum frá 1971. Þuríður J. Kristjánsdóttir taldi víst að viðvarandi menntaskólahlutverk Kennaraháskólans og það hve fáir nemendur sóttu um kennaranám á háskólastigi í byrjun hafi haft áhrif á vilja yfirvalda til að ráða háskólakennara. Miðað við þessar aðstæður var varla þörf á þeim (munnleg heimild, 26. september 2000). Árni Gunnarsson hafði þetta um málið að segja:

Tímabilið eftir flutning var erfiður tími fyrir Kennaraháskóla Íslands. Það varð erfitt fyrir Kennaraháskólann að fylgja og uppfylla lagalegar kröfur um háskólakennara og á sama tíma finna eðlilega leið fyrir þá kennara sem höfðu starfað við Kennaraskólann vel og lengi. Ég hygg að þetta hafi verið megin ástæðan fyrir því hvað það tók langan tíma að koma upp eðlilegri samsetningu kennaraliðsins. Menn fóru sér hægt því það var ekki talið æskilegt að breyta starfsheitum í einu vetfangi án þess að styðjast við einhverskonar dóm. Langflest af þessum málum leystust þó farsællega (munnleg heimild, 22. september 2000).

Leiða má líkur að því að lítil aðsókn og forgangsréttur kennara í auglýstar stöður hafi fyrstu tvö til þrjú árin verkað saman og ráðið allmiklu um ákvarðanir menntamálaráðuneytisins varðandi kennararáðingar. Þessi tregða getur hins vegar ekki talist fyrirsjáanleg og verður óskiljanleg þegar litið er til stóraukinnar aðsóknar nemenda í kennaranám til B.Ed. gráðu.

Áhugaleysi Alþingis 1977–1978

Viðbrögð Alþingis við frumvarpinu voru ekki fyrirsjáanleg. Gögnin endurspegluðu áhugaleysi alþingismanna um málið. Nær engin umræða fór fram um nauðsyn þess að samþykkja frumvarpið. Þetta áhugaleysi var ef til vill til komið sökum þess að búið var að leysa vanda Kennaraskólans frá 1971 og vandi framhaldsskólastigins hafði einnig verið leystur bæði með tilkomu framhaldsdeilda gagnfræðaskóla og tilkomu fjölbrautaskólanna.

Samantekt og umræða

Markviss greining á menntapólitískum aðstæðum, stöðu og vanda íslensks menntakerfis svo og hefðum og sögu þeirra stofnana sem koma við sögu, þ.e.a.s. Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sýna að framkvæmd ákvæða um rannsóknir var mjög flókin. Ákveðinnar viðleitni gætti til þess að stuðla að rannsóknum en mun fleiri þættir hindruðu rannsóknarvirkni kennaranna.

Menntamálaráðuneytið var sá aðili sem kom mest að framkvæmd lagákvæðanna um rannsóknir auk Kennaraháskóla Íslands. Afstaða Alþingis til Kennaraháskólans hafði einnig áhrif á rannsóknarvirkni innan skólans.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða annars vegar í ljós bjartsýni á forystu Kennaraháskólans í rannsóknum í uppeldis- og sálarfræði auk kennslufræði sem birtist bæði í lögunum frá 1971 og reglugerð frá 1974. Hins vegar kemur í ljós mikið misræmi á milli þeirrar sýnar um rannsóknarhlutverk Kennaraháskóla Íslands sem birtist í ákvæðum laganna frá 1971 og framkvæmd þeirra.

Greiningin leiðir í ljós að misræmið tengist ýmsum séríslenskum aðstæðum svo sem almennri stöðu menntamála og menntakerfisins. Sérstaklega ber að nefna skort á rannsóknarhefð í uppeldis- og félagsgreinum sem fól m.a. í sér að nær engin viðmið eða reglur um mat á rannsóknarvirkni voru til á tímabilinu. Fjárhagslegur hvati til að stunda rannsóknir var því fjarska lítill. Misræmið tengist auk þess ágreiningi menntamálayfirvalda um stöðu Kennaraháskólans en einnig sögu og hefð stofnana og almennum vinnuaðstæðum kennara skólans. Þetta er í samræmi við hugmyndir Nieto (1998), en hún lítur á menntabreytingar sem pólitískt ferli og leggur ríka á áherslu á að setja menntabreytingar í félagspólitískt samhengi og gera jafnframt grein fyrir valdi og pólitískum ágreiningi hverju sinni.

Fyrst ber að nefna ágreining alþingismanna um nauðsyn þess að starfrækja tvo háskóla í jafn fámennu landi og Íslandi en fámennið er dæmi um séríslenskar aðstæður. Þessi ágreiningur brá tvívegis fæti fyrir þróun Kennaraháskóla Íslands. Í fyrra skiptið leiddi ágreiningurinn til bráðabirgðaákvæðis um endurskoðun laganna frá 1971 innan tveggja ára frá gildistöku þeirra. Það ákvæði var fáheyrt og ljóst að á tveimur árum getur engin reynsla verið komin á starfrækslu stofnunar eftir svo víðtækar breytingar sem þarna var um að ræða. Í síðara skiptið leiddi ágreiningurinn hins vegar til þess að alltof langur tími leið þar til tekið var á mikilvægum málum Kennaraháskóla Íslands, þar sem tvær stofnanir voru að byggja upp háskólakennslu í skyldum greinum.

Niðurstöður endurspegla einnig nokkuð langvinnan tvískinnung menntamálaráðuneytis varðandi háskólahlutverk Kennaraháskóla Íslands. Hann birtist í væntingum og kröfum ráðuneytisins til skólans þegar í byrjun sjöunda áratugarins þegar Kennaraskólanum er gert að starfa að hluta til sem menntaskóli. Þessi tvískinnungur heldur áfram og endurspeglast í tregðu ráðuneytisins til þess að ráða háskólakennara í samræmi við ákvæði laganna frá 1971. Róttæk ákvæði frumvarps til laga um Kennaraháskóla Ísland frá 1977 bera þó vott um stuðning ráðuneytisins við stofnun sem þótti of veik til þess að fara inn í Háskóla Íslands. Raunsæi þessa stuðnings er hér dregið í efa. Hvernig var hægt að ætlast til að Alþingi samþykkti frumvarp sem fól í sér flutning uppeldisgreina úr Háskóla Íslands í Kennaraháskólann þegar ráðuneytið hafði sýnt það í verki að það leit í raun á Kennaraháskólann sem stofnun á mennta- og sérskólastigi, samanber tregðu til þess að ráða háskólakennara?

Saga og hefðir Kennaraskóla Íslands voru því afar langlífar og erfitt var að vinna að viðfangsefni sem háskólum einum voru ætluð, það er að segja rannsóknum. Séríslenskar aðstæður, fyrri hefðir Kennaraskóla Íslands og aðgerðir stjórnvalda voru því afar samtvinnaðar. Þessar niðurstöður eru í samræmi við hugmyndir Nieto (1998) og Fox (1990) um að menntabreytingar tengist félagslegu og pólitísku samhengi og uppbyggingu stofnana hverju sinni og að samspilið geti verið mjög flókið.
Hér er því haldið fram að háskólakennarar Kennaraháskóla Íslands hafi miðað við allar aðstæður staðið sig þokkalega á þessum erfiðu tímum. Prófessorar og nokkrir lektorar hófu rannsóknir en aðrir kennarar störfuðu sem kennarar á mennta- og sérskólastigi.

Í ljósi þess að nokkrir mikilvægir áhrifaþættir voru bæði letjandi og fyrirsjáanlegir vekja niðurstöður rannsóknar Fox (1990) um flutning fjögurra skóla á háskólastig nokkra furðu. Viðmælendur hans frá Kennaraháskóla Íslands greindu bæði frá sársauka og vonbrigðum sem tengdust þessu tímabili en einnig frá þeirri lítilsvirðingu sem þeim fannst Háskóli Íslands sýna þeim. Var ekki nokkuð fyrirsjáanlegt að breytingarferlið yrði erfitt? Er það ef til vill svo að talsmenn breytinga verða að einbeita sér að því að sannfæra aðra um réttmæti, kosti og nauðsyn fyrirhugaðra menntabreytinga? Felur það í sér að þeir leiða hjá sér og hvorki gaumgæfa né minnast á fyrirsjáanlegra erfiðleika í nánustu framtíð. Myndi slík ígrundun draga úr mætti nauðsynlegrar sannfæringar forystumanna breytinga og þar með stofna í hættu nauðsynlegu samþykki annara aðila um fyrirhugaðar breytingar? Sarason (1993) veltir fyrir sér svipuðum spurningum þegar hann reynir að útskýra almennt vanmat á hversu flóknar menntabreytingar eru og telur að þessar skýringar eigi við rök að styðjast.

Niðurstöður Fox (1990) benda einnig til að sannfæring talsmanna breytinga sé mikil áður en þær koma til framkvæmda. Það voru fyrst og fremst stjórnendur Kennaraskólans sem voru mjög virkir tímabilið fyrir flutning. Þeir töldu sömuleiðis þann tíma breytingarferlisins mjög spennandi, „Það var þá sem þeir tengdu ólíkar væntingar og vonir við mögulegan veruleika. Þetta var tími hugmynda og merkingarbærra ákvarðana. Tíminn eftir flutning var erfiðastur.“ [þýð. höf.] (bls. 22).

Ýmislegt bendir til þess að talsmenn menntabreytinga hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða stjórnendur breytinganna vanmeti í miklum mæli erfiðleika við framkvæmd og það vanmat leiði til vonbrigða, ruglings og vonleysis. Eitt af einkennum nútímans eru örar breytingar og ekkert bendir til þess að lát verði þar á. Í ljósi þess er nauðsynlegt að sem flestir átti sig á flóknu eðli breytinga, taki þátt í boðuðum breytingum, reyni að hafa áhrif og aðlagi sig að þeim að lokum. Þetta vekur upp spurninguna um hvaða leiðir eru mögulegar til að undirbúa og vinna að breytingum á þennan hátt.

Fullan (1993) fjallar um nokkur atriði sem hann telur mikilvægt að þátttakendur menntabreytinga glöggvi sig á. Í fyrsta lagi líkir hann breytingarferlinu við ferð út í óvissuna. Enginn veit hvað ferðin hefur í för með sér og á hvaða málum þarf að taka. Enginn einn veit öll svör, heldur ekki sá sem er í forsvari fyrir framkvæmdum. Hann bendir einnig á að þeir sem boða breytingar eða eiga að framkvæma þær fá yfirleitt nokkurn tíma til að velta þeim fyrir sér svo og aðstæðum. Það hafa hinsvegar kennarar sem taka þátt í breytingunum á síðari stigum ferlisins í mun minna mæli. Það er nauðsynlegt að gefa þeim kost á að ígrunda þær, koma með gagnrýnar athugasemdir, einungis þannig öðlast þeir skilning og hlutdeild í nauðsyn þeirra jafnframt því að átta sig á möguleikum og erfiðleikum í framkvæmd. Á þennan hátt er möguleiki að skapa einhverskonar liðsheild. Það er einnig mikilvægt að átta sig á að vandamálin eru óhjákvæmileg og þau þarf að gaumgæfa vel.

Tillögur Fullan fela fyrst og fremst í sér áherslu á sérstakt hugarfar allra þeirra sem koma að boðun og framkvæmd menntabreytinga. Ég tek undir með Fullan og tel að ef þeir sem standa að breytingum og taka þátt í þeim viðurkenna þetta eðli breytingaferlisins og vinni að því að temja sér þetta hugarfar þá sé það stórt skref í þá átt að vinna gegn þeim sáru vonbrigðum sem oft fylgja misræmi á milli sýnar og veruleika.

Aftanmálsgreinar

 1. Sérstakar þakkir til Helga Skúla Kjartanssonar, prófessors, fyrir hjálp við frágang þessarar greinarog til Þuríðar J. Kristjánsdóttur, frv. prófessors, fyrir hjálp við lestur skjala.
 2. Árið 1971 var íslenskt menntakerfi fjórskipt. 1) Barnafræðsla; 2) gagnfræðaskólastig; 3) mennta- og sérskólastig; 4) háskólastig (Lög um skólakerfi og fræðsluskyldu, 1946, 2 gr.).
 3. Fjallað er um þetta tímabil í doktorsritgerð Gyðu Jóhannsdóttur (2001, bls. 1–171). Sjá einnig Gyða Jóhannsdóttir (2004).
 4. Samkvæmt lögum um kennaramenntun frá 1947 átti Háskóli Íslands að sjá kennurum á öllum skólastigum fyrir framhaldsmenntun en því ákvæði hafði aldrei verið framfylgt að mestu leyti vegna þess að barnakennarar höfðu ekki lokið stúdentsprófi (Broddi Jóhannesson, 1984; Ólafur Proppé, Sigurjón Mýrdal, og Bjarni Daníelsson, 1993).
 5. Matthías var fyrsti prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands.
 6. Greinargerð um lykilpersónur og þær spurningar sem voru lagðar fyrir þær er að finna í viðauka III með doktorsritgerð Gyðu Jóhannsdóttur (2001). Í viðtölunum var reynt að kafa dýpra og fá svör við spurningum sem ekki var að finna í heimildunum. Þessar lykilpersónur voru valdar í samræmi við það hlutverk sem gengið var út frá að þær hefðu gegnt í flutningsferlinu. Sérhver viðmælandi var spurður um sérstök atriði sem tengdust flutningsferlinu.
 7. Samanburð á síðustu námskrá Kennaraskólans og fyrstu námskrá Kennaraháskóla Íslands er að finna í doktorsritgerð Gyðu Jóhannsdóttur (2001, bls. 193–203).
 8. Fjallað er nánar um allar þessar brautir og hvenær þær voru starfræktar í doktorsritgerð Gyðu Jóhannsdóttur (2001, bls. 180–186).
 9. Nánar er fjallað um allar umsagnir um frumvarpið í doktorsritgerð Gyðu Jóhannsdóttur (2001, bls.229–241).

 

Heimildir

Útgefnar heimildir


Alþingistíðindi 1962, A.

Alþingistíðindi 1970, A.

Alþingistíðindi 1970, B.

Alþingistíðindi 1976-1977, A.

Alþingistíðindi 1977-1978, A.

Alþingistíðindi1977-1978, B.

Bascia,N. og Hargreaves, A. (2000). Teaching and leading on the sharp edge of change. Í N, Bascia og A. Hargreaves (ritstj.), The sharp edge of educational change: Teaching, leading and the realities of reform. London og New York: Routledge Falmers.

Broddi Jóhannesson (1984). Endurskoðun löggjafar um Kennaraháskóla Íslands og
nýskipan kennaranáms 1963–1973. Í Börkur Vígþórsson o fl., (ritstj.), Afmælisrit: Kennaraskólinn/Kennaraháskólinn 75 ára 1908–1983 (bls. 16–22). Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Fox, T. G. (1990). Cocoon or butterfly? A study of schools that have transformed
themselves to university level education
[fjölrit]. Reykjavík: Háskóla- og alþjóðadeild
menntamálaráðuneytisins.

Fullan, M. (1993). Change forces. Probing the depths of educational reform. New York:
The Falmer Press.

Gunnar Finnbogason (1995). Från utbildningsplaner till kursplaner. Den isländska
grundskolereformen 1974. Acta Universitatis Uppsaliensis, Uppsala Studies in
Education 59.

Gyða Jóhannsdóttir (2004). Hugmyndir um flutning menntunar íslenskra barnakennara á
háskólastig 1971. Sértæk fræðileg þekking, virðingarstaða eða hvað? Uppeldi og
menntun: Tímarit Kennaraháskóla Íslands, 13(2), 123-146.

Háskólanefnd (1969). Efling Háskóla Íslands. Skýrsla Háskólanefndar [fjölrit].
Reykjavík: Háskóli Íslands.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (1993). Professionalization of progress and expertise among
teachers educators in Iceland. A Bourdieuan interpretation. Teacher and Teacher
Education, 9
(3), 269–281.

Inga Dóra Sigfúsdóttir (1997). Námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum. Áfangi að
stofnun nýrrar deildar. Íslensk félagsrit, 7–9, bls.7-40.

Kivinen, O. og Rinne, R. (1994). The thirst for learning or protecting one’s niche? The
shaping of teacher training in Finland during the 19th and 20th centuries. Bristish Journal
of Sociology of Education, 15
(4), 515–527.

Kivinen, O. og Rinne, R. (1996). Teacher training and higher education policies in
Finland since the World War II. Í H. Simola, og T. S. Popkewitz, (ritstj.),
Professionalization and education. Research Report (bls. 76–96). Helsinki: Department
of Education, Helsinki University.

Labaree, D. (1992). Power, knowledge and the rationalizing of teaching. A genealogy of
the movement to professionalize teaching. Harvard Educational Review, 62(2), 123–
154.

Labaree, D. (2004). The trouble with ed schools. New Haven og London: The University
Press.

Lög um skólakerfi og fræðsluskyldu, nr. 22/1946.

Lög um menntun kennara, nr. 16/1947.

Lög um Kennaraskóla Íslands, nr. 23/1963.

Lög um Kennaraháskóla Íslands, nr. 38/1971.

Lög um breytingu á lögum nr. 38/1971 um Kennaraháskóla Íslands, nr. 7/1981.

Matthías Jónasson (1956). Greindarþroski og greindarpróf. Rannsókn á greindarþroska íslenskra skólabarna ásamt greindarprófakerfi. Reykjavík: Menntamálaráðuneyti.

Nieto, S. (1998). Cultural difference and educational change in a sociopolitical context. Í
Hargreaves og fl. (ritstj.), International handbook of educational change, (bls. 418–439).
Dordrecht og Boston: Kluwer Academic Publishers.

Ólafur Proppé, Sigurjón Mýrdal og Bjarni Daníelsson (1993). Change and regulation in
Icelandic teacher education. Í T. S. Popkewitz (ritstj.), Changing patterns of power.
Social regulation and teacher education reform
(bls.123–159 ). New York: State
University of New York Press.

Reglugerð fyrir Kennaraháskóla Íslands námsárið 1971–1972, nr. 207/1971.

Reglugerð fyrir Kennaraháskóla Íslands, nr. 175/1974.

Sarason, B. S. (1993). The case for change. Rethinking the preparation of educators. San
Francisco: Jossey–Bass Publishers.

Senge, P. (1990). The fifth discipline. New York: Doubleday.

Sigríður Valgeirsdóttir (1987). Skólastjórnrár Brodda Jóhannessonar 1962–1975. Í
Þuríður Kristjánsdóttir (ritstj.), Gefið og þegið. Afmælisrit til heiðurs Brodda
Jóhannessyni sjötugum
(bls. 1–37). Reykjavík: Iðunn.

Sigurjón Mýrdal (1992). Hugmyndir um fagmennsku íslenskra kennara. Uppeldi og
menntun: Tímarit Kennaraháskóla Íslands, 1, 297–313.

Sigurjón Mýrdal (1996). Teacher professionalism and national culture: Reconstruction of
the Icelandic teacher. Í H. Simola & T.S. Popkewitz (ritstj.), Professionalization and
education
(bls. 183–198). Helsinki: Department of Teacher Education, Univeristy of
Helsinki.

Simola, H (1996). Didactics, pedagogic discourse and professionalism in finnish teacher
education. Í H. Simola og T.S. Popkewitz (ritstj.), Professionalization and education (bls. 91–118). Helsinki: Department of Teacher Education, University of Helsinki.

Wolfgang Edelstein (1988). Skóli, nám, samfélag. Ritröð Kennaraháskóla Íslands og Iðunnar. Reykjavík: Iðunn.

Óútgefnar heimildir


Broddi Jóhannesson (1968). Skólasetningarræða 1968. Handritasafn Brodda Jóhannessonar,
bókasafn Kennaraháskóla Íslands.

Gyða Jóhannsdóttir (2001). The conceptions on the upgrading of the education of
icelandic elementary school teachers to university level in 1971.
Drg. frá Danmarks
pedagogiske universitet í Kaupmannahöfn.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (1991). The formation of educational reform as a social
field in Iceland and the social strategies of educationists, 1966–1991.
Drg. frá University
of Wisconsin í Madison.

KHÍ = Kennaraháskóli Íslands, skjalasafn

KHÍ, skýrslur til ráðuneytis 1963-1975 II og III.

KHÍ, EA 196/2. 1970–1980. Ráðningar, umsóknir, stöðuveitingar, lausn frá störfum.

KHÍ, EA 213/2. 1969–1982. Ráðningar, manntal–kennaratal.
KHÍ, EA 259/1. 1973–1990. Rannsóknarstörf starfsmanna Kennaraháskóla Íslands og
Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskóla Íslands. Skýrslur og ýmis bréf.
KHÍ, EB 211/3. 1974–1994. Launamál, starfsmat, kjarasamningar, kjaradómur.
KHÍ, EB 216/1. 1973–1994. Stéttarfélög–kjarafélög. Kennarafélag Kennaraháskóla
Íslands (ýmis bréf og samkomur).