Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 31.  maí 2006

Ástríður Stefánsdóttir

Sjálfræði, virðing og samskipti

Hugleiðingar um siðferðilegt innsæi

Í þessari grein leggur höfundur út af sögunni um miskunnsama Samverjann og notar hana til að varpa ljósi á þrjú grundvallarhugtök siðfræðinnar; sjálfræði, virðingu og samskipti. Höfundur tengir þessi hugtök mikilvægi þess að koma auga á mennsku einstaklingsins og viðurkenna tilvist hans. Siðferðileg sýn á mennskuna birtist í samskiptum og er grundvöllur virðingar okkar fyrir öðrum einstaklingum. Færð eru rök að því að hætt sé við blindu á mennsku þeirra einstaklinga sem tilheyra jaðarhópum samfélagsins. Þetta birtist í framkomu við þá og veldur því að þeim er ekki sýnd sú virðing sem þeim ber. Greinin er byggð á erindi sem höfundur flutti á norrænu ráðstefnunni Dövblindhed i det moderne samfund sem haldin var í Reykjavík 18.–22. ágúst 2004. Höfundur er dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Sjálfræði og virðing hafa löngum verið umfjöllunarefni siðfræðinga. Má þar fyrstan nefna þýska heimspekinginn og siðfræðinginn Immanuel Kant (1974), sem fjallar um hvoru tveggja í einu af grundvallarritum siðfræðinnar Grundlegung Zur Metaphysik der Sitten. Af tuttugustu aldar höfundum sem fjallað hafa um sjálfræðið má nefna Gerald Dworkin (1988) og greiningu á sjálfræði í bók hans The Theory and Practice of Autonomy og umfjöllun Diana T. Meyers (1989) um sjálfræðið í bókinni Self, Society, and Personal Choice. Heimspekingarnir Raimond Gaita (2002), Peter Winch (1987) og Simon Weil hafa öll fjallað um virðinguna og hvernig hún tengist samskiptum okkar við annað fólk. Hafa skrif þeirra einkum orðið kveikjan að þeirri umfjöllun sem hér birtist. Í grein þessari nýti ég mér þá skörpu sýn sem höfundarnir hafa á þessi grundvallargildi mannlífsins. Fyrir mér vakti sérstaklega að skoða út frá textum þessum stöðu þeirra einstaklinga sem eiga í erfiðleikum með tjáningu og samskipti við annað fólk. Ástæður má oft rekja til fötlunar, aldurs eða einfaldlega þess að viðkomandi getur ekki tjáð sig á því tungumáli sem talað er í umhverfinu. Tilgangur greinarinnar er að vekja athygli á samspili sjálfræðis og virðingar annars vegar og samskipta hins vegar í aðstæðum þeirra. Í tilvikum þar sem einstaklingur á erfitt með að tjá sig kemur það iðulega fyrir að aðrir í umhverfinu virða hann ekki viðlits. Það virðist eins og hann birtist öðrum ekki sem manneskja með tilfinningar og skoðanir heldur má segja að mennskan sé hulin. Grundvallarspurningin verður því: Hvers vegna virðumst við á stundum vera blind á mennsku annarra? Í greininni vísa ég til dæmisögunnar um miskunnsama Samverjann og nýti mér meðal annars umfjöllun Peter Winch (1987) um dæmisöguna í grein hans: „Who is my Neighbour?“ í bókinni Trying to Make Sense. Það sem gerir söguna einkar gagnlega í þessu samhengi er sú staðreynd að hún er samofin menningu okkar, hún er öllum kunn og því er auðvelt að vísa til hennar. Einnig birtist í sögunni kjarni þeirra siðferðisgilda sem eru meginviðfangsefni umfjöllunar minnar. Hið mikilvæga við söguna er einmitt að gildin eru ekki sýnd sem fræðileg kynning eða útlistun heldur birtast þau í samtali, athöfnum og verkum þeirra sem við sögu koma. Kannski er þar einmitt fólginn kjarni siðfræðinnar: hún lifir í verkum okkar, ekki í fræðilegum texta.

Dæmisagan

Mig langar að byrja á að rifja upp dæmisöguna um miskunnsama Samverjann. Hún hljómar svo:

Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Jesús sagði við hann: „Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa.“

En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: „Hver er þá náungi minn?“

Því svaraði Jesús svo: „Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona. Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá. Eins kom levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá. En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur. Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“

Jesús sagði þá við hann: „Far þú og gjör hið sama.“

Í Lúkas, 10: 25–37

Ástæða þess að ég rifja upp þessa dæmisögu er að mér virðist hún sameina skilning á öllum þeim þrem hugtökum sem ég ætla að fjalla um; sjálfræði, virðingu og samskipti. Textinn geymir þó engar þurrar og fræðilegar skilgreiningar á þessum hugtökum, heldur birtast þau í verki, bæði í samtali Jesú og lögvitringsins og einnig í verkum miskunnsama Samverjans. Ég mun í umfjöllun minni hér á eftir vísa ítrekað í dæmisöguna af miskunnsama Samverjanum og nota hana til að varpa ljósi á þessi hugtök og hvernig þau tengjast nauðsynlega hvert öðru. Í fyrsta hluta greinarinnar lýsi ég sjálfræðinu. Því næst skoða ég virðinguna og að lokum fjalla ég um það hvernig þessi tvö hugtök tengjast og birtast í mannlegum samskiptum.

1. Sjálfræði

Sjálfræði er grundvallarhugtak í siðferðilegri umfjöllun. Það merkir einfaldlega að ráða sér sjálfur. Í þeirri yfirlýsingu felst einnig sú sýn á einstaklinginn að hann sé gerandi og uppspretta athafna og gjörða. Þess vegna tengist sjálfræði hugmyndum okkar um að hafa persónuleika og þá einnig þeirri hugmynd að gera sér grein fyrir því hver maður er og geta fylgt þeirri hugmynd eftir í daglegum athöfnum. Diana T. Meyers talar um persónulegt sjálfræði og skilgreinir það sem: „Þann lífsmáta að geta lifað í sátt við sitt innra sjálf“ (Meyers, 1989, bls. 20). [1]

Hún gerir hér ráð fyrir innra sjálfi sem við að einhverju leyti erum höfundar að en er einnig, og kannski fremur mótað af ytri þáttum eins og öðrum einstaklingum og menningu okkar, svo dæmi séu nefnd (Meyers, 1989, bls. 20–21). Bandaríski heimspekingurinn og rithöfundurinn Ralph Waldo Emerson (1981), gerir einnig ráð fyrir að við séum að einhverju leyti höfundar eigin sjálfs. Hann ítrekar í verkum sínum ábyrgð okkar gagnvart okkar innri manni. Í ritgerð sinni „Self-Reliance“ brýnir hann fyrir lesandanum að treysta á sinn innri mann og hlusta á sína innri rödd. [2] En hann er einnig meðvitaður um þau áhrif sem sjálfið getur orðið fyrir. Hann orðar það þannig:

Ég skammast mín fyrir hve auðveldlega við gefumst upp fyrir titlum og nöfnum, stórum samfélögum og dauðum stofnunum. Sérhver einstaklingur sem er heiðarlegur og vel máli farinn hefur meiri áhrif á mig en rétt er (Emerson, 1981, bls. 142). [3]

Í stað þess að ásaka samfélagið eða þá sem hafa áhrif á okkur hvetur Emerson okkur til að treysta á okkur sjálf, vera þau sem við erum. Hann dregur athyglina að okkar eigin ábyrgð á að standa vörð um okkar innri mann. Við eigum að standa teinrétt og vera þau sem við erum á sama hátt og túnfífillinn. Hann segir:

Maðurinn er uppburðarlítill og afsakandi; hann stendur ekki lengur uppréttur; hann þorir ekki að segja ég hugsa, ég er, heldur vitnar í einhvern helgan mann og speking. Hann skammast sín frammi fyrir grasstráinu eða blómstrandi túnfíflinum. Túnfíflarnir undir glugganum mínum vitna ekki til túnfíflanna sem áður voru eða þeirra sem eru þeim fremri; þeir eru það sem þeir eru; þeir lifa með Guði daginn í dag (Emerson, 1981, bls. 151). [4]

Vert er að staldra við og skoða hvað Emerson á við. Hann dregur með þessu athygli okkar að mikilvægi þess að sérhver manneskja sé það sem hún er og trúi á sinn innri mann í stað þess að þiggja skoðanir og lífið sjálft frá öðrum. Slík afstaða til sjálf sín er einmitt undirstaða sjálfræðisins. Í dæmisögunni hér að ofan má einnig sjá þessa nálgun. Við sjáum hvernig sjálfræðið birtist í gjörðum Samverjans. Hann gerir það sem hjartað býður honum. Hann spyr ekki hvort hann eigi að hjálpa manninum, hann gerir ekki eins og presturinn og levítinn, hann fylgir eigin innsæi, hann gerir það sem honum finnst rétt að gera. Hann fylgir sinni innri rödd.

2. Um tengsl sjálfræðis og virðingar

En hvernig fléttast virðingin saman við hugmynd okkar um sjálfræði? Virðingin er forsenda sjálfræðis í þeim skilningi að til að sjálfræðið sé virt þarf einstaklingurinn að hafa rými til athafna. [5] Hann þarf að hafa svigrúm til að koma vilja sínum í framkvæmd. Virðing annarra fyrir gjörðum okkar skapar þetta rými, gefur einstaklingnum frelsi til athafna án afskipta annarra. Í dæmisögunni að ofan birtist virðingin sem „rými“ hjá Jesú þegar hann gefur lögvitringnum svigrúm til að svara sjálfur sínum eigin spurningum. Lögvitringurinn spyr:

„Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“

Í stað þess að svara manninum beint spyr Jesú á móti:

„Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?“

Hann svaraði:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Jesú lætur hér viðmælanda sinn svara spurningunni sjálfur. Hann dregur fram vitneskju sem býr innra með manninum. Aftur spyr lögvitringurinn:

„Hver er þá náungi minn?“

Og í lok dæmisögunnar varpar Jesú spurningunni til baka og segir:

„Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?“

Hann mælti:

„Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“

Og aftur er það lögvitringurinn sem kemur með svarið. Svarið kemur ekki frá Jesú sjálfum. Á þennan hátt virðir Jesú lögvitringinn og sýnir í verki mikilvægi þess að vitneskjan komi frá honum sjálfum. Hann tekur ekki af honum orðið svo hann hafi svigrúm til að hugsa og tjá sig. Sjálfræðið birtist því í nálgun þeirri sem Jesú hefur að lögvitringnum. Sú leið sem hér er farin er vel þekkt í kennslu. Sókrates notar einnig þessa aðferð í samtölum sínum við lærisveina sína og nefnir þar sjálfan sig ljósmóður. [6] Ljósmóðurlíkingin hjá Sókratesi undirstrikar að hlutur kennarans í þekkingunni er einungis að taka á móti því sem nú þegar býr í nemandanum. Kennarinn hjálpar nemendanum til að láta þekkinguna fæðast. Hann kennir á þann hátt að hann gefur viðmælandanum færi á að segja það sem býr í honum. Þar með verður þekkingin hluti af nemandanum í stað þess að vera komin frá kennaranum einvörðungu. Sókrates átti það einnig til á sama hátt og Emerson hér á undan að undirstrika fánýti þess að eltast við skoðanir annarra á því hvað er gott og hvað ekki. Hann lagði áherslu á að vitneskjan um það sem gott er verði að koma frá manni sjálfum. Hún verður að vera einlæg til að vera sönn.

Jesú, Sókrates og Emerson undirstrika allir þá afstöðu að við séum mikilvægustu höfundar okkar innra sjálfs og þar með eigin lífs. Andstæða þessa er að treysta ekki eigin innsæi, loka augunum fyrir því sem manni finnst og fylgja í blindni „pólitískri flokkslínu“ eða ala með sér ofurtrú á sérfræðingum. Ef Samverjinn hefði ekki treyst eigin innsæi má ætla að hann hefði hugsað eitthvað á þá leið: „Presturinn og levítinn gengu báðir framhjá, þeir eru mér fremri og vita hvað skal gera. Þess vegna geng ég líka framhjá.“ En hann gerði það ekki. Hvers vegna gerði hann það ekki? Við höfum þegar minnst á þátt sjálfræðisins í þeirri ákvörðun. En skoðum nánar virðinguna. Hvernig tengist hún þessari ákvörðun Samverjans um að hjálpa manninum?

Ég sagði áðan að virðingin væri forsenda sjálfræðis: Við komum fram við einstaklinginn af virðingu þegar við höldum að okkur höndum og veitum honum rými til hugsana og athafna. En virðingin hefur dýpri merkingu en þá sem hér er bent á. Hún á ekki bara að sýna að okkur beri að halda að okkur höndum á stundum og gefa öðrum rými til að nota frelsi sitt. Ef við leitum aftur til dæmisögunnar sjáum við að virðing sú sem miskunnsami Samverjinn sýndi manninum sem féll í hendur ræningjum fólst ekki í að gefa honum rými til athafna. Þvert á móti, hann lét hann ekki afskiptalausan. Samverjinn tók hann að sér og sýndi hinum særða manni umhyggju. Hann sýndi honum umhyggju vegna þess að hann sá eitthvað í honum sem levítinn og presturinn sáu ekki, þ.e. hið ómetanlega gildi sem fólgið er í sérhverri mannveru. Heimspekingurinn Winch orðar þetta svo í umfjöllun sinni um þessa dæmisögu:

Samverjinn sér það sem ómögulegt er að gera, það gera hinir ekki. Það er munurinn. (Winch, 1987, bls. 157). [7]

Samverjanum er ómögulegt að ganga fram hjá hinum særða manni. Í huga hans er það einfaldlega eitthvað sem ekki er mögulegt að gera og þarfnast ekki nánari rökstuðnings. Winch heldur áfram og segir:

Við gætum sagt að presturinn og levítinn hefðu séð eitthvað annað en Samverjinn sá þegar þeir komu að hinum slasaða manni á vegkantinum. Við gætum sagt: Þeir sáu ekki náunga sinn í honum. Það kynni að hljóma undarlega að segja að þeir hafi ekki séð í honum mennskan mann. Auðvitað myndum við oft ekki orða þetta svona. En stundum tölum við svona. Ímyndið ykkur afstöðu Evrópumanna og hvítra Ameríkana til þræla á sautjándu og átjándu öld. Það var stundum sagt um þá (þrælahaldarana) og jafnvel sögðu þeir um sig sjálfa að þeir litu ekki á þræla sem mennska. Með þessu er ekki verið að leggja áherslu á kunnáttu þeirra við líffræðilega flokkun, þó að slík efni hafi eflaust blandast ruglingslega því sem málið snerist um, nefnilega siðferðilegu innsæi þeirra. Kjarninn í máli mínu er sá að þegar spurningar vakna um skilning okkar hvert á öðru er siðferðilegt innsæi okkar svo sannarlega hluti af innsæi okkar, þ.e. hluti af því hvernig við sjáum hlutina og hvernig við túlkum þann heim sem við byggjum. (Winch, 1987, bls. 166) [8]

Winch talar hér um siðferðilegt innsæi. Til að virða manneskjuna verðum við einmitt að sjá mennsku hennar og bregðast við henni. Til þess þurfum við að rækta með okkur þetta siðferðilega innsæi. Til að gera þann punkt sem hér er til umræðu ljósari má draga fram annað dæmi sem kemur frá heimspekingnum Raimond Gaita. Hann bendir á í skrifum sínum að fangar sem hætta að fá heimsóknir frá nákomnum ættingjum, svo sem foreldrum og þá fyrst og fremst móður, er mun hættara við að sæta ofbeldi frá fangavörðum en þeim sem fá reglulega slíkar heimsóknir. Heimsóknirnar birta fangavörðunum skilyrðislausa ást móðurinnar þrátt fyrir afbrot sonarins. Þau samskipti sem þar eiga sér stað og það viðmót sem móðirin sýnir syni sínum gera fangaverði kleift að sjá persónuna, soninn, handan glæpamannsins. Fangavörðurinn sér mennskuna í afbrotamanninum (Gaita, 2002). Miskunnsami Samverjinn birti einmitt mennsku mannsins á vegkantinum með breytni sinni. Þar með varð hún sýnileg. Á sama hátt má ímynda sér örlög þeirra einstaklinga sem ekki geta tjáð sig og dvelja á stofnunum. Mennska þess einstaklings sem nýtur engra heimsókna, þar sem enginn sýnir ást sína á honum, er í hættu. Starfsfólkið getur misst sjónar á persónunni, mennska hennar verður ósýnileg. Enginn sér þá hið ómetanlega gildi sem þrátt fyrir allt býr í þessari persónu. Því líka hún er einstök.

En hið siðferðilega innsæi byggist ekki einvörðungu á því að sjá mennskuna heldur einnig á því að bregðast við henni. Innsæið og verkið er í raun eitt og hið sama.

Virðingin er þar með ekki hugmynd eða skoðun, hún er sýnd í verki, hún er órjúfanleg frá verkinu. Winch orðar þetta svo:

Að sjá mennskuna í annarri manneskju er á einhvern máta óaðskiljanlegt frá því að haga sér gagnvart henni sem mennskri manneskju (Winch, 1987, bls. 156).

Samverjinn veltir því ekki fyrir sér á heimspekilegan hátt hvað rétt sé að gera. Hann byggir ekki gjörðir sínar á hugmyndafræði um að allir menn séu jafnréttháir. Mjög líklega hefur hann aldrei velt því fyrir sér. Virðingin er í viðbrögðum hans. Honum er einfaldlega ómögulegt að bregðast öðru vísi við. Hann fellur því ekki í gryfjur hugmyndafræðinnar sem opnar okkur leið til að efast um það sem á að gera og missa sjónar á hinu ómögulega, sem er: Að ganga fram hjá manni í nauð. Levítinn og presturinn á hinn bóginn sáu ekki hið ómögulega og gengu því fram hjá manni í nauð. [9] Of mikil umhugsun opnar leið fyrir hugsanir eins og: „Kannski er maðurinn morðingi, á hann þá rétt á því að ég hjálpi honum?“ Slíkar hugsanir koma í raun málinu ekki við. Það á ekki við að meta hvort hinn þjáði eigi það skilið að vera hjálpað. Kannski var ógæfumaðurinn á vegkantinum í dæmisögunni óþolandi, jafnvel ógeðslegur eða óréttlátur. En gjörðir Samverjans byggjast á sýn hans á manneskjuna, þær grundvallast ekki á eiginleikum hins þjáða. Samverjinn þarf því ekki að spyrja þessara spurninga áður en hann framkvæmir. [10]

Ég hef hér í umfjöllun minni sagt að virðingin sé nauðsynleg til að gefa einstaklingnum rými til að fá að vera hann sjálfur. Einnig hef ég bent á að virðingin felist ekki einvörðungu í afskiptaleysi heldur byggi hún á sýninni á hið ómetanlega gildi hverrar manneskju. Við eigum ekki að láta okkur standa á sama um afdrif annarra. Það að virða aðrar manneskjur gerir þá kröfu til okkar að við stöndum vörð um okkar siðferðilega innsæi. Það er margt sem getur grafið undan því. Sagan færir okkur fjölda dæma þar sem hið siðferðilega innsæi manna var blindað. Löngum hafa verið gerðar vísindatilraunir á föngum, hermönnum, börnum og þroskaheftum án þess að einstaklingarnir gætu á nokkurn hátt varist þeim og þeim skaða sem þær hafa valdið þeim. [11] Ég vil hér halda því fram að slíkar tilraunir hafi verið gerðar með ofangreindum hætti vegna þess að mennska fórnarlambanna var gerendunum hulin. Sama virðist hafa verið uppi á teningnum í Þýskalandi nasismans þegar Gyðingar urðu fyrir árásum sem í dag virðast óskiljanlegar en verða að skrifast á blindu þeirra sem þær framkvæmdu. [12] Enn í dag berast okkur myndir utan úr heimi sem sýna meðferð fangavarða á föngum og bera vott um skort á siðferðilegu innsæi gerendanna. [13] Við þurfum þó ekki að leita svo langt. Í okkar eigin samfélagi eru einstaklingar sem eiga undir högg að sækja að þessu leyti. Búseta á stofnun getur grafið undan hæfni einstaklingsins til að sýna hver hann er og hver hann var. Þær aðstæður sem einstaklingurinn býr við geta því orðið þess valdandi að aðrir verða blindir á mennsku hans. Einnig getur vanmáttur hins geðveika til að tjá hugsanir sínar og til að skynja stöðu sína í veruleikanum gert það að verkum að aðrir sjá ekki mennsku hans. Á sama hátt getur það að innflytjandinn getur ekki tjáð sig á tungumáli sem umhverfið skilur gert það að verkum að mennska hans verður samferðamönnunum hulin. Það leiðir hugann að mikilvægi hins þriðja þáttar sem er hér til umfjöllunar en það eru samskiptin.

3. Samskiptin

Víkjum aftur að dæmisögunni af miskunnsama Samverjanum. Við sögðum áðan að presturinn og levítinn hefðu ekki séð hann sem „náunga sinn“. Þeir sáu hann í einhverjum skilningi sem hlut. Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvernig manneskja getur birst öðrum sem hlutur. Það er merkilegt vegna þess það er svo augljóst að manneskja er ekki hlutur. Slíkt gerist þó og höfum við flest ef ekki öll tekið þátt í slíku meðvitað eða ómeðvitað. Til að mál mitt sé skiljanlegra mun ég nefna dæmi: Eldri kona kemur með dóttur sinni í bankann. Gjaldkerinn snýr sér að dótturinni og segir: „Hvað vill hún taka mikið út?“ Dóttirin svarar: „30 þúsund“. Það er eins og eldri konan sé ekki til staðar, hún er ekki manneskja með hugsun og tilfinningar á sama hátt og dóttirin og gjaldkerinn, hún er nánast meðhöndluð sem hlutur.

Við viðurkennum tilvist annarra með því að líta í augu þeirra. Gaita vitnar í Wittgenstein þegar hann fjallar um mikilvægi þess að líta í augu fólks. Wittgenstein tekur dæmi af sársauka í handlegg: „það er ekki handleggurinn sem finnur til heldur finn ég til í handleggnum“ (Gaita, 2002, bls. 263). Wittgenstein sýnir okkur fram á að það væri algerlega merkingarlaust að tjá samúð með því að horfa á handlegginn. Samúð verður einungis tjáð með því að horfa í augu manneskjunnar sem þjáist. Þar með er viðurkennt að hún er í heild sinni lifandi vera með sál sem upplifir sársauka. Við lítum í augu annarra og sýnum með öllu okkar látbragði að við skynjum og skiljum að hér er önnur manneskja. Við ávörpum hana, heilsum henni og kveðjum hana. Jafnvel þó við eigum erfitt með að skilja tungumál hennar þá getum við látið í ljós að við vitum að hún er til staðar. Með öðrum orðum við sýnum henni virðingu gegnum samskipti okkar við hana. Hún fær tækifæri til að sýna á móti hver hún er gegnum samskipti sín við okkur. Gaita vitnar einnig til heimspekingsins Simone Weil sem orðar þetta svo:

Enginn stendur upp, hreyfir sig eða sest aftur á nákvæmlega sama hátt þegar hann hefur gest eins og hann gerir ef hann er einn í herbergi (Gaita, 2002, bls. 272). [14]

Það sem Weil og Gaita eiga við er að návist annarra persóna breytir allri hegðun okkar. Upphaf samskiptanna er einmitt að við sýnum það í öllum okkar hreyfingum að við vitum að önnur manneskja er til staðar. Það er mikilvægt fyrir hana að við sýnum með þessu móti að við vitum að hún er. Hún er til eins og ég er til. Gaita heldur áfram að útskýra þetta og segir:

Sú almenna staðreynd að við hreyfum okkur ekki eins um herbergið þegar einhver er til staðar er hluti af skynjun okkar á öðrum og sem slík setur hún vilja okkar takmörk hvað varðar tjáningu á siðferðilegri nauðsyn og ómöguleika. Slík áhrif á hegðun okkar sem aðrir valda er jafnframt staðfesting á návist þeirra. Þess vegna er hegðun okkar, sem aðrir valda með návist sinni, leið til að viðurkenna tilvist þeirra. Á hinn bóginn þegar hegðun okkar tekur á engan hátt mið af þeim, þegar við umgöngumst viðveru þeirra á sama hátt og um væri að ræða náttúrulega hindrun í vegi okkar, þá getum við sagt að við séum skeytingarlaus gagnvart mennsku þeirra. (Gaita, 2002, bls. 273) [15]

Hér eru í raun að verki mjög áhrifamiklir þættir í mannlegum samskiptum. Það að sjá ekki þann sem þó er sýnilegur, að veita honum ekki eftirtekt, að láta návist hans ekki hafa áhrif á hegðun sína, er niðurlægjandi fyrir þann sem fyrir því verður. Það er yfirlýsing um að hann sé ekki til, að hann sé ekki manneskja. Í sinni verstu mynd birtist þetta í ofbeldi eða kúgun. Þetta getur tekið á sig form eineltis í skóla eða á vinnustað þar sem einn einstaklingur er tekinn fyrir og fær ekki að koma inn í hópinn, fær aldrei að vera með. Útskúfun (shunning) eða bannfæringu (excommunication) í sinni verstu mynd er einnig beitt í ákveðnum trúarsöfnuðum. [16] Má þar sem dæmi nefna: Votta Jehóva, Gyðinga og Amish fólk. Er útskúfunin þá notuð sem refsing ef safnaðarmeðlimir hafa brotið af sér. Þá er ekki talað við þá, fjölskyldan snýr baki við þeim, þeir eru einangraðir, hundsaðir, horft í gegnum þá. Þeir eru ekki lengur til. Slík höfnun getur verið verri en dauðinn. Einstaklingurinn er lifandi dauður.

Þó hér séu dregin fram sterk dæmi um áhrif afskiptaleysis á manneskjuna, þá sýna þau engu að síður hve samskiptin eru okkur mikilvæg. Þau eru ekki einvörðungu til að flytja upplýsingar á milli einstaklinga. Þau eru svo miklu meira. Þau miðla tilfinningum og eru beinlínis nauðsynleg viðurkenning á tilvist manns. Samskiptin leggja grunn að því hver maður er, þau móta persónuleika manns og eru því leið okkar til að tjá frelsi okkar og sjálfræði. Án tjáningar getur maður ekki sýnt hver maður er, án skilnings getur maður ekki speglað sig í umhverfinu og skilið hver maður sjálfur er. Þau eru því einnig forsenda þess að við gerum okkur grein fyrir okkar eigin verðmæti.

Niðurlag

Í inngangi velti ég upp þeirri spurningu hvers vegna við virðum ekki aðrar manneskjur og þá hvers vegna við virðumst á stundum vera blind á mennsku annarra? Spurningin dró athyglina að því hver væri sýn okkar á aðra og mikilvægi þess að hafa siðferðilegt innsæi. Þeir sem ekki rækta upp slíkt innsæi virða ekki sem skyldi þá sem eiga í erfiðleikum með að sýna og tjá persónuleika sinn. Það er ekki nóg að hafa sýnina það þarf líka hugrekki til að fylgja hinu siðferðilega innsæi. Sjálfræðið er ekki síst fólgið í trú okkar á okkur sjálf og okkar innri mann. Einmitt þessi trú og það að þora að fylgja henni eftir getur verið forsenda þess að við virðum aðrar manneskjur. Samverjinn í dæmisögunni sá manninn í vegkantinum sem „náunga sinn“ og tjáði það með breytni sinni. Presturinn og levítinn höfðu ekki þetta innsæi og sýndu með gjörðum sínum að þeir voru blindir á mennsku hans. Samverjinn gerði á hinn bóginn ekki eins og þeir sem á undan komu, hann fylgdi sinni innri rödd. Að koma fram við mann sem „náunga sinn“ er viðurkenning á mennsku annars manns. „Mennskan“ er hér gildishlaðið hugtak sem vísar til þeirra verðmæta sem í manneskjunni búa. Við getum yfirfært þessa hugsun á aðstæður sem standa okkur nær og sagt: Það að sýna ekki með breytni sinni að maður sjái manneskju heldur leiða hana hjá sér eins og hún sé ekki til ber vott um skort á siðferðilegu innsæi. Það að eiga ekki samtal við manneskju sem manneskju, heldur tala til hennar eða um hana eða horfa í gegnum hana þegar hún er viðstödd ber vott um skort á siðferðilegu innsæi. Sá sem slíkt gerir sýnir með hegðun sinni að hann ber ekki kennsl á eða bregst ekki við mennsku hennar. Ástæður þessa geta verið af ýmsum toga. Í fyrsta lagi getum við verið slegin kærulausri blindu á aðra. Eltum þá jafnvel hugsunarlaust skoðanir og gjörðir annarra. Í öðru lagi getur verið að við gerum þetta vegna ótta. Við treystum ekki innsæi okkar, erum eins og Emerson (1981) orðaði það: „Uppburðarlítil og afsakandi“. Við höfum ekki hugrekki til að horfa í augu annarra og leiðum mennsku þeirra hjá okkur. Í þriðja lagi má skýra hegðun af þessu tagi sem einbert ofbeldi framkvæmt af ásetningi; við vitum af mennskunni en kjósum að leyfa henni ekki að birtast. Líta má á þessar þrjár ástæður sem siðferðilega veikleika. Það er á okkar ábyrgð að vinna gegn þessum veikleika og þessari blindu sem við virðumst svo auðveldlega slegin.

 

Aftanmálsgreinar

 1. „a way of living in harmony with one’s true self.“ (Íslensk þýðing er höfundar nema annað sé tekið fram)
 2. „A man should learn to detect and watch that gleam of light which flashes across his mind from within, more than the luster of the firmament of bards and sages.“
 3. „ I am ashamed to think how easily we capitulate to badges and names, to large societies and dead institutions. Every decent and well-spoken individual affects and sways me more than is right.“
 4. „Man is timid and apologetic; he is no longer upright; he dares not say “I think “, “I am,” but quotes some saint or sage. He is ashamed before the blade of grass or the blowing rose. These roses under my window make no reference to former roses or to better ones; they are for what they are; they exist with God today.“ (Ísl. þýð: Jón Ásgeir Kalmansson).
 5. Góð útlistun á sjálfræði þar sem fjallað er um rými til athafna kemur fram í umfjöllun Vilhjálms Árnasonar (2004) um sjálfræði í bókinni: Sjálfræði og aldraðir, í ljósi íslenskra aðstæðna. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 6. Þetta má sjá víða í samtölum Sókratesar. Skýr eru þó dæmin í Menóni þar sem Sókrates talar við þrælinn (82–86) og í upphafi Protagorasar (310–314).
 7. „The Samaritan sees an impossibility here and the others do not. That is the difference“
 8. „we might say, the priest and the Levite saw something different from what the Samaritan saw when they came upon the injured man in the roadway. We might say: they did not see a neighbour in him. Perhaps it would sound odd to say that they did not recognize him as a fellow human being. Of course, in many contexts we would not say this. But in some contexts we do speak like this. Consider the attitudes of Europeans and white Americans to slaves in the seventeenth and eighteenth centuries. It was sometimes said of them – indeed, they sometimes said of themselves – that they did not regard slaves as human. To say that is not to make a point about their competence at biological classification, though no doubt such matters were confusedly mixed up with what was really at issue, namely the nature of their moral sensibility. My central point is that in questions concerning our understanding of each other our moral sensibility is indeed an aspect of our sensibility, of the way we see things, of what we make of the world we are living in.“
 9. Gaita nefnir dæmi þar sem hugmyndafræðin leiðir menn á villigötur. Vísar hann í umfjöllun Peter Singer um nýbura. Singer færir rök fyrir því að ekkert sé í sjálfu sér siðferðilega rangt við það að drepa nýbura ef öllum stendur á sama um barnið. Það hafi nefnilega ekki gildi í sjálfu sér heldur þiggi það gildi sitt frá öðrum. Gaita telur að þessi rökfærsla Singers sýni hve hugmyndafræðin er hættuleg því slík afstaða hljóti að brjóta gegn heilbrigðu innsæi og fái menn til að samþykkja það sem er óhugsandi. (Gaita, 2002, bls. 182)
 10. Þetta er í raun sama hugmyndafræði og var innan klausturveggjanna þegar særðir og þjáðir leituðu þangað. Einnig byggir hugmyndafræði sjúkrahúsanna á þessu viðhorfi. Þar á ekki við að spyrja hver sé sjúkur eða hvort hann eigi skilið að fá meðferð, áður en sjúkdómurinn er meðhöndlaður. Allir sem þurfa eiga að njóta hjálpar óháð hver á í hlut. Dæmi: Á slysaarðstofu væri bundið um sár bæði meints nauðgara og fórnarlambs. Það er ekki hlutverk starfsfólks að dæma um sekt og sakleysi.
 11. Sjá m.a. dæmi í bókinni The Ethics of Science (Resnik, 1998, bls 133-140) og Classic Cases in Medical Ethics, þriðji hluti : Classic Cases about Research and Experimental Treatments (Pence, 1995, bls.201–337)
 12. Sjá umfjöllun um Mengele og tilraunir hans í bókinni Classic Case in Medical Ethics (Pence, 1995, bls. 226–229)
 13. Er hér til dæmis verið að vísa í fréttaflutning af meðferð bandarískra fangavarða á föngum í Írak og í fangelsinu í Guantanamo á Kúbu 2004.
 14. “no one stands up, or moves about, or sits down again in quite the same fashion when he is alone in a room as when he has a visitor”
 15. “The general fact that we do not move around in the same way when someone is in the room as when we are alone is part of what conditions our sense of others as a distinctive limit to our will of the kind we express in modalities of moral necessity and impossibility. In any individual case, however, such modifications in our behaviour caused by others are forms of the recognition of their presence, which is why when our behaviour caused by others are forms of the recognition of their presence, which is why when our behaviour is quite unaffected by them, when we treat their presence merely as we would a natural obstacle, we say quite naturally that we are oblivious to their humanity.“
 16. Sjá vefsíður: Shunning. Dæmi: http://www.apologeticsindex.org/s50.html.

 

Heimildir

Ástríður Stefánsdóttir, Vilhjálmur Árnason. (2004). Sjálfræði og aldraðir í ljósi íslenskra aðstæðna. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Biblían. Heilög ritning.(1981). Reykjavík: Hið íslenska Biblíufélag

Dworkin, Gerald. (1988). The Theory and Practice of Autonomy. Cambridge: Cambridge University Press.

Emerson, Ralph Waldo. (1981). The Portable Emerson. New Edition. Ritstj. Carl Bode í samvinnu við Malcolm Cowley. New York: Penguin Books.

Gaita, Raimond. (2002). A Common Humanity Thinking About Love and Truth and Justice. London and New York: Routledge.

Kant, Immanuel. (1974). Grundlegung zur Metaphysik der Sitten. Frankfurt: Suhrkamp Verlag, (fyrst gefin út í Riga, 1785).

Meyers, Diana T. (1989). Self, Society, and Personal Choice. New York: Columbia University Press.

Pence, Gregory E.(1995). Classic Cases in Medical Ethics. New York: McGraw-Hill, Inc.

Plato. (1987). The Collected Dialogues of Plato including the letters. (Bollingen Series LXXI). Ritstj. Edith Hamilton og Cairns Huntington. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Resnik, David B.(1998). The Ethics of Science: An Introduction. London and New York: Routledge.

Weil, Simone. (1986). An Anthology. Sian Miles (ed). London: Virago.

Winch, Peter. (1987).Trying to Make Sense. Oxford: Basil Blackwell Ltd.