Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 4. október 2005

Þorsteinn Hilmarsson

Samstarf atvinnulífs og skóla

Grein Ólafs Páls Jónssonar svarað

Í greininn er brugðist við grein Ólafs Páls Jónssonar þar sem hann leiddi að því rök að hafna beri fortakslaust nýlegu boði Landsvirkjunar um fræðslustarf og samkeppni í grunnskólum. Hér er fjallað um samstarf atvinnulífs og skóla, farið yfir rök Ólafs Páls, þeim andmælt og þeirri afstöðu lýst að inntak keppninnar eigi fyrst og fremst að meta eftir gæðum eins og annað námsefni. Bent er á að forseti Íslands hafi jafnan lagt hornstein að virkjunum en gert er ráð fyrir að börn sem sigra í keppninni taki þátt í því verki við Kárahnjúka. Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

Ólafur Páll Jónsson lektor í heimspeki við Kennaraháskóla Íslands skrifar grein, Skólinn, börnin og blýhólkurinn, í Netlu veftímarit um uppeldi og menntun á vegum Rannsóknarstofnunar KHÍ. Þar rekur hann fjórar ástæður þess að hann telur rangt að Landsvirkjun beiti sér fyrir fræðslu um orku og orkumál með því að leggja til námsgögn og verkefni og bjóði til samkeppni um úrlausn á þeim. Ólafur beitir aðferðum sinnar fræðigreinar við að rökstyðja afstöðu sína, hann skírskotar m.a. til siðfræði og vísindaheimspeki. Hann telur að skólastjórnendur og skólayfirvöld eigi ekki að ljá máls á því að leyfa aðkomu skólanna að samkeppninni heldur hafna henni fortakslaust. Ég tel röksemdir hans ekki standast nánari skoðun og að hann lýsi ekki með réttmætum hætti framtaki Landsvirkjunar.

Lítum á ástæðurnar fjórar sem Ólafur telur upp og metum rökstuðning hans fyrir réttmæti þeirra.

1. Ólafur telur að Landsvirkjun eigi ekki
að búa til námsefni fyrir grunnskóla

Ólafur telur að fyrirtæki eins og Landsvirkjun eða Mjólkursamsalan eigi ekki að vinna námsefni fyrir grunnskóla vegna þeirra krafna sem gerðar eru til námsefnis. Það þurfi að uppfylla kröfur um hlutlægni, trúverðugleika og sanngirni í garð ólíkra sjónarmiða. Gæta þurfi þess að viðeigandi upplýsingar komi fram og það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að ítrustu faglegra sjónarmiða sé gætt. Því sé ekki að heilsa þegar hagsmunaaðilar eigi í hlut, segir Ólafur.

Það er hárrétt hjá Ólafi að gera beri fyllstu kröfur til gæða námsefnis, þar á meðal að það virði þau gildi sem hann telur upp. Þýðir þetta að efni gert að tilstuðlan Landsvirkjunar eða Mjólkursamsölunnar falli úr leik fyrirfram? Að slíkir aðilar eigi ekki að búa til námsefni eða styðja við gerð þess? Þýðir þetta að það sé sjálfgefið að Námsgagnastofnun gefi út námsefni sem stenst kröfur Ólafs? Hann telur eðlilegt að fyrirtæki gefi fé þangað til námefnisgerðar ef þeim er umhugað um fræðslumál.

Ólafur hefur ekki séð það námsefni sem til stendur að Landsvirkjun geri skólunum aðgengilegt, einfaldlega vegna þess að það er ekki tilbúið. Hann getur því ekki bent á neina galla við það en telur að Landsvirkjun eigi ekki að búa til slíkt námsefni. Nú er það svo að gæði námsefnis ráðast ekki af því hver gerir það heldur af því hversu vel það er gert, það er kjarni málsins. Það er innihaldið sem skiptir máli. Ólafi er ekki síst umhugað um yngstu börnin í þessu samhengi. Það er ekki úr vegi að lýsa því hvað það er sem Landsvirkjun hyggst bjóða þeim upp á. Fyrirtækið hefur beðið Yrsu Sigurðardóttur verðlaunaðan barnabókarithöfund og verkfræðing við Kárahnjúkavirkjun um að skrifa myndræna sögu fyrir 1. til 4. bekk grunnskólans sem lýsir því hvað rafmagn er. Sagan er ekki tilbúin. Kannski verður hún frábært kennsluefni og kannski hefur hún einhverja galla sem draga úr gildi hennar fyrir grunnskólana og fræðslu yngstu nemendanna. Það verða skólastjórnendur og kennarar að meta þegar þar að kemur. Sú er raunin um allt námsefni, einnig það sem kemur frá Námsgagnastofnun.

Ólafur er andvígur því að skólarnir fái færi á að leggja slíkt mat. Hans afstaða er að gæðin ein nægi ekki til að réttlæta notkun námsefnis. Kennarar og skólastjórnendur, börnin og foreldrar þeirra þurfi að geta verið sannfærð um að utanaðkomandi hagsmunum, þ.e. Landsvirkjunar í þessu tilviki, hafi verið haldið aðgreindum frá námsefnisgerðinni. Þetta telur Ólafur að eigi við um alla námefnisgerð. Hann segir að kröfur í námsefnisgerð séu svipaðar og gerðar eru til vísindalegra rannsókna. Lýsing hans á vísindastarfi er á þá leið að sá sem geri tilkall til þess að búa yfir vísindalegri þekkingu þurfi að vera óháður hagsmunum sem eru framandi vísindunum. Þetta er að vísu kenning sem ég tel að standist ekki skoðun, enginn er slíkt eyland, hvorki í vísindunum né í akademísku umhverfi, eða inni á Námsgagnastofnun. Sem betur fer! Mér virðist að hann telji að til þurfi að vera „fagmenni“; hagsmunalaus, hlutlaus - og kannski skoðanalaus. Þá verði gangur í vísindastarfi og námsgagnagerð.

Samþykkjum engu að síður þessa lýsingu hans í því samhengi sem hann teflir henni fram, þótt villandi sé. Tökum nú dæmi af skrifum Ólafs sjálfs í ljósi þessarar afstöðu hans. Hann er fræðimaður á sviði heimspeki og fagmaður á sviði kennslumála. Er það svo að gæði málflutnings hans ráðist af þessum staðreyndum um hann og þarf sérstaklega að ganga úr skugga um að hann hafi engra utanaðkomandi hagsmuna að gæta? Ef hagsmunir Landsvirkjunar óviðkomandi námsefninu dæma hana úr leik þá virðist mér að hann dæmi sjálfan sig úr leik í faglegri umræðu um þessi efni því Ólafur er ekki bara lektor í heimspeki við KHÍ, hann er einnig stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands sem hafa barist hart gegn flestu því sem Landsvirkjun hefur gert á undanförnum árum. Hvernig getur það sem hann skrifar um Landsvirkjun og námsefnisgerð eða samkeppni á hennar vegum verið hafið yfir allan vafa um að ítrustu faglegra sjónarmiða sé gætt og að óviðkomandi hagsmunir hugsjónastarfs hans í virkjunarandstöðu spili þar ekki inn í?

Málflutningurinn stenst einfaldlega ekki hjá Ólafi. Auðvitað á að dæma bæði Ólaf og Landsvirkjun af verkum sínum, innihaldinu, en ekki af því hver þau eru eða hvaða hagsmuni er hugsanlegt að tengja við þau. Þess vegna er ekkert í eðli máls sem felur það í sér að Landsvirkjun eigi ekki að búa til námsefni fyrir grunnskóla, ekki frekar en að Ólafur eigi ekki að fjalla sem lektor við Kennaraháskólann um framtak Landsvirkjunar í fræðslumálum.

2. Ólafur telur að Landsvirkjun eigi ekki erindi
inn í starf grunnskólanna

Ólafur færir tvenn rök fyrir því að Landsvirkjun eigi ekkert erindi inn í skólana. Fyrri rökin felast í því að Ólafur telur að réttmæti aðkomu utanaðkomandi inn í skólastarf ráðist af því með hvaða hætti þeir koma inn í skólana og Landsvirkjun falli á því prófi. Seinni rökin snúast um það hversu umdeildir viðkomandi aðilar eru í samfélaginu – Landsvirkjun sé of umdeild. Lítum á þetta tvennt.

Ólafur telur Landsvirkjun fara „djúpt” inn í skólastarfið og dregur fram tvö atriði óviðurkvæmileg því til áréttingar. Hið fyrra er að Landsvirkjun fari beint inn í kjarna skólastarfsins: inn í sjálfar skólastofurnar. Ólafur kýs að túlka boð Landsvirkjunar um aðstoð og milligöngu við að leysa þau verkefni sem Landsvirkjun býður upp á sem ásælni í að komast inn í kennslustofurnar. Hann lýsir því sem svo að ráð sé fyrir því gert í samkeppninni að starfsmenn og starfsemi Landsvirkjunar verði hluti af þeim verkefnum sem unnin verða í grunnskólunum. Einnig telur hann það varhugavert að Landsvirkjun vonist til að námsefnið nýtist í sem flestum námsgreinum. Hann virðist skilja það sem svo að fyrirtækið vilji gína yfir öllum námsgreinunum.

Bæði þessi atriði eru misskilningur. Landsvirkjun vill einmitt ekki hafa áhrif á undir hvaða formerkjum verkefnin verði unnin. Þess vegna eru þau þannig sniðin að skólarnir geti ákveðið það sjálfir hvaða námsgreinum þau tengist, kjósi þeir að nýta sér þau. Ég hygg að óvilhallur lesandi skilji eftirfarandi texta frá Landsvirkjun til skólastjórnenda þannig að vilji skólarnir fá aðstoð sé Landsvirkjun að lýsa sig búna til að veita hana en ekki að fyrirtækið sé að reyna að komast inn í skólastofurnar.

Með samkeppninni leitast Landsvirkjun við að færa grunnskólum landsins fræðsluefni í hendur um orku og orkumál í samræmi við aðalnámsskrá gunnskóla. Fullmótuð verkefni verða send til allra grunnskólanna fyrir áramót en samkeppnin felst í úrlausn nemenda á þeim. Ennfremur verður skólunum fengið fræðsluefni og/eða leiðbeiningar um hvar nálgast megi slíkt efni. Þá verður leitast við að aðstoða við fræðslustarfið eftir föngum, t.d. með milligöngu um heimsóknir í virkjanir og kynningu á orkumálum í skólunum sjálfum.

Von okkar er að verkefnin nýtist við kennslu í sem flestum námsgreinum, en verkefnin eru þegar í mótun í samráði við skólafólk sem sinnt hefur fræðslu um orkumál. Þeir sem aðstoða Landsvirkjun við þetta verkefni eru Þóranna Rósa Ólafsdóttir deildarstóri við Norðlingaskóla og vefstjóri Orkuvefjarins, Meyvant Þórólfsson lektor við Kennaraháskóla Íslands, og Ari Ólafsson dósent við Háskóla Íslands. Með í ráðum eru einnig einstaklingar sem unnið hafa með þeim, m.a. í samstarfshópi um eflingu náttúruvísinda í skólum og að svonefndu Nordlab-verkefni.

Starfsmenn Landsvirkjunar og samverkafólk þeirra við gerð verkefnanna gera sér grein fyrir að þótt áhugi kynni að vera fyrir hendi hjá kennurum að nýta efnið frá Landsvirkjun, kann að vera vilji fyrir að fá nánari skýringar eða aðstoð við útfærslu á hugmyndum um kennsluna. Það væri sérkennilegt að bjóða þessi verkefni og námsefni og skilja fólk eftir eitt á báti.

Hið seinna atriði sem Ólafur hefur til marks um að gengið sé „djúpt” inn í kjarna skólastarfs er það að með samkeppninni höfði Landsvirkjun til keppnisskaps nemenda, fyrirtækið ýti undir tilfinningalega þátttöku nemenda í verkefnum um orku og orkumál. Keppnisskap og áhugi getur auðvitað farið úr böndunum í kennslustofunni eins og víðar. Telur Ólafur að hér skipti máli hver veldur eða er hann á móti fyrirbærinu? Hvað skal segja um starf íþróttafélaga í þessu samhengi? Verður ekki að treysta kennurum og foreldrum að halda aftur af börnunum svo að þau ofhasi sér ekki?

Ég tel að Ólafur geri meira úr aðkomu Landsvirkjunar inn í skólana en efni standa til.

Seinni meginrök Ólafs fyrir því að Landsvirkjun eigi ekki erindi í starf grunnskólanna felast í því að ekki sé réttmætt að skylda börn til að taka þátt í starfi með mjög umdeildum aðilum.

Hver á að ákveða hverjir eru tækir inn fyrir veggi skólastofunnar? Og hver á mælikvarðinn að vera? Ég fagna umræðu um þessi mál í tilefni af framtaki Landsvirkjunar. Við mættum jákvæðni og velvilja hjá Skrifstofu menntamála í Menntamálaráðuneytinu og hjá skólafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga þegar við kynntum áform okkar. Báðir aðilar sögðu að ekki væri um það að ræða að sækja þyrfti um leyfi fyrir framtak af þessu tagi. Gott er ef umræðan stuðlar að því að skólayfirvöld móti starfsreglur. Við það verk tel ég að hafa verði í huga að það er mikilvægt að treysta skólastjórnendum og kennurum til að meta það sem berst að þeim utanað og ákveða í samstarfi við heimilin hvað af því er þegið. Málflutningur Ólafs gengur í þá átt að sú ábyrgð verði af þeim tekin. Forræðishyggja og miðstýring er ekki til góðs.

Það er ekki úr vegi að rekja hver verkefnin eru sem Landsvirkjun er að bjóða upp á og meti nú hver fyrir sig hvort efnið sé umdeilt og að grafið sé undan gagnkvæmu trausti í samstarfi heimila og skóla eins og Ólafur heldur fram í grein sinni.

Nemendum í 1. til 4. bekk verður boðið að myndskreyta sögu Yrsu sem áður var nefnd.

Nemendum í 5. til 7. bekk verður boðið að fjalla um raforkuvinnslu þar sem einhverjir eftirfarandi þátta skulu teknir fyrir:

  • Hvaðan kemur raforka, hvernig er hún framleidd?

  • Hvaða hlutverki gegnir raforkuframleiðslan?

  • Hvernig væri Ísland án rafmagns?

  • Hvað getur komið í stað raforku?

Nemendum í 8. til 10. bekk verður boðið að gera kynningu um Kárahnjúkavirkjun þar sem einhverjir eftirfarandi þátta skulu teknir fyrir:

  • Lýsing á helstu mannvirkjum og raforkuframleiðslunni.

  • Stærðir og magntölur virkjunarinnar sem og framleiðsla hennar settar í samhengi daglegs lífs.

  • Umfjöllun um umhverfismál og umhverfisáhrif virkjunarinnar.

  • Umfjöllun um samfélagsumræðuna varðandi virkjunina.

Auk sögu Yrsu Sigurðardóttur felst námsefnið og leiðbeiningarnar sem Landsvirkjun leggur fram í eftirfarandi. Fyrir 5. til 7. bekk verður vísað í efni á orkuvefnum, fræðsluvef Landsvirkjunar og víðar þar sem efni er að finna um rafmagn og rafmagnsframleiðslu, hérlendis og erlendis. Um þetta verður gerð yfirlitssíða á fræðsluvef Landsvirkjunar með krækjum í áhugaverða staði. Lagðar verða fram hugmyndir um hvernig hægt er að tengja þetta verkefni við mismunandi kennslugreinar. Til dæmis má hugsa sér landafræðiverkefni um mismunandi aðferðir við raforkuframleiðslu eftir löndum, hægt væri að skrifa ritgerð um þessi efni í móðurmálskennslu og hugsanlega gera einfalda útreikninga á orkunotkun í stærðfræði. Loks verður vikið að möguleikum við framsetningu verkefnisins. Svipaða sögu má segja um verkefni elsta hópsins þar sem að fjalla skal um Kárahnjúkavirkjun. Síða á fræðsluvef Landsvirkjunar mun vísa á efni: Kort og uppdrætti af virkjuninni ásamt upplýsingum um stærðir og magntölur tengdar mannvirkinu og rekstri þess. Fyrir þá sem vilja fjalla um umhverfismál virkjunarinnar verða tenglar í matskýrslu um umhverfisáhrifin, umsagnir og athugasemdir, rannsóknir og úrskurði. Þá verða þar listar yfir vænleg leitarorð í gagnabönkum fjölmiðla. Svipaður háttur verður hafður á um samfélagsumræðuna.

Ólafur ætlar Landsvirkjun meiri aðkomu inn í skólastarfið en efni standa til. Ég tel hann misskilja áreitnislaus skrif fyrirtækisins til skólanna. Skoðun hans að Landsvirkjun sé umdeild snertir ekki verkefnin sem fyrirtækið býður grunnskólanemum í 1. til 7. bekk að leysa. Elsta hluta grunnskólans er boðið að taka með frjálsum hætti á málefnum Kárahnjúkavirkjunar. Það er ekkert óeðlilegt við það að unglingar á táningsaldri kynnist hinum ýmsu málefnum sem eru efst á baugi í samfélaginu. Kennurum þeirra er vel treystandi til að hjálpa þeim að afla sér yfirsýnar og mynda sér skoðun. Orka og orkumál eru mikilvægur þáttur í samfélaginu sem fjalla þarf um í grunnskóla. Það er eðlilegt að dæma Landsvirkjun af því sem hún hefur að bjóða fremur en að alhæfa eins og Ólafur gerir að fyrirtækið eigi ekkert erindi í starf grunnskólanna.

3. og 4. Ólafur telur að grunnskólar séu ekki vettvangur
til að velja börn til þátttöku í umdeildum framkvæmdum
og að Landsvirkjun sé að nota börn sem tæki
til að ná markmiðum sem þau varðar ekkert um

Rökstuðningur Ólafs fyrir báðum þessum ástæðum byggist á afstöðu hans til sambands markmiða og leiða sem ég tel að standist ekki skoðun. Ég kýs því að fjalla um þessar ástæður hans saman.

Ólafur telur að fræðsluþátturinn í framtaki Landsvirkjunar sé einungis leið til að ná því markmiði fyrirtækisins að velja börn til að leggja hornstein að hinni umdeildu Kárahnjúkavirkjun. Að nota annað fólk, hvað þá börn, þykir ekki siðlegt samkvæmt mörgum kenningum siðfræðinnar.

Kárahnjúkavirkjun er ekki fyrsta umdeilda virkjun landsins, t.d. voru deilur um Búrfellsvirkjun ennþá hatrammari ef eitthvað er. Engu að síður hefur þótt við hæfi að sameiningartákn þjóðarinnar, forsetinn, leggi hornstein að virkjunum. Það á við um allar virkjanir sem Landsvirkjun hefur byggt. Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson hafa öll lagt hornstein að virkjunum Landsvirkjunar. Er sjálfgefið að það sé illa gert við börn að gefa þeim kost á að að taka þátt í slíkri athöfn með forsetanum? Forráðamenn barna ráða því hvort sóst er eftir slíku boði og hvort það boð yrði þegið.

Í rökstuðningi sínum eignar Ólafur Landsvirkjun markmið og segir að börnin séu notuð eins og tæki til að ná því. Landsvirkjun fer ákveðna leið til að ná þessu meinta markmiði. Sú leið getur líka leitt til menntunar og þroska barnanna sem í hlut eiga. Ein leið eða ein aðgerð getur uppfyllt mörg markmið.

Tökum dæmi um markmið og leiðir. Við getum litið svo á að það sé markmið skólahalds að mennta og þroska æsku þessa lands. Kennarar vinna að þessu markmiði með nemendum sínum. Þarf markmið kennara með kennslunni að vera menntun og þroski nemandans og ekkert annað? Segjum að kennari stundi sitt starf til þess að sjá sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða og/eða vegna þess að kennarastarfið veiti honum fullnægju í lífinu – eru þá börnin þar með tæki sem hann beitir í eiginhagsmunaskyni? Auðvitað ekki, en gott skólastarf þjónar mörgum markmiðum í senn. Það er innihald skólastarfsins sem segir til um gæði þess og gagn en ekki hvað fólki sem að því kemur gengur til. Rétt eins og sá kennari sem hirðir bara um launin sín en sinnir ekki nemendunum getur verið ámælisverður þá getur framtak Landsvirkjunar verið ámælisvert ef það veitir engu uppbyggilegu inn í skólastarfið en snýst aðeins um hagsmuni fyrirtækisins. Það er skólafólks að meta hvort framtak Landsvirkjunar býður upp á tilefni til gagnlegs og þroskandi skólastarfs.

Það er ekkert ósiðlegt í sjálfri athöfninni að efna til samkeppni og bjóða þeim sem standa sig við úrlausn verkefna að taka þátt í að leggja hornstein virkjunar. Það er ekki verið að nota aðra, skólana og nemendur, ef verkefnin og samkeppnin fræðir og þroskar þá sem taka þátt. Rök Ólafs fyrir því að rangt sé að börn séu valin til að leggja hornsteininn með þessum hætti og að verið sé að nota þau til að ná markmiðum sem þau varðar ekkert um byggjast á því að hann gefur sér að samkeppnin og fræðslustarfið geti ekki þjónað markmiðum skólastarfs.

Lokaorð

Það er af hinu góða að framtak Landsvirkjunar gefi tilefni til umhugsunar og skoðanaskipta um samspil atvinnulífs og skóla. Frumkvæði fjölda fyrirtækja sem og skólamanna um samvinnu á sviði fræðslumála hefur aukist á undanförnum árum og mætt mikilli velvild skóla, atvinnulífs og heimila. Glæsileg dæmi um slíkt má sjá hjá t.d. mjólkurframleiðendum og hjá Marel sem á í margþættri samvinnu við Garðabæ um uppbyggingu raungreinakennslu og kostar nýsköpunarsamkeppni meðal grunnskólanema landsins. Landsvirkjun hefur ekki skorast undan á liðnum árum þegar skólafólk hefur leitað til fyrirtækisins um samvinnu og þeir sem hug hafa á geta kynnt sér afrakstur af því starfi, t.d. á orkuvef Nordlab-hópsins og fræðsluvef Landsvirkjunar.

Það er athyglisvert að áhugi Ólafs á þessu efni spretti upp núna og að hann sé svo gagnrýninn sem raun ber vitni. Það er ef til vill ekki nein tilviljum vegna þess að hann hefur sterkar skoðanir á virkjunarmálum. Hann virðist þó ekki vilja að „umdeildir aðilar” með sterkar skoðanir leggi sitt af mörkum til skólastarfs og fræðslu. Ég tel það misskilning hjá honum að slíkt ógni heilindum skólastarfsins. Sýn hans á fagmennsku og óhæði þar sem unnið er í tómarúmi býður upp á skóla sem er úr tengslum við samfélagið utan skólastofunnar. Sem betur fer er til fullt af kennurum með ákveðnar skoðanir og skýra lífsafstöðu sem styrkir þá í þeirri faglegu vinnu sem gerir menntakerfið að undirstöðu fyrir vöxt og viðgang samfélagsins.