Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 19. desember 2005

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Stiklur um nýja námskrá í íslensku

Tillögur vinnuhóps [1]

Í greininni segir frá vinnu og niðurstöðum vinnuhóps sem menntamálaráðherra skipaði í ársbyrjun 2005 til að endurskoða námskrá grunn- og framhaldsskóla í íslensku með tilliti til styttingar náms til stúdentsprófs. Hópurinn leggur m.a. til aukna áherslu á ritun, talað mál og lestur. Stafsetningarkennsla ætti að hvíla að mestu á grunnskóla og setningafræði á kennslu og námi í framhaldsskóla. Rökfærslu og hlustun þyrfti að gera hærra undir höfði í grunnskóla og almennt leggur hópurinn meiri áherslu á samskipti og samstarf en áður hefur tíðkast. Kröfur ráðuneytis um aukna munnlega og skriflega færni kalla á miklar breytingar í skólum og höfundur lýsir þeirri skoðun hópsins að umfangsmikla vinnu þurfi að leggja í þróun námskrár. Höfundur er kennari við Menntaskólann í Kópavogi.

Í janúarlok 2005 skipaði menntamálaráðherra þrjá starfandi íslenskukennara í vinnuhóp til að endurskoða námskrá í íslensku með tilliti til styttingar náms til stúdentsprófs. Þessir kennarar eru Guðrún I. Karlsdóttir, nú kennari í Verzlunarskóla Íslands, Halldís Ármannsdóttir Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Steinunn Inga Óttarsdóttir Menntaskólanum í Kópavogi. Verkefni hópsins fólst aðallega í að færa viðfangsefni milli námsára í grunnskóla, milli skólastiga og milli áfanga á framhaldsskólastigi til hagræðingar fyrir styttinguna. Hópurinn skyldi vinna að því að auka áherslu á ritun og munnlega færni, auka frjálsan lestur, minnka bókmenntafræði og bókmenntasögu og draga úr þeirri endurtekningu sem talin var eiga sér stað milli 10. bekkjar grunnskóla og fyrsta námsárs í framhaldsskóla. [2]

Starfshópurinn hófst strax handa við verkefnið. Fyrstu skrefin voru að safna saman upplýsingum um hvað væri almennt kennt í skólunum og fara yfir þær með tilliti til markmiða aðalnámskrárinnar. Í ljós kom að framhaldsskólanámskrárnar voru keimlíkar en áherslur í gunnskólanámskrám afar misjafnar. Það þótti okkur merkileg niðurstaða, þar sem Aðalnámskrá grunnskóla er afar ítarleg en Aðalnámskrá framhaldsskóla mun opnari og almennari. Erlendar námskrár, skýrslur og álitsgerðir voru lesnar og unnið úr þeim upplýsingum sem þar var að finna. Gott haldreipi í þessari vinnu var skýrsla forvinnuhóps frá 1997 sem er skipuleg og vel rökum studd. Hópurinn tók líka mið af núgildandi námskrá sem hefur margt til síns ágætis og margir eru orðnir sáttir við þótt ekki hafi öllum fundist hún frábær í fyrstu. Nokkrir grunnskólakennarar voru kallaðir á fund og rætt við þá um tilfærslur. M.a. kom fram að áherslur á málfræði og bókmenntir vega þungt í móðurmálskennslu og allt að 60% kennslustunda í íslensku snúast um málfræðikennslu. Það þótti okkur merkileg niðurstaða. Sérfræðingar úr framhaldsskólum og háskólum komu til fundar við hópinn til skrafs og ráðagerða og einnig var fundað með Samtökum móðurmálskennara og Kennarafélagi Íslands um námskrárdrögin. Fljótlega varð ljóst að verkefnið var umfangsmikið og í maímánuði bættist hópnum liðsauki, Sólveig Ebba Ólafsdóttir kennari í Hamraskóla. Þann 1. september skilaði vinnuhópurinn tillögum sínum til menntamálaráðuneytis. Þá verður annar hópur skipaður og hann mun semja endanlega aðalnámskrá sem væntanlega byggist m.a. á þessum tillögum.

Stiklað á stóru

Grunnskólinn

Í námskrártillögum okkar er íslenskukennslunni í grunn- og framhaldsskóla skipt í fjóra meginþætti: Talað mál, ritun, málvísi og bókmenntir þar sem hver þáttur styður annan. Hér verður í grófum dráttum gerð grein fyrir tillögunum.

1.–7. bekkur

 1. Talað mál og framsögn hefur verið útundan í skólastarfinu, mismikið eftir árgöngum. Í tillögum vinnuhópsins er þessum þætti gert hátt undir höfði og gert ráð fyrir að þjálfun hefjist strax í 1. bekk með áherslu á leik og söng, samræður, samskipti og virðingu fyrir sjónarmiðum annarra. Þá er mikið lagt upp úr hlustun, bæði að hlusta á aðra, hlusta á upplestur og hlusta á fyrirmæli.

 2. Ritunarkennslu hefur verið mismikið sinnt í skólum enda er hún að margra mati bæði tímafrek og erfið. Undir hana fellur skrift að nokkru leyti en í tillögunum er gengið út frá því að nemendur geti gengið frá textum sínum í tölvu. Mikilvægt er að geta byggt upp texta en sú færni þarrf að vera í stöðugri þjálfun. Lagt er til m.a. að unnið sé með nemendum út frá bókmenntum, sjálfsmynd og málefnum líðandi stundar. Mikið er lagt er upp úr því að ganga snyrtilega frá eigin texta og að læra, skilja og beita stafsetningarreglum en samkvæmt tillögunum lýkur eiginlegri stafsetningarkennslu í grunnskóla .

 3. Markmiðið í málvísi í grunnskóla er að gera nemendur viðræðuhæfa um mál og málfar og gera þá að betri málnotendum. Málfræðileg hugtök eru kynnt í neðri bekkjum og á því stigi er fyrst og fremst verið að leika sér með beygingar og þjálfa málfræðikunnáttu munnlega. Mikilvægt er að leggja ekki ofuráherslu á hugtök og reglur á þessu stigi eða prófa þessa kunnáttu skriflega. Hópurinn vill forðast að nemendur sitji sveittir og greini lista af orðum í örsmáar einingar eða flokka án samhengis og tilgangs. Lagt er til að dregið verði úr þunga málfræðinnar í íslenskukennslu í 1.–7. bekk en hún hafi meira vægi í 8.–10. bekk þegar nemendur eru tilbúnir til að skilja málkerfið og uppbyggingu þess. Í hópnum var mikið rætt um hvenær málfræðikennsla ætti að hefjast fyrir alvöru og var þessi niðurstaða eins konar málamiðlun. Hópurinn vill hins vegar einhuga leggja áherslu á að forðast stagl og sparðatíning og beina frekar sjónum að hlutverki og virkni orða í tungumálinu.

 4. Megináhersla í íslenskukennslu í 1.–7. bekk á að vera á lestur og læsi í öllum sínum myndum. Lestur, bæði mynda, miðla og texta og umræður um efni bóka efla með börnum færni á mörgum sviðum. Nota á lestur til að auka orðaforða og efla lesskilning og læra um sjálf, samfélag og heimsmynd. Hópurinn telur nauðsynlegt að nemendum séu kynntar bókmenntir þjóðarinnar að fornu og nýju, bæði sögur og ljóð. Unnið verði með þær eins og hentar hverju aldursstigi og ýtt undir frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum auk þess sem hvatt yrði til meiri lestrar á eigin spýtur. Er ekki kominn tími til að hætta að stappa ofan í nemendur og mata þá? Ættum við ekki heldur að kenna þeim að borða sjálfir?

8. bekkur

 1. Talað mál: Samstarfs- og samskiptahæfni eru afar mikilvægir þættir sem við verðum að rækta, þjálfa og innræta nemendum. Í tillögunum er gert ráð fyrir að nemendur verður vandir á að vinna saman í hóp, segja frá og hlusta, gera grein fyrir máli sínu og virða sjónarmið annarra. Þeir þurfa að æfa framsögn og hlustun og geta talað frjálslega um reynslu og tilfinningar.

 2. Ritun: Bygging, orðaforði og stafsetning eru lykilatriði á þessu stigi. Nemendur fá þjálfun í að skrifa um t.d. áhugamál, framtíðarsýn og málefni líðandi stundar og glíma við sjálfsmynd sína og lífsafstöðu. Kennarar verða að geta veitt uppbyggilega gagnrýni í ritunarkennslu alla skólagönguna og nemendur eiga að geta gagnrýnt texta faglega, tekið gagnrýni á eigin texta, lært af henni og nýtt til úrbóta og framfara. Þjálfun í ritun þarf að vera markviss og samfelld öll skólaárin.

 3. Málvísi: Nemendur tileinka sér málfræðiatriði skipulega og í tengslum við aðra þætti móðurmálskennslunnar. Þeir læra um innviði tungumálsins og temja sér jákvætt viðhorf til þess. Hópurinn leggur áherslu á að forðast allt stagl.

 4. Bókmenntir: Nemendur lesa fjölbreytta texta, nútímatexta og valda texta úr fornsögum, auk kjörbóka eða hraðlestrarbóka og nytjatexta þess utan. Athygli er beint að bókmenntum sem höfða til unglinga á einhvern hátt, fjalla um tilfinningar og reynslu þeirra í víðum skilningi. Sama gildir um ljóð og nokkur þjóðskáld eru kynnt. Fjallað er m.a. um ólík markmið texta.

9. bekkur

 1. Talað mál: Ætlunin er að nemendur læri að mynda sér málefnalegar skoðanir og geti kynnt þær öðrum. Hópastarf, samvinna og verkaskipting, umræður, rökræður og niðurstaða eru lykilatriði. Miðað er að því að nemendur geti sagt skipulega og rökrétt frá, hlustað og fylgt fyrirmælum.

 2. Ritun: Nemendur temja sér skipuleg vinnubrögð við ritun frá hugmynd að endanlegum texta, þ.e. gera uppkast, semja efnisgreinar og fá leiðbeiningar og gagnrýni jafnt og þétt í ritunarferlinu. Áhersla er á að nemendur fái góða og fjölbreytta þjálfun í ritun en ekki sé eingöngu um hefðbundnar ritgerðir að ræða heldur einnig pistla, blaðagreinar, viðtöl, þýðingar, auglýsingar o.fl.

 3. Málvísi: Orðmyndun, beygingarfræði og merkingarfræði eiga að nýtast nemendum í vinnu með texta í 8.–10. bekk. Unnið er með myndmál, málshætti og orðtök að fornu og ekki síður að nýju og þá vinnu nota nemendur til að auka orðaforða sinn og tjáningarmöguleika. Allmikil málfræði er kennd á þessu stigi, s.s. fallorð, tíðir sagna, hættir og myndir, kennimyndir, afleiddar myndir, rót, stofn o.fl.

 4. Bókmenntir: Lesin er m.a. ein Íslendingasaga eða þáttur, skáldsaga og smásögur. Bókmenntahugtök eru notuð sem tól til dýpri skilnings og farið er í bragfræði og myndmál. Nemendur lesa mikið af fjölbreyttum bókmenntatextum.

10. bekkur

Í 10. bekk eru þeir þættir sem unnið hefur verið með frá 1. bekk áréttaðir og allir endar hnýttir saman. Námsefni 10. bekkjar er samantekt úr námsefni síðasta bekkjar grunnskólans skv. núgildandi Aðalnámskrá og fyrsta áfanga framhaldsskólans, auk nýrra áherslna, m.a. í ritun. Þannig er komið í veg fyrir meinta endurtekningu, þ.e. að sömu atriði séu kennd á báðum skólastigum eins og stundum hefur brunnið við.

 1. Talað mál: Nemendur rökstyðja skoðanir sínar, tala saman og hlusta á skoðanir annarra. Ætlast er til að nemendur hafi á þessu stigi öðlast nokkurt sjálfsöryggi í framsögn og framkomu, þekki til helstu áhersluatriða varðandi raddbeitingu og öndun og geti flutt ræðu.

 2. Ritun: Ritunarþjálfun er markvisst haldið áfram og orðaforði og stílþekking efld. Áhersla er á formlega ritun og skipuleg vinnubrögð í 10. bekk. Nemendur skrifa rökfærsluritgerð þar sem þeir gera grein fyrir mismunandi skoðunum, færa rök og gagnrök og komast að sjálfstæðri niðurstöðu. Ætlunin er að nemendur hafi komið sér upp eins konar verkfærakistu sem þeir geti sótt í; að þeir geti fyrirhafnarlítið samið tæka efnisgrein eða stuttan almennan inngang samkvæmt reglum þar að lútandi. Þá er einnig ætlast til þess að nemendur geti skrifað skapandi texta.

 3. Málvísi: Markmiðið er að hafa heildarsýn á eigin málfræðikunnáttu, þekkja formleg einkenni orðflokka og geta nýtt sér almennar málfræðileiðbeiningar, einnig í öðrum þáttum móðurmálskennslunnar. Nemendur fjalla m.a. um gott og vont mál og tileinka sér jákvætt viðhorf og virðingu fyrir móðurmálinu. Þjálfun í réttritun og greinarmerkjasetningu telst á lokastigi og nemendur eiga, með hjálp eigin þekkingar eða viðeigandi hjálpargagna, að geta skilað af sér skýrum og villulausum texta.

 4. Bókmenntir: Nemendur reyna sig við fullburða skáldsögur eða fornsögur og máta efnið við eigin þroska og sjálfsmynd. Þeir lesa skáldsögu, ævisögu eða reynslusögu og gera grein fyrir henni, t.d. í lestrardagbók. Þeir beita grunnhugtökum í bókmenntafræði til að dýpka skilning sinn og túlkun.

Framhaldsskólinn

Eins og í grunnskóla er móðurmálskennslunni skipt í fjóra þætti; talað mál, ritun, málvísi og bókmenntir. Gert er ráð fyrir fjórum kjarnaáföngum. Að þeim loknum er boðið upp á þrjá kjörsviðsáfanga en í þeim er gert ráð fyrir að nemendur skrifi fræðilegar ritgerðir um afmörkuð efni.

 1. Í töluðu máli er í byrjunaráfanga lögð áhersla á samvinnu og hópvinnu og að fá nemendur til að tjá sig um siðferðisleg gildi. Í öðrum áfanga standa nemendur fyrir máli sínu frammi fyrir hópi og flytja fyrirlestra um ýmis efni og taka gagnrýni á flutning. Framsögn og framkoma eru í brennidepli í þriðja áfanganum auk þess sem nemendur ræða bókmenntir. Þegar lengra er komið í náminu er gert ráð fyrir umræðum, hópvinnu og að nemendur kynni verkefni sín og þjálfist þannig enn frekar í munnlegri tjáningu.

 2. Í ritun er miðað við að nemendur geti skilað textum fullfrágengnum og villulausum, hafi vald á fjölbreyttum orðaforða, kunni að byggja upp efnisgreinar og hafi öðlast æfingu í að skrifa rökfærsluritgerðir. Í fyrstu eru nemendur markvisst þjálfaðir í rökfærslu en megináhersla er lögð á byggingu ritgerða, frágang og notkun heimilda. Í síðari áföngum er fengist við skapandi skrif og ferliritun og nemendur tjá sig um lesefni með eigin rökum og stuðningi heimilda. Auk þess fá þeir þjálfun í að beita mismunandi stíltegundum.

 3. Málvísi: Í fyrsta áfanga framhaldsskólans er setningafræði gerð góð skil, í öðrum áfanga er hljóðfræði í brennidepli ásamt málsögulegu yfirliti. Í þriðja áfanga er fjallað um erlend áhrif og málstefnu, auk umfjöllunar um stöðu íslenskunnar í heiminum. Í lokaáfanganum koma öll kurl til grafar og eiga nemendur þá að hafa öðlast heildarsýn á eigin málkunnáttu.

 4. Bókmenntir: Leitast er við að setja bókmenntir í menningarsögulegt samhengi. Helstu bókmenntategundir, stefnur og straumar, eru kynnt, s.s. fornsögur og fornkvæði, rómantík og raunsæi. Um litla breytingu er að ræða frá núverandi námsskipan en hópnum reyndist erfitt að breyta því. Leitast er við að fá nemendur til að verða gagnrýnir lesendur og víkka sjóndeildarhring sinn með því að velta fyrir sér ólíkum sjónarmiðum og menningarheimum. Farið er í helstu hugtök bókmenntafræðinnar til að nemendur hafi tök á að beita þeim í umræðu um bókmenntir. [3]

Að lokum

Í stuttu máli eru helstu breytingarnar sem vinnuhópurinn leggur til þessar: Aukin áhersla á ritun, talað mál og lestur. Stafsetningarkennsla kemur að langmestu leyti í hlut grunnskólans og setningafræði verður aðeins kennd í framhaldsskóla. Rökfærsluritgerð í grunnskóla leggur línur fyrir breyttar áherslur á því skólastigi. Málfræðikennsla fer fram í öllum áföngum framhaldsskóla. Í 9. bekk er mikil málfræðiáhersla enda þurfti að þjappa námsefni þar verulega. Hlustun er gert hátt undir höfði í grunnskóla enda er hún grunnurinn að öllu námi. Meiri áhersla er lögð á hópvinnu og að þjálfa samskipti og samstarf en áður hefur tíðkast.

Ljóst er að ef uppfylla á kröfur menntamálaráðuneytis um að bæta munnlega og skriflega færni nemenda þurfa róttækar og kostnaðarsamar aðgerðir að koma til, s.s. endurmenntun kennara, aukin námsefnisgerð, fækkun nemenda í hóp, lækkuð kennsluskylda og fleiri kennslustundir. Það er brýnt að mæta þessum kröfum og endurskoða námskrár af og til – líta í eigin barm í leiðinni og spyrja sig spurninga um áherslur í námi og kennslu. Íslenskukennsla er frekar íhaldssöm í eðli sínu eins og sést á þessum tillögum.

Bókmennta- og málfræðikennsla hefur verið og er enn menntapólitískt mál. Sérstaklega tel ég að málfræðikennsla sé komin út á hálan ís. Bæði þarf að skoða á hvaða aldursstigi málfræðikennslan á að fara fram og ekki síður hvað á að kenna. Það er bæði gagnlegt og gaman að glíma við spurningar á borð við: Er beyginga- og orðmyndunarfræði nauðsynlegt fag, þ.e. eins og þessi fræði eru víðast kennd nú á dögum? Verða menn betur máli farnir ef þeir geta þulið upp forskeyti og viðskeyti? Hvað með málsögu? Er hún ekki bara háskólafag? Auðvitað er gott að allir viti haus og sporð á móðurmálinu en það má velta fyrir sér hvort nefjun og stóra brottfall sé brýn nauðsyn grunn- og framhaldsskólastigi. Eða fornyrðislag, hringhenda, sonnetta, tersína, hæka, svo ég nefni dæmi um kennslu eða námsefni sem lítið skilur eftir sig en byggist á gömlum hugmyndum um stúdentspróf, hefð og vana? Fallorð, sagnorð og smáorð stjórna t.d. furðu miklu í málfræðikennslu í grunnskólum landsins og miða við eina námsbók á ári. Við verðum að hætta stagli í málfræði og að beygja sagnir í kennimyndum án tilgangs eða heildarsýnar. Fall á nafnháttum, til hvers að læra það? Ættu nemendur ekki frekar að kunna fall og fallstjórn því það er samhengi tungumálsins sem er mikilvægt en ekki örlitlar einingar þess. Björn Guðfinnsson virðist vera alveg eins og Elvis Presley, enn á lífi!

Það er viðbúið og óskandi að tillögurnar gangi í gegnum mikla endurskoðun áður en endanleg námskrá verður til. Hópurinn hefði getað lagt til róttækari breytingar í móðurmálskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi en miðað við tímann og svigrúmið sem verkefnið fékk komst hann ekki lengra. Varðandi framhaldið á þessari vinnu væri best að námskrártillögurnar væru aðgengilegar á Netinu um hríð og að unnt væri að senda athugasemdir og fyrirspurnir á netfang. Gott væri að fá nokkra aðila til að veita umsögn um tillögurnar sem síðan yrði unnið úr. Námskráin yrði síðan birt á netinu í endanlegri gerð þannig að auðvelt væri að breyta og uppfæra í ljósi reynslu og nýrra aðstæðna.

Mín skoðun er sú að styttingaráformin séu e.t.v. ekki það besta sem fyrir okkur hefur komið en vissulega er tímabært að sópa aðeins í hornunum. Og það er samdóma álit vinnuhópsins að með réttu ætti fjöldi manns að sinna endurskoðun aðalnámskrár í fullu starfi árum saman en ekki fjórir kennarar í aukavinnu og hjáverkum. Það er því von mín að ríflegri tími og meiri mannskapur fáist til að sinna endanlegri gerð námskrárinnar – verkefni sem varðar alla framtíðarmenntun í landinu.

 

Aftanmálsgreinar

 1. Erindi flutt á málþingi um íslenskukennslu, Íslenska á tímamótum, sem haldið var í Kennaraháskóla Íslands 18. ágúst 2005.
 2. Í skýrslu starfshóps og verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytis segir að tilgangurinn sé að auka málvitund nemenda og bæta stafsetningu og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti. Sömu áherslur koma fram í fundargerð starfshóps um námskrár og gæðamál vegna styttingar náms til stúdentsprófs sem haldinn var 15. desember 2003 með móðurmálskennurum (sjá fundargerð).
 3. Í fyrstu tveimur áföngunum í framhaldsskóla er áhersla lögð á að leiðbeina nemendum um samvinnu, tjáningu og vinnubrögð og haldið áfram að byggja á þeim grunni sem lagður var í grunnskóla auk þess sem ný fræðileg þekking bætist við. Í síðari áföngum vegur fræðileg umfjöllun þyngra þar sem nemendur nýta sér þá færni í vinnubrögðum sem þeir hafa öðlast til að fjalla um námsefnið. Vekja má athygli á að kjarnaáfangar í íslensku eru mjög efnismiklir samkvæmt tillögunum og því gæti raunin orðið sú að meira verði skorið niður eða þá að meirihluti nemenda þyrfti að taka tvo hægferðaráfanga í stað áfangans ÍSL203.