Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 14. október 2005

Ólafur Páll Jónsson

Það er leikur að læðast

Í greininni er farið yfir rök höfundar og andsvör um samkeppni og námsefnisgerð sem Landsvirkjun hefur boðið grunnskólum. Höfundur hóf umræðu um þetta mál hér á síðum Netlu nú í haust með greininni Skólinn, börnin og blýhólkurinn og Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar svaraði að bragði með grein undir yfirskriftinni Samstarf atvinnulífs og skóla. Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.

Í greininni Samstarf atvinnulífs og skóla sem birtist í Netlu svarar Þorsteinn Hilmarsson grein minni Skólinn, börnin og blýhólkurinn nokkuð ítarlega og kann ég honum bestu þakkir fyrir, enda drap ég þar á mörg álitamál sem nauðsynlegt er að menn ræði, og þá ekki bara við Þorsteinn heldur allt skólafólk, bæði sín á milli og á opinberum vettvangi.

Í grein minni færði ég ferns konar rök fyrir því að fyrirhuguð samkeppni Landsvirkjunar í grunnskólum landsins væri ótæk. Í svari sínu segist Þorsteinn hrekja allar röksemdir mínar, annars vegar vegna þess að þær standist ekki og hins vegar vegna þess að ég lýsi ekki með réttmætum hætti framtaki Landsvirkjunar. Mér virðist að yfirleitt eigni Þorsteinn mér fráleitar skoðanir, sem ég hef alls ekki, og hreki þær síðan réttilega. Ég ætla ekki að þreyta lesendur með því að fara í saumana á öllu því sem Þorsteinn finnur að röksemdum mínum heldur taka upp tvö atriði (nokkurn veginn röksemdir 2 og 3 úr fyrri grein) sem varða skólahald sérstaklega. Þau eru þessi:

  1. Landsvirkjun á ekki erindi inn í kjarna skólastarfsins.

  2. Skólinn er ekki vettvangur fyrir fyrirtæki úti í bæ til að velja nemendur
    til þátttöku í umdeildum framkvæmdum.

1. Landsvirkjun á ekki erindi inn í skólastarfið

Í fyrri grein minni segi ég: „Ég hygg að það sé alveg ljóst að mjög umdeildir aðilar í samfélaginu, hvort sem það eru einstök fyrirtæki eða t.d. trúfélög, eigi ekki erindi inn í innra starf grunnskólanna.“ Ég lýsi því einnig hvernig fyrirhuguð samkeppni Landsvirkjunar flokkist undir það að fara inn í „kjarna skólastarfsins“. Hér segir Þorsteinn að ég misstígi mig og geri of mikið úr aðkomu Landsvirkjunar. Það kann vel að vera að ég geri of mikið úr hlut fyrirtækisins en þó stend ég við það sem mestu skiptir, nefnilega að aðkoma Landsvirkjunar fellur undir það sem ég kalla að fara inn í kjarna skólastarfsins eða eins og ég orða það einnig, að fara djúpt inn í starf skólanna.

Greinarmunur minn á því að fara djúpt eða grunnt inn í starf skólanna þarfnast e.t.v. nánari skýringar. Í fyrri grein skýrði ég hann m.a. með tilvísun í mjólkurdag Mjólkursamsölunnar og fræðsluheimsóknir til Orkuveitu Reykjavíkur. En hver er eiginlega greinarmunur þess að fara djúpt eða grunnt inn í starf skólanna? Kjarninn í starfi skólanna er vinna kennara með nemendum, yfirleitt í skólastofum. Í þessu starfi er stuðst við tiltekið námsefni og þetta starf þarf að fullnægja kröfum sem gerðar eru í Aðalnámskrá grunnskóla. Í yngstu bekkjunum er megnið af þessu starfi unnið af umsjónarkennara sem gjarnan fylgir börnunum frá 1. bekk og upp í 4. bekk en þaðan í frá skiptist kennslan niður á fleiri kennara. Utan við þennan kjarna gerist margt í skólanum og margt sem tengist kennslu með beinum eða óbeinum hætti. Þess vegna er þessi kjarni ekki endilega skýrt afmarkaður. Hversu skýrt afmarkaður hann er fer m.a. eftir innra skipulagi skólans, nálgun kennarans og jafnvel þeim möguleikum sem húsakynni og umhverfi hvers skóla bjóða upp á.

Í bréfi Landsvirkjunar til skólastjórnenda eru þrjár setningar sem skipta sérstöku máli:

(1) „Fullmótuð verkefni verða send til allra grunnskólanna fyrir áramót en samkeppnin felst í úrlausn nemenda á þeim.“

(2) „Von okkar er að verkefnin nýtist við kennslu í sem flestum námsgreinum, en verkefnin eru þegar í mótun í samráði við skólafólk sem sinnt hefur fræðslu um orkumál.“

(3) „Með samkeppninni leitast Landsvirkjun við að færa grunnskólum landsins fræðsluefni í hendur um orku og orkumál í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla.

Hér virðist mér gert ráð fyrir að verkefnin, sem eru uppistaðan í samkeppninni, eigi að vera hluti af reglubundinni kennslu í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla og því virðist mér að sú lýsing mín, að Landsvirkjun fari inn í kjarna skólastarfsins, sé við hæfi. Það er augljós grundvallarmunur á þessari aðkomu Landsvirkjunar annars vegar og hins vegar aðkomu Mjólkursamsölunnar eða Gídeonfélagsins sem gefur fermingarbörnum Nýja testamentið. Um þetta atriði ætti ekki að vera neinn ágreiningur. Ágreiningsefnið milli mín og Þorsteins er nú hvort það sé eðlilegt að fyrirtæki eins og Landsvirkjun fari djúpt inn í skólastarfið með þeim hætti sem nú er lagt til.

Í fyrri grein minni færði ég rök fyrir því að Landsvirkjun ætti ekki erindi inn í kjarna skólastarfsins en Þorsteinn hafnar þeim og nefnir í því sambandi einkum þrennt:

(1) Við mættum jákvæðni og velvilja hjá Skrifstofu menntamála í Menntamálaráðuneytinu og hjá skólafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar við kynntum áform okkar. Báðir aðilar sögðu að ekki væri um það að ræða að sækja þyrfti um leyfi fyrir framtak af þessu tagi.

(2) Ég tel að hafa verði í huga að það er mikilvægt að treysta skólastjórnendum og kennurum til að meta það sem berst að þeim utanað og ákveða í samstarfi við heimilin hvað af því er þegið.

(3) Málflutningur Ólafs gengur í þá átt að sú ábyrgð verði af þeim tekin. Forræðishyggja og miðstýring er ekki til góðs.

Atriði (1) varðar á engan hátt þau rök sem ég setti fram í fyrri grein, um atriði (2) er ég sammála Þorsteini en atriði (3) finn ég engan stað í minni grein. Ég get ekki séð að það sé neitt í mínum skrifum sem gangi út á að ábyrgð skólafólks – skólastjórnenda og kennara – verði af þeim tekin og sett undir miðstýrt afl. Eftir að ég las gagnrýni Þorsteins skoðaði ég grein mína aftur til að átta mig á því hvar ég hefði gefið þessum hugmyndum byr undir vængi. Ég fann hins vegar ekkert slíkt. Þarna verður Þorsteini því á að gera mér upp skoðun til að hrekja afstöðu mína. Þetta kallast að hengja bakara fyrir smið.

Rök mín fyrir því að Landsvirkjun eigi ekki erindi inn í innsta kjarna skólastarfsins með samkeppni eins og þá sem nú stendur fyrir dyrum voru einkum tvenns konar.

(a) Ekki er réttmætt að skylda börn (í gegnum skólaskyldu) til að taka þátt í starfi með mjög umdeildum aðilum og þá síst þegar þátttakan sjálf miðast við það sem er hvað umdeildast í starfi viðkomandi aðila.

(b) Aðkoma Landsvirkjunar að kjarna skólastarfsins getur grafið undan því trúnaðarsambandi sem þarf að ríkja á milli skóla og foreldra.

Hvað rök (a) varðar verður að hafa í huga að jafnvel þótt verkefnin kunni að virðast sakleysisleg, þá eru þau lögð upp af Landsvirkjun, sbr.: „Fullmótuð verkefni verða send til allra grunnskólanna fyrir áramót en samkeppnin felst í úrlausn nemenda á þeim.“ Og svo eru verðlaunin, sem gætu komið í hlut 6 ára barns sem hefur ríka myndlistarhæfileika, þau að verða þátttakandi í virkjunarframkvæmdunum við Kárahnjúka með því að leggja hornstein að virkjuninni. Í þessu sambandi skiptir ekki bara máli hver verkefnin eru og hver leggur þau upp, heldur líka hver verðlaunin eru. Og í þessu tilviki eru verðlaunin þátttaka í umdeildri framkvæmd sem yngstu börnin hafa engar forsendur til að meta.

Hvað seinni rökin varðar, þá skiptir höfuðmáli að Landsvirkjun er umdeilt fyrirtæki. Þorsteinn segir: „Skoðun [Ólafs] að Landsvirkjun sé umdeild snertir ekki verkefnin sem fyrirtækið býður grunnskólanemum í 1. til 7. bekk að leysa.“ Hér er ég ósammála Þorsteini. Það er vissulega rétt að efni verkefnanna snýst ekki beinlínis um virkjunina eða önnur álitamál. En þær staðreyndir að Landsvirkjun er umdeilt fyrirtæki og að Kárahnjúkavirkjun er umdeild virkjun snerta samkeppnina með öðrum hætti en þeim einum að vera efni verkefnanna. Hugum nánar að þessu atriði.

Það getur verið erfitt fyrir kennara að rækta trúnaðarsamband við foreldra ef foreldrarnir eru mjög tortryggnir eða beinlínis andsnúnir því sem gert er í kjarna skólastarfsins. Hér vakna að vísu ýmis álitamál og ekki er alltaf við því að búast að foreldrar séu sáttir við skólastarfið. Í þessu sambandi hlýtur hins vegar að skipta höfuðmáli að þegar slíkt ósætti eða tortryggni kemur upp, þá geti kennarinn rökstutt eigin aðferðir og efnistök með vísun í mennta- og uppeldismarkmið grunnskólans. Undir slíkum kringumstæðum ætti foreldri alltjent að geta fallist á að kennarinn vinni sem fagmaður og hafi velferð barnsins að leiðarljósi, þótt hann sé ósammála kennaranum. Slíkum rökum er hins vegar ekki að heilsa ef það sem veldur ósættinu eða tortryggninni er beinlínis það að aðilar, sem eru skólahaldi, menntun og uppeldi óviðkomandi, eru þátttakendur í skólastarfinu. Að þessu leyti er staða Landsvirkjunar allt önnur en t.d. Marels.

2. Skólinn er ekki vettvangur fyrir fyrirtæki úti í bæ til að velja nemendur til þátttöku í umdeildum framkvæmdum

Í fyrri grein minni gagnrýndi ég samkeppni Landsvirkjunar m.a. á þeim forsendum að grunnskólar landsins væru ekki vettvangur til að velja börn til þátttöku í umdeildum framkvæmdum. Kjarninn í gagnrýni minni var sá að það væri óásættanlegt að virkja kjarnann í skólastarfinu til að ná markmiðum sem liggja algerlega utan við menntamarkmið grunnskólans.

Þorsteinn hafnar þessum rökum mínum á þeim forsendum að ég hafi afstöðu til „sambands markmiða og leiða sem ... standist ekki skoðun“. Þessi afstaða mín er, ef ég skil Þorstein rétt, sú að ein leið og ein aðgerð geti ekki uppfyllt fleiri en eitt markmið. Þessari afstöðu hafnar Þorsteinn svo, mjög svo réttilega, með því að benda á að leið Landsvirkjunar til að velja börn til þátttöku í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun geti einnig leitt til menntunar og þroska þeirra barna sem í hlut eiga. Þorsteinn segir m.a.: „Rök Ólafs fyrir því að rangt sé að börn séu valin til að leggja hornsteininn með þessum hætti og að verið sé að nota þau til að ná markmiðum sem þau varðar ekkert um byggjast á því að hann gefur sér að samkeppnin og fræðslustarfið geti ekki þjónað markmiðum skólastarfs.“

Í fyrsta lagi er vert að benda á að sú afstaða til markmiða og leiða sem Þorsteinn eignar mér er fullkomlega fráleit. Sá sem aðhyllist hana verður t.a.m. að hafna því að hægt sé að slá tvær flugur í einu höggi. En hvers vegna gerir Þorsteinn mér upp þessa fráleitu hugmynd? Kannski vegna þess að í upphafi kaflans lýsi ég því sem ég kalla meginmarkmið Landsvirkjunar með samkeppninni og segi svo: „Fræðsluþátturinn er einungis leið til að ná þessu markmiði.“ Kannski hefði ég ekki átt að segja „einungis“ heldur kannski „fyrst og fremst“. En til þess að eigna mér þennan skilning á markmiðum og leiðum verður Þorsteinn hins vegar að horfa framhjá því þegar ég segi: „En nú mætti spyrja hvort menntamarkmið grunnskólans geti ekki verið samrýmanleg markmiði Landsvirkjunar.“ Og held svo áfram: „Vissulega geta menntamarkmið grunnskólans verið samrýmanleg margvíslegum markmiðum sem hafa ekkert beinlínis með menntun og þroska barna og unglinga að gera. Líklega er það ástæðan fyrir því að ekki er amast að ráði við mjólkurdegi Mjólkursamsölunnar.“ Það er alveg ljóst af fyrri grein minni að ég hef ekki þá afstöðu til markmiða og leiða sem Þorsteinn eignar mér.

En þótt Þorsteinn hafi misstigið sig með þessum hætti stendur eftir sú spurning hvort það markmið Landsvirkjunar að velja börn til þátttöku í einni umdeildustu framkvæmd Íslandssögunnar sé samrýmanlegt menntamarkmiðum grunnskólans. Ég held ekki, og ástæðan liggur raunar í því hvers vegna ég notaði orðið „einungis“ frekar en orðasambandið „fyrst og fremst“ í tilvitnuninni hér að ofan.

Lítum aðeins nánar á markmið og leiðir. Setjum svo að aðili L hafi eftirfarandi val:

Möguleiki 1: Gera A til að ná markmiði B.

Möguleiki 2: Gera X til að ná markmiði B og Y, þar sem Y er óviðkomandi B.

Ef A og X eru jafngildar athafnir (samkvæmt viðeigandi mati), þá er ekki hægt að segja að það val L að gera X sé einungis til að ná Y. Það val L að gera X getur fyllilega miðast við bæði markmið Y og B. En ef X er síðri athöfn (aftur samkvæmt viðeigandi mati) heldur en A, þá virðist mér réttmætt að álykta að það sé markmið Y sem ráði því að L velur X frekar en A. Markmið B er þá einhvers konar aukageta og alls ekki orsök þess að L velur X frekar en A.

Þegar ég sagði að fræðsluþátturinn væri einungis leið Landsvirkjunar til að ná því markmiði að velja börn til þátttöku í virkjunarframkvæmdunum við Kárahnjúka, þá var það þessi mynd af markmiðum og leiðum sem ég hafði í huga. En ég verð þó að viðurkenna að ég hefði mátt vera skýrari, sér í lagi hefði ég átt að nefna tvennt sem þessi mynd kallar á. Í fyrra lagi að Landsvirkjun hafi getað valið um aðrar leiðir til að efla fræðslu um orkumál en að efna til samkeppni og verðlauna börn með þátttöku í umdeildum framkvæmdum. Þetta hygg ég raunar að sé ljóst. Landsvirkjun gæti t.d. lagt pening í námsefnisgerð, með þeim skilyrðum sem slíkar styrkveitingar eiga að lúta. Í seinna lagi hefði ég átt að gera grein fyrir því sem ég kalla „viðeigandi mat“. Nú kynni einhver að segja að enginn sé til þess fallinn að setjast í dómarasæti yfir því hvenær fyrirhuguð athöfn sé betri eða verri en einhver önnur athöfn. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt. En við höfum viss viðmið, t.d. almenn viðmið um hlutleysi og jafnræði, en einnig sértækari viðmið um fagmennsku í skólastarfi o.s.frv. Samkvæmt öllum slíkum viðmiðum hygg ég að sú athöfn Landsvirkjunar að efla raungreinakennslu með óbeinum hætti, án þess að blanda eigin sérhagsmunum í spilið, teldist vænlegri en athöfn Landsvirkjunar sem gerði eiginhagsmuni fyrirtækisins að veigamiklu atriði.

Lokaorð

Ég vona að mér hafi tekist að sýna hvernig Þorsteinn skýtur yfir markið eða hreinlega í einhverja allt aðra átt. Þorsteinn hafnar á mjög sannfærandi hátt þeim skoðunum sem hann ræðst gegn. Þær skoðanir eru bara ekki mínar.

En þótt rök Þorsteins bíti ekki á mínum, þá veltir hann upp nokkrum atriðum sem eru mjög umhugsunarverð. Undir lok greinar sinnar segir Þorsteinn m.a.: „[Ólafur] virðist ... ekki vilja að „umdeildir aðilar“ með sterkar skoðanir leggi sitt af mörkum til skólastarfs og fræðslu. Ég tel það misskilning hjá honum að slíkt ógni heilindum skólastarfsins. Sýn hans á fagmennsku og óhæði þar sem unnið er í tómarúmi býður upp á skóla sem er úr tengslum við samfélagið utan skólastofunnar.“

Ég vil taka undir þessi varnaðarorð Þorsteins um skóla sem er úr tengslum við samfélagið utan skólastofunnar. En umdeildir aðilar geta lagt sitt af mörkum með ólíkum hætti. Ég held að hinir umdeildu aðilar ættu að halda sig til hlés og „leggja sitt af mörkum til skólastarfs og fræðslu“ án þess að fara inn í kjarna skólastarfsins. Hins vegar held ég að hin umdeildu málefni eigi heima inni í kjarna skólastarfsins á unglingastiginu og svo áfram í mennta- og fjölbrautaskólum. Sýn mín á fagmennsku og óhæði kallar ekki á tómarúm. En hún kallar á að gildi eins og hlutleysi og jafnræði séu í hávegum höfð. Og sér í lagi kallar hún á að mennta- og þroskamarkmið barnanna ráði ferðinni frekar en sérhagsmunir deiluaðila.

Yfirskrift Þorsteins er Samstarf atvinnulífs og skóla en gera má ráð fyrir að slíkt samstarf aukist og verði með fjölbreyttari hætti í framtíðinni en verið hefur. Og slíkt samstarf getur verið til blessunar sem og bölvunar. Það er hins vegar mikilvægt að skólafólk – kennarar, skólastjórnendur, námsefnishöfundar o.fl. – ræði þessi mál af alvöru. Foreldrar ættu einnig að taka þátt í þeirri umræðu. Hvaða viðmið er rétt að hafa um slíkt samstarf? Hver eiga afskipti fyrirtækja, sem vinna ekki á vettvangi skólanna, að vera af skólahaldi í landinu? Hvaða leiðir er eðlilegt að fara til að ná uppeldis- og menntamarkmiðum skólanna? Ég vildi sjá grein mína Skólinn, börnin og blýhólkurinn og nú skoðanaskipti okkar Þorsteins sem innlegg í slíka rökræðu um þessi efni frekar en sem ritdeilu milli mín og Þorsteins.