Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 12. október 2006

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir og Fríður Reynisdóttir

Áttavitinn

Að rata rétta leið í samskiptum í Borgaskóla

Höfundar segja frá aðferðum sem hafa verið þróaðar í Borgaskóla á undanförnum árum til að bregðast við vandamálum í samskiptum nemenda og gefa góða raun. Aðferðirnar byggja á könnunum á tengslum og líðan nemenda ásamt viðtölum og markvissum aðgerðum, svo sem hópeflisnámskeiðum og samningum. Markmiðið er að bæta samskipti í hópum. Höfundar eru starfandi deildarstjóri og námsráðgjafi við Borgaskóla í Grafarvogi.

Inngangur

Í eftirfarandi grein er fjallað um verkefni sem snýr að bættum samskiptum og hegðun. Kveikjan að því verkefni voru samskiptaerfiðleikar í einum árgangi á miðstigi í skólanum.

Borgaskóli er heildstæður grunnskóli með um 360 nemendur sem tók til starfa 1998. Starfsfólk skólans leggur áherslu á að miða störf sín við þroska og þarfir nemenda, búa nemendum örvandi námsumhverfi og beita fjölbreyttum kennsluaðferðum sem hæfa viðfangsefnum hverju sinni. Unnið er markvisst að því að nemendur geti í auknum mæli tekið ábyrgð á eigin námi, sýni sjálfstæði í vinnubrögðum og líði vel í skólanum. Aukinn félagsþroski, betri samskiptahæfni og ábyrgð gagnvart skólafélögum, starfsfólki og umhverfi eru eftirsóknarverðir þættir í fari nemenda að mati starfsfólks í Borgaskóla.

Verkefnið hófst á því að lögð var fyrir tengslakönnun og í framhaldi af henni könnun um líðan nemenda. Þá fóru fram einstaklings- og hópviðtöl. Að þeim loknum fór hópurinn á hópeflinámskeið. Þessu næst voru gerðir samningar við nemendur og þeim afhentar hegðunarbækur sem hér eftir eru kallaðar Áttavitinn. Ferlinu lauk síðan með útskrift. Til að meta árangur verkefnisins var í lokin lögð könnun fyrir alla þátttakendur.

Samskiptin

Í skólastarfi skiptir máli hvernig samband milli einstaklinga þróast. Grunnur þessa sambands á að byggjast á gagnkvæmum skilningi og virðingu milli kennara og nemenda, nemenda innbyrðis og milli kennara og fjölskyldna þeirra. (Árdís Ívarsdóttir o.fl. 2005, bls. 46)

Þegar samband nemenda innbyrðis byggir ekki á þeim grunni sem að framan greinir getur hitnað í kolunum. Árekstrar og metingur geta orðið tíðari, öll samskipti verða erfiðari og skilningur og umburðarlyndi gagnvart öðrum nemendum minnkar.

Þessu líkt var ástandið orðið í árganginum sem tók þátt í verkefninu Áttavitanum. Á sama tíma var einnig að myndast stór vinahópur átta til tíu nemenda úr báðum bekkjum árgangsins. Nemendur þessa vinahóps voru óöruggir um stöðu sína innan hópsins sem utan. Það birtist m.a. í því að mikið var um rifrildi í hópnum og tilteknir einstaklingar útilokaðir frá honum um tíma. Ástandið lagaðist svo um stund en þá lentu aðrir einstaklingar úti í kuldanum. Stundum stóð hópurinn allur saman gegn öðrum nemendum í árganginum og þá gat ástandið orðið erfitt í frímínútum. Samskipti þessa hóps, innan sem utan skóla, höfðu mikil áhrif í kennslustundum.

Kennarar voru búnir að leggja mikla vinnu í að reyna að laga samskiptin en það hafði ekki borið nægan árangur. Samræma þurfti starfið og ganga skrefi lengra. Þá voru námsráðgjafi og deildarstjóri kallaðir til. Unnið var í samstarfi við umsjónarkennara og þeir upplýstir um gang mála hverju sinni. Þeirra hlutverk var að veita upplýsingar um atriði sem þeim fannst þurfa að taka á ásamt því að fylgjast með hvort skilyrði samningsins væru haldin. Hlutverk deildarstjóra og námsráðgjafa var hins vegar skipulagning og umsjón verkefnisins auk þess að sjá um framkvæmd þess.

Mikilvægt er fyrir nemendur að læra að leysa úr eigin ágreiningsmálum. Þessari þekkingu er oft ábótavant hjá nemendum sem eiga í samskiptavandamálum. Jafnframt er mjög líklegt að þessir nemendur nái ekki þeim námsárangri sem þeir eru færir um vegna þess hve ágreiningurinn tekur mikla andlega orku. Þær tilfinningar sem tengjast því að missa völd, missa stjórn á sér eða reiði auðvelda ekki bóklegt nám (Smuck og Smuck 2001, bls. 272). Einnig er vert að hafa í huga að ágreiningurinn verður til þegar óásættanleg athöfn eða hegðun á sér stað, þegar ein athöfn hindrar, truflar eða skaðar á einhvern hátt aðra athöfn og gerir hana síður líklega til að ná árangri (Smuck og Smuck 2001, bls. 271).

Félagsleg og tilfinningaleg málefni eru oft kjarni þeirra hegðunarvandamála sem fyrirfinnast í skólum, fjölskyldum og samfélagi. Áhrifarík kennsla í félags- og tilfinningalegri færni er lykillinn að því að ungt fólk geti hafnað eiturlyfjum, taki ekki þátt í eða eigi frumkvæði að ofbeldi og vinnur gegn brottfalli úr skóla (Elias o.fl., 1997: bls. 5). Það er því mikilvægt að nemendur læri ákveðna félagsfærni og verði færir um að beita henni við þær aðstæður sem upp geta komið í samskiptum við aðra.

Í starfsáætlun fræðslumála í Reykjavík fyrir árið 2005 kemur fram að starfsfólki í skólum borgarinnar er ætlað að byggja markvisst upp sterka sjálfsmynd nemenda á öllum aldursstigum og fræða foreldra þar um. Þetta er gert með þjálfun í félagsfærni, þ.m.t. samskiptum, stjórnun tilfinninga, tjáningu og framkomu allt frá byrjun skólagöngu (Starfsáætlun fræðslumála í Reykjavík 2005, bls. 10).

Við leggjum mikla áherslu á að nemendur okkar komi sterkari út úr þeim erfiðleikum sem þeir kunna að lenda í og því er mikilvægt að fá þá til samvinnu og sjálfskoðunar.Við viljum t.d. að börnin hugsi um það hver þau eru og hvernig hegðun þeirra hefur áhrif á aðra, ekki síður en þau sjálf (Gossen 2002, bls. 20). Einnig er börnunum hjálpað að móta hugmyndir um hvernig þau geta komið fram hvert við annað og verið hugrökk, stórhuga, sterk, ábyrg, ánægð, örugg og aflögufær um að sýna öðrum umhyggju (Gossen 2002, bls. 48).

Frá upphafi verkefnisins hefur það verið haft að leiðarljósi að byggja nemendur upp, ekki brjóta þá niður. Það er gert með því að horfa á jákvæðar hliðar fremur en þær neikvæðu og hafa nemendur með í ráðum um framvindu mála.

Tengslakannanir

Tengslakannanir gefa kennurum mynd af félagslegum samskiptum innan bekkja og árganga. Þær geta gefið vísbendingar um tengsl nemenda innbyrðis, félagslega einangrun sem og sterka stöðu einstakra nemenda. Niðurstöðurnar hjálpa kennaranum að hafa yfirsýn yfir samskipti innan nemendahópsins (Smuck og Smuck 2001, bls. 138–139).

Í Borgaskóla eru kannanir um tengsl og líðan lagðar fyrir tvisvar á ári í 1.–7. bekk. Markmið þeirra er að fá mynd af tengslum nemenda innan bekkjar og árgangs sem og að afla upplýsinga um líðan þeirra. Fyrsti þáttur könnunarinnar er byggður á klípusögu. Þar les nemandinn stutta sögu, setur sig í spor sögupersónu og tekur afstöðu til ýmissa þátta. Síðan er spurt hjá hverjum nemandinn vilji sitja og við hvern hann vilji leika sér í frímínútunum. Einnig er spurt um líðan nemenda í skólanum. Meðfylgjandi eru sýnishorn af könnunum sem lagðar eru fyrir yngsta stig og miðstig. Að hausti er lögð fyrir könnun í unglingadeild þar sem nemendur meta sjálfa sig. Kannaðir eru þættir eins og félagsleg tengsl, sjálfsmynd nemenda og viðhorf til skólastarfsins.

Í könnun sem lögð var fyrir í október 2005 kom í ljós að samskipti í árganginum sem um ræðir voru ekki eins og best verður á kosið. Greinilegt var að vinahópurinn sem hafði myndast fyrr um haustið átti í vandræðum og valdabarátta innan hans. Í ljósi þessa lagði námsráðgjafi fyrir könnun um líðan nemenda, þar sem meðal annars var spurt um líðan, tilfinningar og skilning á eigin stöðu. Í könnuninni kom fram að of mörgum nemendum leið ekki nægilega vel og áttu erfitt með að fóta sig í hópnum.

Viðtöl og hópefli

Með niðurstöður könnunarinnar í huga ræddi námsráðgjafinn einslega við nemendur. Viðtölin leiddu í ljós að nokkrum nemendum fannst þeir vera utangarðs og voru óöruggir með sig og stöðu sína í bekknum. Sjálfsmyndin var slök og líðan ekki góð. Nokkrir nemendur höfðu áhyggjur af bekkjarsystkinum sínum og hegðun þeirra í skólanum. Vinahópurinn sem um ræðir barst oft í tal og greinilegt að hann hafði mikil áhrif í bekknum.

Eftir einstaklingsviðtölin tók námsráðgjafinn nemendur í hópviðtal þar sem rætt var um samskipti innan árgangsins og samskiptin í vinahópnum. Reynt var að brjóta upp ríkjandi samskiptamynstur með því að fá nemendur til að líta í eigin barm, hugsa til framtíðar og um það hvernig einstaklingar þeir vildu verða í framtíðinni. Fljótlega varð ljóst að þetta eitt og sér dugði ekki til og því var ákveðið að reyna að þjappa hópnum enn betur saman.

Samkvæmt Senge (2000, bls. 73) er bekkjardeild hópur af börnum sem þarfnast hvert annars til að ná sameiginlegu markmiði; að þróa hæfni og getu sína saman. Vinátta og samkennd (cohesiveness) er stór þáttur í því að ná þessu markmiði. Í bekkjardeildum er falinn heimur sem stundum birtir á sársaukafullan hátt aðdráttarafl og fjandskap milli jafningja og félaga og hefur áhrif á sjálfsmynd (self-concepts) og bóklegan árangur nemenda (Smuck og Smuck 2001, bls. 115).

Til að efla samkennd innan hópsins var ákveðið að setja í gang hópeflinámskeið en umsjónarmenn verkefnisins höfðu litla reynslu af umsjón slíkra námskeiða og því var tómstundaráðgjafi Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR) sem starfar við skólann beðinn um aðstoð, en hann á mörg námskeið að baki í stjórnun hópeflis. Námskeiðið var sex kennslustundir. Þar var farið í ýmsa leiki og þrautir sem reyna á samstarf og samvinnu nemenda. Þetta tókst vel og höfðu nemendur bæði gagn og gaman af. Hópefli hefur reynst góð aðferð til að kenna nemendum aðferðir til að ná sameiginlegum markmiðum.

Samningar

Að þessu undangengnu var kominn grundvöllur fyrir áframhaldandi einstaklingsvinnu. Koma þá til sögunnar samningar og hegðunarbókin Áttavitinn.

Í Borgaskóla hefur tíðkast frá upphafi að gera formlega samninga við nemendur sem af einhverjum ástæðum fylgja ekki almennum samskipta- og hegðunarreglum. Slíkir samningar byggja á þeirri hugmynd að félagsleg og tilfinningaleg hæfni sé geta til að skilja tilfinningar og stjórna þeim ásamt því að setja sig í spor annarra. Okkar reynsla er að þeir hvetji til árangurs í hinu daglega lífi hvað varðar nám, tengsl og að leysa vandamál (Elias o.fl. 1997, bls. 2). Á hverju ári hafa verið gerðir nokkrir slíkir samningar en nú var ákveðið að ganga lengra og bæta við markvissri eftirfylgni.

Þegar samningur er gerður mætir nemandi til námsráðgjafa og deildarstjóra á formlegan fund. Nemandinn er upplýstur um þýðingu þess að gera skriflegan samning. Honum er þessu næst boðið að gera slíkan samning og hann hefur áhrif á hvað í honum felst. Í samningnum eru þrjú til fjögur atriði sem snúa að því að breyta hegðun eða samskiptum. Þar má meðal annars nefna að gæta að orðbragði, eiga góð samskipti við bekkjarfélaga, láta frímínútur ganga vel og sýna öllu starfsfólki skólans kurteisi. Vel og vandlega er farið yfir með nemandanum hvað felst í hverju þeirra atriða sem fram koma í samningnum. Þessi atriði eru jafnframt á forsíðu Áttavitans. Gildistími fyrsta samnings er ein vika og þá er hann tekinn til endurskoðunar og nemandanum boðinn nýr samningur. Ef hann þiggur boðið er samningurinn endurnýjaður og nýr gildistími yfirleitt látinn vera tvær vikur. Eftir þrjár vikur eru samningsatriði enn tekin til endurskoðunar. Atriðum sem samningsaðilum finnst hafa gengið vel er skipt út í samráði við nemandann fyrir ný atriði. Samningur er undirritaður og vottaður af nemandanum, deildarstjóra og námsráðgjafa. Tekið er afrit af samningnum sem geymt er í skólanum en frumritið fer heim til nemandans. Samningurinn er síðan notaður til grundvallar Áttavitanum.

Áttavitinn

Nafnið á bókinni vísar til þess að hún beinir nemendum á rétta braut í samskiptum. Áhersla er lögð á að bókin sé eiguleg og líti vel út. Áttavitinn er í A6-broti, bókin er gormuð og með fallegri og vandaðri forsíðu. Á forsíðu eru skýringar á hugtökum úr samningum. Mikilvægt er að skýringarnar séu jákvæðar. Þurfi nemandi t.d. að bæta framkomu sína er á forsíðu eftirfarandi klausa: „Þú kemur fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig“ í stað þess að segja „þú átt ekki að gera þetta eða hitt.” Enn sem fyrr er markmiðið að byggja upp en ekki brjóta niður. Á eftir forsíðu kemur blaðsíða þar sem nemandi skráir nafn sitt, kennari og foreldri votta að þeir hafi séð bókina og gert er ráð fyrir undirskrift deildarstjóra og námsráðgjafa. Síðan koma blaðsíður fyrir hvern dag vikunnar og þar eru samningsatriðin ásamt reit fyrir kennara að stimpla í. Ef nemandi stendur við samningsatriðin yfir daginn fær hann stimpil í reitinn, en annars er hann auður.

Sýnishorn af forsíðu, síðu fyrir undirskriftir og síðum með dagsyfirlitum.

Á hverjum degi færir nemandinn námsráðgjafa eða deildarstjóra bókina og sýnir afrakstur dagsins. Mikið er lagt upp úr því að hrósa nemandanum fyrir vel unnin verk og ef eitthvað gengur ekki eins og til stóð hefur nemandinn tækifæri til að ræða það sem hann eða námsráðgjafi eða deildarstjóri telja nauðsynlegt.

Skynsamlegt er að veita það aðhald sem samningurinn og bókin skapa í u.þ.b. fimm vikur og síðan er tekið hlé. Hléið er nauðsynlegt svo nemandinn fái tækifæri til að sýna að hann geti staðið á eigin fótum. Alltaf er hægt að taka annað fimm vikna tímabil ef á þarf að halda. Þó að samningur og bók séu ekki í notkun er áframhaldandi aðhald veitt með því að fylgjast með nemandanum og hrósa honum og leiðbeina við hvert tækifæri.

Útskrift

Þegar nemendur halda bókinni sinni ásættanlegri í tvær vikur í röð er hugað að útskrift. Nemandi er spurður hvort hann treysti sér til að halda áfram án samnings og bókar. Telji nemandinn að svo sé er honum boðin útskrift sem felst í því að hann kemur á fund og fær afhent viðurkenningarskjal. Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til að meta sig sjálfir og hafi eitthvað um það að segja hvort þeir útskrifast eða ekki. Stundum vilja nemendur taka eitt tímabil í viðbót í stað þess að útskrifast strax og hefur okkur þótt sjálfsagt að verða við þeirri ósk.

Sýnishorn af viðurkenningarskjali.

Þótt nemandinn hafi val er ekki um valdaafsal að ræða heldur fær hann tækifæri til að bæta sig og hefur eignarhald yfir ákvörðunum sínum. Barn sem ræður litlu eða engu um líf sitt mun reyna allt sem það getur til að ná stjórninni (Fay og Funk 1995, bls. 143).

Samstarf

Nýr tilgangur, ný hegðun, ný færni og nýjar skoðanir byggja á að kennarar vinni saman og skiptist á hugmyndum, styðji hver annan og séu jákvæðir í garð starfs síns (Fullan 2001:84). Þetta verkefni varð til í samstarfi deildarstjóra og námsráðgjafa. Þeir stóðu frammi fyrir samskiptavandamálum í einum nemendahópi skólans eins og áður er lýst og þörf var fyrir úrræði. Þar sem námsráðgjafi og deildarstjóri (greinarhöfundar) eru vanir að vinna saman og hafa svipaðar skoðanir á skólastarfi var auðvelt að finna sameiginlegan skilning á því sem þurfti að gera. Á undanförnum árum höfum við meðal annars sótt námskeið í atferlisstjórnun, reiðistjórnun, uppbyggingarstefnunni og ýmis lífsleikninámskeið ásamt því að byggja á langri kennslureynslu. Hefur þessi reynsla vafalaust nýst við þróun þessa verkefnis.

Verkefnið stendur og fellur með samvinnu við umsjónarkennara. Umsjónarkennari gegnir stóru hlutverki því hann veitir upplýsingarnar sem halda Áttavitanum gangandi. Hann er einnig mikilvægur tengiliður við foreldra. Loks er nauðsynlegt að upplýsa starfsfólk skólans og aðra þá sem hlut eiga að máli um verkefnið.

Viðhorf nemanda

Nemendur voru jákvæðir gagnvart verkefninu. Á meðan á því stóð tjáðu þeir sig oftsinnis um að betur gengi og þökkuðu það verkefninu að vinahópurinn er enn við lýði og samskipti við bekkjarfélaga betri. Börnin sögðu líka að nú gætu þau sjálf leyst úr ágreiningi betur en áður.

Í lokin var lögð könnun fyrir þátttakendur í verkefninu. Í henni kom fram að þeir voru sammála um að gaman hefði verið í hópeflinu og gagnlegt að koma í viðtöl til námsráðgjafa. Rúmlega helmingi fannst gott að gera samninginn en öllum fannst hann hjálpa sér við að bæta samskiptin, bæði í vinahópnum og kennslustundum. Flestallir sýndu foreldrum sínum samningana en allir sýndu þeim bækurnar. Þátttakendum fannst samskiptin batna meðan á verkefninu stóð.

Samantekt

Eftir að hafa farið í gegnum ferlið er auðvelt að taka saman þau atriði sem mestu máli skipta. Við höfum frá upphafi borið virðingu fyrir vilja og skoðunum nemenda og haft þetta að leiðarljósi. Við leiðbeinum þeim en refsum þeim ekki. Nemendum er boðin þátttaka í verkefninu en þeir eru ekki skikkaðir til þess. Þar með er ábyrgðin þeirra. Ef þeir treysta sér í verkefnið og eru tilbúnir að taka þátt er árangurinn í þeirra höndum. Markmið okkar er að byggja nemendur upp á jákvæðan hátt. Við viljum hjálpa þeim að standa í fæturna á nýjan leik. Þegar verkefnið er kynnt fyrir nemendum í upphafi leggjum við líka mikla áherslu á að við vinnum öll að sama marki sem er að bæta líðan nemanda og samskipti þeirra innbyrðis.

Eins og áður sagði er samstarf við umsjónarkennara nemenda mjög mikilvægt. Þeir fylgjast með nemendum og stimpla í bækurnar þeirra og þeir búa að upplýsingunum sem þarf að hafa þegar metið er hvernig til hefur tekist. Við hefðum hins vegar átt að kynna verkefnið betur fyrir starfsmönnum skólans og þá sérstaklega fyrir skólaliðum og öðrum kennurum sem eru við frímínútna- og gangagæslu. Þeir sjá og heyra það sem gerist í frímínútum og á göngum skólans. Einnig hefðum við átt að kynna þetta enn betur fyrir foreldrum, jafnvel boða þá á fund áður en við hófumst handa. Hins vegar hafa margir foreldrar lýst yfir ánægju sinni með verkefnið og fannst gott að fá bækurnar heim á hverjum degi og ræða jafnóðum við barnið hvernig gengi.

Daglegir fundir nemenda og námsráðgjafa eða deildarstjóra reyndust mikilvægir. Á fundunum fengu nemendur tækifæri til að ræða sín mál, oftast í einrúmi og námsráðgjafi og deildarstjóri fengu sömuleiðis tækifæri til ræða við nemendur í góðu tómi og hrósa þeim. Þetta urðu gæðastundir.

Verkefnið sem slíkt hentar ekki aðeins þegar unnið er með hópi. Við höfum líka reynt það með einstökum nemendum og það gefur ekki síðri árangur. Reynslan sýnir að verkefnið hentar best á miðstigi. Við höfum prófað það með yngri börnum og þau reyndust ekki hafa þann þroska og skilning sem nauðsynlegur er til að verkefnið, í óbreyttri mynd, skili árangri.

Það er alltaf ánægjulegt þegar verkefni takast vel. Við mynduðum mikil og góð tengsl við þessa nemendur og eigum þar af leiðandi auðveldara með öll samskipti við þá en áður. Núorðið koma þeir til okkar með áhyggjur sínar áður en þær verða að vandamálum og þeir treysta okkur til að veita leiðbeiningar sem duga. Það eru því ekki einungis nemendur sem höfðu ávinning af verkefninu heldur við líka.

Tilvísanir

Árdís Ívarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir, Matthildur Guðmundsdóttir (2005). Fagleg kennsla í fyrirrúmi. Reykjavík: Höfundar.

Elias, M. J. (ritstjóri) (1997). Promoting social and emotional learning: Guidelines for educators. Alexandria: Association for Supervision and Curriculum Development.

Fay, J. og Funk, D. (1995). Teaching with love and logic: Taking control of the classroom. Golden: Love & Logic Press.

Fullan, M. (2001). The New meaning of educational change. Þriðja útgáfa. New York: Teachers College, Columbia University.

Gossen, D. (2002). Uppeldi til ábyrgðar. Magni Hjálmarsson íslenskaði. Reykjavík: Sunnuhvoll.

Senge, P., Cambron-McCabe, N., Lucas, T., Smith, B., Dutton, J. og Kleiner, A. (2000). Schools that learn: A fifth discipline fieldbook for educators, parents, and everyone who cares about education. New York: Doubleday.

Smuck, R. A og Smuck, P. A. (2001). Group processes in the classroom. Boston: McGraw Hill.

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur (2005). Starfsáætlun fræðslumála í Reykjavík 2005. Stefna Reykjavíkurborgar í fræðslumálum. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

 

Þakkir

Höfundar þakka Hafdísi Guðjónsdóttur lektor við Kennaraháskóla Íslands góðar ábendingar varðandi greinina. Greinin var lögð fram sem verkefni á námskeiði hjá Hafdísi í framhaldsdeild Kennaraháskólans vorið 2006.