Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 21. nóvember 2005

Helgi Skúli Kjartansson

Já, takk!

Af hverju ég vil, þrátt fyrir allt, þiggja námsefni
frá „mjög umdeildum aðilum“

Í greininni er brugðist við umræðu í greinum þeirra Ólafs Páls Jónssonar og Þorsteins Hilmarssonar í Netlu fyrr í haust. Höfundur tæpir aðeins á þeim hluta umræðunnar sem lýtur að samkeppni Landsvirkjunar og fræðslustarfi í skólum en beinir sjónum að námsefnisgerð á vegum meira eða minna umdeildra aðila. Höfundur telur að fagna beri námsefni sem vel er vandað þó að það komi frá aðila sem telja megi umdeildan enda sé skortur á íslensku námsefni tilfinnanlegur auk þess sem þróun náms- og kennsluhátta kalli á að nemendur afli fanga úr ýmsum áttum. Höfundur er prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Þessu greinarkorni er ætlað að vera innlegg í umræðu, sem tveir heimspekingar, Ólafur Páll Jónsson og Þorsteinn Hilmarsson, hófu í haust hér í Netlu og nokkuð hefur borist á annan vettvang líka. Ég ætla þó aðeins að ræða takmarkaðan hluta af ágreiningi þeirra kollega. Ég leiði alveg hjá mér þá hlið málsins, sem Ólafur kallar að „mjög umdeildir aðilar“ fari „djúpt inn í starf skólanna“. Ekki af því að það sé ómerkilegt umræðuefni, heldur af því að þó mér finnist rök Ólafs þungvæg, hef ég litlu við þau að bæta.

Ólafur gerir réttmætan og mikilvægan greinarmun á því hvort utanaðkomandi (og umdeildir) aðilar reyni að „fara djúpt eða grunnt inn í starf skólanna“. Deila þeirra Þorsteins snýst um tilraunir Landsvirkjunar til að gera hvort tveggja. Hvað varðar hið „grunna“ inngrip, þ.e.a.s. að standa fyrir gerð fræðsluefnis án þess að stýra notkun þess í skólunum, hallast ég að málstað Þorsteins, en tel mig þó hafa nokkru við málflutning hans að bæta.

Forsaga eða hliðstæður

Sem sögukennara hlýtur mér að fyrirgefast þótt ég nálgist álitamálið dálítið frá hlið og leiti fyrst dæma í fortíðinni.

Fyrsta málið af þessu tagi, sem ég man eftir að hafa reynt að taka afstöðu til, var lítið kver, Ágrip af samvinnusögu, sem fræðsludeild Sambandsins (SÍS) gaf út 1984. Starfsmaður deildarinnar, Gylfi Gröndal ritstjóri, samdi kverið, en í samráði við bakhóp skólafólks, enda var það vafalaust gefið út í þeirri von að það yrði notað í skólum. Auðvitað hikaði maður við þegar hagsmunaaðili, umdeildur og umsvifamikill (og engum sem þá datt í hug að saga hans væri svo gott sem á enda), sem ofan á annað var í vitund margra tengdur fylgi við Framsóknarflokkinn eða andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn – þegar slíkur aðili reyndi þannig að koma málstað sínum á framfæri í skólum landsins. Nú var engin hætta á að Gylfi hallaði réttu máli, heldur skrifaði hann hinn örstutta texta heftisins af hófsemd og hlutlægni. Auk þess var meira sagt frá sögu en samtíð, en yfirleitt er því erfiðara að gera öllum til hæfis í umfjöllun um samfélagsmál sem efnið er nær líðandi stundu. Þótt þessi kynning á samvinnuhreyfingunni væri þannig í sjálfu sér laus við allar öfgar og áróður, þá var augljóslega til þess ætlast að hún hefði auglýsingagildi (sem „ímyndarauglýsing“ heitir það núna) fyrir hreyfinguna og málstað hennar. Og áttu skólar landsins að vera farvegur fyrir slíkt?

Skömmu á eftir samvinnuhreyfingunni gaf ÍSAL út kynningarhefti sem er beinlínis titlað sem Kennslubók fyrir grunnskóla (á kápu: Kennslubók fyrir efstu bekki grunnskóla), enda að mestu þýðing á sænskri kennslubók, aðeins bætt við nokkrum myndum úr álverinu í Straumsvík og einni opnu um Íslenska álfélagið.

Ég veit ekki hvort þetta eru fyrstu dæmin af sínu tagi, en á síðari árum er nokkuð um það að utanaðkomandi aðilar taki það upp hjá sjálfum sér að gefa út efni til notkunar í skólum. Svo er t.d. um Fræðslurit Rauða kross Íslands (sex hefti 1996 til 2004) sem er varla eingöngu samið til skólanota, en sýnilega í og með, enda sett fram í námsefnisstíl með spurningum til umhugsunar. Þá hefur Þjóðkirkjan (Skálholtsútgáfan) gefið út námsefni. Sumt af því einkum eða einvörðungu fyrir sitt eigið fræðslustarf, annað líka fyrir hið almenna skólakerfi. Þar kann ég ekki að greina á milli í öllum tilvikum, en ekki orkar tvímælis um efni sem beinlínis er titlað sem fræðsluefni „fyrir kirkjur og skóla“ eða „fyrir leikskóla“.

Hitt er svo til líka, og það ekki síður, að utanaðkomandi aðilar koma efni sínu á framfæri við skólana með því að efna til samstarfs við Námsgagnastofnun. Frumkvöðullinn leggur þá a.m.k. fram hugmyndina að efninu, og styrkir eða kostar gerð þess, en misjafnt mun vera hve mikið hann kemur að vali höfunda eða útfærslu efnisins. Námsgagnastofnun er hins vegar útgefandinn, og tryggir það efninu hinn greiðasta aðgang að skólunum sem völ er á.

Fyrsta dæmi, sem ég man eftir um þetta, er námsefnisgerð um Reykjavík sem borgin beitti sér fyrir í tilefni af 200 ára afmæli sínu 1986. Þar var skipulögð heil syrpa af efni: kennslubækur í sögu og landafræði, kortasöfn og myndbönd. Hér má einnig nefna efni (kennslubók og myndband) um landbúnað á Íslandi, sem var unnið „í samvinnu við Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins“. Sömuleiðis námsefni um íslenskan sjávarútveg (kennslubók og myndband) sem Námsgagnastofnun gaf út með stuðningi hagsmunaaðila 1992, og nýtt efni (heimilda- og verkefnahefti ásamt myndbandi) á ári hafsins 1998 „í samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið“, en það hlýtur í þessu samhengi að teljast fulltrúi atvinnugreinarinnar og því utanaðkomandi aðili gagnvart skólakerfinu.

Nú er álitamál hvor leiðin er betri: að utanaðkomandi aðili útbúi námsefni um sitt áhugamál og gefi það út á eigin vegum – eða að hann semji við Námsgagnastofnun um útgáfuna. Landsvirkjun ætlar, að sögn Þorsteins, að láta semja:

myndræna sögu fyrir 1. til 4. bekk grunnskólans sem lýsir því hvað rafmagn er. Sagan er ekki tilbúin. Kannski verður hún frábært kennsluefni og kannski hefur hún einhverja galla sem draga úr gildi hennar fyrir grunnskólana og fræðslu yngstu nemendanna. Það verða skólastjórnendur og kennarar að meta þegar þar að kemur. Sú er raunin um allt námsefni, einnig það sem kemur frá Námsgagnastofnun.

Það má ætla að hættan á göllum, slíkum sem Þorsteinn víkur að, sé að öðru jöfnu minni ef Námsgagnastofnun er með í verki, þó að ráðgjöf frá skólafólki eigi þar að geta gert sama gagn. (Þar hefur Landsvirkjun, eins og Sambandið á sínum tíma, gert ráð fyrir aðkomu fagmanna.) Hins vegar getur verið meiri hætta á því að skólarnir noti gallað efni ef það kemur frá Námsgagnastofnun, en hægara sé fyrir þá að taka því efni með fullri gagnrýni sem býðst frá óviðkomandi aðilum. Aðild Námsgagnastofnunar er vafalaust allgóð trygging gegn áróðri eða grófri hlutdrægni. En auglýsingagildi af því tagi sem samvinnuhreyfingin var að slægjast eftir með útgáfunni á hinu hófsamlega ritaða kveri Gylfa Gröndal, því er síður en svo fórnað með því að gera bandalag við Námsgagnastofnun.

Landsvirkjun og stóriðjustefnan

Nú má gera greinarmun á því hvort þarna eiga í hlut hagsmunaaðilar eða hugsjóna-. Þá er Rauði krossinn ótvíræð hugsjónasamtök, almennt viðurkennd sem slík, og borin uppi af sjálfboðastarfi að stórum hluta, þótt einhverjir hafi þar atvinnu af. Þjóðkirkjan líka í grunninn samtök um hugsjón eða lífsstefnu, þótt við umsvif hennar og starfsmannahald tvinnist allríkir hagsmunir. Sambandið var að vísu líka fulltrúi ákveðinnar félagsmálahugsjónar, en þó má kannski segja að starf þess sem fyrirtækis eða fyrirtækjasamsteypu hafi yfirgnæft, svo að það hefði flokkast undir hagsmuna- frekar en hugsjónaaðila, og þeim mun ríkari ástæða til að tortryggja afskipti þess af skólastarfi. Hvað þá ÍSAL, einkafyrirtækið (og það af þeirri sort sem einu sinni var venja að kalla „erlendan auðhring“).

Þessi skipting er ekki ómerkileg, en hún leysir ekki allan vanda. Í fyrsta lagi er þarna um að ræða blöndur og millistig, frekar en hreinræktaða og aðskilda flokka, eins og nýnefnd dæmi sýna.

Í öðru lagi eru hagsmunir af svo mörgu tagi og geta verið misjafnlega óvelkomnir inn í skólastarfið. Þar er stundum reynt að aðgreina sérhagsmuni og almannahag, og þá er kannski eitthvað almennara við hagsmuni heilla byggðarlaga (eins og Reykjavíkur) eða atvinnuvega (landbúnaðar, sjávarútvegs) en einstakra fyrirtækja. Og af fyrirtækjum að vera, þá er líka eitthvað almennara við hagsmuni þeirra, sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga (eins og Landsvirkjun) eða almannasamtaka (eins og segja mátti um Sambandið að nokkru leyti), en hinna sem aðeins starfa í ábataskyni.

Í þriðja lagi eru hugsjónir engin trygging fyrir óhlutdrægni, eiginlega þvert á móti. Það ber kannski við að þeir, sem stjórnast af hagsmunum, gangi of langt: „kunni ekki að skammast sín“ eins og sagt er. En hinir, sem láta hugsjónir ráða för, þeir bara reyna það ekki. Sem ekki er von: hvað hafa þeir að skammast sín fyrir? En að sama skapi er vandi þeirra meiri að gæta hófs og taka tillit til gagnstæðra sjónarmiða.

Erkidæmið um samtvinnun hugsjóna og hagsmuna eru stjórnmálaflokkarnir. Sjálfir skipulagðir sem hugsjónahreyfingar, mannaðir sjálfboðaliðum að miklu leyti; hafa það samt að meginhlutverki að þjóna eða ráðstafa hagsmunum; en forðast eftir megni að gera það á viðskiptagrundvelli, þannig að áhrif þeirra séu keypt og seld fyrir peninga. Þetta er mögnuð blanda og flókið að bera hana saman við aðila eins og trúfélög, launþegahreyfingu eða samvinnuhreyfingu (meðan hún var og hér). Hitt liggur þó beint við að krafan um óhlutdrægni í skólastarfi er ríkari gagnvart stjórnmálaflokkunum en nokkrum aðilum öðrum. Af hverju? Af því að flokkarnir eru umdeildir, og eiga að vera það; það ríkir meira að segja víðtæk sátt um að til þess séu þeir.

Hér þarf bersýnilega að gera eins og Ólafur: hugsa sérstaklega um „mjög umdeilda aðila“ og hvað þeim eigi að leyfast gagnvart skólum landsins. Það sem við þiggjum umhugsunarlaust frá Rauða krossinum, myndum við líta allt öðrum augum ef það kæmi frá Sambandi ungra jafnaðarmanna.

Landsvirkjun er það augljósa dæmi sem Ólafur miðar við, enda stendur hún um þessar mundir fyrir mestu stórvirkjun Íslandssögunnar (eða stærstu verklegu framkvæmdinni, ef virkjun og álver eru talin saman), og það í óþökk stórs minnihluta landsmanna (um 40% skv. könnunum sem Ólafur vitnar í). Það er annað mál að fáir eru andvígir starfsemi Landsvirkjunar eins og hún leggur sig. Það má hafa ólíkar hugmyndir um eignarhald hennar og rekstrarform án þess að það geri hana stórlega umdeilda, og nýting endurnýjanlegra orkulinda fyrir almennan raforkumarkað er ein af þeim stoðum þjóðlífsins sem fáir draga í efa. Landsvirkjun er hins vegar táknræn fyrir eitt af stóru ágreiningsmálunum í íslensku þjóðlífi síðustu áratuga: sjálfa „stóriðjustefnuna“. Með því meina ég viðleitnina til að byggja upp orkugeirann sem hraðvaxandi þátt í efnahagslífi landsins.

Þó að stóriðjustefnan hafi verið umdeild, og sé enn, þá má auðvitað ekki leggja að jöfnu andstöðuna við hana og við Kárahnjúkavirkjun. Maður getur verið á móti Kárahnjúkaframkvæmdinni:

  • af því að hún sé ekki nógu arðvænleg eða fjárhagslega of áhættusöm (eins og sumir sérfræðingar hafa haldið fram; gagnrök Landsvirkjunar sjálfrar getur maður tortryggt sem byggðapólitíska skylduskoðun);

  • af því að framkvæmdin sé of stór fyrir hagkerfið (valdi of miklum ruðningsáhrifum og álagi á hagstjórnina);

  • af flokkspólitískum ástæðum (ef maður vill ekki að stjórnarflokkarnir, eða Framsóknarflokkurinn sér í lagi, velji framkvæmdum af þessu tagi stað til þess að ávinna sér hylli heimamanna);

  • af umhyggju fyrir sérstakri náttúru á áhrifasvæðum framkvæmdanna;

  • af því að nær sé að virkja jarðgufu en fallvötn (einkum af náttúruverndarástæðum);

  • af því að orkubúskapurinn megi ekki snúast of einhliða um áliðnað (heldur t.d. vetnisframleiðslu þegar sá tími kemur).

Öll þessi sjónarmið koma til greina hjá fólki, sem þó er í sjálfu sér hlynnt „stóriðjustefnunni“, þ.e. hraðri uppbyggingu orkugeirans. Eiginlegir andstæðingar hennar, sem kalla má „náttúrulega andstæðinga“ Landsvirkjunar, eru því ekki nema brot af þeim 40% sem af ýmsum ástæðum hefðu viljað hætta við Kárahnjúkavirkjun, og það er varla nema tímabundið ástand að stórir hópar fólks hugsi helst ekki um Landsvirkjun öðru vísi en í tengslum við þessa einu framkvæmd. Engu að síður fellst ég á það með Ólafi að flokka Landsvirkjun sem „mjög umdeildan aðila“, bæði vegna þess stóra minnihluta sem í svipinn er uppsigað við hana vegna Kárahnjúkaframkvæmdanna, og þess litla en staðfasta minnihluta sem gerir ágreining um stóriðjustefnuna sjálfa.

Aðrir „mjög umdeildir aðilar“

Hvað þá um aðra utanaðkomandi aðila sem hafa skipt sér af námsefnisgerð; á að telja þá „mjög umdeilda“?

Varla Rauða krossinn. Hins vegar örugglega Sambandið, eins og fyrr segir, og ekki síður ÍSAL.

En Þjóðkirkjuna? Þegar ríkisvaldið sjálft stendur á bakvið hana og mjög stór meirihluti landsmanna styður hana með persónulegri aðild? Víst er talað um hvort eigi að rjúfa tengsl hennar við ríkið (sem má bera saman við spurninguna um einkavæðingu Landsvirkjunar), en enginn ætti í sjálfu sér að hafa á móti því að hinn lútherski meirihluti landsmanna haldi uppi lútherskri kirkju. Hins vegar er staða trúarlegra minnihluta (hinna trúlausu gagnvart trúuðum, annarra trúarbragða gagnvart kristninni, og annarra kirkjudeilda gagnvart hinni lúthersku) viðkvæm í eðli sínu, og því e.t.v. rétt að skólakerfið umgangist Þjóðkirkjuna af nokkurri varúð.

Landbúnaðinn og sjávarútveginn? Á því skeiði, þegar fulltrúar þessara atvinnuvega tóku upp samstarf við Námsgagnastofnun, hafði umræðan um kvótakerfið („sægreifana“) og um markaðsmál landbúnaðarins („búverndarstefnuna“) gert þá nokkuð umdeilda, miðað við þá hiklausu viðurkenningu sem þeir áttu áður að venjast. Sem einmitt hefur aukið áhuga þeirra á að tengjast skólastarfinu.

Hvað þá um Reykjavík? Var hún „mjög umdeildur aðili“ þegar hún fór að vinna að því að koma efni um sig í útgáfu hjá Námsgagnastofnun?

Nú var vitanlega ekki umdeilt að höfuðborgin ætti að vera til og hefði hlutverki að gegna í landinu (nokkuð hliðstætt við Landsvirkjun og lúthersku kirkjuna). Borgin stóð kannski í umdeildum framkvæmdum (ráðhússbyggingu var a.m.k. andmælt sem umhverfisslysi), en úr áratuga fjarska blasir það ekki við sem neitt grundvallaratriði. Hins vegar var borgin, og hafði lengi verið, aðalpersónan í þeirri almennu sannfæringu, sem um 1970 fékk heitið byggðastefna, að ör vöxtur höfuðborgarsvæðisins væri þjóðarböl, efnahagslegt og menningarlegt í senn, sem brýnt væri að hafa hemil á.

Byggðastefnan, í sinni klassísku mynd, hafði kannski gert Reykjavík „ádeilda“ frekar en umdeilda, því að lengi vel var þessi skoðun pólitískur rétttrúnaður sem varla var við hæfi að bera á móti. [Sjá nánar.]  Þó fór, einmitt upp úr 1980, að gæta nokkurrar viðleitni til að endurtúlka byggðastefnuna þannig að höfuðborgin væri þar ekki alfarið í hlutverki skúrksins. (Þá viðleitni tengdi maður á sínum tíma einna helst við Albert Guðmundsson, sem þingmann Reykvíkinga, og Davíð Oddsson sem borgarstjóra.) Þannig að það tengdist nú heldur betur átakalínum í þjóðmálaviðhorfum hvort málstaður Reykjavíkur fengi þá viðurkenningu (eða „ímyndarauglýsingu“) að sjálf Námsgagnastofnun gæfi út um hana sérstakan flokk námsefnis.

Hvað er námsefni?

Það er sem sagt ekki svo létt að greina á milli hverjir séu of umdeildir til að mega þess vegna skipta sér af námsefni skólanna. Raunar hætt við að það séu umfram allt einhvers konar „mjög umdeildir aðilar“ sem sækja á um slíkt. Og þá þeir fyrst og fremst sem mestum peningum hafa úr að spila, eins og þeirra leiðir til áhrifa séu nú ekki nægar fyrir.

Á þá ekki bara að standa vaktina og taka öllu slíku framtaki með fullri tortryggni?

Jú – ja, eða nei. Það veltur á því hvað okkur finnst að námsefni sé – eða eigi að vera.

Ef námsefni er sá afmældi og innpakkaði sannleikur sem nemendur (helst allir) eiga smám saman að tileinka sér (helst allan og fyrir lífstíð), þá er nú málið ekki flókið. Þá þurfa kennslubækurnar hvorki að vera langar né margar, og augljóst að það á ekki hver sem er að vera með puttana í að útbúa þær. Hins vegar kannski meinlaust þó að Sambandið eða Landsvirkjun eða hver sem er gefi út einhver kver eftir eigin höfði, því að skólarnir myndu varla fara að nota þau fyrir alvitrar kennslubækur.

En svo er það hin hliðin á málinu. Að nám sé ekki bara það að tileinka sér afmælda þekkingu, heldur þjálfun í að vinna með þekkingu. Það er viðhorfið sem haldið er að nemendum okkar Ólafs í Kennaraháskólanum, og sem unnið er eftir í skólunum í bland við hið fyrrnefnda (sjálfsagt í nokkuð ólíkum hlutföllum). Þar gildir ekki ein spurning: um námsefni – heldur tvær: um viðfangsefni og heimildir. Um þau viðfangsefni, sem fylgt er rækilega eftir, þarf fleiri heimildir en hina alvitru kennslubók (og ekki endilega þær sömu fyrir allan bekkinn).

Gott þykir að eldri nemendurnir venjist því, með leiðsögn kennara, að leita sér sjálfir heimilda í ýmsum áttum, sem nú hlýtur að vaxandi leyti að gerast á veraldarvef. Þar þýðir ekki að amast við því að hagsmunaaðilar, jafnvel hinir umdeildustu, setji á vefi sína upplýsingar eftir eigin höfði og reyni að gera þær sem aðgengilegastar fyrir almenna vefnotendur, þar með taldir skólanemar. Svo er notað efni úr fjölmiðlum, blöðum og jafnvel útvarps- eða sjónvarpsstöðvum, sem því hægara verður að henda reiður á sem meira af því er gert leitarhæft á vefjum. Ekki fer hjá því að mikið af því efni spegli sérsjónarmið af öllu tagi, hagsmunasjónarmið þar með talin. Það telst ekki vera hlutverk skólans að verja nemendur fyrir slíku efni, heldur að venja þá við það og temja þeim, eftir því sem hverjum aldri hæfir, nokkurt sjálfstæði gagnvart því.

Mótvægið við fjölmiðlana og Veraldarvefinn, með þeirra óendanlega efnisflóði og stjórnlausu endurnýjun, er bókin og bókasafnið. Bókin, sem nú er orðið svo mikilvægt að nemendur venjist á að nota og læri að meta. Bókin, sem kennarinn getur þekkt og gengið að vísri fyrir nemendur sína. Bókasafn skólans, þar sem efni er valið, varðveitt og endurnýjað að athuguðu máli, og þar sem nemendur geta leitað upplýsinga án þess að afraksturinn sé alveg ófyrirsjáanlegur. Skólasafnið, þar sem líka er hægt að hafa til bekkjarsett af efni sem þykir henta til slíkra nota.

Það er óhjákvæmilegt, í fámennu landi, að útgefið fræðsluefni við hæfi barna og unglinga sé fremur fábreytt og endurnýist seint. Ég segi ekki að öll viðbót hljóti að vera vel þegin, en sú viðbót sem stenst skoðun og skólarnir sjá ástæðu til að eignast, í bekkjarsettum eða stökum eintökum fyrir bókasafn – um hana er freistandi að segja að það sé sama hvaðan gott kemur. Kannski ekki alveg án takmarka, en næstum sama.

Hvað varðar „myndræna sögu fyrir 1. til 4. bekk grunnskólans sem lýsir því hvað rafmagn er“, þá er hún að vísu hugsuð fyrir þann aldursflokk sem varla er farinn að leggjast djúpt í heimildavinnu. Þó segi ég ekki að það sé útilokað verkefni fyrir vel læs níu ára börn að lesa t.d. slíka sögu saman við síðurnar um orku og rafmagn í Alfræði unga fólksins til að benda á einhver atriði sem komi fyrir í báðum. Eða að ekki séu til nemendur á miðstigi sem geta fengist við verkefni um rafmagn þótt þeir þurfi, vegna málþroska eða lesskilnings, að nota einfaldara lesefni en bekkjarsystkinin.

Hitt er þó aðalatriðið um yngra stigið, að þar er þörf fyrir mikla og fjölbreytta lestrarþjálfun, gríðarlega fjölbreytta ef vel á að vera. En framboðið á bókum fyrir þennan aldur er svo einhliða að fræðsluefni er þar varla til, heldur eilífar „sögur“ – myndskreyttar ör-skáldsögur. Sumar ágætar, jafnvel tærustu listaverk, en börnin verða nú líka að venjast því að það sé gaman að lesa sér til um eitthvað fróðlegt og að bækur séu ekki bara bókmenntir eða skáldskapur. Ef lítil bók um rafmagnið lukkast sæmilega, þannig að hún verði nýtilegt lestrarefni fyrir yngstu læsu nemendurna (einstaklinga eða bekki), þá held ég maður verði bara að bíta á jaxlinn og sætta sig við að útgefandinn sé Landsvirkjun. Enda ekki mörg ár þangað til lesendur hennar verða hvort sem er komnir á kaf í efni frá meira og minna tortryggilegum aðilum.

    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Umræða í Netlu og á öðrum vettvangi
 

Netlugreinar

http://netla.khi.is

 

Netlugrein Ólafs Páls Jónssonar 27. september

Skólinn, börnin og blýhólkurinn

 

Svargrein Þorsteins Hilmarssonar í Netlu 4. október

Samstarf atvinnulífs og skóla

 

Andsvar Ólafs 14. október

Það er leikur að læðast

 

Útvarps- og sjónvarpsfréttir

http://ruv.is

 

Sjá umfjöllun í útvarps- og sjónvarpsfréttum 22. september
í samantekt á vef Landsvirkjunar.

 

Fréttir og greinar í Morgunblaðinu

http://mbl.is

 

Gagnasafn | laugardaginn 24.9.2005 | Innlent |

Undirbýr samkeppni um orkumál í skólum

Landsvirkjun hyggst efna til samkeppni um orkumál í grunnskólum landsins og í kjölfarið verður fulltrúum grunnskólanema boðið að taka þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun í vor.

 

Gagnasafn | mánudaginn 26.9.2005 | Innlent |

Áhyggjur af aukinni ásókn fyrirtækja í grunnskólana

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur – sunna@mbl.is

Færst hefur í vöxt undanfarið að fyrirtæki og stofnanir óski eftir því að koma fróðleik um starfsemi sína á framfæri við grunnskólanemendur. Oft er um að ræða tilboð um verðlaunaleiki, veggspjöld eða spil.

 

Gagnasafn | þriðjudaginn 27.9.2005 | Innlent |

Verklagsreglur séu skýrar

Eftir Jón Pétur Jónsson – jonpetur@mbl.is

Lagt til að sveitarfélög setji sér verklagsreglur Í bréfi sem menntamálaráðuneytið sendi skólastjórum grunnskóla, skólaskrifstofum og sveitarstjórnum 13.

 

Gagnasafn | laugardaginn 1.10.2005 | Aðsent |

Að moka skurð með börnum

Ólafur Páll Jónsson fjallar um Landsvirkjun og grunnskólana: "Fyrirtæki sem leggja til atlögu við grunnskólann og börnin í landinu, með þeim hætti sem Landsvirkjun gerir nú, eiga á hættu að gera sig sek um alvarlega siðferðisbresti sem ættu að vera áhyggjuefni bæði skólayfirvalda og forsvarsmanna atvinnulífsins, auk foreldra barna."

 

Gagnasafn | mánudaginn 10.10.2005 | Aðsent |

Samstarf atvinnulífs og skóla

Þorsteinn Hilmarsson fjallar um fræðsluverkefni á vegum Landsvirkjunar fyrir grunnskólabörn: "Vonast er til að verkefnin geti nýst við kennslu í sem flestum námsgreinum, en þau eru enn í mótun í samráði við skólafólk sem sinnt hefur fræðslu um orkumál."

 

Gagnasafn | sunnudaginn 16.10.2005 | Innlent |

Treystir kennurunum til að velja námsefnið

Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi fyrir helgina að hún treysti kennurum og öðru fagfólki grunnskólanna til að velja námsefni í samræmi við aðalnámskrá skólanna.

 

Gagnasafn | þriðjudaginn 1.11.2005 | Aðsent |

Góð hugmynd

Jakob Björnsson fjallar um samkeppni Landsvirkjunar á meðal grunnskólabarna: "Það er því vel við hæfi að fulltrúar einmitt þeirra kynslóða, börnin, komi að vígslu þeirra."


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gylfi Gröndal 1936

Ágrip af samvinnusögu

2. útgáfa [Reykjavík : Samband íslenskra samvinnufélaga], mars 1985

15 síður: myndir, ritsýni, teikningar; 30 sm

Upprunaleg útgáfa 1. útg. júní 1984


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mattson, Steffan [réttara: Staffan]

Ál - nútímamálmur : kennslubók fyrir grunnskóla

Hafnarfjörður: Íslenska álfélagið, 1988


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rauði kross Íslands

Fræðslurit Rauða kross Íslands

Reykjavík: Rauði kross Íslands, 1996-

Texti og umsjón: 1996- Gestur Hrólfsson

 

     Alþjóðamál 1996

     Börn og stríð 2004

     Flóttamenn 2000

     Geðsjúkdómar 2000

     Konur og stríð 2003

     Mannréttindi í stríði: Genfarsamningarnir 1999


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Páskafræðsluefni fyrir kirkjur og skóla

[umsjón með útgáfu Hreinn S. Hákonarson, Elín Jóhannsdóttir]
Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 1998
26, [9] síður: nótur, teikningar; 30 sm

 

Elín Elísabet Jóhannsdóttir 1964

Ferðin langa: aðventudagatal fyrir leikskóla

Texti og myndir Elín Elísabet Jóhannsdóttir

Reykjavík : Skálholtsútgáfan, 1999

15 síður: myndir

 

Guðný Hallgrímsdóttir 1953

Páskasögur fyrir leikskóla

Guðný Hallgrímsdóttir
Reykjavík : Skálholtsútgáfan, 1994

16 síður: myndir

 

Guðný Hallgrímsdóttir 1953

Páskafræðsluefni fyrir leikskóla

Umsjón með útgáfu: Guðný Hallgrímsdóttir, Elín Jóhannsdóttir, Edda Möller
Reykjavík : Skálholtsútgáfan, 1997
40 síður: myndir


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lýður Björnsson 1933

"Við flóann byggðist borg" : saga Reykjavíkur

Lýður Björnsson

[Reykjavík] : Námsgagnastofnun, [1986]
52 síður: myndir, kort, teikningar; 28 sm

 

Reykjavík : borgin okkar [myndband]

Reykjavík : Námsgagnastofnun, fræðslumyndadeild, 1986

1 myndband 17:17 mín. : VHS

Íslenskt tal. - Skrá um innihald fylgir
Ísfilm og Kynningarþjónustan gerðu myndina fyrir Námsgagnastofnun

 

Reykjavík : höfuðborg í sjón og raun [myndband]

Reykjavík : Námsgagnastofnun, fræðslumyndadeild, 1986

1 myndband 15:55 mínútur: VHS
Íslenskt tal

Ísfilm og Kynningarþjónustan gerðu myndina fyrir Námsgagnastofnun

 

Ingólfur Á. Jóhannesson 1954

Reykjavík : landshættir

[Reykjavík] : Námsgagnastofnun, 1988
39 síður: myndir, kort ; 28 sm

 
Guðrún Geirsdóttir 1957

Reykjavík: lífshættir

Guðrún Geirsdóttir, Ingólfur Á. Jóhannesson

Reykjavík : Námsgagnastofnun, 1991

44 síður: myndir, kort, töflur; 28 sm


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Karl Jeppesen og Tryggvi Jakobsson

Það sem landið gefur [myndband]

Þulur: Tryggvi Jakobsson

[Reykjavík] : Námsgagnastofnun, 1994

2 myndbönd (24 ; 34 mín.) : VHS + kennsluleiðbeiningar

8 síður: myndir, töflur; 30 sm

1. Sauðfjárbúskapur, hlunnindabúskapur

2. Ferðaþjónusta, garðyrkja

Framleiðandi Nesfilm s/f fyrir Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins

 

Árni Árnason 1951

Landbúnaður á Íslandi

[Árni Árnason tók saman í samvinnu við Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins;
teikningar Kolbeinn Árnason]

Reykjavík : Námsgagnastofnun, 1996

31 síður: myndir, teikn., uppdrættir; 30 sm + 1 myndband (9 mín.)


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Óttar Ólafsson 1956

Íslenskur sjávarútvegur

Reykjavík : Námsgagnastofnun, 1992
39 síður: myndir, kort

 
Óttar Ólafsson 1956

Íslenskur sjávarútvegur [myndband]

Reykjavík : Námsgagnastofnun, 1992

1 myndband (17 mín.): hljóðsett, í lit
Íslenskt tal


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Guðbjörg Pálsdóttir 1956

Sjávarútvegur: kennsluhugmyndir og gagnaskrá

Guðbjörg Pálsdóttir og Þórdís Sigurðardóttir

[Reykjavík] : Námsgagnastofnun, 1998

64 s. : myndir ; 24 sm

 

Íslenskur sjávarútvegur

Reykjavík : Námsgagnastofnun, 1998

1 myndband: hljóðsett, í lit

Framleiðandi Myndbær hf. fyrir Námsgagnastofnun


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ótrú á höfuðstaðnum
 

Mín kynslóð af ungum Reykvíkingum óx sem sagt upp í þjóðfélagshópi sem víðtæk samstaða var um að telja óhóflega fjölmennan og frekari fjölgun hans mjög varhugaverða. Í aðra röndina minnir þetta á þá pólitísku skoðun á innflytjendum eða nýbúum (nánar sagt: fólki sem sker sig úr vegna erlends uppruna) sem mun vera allútbreidd í sumum nágrannalöndum okkar, þ.e. að slíkt fólk sé orðið of margt og ófært að því haldi áfram að hraðfjölga. En þar er þetta „skoðun til að skammast sín fyrir“, ekki viðurkennd sem frambærileg eða heiðarleg stefna, af því að hún þykir höggva of nærri þeim sem hún beinist gegn.

Gömlu byggðastefnunni fylgdu hjá sumum nokkrir fordómar í garð Reykvíkinga sem persóna eða þeirra lífshátta sem fyrst festu rætur í höfuðstaðnum. Yfirleitt var það þó ekki aðalatriðið. Fólk sá hvaða breytingar fylgdu vexti höfuðstaðarins og hafði bara ótrú á þeim, sem var eins heiðarleg pólitísk skoðun og hver önnur.

Nú stóðum við Reykvíkingar vissulega ekki höllum fæti í tilverunni, og vorum því kannski ekki of góðir til að sætta okkur við þessa ríkjandi skoðun á yfirvofandi offjölgun okkar. Samanburðinn við nýbúa samtímans þarf að taka með þeim fyrirvara; að öðru leyti er hann nokkurt umhugsunarefni.

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Slíkum viðhorfum til námsefnis kynnast kennaranemar t.d. af bókinni:

 

Lilja María Jónsdóttir 1950

Skapandi skólastarf: handbók fyrir kennara og kennaranema
um skipulagningu þemanáms

Reykjavík: Námsgagnastofnun, 1996

96 síður: myndir, teikningar; 25 sm

 

Sjá ágrip við Hofsstaðaskóla: http://www.malgardur.is/kennarar/
temanam_WL_namskeidsgrein.htm