Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 5. október 2005Sigríður Síta Pétursdóttir

Bær í barnsaugum

Að beina sjónum að menningu barna

Greinin byggir á skýrslu um þróunarverkefnið Bær í barnsaugum sem tíu leikskólar á Akureyri stóðu að frá hausti 2003 til vors 2004.  Börn við skólana skoðuðu umhverfi sitt og bæ vandlega og unnu úr ýmsu því sem þannig aflaðist í anda hugmynda frá Reggio Emilia. Verkefnið vakti mikla athygli í bæjarfélaginu enda fylgdu því margar áhugaverðar sýningar á vegum leikskólanna og barnanna. Höfundur er leikskólakennari og sérfræðingur við skólaþróunarsvið kennaradeildar Háskólans á Akureyri.

Inngangsorð

Barn getur opnað augu okkar fullorðinna á nýjan hátt, því það sér aðra hluti en við sem eldri erum. Með því að beina athygli að því sem barnið sér og tekur eftir fáum við nýja sýn á umhverfi okkar. Eitt af hlutverkum leikskólans er að efla tilfinningu barnsins fyrir því að það tilheyri og sé hluti af samfélagi. Góð leið til að tengja saman leikskóla og samfélag er að mennta börn og fullorðna í að vera meðvituð um rætur sínar um leið og horft er fram á veginn, að börn og fullorðnir rannsaki bæinn sinn saman. Samfélag er byggt upp af mörgum ólíkum hópum og býr yfir mörgum sjónarhornum, að því komust börn og kennarar tíu leikskóla á Akureyri veturinn 2003–2004.

Kveikja og hugmynd

Einn haustdag er ég gekk í gegnum Lystigarðinn á Akureyri á leið minni til vinnu, var í garðinum sýning sem kallaðist 13+3 og vísaði til þess að sýnendur voru 13 norðlenskar listakonur ásamt 3 starfsystrum frá Færeyjum. Listaverkum af ýmsum stærðargráðum hafði verið komið fyrir vítt og breitt um garðinn. Þarna voru m.a. litlar prjónaðar færeyskar peysur festar saman og mótaðar eins og tré, úr ermunum héngu snuð. Inni á milli trjánna í garðinum mátti líta allskyns verur og hluti úr þæfðri ull og kopar svo eitthvað sé nefnt. Það voru einmitt „peysurnar og snuðin“ sem urðu kveikjan að hugmyndinni sem síðar varð að verkefninu Bær í barnsaugum.


Þar sem mér varð á göngu minni litið á listaverkin allt í kringum mig, fór ég að hugsa með mér hvort ekki mætti koma einhverju svona verkefni af stað í leikskólunum, verkefni þar sem allir leikskólar bæjarins væru þátttakendur? Í framhaldi af því datt mér í hug verkefni sem hafði verið unnið í samstarfi leikskóla, fyrirtækja og verslana í bænum Reggio Emilia á Norður-Ítalíu, samstarfi sem endaði með sýningu í miðbænum þeirra (Anna Friðriksdóttir, Jenný Gunnarsdóttir og Hólmfríður Sigmarsdóttir 2002:2526). „Auðvitað getum við hér á Akureyri gert þetta líka“, hugsaði ég. Hugmyndinni var komið á blað og hún kynnt fyrir leikskólastjórum á Akureyri sem tóku almennt vel í hana. Í nóvember 2003 var ákveðið að 10 leikskólar ásamt Skóladeild Akureyrar og Skólaþróunarsviði Háskólans á Akureyri, ynnu saman að vetrarlöngu verkefni sem hlaut heitið Bær í barnsaugum.

Hugmyndin fól það m.a. í sér að vekja athygli barna og kennara á umhverfi sínu og veita þeim um leið tækifæri til að nýta ótal tjáningarleiðir, að virkja tungumálin sín hundrað. Verkefnið var tækifæri til að tengja saman leikskóla og samfélag, að beina sjónum að menningu barna. Í Aðalnámskrá leikskóla segir, "leikskóla ber að nýta þau menningarlegu og félagslegu tækifæri sem umhverfi hans og staðsetning gefur kost á" (1999:27).

Aðalnámskrá leikskóla (1999:27) kveður á um að í leikskólanum beri að efla tilfinningu barnsins fyrir því að það tilheyri og sé hluti af samfélagi. Samfélag er byggt upp af mörgum þáttum og einstaklingum sem hafa áhrif hver á annan og tilheyra hver örðum. Hlutverk leikskólanna er m.a. að mennta þegna samfélagsins, ekki þegna eins bæjarfélags eða einnar þjóðar, heldur heimsborgara, þ.e. þegna sem eru meðvitaðir um rætur sínar en eru ekki bundnir í átthagafjötra (Rinaldi 2001:28). Einstaklingur, hvort sem hann er barn eða fullorðinn, getur og á að hafa áhrif á umhverfi sitt og samfélag með skoðunum sínum og gerðum (Korczak (1988)1998:49), það er leikskólans að skapa aðstæður til þess að svo megi verða, t.d. með því að velta fyrir sér hvernig samfélag við viljum.

Með skráningum á leik og starfi barnanna lærist hinum fullorðna að hlusta og sjá, hvað og hvernig barnið hugsar og framkvæmir, hvernig það nálgast viðfangsefni sitt og leitar sér þekkingar (Filippini og Giudici 2001:10). Barnið getur opnað augu þess fullorðna fyrir umhverfi sínu á nýjan hátt, því það kemur oft auga á aðra hluti en sá fullorðni. Ein leið til að tengja saman leikskóla og samfélag og gera bæði börn og fullorðna meðvitaðri um rætur sínar um leið og horft er fram á veginn er að börn og fullorðnir rannsaki saman ýmis viðfangsefni í nánasta umhverfi..

Markmið verkefnisins

Markmið verkefnisins voru meðal annars:

  • Að vekja athygli barna og kennara á umhverfi sínu.

  • Að vekja athygli barna og kennara á hvað fer fram í bænum þeirra.

  • Að vekja athygli samfélagsins á hæfileikum og færni leikskólabarna.

  • Að auka samkennd bæjarbúa allra.

  • Að vekja athygli annarra á því sem er að gerast í bænunum okkar.

Vea Vecchi, ítalskur kennari hefur sagt, að það væri mikilvægt fyrir leikskólakennara að vera virkir þátttakendur í því samfélagi sem þeir byggja. Það skipti máli fyrir þróun leikskólastarfsins að fá fleiri en eitt sjónarhorn inn í leikskólann. Leikskólinn ætti að tengjast samfélaginu með því að fá sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, t.d. listum, til að koma með þekkingu sína inn í leikskólann á einn eða annan hátt. Vecchi álítur að það sé mikilvægt að sækja sér þekkingu sem víðast, annars verði kennarinn lítill og börnin ennþá minni (Vecchi 2003, Gedin 2005). Leikskóli sem vill þróast áfram á að koma starfi sínu á framfæri, það er einmitt sú sýn sem höfð var að leiðarljósi við framkvæmd verkefnisins Bær í barnsaugum.

Gagnaöflun

Áhersla verkefnisins var á bæinn Akureyri, einkenni hans, fólkið sem byggir hann, verslanir og fyrirtæki. Gagna og upplýsinga var aflað í vettvangsferðum um bæinn. Í heimsóknum í fyrirtæki, verslanir eða stofnanir voru spurningar eins og „Hvað fer fram í þessari stofnun, hvaða þýðingu hefur hún fyrir bæjarfélagið og fyrir einstaklinginn?“ hafðar til hliðsjónar. Spurningarnar voru lagaðar að aldri og þroska barnanna auk þess sem hver skóli nálgaðist efnið á sinn hátt og bjó til sínar grunnspurningar á þeim grunni.

Leikskólakennararnir skráðu það sem fyrir bar í ferðunum með því að taka myndir og hljóðrita eða að skrá niður á annan hátt umræður barnanna, hvað þau upplifðu og sáu. Eins og áður sagði voru spurningar eins og „Hverjir búa hér í þessum bæ, hvað er það sem fer hér fram?“ hafðar til hliðsjónar. En kennararnir spurðu sig líka spurninga eins og „Hvað er forvitnilegt, hvað vekur áhuga barnanna, hver er túlkun barnanna á því sem þau sjá og heyra?“. Þannig fönguðu kennararnir sýn barnsins á samfélagið.

Unnið var úr skráðum gögnum og þau gerð sýnileg, t.d. með því að plasta þau og hengja upp við hlið listaverks eða hengja þau upp sem sjálfstæð verk; þannig var ferlið gert sýnilegt.

Verkefninu Bær í barnsaugum lauk formlega með sameiginlegri listsýningu föstudaginn 28. maí 2004 í og við miðbæ Akureyrar. Sótt var um leyfi til sýslumannsins á Akureyri til að hafa sýningar á eftirtöldum stöðum: Í kirkjutröppunum fyrir framan Akureyrarkirkju, í búðargluggum og á gangstéttum í Hafnarstræti, Listagili og á Ráðhústorgi.

Verk barnanna gerð sýnileg

Hugmyndin að sameiginlegri sýningu í miðbænum var að gera vinnu barnanna sýnilega almenningi. Að láta raddir barnanna heyrast og sýna fram á hversu hæfileikarík og getumikil börn eru. Áhersla var lögð á það frá upphafi að kennararnir skráðu ferlið, bæði í myndum og máli, gerðu vinnu barnanna við verkefnið þannig sýnilega. Í námi og þekkingarleit er það ávallt ferlið sem skiptir meginmáli, hins vegar er það oft útkoman sem er metin og því var valin sú leið að sýna ferlið og útkomuna saman.


Það þarf leyfi frá sýslumanni fyrir listsýningu á götum úti. Börn af leikskólanum Klöppum tóku að sér að heimsækja sýslumanninn og bæjarstjórann til að sækja um tilskilin leyfi fyrir listsýningu í miðbænum, ásamt því að óskað var eftir því að Listagilinu og Hafnarstræti yrði lokað fyrir umferð frá kl. 11 sýningardaginn á meðan á opnunarhátíð stæði og mörg börn væru í miðbænum. Sýslumaður hafði látið útbúa skjal fyrir hvern leikskóla þar sem kom fram að börnum og starfsfólki viðkomandi leikskóla væri heimilt að sýna í miðbænum þennan tiltekna dag. Einnig var bæjarstjórinn heimsóttur og honum boðið að taka þátt í opnunarhátíðinni, hans hlutverk var að opna sýninguna ásamt tíu börnum. Það var ánægjulegt að sjá hversu mikla virðingu bæði sýslumaðurinn og bæjarstjórinn sýndu börnunum og tóku vel á móti þeim.

Til kynningar var sent bréf til flestra fyrirtækja, verslana og stofnana í og við miðbæinn þar sem óskað var eftir samstarfi. Samstarfið gat m.a. falið í sér að fyrirtæki og stofnanir beindu sjónum að barnamenningu vikunna 24.28. maí. Það var sama hvert leitað var, allsstaðar var tekið vel í hugmyndina og ekki fór á milli mála að fyrirtæki, verslanir og stofnanir voru mjög jákvæð í garð verkefnisins. Sem dæmi má nefna að Nýja bíó bauð öllum leikskólabörnum á Akureyri í bíó. Veitingahúsið Bautinn var með sérstakan barnamatseðil vikuna 24.28. maí, fjölmiðlar sýndu verkefninu áhuga og tóku m.a viðtöl við börn og kennara og sýndu og sögðu frá verkefnum sem unnið var að.

Til að lengja lífdaga sýningarinnar bauð Samkaup – Nettó að henni yrði fram haldið á Glerártorgi í júnímánuði. Framkvæmd þeirrar sýningar var á þá leið að þrír leikskólar sýndu í einu, viku í senn. Með þessu fyrirkomulagi fengu fleiri að njóta þessa frábæra framlags barnanna til lista og menningarlífs á Akureyri. Auk þess tengdist framlag eins leikskólans listasumri með þátttöku í uppákomu á Jónsmessu.

Margbreytileikinn gerir lífið litskrúðugra

Það er ekki til nein ein leið til að kynnast samfélagi sínu og ekki endilega það sama sem vekur áhuga hjá börnum og fullorðnum. Hver hópur nálgaðist verkefnið á sinn hátt, því hver og einn sér hlutina sínum augum, börn og kennarar skoðuðu og rannsökuðu bæinn saman, hver frá sínu sjónarhorni. Hér verður þætti hvers leikskóla gerð skil.

Listamenn

Í leikskólanum Lundarseli var ákveðið að skoða fólkið sem býr á Akureyri. Byrjað var á að spjalla við börnin um mismunandi hópa sem búa í bænum. Hvaða hópa sjá börnin? Gamla, unga ... sjá þau smiði, kennara, búðarfólk, kokka, lækna, listamenn ... ? Eins og eftirfarandi tilvitnanir sýna þá voru börnin yfirleitt með það á hreinu hvað hver hópur gerði. „Smiðir smíða svo fólk eigi hlý hús“, „kokkar elda í eldhúsum svo fólkið geti pantað sér mat“. En hvað gera listamenn á Akureyri? Hvað er listamaður? Hvað gera þeir fyrir Akureyri? „Þeir gera fallegt í kring, inni í húsunum okkar og svoleiðis, og svo gera þeir svona gott fyrir hugann“, sagði fimm ára stúlka.
 


Ákveðið var að rannsaka hópinn listamenn, kynnast honum og læra af honum. Þar sem hugtakið listamaður er mjög vítt, var ákveðið að beina sjónum að myndlist og handverki. Deildir leikskólans skiptast niður í nokkra hópa eftir aldri barnanna og hver hópur nálgaðist viðfangsefnið á sinn hátt. Grunnspurningarnar voru allar þær sömu. Hvað vekur áhuga barnanna? Hver er túlkun barnanna á því sem fyrir augu og eyru ber?

Ekki var ætlunin að börnin endursköpuðu það sem þau sáu, heldur að þau prófuðu sig áfram með efnivið, innblásin af upplifunum úr heimsóknum til listamanna og eftir að hafa skoðað listaverkin sem prýða bæinn. Allir hópar bjuggu til sín listaverk og var ferlið í öllum tilfellum skráð með því að taka ljósmyndir en einnig voru börnin hvött til að hugsa upphátt og ræða sín á milli um hugmyndir sínar og umræðurnar hljóðritaðar.


Meginspurningin sem leitast var við að finna svör við var þessi: Hvað fást listamenn við? Hugmyndin var að kynna fyrir börnunum margskonar listform og margvíslegan efnivið. Farið var í heimsóknir á vinnustofur listamanna ásamt því að fá listamenn í heimsókn í leikskólann, einnig var farið á sýningar bæði í Listasafninu og í galleríum bæjarins. Þegar í leikskólann var komið tjáðu börnin sig um upplifanir sínar, bæði í myndum og máli. Börnin kynntu sér vinnubrögð listmálara, leirlistakvenna, ljósmyndara, vefara og listamanna sem vinna í ull og vinna skúlptúra úr endurnýtanlegum efniviði.

 


Einn hópurinn sem börnin kynntust í leit sinni að listamönnum voru eldri borgarar Akureyrar. Börnin heimsóttu vinnustofur eldri borgara og tóku þátt í starfinu með þeim. Eldri borgarar guldu síðar heimsóknina með því að dvelja dagpart í leikskólanum og taka þátt í starfinu með börnunum, sumir voru að koma inn í leikskóla í fyrsta sinn. Þessir tveir hópar stóðu fyrir sameiginlegri skemmtun í apríl, þar sem m.a var boðið upp á tískusýningu, söng, ljóðalestur og dans. Samstarf barnanna í Lundarseli og eldri borgara í Viðjulundi er komið til að vera og verður þróað áfram.

Leikskólinn minn

Í leikskólanum Pálmholti unnu 36 börn, fædd 1998–1999, ásamt sjö kennurum að veggteppi sem þau nefndu Leikskólinn minn. Ákvörðunin var tekin á sameiginlegum fundi barna og kennara. Börnin rannsökuðu nánasta umhverfi sitt og ákváðu í sameiningu hvað ætti að vera á veggteppinu. Þau unnu saman í litlum hópum þar sem börn og fullorðnir ræddu saman um umhverfið og skoðuðu það frá ýmsum sjónarhornum, m.a. út frá þessari spurningu: Hvað sjáum við þegar horft er út fyrir leikskólann?


Þegar myndin var fullgerð tóku börnin mál af henni og því næst var farið með strætisvagni ofan í bæ í leit að hentugum glugga eða öðrum góðum stað til að sýna á. Börnin höfðu meðferðis málband og mældu alla búðarglugga miðbæjarins og þegar rétti glugginn fannst tók við önnur leit en það var að finna eiganda gluggans. Börnin lærðu ekki bara um umhverfi sitt, þau lærðu líka um stærðfræði og að leita leiða til lausna.


Nokkur börn veltu fyrir sér húsunum í bænum, m.a. hvernig húsum þau sjálf byggju í og hvar þau væru í bænum. Tekin var mynd af hverju barni fyrir framan útidyr hússins ásamt myndum af húsunum. Þegar í leikskólann var komið endursköpuðu börnin húsin úr pappakössum. Reynt var að fylgja nákvæmlega lit og lögun. Að lokum lét hvert barn mynd af sér við hliðina á útidyrum að sínu húsi.


Yngstu börn leikskólans bjuggu til vef með stöfunum sínum. Stafir eru mikið notaðir í leik og starfi barnanna í Pálmholti og því lá beint við að nota þá sem uppistöðu í vefinn. Þar sem stafir spila einnig stórt hlutverk í bókabúðum völdu börnin að sýna verkið sitt í glugga bókaverslunarinnar Penninn/Bókval.

Nítján börn fædd 2000, ásamt kennurunum sínum, ákváðu að hafa fjölskylduna sem útgangspunkt í sínu verkefni og búa jafnframt til viskutré sem þau nefndu svo. Ákveðið var að nota eingöngu endurnýtanlegan efnivið í verkið. Farið var í heimsókn á verkstæði á Eyrinni í leit að efniviði og í verslunina Byko. Einn faðirinn aðstoðaði börnin við vinnu með járn.

.


Eftir að hafa gengið um bæinn sinn sáu börnin á Pálmholti ástæðu til að minna Akureyringa á að ganga vel um bæinn sinn og af því tilefni bjuggu þau til veggspjald. Á veggspjaldinu stendur: „Kæru Akureyringar! Það má ekki henda rusli á götuna. Ruslið á að fara í ruslakassana.“  Undir þessa kveðju skrifuðu börnin nöfnin sín og svo kom eftirskrift: „Það er ekki heldur fallegt að skrifa á húsin.“

Fiskabúrið

Það er oft þannig að börnin taka eftir öðru en hinir fullorðnu, það sannaðist þegar barnahópurinn í leikskólanum Klöppum valdi sér að skoða Bautann. Í umræðum barnanna varð þeim tíðrætt um fiskabúrið sem þar er inni. Þetta kom kennurunum á óvart því enginn þeirra mundi eftir að það væri fiskabúr þarna. Því var haldið í rannsóknarferð, eina af mörgum, til að skoða húsið og fiskabúrið. Bautamenn tóku vel á móti börnunum, buðu þeim upp á veitingar og leyfðu þeim að ganga um staðinn, skoða og rannsaka.


Börnin fóru nokkrar ferðir til að skoða aðstæður og hvernig fiskar væru í búrinu. Fljótlega eftir að verkið hófst var ákveðið að breyta glerviðbyggingu Bautans í risastórt fiskabúr, þ.e. að búa til fiska og hengja inn í glerbygginguna. Börnin unnu í mismunandi hópum og skiptu með sér verkum. Mikil samvinna var í gangi, enginn einn átti eitthvað ákveðið, heldur var verkið í heild verk allra barnanna í leikskólanum.

Álfar

Í leikskólanum Holtakoti tóku öll börnin 35 og allir kennarar þátt. Vegna þess hve umhverfi leikskólans er klettótt og ekki langt í Krossanesborgir, ákváðu kennarar skólans að spyrja börnin hvort þau héldu að það væru til álfar og ef svo væri hvort það gæti verið að þeir byggju í klettum. Börnin voru viss um að það væru til álfar, rannsökuðu klettana allt um kring með það fyrir augum að koma auga á hvort þar gæti hugsanlega leynst álfabyggð. Börnin skiptust í nokkra hópa og útfærði hver hópur sitt verkefni.


Álfa var leitað víða t.d. voru búnir til kíkjar og hafnarsvæðið skoðað með þeirra hjálp. Eftir þá ferð voru búnir til álfabátar, því álfar þurfa að veiða sér í matinn, komust börnin að. Heilmiklar umræður urðu um álfa og tilvist þeirra, t.d. hvar og hvernig þeir byggju, hvernig fötum þeir klæddust og svo framvegis. Farnar voru ófáar gönguferðirnar í þeim tilgangi að finna álfabyggð í nágrenni leikskólans. Það urðu umræður og vangaveltur um hvort þar byggju álfar og hvað þeir væru að gera. Í einni af þessum ferðum ákvað einn hópurinn að búa til sína eigin álfabyggð.

Nánast allt sem börnin fundu úti, t.d. brot af einhverju, spotta eða stein, töldu þau öruggt að væri eitthvað sem álfarnir ættu. Börnin voru viss um að þau þyrftu stækkunargler, því annars myndum þau ekki sjá álfana. Börnin töldu sig finna ýmsar vísbendingar um tilvist álfa, t.d. fundu þau hár af álfi.


Einn hópur barna bjó til stóran álfastein sem seinna var nefndur Álfalind 10D. Í kjölfarið fylgdu fleiri skemmtilegar hugmyndir eins og að börnin sjálf myndu í þykjustunni eiga heima í steininum. Þau völdu sér álfanöfn, t.d. var Gauti Snær stríðsálfur með sverð og Elísabet Hulda var snæálfur. Börnin sömdu ævintýri um álfana í Álfalind 10D.

Í upphafi voru það eldri börn leikskólans sem unnu verkefnin en yngri börnin í leikskólanum fóru ekki varhluta af umræðunni. Smám saman fóru þau að taka þátt á sinn hátt, t.d. bjuggu þau til álfaspor með því að stíga í málningu og stimpla á brúnan pappír. Þessu næst ákváðu þau að búa til álfahús, börnin höfðu ákveðnar hugmyndir um útlit hússins og fengu eina af eldri stelpunum í leikskólanum til að hjálpa til eftir þeirra tilsögn.


Þarna voru allir þátttakendur hver á sinn hátt, verkefnið leiddi m.a. af sér samvinnu yngri og eldri barnanna, ásamt mörgu fleiru.

Gamli tíminn

Á Síðuseli veltu elstu börnin fyrir sér gamla tímanum með ýmsu móti. Þau byrjuðu á því að fara í vettvangsferðir á Minjasafnið þar sem áhugi kviknaði á að rannsaka gamla tímann. Börnin virðast vera nokkuð meðvituð um hvernig lífið var í gamla daga ef marka má svör þeirra eins og sést á eftirfarandi dæmum. Hvernig voru leikföngin í gamla daga? „Gömul, kannski rólur eða rennibraut eða hringekja.“ Hvað borðaði fólk? „Sviðasultu, hákarl, lambakjöt og soðið brauð.“ Hvernig ferðaðist fólk? „Á hestbaki.“ Hvernig voru fötin? „Úr ullum, bændur tóku ullina af kindum og bjuggu til föt.“

Þula

Eftir Sigmar 5.9 ára


Það er hægt að spila á langspil,
spila með boga.
Afi smíðar fiðlur
og líka langspilið.
Í Minjasafninu
var skemmtilegast
að sjá sverðið,
það var síðan í gamla daga.


Börnin komu með gamla muni í leikskólann að heiman og veltu fyrir sér tilgangi þeirra og hvort það væru til sambærilegir hlutir í dag. Börnin lærðu nokkrar gamlar þulur og æfðu sig í að búa til sínar eigin þulur og vísur um gamla daga. Eftir nokkrar umræður ákváðu börnin að búa til gamlan íslenskan bæ sem þau smíðuðu úr plötum, það þurfti að teikna, saga og pússa og að lokum að mála allt saman, því næst voru nokkrir steinar málaðir eins og fólk og raðað í kringum bæinn.

Akureyri, bærinn okkar

Áhersla var á að börnin kynntust umhverfi sínu og samfélagi, t.d. með því að fara í vettvangsferðir og hafa umræðustundir þar sem hlustað var eftir hugmyndum barnanna um samfélagið sitt. Á Sunnubóli voru það líka elstu börnin sem unnu saman að verkefni sem þau kölluðu Akureyri, bærinn okkar. Farið var í vettvangsferðir þar sem börnin kynntust bænum sínum frá ýmsum sjónarhornum og eftir hverja vettvangsferð ræddu börnin saman um hvað fyrir augu og eyru bar.


Spurningarnar sem lagt var af stað með voru m.a. þessar: Hvað er í bænum? Af hverju heitir bærinn Akureyri? Hver gaf honum nafnið? Hvað sáum við á ferð okkar um bæinn? „Ég sá styttu af Helga magra og hann fann Ísland, nei, hann fann Akureyri, hann var listamaður. Við sáum líka Glerárkirkju og strætóhúsið og líka bókasafnið.“ „Við sáum kirkju og löggustöðina og líka Ingólf Árnason.“ „Ég sá Glerártorg, þar vinnur pabbi minn“ Hvað er á Glerártorgi? „Þar eru margar búðir og föt og dót í Dótabúðinni, svo er hægt að kaupa mjólk og brauð“, „...svo sáum við Glerártorg, þar er fullt hús af húsum.“

Úrvinnsla úr ferðunum voru aðallega umræður um það sem börnin sáu og upplifðu, það sem þeim var minnisstæðast og þar fram eftir götum. Bæði börn og fullorðnir tóku myndir og auk þess voru allar umræður hljóðritaðar. Þegar verkefnið var um það bil hálfnað var ákveðið að fara í samstarf við Sparisjóð Norðlendinga og fékk hópurinn þar inni á sýningardaginn.

Nokkrar umræður urðu um styttuna af Helga magra, m.a. veltu börnin því fyrir sér hvernig Helgi magri varð að styttu. „Þegar sólin kom breyttist hann í stein“, sagði Anna Margrét en Sara Rut sagði, „hann var búinn til“. Þá sagði Gestur, „nei, þegar sólin kom upp breyttist hann í stein eins og tröll“. „Haldið þið að Helgi magri hafi verið tröll?“, spurði Sirrý. Sara Rut átti síðasta orðið í þessari umræðu. „Nei“, sagði hún, „hann var maður og er löngu dáinn eins og langamma mín“.

Skáldið og húsið

Í leikskólanum Kiðagili tóku allar deildar þátt á einn eða annan hátt. Börnin á yngri deildunum tveimur veltu fyrir sér sínu allra nánasta umhverfi, þ.e. leikskólanum sjálfum og mótuðu hann úr mjólkurfernum og ýmiss konar pappír, gifsi og þekjulitum. Einnig voru farnar ferðir út í náttúruna til að safna efniviði, s.s. steinum, sandi og möl. Í byrjun áttu börnin erfitt með að átta sig á hvernig mjólkurfernur gætu orðið að húsi en smám saman þróaðist verkið og börnin fylltust eldmóði eftir því sem húsið tók á sig mynd.

 


Til að auðvelda börnunum að sjá verkið fyrir sér voru farnar reglulegar könnunarferðir kringum húsið og velt vöngum yfir lögun og litum. Það skapaðist skemmtileg samvinna milli barna og fullorðinna og börnin lærðu úr hverju skólinn þeirra er byggður þegar þau veltu fyrir sér byggingarefnum.


Eldri börnin tóku fyrir skáldið Davíð Stefánsson og veltu fyrir sér og túlkuðu nokkur af ljóðum hans og verkum, t.d. Kvæðið um fuglana, Gullna hliðið og Litlu Gunnu og litla Jón. Farið var í heimsókn í Davíðshús þar sem börn og fullorðnir fengu kynningu á skáldinu og manninum Davíð, ásamt því að skoða húsið hátt og lágt. Börnin túlkuðu ljóðin í söng og gerðu þeim líka myndræn skil. Þá sköpuðust heilmiklar umræður um orð eða atriði í ljóðunum, t.d. um það hvernig hægt væri að setja sálina í poka og labba til himnaríkis.

Umhverfið okkar

Leikskólinn Naustatjörn er í ungu íbúðarhverfi, þar sem mikið er um byggingarframkvæmdir. Börnin þar þennan vetur sem verkefnið stóð yfir voru flest fædd 2001 og 2002 eða frekar ung og því var ákveðið að þau rannsökuðu sitt allra nánasta umhverfi. Kennararnir veltu fyrir sér hvað það væri sem börnin myndu sjá og hverju þau myndu taka eftir og til að komast að því var ákveðið að fara í stuttar gönguferðir um svæðið í kringum leikskólann. Teknar voru myndir af því sem fyrir augu bar, einnig voru umhverfishljóð tekin upp á diktafón, eins og gröfuhljóð, hamarshögg og fleira. Nokkrum sinnum var stoppað þar sem börnin litu í kringum sig og sögðu frá því sem fyrir augu bar. Börnin komu m.a. auga á rafmagnskassa og vildu vita hver ætti heima þar inni, þau bönkuðu á kassann og vildu komast inn, að lokum komust börnin að þeirri niðurstöðu að það ætti stelpa heima inni í rafmagnskassanum. Eftir hverja ferð var rifjað upp hvað fyrir augu og eyru bar með því m.a. að skoða myndir úr ferðinni og hlusta á hljóð. Hver hópur vann úr ferðinni með því m.a. að byggja úr kubbum.


Í göngufæri við leikskólann er kirkjugarður; einn hópur fór þangað í skoðunarferð og velti fyrir sér hvað þar væri að finna. Í framhaldi af þeim ferðum útbjó hópurinn svo kirkju og kirkjugarð. Börnin voru áhugasöm, fylgdust grannt með sínu nánasta umhverfi og yfirfærðu síðan reynsluna í leik með aðstoð fullorðinna.


Flest börnin voru mjög ung og nýbyrjuð í leikskóla í upphafi verkefnisins, kennararnir sáu þetta því sem gott tækifæri til að æfa börnin í að vinna saman sem hópur og tengjast.

Ostur og skyr

Norðurmjólk er í næsta nágrenni við leikskólann Flúðir og ákveðið var að leita eftir samstarfi við það fyrirtæki. Börnin skiptust í nokkra hópa og fóru ásamt kennurum sínum í rannsóknar- og skoðunarferðir í fyrirtækið. Einn hópurinn varð hugfanginn af umhverfinu og túlkaði það með því að gera líkan af húsum og styttunni af Auðhumlu og mjaltakonunni sem stendur á lóð fyrirtækisins. Annar hópur velti fyrir sér umbúðum og fékk m.a. gamlar umbúðir til að vinna úr. Einn hópurinn skoðaði hvernig ferskjuskyr verður til. Annar hópur bjó til „ost“. Skiltin fyrir utan fyrirtækið vöktu athygli tveggja drengja sem bjuggu til skilti fyrirtækisins.

 


Farið var í verslanir og skoðað hvaða vörur kæmu frá Norðurmjólk og eftir að hafa rannsakað mjólkurkæli verslunarinnar í nágrenni leikskólans vaknaði áhugi á að búa til skyrdrykki, börnin prófuðu sig áfram með aðstoð kennara og komust að því að sumu er gott að blanda saman við skyr en öðru ekki, t.d. er ekki gott að blanda tómatsósu og pepperóni í skyr til að búa til pizzudrykk! Börnin bjuggu til uppskriftabækling með skyrdrykkjum sem þau gáfu gestum á sýningardaginn.

Kirkjan með augum barna

Leikskólinn Krógaból er í kjallara Glerárkirkju, það lá því beint við að kanna kirkjumenningu með augum barnanna. Farnar voru vettvangsferðir og nokkrar kirkjur á Akureyri skoðaðar. Áður en lagt var af stað settust börn og kennarar niður og veltu fyrir sér hvað það væri sem þau vildu vita um kirkjurnar og hvað það væri sem þau vissu. Dæmi um spurningar sem börnin spurðu prestana gætu verið þessar: Af hverju er kross uppi á kirkjunni? Af hverju er kirkjan (Akureyrarkirkja) uppi á hól? Hvaða hlutir eru í kirkjunni? Af hverju er vatn sett á höfuðið á litlu börnunum þegar þau eru skírð? Eru bæði konur og karlar prestar?


Eftir hverja heimsókn var rætt um það sem fyrir augu og eyru bar og velt fyrir sér hvað væri merkilegast og vekti áhuga barnanna. Þegar í leikskólann kom byggðu börnin m.a. kirkjur úr einingarkubbum og teiknuðu kirkjur. En það átti eftir að breytast þegar á leið. Fyrirfram voru kennararnir nokkuð vissir um að börnin myndu teikna og mála kirkjur, þ.e. bygginguna sjálfa. Það kom hins vegar á daginn að þær leiðir og þau viðfangsefni sem börnin völdu sér komu kennurum skemmtilega á óvart.


Það sem stóð upp úr hjá börnunum eftir ferðirnar voru ákveðnir hlutir sem tilheyra kirkjunni og kirkjulegum athöfnum, s.s. eins og kaleikur, höklar, altaristafla og fleira. Hvort það var fegurð eða gildi þessara hluti er ekki alveg ljóst en þegar farið var að ræða hvað ætti að búa til voru börnin m.a. sammála um að hanna og sauma hökla með stólu í barnastærðum, búa til skírnarfont og kaleik. Áhugi barnanna var mikill og þau voru óþreytandi að spyrja og leita sér upplýsinga um þá hluti sem þau vildu búa til. Umræðurnar sem sköpuðust í kringum verkefnið voru skemmtilegar og gáfu leikskólakennurunum innsýn í hvernig börnin sjá kirkjuna og það sem þar fer fram.

Niðurlag

Óhætt er að segja að þegar lagt er af stað með nýja hugmynd veit maður oft ekki hver lendingin verður. Það var spenntur hópur leikskólakennara sem hittist í nóvember 2003 til að hrinda í framkvæmd þeirri hugmynd sem hér var lýst í upphafi.

Frá byrjun var ákveðið að það væri frjálst val að taka þátt í verkefninu, hvort sem í hlut ættu leikskólar, kennarar eða börn. Þetta var gert til að tryggja að það væru aðeins þeir sem teldu sig hafa tíma og áhuga á að taka þátt í verkefninu sem væru með. Aðstæður leikskólanna eru misjafnar og sumsstaðar var búið að ákveða önnur stór verkefni sem gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka þátt að þessu sinni.

Allir gerðu sér grein fyrir því strax í byrjun að þetta yrði mikil vinna og allir þyrftu að leggja töluvert á sig til að láta hlutina ganga upp. Auðvitað voru margar hindranir á leiðinni en þær voru til að sigrast á. Það sem stendur upp úr er að börn og fullorðnir lærðu um margbreytileika bæjarins, hversu fjölbreytt lífið er í ekki stærra bæjarfélagi og hvað það eru margir hópar sem mynda samfélag.


Eitt af markmiðum verkefnisins var að vekja athygli almennings á því starfi sem fram fer í leikskólanum og óhætt er að fullyrða að það náðist. Sem dæmi um hversu mikla athygli verkefnið vakti má nefna að forstöðumaður Listasafnsins lét þau orð falla eftir sýningardaginn að hann hefði áhuga á að sett yrði upp sýning í Listasafninu á listaverkum barna. Miðbær Akureyrar fylltist þetta föstudagssíðdegi í maí 2004 af fólki sem sá og heyrði hversu hæfileikarík og getumikil leikskólabörn eru í reynd.
 

Ljósmyndir

 

Rósa Kristín Júlíusdóttir tók mynd af peysum og snuðum í Lystigarði Akureyrar. Aðrar ljósmyndir sem hér eru birtar voru teknar af starfsfólki leikskólanna á Akureyri í tengslum við verkefnið Bær í barnsaugum. Afritun án leyfis er óheimil.

Heimildir

Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Menntamálaráðuneytið.

Anna Friðriksdóttir, Jenný Gunnarsdóttir og Hólmfríður Sigmarsdóttir. 2002. Heimsókn til Reggio. Röggur, 4,1:2526. Vefslóð: http://vefir.unak.is/roggur/Roggur%20ltbl4ar.pdf.

Filippini, Tiziana og Claudia Giudici. 2001. Making learning visible. Children as individual and group learners. (Ritstjórar; Claudia Guidici, Carla Rinaldi og Mara Krechevsky.) Projekt Zero, Harvard Graduate School of Education. Reggio Children srl.

Gedin, Marika. 2005. Pedagogens roll är att RÖRA till det. Modern barndom nr. 10:1114 Stokkhólmur, Reggio Emilia Institutet.