Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 22. nóvember 2005

Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir

Notkun upplýsinga- og
samskiptatækni í sex leikskólum

Hér er lýst rannsókn á notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum sem sýnt hafa tækninni áhuga og beitt henni í starfi. Gagna var aflað með heimsóknum í skólana og viðtölum við leikskólakennara auk þess sem ýmis gögn frá skólunum, svo sem heimasíður og skýrslur, voru athuguð. Hver skóli leitaði leiða til að nýta tæknina á markvissan hátt og í samræmi við eigin áherslur. Einn einbeitti sér að menntun starfsfólks á þessu sviði, annar að þróun sameiginlegs vefsvæðis fyrir nokkra leikskóla og aðrir að starfi með börnum. Víða mátti sjá að ákveðnir starfsmenn voru driffjaðrir á þessu sviði. Stuðningur leikskólastjóra á hverjum stað var einnig mjög mikilvægur. Mörg góð dæmi voru um hvernig tæknin var notuð í skapandi starfi og námi með börnum, svo sem við að búa til myndir, sögur, bæklinga og myndband. Tölvuleikir og forrit þóttu styðja við nám og börn kynntust lífi utan skólans á nýjan hátt í gegnum Netið. Vefir og tölvusamskipti hafa gjörbreytt aðgengi foreldra og annarra að upplýsingum um starf skólanna, leikskólakennarar hafa stuðning af tækninni við undirbúning, jafnvel heima fyrir og nota hana til að gera starfið sýnilegt. Höfundar eru lektor og aðjúnkt við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Þessi rannsókn er hluti af rannsóknarverkefninu NámUST þar sem notkun upplýsinga-og samskiptatækni (UST) [1] á öllum skólastigum hér á landi var athuguð. Í þessum hluta rannsóknarinnar var notkun UST athuguð í sex leikskólum sem hafa sýnt áhuga á að nota hana í starfi sínu. Tilgangurinn með því var að safna saman upplýsingum um reynslu þeirra sem aðrir leikskólakennarar gætu dregið lærdóm af.

Í greininni er fjallað um niðurstöður helstu rannsókna sem gerðar hafa verið á notkun UST í leikskólastarfi. Síðan er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á því hvernig UST var notuð í sex leikskólum hér á landi. Fjallað er um hvernig leikskólarnir tölvuvæddust, um þekkingu starfsfólks á þessu sviði og þann stuðning sem það fékk. Þá er fjallað um hvernig kennarar nýttu UST í starfi sínu og í starfinu með börnunum og reynsluna af því.

1 Fræðilegur bakgrunnur

Í Aðalnámskrá leikskóla sem kom út árið 1999 er sagt að börn eigi að nota tölvur í leikskólum og rætt um ástæður þess. Rökstuðningur þar er fyrst og fremst sá að börn þurfi að kynnast þessari tækni þar sem áhrifa hennar gæti víða í samfélaginu og hún skipi orðið stóran sess í daglegu lífi manna. Einnig þurfi að jafna uppeldisskilyrði þeirra barna sem ekki hafa aðgang að tölvum heima og leita jafnvægis milli stúlkna og drengja í leik með tölvur (bls.28).

Þrátt fyrir þessi ákvæði í Aðalnámskránni hefur umræða um það hvort tölvur eigi heima í leikskólastarfi ekki farið hátt hér á landi, hvorki meðal leikskólakennara, foreldra né annarra sem koma að uppeldi ungra barna. Ekki hafa verið gerðar neinar viðamiklar rannsóknir á viðhorfum foreldra eða kennara til þessa hér á landi en nokkrar minni kannanir gefa vísbendingar um viðhorf þeirra til tölvunotkunar leikskólabarna. Í einni slíkri könnun athuguðu Anna M. Hreinsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir (2000) viðhorf foreldra til tölvunotkunar leikskólabarna og voru yfir 70% þeirra hlynntir tölvunotkun í leikskóla. Í tveimur öðrum könnunum kom fram að starfsfólk leikskólanna var hlynnt notkun UST í leikskólum (Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Ragna Egilsson 2000, Anna Magnea Hreinsdóttir 2004). Í nýlegri bandarískri rannsókn (Rideout, Vandewater og Wartella 2003), þar sem athugað var hve mikið börn á aldrinum sex mánaða til sex ára notuðu tölvur heima, kom í ljós að tæpur helmingur þeirra hafði notað tölvur og 70% barna á aldrinum fjögurra til sex ára hafði notað tölvur og hafði aðgang að þeim heima. Lítið er vitað um tölvunotkun íslenskra barna á leikskólaaldri. Í fyrrnefndri rannsókn Önnu Magneu Hreinsdóttur (2004) kom fram í viðtölum við 12 börn að þau höfðu öll aðgang að tölvu heima sem þau sögðust flest vinna í ein og sjálf og fannst þeim mjög gaman að vinna í tölvum.

Með allt þetta í huga er ekki úr vegi að athuga hvað rannsóknir, sem gerðar hafa verið á notkun og gildi UST í leikskóla, hafa leitt í ljós og hvað þær hafa snerta marga náms- og þroskaþætti. Verður hér fjallað um þá helstu.

Ýtir tölvunotkun undir þroska barna?

Í auglýsingum um hugbúnað fyrir ung börn er gjarnan gert mikið úr gildi forritanna fyrir nám og þroska barna. Ýmsar rannsóknir (Alexandersson, Linderoth og Lindö 2001, Clements 1994, Cardelle-Elawar og Wetzel 1995, Denning og Smith 1997, Haugland og Wright 1997, Matthews 1997, Schacter 1999) sýna að tölvunotkun geti ýtt undir þroska barna á ýmsum sviðum. Þetta er þó háð því hvers kyns hugbúnaður er notaður. Í bandarískri rannsókn kom fram að einungis 25% alls hugbúnaðar þótti vænlegur til að ýta undir þroska barna (Haugland og Wright 1997) en gengið var út frá ákveðnum viðmiðum sem falla ágætlega að áherslum Aðalnámskrár leikskóla (1999) um þroskandi viðfangsefni barna. Þegar skoðað er hvers konar forrit höfða til barna kemur í ljós að það sem skiptir þau mestu máli er hvort forritin bjóði upp á gagnvirkni (Buckleiter 1998). Menn hafa gagnrýnt það að þeir sem hanna forrit skorti oft kennslufræðilega þekkingu sem þurfi að vera grunnur fyrir hönnun forrita. Tölvuforrit bjóða þó upp á að vinna að viðfangsefnum með ýmsum leiðum sem eru nýstárlegar og geta verið góður stuðningur við nám eftir hefðbundnari leiðum.

Ýmsir telja að ýmis forrit og tölvuvinna geti verið lestrarhvetjandi (Shilling 1997). Forritunum fylgir stundum talgervill og þá geta börn heyrt hvernig þeir stafir sem þau slá inn á lyklaborðið og samsetning þeirra hljómar. Einnig ráði börn fyrr við þá aðgerð að ýta á takka á lyklaborði til að fá fram staf heldur en að skrifa sjálf stafi á blað. Á svipaðan hátt geta börn unnið með tónlist í ýmsum forritum. Þó þau kunni ekkert í tónfræði eða á hljóðfæri geta þau sett saman nótur og hljóð og heyrt hvernig samsetningin hljómar. Teikniforrit gefa börnum einnig tækifæri til að vinna á eigin forsendum og eru ýmsir möguleikar sem hægt er að nýta sér þar sem erfitt væri að ná fram með öðrum leiðum.

Önnur tölvuforrit geta skapað aðstæður fyrir börn sem erfitt væri að koma í kring í raunveruleikanum, eins og að sjá heiminn frá sjónarhóli fugls sem flýgur um eða þess sem keyrir bíl. Forrit af þessum toga eru margvísleg og í tölvu geta börn fengist við nám um allt milli himins og jarðar, t.d. um líkamann, samfélagið, veröldina, tungumál eða stærðfræði. Tölvan getur veitt góðan stuðning í því námi (Haugland og Wright 1997) og svo virðist sem að tölvunotkun skapi oft jákvætt viðhorf barna til náms (Schacter 1999).

Rétt er að hafa það í huga þegar rannsóknir á námi og þroska barna eru skoðaðar að þetta er flókið fyrirbæri sem oft er erfitt að skýra með einum þætti eins og þeim að börn hafi notað tölvur. Oft er ýmislegt annað í umhverfi barnanna og því samhengi sem t.d. tölvurnar eru notaðar í sem skiptir ekki minna máli.

Hvernig má tengja tölvunotkunina sem best við leik barnanna?

Rannsóknir margra (Haugland og Wright 1997, Appelberg og Eriksson 1999, Jessen 1995) sem athugað hafa tölvunotkun barna í leikskóla sýna að best sé að hafa tölvurnar inni á leiksvæði barna en ekki í sérstökum tölvuherbergjum. Þannig nálgist börn þær frekar á sínum eigin forsendum. Þær verði þá gjarnan hluti af leik þeirra; stundum séu forritin notuð eins og gert er ráð fyrir en stundum finni börnin sínar eigin leiðir til að nýta forritin. Einnig noti þau þá stundum tölvurnar sem leikfang og geta þau þá orðið að einhverju öðru en tölvum, líkt og annað sem börn laga að hlutverkaleik sínum. Tölvurnar verða þannig eins og annað efni leikskólans uppspretta leiks af ýmsum toga.

Áhrif tölvunotkunar á samskipti barnanna

Sá ótti margra um að börn einangrist við tölvunotkun virðist ástæðulaus ef litið er til niðurstaðna rannsókna sem gerðar hafi verið á samskiptum barna við notkun UST. Rannsóknir (Jessen 1995, Sólveig Jakobsdóttir 1996, Svenson 1995, Haugland og Wright 1997, Clements 1998, Appelberg og Eriksson 1999) sýna að mikil samskipti eiga sér stað við tölvuvinnuna. Jessen (1995) segir að það hve fáar tölvur hafa verið á leikskólum hafi gert það að verkum að börn hafi aldrei setið ein að tölvunni heldur hafi þau þurft að vinna saman. Reynslan af þessari samvinnu hafi beint athygli rannsakanda að þeim möguleikum sem samvera og samvinna barna feli í sér. Börn sækjast eftir því að vera saman kringum tölvuna og hjálpast að. Sá sem stjórnar músinni ræður oft mestu en hin börnin taka þátt með því að koma með tillögur um aðgerðir og hugmyndir þróast gegnum samskipti barnanna. Yngri börnin fylgjast gjarnan með þeim sem eldri eru og læra af því. Ef fleiri tölvur eru í leikskóla er gott að hafa þær saman í hnapp þannig að börnin geta séð hvað hinir eru að gera og skipst á hugmyndum og góðum ráðum.

Er kynjamunur í notkun tölvu í leikskóla?

Kynjamunur  meðal barna á leikskólaaldri virðist ekki vera mikill hvað snertir áhuga á því að nota tölvur (Clements og Nastasi 1993, Svenson 1995, Appelberg og Eriksson 1999). Munurinn virðist frekar snúast um hvers konar forrit börnin kjósa að vinna með. Leikir sem byggja á keppni og þar sem börnin eru verðlaunuð virðast höfða frekar til drengja en teikniforrit frekar til stúlkna (Kristín Norðdahl 1998, Anna Magnea Hreinsdóttir 2004). Útlit tölvuleikja höfðar einnig misjafnlega til kynjanna. Í rannsókn á þessu (Sólveig Jakobsdóttir, Krey og Sales 1994) í yngri bekkjum grunnskóla, kom í ljós að stelpur vildu að myndir í forritum væru friðsamlegar og helst af konum, dýrum og plöntum í vinalegu umhverfi. Strákarnir voru hrifnari af karlmönnum, farartækjum og vélum og vildu að í þeim væri einhver spenna og jafnvel hætta.

Þegar börnin verða eldri má sjá kynjamun á tölvuáhuga þeirra og því hvernig þau lýsa eigin tölvufærni. Í þeim tilvikum þar sem unglingar hafa lítinn aðgang að tölvum heima virðast drengir meta færni sína meiri en stúlkur. Þessi munur á sjálfmetinni færni kynjanna virðist vera lítill um 10–12 ára aldurinn en síðan aukast (Sólveig Jakobsdóttir 2000). Miðað við niðurstöður þessara rannsókna má ætla að mikilvægt sé að börn kynnist þessari tækni á unga aldri. Þannig megi hugsanlega stuðla að jafnari tölvunotkun stráka og stelpna síðar meir og því að bæði kynin noti þær á sínum forsendum.

2 Rannsóknaraðferðir

Þessi rannsókn er eigindleg. Ákveðin tilvik eru athuguð vel til að varpa ljósi á þau þannig að aðrir megi af þeim læra. Ekki er ætlunin að álykta neitt um aðra leikskóla út frá niðurstöðum rannsóknarinnar.

Rannsóknarspurningar

Af rannsóknarspurningum sem voru sameiginlegar í NámUST-verkefninu öllu snerist rannsókn okkar einkum um eftirfarandi:

Hvað hefur notkun UST í för með sér fyrir nemendur og nám, fyrir kennara og kennslu
og fyrir skóla sem stofnanir?

Okkar sértæku rannsóknarspurningar í þessu verkefni voru eftirfarandi:

  • Hver voru tildrög þess að farið var að vinna með UST í þessum leikskólum?

  • Hvað þarf til að styðja við bakið á starfsfólki sem er að byrja að taka UST inn í leikskólastarfið?

  • Hverjir eru helstu kostir og gallar við að nota UST í leikskólastarfi að mati leikskólakennara?

  • Hvernig nota leikskólakennarar UST í starfi?

  • Hvernig er UST notuð í starfi með börnum í leikskólunum?

Val þátttakenda

Þeir sex leikskólar sem valdir voru til að rannsaka voru skólar sem voru þekktir fyrir áhugaverða nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni í leikskólastarfi og/eða höfðu sótt um styrk til Þróunarsjóðs leikskóla hjá Menntamálaráðuneytinu til að vinna á þessu sviði. Þessir leikskólar eru:

Klappir og Iðavöllur á Akureyri,

Sólbrekka og Mánabrekka á Seltjarnarnesi

og Hjalli og Smáralundur í Hafnarfirði.

Gagnaöflun og greining

Eftirfarandi aðferðir voru notaðar til að afla gagna fyrir rannsóknina:

Viðtöl voru tekin við þá aðila sem best voru inni í tölvumálum í hverjum leikskóla.

Vettvangsathuganir voru gerðar í leikskólunum þar sem fylgst var með vinnu barnanna í tölvum þar sem það átti við. Teknar voru myndir af börnunum og þeirri aðstöðu sem var fyrir hendi, bæði aðstöðu barna og starfsfólks.

Skoðuð voru fyrirliggjandi gögn þar sem finna mátti upplýsingar um þennan þátt leikskólastarfsins; vefsíður, skýrslur, námskrár o.fl.

Viðtölin voru svokölluð opin viðtöl og voru í formi frjálslegra viðræðna en þó voru ákveðnar spurningar hafðar til hliðsjónar. Viðtölin voru tekin upp á minidisktæki og afrituð orð fyrir orð. Viðtölin voru lykluð út frá þeim spurningum sem lagðar voru fyrir og öðru sem kom fram í þeim. Farið var yfir lyklunina aftur og endurlyklað þar sem tilefni var til. Vettvangsathuganir voru skráðar niður jafnóðum í heimsóknunum og hafðar til hliðsjónar ásamt myndum sem teknar voru á vettvangi. Þetta ásamt ýmsum öðrum fyrirliggjandi gögnum frá leikskólunum sem nefnd voru hér að framan var notað til að fylla inn í þá mynd sem fékkst úr viðtölunum.

3 Tölvuvæðing leikskólanna sex

Upphaf og þróun starfsins

Ákvæði um að taka beri tölvur inn í leikskólastarf kom fram í Aðalnámskrá leikskóla 1999. Þrír þeirra leikskóla sem við athuguðum voru þá þegar byrjaðir að nota tölvur með börnum en það starf hófst á árunum 1997 og 1998. Í einum þeirra byggðist starfið í upphafi aðallega á reynslu aðstoðarleikskólastjóra af starfi með eigin börnum. Hinir leikskólarnir tveir leituðu aðstoðar hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig í tölvukennslu fyrir ung börn. Í upphafi var í þessum skólum lögð áhersla á að kenna börnunum á tölvuna sem tæki. Fljótlega kynntist starfsfólkið öðrum hugmyndum þar sem áherslur voru aðrar og hafði það áhrif á þróun starfsins. Farið var að nota tölvurnar á meira skapandi hátt.

Leikskólakennararnir hafa nýtt sér reynslu annarra og leitað að fyrirmyndum meðal annars með því að heimsækja skóla erlendis sem vinna með upplýsinga- og samskiptatækni á þroskandi hátt. Margir kennararnir hafa einnig kynnt sér hugmyndafræði og kenningar fræðimanna um hvernig tölvur geti komið inn í leikskólastarfið þannig að það styðji við það starf sem fyrir er og sé í samræmi við hugmyndir sem eru ríkjandi í leikskólauppeldi.

Þeir leikskólar sem notuðu UST í starfi með börnum leituðu víða fanga og fóru ýmsar leiðir við að byggja upp tölvustarfið. Til þess að vel tækist til var greinilegt að áhugi stjórnenda skipti meginmáli en þeir voru alls staðar mjög áhugasamir og studdu vel við starfið. Einnig voru stundum fengnir utanaðkomandi sérfræðingar sem veittu dygga aðstoð.

Tölvuþekking og verkaskipting starfsfólks

Í leikskólum þar sem unnið hefur verið mikið með tölvur má sjá hvernig ákveðnir starfsmenn, sem voru mjög áhugasamir um tölvunotkun, hafa verið driffjaðrir í starfinu og hrifið aðra með sér. Misjafnt var eftir leikskólum hvernig vinnan í tengslum við notkun UST skiptist niður á starfsfólk leikskólanna. Sums staðar voru það allir eða langflestir starfsmenn sem tóku þátt í þessu starfi. Annars staðar voru það ákveðnir starfsmenn sem sáu um þetta að mestu. Fram kom að hætta var á að þekkingin hyrfi úr skólanum ef aðeins fáir kæmu að tölvustarfinu og þeir hættu að vinna í leikskólanum, því væri betra að sem flestir kæmu að þessu starfi. Yngra starfsfólk var öruggara á sviði tölvumála en þeir sem eldri voru, en hinir síðarnefndu sýndu því þó áhuga. Fram kom að tölvur og búnaður sem honum fylgdi vildi bila og voru leikskólakennarar vanmáttugir gagnvart því. Sumir þurftu að treysta á utanaðkomandi aðstoð til að laga og uppfæra tölvurnar en á öðrum stöðum bjuggu starfsmenn yfir það góðri þekkingu á tölvum að þeir gátu annast margt sjálfir. Þetta er þáttur sem skiptir verulegu máli fyrir starfið.

Menntun starfsfólks

Fróðlegt er að skoða hvaða leiðir voru farnar til að stuðla að menntun starfsfólks á sviði tölvunotkunar. Viðmælendur okkar voru sammála um mikilvægi þess að nýta þá þekkingu sem starfsfólk byggi yfir og að þekkingin dreifðist þess á milli. Fólk þyrfti jafnframt að fá tækifæri til að læra ákveðin atriði jafnt og þétt þegar það þyrfti á þeim að halda og í samræmi við þá þekkingu sem það byggi yfir. Þetta er í samræmi við kenningar Vygotskys (1978) um að fólk læri gegnum samskipti við annað fólk og af þeirri menningu sem það deilir með öðrum. Utanaðkomandi námskeið þóttu oft ekki nýtast vel en þó kom fyrir að námskeið sem hluti starfsfólks sótti kæmu öðrum til góða.

Greinilegt er að starfsfólk fann til óöryggis og vildi fá stuðning og stefnumótun að ofan enda UST orðinn þáttur sem leikskólum ber að sinna samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla. Hins vegar er einnig ljóst að starfsfólki finnst mikilvægt að í hverjum leikskóla ákveði menn hvernig þeir vilja nota þessa tækni. Þó má spyrja hvort starfsfólk þurfi ekki að hafa einhverja grunnþekkingu til að öðlast nægilegt sjálfsöryggi til að halda áfram og byggja upp á eigin forsendum.

4 Viðhorf leikskólakennaranna til tölvunotkunar barna

Í uppeldisstarfi leikskóla er lögð áhersla á að börn fái tækifæri til að kynnast umhverfi sínu sem best af eigin raun með því að skoða, snerta og prófa. Þeir sem gagnrýna tölvunotkun í leikskólastarfi nefna gjarnan að vinna í tölvum veiti börnum ekki tækifæri til þessa.

Bandaríski uppeldisfræðingurinn Harriet Cuffaro (1984) gagnrýndi tölvunotkun í leikskóla. Hún taldi ekki vera nægilega ljós tengsl milli aðgerða barna og þess sem gerðist á skjánum. Þau ættu því erfitt með að átta sig á hvernig hlutirnir virkuðu og greina á milli raunveruleika og ímyndunar. Þótt þessi gagnrýni sé tuttugu ára gömul og tölvunotkun hafi aukist gífurlega eru þetta raddir sem enn heyrast. Í sænskri rannsókn á UST í leikskólastarfi (Ljung-Djärf 2004) kom fram að kennurum fannst tölvunotkun ekki geta talist eitt af mikilvægustu viðfangsefnum leikskólans og sjaldan var talað um tölvuna sem mikilvæga í sjálfu sér. Frekar var litið á hana sem ágætis afþreyingu inn á milli.

Ljung-Djärf (2004) hefur flokkað tölvunotkun barna eftir viðhorfum leikskólakennara til hennar í þrjá flokka því greinilegt er að viðhorf þeirra til mikilvægi tölvunotkunar barna hafði áhrif á hvernig til tókst í starfinu.

  • Í fyrsta lagi eru það viðhorf þar sem litið er á tölvunotkun sem ógn við mikilvægara starf í leikskólanum.

  • Í öðru lagi þar sem litið er á tölvunotkun sem möguleika í því starfi sem er til staðar.

  • Í þriðja lagi þar sem litið er á tölvunotkunina sem mikilvægan þátt í starfsemi leikskólans.

Það sem við sáum í leikskólunum og þær upplýsingar sem við fengum í viðtölum okkar við leikskólakennara mætti flokka á svipaðan hátt. Einn viðmælenda okkar nefndi að í leikskólum væri margt sem væri mikilvægara að vinna að en tölvustarf. Viðhorf sumra leikskólakennaranna sem við töluðum við samrýmdist að ýmsu leyti því viðhorfi að líta á tölvunotkun sem möguleika sem börnin gætu notað ef þau vildu, af eigin rammleik eða með hjálp annarra barna. Viðhorf flestra féllu þó best að þeim flokki þar sem litið er á tölvunotkun sem mikilvægan þátt í leikskólastarfi. Tölvur voru nýttar á margvíslegan hátt og kennarar tóku virkan þátt í því þótt samvinna barnanna væri í hávegum höfð og áhersla lögð á að þau fengju að prófa sig áfram. Ólíkt leikskólunum sem Ljung-Djärf rannsakaði voru þetta leikskólar sem sýnt hafa UST áhuga á einhvern hátt og endurspeglaðist það vel í viðhorfum leikskólakennaranna til notkunar hennar.

5 Upplýsinga- og samskiptatækni í starfi starfsfólks

Starfsfólk leikskólanna notaði víða tölvur til að halda utan um starfið. Stjórnendur notuðu ýmis rekstrarforrit til að auðvelda sér vinnuna og starfsfólk notaði gjarnan tölvur til að skipuleggja starf sitt. Það vann þá með ýmis verkfæraforrit eins og ritvinnsluforrit og myndvinnsluforrit. Stundum fólst tölvuvinnan einnig í því að gera starfið í leikskólunum sýnilegt.

Með tilkomu tækja sem tengjast tölvunni, eins og stafrænna myndavéla og prentara, varð auðvelt að taka mikið magn ljósmynda af leikskólastarfinu og birta samdægurs með því að setja þær inn á vef skólans eða láta þær prýða veggi. Viðmælendur okkar voru mjög hrifnir af því að geta með tilkomu tölvutækni gert leikskólastarfið sýnilegt á auðveldan hátt og komið ýmsum upplýsingum til skila með þessu móti í texta og myndum. Í einum leikskólanna sem við skoðuðum notaði starfsfólk myndir mikið á þennan hátt til að skoða starf sitt og barnanna og greina það. Þetta er svipað og gert er í leikskólum sem kenndir eru við Reggio Emilia á Ítalíu og þekktir eru fyrir markvisst og árangursríkt leikskólastarf. Þar er mikil áhersla lögð á skráningu, bæði með ljósmyndum, skrifum og upptökum í þeim tilgangi að gera starfið sýnilegt og ekki síst til að skoða eigið starf og meta það.

Í einum leikskólanna þar sem tölvur voru lítið notaðar í starfi með börnum notfærði starfsfólk sér tölvutæknina á nýstárlegan hátt. Það vann undirbúningsvinnuna sína heima í tölvum og gat komist inn í öll vinnugögn á Vefnum sem vinna þurfti með.

Margir leikskólakennararnir nýttu Netið til að afla sér upplýsinga og var það gjarnan gert í tengslum við viðfangsefni sem þeir voru að vinna að með börnunum.

Heimasíður

Allir leikskólarnir nema einn voru með heimasíðu á Netinu en misjafnt var hversu mikið var í þær lagt. Sumir fylgdust með heimasíðum annarra leikskóla en þær gegndu víða því hlutverki að gera starfið sýnilegt fyrir alla sem vildu kynna sér það.

Vefsvæði Hjallaskólanna þjónaði fleiri leikskólum sem starfa samkvæmt sömu hugmyndafræði. Vefsvæðið var tengt gagnagrunni og höfðu leikskólakennarar einir aðgang að sínum gögnum. Foreldrar barnanna fengu lykilorð til að komast inn á síður með umfjöllun um starf barna og myndum af þeim. Aðrir höfðu takmarkaðri aðgang að upplýsingum um einstök börn. Mikil vinna var lögð í vef Iðavalla og má þar meðal annars sjá ítarlega umfjöllun um starf barnanna í tengslum við ýmis viðfangsefni. Vefurinn hlaut þriðju verðlaun í evrópskri keppni um framúrskarandi UST verkefni á öllum skólastigum þannig að ljóst er að í þessum hópi skóla sem við athuguðum eru skólar í fremstu röð á þessu sviði.

6 Upplýsinga- og samskiptatækni í starfi með börnunum

Tímastjórnun og áhugi barnanna

Misjafnt var hvernig tölvustarf var skipulagt með börnunum í leikskólunum. Tölvur voru gjarnan notaðar í hópastarfi og valstundum en einnig var dæmi um að tölvuvinna væri gefin frjáls.

Sums staðar voru börnunum sett tímamörk varðandi tölvunotkun, meðal annars vegna þess að sá heildartími sem ætlaður var í þennan þátt var takmarkaður og reynt var að sjá til þess að öll börn kæmust að. Sums staðar voru notuð tímaglös til þess að börnin gætu sjálf fylgst með tímanum. Annars staðar voru börnin sjálf látin búa til reglur um hvernig skiptingu tíma við tölvuvinnu skyldi háttað. Þar sem börnum var skammtaður tími þurftu þau ekki að nýta hann allan. Á einum stað, þar sem ekki er unnið samkvæmt valkerfi því sem er algengt í leikskólastarfi, réðu börnin sjálf hvort, hvenær og hversu lengi þau ynnu í tölvum. Reynslan sýndi að það varð aldrei meira en klukkutími.

Áhugi barnanna á tölvunotkun var misjafn líkt og á við um önnur viðfangsefni leikskólans. Viðmælendur okkar voru þó sammála um að hann væri háður því hvort og hvernig viðfangsefnin voru kynnt fyrir börnunum. Áhuginn jókst gjarnan eftir því sem þau kynntust möguleikum forritanna betur. Einnig kom fram að áhugi væri mikill þegar ný forrit voru tekin í notkun en dvínaði síðan hjá sumum þegar nýjabrumið væri farið af forritunum. Sum börn virtust vera hálffeimin við tölvur og var það helst ef þær voru þeim framandi. Sú feimni fór yfirleitt fljótt af þeim þegar kennari sýndi þeim hvað hægt væri að gera og tók þátt í tölvuvinnunni með þeim. Þetta er í samræmi við rannsókn Ljung-Djärf (2004) um að það hvernig tölvurnar eru kynntar börnunum ráði miklu um áhuga þeirra og notkun.

Kynjamunur

Viðmælendur okkar voru sammála um að stákar og stelpur sýndu tölvum jafnmikinn áhuga sem ber saman við niðurstöður margra annarra rannsókna (Clements og Nastasi 1993). Sumir nefndu þó að stelpur væru seinni í gang og strákar fljótari að tileinka sér tölvutæknina. Þó kom fram að þetta hefði jafnvel verið meira áberandi fyrir nokkrum árum síðan, stelpur væru orðnar sjálfsöruggari. Þó að strákar væru oft fljótari að læra á alla möguleika forritanna notuðu stelpurnar þau oft á markvissari hátt til að vinna að því sem þær vildu gera. Einhverjir nefndu að kynin ynnu dálítið ólíkt í forritunum, t.d. teikniforritum og að stelpur hefðu jafnvel meiri áhuga á þeim en strákar. Þetta styðja rannsóknir annarra (Svenson 1995, Appelberg og Eriksson 1999, Anna M. Hreinsdóttir 2004) eins og áður er getið.

Staðsetning tölva

Í leikskólunum voru tölvurnar alls staðar inni í leikrými barnanna. Í tveimur leikskólanna voru þær í upphafi hafðar í sérherbergi og var þá kennsla á tölvur mjög stýrð og áherslan á að kenna börnunum á tölvuna sem tæki. Núna var það skoðun viðmælenda okkar að hlutverk þeirra væri að kenna börnum ýmsa möguleika þegar þau þyrftu á að halda og einnig þegar tekin væru inn ný forrit eða ný viðfangsefni. Þau voru því ekki látin afskiptalaus heldur reynt að hjálpa þeim með það sem þau þurftu á að halda hverju sinni.

Fram kom í rannsókninni að það að hafa tölvur inni á leiksvæði barna hvatti þau til að nýta hana á margvíslegan hátt. Hún varð þá oft hluti af leik þeirra. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra (Haugland og Wright 1997, Appelberg og Eriksson 1999, Jessen 1995) sem hafa athugað tengsl staðsetningar og notkunar á tölvum í leikskólum. Stundum notuðu börnin tölvuna til að gera ýmislegt sem þau nýttu sér í leik sínum, eins og að skrifa stutt skilaboð. Einnig löguðu þau tölvuna stundum að leik sínum og hún gat þá jafnvel orðið eitthvað allt annað en tölva í hlutverkaleik þeirra, t.d. ritvélin í skrifstofuleik, geimskip eða stjórntækin í sjúkrabíl og það jafnvel þó slökkt væri á henni. Auk þess notuðu þau ekki tölvuforrit bara á þann veg sem gert var ráð fyrir heldur fundu stundum sínar eigin leiðir. Eins og að nota strokleðrið í teikniforritinu sem blýant eða penna til að teikna mynd á litað blað eða búa til bakgrunn í stimplaforriti og færa þar persónur um skjáinn eins og í alvöru tölvuleik. Þau litu ekkert öðruvísi á tölvuna en önnur leikföng og verkfæri í leikskólanum. Þetta er í samræmi við niðurstöður Jessen (1995) þar sem fram kom hve auðvelt börn eiga með að taka tölvur inn í leik sinn og að þau líta ekki á forritin sem efni sem aðeins er hægt að nota á einhvern ákveðinn hátt eins og okkur fullorðnum er gjarnt að gera.

Samskipti og samvinna barna

Í umræðunni um tölvunotkun barna kemur fram að margir óttast að börn festist við tölvunotkunina eða einangrist. Sú var ekki raunin að mati viðmælenda okkar. Þeir sögðu samvinnu vera mikla við tölvurnar. Börn sóttust eftir því að vinna saman í tölvum og sums staðar í samhliða leik hvort í sinni tölvunni. Þau miðluðu þá gjarnan uppgötvunum á milli sín og þeirri þekkingu sem þau öðluðust smám saman. Í öðrum rannsóknum (Svenson 1995, Sólveig Jakobsdóttir 1996, Haugland og Wright 1997, Clements 1998, Appelberg og Eriksson 1999) hafa menn einnig komist að því að við tölvunotkun séu samskipti og samvinna barna mikil. Jessen (1995) talaði um að það hve fáar tölvur voru í leikskólum hafi ýtt undir samvinnu barnanna og það hafi vakið athygli rannsakanda á þeim möguleikum í námi sem samvera og samvinna barna fæli í sér. Viðmælendur okkar sögðu eins og Jessen að börn fylgdust gjarnan með því sem aðrir væru að gera í tölvum, kæmu með athugasemdir og ábendingar og þeir sem kynnu minna lærðu oft heilmikið með því að fylgjast með hinum vinna. Börn væru dugleg að nýta sér aðstoð þeirra barna sem kynnu meira og lærðu þannig hvert af öðru. Einn viðmælenda okkar benti á að börn sem hefðu tölvuþekkingu en byggju ekki yfir mikilli félagslegri færni ættu það til að blómstra í þessu nýja hlutverki.

7 Viðfangsefni barnanna

Unnið var með upplýsinga- og samskiptatækni á ýmsan hátt í þeim leikskólum sem við skoðuðum og má segja að notkunin hafi verið þrenns konar. Börnin notuðu tilbúin verkefni í formi tölvuleikja og kennsluforrita, þau notuðu tölvurnar einnig sem verkfæri og til að hafa samskipti við aðra og til upplýsingaröflunar.

Tilbúin verkefni

Í fyrsta lagi má nefna notkun tölvuforrita sem byggjast á tilbúnum verkefnum. Dæmi um slíkt eru kennsluforrit og tölvuleikir fyrir börn. Forrit af þessu tagi voru alls staðar notuð en það var misjafnt hvað mönnum fannst um þau. Nokkrir viðmælendur okkar litu á þessi forrit sem leikfang sem hægt væri að læra ýmislegt af. Sum forritin gætu til dæmis orðið til að auka hugtakaskilning barna og það að þjálfast í að nota músina væri ágætis æfing fyrir samhæfingu augna og handa. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna ( Clements 1994, Cardelle-Elawar og Wetzel 1995, Denning og Smith 1997, Haugland og Wright 1997, Matthews 1997, Schacter 1999) sem sýna að tölvunotkun getur ýtt undir þroska barna á mörgum sviðum.

Nokkrir viðmælenda okkar töldu að þó að tölvuleikir væru oft afþreyingarefni þá kæmu þeir ágætlega heim og saman við þá hugmynd að líta megi á tölvuna sem leikfang. Flestum viðmælendum okkar fannst þó vanta góða tölvuleiki sem byggðu á hugmyndafræði leikskóla og þeirri trú að börn búi yfir mikilli getu. Þessi viðhorf ættu ekki að koma á óvart því Haugland og Shade sem gert hafa rannsóknir á þessu sviði komust að þeirri niðurstöðu að einungis 25% alls hugbúnaðar, sem ætlaður var ungum börnum, gæti talist þroskandi (Haugland 1998).

Tölvan notuð sem verkfæri

Í öðru lagi voru tölvurnar notaðar sem verkfæri til að vinna að ýmsum verkefnum. Þau forrit sem notuð voru til þessa eru opnari en þau sem nefnd voru hér á undan. Börn geta oftar ráðið ferðinni sjálf og hægt er að nota forritin á margvíslegan hátt. Tónlistar- og teikniforrit eru dæmi um þetta. Í ljós hefur komið að þegar börn skoða tónlistarforrit byrja þau gjarnan að spila sjálf í þykjustunni og herma eftir því sem á sér stað í forritinu (McDowall 1998). Þannig yfirfæra þau það sem þau kynnast í tölvunni í eigin hlutverkaleik. Í þeim leikskólum sem við skoðuðum voru unnin margmiðlunarverkefni, t.d. með því að setja saman texta, myndir, hljóð og jafnvel hreyfingu. Við þessa vinnu var oft notaður annar tæknibúnaður sem tengdur var við tölvuna, eins og hljóðnemar, stafrænar myndavélar, prentarar og skannar.

Dæmi um viðfangsefni þar sem tölvur voru notaðar sem verkfæri var þegar börn útbjuggu skjásýningar með ljósmyndum eða teikningum og bættu inn tali, tónlist eða öðrum hljóðum. Börn settu einnig saman texta og myndir í umbrotsforritum og bjuggu til kynningarbæklinga. Auk þess unnu börn að sögugerð í tölvum á ýmsan hátt og settu saman myndir og texta. Í einum leikskólanna unnu börn myndband þar sem þau klipptu myndbandið sjálf með aðstoð leikskólakennara. Það var greinilegt að viðmælendur okkar töldu tölvur bjóða upp á mikla möguleika við vinnu sem þessa. Auk þess fannst þeim að við slíka vinnu samræmdist tölvunotkun frekar hugmyndafræði leikskólans og hér fengju börnin tækifæri til að nota tölvur á skapandi hátt á sínum eigin forsendum.

Segja má að hér sé kominn nýr möguleiki til að nota ýmiss konar tækni til að taka myndir, hreyfimyndir, hljóð og vinna úr því á spennandi hátt. Tæknivinna sem áður var unnin af sérfræðingum er nú aðgengileg almenningi.

Tölvur notaðar til samskipta og upplýsingaöflunar

Í þriðja lagi voru tölvurnar notaðar til samskipta og til að leita upplýsinga á Netinu. Upplýsingaleitin tengdist oft verkefnum sem börnin voru að vinna að. Það kom sér oft vel að geta fengið upplýsingar strax þegar upp komu spurningar sem börnin vildu leita svara við, til dæmis að komast að því hvernig hlutir litu út. Hluti sem þau þurftu áður að leita sér upplýsinga um á bókasöfnum gátu þau nú einnig aflað sér upplýsinga um á Netinu. Í einum leikskólanna tóku börnin þátt í alþjóðlegu samskiptaverkefni þar sem þau gátu skoðað þau verkefni sem þau sendu sjálf inn auk verkefna frá 157 öðrum löndum. Þannig komust þau í snertingu við hinn stóra heim. Það er nýlunda að leikskólabörn á Íslandi hafi samskipti við börn hvaðanæva að á þennan hátt. Þau geta þannig kynnst ólíkri menningu og mismunandi aðstæðum barna. Þessir möguleikar tölvunnar, annars vegar til að leita sér upplýsinga og hins vegar til samskipta, eru dæmi um hvernig við hinir fullorðnu notum gjarnan tölvu- og upplýsingatækni. Börnin kynnast þarna ákveðnum möguleikum tölvutækninnar og það ætti að nýtast þeim vel.

Tölvupóstur var notaður í öllum leikskólunum en í mismiklum mæli. Foreldrum voru, svo að dæmi sé tekið, sendar myndir og stuttur texti og þannig gefið tækifæri til að fylgjast lítillega með því sem börnin voru að gera í leikskólunum. Á sama hátt sendu foreldrar kveðju frá sínum vinnustað. Flest börn höfðu aðgang að tölvupósti heima og lýstu ýmsir foreldrar yfir ánægju sinni með að geta nýtt tölvuna til samskipta. Fram kom hjá nokkrum viðmælendum okkar að með tölvupósti væri komin leið til samskipta sem erfitt væri að ná fram með öðrum hætti. Með tilkomu póstsamskiptanna væru menn farnir að senda stuttar kveðjur sín á milli sem yrðu til þess að börn og foreldrar hefðu betra tækifæri til þess að fylgjast aðeins með leik og starfi hvers annars þann tíma dags sem þau væru ekki saman.

Leikskólakennararnir töldu UST geta nýst vel í tengslum við foreldrasamstarf þó að mjög misjafnt væri eftir leikskólum hversu mikið tæknin væri nýtt í slíkt.

8 Í hverju felst tölvunotkun í leikskólastarfi?

Twining (2002) hefur þróað líkan sem gott er að nota til að átta sig á í hverju tölvunotkun í skólastarfi felst. Þetta líkan kallar hann Computer Practice Framework (CPF) eða tölvunotkunarramma eins og kalla mætti það á íslensku. Líkanið tekur til þess hve mikið tölvur eru notaðar í skólastarfi, hvernig þær eru notaðar til að ná fram markmiðum námskrár og hvernig notkun hefur áhrif á námskrána í víðasta skilningi þess orðs.

Það getur verið gagnlegt að velta fyrir sér hve mikið tölvur eru notaðar í leikskólanum. Ef skoðað er hve mikið börnin notuðu tölvur í leikskólunum sem athugaðir voru kemur í ljós að það var ekki langur tími. Börnin notuðu tölvur gjarnan í valstundum, sums staðar notuðu þau tölvurnar í frjálsum tíma þess utan og stundum voru tölvur notaðar í hópastarfi. Þarna er átt við þær stundir sem tölvurnar eru í notkun en ljóst er að það er ekki langur tími sem hvert barnanna notar tölvurnar. Menn ættu því ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að börnin sitji of lengi við tölvurnar eins og margir virðast gera.

Twining talar um að tölvur megi nota í skólastarfi á þrennan hátt. Í fyrsta lagi þegar börnin eru að kynnast notkun tölva og efla færni sína í að nota tækin og forritin. Í öðru lagi þegar tölvurnar eru notaðar sem námstæki til að ná fram markmiðum námskrár á ýmsum sviðum. Í þriðja lagi þegar tölvur eru hvorki notaðar til að styðja við nám á ýmsum sviðum né til að efla færni í að nota tæknina. Þá sé markmiðið með tölvunotkuninni eitthvað annað, t.d. að koma til móts við væntingar barna, foreldra eða einhverra annarra utanaðkomandi aðila. Einnig noti kennarar tölvurnar sem eins konar verðlaun fyrir börnin þegar þau hafi lokið öðrum verkefnum eða að börn fái að nota tölvur til að minnka álag á kennara meðan hann sinni hópi barna í öðrum verkefnum.

Eins og fram hefur komið var í sumum þeirra skóla sem byrjuðu snemma að nota tölvur í upphafi mikil áhersla lögð á að kenna börnunum á tækin og forritin. Viðfangsefnin skiptu minna máli og sérstakar kennslustundir voru skipulagðar til að hjálpa börnum að ná tökum á tækninni. Í þeim skólum, sem við skoðuðum, var ekki lengur lögð áhersla á þennan þátt heldur lærðu börnin það sem þau þurftu til að geta notað tækin og forritin til að vinna á eigin forsendum. Kennarar reyndu að hjálpa börnunum þegar þau þurftu á því að halda. Dæmi um slíkt var þegar eitt barnið var að skrifa nafnið sitt og kennarinn sýndi því hvernig ætti að gera bil milli orða. Eins kynntust þau því að nota myndbandsklippiforrit um leið og þau tóku þátt í að klippa myndband sem þau höfðu verið með í að taka upp. Færnin í að nota tæknina virtist aldrei markmið í sjálfu sér heldur leið til að ná fram öðrum markmiðum.

Það er einnig gagnlegt að skoða hvernig tölvur voru notaðar sem námstæki. Twining talar um að nota megi tölvur sem námstæki á þrennan hátt. Í fyrsta lagi að nota þær sem stuðning við nám (support), í öðru lagi til að víkka út nám (extension) og í þriðja lagi til að umbreyta námi (transformation).

Þegar tölvur eru notaðar sem stuðningur við nám eru námsmarkmiðin þau sömu og áður en námið er tölvuvætt á einhvern hátt, m.a. til að nemendur fái meiri þjálfun í ákveðnum viðfangsefnum eða aðferðum. Það má segja að stór hluti þeirra forrita sem notuð eru á leikskólum, þ.e.a.s. tölvuleikirnir, séu af þessari gerð. Í þeim er gjarnan verið að kenna börnum ýmislegt sem fellur undir námskrá leikskólans svo sem liti, tölustafi, bókstafi og ýmis hugtök. Mörgum leikskólakennurunum sem við töluðum við þóttu þjálfunarforrit ekki merkileg og söknuðu forrita sem gæfu meiri möguleika á að leita lausna og að börnin gætu gert meira sjálf. Eins töluðu sumir um að ýmislegt af því sem þarna væri verið að kenna væri betra og árangursríkara að læra á annan hátt, t.d. að læra hugtakið undir með því að fara undir eitthvað.

Í öðru lagi talar Twining um að tölvur séu notaðar sem námstæki til útvíkkunar á skólastarfi. Þá eru tölvur notaðar til að þróa getu barna til að læra og auka fjölbreytni í námsleiðum. Viðfangsefni námsins og/eða námsaðferðirnar verða öðruvísi en áður en þær breytingar væri þó hægt að gera án tölvunotkunar. Mörg af þeim verkefnum sem unnin voru í tölvum í leikskólunum sem við skoðuðum hefði hæglega verið hægt að vinna á annan hátt, án tölva. Tölvurnar auðvelda einungis þessar breytingar. Einn leikskólakennarinn sem við töluðum við tók sem dæmi að ferðamannabækling um Akureyri sem börnin unnu í leikskólanum hefði auðveldlega verið hægt að gera á annan hátt og án tölvu með því að líma myndir á spjald, skrifa texta við myndirnar og jafnvel ljósrita spjaldið að því loknu. Hins vegar auðveldar tölvan þessa vinnu og það kann að ýta undir að í hana er ráðist.

Í þriðja lagi talar Twining um að nota tölvur sem námstæki til að umbreyta námi. Þá er viðfang námsins og/eða námsferlið öðruvísi en áður og þær breytingar á náminu hefði ekki verið hægt að gera án tölvunnar. Þetta er sú notkun tölvunnar sem er hvað mest spennandi. Við sáum nokkur dæmi um þetta, það skýrasta var myndbandsverkefnið á Iðavelli. Það hefði verið hægt að vinna öðruvísi en þá hefði þurft fagmann til með mikið af dýrum og vandmeðförnum tækjum og börnin hefðu ekki getað verið með í þeirri vinnu. Með tilkomu klippiforrita eins og þeirra sem voru notuð á Iðavelli gátu börnin tekið þátt í þessari vinnu. Þarna kynntust þau tækni sem áður var óaðgengileg öllum nema fagmönnum og býður upp á fjölmarga möguleika í leik og starfi. Sama máli gegnir um ýmis konar margmiðlunarverkefni.

Að ná í upplýsingar um Netið og nota tölvupóst voru skemmtilegar leiðir til að kynnast betur lífinu fyrir utan leikskólann. Hvort tveggja mætti gera eftir öðrum leiðum, t.d. með því að fara á bókasafn og senda bréf í pósti en það tæki mun lengri tíma. Fyrir tiltstuðlan tölvunnar fengu börnin innsýn í starf foreldra meðan þau voru í leikskólanum og gátu fundið svör við spurningum sínum á Netinu samstundis. Þótt segja megi að þetta hefði verið hægt að gera á annan hátt hefði það orðið ákaflega seinlegt í samanburði. Þessir möguleikar skapa því vissulega nýja vídd í námi. Í einum skólanum tóku börnin þátt í Kidlink-verkefninu sem er samskiptaverkefni á vefnum. Þátttaka í þessu verkefni var umbreyting á skólastarfi, þetta var alveg ný upplifun eða reynsla sem ekki hefði verið auðvelt og varla mögulegt að ná fram á annan hátt. Þarna kynntust börnin lífi barna frá öðrum löndum og kynntu sig með því að setja upplýsingar um sig inn á sameiginlega vefsíðu og sögðu m.a. nafnið sitt. Á vefsíðunni var einnig orðasafn þar sem börn sögðu orð á mismunandi tungumálum, t.d. köttur eða bíll og hægt var að hlusta á framburðinn með því að smella á orð eða mynd.

Margir nefndu jákvæð áhrif sem tölvunotkun hefði á læsi barna. Tölvur geri börnum mögulegt að skrifa, með því að styðja á hnappa á lyklaborði áður en þau hafa náð tökum á að draga til stafs. Þetta telja menn að ýti undir læsi barnanna. Þarna sé um að ræða námstæki sem breyti miklu og einn leikskólastjórinn sagði að nú á dögum væru börn læs mun fyrr en þau voru fyrir um 10 árum og taldi tölvunotkun barnanna hafa haft áhrif þar á þótt fleira kæmi til. Segja má að hægt væri að gera það sama með ritvél en þá er ekki hægt að hafa stafina stóra og alla vega á litinn eins og auðvelt er að gera í tölvunni svo ekki sé talað um meiri möguleika á að prófa sig áfram og leiðrétta mistök.

Líkan Twinings reyndist okkur vel til að skoða tölvunotkun í leikskólastarfi og það er gagnlegt til að draga fram ýmsa þætti sem máli skipta. Það skiptir kannski ekki öllu máli í hvaða flokk líkansins tölvunotkunin raðast heldur hjálpaði líkanið okkur að greina hvernig tölvurnar voru nýttar í leikskólastarfi og hvernig nýta mátti tölvur á markvissan og spennandi hátt. Einnig vakti það okkur til umhugsunar um hvernig tölvunotkunin getur komið með eitthvað nýtt inn í leikskólastarfið. Mikilvægt er að nota tölvur til að auðga leikskólastarfið og gera það meira þroskandi, að þær séu notaðar til að gefa börnum tækifæri til að kynnast einhverju sem illmögulegt væri að koma í kring án þeirra.

Eins og á við um annað starf leikskólans fer það mikið eftir því hversu markvisst er unnið með efniviðinn hvort líklegt sé að sú vinna stuðli að námi barna og auknum þroska. Mikilvægt er hér líkt og annars staðar að skoða ekki einungis hvort unnið er með verkfærin heldur hvernig unnið er með þau.

9 Niðurlag

Í þessari rannsókn var athugað hvernig sex leikskólar unnu í tengslum við UST. Allir höfðu þeir sýnt því áhuga að vinna með tölvur og eru frumkvöðlar á því sviði. Hér verður reynt að draga saman helstu niðurstöður úr rannsókninni.

Leikskólakennarar voru jákvæðir gagnvart notkun UST í leikskóla og litu flestir á tölvunotkun sem mikilvægan þátt í leikskólastarfi. Þeim fannst þó vanta stefnumótun og stuðning að ofan en jafnframt mikilvægt að hver leikskóli mótaði sína stefnu um hvernig þeir vildu nota þessa tækni. Þeir leikskólar sem notuðu UST í starfi með börnum leituðu víða fanga og fóru ýmsar leiðir við að byggja upp tölvustarfið. Reynsla og þekking kennaranna var mismikil og endurspeglaðist það í notkuninni í leikskólunum. Yfirleitt voru ákveðnir aðilar driffjaðrir í starfinu og misjafnt hvernig vinnan skiptist niður á starfsfólk. Þar sem fáir komu að starfinu var hætta á að þekking hyrfi og tölvustarfið minnkaði ef þeir hættu störfum. Greinilegt var að áhugi stjórnenda skipti meginmáli en þeir studdu alls staðar vel við starfið. Mikilvægt þótti að nýta tölvuþekkingu starfsfólks og að hún dreifðist milli þess. Best þótti ef menn fengju tækifæri til að læra ákveðna þætti þegar þeir þyrftu á þeim að halda. Leikskólakennarar fundu til vanmáttar þegar þeir þurftu að treysta á utanaðkomandi aðstoð til að laga og uppfæra tölvurnar.

Starfsfólk notaði tölvur til að halda utan um starfið, við stjórnun og undirbúning og til að gera starfið sýnilegt. Heimasíður leikskólanna voru meðal annars notaðar til þess að koma upplýsingum á framfæri og gefa fólki tækifæri til að kynna sér starf þeirra. Viðmælendur lýstu hrifningu sinni á tilkomu stafrænna myndavéla sem nýttust vel til að gera starfið með börnunum sýnilegt. Í einum leikskólanna var heimasíða skólans tengd gagnagrunni þannig að kennarar komust í öll sín gögn gegnum Netið og gátu unnið undirbúningsvinnu heima hjá sér ef þurfti. Þar voru stafrænar ljósmyndir notaðar til að skoða og greina starfið.

Áhugi barna á tölvum var misjafn að sögn kennara eins og gengur og gerist um önnur viðfangsefni leikskólans. Þó skipti máli hvort og hvernig viðfangsefnin voru kynnt fyrir börnunum en áhugi þeirra jókst eftir því sem þau kynntust möguleikum forrita betur. Ný forrit voru einnig vinsæl.

Samvinna barna var mikil við tölvurnar og þau voru dugleg að miðla hvert öðru af uppgötvunum sínum og þekkingu. Þó áhersla væri lögð á að börn fengju tækifæri til að prófa sig áfram tóku kennarar einnig virkan þátt. Börnin voru ekki látin afskiptalaus heldur reynt að hjálpa þeim við það sem þau þurftu á að halda hverju sinni og kenna þeim ýmsa möguleika. Börn sem ekki höfðu tölvureynslu að heiman voru rög við að nota þær og þurftu kennarar að virkja þau, veita þeim hjálp og stuðning. Ekki var lögð áhersla á að kenna börnum á tækin og forritin. Færnin í að nota tæknina varð aldrei markmið í sjálfu sér heldur leið til að ná fram öðrum markmiðum.

Markmiðið með þessari rannsókn var að safna saman upplýsingum um starfsemi leikskólanna til að fá innsýn í hvernig unnið hefur verið með UST hér á landi. Hugmynd okkar og von var sú að þessar upplýsingar gætu hjálpað þeim leikskólakennurum sem eru að byrja að taka tölvur inn í starfið eða þeim sem finnst þeir vera einir á báti og óöruggir við að finna tölvustarfinu farveg í leikskólanum. Lítil umræða hefur verið um tölvunotkun í leikskólastarfi hér á landi og engin stefna þar að lútandi verið mótuð þó að ákvæði sé í Aðalnámskrá leikskóla um að taka beri tölvur inn í starfið.

Leikskólarnir sex sem við skoðuðum hafa farið nokkuð ólíkar leiðir í notkun upplýsinga- og samskiptatækni. Það er von okkar að þessi skýrsla verði til þess að opna augu annarra fyrir því hvernig nýta megi UST markvisst á fjölbreytilegan hátt og tengja hana þeim markmiðum og áherslum sem hver leikskóli vinnur eftir.

  

Aftanmálsgrein

  1. Upplýsinga- og samskiptatækni (UST): Hvers konar beiting á tækni við gagnavinnslu, samskipti og miðlun. Hugtakið tekur yfir sama merkingarsvið og hugtakið upplýsingatækni en er yngra og sprettur af auknu vægi samskipta við beitingu upplýsingatækni. Með hugtakinu tækni er yfirleitt átt við hvers konar tölvutækni, fjarskiptatækni og aðra rafræna miðlun (M. Allyson Macdonald, Anna Ólafsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Manfred Lemke, Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. 2002.).

Heimildir

Alexandersson, M., J. Linderoth og R. Lindö. 2001. Bland barn og datorer: Lärandets villkor i mötet med nya medier. Studentlitteratur, Lund.

Anna Magnea Hreinsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir. 2000. Könnun á tölvunotkun leikskólabarna. Óbirt verkefni við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Anna Magnea Hreinsdóttir. 2004. Tóti var einn í Tölvulandi á tölvuspilið var snjall: Athugun á tölvunotkun leikskólabarna. Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Slóð: http://netla.khi.is/greinar/2004/004/index.htm. Sótt 8.8.2004.

Appelberg, L. og M. Eriksson. 1999. Barn erövrar datorn. Studentlitteratur, Lund.

Buckleitner, W. 1998. The State Of Children´s Software Evaluation Yesterday, Today And In The 21st Century. Slóð: http://www.childrenssoftware.com/evaluation.html. Sótt 18.10.2002.

Cardelle-Elawar, M. og K. Wetzel. 1995. Students and computers as partners in developing students' problem-solving skills. Journal of Research on Computing in Education 27(4):378-401.

Clements, D. H. og B. K. Nastasi. 1993. Electronic Media and Early Childhood Education. Handbook of Research on The Education of Young Children, bls. 251–275. Ritstj. Spodek B. Macmillan. Publishing Company, New York.

Clements, D. 1994. The uniqueness of the computer as a learning tool: Insights from research. Young Children: Active learners in a technological age. Ritstj. Wright, J. og D. Shade. NAEYC, Washington DC.

Clements, D. 1998. Young Children and Technology. Grein kynnt á The Forum on Early Childhood Science, Mathematics and Technology Educations. Washington DC. 6.–8.2.1998. Slóð: http://www.eric.ed.gov/ERICDocs/data/ericdocs2/content_storage_01/0000000b/80/24/ae/56.pdf.  Sótt 24.10.2002.

Cuffaro, H. K. 1984. Microcomputers in Education: Why Is Earlier Better? Teachers College Record 85(4):559–568.

Denning, R. og P. Smith. 1997. Cooperative learning and technology. Journal of Computers in Mathematics and Science Teaching 16(2/3):177–200.

Guðrún Gunnarsdóttir og Sigríður Ragna Egilsson. 2000. Innihaldið skiptir máli: börn og tölvur í leikskólastarfi. Óbirt B.Ed. ritgerð, Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Haugland, S. og J.L. Wright. 1997. Young Children and Technology: A World of Discovery. Allyn and Bacon, Massachusetts.

Haugland, S. 1998. The Best Developmental Software for Young Children. Early Childhood Educational Journal, Vol 25.

Jessen, J.1995. Computeren i børnehaven Rapport fra et forsøgsprojekt. Tidsskrift for Børne- og Ungdomskultur nr. 35.

Kristín Norðdahl. 1998. Riddarar og drekar eða blóm og lítil dýr: Rannsókn á kynjamun í tölvunotkun leikskólabarna. Óbirt verkefni við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Ljung -Djärf, A. 2004. Spelet runt datorn: Datoranvändande som meningsskapande praktik i förskolan. Lärarutbildningen Malmö högskola, Malmö.

M. Allyson Macdonald, Anna Ólafsdóttir, Ásrún Matthíasdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Manfred Lemke, Sólveig Jakobsdóttir og Þuríður Jóhannsdóttir. 2002. NámUST H. Rannsóknir í háskólum. Umsókn til Rannís í apríl 2002.

Matthews, K. 1997. A comparison of the influence of interactive CD-ROM storybooks and traditional print storybooks on reading comprehension. Journal of Computing in Education 29(3):263–273.

Mcdowall, J. 1998. Children´s Responses to a Music Program on CD rom. Slóð: http://www.cegsa.sa.edu.au/acec98/papers/p_mcdowall.html. Sótt 25.10.1999.

Menntamálaráðuneytið. 1999. Aðalnámskrá leikskóla. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.

Rideout, V.J., E.A. Vandewater og E.A. Wartella. 2003. Zero to six: Electronic media in the lives of infants, toddlers, and preeschoolers. A Kaiser Family Foundation Report. Menlo Park: CA:Kaiser Family Foundation. Slóð: http://www.kff.org/entmedia/3378.cfm. Sótt 30.01.2004.

Schacter, J. 1999. The Impact of Education Technology on Student Achievement. What the most Current Research Has to Say. Milken Exchange on Education Technology, California. Slóð: http://www.mff.org/pubs/ME161.pdf. Sótt 24.10.2002.

Shilling W.A. 1997.Young Children Using Computers to Make Discoveries About Written Language. Early Childhood Education Journal 24(4).

Sólveig Jakobsdóttir, C. L. Krey og G. C. Sales. 1994. Computer Graphics: Preferences by Gender in Grades 2, 4 and 6. Journal of Educational Research 88:90–100.

Sólveig Jakobsdóttir. 1996. Elementary School Computer Culture: Gender and Age
Differences in Student Reactions to Computer Use.
Doktorsritgerð: University of Minnesota, 1996, MnU-D 96-184. (UMI No. 9632384). Útdráttur á vefsíðu Sólveigar á slóðinni http://soljak.khi.is/ritverk.asp. Sótt 17.11.2002.

Sólveig Jakobsdóttir. 2000. Tölvumenning íslenskra skóla: Í átt til aukins jafnréttis. Ráðstefnugögn frá ráðstefnunni Konur og upplýsingasamfélagið 2000, sem haldin var í Reykjavík 14. apríl 2000. Slóð: http://www.simnet.is/konur. Sótt 20.3.2002.

Svenson, A. 1995. Datorn i grundskolan og Datorn i förskolan. Slóð: http://www.hj.se/~dis/. Sótt 25.10.1998.

Twining, P. 2002. The Computer Practice Framework. Slóð: http://www.med8.info/cpf/the_cpf.htm. Sótt 5.5.2004.

Vygotsky, L.S. 1978. Mind in society. Harvard University Press, England.