Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 30. desember 2005


Kristín Norðdahl

Að leika og læra í náttúrunni

Um gildi náttúrulegs umhverfis
í uppeldi og menntun barna

Á árunum 2002 til 2004 stóð leikskólinn Álfheimar á Selfossi ásamt höfundi eftirfarandi greinar að þróunarverkefni þar sem m.a. var farið með börnin í skólanum í reglulegar ferðir í lítinn skógarreit í nágrenni skólans. Í greininni er sagt frá reynslunni af þessum ferðum og hverju þær hafa skilað í námi barnanna, þroska þeirra og líðan. Til að meta þetta gerði höfundur vettvangsathuganir í skógarferðum og tók viðtöl við börn og starfsfólk. Einnig voru spurningalistar lagðir fyrir kennara og foreldra leikskólabarnanna. Niðurstöðurnar sýna að skógarferðir höfðu sérstakt gildi fyrir þroska og líðan barnanna. Þær virtust hafa jákvæð áhrif á líkamlegt heilbrigði barnanna, sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust, áhuga og nám, sköpunargleði, hugmyndaflug og ekki síst á samskipti þeirra sín á milli og við kennarana. Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Í upphafi þéttbýlismyndunar á Íslandi höfðu margir af því áhyggjur að börn gætu farið á mis við þá mikilvægu reynslu sem búseta í sveit veitti þeim. Sumardvöl í sveit þótti lengi vel bæta börnum þetta upp en nú eru þau börn ekki mörg sem eiga möguleika á slíkri dvöl. Þeim fækkar sífellt sem hafa einhverja reynslu af lífi í sveit og eftir því sem byggð þéttist verður einnig erfiðara að finna svæði til leikja sem kalla má náttúruleg. Flestir foreldar vinna fullan vinnudag utan heimilis og tími til útivistar með börnum er því oft knappur. Margt bendir til þess að börn nú á dögum kynnist náttúrunni að stórum hluta í gegnum bílrúðuna, bækur og náttúrulífsþætti í sjónvarpi. Allt þetta stuðlar að því að fólk fjarlægist náttúruna. Börn sem vaxa upp án nokkurra tengsla við hana fara á mis við þá ánægjulegu og þroskandi reynslu sem náttúruupplifun getur veitt þeim. Minnkandi líkur eru á að þau elski og virði náttúruna í framtíðinni sem hlýtur að hafa áhrif á hvernig ákvarðanir þau taka um nýtingu hennar á fullorðinsárum.

Á árunum 2002 til 2004 var unnið að þróunarverkefninu Út um mó, inn i skóg í leikskólanum Álfheimum á Selfossi. M.a. var farið með börnin í ferðir út á lítið skógræktarsvæði sem leikskólinn hefur aðgang að í nágrenni skólans. Markmiðið með skógarferðum var að skipuleggja útivist barnanna á skógarsvæði, þannig að ýtt væri undir eftirfarandi þætti:

 • Tengsl barnanna við umhverfi sitt, áhuga þeirra og skilning á náttúrunni
  og umhverfinu í heimabyggð.

 • Líkamlegt heilbrigði barnanna.

 • Leik barnanna í náttúrulegu umhverfi.

 • Sköpunargleði og hugmyndaflug barnanna.

 • Sjálfsímynd og sjálfstraust barnanna.

 • Hæfni barnanna til að setja sig í spor annarra og vinna saman.

Í greininni er fjallað um hugmyndir manna um gildi útivistar barna í náttúrulegu umhverfi og um niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið á því og reynslu af slíku í skólastarfi. Þá er fjallað um mat á áhrifum skógarferða á nám, þroska og líðan þeirra barna sem þátt tóku og hvaða lærdóm megi af því draga.

Rannsóknir sýna að ...

Það hefur löngum þótt börnum hollt að vera úti, fá hreyfingu, frískt loft og vera í nánum tengslum við náttúruna. Með því að vera úti í náttúrunni læra börn um aðrar lífverur, hvaðan maturinn kemur og að lífsafkoma okkar er háð náttúrunni.

Náttúrulegt eða manngert umhverfi

Áður en lengra er haldið er vert að gera sér grein fyrir því hvað átt er við með náttúrulegu umhverfi og að hvaða leyti það er frábrugðið manngerðu umhverfi. Oft er það sem kallað er náttúrulegt umhverfi meira eða minna manngert. Þannig er Heiðmörk dæmi um umhverfi sem maðurinn hefur haft mikil áhrif á með skógrækt en flestir myndu telja náttúrulegt. Skrúðgarður með mörgum tegundum plantna, og því ríkulegur af náttúru, er aftur á móti í hugum flestra manngerður. Þegar fjallað er um gildi útivistar í náttúrulegu umhverfi skiptir vissulega máli hvers konar umhverfi talað er um. Það sem skiptir hér meginmáli er hversu mikil áhrif mannsins eru á umhverfið. Munurinn á Heiðmörk og skrúðgarði eða leikvelli við leikskóla er helst sá að í Heiðmörkinni hefur ekki hver þúfa verið skipulögð heldur hefur þar verið bætt við gróðri til að gera svæðið fjölbreyttara. Því er aftur á móti stjórnað hvaða lífverur búa í görðum og undirlagið er gjarnan einnig lagað að umferð mannsins. Þannig er talað um meindýr og illgresi í görðum en það á ekki eins vel við um náttúrulegt umhverfi þar sem allar lífverur eiga sér tilverurétt. Sumir (Grahn, Mårtenson, Lindblad, Nilson og Ekmann 1997) segja að náttúrulegt umhverfi skilji sig frá greinilega manngerðu umhverfi, svo sem umhverfi innan húss, leikvöllum eða görðum, með því að gróðurinn hafi þar ákveðnu hlutverki að gegna, svo sem að vera til skrauts, skjóls eða afmarka ýmis svæði.

Lítil börn á Íslandi dvelja stærstan hluta þess tíma sem þau eru vakandi í leikskólum og þar eru þau að mestum hluta í manngerðu umhverfi. Hönnun leiksvæða fyrir börn á sér langa sögu og það er ekki tilviljunum háð hvað finna má á slíkum leiksvæðum. Þar er reynt að hanna umhverfi sem ýtir undir hvers konar hreyfingu barna, svo sem klifurgrindur, rólur, vegasölt, rennibrautir, hjól og oft einhvers konar hengibrýr. Einnig er þar að finna efni sem þau geta leikið með á margvíslegan hátt, t.d. sand, vatn og ýmis leikföng. Á mörgum þessara leiksvæða er einnig hugað að því að undirlagið sé mishæðótt og sums staðar eru jafnvel jarðgöng gegnum hól. Allt er þetta gert til að ýta undir alhiða þroska barnanna og reynslan sýnir að börn sækja í fjölbreytta leikvelli og nýta sér þau leiktæki og leiktækifæri sem þar eru.

Það er því ekki spurning um hvor gerð leiksvæða, þau manngerðu eða náttúrulegu, er betri til að ýta undir þroska barna heldur hvort náttúrulegt umhverfi hafi upp á eitthvað það að bjóða sem manngert umhverfi gerir ekki og öfugt. Hér er athyglinni beint að þeim þáttum sem gera náttúrulegt umhverfi sérstakt sem leik- og þroskavænlegt umhverfi.

Eitt af því sem gerir náttúrulegt umhverfi mikilvægt í uppeldi barna er örugglega fjölbreytnin í umhverfinu og síðan það óskipulagða eða ófyrirséða í umhverfinu sem er spennandi. Það gefur frekari möguleika á að hver og einn finni út hvað þar má gera heldur en umhverfi sem einhver hefur hugsað fyrir hvernig aðrir skuli nota. Í náttúrunni finna börn hluti sem hægt er að leika sér með á fjölbreyttan hátt. Það er t.d. auðvelt að breyta grein í húsþak, veiðistöng, hest eða hvað annað sem manni dettur í hug.

Annað sem gefur náttúrulegu umhverfi gildi í uppeldi barna er það að þau börn sem þekkja náttúruna eru líkleg til að tengjast henni og bera virðingu fyrir henni. Að börn öðlist góða reynslu af náttúrulegu umhverfi og læri þannig að meta gildi hennar telja margir (Grimland 1982, Madsen 1988, Wilson 1995, White 2004) að sé forsenda þess að börn vilji vernda náttúruna og verði fús til að leggja eitthvað á sig til að ganga vel um hana.

Náttúrulegt umhverfi gefur einnig tækifæri til öðru vísi reynslu og annars konar náms en manngert umhverfi gerir og því er mikilvægt að börn fái einnig reynslu af slíku umhverfi í skólastarfi.

Sumir hafa tekið þetta alvarlegar en aðrir og á Norðurlöndum og víðar eru margir svokallaðir skógarleikskólar, eða náttúruleikskólar, sem byggja starfsemi sína á mikilli útiveru barna í náttúrulegu umhverfi. Þessar áherslur í starfinu eru oftast til komnar vegna þess að stjórnendur þeirra vilja gefa börnum tækifæri til að tengjast náttúrunni gegnum eigin reynslu af henni. Einnig er oft tiltekið að náttúruleg svæði gefi möguleika á meiri og fjölbreyttari hreyfingu heldur en tilbúnir leikvellir gera og séu því vel til þess fallin að efla hreyfiþroska barnanna.

Að læra af reynslunni og af samskiptum við aðra

Þegar rætt er um nám og þroska barna er gjarnan lögð mikil áhersla á reynsluna sem grunn fyrir nám og þroska. Þannig sagði Dewey (1933/2000) að börn lærðu best með því að vera virk og gera sjálf (e. learning by doing), svo sem með því að athuga, prófa og bera saman. En hann lagði einnig mikla áherslu á að ekki væri nóg að vera líkamlega virkur, hugurinn þyrfti einnig að vera virkur og einungis með því að ígrunda reynsluna lærðu börn. Piaget (Bliss 1995) sagði þekkingu vera afrakstur túlkunar hvers einstaklings á reynslu sinni og að nám fælist í virkri þátttöku hans. Þannig túlkar barnið nýja reynslu í ljósi þess sem það áður veit og eins endurskoðar barnið hugsun sína svo hún falli betur að nýrri reynslu. Á þennan hátt finna börn sér skýringar á því sem þau skynja í umhverfi sínu. Þær hugmyndir sem börn gera sér um hlutina eru ekki endilega réttar út frá sjónarhóli hinna fullorðnu eða einhverra fræða en eru mikilvægar í uppbyggingu á þekkingu þeirra. Hugmyndir barnanna taka síðan stöðugum breytingum með auknum þroska og einnig þegar börn rekast á það með aukinni reynslu að hugmyndir þeirra standast ekki.

Eins og Piaget var Vygotsky (1978) á því að börn byggðu upp þekkingu sína sjálf. Hann lagði áherslu á þátt samskipta við annað fólk í námi barna, að börn lærðu ekki eingöngu af reynslu sinni við hlutlægt umhverfi heldur einnig af samskiptum sínum við aðra. Hann beindi athygli manna að mikilvægi þess að orða hlutina við börn og ræða þá. Tungumálið hefði áhrif á nám og væri verkfæri hugsunarinnar. Þetta beinir athyglinni að mikilvægi þess að fullorðnir ræði við börnin og fái þau til að ræða saman um það sem þau sjá og reyna. Vygotsky talaði um að sá fullorðni og einnig þroskaðri félagi væru mikilvægir til að kynna barninu nýjar hugmyndir og styðja þannig við nám þess.

Um gildi náttúrulegs umhverfis í uppeldi barna

Þótt almennt sé það talið vera börnum hollt að vera úti í náttúrunni og það geti haft mikil áhrif á þroska þeirra eru rannsóknir á gildi náttúrunnar í uppeldi barna ekki margar.

Í tilviksrannsókn sem sænskur rannsóknarhópur (Grahn o.fl. 1997) stóð að, var athugað hvort gerð leiksvæðis barna hefði áhrif á líðan þeirra og þroska. Þetta var þverfaglegur hópur sem samanstóð af uppeldisfræðingi, sálfræðingi, sjúkraþjálfurum og landslagsarkitektum. Í rannsókninni var þroski barna á nokkrum sviðum kannaður, svo sem hreyfiþroski, líkamlegt heilbrigði og einbeitingargeta. Einnig var leikur þeirra skoðaður. Í rannsóknina voru valdir tveir leikskólar sem voru um margt líkir með tilliti til ólíkra þátta, svo sem fjölda barna á hvern starfsmann og menningar- og félagslegs bakgrunns barnanna. Það sem einkum skildi þá að var gerð þess leiksvæðis sem börnin höfðu aðgang að og tíminn sem þau dvöldu úti við. Í öðrum leikskólanum, sem er í útjaðri byggðar á svæði með litlum þorpum og stökum húsum, var leikvöllurinn ríkur af náttúru. Í starfsemi skólans var lögð rík áhersla á vettvangsferðir út í náttúruna og að börnin dveldu lengur dag hvern úti við en inni í leikskólanum. Í hinum leikskólanum var leikvöllurinn og nánasta umhverfi hans dæmigert borgarumhverfi þar sem manngert umhverfi var í öndvegi. Á náttúrulega leikvellinum var mikið af trjám af öllum stærðum og gerðum, næst húsinu var grasblettur, undirlagið var mishæðótt og þar voru einnig stórir steinar og villtur gróður sem óx um hann víða. Á manngerða leikvellinum var gróður í beðum, stór grasblettur og mikið um hellulagða stíga.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að börnin sem léku sér á leikvellinum sem var ríkari af náttúru komu betur út varðandi ýmsa þætti sem athugaðir voru í samanburði við þau börn sem léku sér á manngerða leikvellinum.

Á náttúrulega leikvellinum fengu börnin fjölbreyttari hreyfingu og voru sjaldnar veik en þau á hinum tilbúna. Umhverfi hans með mismunandi undirlagi, stórum steinum og trjám til að klifras í ýtti tvímælalaust undir fjölbreyttari hreyfingu barnanna. Í margvíslegum hreyfiþroskaprófum stóðu þau börn sem léku sér á náttúrulega leikvellinum sig betur þótt ekki væri alltaf marktækur munur milli leikskólanna. Leikur barnanna á náttúrulega leikvellinum varð einnig fjölbreyttari og hugmyndaríkari.

Grahn o.fl. (1997) hafa eftir Gudmund Smith, sérfræðingi á sviði skapandi hugsunar og starfs, að það sé hið óskipulagða í nátttúrunni sem ögri barninu til að skapa sjálft. Umhverfi sem ekki er lagað að ákveðinni starfsemi ýti undir hugmyndaflugið.

Í prófum á einbeitingargetu komu börnin í leikskólanum með náttúrulega leikvellinum einnig að flestu leyti betur út en börnin í leikskólanum með manngerða leikvellinum.

Það var ekki aðeins umhverfið sem hafði áhrif á niðurstöðurnar því að starfsfólkið hafði einnig mismunandi viðhorf til leikja, hávaða og óreiðu en slíkt hefur áhrif á þroska og líðan barnanna. Þannig fengu börnin á náttúrulega leikvellinum að leika sér lengur úti, vera með meiri hávaða og ekki var lögð eins mikil áhersla á að leikvöllurinn væri snyrtilegur eins og raunin var með tilbúna leikvöllinn. Velta má fyrir sér hvort skipti meira máli frelsið í uppeldisaðferðum eða umhverfið. Í ljós kom að kennararnir í náttúrulega leikskólanum höfðu valið sér leiksvæðið út frá hugmyndum sínum um að það sé börnum hollt að leika sér í fjölbreyttu náttúrulegu umhverfi og að það sé gott fyrir börn að leika sér mikið úti.

Í norskri rannsókn (Fjørtoft 2000) á áhrifum útivistarsvæðis á þroska barna kemur fram að það hafi margvísleg jákvæð áhrif á börn að leika sér frjáls í fjölbreyttu náttúrulegu umhverfi (skógi). Í rannsókninni var þroski og leikur barna í tveimur leikskólum athugaður. Annars vegar var leikskóli þar sem skógarsvæði í nágrenninu var notað sem leiksvæði og hins vegar leikskóli þar sem börnin léku sér eingöngu á leiksvæði leikskólans sem var dæmigerður leikskólaleikvöllur. Mismunandi gróður og landslag í skóginum gaf möguleika til mismunandi leikja og ýtti þannig undir fjölbreyttni í leikjum barnanna. Líkamleg færni barnanna sem notuðu skóginn sem leiksvæði jókst í samanburði við þau sem léku sér á leikskólalóðinni. Munurinn var marktækt betri varðandi jafnvægi barnanna og samhæfingu hreyfinga, þau urðu einnig þolnari og rúmskynjun þeirra varð betri en viðmiðunarhópsins.

Í rannsókn (Braute og Bang 1994) á samskiptum barna á nokkrum náttúrulegum leiksvæðum í Noregi kom í ljós að þegar börnin voru úti í náttúrunni var sjaldgæft að til óþarfa árekstra kæmi á milli barnanna, val barnanna á leikfélögum varð fjölbreyttara heldur en á leikvelli leikskólans og börnin voru dugleg við að takast á við þær áskoranir sem svæðið bauð upp á.

Reynsla margra leikskólakennara í náttúru- eða skógarleikskólum fellur vel að niðurstöðum þessara rannsókna (sjá t.d. Bak 2001). Átök milli barnanna eru sjaldgæfari þegar þau eru á stærra svæði og þannig hefur að margra mati tekist að minnka samskiptaörðugleika barnanna. Börn sem eiga við samskiptaörðugleika að etja hafa blómstrað í náttúrulegu umhverfi og fundið hjá sér nýjar og sterkar hliðar, sem þau hafa ekki uppgötvað áður, svo sem að þau geti byggt kofa, ratað í skógarþykkni eða fundið dýr (sjá t.d.Olesen 1997).

Í Aðalnámskrá leikskóla (Menntamálaráðuneytið 1999: 26) er fjallað um að lífsafkoma, líf og heilsa manna sé háð náttúrunni og því sé þekking á henni og manninum lífsnauðsynleg. Þar segir einnig að börn þurfi „að kynnast fjölbreytileika náttúrunnar, komast í lifandi tengsl við hana og njóta hennar“. Opna þurfi augu barna „fyrir fegurð náttúrunnar og vekja virðingu fyrir henni og ábyrgðarkennd“.

Í kaflanum um hreyfingu í Aðalnámskrá er fjallað um mikilvægi hreyfingar fyrir þroska barnsins og vellíðan og mikilvægi útiveru. Því er beinlínis ætlast til að þessum þáttum tilverunnar sé sinnt í leikskólum.
 

Framkvæmd verkefnisins

Hér verður lítillega fjallað um skipulag skógarferðanna svo auðveldara sé að átta sig á aðstæðum barnanna þar. Einnig verður fjallað um hvernig mati á verkefninu var háttað.

Höfundur var verkefnisstjóri þróunarverkefnisins í leikskólanum Álfheimum og tók þátt í að skipuleggja verkefnið. Verkefnisstjóri hitti starfsfólk nokkrum sinnum á tímabilinu til að fara yfir stöðuna, varpa fram nýjum hugmyndum og almennt að vera starfsfólkinu til stuðnings. Verkefnisstjóri sá einnig um að meta verkefnið. Í þeim tilgangi heimsótti hann leikskólann reglulega á tímabilinu til að safna gögnum.

Skipulag skógarferða

Skógarferðirnar voru farnar einu sinni í viku allt árið um kring. Á þeim tveimur árum sem þróunarverkefnið stóð yfir fóru 70 börn í leikskólanum frá þriggja ára aldri í skógarferðir. Yngstu börnin fóru hálfsmánaðarlega fyrsta haustið fram að áramótum en vikulega eftir það. Tíu starfsmenn, bæði leikskólakennarar og leiðbeinendur, fóru í skógarferðirnar með börnunum. Til einföldunar er hér rætt um þá sem vinna með börnunum sem kennara og er þá átt við bæði fagmenntað fólk og ófaglært.

Skógarferðirnar tóku yfirleitt um það bil tvo tíma. Á vorin og sumrin voru ferðirnar lengri og fóru þær upp í tæpa sex tíma í lok tímabilsins.

Í skógarferðir var ýmislegt haft með sem að gagni mátti koma, t.d. vasahnífar, stækkunargler, ílát ýmiss konar, skóflur, teppi, hengirúm og handbækur að ógleymdu nestinu.

Oftast voru tveir kennarar með hverjum hópi barna sem í voru 10 til 12 börn eftir því hvernig hópurinn var samsettur. Ef í hópnum voru börn með einhverjar sérþarfir voru þau yfirleitt færri.

Leiðinni út í skóginn var skipt upp í nokkra áfanga sem afmörkuðust af ákveðnum stoppustöðvum og á milli þeirra máttu börnin hlaupa frjáls. Þannig mátti koma til móts við mismunandi þarfir barnanna að sögn eins kennarans. Þau sem færu hratt yfir þyrftu að staldra við og meðan þau biðu eftir hinum þá færu þau oft að líta betur í kringum sig, nokkuð sem þau gæfu sér oft annars ekki tíma til. Þau sem færu hægar yfir og gleymdu sér við að skoða og rannsaka gætu verið viss um að það yrði beðið eftir þeim.

Í fyrstu skógarferð barnanna sögðust leikskólakennarnir ganga með börnunum eins og landnámsmenn í hring um svæðið til að gera landamerkin sýnileg, eða eins og einn drengurinn orðaði það í viðtali:

„Það er svona þykjó girðing sem Gunna og Guðný og allar hinar fóstrurnar settu, það er svona ósýnileg girðing”.

Innan þessa svæðis var síðan heimasvæði barnanna þar sem farangurinn var geymdur og í nágrenni þessa staðar léku börnin sér mest.

Á leiðinni í skóginn var stansað við tjörn og bauð hún upp á margvíslega leiki. Þar var öndunum gefið og stiklað á steinunum á bakkanum.

Þegar komið var á heimasvæðið var oftast byrjað á að safnast saman og stundum fóru kennararnir yfir hvað var með í ferðinni, t.d. stækkunargler, hnífar eða hengirúm og ræddu við börnin um hvað þau vildu gera. Stundum bentu kennararnir börnunum á eitthvað markvert eða börnin höfðu sjálf frumkvæði að því sem þau vildu gera.

Svæðið bauð upp á margvíslega hreyfingu fyrir börnin. Undirlagið var ekki slétt, þau gengu og hlupu í þúfum, klifruðu í trjám og upp brekkur, hoppuðu yfir holur, dældir og á milli þúfna.

Hlutverk leikskólakennaranna í skógarferðunum var það sama og í starfinu með börnunum yfirleitt en hafði þó ákveðna sérstöðu. Annars vegar má segja að hlutverk þeirra hafi verið það að vera til staðar og styðja við leikinn í skóginum og hins vegar að vekja athygli barnanna á ýmsu markverðu í náttúrunni og umhverfinu. Nánar er fjallað um skipulag og tilhögun ferðanna í skýrslu um verkefnið (Kristín Norðdahl 2005).

Matsaðferðir

Eins og áður sagði hafið verkefnisstjóri einnig það hlutverk að meta hvernig til hefði tekist í verkefninu. Tilgangur matsins var að lýsa skógarferðunum og meta áhrif þeirra. Eftirfarandi þættir voru athugaðir:

 • Hvort skógarferðirnar hefðu áhrif á viðhorf barnanna til náttúrunnar og skilning þeirra á ýmsu í náttúrunni.

 • Hvort ferðirnar byðu upp á tækifæri til að njóta náttúrunnar.

 • Hvort þær hefðu áhrif á líkamlegt heilbrigði barnanna.

 • Hvort ferðirnar hefðu mótað leiki barnanna, ýtt undir jákvæða sjálfsímynd og sjálftraust þeirra, skapandi hugsun þeirra og hugmyndaflug, svo og samskipti við aðra.

 • Loks var kannað hvort vilji barnanna til að ganga vel um náttúruna hefði breyst á tímabilinu.

Til þess að meta verkefnið var gagna aflað með vettvangsathugunum í níu skógarferðum, fjöldi ljósmynda var tekinn, dagbók var haldin og viðtöl tekin við börn og kennara. Viðtöl voru tekin við tólf börn þegar þau hófu að fara í skógarferðir sínar. Aftur voru tekin viðtöl við sex þessara barna í lok dvalar þeirra í leikskólanum. Í viðtölunum voru viðhorf barnanna til skógarferðanna könnuð og einnig skilningur þeirra á ýmsu í náttúrunni. Viðtöl við sex kennara voru tekin til að fá nánari upplýsingar um ýmsa þætti skógarferðanna, reynslu kennaranna af þeim og viðhorf þeirra til ferðanna.

Spurningalistar voru lagðir fyrir tíu kennara og 37 foreldra þar sem viðhorf þeirra til skógarferðanna voru könnuð og spurt um hverju þeir teldu að þær skiluðu börnunum.

Kennarar skráðu í skógardagbók lýsingar á öllum skógarferðum sem farnar voru. Frá lokum október 2002 fram í byrjun júní 2004 voru alls 148 ferðir skráðar og nýttust þær einnig til að meta verkefnið.
 

Áhrif skógarferða á líðan og samskiptahæfni barnanna

Í spurningalistakönnuninni sögðu allir kennararnir og næstum allar foreldrarnir að börnin hefðu mjög eða frekar gaman af skógarferðum. Kennararnir sögðu að skógarferðirnar væru góðar fyrir börnin og einn sagðist sjá ánægju barnanna aukast með hverri ferðinni. Börnin nytu frelsisins í skóginum og léku sér á annan hátt en á leikskólalóðinni. Skógarferðirnar yrðu skemmtileg minning þegar litið væri til baka og gott veganesti út í lífið.

„Börnunum fór að þykja ofboðslega vænt um svæðið, töluðu um skóginn okkar“, sagði annar. Lenging ferðanna á sumrin og hádegisnestið jók enn meira á ánægju barnanna að sögn kennaranna.

Foreldrarnir nefndu að ferðirnar væru gefandi fyrir börnin og góð tilbreyting fyrir þau. Þeir væru ánægðir með ferðirnar vegna þess hve börnin væru ánægð. Börnin lærðu að njóta útiveru, lærðu að það væri gaman að vera úti í öllum veðrum. Ferðirnar gæfu tilefni til ýmiss konar hugleiðinga og ímyndunaraflið fengi að njóta sín. Einn nefndi þó að dóttirin segði að í skógarferðum væri ekkert að gera, þau ættu bara að hlaupa um og leika sér. Henni fyndist skemmtilegra að vera í leikskólanum.

Samskipti barnanna í skógarferðum

Margir kennarar nefndu þætti sem snúa að samskiptum barnanna. Þau sýndu meiri samkennd en áður að mati kennaranna. Þau léku sér saman, voru mjög virk og leikurinn blómstraði. Þau lærðu að umgangast á jákvæðan hátt m.a. með því að leiðast á leiðinni í skóginn og hjálpa hvert öðru í erfiðleikum.

Nokkrir foreldrar nefndu samskiptagildi ferðanna, að í skógarferðunum væru börnin í minni hópi og það gæfi þeim aukið tækifæri til að tjá sig og eiga í persónulegra sambandi við hin börnin og kennarana. Þau lærðu að fara eftir reglum í hópferðum, gæta sín á umferðinni og taka tillit hvert til annars. Allir kennararnir lýstu því viðhorfi sínu að skógarferðir væru sérstaklega góðar fyrir börn með einhvers konar sérþarfir eða börn sem ættu í erfiðleikum með samskipti. Þau sem áttu erfitt með að komast inn í hópinn áttu auðveldara með að finna sér félaga í skóginum en annars og taka þátt í leik. Börn sem áttu erfitt með að leika sér í lokuðu rými eða herbergjum nutu sín vel í skóginum.

Dæmi voru um að slík börn færu oftar í skógarferðir, t.d. tvisvar í viku vegna þess hve vel þau nutu sín þar. Kennarar sem sinntu þessum börnum sérstaklega töluðu um að skógarferðirnar virkuðu eins og besta sérkennsla.

Einn fatlaður drengur fór tvisvar í viku í skógarferðir vegna þess að skógarferðirnar hjálpuðu honum félagslega að mati kennaranna. Á leikvellinum hafði hann mikið verið að henda grjóti í börnin en í skóginum sýndi hann jákvæða hegðun og börnin sáu þá aðra hlið á honum.

Fram kom að börnin kynntust betur en annars þeim börnum sem eru með sérþarfir og tillitsssemi við þau ykist. Sigrún kennari tók dæmi um hve hjálpleg börnin hefðu verið við dreng sem átti erfitt með hreyfingar og hafði slæmt jafnvægisskyn. Þegar hann þreyttist á leið heim úr skóginum buðust börnin til að leiða hann og hvöttu hann til að halda áfram.
 


Eftirfarandi dæmi úr vettvangsathugunum sýna samskipti barnanna og þeirra leiðir við að leysa ágreining:

Fjórir strákar voru að róla í hengirúminu. Þeir skiptust á að róla hver öðrum. Óliver datt úr hengirúminu og rak upp smá kvein. Árni sagði strax: „Fyrirgefðu“ og klappaði honum á kinnina þannig að honum batnaði snarlega. Þeim gekk vel með að skiptast á að vera í hengirúminu.

Alexandra, Sindri og Hákon voru í leik um villta folann. Sindri var mús og hin voru hestar. „Ég ætla að vera villti folinn“, sagði Alexandra. Sindri sagði: „ Ég er örninn“ og þá sagði Hákon: „Ég fæ ekki að vera með“. „Jú“, sagði Sindri „þú mátt vera indíáninn“ en það vildi Hákon ekki og bað Sindra að velja fyrir sig hvað hann gæti verið. Sindri nefndi fleiri möguleika sem Hákoni leist ekki á. Þá kallaði Sindri á Alexöndru og spurði hana hvað Hákon gæti verið. „Það geta verið tveir ernir“, sagði hún og Hákon var sáttur við það. Þau ræddu síðan heilmikið um hvernig sagan um villta folann væri.

Kennararnir bentu börnunum einnig á að sýna öðrum á svæðinu tillitsemi líkt og Hilda gerði þegar hún benti þeim á að það væru komnir ferðamenn á tjaldstæðið og að þau mættu ekki fikta í dótinu þeirra því þeir væru gestir okkar.

Allir kennararnir sem talað var við voru sammála um það að minna væri um árekstra í skógarferðum en heima á leikskólanum, svona yfir heildina litið, þótt árekstrar ættu sér einnig stað þar. Einnig væri minna um að einhver væri skilinn útundan. Eftirfarandi nefndu þeir sem mögulegar skýringar: Að tengslin milli barna og fullorðinna væru nánari í skóginum en heima í leikskólanum, að skógurinn væri friðsæll og hefði róandi áhrif, að börnin hefðu þar meira rými og væru frjálsari. Þeir sögðu einnig að börnin kynntust vel og væru alltaf í sama hópnum og mun færri börn væru saman en t.d. úti á leikvelli skólans. Eins nefndu þeir að börnin þyrftu ekki að taka saman leikföng eða annan efnivið eins og þyrfti að gera inni og minna væri um truflanir þegar fólk væri að koma og fara. Þrátt fyrir friðsældina kom fram, bæði í viðtölum og vettvangsathugunum, að börnin væru mjög virk í skóginum og kæmu þreytt en ánægð heim.

Margar áskoranir til að sigrast á

Í ljós kom að skógurinn bauð upp á mörg tækifæri til að prófa sig áfram í ýmiss konar færni og efla þannig sjálfstraustið. Áskoranir fyrir börnin í skóginum voru margar. Það var mikill sigur að geta klifrað sjálf upp í stórt tré eða búið eitthvað til úr grein með því að tálga hana til.

Lísbet kennari nefndi dæmi um litla stúlku sem var mjög lokuð, sein og með lítið sjálfstraust. Hún hefði breyst gífurlega og núna prófaði hún allt og æfði sig þangað til hún gæti og hún væri svo stolt. „Sjáðu, ég gat“ segði hún. Síðan var hoppað með tilþrifum, eins og Lísbet orðaði það. Stúlkan var einnig farin að tjá sig meira í ferðunum. Eins nefndi hún dæmi um dreng sem var mjög ör og óheftur og taldi Lísbet að í skógarferðum skynjaði hann mörk sín betur og hjálpuðu þær honum þannig.

Tveir kennaranna nefndu einnig þætti sem varða sjálföryggi barnanna. Þeim þótti ánægjulegt að sjá framfarir hjá börnunum, hversu öruggari þau urðu í skóginum og við að fara út fyrir leikskólalóðina. Ferðirnar auka þannig þor, öryggi og getu barnanna.
 

Áhrif skógarferðanna á hugmyndaflug
og sköpunargleði barnanna

Fjölbreyttur og skapandi leikur barnanna var það sem einna mest var áberandi í skógarferðunum. Í leiknum samtvinnuðust samskipti við aðra, hreyfing barnanna og athuganir þeirra á náttúrunni. Hér verður reynt að varpa ljósi á að hvaða leyti skógarferðir ýttu undir hugmyndaflug og sköpunargleði í leik barnanna.

Við tjörnina fleyttu börnin spýtum og fleiru á vatninu og eitt barnanna talaði eitt sinn um að öndunum gæti þótt gaman að hafa báta til að leika sér með.

Kennararnir töluðu um að börnin væru mjög dugleg að leika sér í skóginum. Þau væru skapandi og yfirfærðu sköpunargleðina og virknina inn í leikskólann og á leikvöll skólans. Í spurningalistakönnuninni gátu sumir foreldranna þess að skógarferðirnar ýttu undir sköpun í leik barnanna. Þau lærðu að nýta umhverfið og það sem þar væri í leik, t.d. að safna könglum og greinum, tálga greinar og búa til boga úr trjágreinum.

Trjágróðurinn nýttist í ýmislegt og þar var greinilegt að það var ekki hugmyndaflugið sem takmarkaði notkunarmöguleikana eins og þessi brot úr vettvangsathugunum sýna:

Katrín notaði bút af trjástofni sem flugvélastýri og bauð hinum börnunum með til Spánar, því þar er alltaf sól og heitt að hennar sögn.

Hákon og Óliver komu hlaupandi. Þeir voru í slökkviliðs- og Batmanleik og voru að slökkva eld í stórri furu og hjálpa fólki þar út um glugga. Furan var greinilega hús upp á nokkrar hæðir að brenna.

Trén sem börnin klifruðu í gátu breyst í ýmislegt, svo sem indíánatjald með því að setja teppi yfir nokkrar greinar, sjóræningjaskip Línu langsokks eða hval.

Almennt má segja að börnin hafi notað afklipptar greinar mikið til að byggja úr, draga um svæðið og eins að safna þeim saman í bunka.

Jurtir nýttust einnig til leikja. Í einni ferð var opnuð blómabúð og seldu börnin Dísu kennara fíflavendi.
 


 

Í skóginum var einnig dálítið af mismunandi stórum spýtum sem nýttust vel í leik barnanna. Með því að setja spýtu ofan á þúfu var komið vegasalt. Einnig mátti nota þær í brúarsmíð og til að flísaleggja „húsgólf“.

Ýmislegt annað í náttúrunni ýtti undir hugmyndaflug og leik barnanna:

Börnin fóru að leita að steinum til að kveikja eld. Þau sátu síðan og prófuðu að slá og nudda saman steinunum og fundu öðru hvoru smá hita- eða brunalykt.
 


Aron prófaði að nota grein til að kveikja eld. Hann sneri henni í laufinu með því að nudda saman lófunum með greinina á milli.

Í einni vetrarferðinni var milt og blautt og hoppuðu nokkrir drengir (það voru aðeins drengir í þeirri ferð) alsælir og drullugir upp fyrir haus í drullupolli.

Í einum kaffitímanum sungu drengirnir mikið og tóku hvert lagið á fætur öðru. Tveir þeirra spiluðu á „skógargítar“ (spýtur) sem þeir höfðu fundið. Lísbet og Hilda töldu að þessi áhugi væri sprottinn frá Idol-keppninni sem var í sjónvarpinu um þær mundir.

Aron notaði mjög góða aðferð til að ná í flösku sem einhver hafði hent út á tjörnina. Hann gerði hringi í vatnið með spýtu og þannig mynduðust öldur sem fleyttu flöskunni yfir að bakkanum. Fram kom síðar að hann hafði tekið eftir þessu í Ölfusá, að svona hringiður fleyttu áfram því sem hent var í ána.

Börnin notuðu ýmislegt sem tekið var með í ferðirnar, svo sem bönd, hnífa, stækkunargler, teppi, tjald og hengirúm til að leika með:

Þrír drengir notuðu band til að „sveifla sér yfir ána“ svo þeir kæmust „inn í frumskóginn“.

Nokkrir drengir buðu Lísbet kennara, í gönguferð til að tína rusl og tóku með band til að merkja leiðina svo þau rötuðu til baka.

Þau notuðu ílát sem voru meðferðis til að elda sveppasúpur og töfradrykki og stækkunargler nýttust m.a. í spæjaraleik til að „leita að vísbendingum“ eins og eitt barnið orðaði það.

Einn kennarinn sagði að þau hefðu tekið með sér andlitsliti og málað börnin í skóginum og það hefði ýtt undir frumskógarleiki.

Þau yfirfærðu einnig ýmsa aðra reynslu á leikinn í skóginum, t.d. voru Harry Potter og galdraleikir ýmiss konar mikið í skóginum, svo og Ástríkur, meðan hann var í sjónvarpinu. Um áramótin var það síðan brennan sem varð áberandi.
 

Áhrif skógarferðanna á nám barnanna um náttúru og umhverfi

Eins og fram kemur hér að framan lærðu börnin ýmislegt um náttúruna og umhverfið í leikjum sínum í skóginum. Í leikjunum fengu þau nýja reynslu og eins var greinilegt að þau voru að vinna úr, miðla sín á milli og prófa ýmislegt sem þau höfðu séð, heyrt eða upplifað annars staðar. Tilraunir barnanna til að kveikja eld með steinum og trjágreinum er gott dæmi um það.

Kennararnir voru einnig duglegir að benda börnunum á ýmislegt markvert í náttúrunni og í viðtölunum við börnin kom fram að þau höfðu lært ýmislegt um náttúruna í skóginum. Kennararnir sögðust t.d. benda börnunum á blóm sem væru að springa út, köngla sem mynduðust á barrtrjám og hvernig finna mætti smádýr. Einn kennari sagðist reyna að grípa tækifærið þegar það gæfist og eitthvað vekti áhuga barnanna t.d. ef þau fyndu smádýr eða væru að velta fyrir sér hvar þessi dýr væru á veturna.

Kennararnir bentu börnunum einnig á að þau þyrftu að sýna náttúrunni tillitsemi, eins og þegar þau tíndu skordýr í dollur, þá þyrftu þau að skila þeim aftur út í náttúruna. Þau þyrftu að gæta þess að brjóta ekki trén þegar þau klifruðu og renna sér ekki niður moldarflagið í brekkunni, heldur leyfa því að gróa upp.

Eins sögðust kennararnir leggja áherslu á að börnin gengju vel um og tíndu rusl en töluðu einnig um að sumt rusl mætti skilja eftir úti í skógi, t.d. appelsínubörk og eplahýði, því það rotnaði og yrði að mold.

Það var einnig margt í náttúrunni sem vakti áhuga barnanna án þess að einhver benti þeim á það sérstaklega.

Eftir eina skógarferðina sagði Oddur Vilberg: „Við fundum hvort annað í feluleiknum vegna þess að það komu fótspor í snjóinn og við eltum þau“.

Einn leikskólakennarinn sagði að börnin væru farin að veita því eftirtekt að lauf mismunandi trjátegunda væru mismunandi að lögun. Alexandra sagði t.d. í einni ferðinni: „Það var svona lauf sem ég sá við tjörnina“ og tók í grein á ösp.

Börnin athuguðu náttúruna einnig með fleiri skynfærum, borðuðu t.d. hundasúrur og hlustuðu eftir fuglahljóðum.
 


Smádýrin vöktu alltaf athygli og ekki þurfti að benda börnunum á þau til að áhuginn vaknaði.

Lísbet kennari sagði frá því að geitungar hefðu verið mjög aðgangsharðir um sumarið þegar þau borðuðu nestið sitt í skóginum. Í einum nestistímanum um haustið spurði eitt barnið: „Hvar eru geitungarnir?“ og hafði greinilega tekið eftir að þeir voru horfnir á braut.

Í einni ferðinni í febrúar fundu nokkrir drengir nýútsprungna krókusa. Þetta voru fyrstu blómin það árið til að springa út. Þegar við vorum búin að skoða krókusana þöktu drengirnir þá aftur með laufi til að hlífa þeim fyrir kulda. Það var greinilegt að þeim þótti þetta mjög merkilegt.

Að lána börnunum ýmislegt til að skoða með eða nálgast lífríkið betur ýtir greinilega undir athuganir þeirra á náttúrunni. Kennararnir settu stundum upp eins konar rannsóknarstöð á pallinum sem var heimasvæði barnanna í skóginum. Þangað komu börnin t.d með pöddur til að skoða.

„Ormurinn skríddi út“ heyrðist eitt sinn hrópað hátt frá pallinum. Börnin voru að skoða ánamaðkana í stækkun. Harpa kennari fór til þeirra og þau skoðuðu ánamaðkana betur saman. Hún spurði börnin m.a. að því hvernig ánamaðkarnir kæmust um og hvort þeir hefðu fætur. Hin börnin fóru að skoða ýmislegt annað með stækkunarglerinu og voru upptekin af því að sjá hvernig það sem horft var á í gegnum glerið stækkaði.
 

Hvað lærðu börnin að mati kennara og foreldra?

Í spurningalistakönnuninni kom fram að allir kennararnir og flestir foreldrarnir töldu að skógarferðirnar væru mjög eða frekar lærdómsríkar fyrir börnin. Skógarferðirnar gáfu a.m.k. mörg tækifæri til að fræða börnin um náttúruna og umhverfið.

Kennararnir sögðu að börnin lærðu um dýralífið, hvaða dýr væru í skóginum, svo sem ormar og sniglar. Þeir sögðu að börnin sýndu krumma áhuga þegar honum væri gefið á veturna, og eins öndunum, en sýndu gróðri minni áhuga. Einnig voru nefnd dæmi um að börnin lærðu um mismunandi veðurfar. Þau veltu fyrir sér þáttum sem höfðu ekki verið á dagskrá hjá jafnöldrum þeirra áður, s.s. skýjafari, sól, regni, kulda, hita, og votviðri. Þau lærðu um árstíðabreytingar, fylgdust m.a. með jörðinni, hvort hún væri hörð og köld (frosin) eða mjúk og blaut (að þiðna). Einnig lærðu þau betur að klæða sig eftir veðri.

Kennararnir sögðu að börnin lærðu ýmislegt af því að vera reglulega úti, svo sem að það er erfitt að ganga í hálku og miklum snjó svo og að halda jafnvægi þar sem mikið er um þúfur.

Bæði kennarar og foreldrar komu inn á það að börnin lærðu að ganga vel um náttúruna, t.d. að klifra ekki í trjánum þegar brumið væri að springa út og henda ekki rusli, tína upp rusl og að endurnýta mætti trjágreinar sem trjákurl í göngustíga.

Margir foreldranna nefndu að skógarferðirnar víkkuðu sjóndeildarhringinn og börnin lærðu um nánasta umhverfi sitt. Einnig nefndu foreldrarnir að ferðirnar ýttu undir jákvæð viðhorf til náttúrunnar og umhverfisins og börnin lærðu að meta það sem nánasta umhverfi hefur upp á að bjóða.

Einhverjir foreldrar bentu á að málþroski og orðaforði barnanna hefði aukist þegar rætt var um hvað börnin sæju og kynntust í ferðunum. Þau lærðu að skoða í kringum sig og athuga hvað væri að gerast í náttúrunni á hverjum árstíma. Eitt foreldri nefndi að barnið tæki betur eftir gróðri og dýrum, þá sérstaklega fuglum.

Foreldrarnir töldu að börnin lærðu t.d. nöfn á trjám, fuglum, blómum og pöddum. Eins lærðu þau t.d. um hrafninn og matarvenjur hans. Eitt foreldrið nefndi að barnið kæmi með útskýringar á ýmsu úr náttúrunni úr skógarferðum. Einnig lærðu börnin að vera úti í ýmsum veðrum og hvað væri spennandi við hverja árstíð.

Hvernig lýstu börnin því sem þau höfðu lært?

Þegar börnin voru spurð að því hvað þau hefðu lært í skógarferðunum, töluðu þau öll um að þau hefðu lært ýmsar reglur um hvað mætti og hvað ekki. Þau tóku mörg dæmi um það:

„að ekki fara yfir hólinn og ekki fara langt“, „bannað að hlaupa á undan fóstrunum, fara langt inn í skóginn, fara út á andatjörn aftur“, og „bannað að klifra í önnur tré en klifurtré“.

Börnin leggja mjög þröngan skilning í það að læra. Þegar þau voru spurð hvort þau hefðu lært að gera eitthvað urðu svörin aðeins fjölbreyttari og nefndu þau ýmislegt, svo sem að klifra í trjám, tálga með hníf og fara í leiki.

Greinilegt var að breytingar í náttúrunni var eitthvað sem þau höfðu tekið eftir og vitnuðu þau mikið í skógarferðirnar til að lýsa því. Eftirfarandi eru dæmi um það:

„Það var svo mikill snjór og þá vorum við oft að gera snjóhús“, „það eru engir fíflar á veturna því þeir eru allir undir snjónum, hann er svo kaldur, hann svefnar alla ræturnar, þær sofa á veturinn“, „þau eru með laufblað núna en ekkert í vetur ... en stungurnar [barrið] eru alltaf fastar á“. Þegar einn drengurinn var spurður að því hvort hægt væri að finna pöddur á veturna sagði hann: „Nei, búin að grafa sig út í ... þær voru bara dánar ... svo komu nýjar“.

Síðan voru þau spurð um ákveðin atriði til að kanna skilning þeirra á ákveðnum fyrirbærum í náttúrunni, svo sem eins og vöxt plantna og þeirra sjálfra, um niðurbrot í náttúrunni og um það hvernig nýjar plöntur yrðu til. Misjafnt var hvort þessi fyrirbæri höfðu verið rædd í skógarferðunum eða ekki. Spurt var um þetta til að athuga hvort veran í skóginum hefði einhver áhrif á þær hugmyndir sem þau gerðu sér um þetta og hvort skilningur þeirra á þessum fyrirbærum hefði aukist. Í annarri rannsókn (Kristín Norðdahl 2001) þar sem hugmyndir barna um þessi fyrirbrigði voru kannaðar kom í ljós að með skipulagðri kennslu væri hægt að hjálpa börnunum að þróa hugmyndir sínar um mörg þessara flóknu ferla. Það var því áhugavert að athuga hvaða áhrif þær áherslur sem voru í þessu verkefni hefðu á hugmyndir barnanna.

Þegar hugmyndir þeirra um hvað plöntur þyrftu til að lifa og vaxa voru kannaðar var augljóst að þau hugsuðu þar meira um eigin reynslu af ræktun en reynslu úr skógarferðum, enda höfðu þau nýlega verið að sá fræjum og rækta plöntur inni í leikskólanum um það leyti sem seinna viðtalið var tekið. Þau voru á því í báðum viðtölunum að plöntur þyrftu vatn og mold til að vaxa. Einn drengur taldi í seinna viðtalinu að moldin væri til þess að vatnið færi ekki út um allt þegar vökvað var og að plönturnar fengju næringu úr sólinni en gat ekki útskýrt það nánar. Ein stúlka sagði í seinna viðtalinu að laufin á trjánum yrðu að mold þegar hún var spurð að því hvað yrði um laufin á haustin. Öll hin börnin töluðu um að laufin hyrfu, bráðnuðu í sólinni, fykju út í veður og vind, sem eru algengar hugmyndir ungra barna. Þegar börnin voru spurð hvernig moldin yrði til töluðu þau öll um í fyrra viðtalinu um að „hún yxi“ og eitt barnið talaði um að það mætti búa mold til með því að blanda moldarfræi við sand. Í seinna viðtalinu komu þessar hugmyndir ekki fram, heldur aðrar, svo sem eins og að moldin yrði til í eldgosi, en einnig að hægt væri að búa til mold úr matarleifum. Þarna kemur reynslan af safnhaugunum og moltukassanum sem voru á leikvellinum trúlega til góða. Þegar spurt var hvaða tilgangi blómin þjónuðu fyrir plönturnar hafði ekkert barnanna hugmynd um það í fyrra viðtalinu en í því seinna voru tvö börn sem töluðu um að þau væru til þess að býflugurnar gætu fengið hunang að éta. Í báðum viðtölunum kom fram sá skilningur barnanna að nýjar plöntur yrðu til fyrir áhrif manna sem ýmist gróðursettu þær eða sáðu fræjum sem nýjar plöntur yxu upp af.

Það var því greinilegt að börn höfðu lært heilmargt en skilningur þeirra á svo flóknum fyrirbærum sem vexti og niðurbroti hafði ekki dýpkað við veruna í skóginum, enda ekki við því að búast.
 

Áhrif skógarferða á líkamlegt heilbrigði barnanna

Bæði kennarar og foreldrar komu inn á gildi ferðanna fyrir líkamlegt heilbrigði barnanna. Margir voru á því að hreyfiþroski barnanna hefði aukist almennt. Allir kennararnir voru sammála um að í skógarferðunum fengju börnin mikla hreyfingu og einnig öðruvísi hreyfingu en boðið væri upp á inni á leikvellinum. Kennararnir sögðu að reynslan sýndi að börnin yrðu þolnari með tímanum. Þessi stutta gönguferð varð auðveldari eftir því sem á leið og þau fóru oftar. Ekki var óalgengt í fyrstu ferðunum að börnin kvörtuðu undan þreytu en síðan ekki söguna meir.

Margir foreldrar gátu þess að börnin hefðu haft gott af aukinni útiveru og þeirri hreyfingu sem þau fengju í þessum ferðum. Þau hefðu gott af því að „reyna á sig“ í gönguferðunum og lærðu að fara út í öllum veðrum og klæða sig eftir því. Eitt foreldrið nefndi að barni sínu þætti erfitt að ganga í mishæðóttu landi.

Nokkrir kennaranna töluðu um að þessi mikla hreyfing ætti sérstaklega vel við orkumikla drengi. „Þeir vildu gera svo margt meðan við vorum þarna, svo þeir voru að allan tímann, ná í hitt og þetta og mér fannst þeir alltaf vera í fullri vinnu“, eins og Vigdís orðaði það.
 


 

Eins kom fram hvað þessi hreyfing væri mikilvæg og góð fyrir þau börn sem eru hreyfihömluð á einhvern hátt. Ein stúlka sem hafði það lítið þol í byrjun að mikið þurfti að bera hana í skógarferðum var farin að ganga sjálf alla skógarferðina. Hjá henni hefur úthald, styrkur og öryggi aukist að mun. Einn drengur, sem er með lömun í fótunum en getur gengið þótt mjög valtur sé, var mjög duglegur í þessum ferðum. Hann datt oft en stóð strax á fætur, kvartaði ekkert og styrktist á bröltinu. Hann klifraði einnig í trjánum. Sigrún kennari þessara barna talaði um að skógarferðirnar byðu upp á mikla þjálfun í að ganga og einnig í margvíslegum öðrum hreyfingum. Hún sagði að þessi hreyfihömluðu börn blómstruðu í ferðunum og væru mjög jákvæð fyrir því að fara í skógarferðir. Í byrjun hefðu þau oft verið svo þreytt þegar þau komu inn í skóginn að þau þurftu að setjast niður. Þetta hefur síðan breyst og nú vildu þau strax fara að leika sér.

Einn kennarinn talaði um að það væri ótrúlegt hversu örugg sum börn væru að klifra upp og niður tré. Fyrst þorðu þau ekki að klifra í trjánum en síðan voru þau farin að fara heldur hátt upp að mati sumra kennaranna. Fínhreyfingarnar voru einnig æfðar, m.a. með því að tálga trjágreinar.

Dæmi var tekið um barn sem var mjög óöruggt í þýfðu undirlagi en eftir þrjár til fjórar skógarferðir var barnið farið að hlaupa um og leika sér. Annar kennari nefndi að leikur í móa gerði mjög mikið, ekki síst fyrir þau börn sem væru á eftir í hreyfiþroska. Ein skógarferð gerði ekki minna en nokkrir tímar hjá sjúkraþjálfara.

Rætt var um að skógarferðirnar væru oft líkamlega erfiðar, t.d. í snjó og hálku eða roki en áréttað að börnin yrðu hraustari í mikilli útiveru.

Öll börnin fengju með þessu móti útrás fyrir hreyfiþörf og nytu sín vel að mati kennaranna.
 

Samantekt og umræða

Í þróunarverkefni leikskólans Álfheima á Selfossi Út um mó, inn í skóg voru prófaðar nýjar leiðir í umhverfismennt leikskólabarna sem fólu m.a. í sér reglulegar ferðir barnanna í skógarreit í nágrenninu. Í tvö ár var fylgst með og athugað hvaða áhrif skógarferðirnar hefðu á nám og þroska barnanna svo og líðan þeirra. Í þessum kafla verður leitast við að draga saman hver þessi áhrif voru.

Í ljós kom að skógarferðirnar höfðu sérstakt gildi fyrir nám, þroska og líðan barnanna sem tóku þátt í þeim. Bæði kennarar og foreldrar sögðu að börnin hefðu myndað tilfinningaleg tengsl við skóginn og þau fóru mörg hver að líta á hann sem sinn eigin. Í viðtölunum kom fram hjá öllum börnunum að þeim þætti gaman í skóginum og það var greinilegt af vettvangsathugunum og viðtölum við kennara að börnunum leið mjög vel þar. Að börn öðlist góða reynslu af náttúrulegu umhverfi og læri þannig að meta gildi þess telja margir (Grimland 1982, Madsen 1988, Wilson 1995, White 2004) að sé forsenda þess að börn vilji vernda náttúruna og verði fús til að leggja eitthvað á sig til að ganga vel um hana.

Kennarar og foreldrar voru sammála um að mikilvægt væri fyrir börnin og almennan þroska þeirra að áhersla væri lögð á að þau ættu góðar og skemmtilegar stundir og minningar frá þessum ferðum. Reynslan sýndi að reglulegar ferðir á sama staðinn væru mjög góð leið til að gefa börnum tækifæri til að verða örugg og sátt í náttúrunni og njóta hennar.

Varðandi spurninguna um hvort skógarferðirnar hafi hjálpað börnunum að skilja ýmislegt af því sem fyrir augu þeirra bar, er ljóst að þau lærðu margt um það sem þau sáu og reyndu og að veran í skóginum ýtti undir forvitni þeirra og eftirtekt. Þau lærðu einnig af eigin reynslu hvernig það er að vera úti í ýmiss konar veðri og skynjuðu og gerðu sér grein fyrir þeim breytingum sem fylgja árstíðum. Einnig voru leikskólakennararnir duglegir við að benda börnunum á ýmislegt markvert í náttúrunni. Þau lærðu að spá í veðrið og nefna ýmiss konar veður, svo sem votviðri, þoku o.fl. Þau lærðu hvaða lífverur eru í skóginum og einnig ýmislegt um líf þeirra.

Nokkuð misjafnt var hvort börnin höfðu í skógarferðunum lært eitthvað um ýmis ferli í náttúrunni. Það má segja að moltugerð sem var úti á leikvellinum hafi hjálpað þeim til að átta sig á að matarleifar verði að mold en flest þeirra áttuðu sig ekki á því að dauðar lífverur í náttúrunni yrðu að mold. Eitt barn talaði um að laufin yrðu að mold en útskýrði það ekki nánar. Þau höfðu mjög sambærilegar hugmyndir um það hvernig lífverur vaxa, hvað verður um laufin á haustin og hvernig nýjar plöntur verða til eins og fram kom í annarri rannsókn (Kristín Norðdahl 2001) á hugmyndum jafnaldra þeirra um sömu fyrirbæri. Það má segja að í þeirri rannsókn hafi hugmyndir barnanna um mörg þessara ferla þróast meira en hugmyndir barnanna í Álfheimum, enda gerðu þau börn ýmsar athuganir varðandi þessi ferli og ræddu mikið um þau undir stjórn kennara. Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart enda eru þetta flókin fyrirbæri sem vinna þarf mikið með til að öðlast einhvern skilning á þeim. Einn kennarinn kom inn á það í viðtali, þegar hann var spurður hvort hann vildi breyta einhverju varðandi skógarferðirnar, að hann vildi tengja skógarferðirnar betur öðru starfi í leikskólanum. Þetta væri vel þess virði að skoða betur. Að tengja saman þessa frjálsu og heillandi leið sem skógarferðirnar eru við skipulegri aðferðir eins og tilraunir, athuganir og umræður í leikskólanum. Plönturæktun og moldargerð í safnhaugum sem unnið var að í leikskólanum eru góð dæmi um viðfangsefni sem hægt væri að tengja betur skógarferðum. Fá börnin til að velta fyrir sér hvernig nýjar plöntur verða til í skóginum, prófa jafnvel að tína fræ þar og sá í leikskólanum. Velta fyrir sér hvernig moldin í skóginum verður til og fylgjast t.d. með rotnandi laufum yfir ákveðið tímabil. Þannig gæti reynslan úr skógarferðunum orðið börnunum lærdómsríkari og eftirminnilegri og börnin tengdu betur saman ýmislegt af því sem fjallað hefur verið um í leikskólanum við það sem þau sjá og reyna í skóginum.

Sjálfsprottnir leikir barnanna í skóginum var það atriði sem bar hæst í verkefninu og það var athyglisvert að sjá hve vel þau nýttu þann efnivið sem þau fundu á staðnum. Þau voru bæði hugmyndarík og skapandi. Kennararnir töluðu um að frjáls leikur barnanna blómstraði í skóginum og að áberandi væri hversu virk börnin væru þar. Þetta er sambærilegt við niðurstöður sænskrar (Grahn o.fl. 1997) og norskrar (Fjørtoft 2000) rannsóknar sem sýndu einnig að leikur barna í náttúrulegu umhverfi yrði fjölbreyttari og hugmyndaríkari en á skipulögðum leikvelli og að greinilegt væri að umhverfið ýtti undir skapandi hugsun barnanna.

Bæði kennarar og foreldrar barnanna í Álfheimum töluðu um að samskipti barnanna í skógarferðum væru að mörgu leyti öðruvísi en annars staðar. Kennararnir nefndu að í skóginum væru börnin í betra jafnvægi og áberandi minna væri um árekstra en þegar þau væru annars staðar. Fram kom að í skóginum væri friðsælt umhverfi, þar væru börnin á mun stærra svæði en venjulega og hópurinn væri einnig minni en t.d. þegar þau væru úti á leikvellinum. Þá kynntust bæði fullorðnir og börn betur og samskiptin yrðu meiri og nánari í skóginum en heima í leikskólanum. Þau börn sem á einhvern hátt skáru sig úr, áttu t.d. í erfiðleikum með samskipti eða höfðu átt erfitt með að komast inn í hópinn, fengu mikið út úr þessum ferðum. Þeim gekk betur að umgangast hin börnin í hópnum og áttu auðveldara með að fá að vera með í leikjum þeirra. Sama átti við um börn með aðrar sérþarfir í hópunum sem fóru í skógarferðirnar. Þau fengu mikið út úr þessum ferðum, því hin börnin kynntust þeim betur en ella, skildu betur þarfir þeirra og voru tillitssamari við þau. Dæmi voru um að ákveðin börn færu oftar í svona ferðir en önnur vegna þess hve góð áhrif skógarferðirnar hefðu á þau. Þetta samrýmist reynslu annarra (Braute og Bang 1994, Grahn o.fl.,1997, Fjørtoft 2000) af náttúrulegum útivistarsvæðum og áhrifum þeirra til betri samskipta barna almennt.

Í íslenska grunnskólaverkefninu Lesið í skóginn, þar sem börn fóru einnig í skógarferðir, kom fram að veran í skóginum og viðfangsefnin sem þar var boðið upp á höfðaði sérstaklega vel til nemenda úr sérdeildum eða sérskólum (Stefán Bergmann og Bjarni Þór Kristjánsson 2003). Þetta eru sjálfsagt ekki ný sannindi en mætti ef til vill nýta betur í skólastarfi, ekki hvað síst nú þegar fjölbreytni innan barnahópsins í skólanum er eins mikil og raun ber vitni.

Í ljós kom að skógurinn var ákjósanlegur vettvangur fyrir börnin til að þjálfa hjá sér ýmiss konar færni og efla þannig sjálftraustið. Áskoranirnar í skóginum reyndust margar og börnin dugleg að takast á við þær. Það hefur einnig komið fram annars staðar (Olesen 1997) að börn hafi fundið hjá sér nýjar sterkar hliðar í breyttu umhverfi, færni sem þau vissu ekki að þau byggju yfir.

Kennararnir voru sammála um að skógarferðirnar hefðu mikið gildi fyrir líkamlegt heilbrigði barnanna. Börnin hafi orðið bæði þolnari og fimari en þau voru í byrjun verkefnisins. Samdóma álit kennaranna var að umhverfið í skóginum byði upp á fjölbreyttari og öðruvísi hreyfingu en umhverfið á leikvellinum gerði.

Margir hafa af því áhyggjur að börn í dag hreyfi sig of lítið og afleiðingarnar geti leitt til margs konar heilsufarslegra vandamála síðar á æfinni. Í nýlegri íslenskri rannsókn á holdafari, hreyfingu og mataræði níu ára barna í Reykjavík kemur fram að sífellt fleiri börn verði of þung og virðist þar helst um að kenna lítilli hreyfingu (Erlingur Jóhannsson, Þórarinn Sveinsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Brynhildur Briem, Þórólfur Þórlindsson 2003). Í rannsókn Fjørtoft (2000) kom fram að börn sem léku sér á náttúrulegu leiksvæði stæðu sig betur á prófum í hreyfifærni en börn sem léku sér á hefðbundnum leikvelli. Marktækur munur var á hæfni barnanna varðandi samhæfingu hreyfinga og jafnvægis sem höfundur taldi að rekja mætti til þess að börnin léku sér í fjölbreyttu náttúrulegu umhverfi. Í danskri rannsókn (Ropeid 1997) kom fram að meirihluti tíu ára barna væri með of stutta vöðva í fótleggjum. Rannsakendurnir, Bente Pedersen, Anne Brodersen og Jörgen Reimers, töldu að of mikil kyrrseta barna frá þriggja til fjögurra ára aldri væri ástæða þessa. Þau sætu í bílum á leið sinni til og frá skóla og í mörgum tilfellum sætu þau of lengi dag hvern fyrir framan sjónvarp eða tölvu í frístundum sínum. Afleiðingarnar gætu orðið þær að börnin ættu við bakverki að stríða það sem eftir væri ævinnar. Með því að fara reglulega í ferðir með börnin út í náttúruna má ýta undir fjölbreytta hreyfingu þeirra á auðveldan og skemmtilegan hátt. Ljóst er að það gæti bætt heilsu og líðan komandi kynslóða og sparað almannafé þegar til lengri tíma er litið.

Þær fyrirmyndir sem kennararnir í Álfheimum höfðu að skógarferðunum voru fengnar frá Noregi, sem er skógi vaxið land. Skógar eru hins vegar ekki útbreiddir hér á landi og segja má að eðlilegra væri að kanna uppeldi íslenskra barna í náttúru sem er dæmigerðari fyrir Ísland en skógur. Þetta er vissulega viðhorf sem vert er að hafa í huga. Spurningin um hvort það þurfi skóg til að vera reglulega og mikið úti með börnunum á vissulega rétt á sér. Helsti kostur skógarins er skjólið sem hann veitir, fjölbreytt lífríki hans og hæð tránna í skóginum sem gefur nýja möguleika á hreyfingu barnanna. Hér á landi, þar sem veðurfar er óstöðugt og gjarnan mjög vindasamt, skiptir skjól miklu máli þegar hugað er að reglulegri útivist barna. En það eru fleiri staðir en skógar sem geta gefið skjól, t.d. úfið hraun, þar sem holur eru, gjótur, dældir og hellar. Eins má velja stað sem er þekktur fyrir að vera skjólsæll eða búa til skjól, t.d. með vegghleðslum eða trégirðingum.

Í verkefninu Lesið í skóginn (Stefán Bergmann og Bjarni Þór Kristjánsson 2003) var unnið að því að skólar eignuðust sinn grenndarskóg sem þeir gætu heimsótt reglulega og hefur komið í ljós að í mörgum tilfellum reyndist auðvelt að finna skóg í nágrenni skólanna. Víða um land eru skógarreitir sem fólk hefur plantað og eru þeir víða opnir almenningi. Þessir reitir eru auðvitað hluti af íslenskri náttúru eins og hún er í dag, þótt þeir séu kannski ekki dæmigerðir í íslensku landslagi. Ef reitir með ræktuðum trjám gera börnum kleift að leika sér úti í rysjóttu veðri, þá er sjálfsagt að nýta það. Þessir reitir eru alla jafnan ekki stærri en svo að yfirleitt er stutt í dæmigerðan íslenskan móa sem börn ættu auðvitað einnig að kynnast.
 

Að lokum

Í skógarferðum barnanna í leikskólanum Álfheimum kom í ljós að náttúrulegt umhverfi sem börnin léku sér í hafði jákvæð áhrif á nám, þroska og líðan barnanna sem þar dvöldu. Ljóst er að starfsfólk Álfheima hefur unnið mikið frumkvöðlastarf á sviði umhverfismenntar með þessu verkefni og er góð fyrirmynd um þessa starfshætti. Þessi leið í umhverfismennt fellur vel að þeim kennsluháttum sem eru ríkjandi í leikskólastarfi og því sem Aðalnámskrá (1999) leggur áherslu á, að barnið sé ávallt í brennidepli og að í öllu starfi sé hugað að alhliða þroska þess.

Á meðal starfsmanna hefur komið fram sú hugmynd að stofna sérstaka útideild frá leikskólanum í skóginum við Gesthús. Hugmyndin er sú að börnin á þeirri deild verði úti í skóginum lungann úr deginum allt árið um kring. Deildin hefði þó til umráða húsnæði, þar sem aðstaða væri fyrir börnin til að leita inn þegar á þyrfti að halda.

Að lokum vil ég taka undir orð Heiðdísar Gunnarsdóttur, leikskólafulltrúa í Árborg, í ræðu sem hún flutti þegar leikskólinn Álfheimar fékk Grænfánann afhentan vorið 2004. Hún sagðist eiga sér þann draum að skógarferðir barnanna í Álfheimum yrðu grunnskólum í sveitarfélaginu til fyrirmyndar. Að skógarferðir yrðu þannig einnig hluti af skólastarfi grunnskólabarna.

Nikolaisen (1998) hefur skrifað um reynslu af útikennslu grunnskóla í Noregi. Þar voru grunnskólabörn úti einn dag í hverri viku. Niðurstaða hans er sú að útikennsla veki áhuga barna og eftirvæntingu, bjóði upp á fjölbreytt tækifæri til skynjunar og uppgötvana, gefi börnum kost á að öðlast reynsluheim sem þau geti byggt á. Útikennsla bjóði upp á tækifæri til samskipta, samveru og leikja auk tækifæra til að tengjast nánasta umhverfi og njóta náttúrunnar. Útikennsla stuðli einnig að góðu líkamlegu heilbrigði og hreyfingu barna. Með allt þetta í huga væri ekki úr vegi að efla þennan þátt í skólastarfi íslenskra barna.
 

Ljósmyndir af vettvangi og beinar tilvitnanir

Höfundur tók á vettvangi allar ljósmyndir sem hér eru birtar og beinar tilvitnanir í texta eru úr ýmsum öðrum rannsóknargögnum; vettvangsathugunum, viðtölum og dagbókarskrifum.

 

Heimildir

Bak, L. H. 2001. Børnene I bjergene. Sótt 1. 2. 2002 á slóðina: http://www.naturboernehaven.dk/medieomtale/jp010301.htm.

Bliss, J. 1995. Piaget and after: the case of learning science. Studies in Science Education, 25:139172.

Braute, J. N. og Bang, C. 1994. Bli med ut! Barn i naturen. Universitetsforlaget, Oslo.

Dewey, J. 1933/2000. Menntun og hugsun. Þýðing Gunnars Ragnarssonar á How We Think sem var gefin út 1933. Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans, Reykjavík.

Erlingur Jóhannsson, Þórarinn Sveinsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Brynhildur Briem og Þórólfur Þórlindsson. 2003. Holdafar, líkamsástand, hreyfimynstur og lifnaðarhættir 9 ára barna í Reykjavík haustið 2002. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Fjørtoft, I. 2000. Landscape as Playscape: Learning effects from playing in a natural environment on motor development in children. Norwegian University of Sport and Physical Education, Oslo.

Grahn, P. Mårtensson, F. Lindblad, B. Nilsson, P. og Ekman, A. 1997. Ute på dagis. Hur använder barn daghemsgården? Utformningen av daghemsgården och dess betydelse för lek, motorik och koncentrationsförmåga. Förlag Movium, Alnarp.

Grimland, Gisle. 1982. Lek og læring i naturen. J. W. Cappelens forlag as, Oslo.

Kristín Norðdahl. 2001. Hvernig þróast hugmyndir leikskólabara um náttúruna? Óbirt meistaraprófsritgerð við Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Kristín Norðdahl. 2005. Út um mó inn í skóg: Skýrsla um þróunarverkefni með áherslu á útivist, náttúru og umhverfi, unnið í leikskólanum Álfheimum árin 20022004. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. Slóð: http://rannsokn.khi.is/utgafa/utummoinniskog.pdf.

Madsen Bent Leicht. 1988. Børn dyr og natur. Forlaget börn og unge, Köbenhavn.

Menntamálaráðuneytið. 1999. Aðalnámskrá leikskóla. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.

Nikolaisen J. A. 1998. Nærmiljöet som klasserom: Uteskole i teori og praksis. Cappelen Akademisk Forlag as, Oslo.

Olesen, M. D. 1997. Legen i naturen, naturen i legen. Sótt 1. 2. 2002 á slóðina: http://www.businstitutioner.dk/txt/linnil.html

Ropeid, K. 1997. Småbarnskroppene ödelagt av stillesitting. Norsk Förskolelærer blad Nr. 2: 67.

Stefán Bergmann og Bjarni Þór Kristjánsson. 2003. Lesið í skóginn: þróunarverkefni um þverfaglega kennslu um íslenska skóga og skógarnytjar. Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík.

Vygotsky, L. 1978. Mind in Society. The Development of Higher Psychological Processes. Harvard University Press, Cambridge, Massachusets.

White, R. 2004. Interaction with Nature during the Middle Years: Its Importance in Children´s Development & Nature's Future. Sótt 29.11. 2004 á slóðina:. http://www.whitehutchinson.com/children/articles/nature.shtml.

Wilson, R. 1995. Teacher as Guide The Rachel Carson Way. Early Childhood Education Journal, 23,1:4951.