Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 27. september 2005

Ólafur Páll Jónsson

Skólinn, börnin og blýhólkurinn

Hér er fjallað um fyrirhugaða samkeppni á vegum Landsvirkjunar þar sem nemendum í grunnskóla og kennurum þeirra er boðið að vinna að verkefnum um orkumál og fá til þess umtalsverðan stuðning fyrirtækisins. Þeir sem hlutskarpastir verða í keppninni fá að taka þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun. Höfundur leiðir að því gild rök að kennarar, skólastjórar og skólayfirvöld eigi ekki að ljá máls á slíkri keppni heldur hafna henni fortakslaust. Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.

Landsvirkjun hefur nýlega sent skólastjórum í grunnskólum landsins bréf til að kynna fyrirhugaða samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum. Hinum hlutskörpustu verður svo boðið að taka þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun. Verkefninu er lýst með þessum orðum í bréfinu:

Nú stendur Landsvirkjun eins og alkunna er fyrir byggingu stærstu virkjunar Íslandssögunnar við Kárahnjúka. Þar verður lagður hornsteinn að virkjuninni næsta vor og hyggst Landsvirkjun bjóða fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja hann. Til að velja þessa fulltrúa mun Landsvirkjun efna til samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verða þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans. (Verkefni um orkumál – samkeppni í grunnskólum dags. 16.09.2005)

Í ódagsettu bréfi á vef Landsvirkjunar (http://lv.is) er svo að finna nánari útlistun á hugmyndum Landsvirkjunar um samkeppnina og vinnuna í kringum hana. Þar kemur m.a. fram að:

Með samkeppninni leitast Landsvirkjun við að færa grunnskólum landsins fræðsluefni í hendur um orku og orkumál í samræmi við aðalnámsskrá gunnskóla. Fullmótuð verkefni verða send til allra grunnskólanna fyrir áramót en samkeppnin felst í úrlausn nemenda á þeim. Ennfremur verður skólunum fengið fræðsluefni og/eða leiðbeiningar um hvar nálgast megi slíkt efni. Þá verður leitast við að aðstoða við fræðslustarfið eftir föngum, t.d. með milligöngu um heimsóknir í virkjanir og kynningu á orkumálum í skólunum sjálfum. (http://www.lv.is/files/LV_karahnhjukar_
samkeppni_nanar.pdf sótt 21.09.2005)

Það er því ljóst að Landsvirkjun hyggst leggja í talsverða fyrirhöfn til að gera þessa samkeppni sem best úr garði. Fyrirtækið ætlar bæði að búa til námsefni og aðstoða kennara við að vinna úr þessu námsefni, ýmist í skólunum sjálfum eða með því að bjóða krökkunum í heimsóknir í virkjanir. Og ekki nóg með það, heldur á námsefnið að koma að notum í sem flestum greinum:

Von okkar er að verkefnin nýtist við kennslu í sem flestum námsgreinum, en verkefnin eru þegar í mótun í samráði við skólafólk sem sinnt hefur fræðslu um orkumál. (sami staður)

Loks er svo komið að uppskeru erfiðisins, en hún mun felast í því að

Nokkur börn af öllum aldursstigum verða síðan valin til að leggja verkefni sín í blýhólkinn í hornstein Kárahnjúkavirkjunar og aðstoða Forseta Íslands við lagningu hans. Fjölskyldum barnanna verður boðið að vera viðstaddar ásamt þeim kennurum sem aðstoða börnin við úrlausn verkefnanna.

Nú má spyrja hvort þetta uppátæki Landsvirkjunar sé ekki hið besta mál sem allir græði á: Það verður búið til námsefni um orkumál, kennarar fá aðstoða við að vinna með námsefnið í skólunum, og loks fá nokkur börn, fjölskyldur þeirra og kennarar að taka þátt í hátíðlegri athöfn með Forseta Íslands þar sem lagður verður hornsteinn að Kárahnjúkavirkjun, stærstu virkjun Íslandssögunnar. Hvað gæti verið athugavert við þetta?

Ég tel að í raun sé samkeppnin fullkomlega óásættanleg. Fyrir því liggja í meginatriðum fjórar ástæður. Í fyrsta lagi er það ekki hlutverk Landsvirkjunar að búa til námsefni fyrir grunnskóla landsins, í öðru lagi á Landsvirkjun ekkert erindi inn í starf grunnskólanna, í þriðja lagi eru grunnskólar landsins ekki vettvangur til að velja börn til þátttöku í mestu og umdeildustu virkjanaframkvæmdum Íslandssögunnar og í fjórða lagi er verið að nota börnin sem tæki til að vinna hagsmunum Landsvirkjunar brautargengi. Og nú skal ég útskýra nánar þessar fjórar ástæður sem ég nefndi fyrir því að grunnskólar landsins ættu ekki að taka þátt í samkeppninni.

(1) Landsvirkjun á ekki að búa til námsefni fyrir grunnskólana

Það er ekki beinlínis hlutverk Landsvirkjunar að búa til námsefni fyrir grunnskóla landsins, jafnvel þótt um sé að ræða námsefni um orkumál. Ekki frekar en að það sé hlutverk Mjólkursamsölunnar að búa til námsefni um hollt mataræði eða Actavis að búa til námsefni um lýðheilsu eða Kynnisferða að búa til námsefni um samgöngumál eða Landsbankans að búa til námsefni um fjármál heimilanna. Þetta hygg ég að allir séu sammála um. En það þýðir þó ekki að Landsvirkjun geti ekki, af rausnarskap sínum, „[fært] grunnskólum landsins fræðsluefni í hendur um orku og orkumál í samræmi við aðalnámsskrá gunnskóla“. Ástæðan fyrir því að Landsvirkjun, eða Mjólkursamsalan eða Actavis eða hvaða annað viðlíka einkafyrirtæki sem er, á ekki að vinna námsefni fyrir grunnskóla landsins liggur í þeim kröfum sem við gerum til námsefnis. Námsefni, hvort heldur það er fyrir grunn-, framhalds- eða háskóla þarf að fullnægja mjög ströngum gæðakröfum þar sem margvísleg gildi skipta máli. Hér má nefna almenn gildi eins og hlutlægni og trúverðugleika, en einnig sértækari gildi eins og sanngirni í garð ólíkra sjónarmiða, tryggingu fyrir því að viðeigandi upplýsingar komi fram, að það sem tekið er fyrir sé í raun það sem skipti máli, og fleira í þessum dúr. Kröfurnar hér eru um margt svipaðar þeim sem almennt eru gerðar til vísindalegra rannsókna.

Í vísindasamfélaginu er grundvallaratriði að þeir sem gera tilkall til þess að búa yfir vísindalegri þekkingu séu óháðir hagsmunum sem eru framandi vísindunum, t.d. fjárhagslegum hagsmunum eða persónulegum metorðum. Þess vegna er það jafnan litið hornauga ef kostnaður við tilteknar rannsóknir er borinn að verulegu leyti af aðilum sem hafa hagsmuni af því að niðurstöðurnar séu á einn veg frekar en annan. Slíkir hagsmunir eru taldir ógnun við akademískt frelsi vegna þess að sá sem ber kostnaðinn hefur gjarnan í hendi sér fjárhagsleg örlög þeirra sem rannsóknirnar vinna og getur beitt þá margvíslegum þrýstingi. Það getur auðvitað vel verið að þeir sem haldi um þræðina séu réttsýnir einstaklingar og að í raun sé engum þrýstingi beitt á einn veg eða annan. Það breytir því ekki að þeir sem horfa á hlutina utan frá geta ekki treyst því að kröfum um fagleg vinnubrögð sé fullnægt.

Þegar kemur að námsefnisgerð, ekki síst þar sem lítil börn eiga í hlut, skipta svipuð sjónarmið miklu máli. Það er ekki sama hver semur námsefnið, það verður að vera hafið yfir allan vafa að ítrustu faglegu sjónarmiða sé gætt, og því er ekki að heilsa þegar hagsmunaaðilar eiga í hlut, hvort heldur það er Landsvirkjun sem býr til efni um orkumál, eða ef Mjólkursamsalan byggi til efni um hollt mataræði eða Actavis byggi til efni um lýðheilsu. Ef Landsvirkjun er umhugað um að stuðla að því að grunnskólar landsins hafi aðgang að nútímalegu námsefni um orkumál þá getur fyrirtækið stutt t.d. við Námsgagnastofnun eða fundið aðra aðila, sem eru til þess hæfir að semja námsefni fyrir grunnskóla. En fyrirtækið verður að tryggja að þess eigin hagsmunir, sem eru mjög ríkir þegar orkumál eru annars vegar, fléttist hvorki inn í námsefnisgerðina né það hvernig efnið er lagt fyrir í skólum. Raunar er ekki nóg að Landsvirkjun haldi eigin hagsmunum aðgreindum frá námsefnisgerðinni, allir sem málið varðar, sem eru ekki bara kennarar og skólastjórnendur heldur líka börn og foreldrar, verða að geta verið sannfærð um að svo sé. Þessu markmiði verður ekki náð öðru vísi en að aðkoma Landsvirkjunar að námsefnisgerðinni sé mjög óbein. Um leið og Landsvirkjun (eða hvaða annað viðlíka fyrirtæki) hefur beina aðkomu að námsefnisgerðinni, t.d. með því leggja til höfunda eða efni eða með því að leggja hlutfallslega háar upphæðir til verksins, þá vakna efasemdir um óhlutdrægni sem erfitt verður að eyða.

(2) Landsvirkjun á ekkert erindi inn í starf grunnskólanna

Það virðist gert ráð fyrir því í samkeppninni að starfsmenn og starfsemi Landsvirkjunar verði hluti af þeim verkefnum sem unnin verða í grunnskólunum. Í bréfinu sem lýsir samkeppninni nánar segir m.a. að „leitast [verður] við að aðstoða við fræðslustarfið eftir föngum, t.d. með milligöngu um heimsóknir í virkjanir og kynningu á orkumálum í skólunum sjálfum“. Auk þess segir á heimasíðu Landsvirkjunar: „öllum grunnskólum landsins verða sendar nánari upplýsingar um keppnina þegar nær dregur, ásamt upplýsingaveggspjaldi sem hengja má upp í skólastofum“.

Grunnskólar landsins eru ekki venjulegar stofnanir sambærileg við fyrirtæki á almennum markaði. Grunnskólarnir eru stofnanir þangað sem okkur er skylt að senda börnin okkar, þar eru þau lungann úr deginum á einu viðkvæmasta skeiði ævinnar og þarna er grunnurinn að framtíð þeirra lagður. Af þessum ástæðum á ekki hver sem er erindi inn í grunnskólana. En hverjir eiga erindi í skólana og hverjir ekki? Þetta er mikilvæg spurning í samtímanum þar sem ásókn allskyns aðila í grunnskóla landsins færist í vöxt. Ég hygg að það sé alveg ljóst að mjög umdeildir aðilar í samfélaginu, hvort sem það eru einstök fyrirtæki eða t.d. trúfélög, eigi ekki erindi inn í innra starf grunnskólanna.

Það getur vel verið réttlætanlegt að fyrirtæki sem alla jafna hafa ekkert með uppeldis- og menntamál að gera komi inn í skólana, t.d. með kynningu á starfsemi sinni eða vörum. Slíkt er vandmeðfarið, en í vissum tilvikum getur það verið réttlætanlegt. Sem dæmi um slíkt má nefna mjólkurdaginn sem Mjólkursamsalan heldur, Listasafn Reykjavíkur er með skipulagt efni fyrir þrjá árganga grunnskólans og Orkuveita Reykjavíkur býður grunnskólabörnum að heimsækja Rafheima. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu samhengi er tvennt. Annars vegar með hvaða hætti þessir ytri aðilar koma inn í skólana, og hins vegar hversu umdeildir þessir aðilar eru í samfélaginu.

Hvað fyrra atriðið varðar, með hvaða hætti ytri aðilar koma inn í skólana, þá skiptir máli að þeir fari ekki djúpt inn í starf skólanna heldur séu algjörlega á jaðrinum í skólastarfinu. Hugmyndir Landsvirkjunar miðast ekki einungis við að fara djúpt inn í starfið, heldur mjög djúpt. Það er ekki nóg með að „Landsvirkjun [leitist] við að færa grunnskólum landsins fræðsluefni í hendur um orku og orkumál í samræmi við aðalnámsskrá gunnskóla“ heldur er von Landsvirkjunar að „verkefnin nýtist við kennslu í sem flestum námsgreinum“. Og ekki nóg með það, heldur byggist verkefnið á því að höfðað sé til keppnisskaps nemendanna. Landsvirkjun hyggst því ekki halda sig á jaðri skólastarfsins, heldur fara beint inn í kjarna skólastarfsins sem er starfið í kennslustofunni og tilfinningaleg þátttaka nemenda.

Ástæðan fyrir því að mjög umdeildir aðilar eiga ekki erindi inn í skólana ræðst ekki síst af því að börn eru skyldug til að ganga í skóla og gangast undir það starf sem þar fer fram. Það er hins vegar ekki réttmætt að skylda börn til að taka þátt í starfi með mjög umdeildum aðilum, ekki síst þegar þátttakan sjálf miðast við að taka þátt í því sem er hvað umdeildast í starfi þessara ytri aðila. Landsvirkjun er mjög umdeilt fyrirtæki og bygging Kárahnjúkavirkjunar er ekki bara bygging stærstu virkjunar Íslandssögunnar, þetta er auk þess ein umdeildasta framkvæmd Íslandssögunnar. Skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands sýnir að um 40% þjóðarinnar eru andvíg virkjuninni en um 50% fylgjandi.

Eitt af þeim atriðum sem er forsenda farsæls skólastarfs er gagnkvæmt traust skóla og foreldra. Þessu atriði er lýst með eftirfarandi orðum í Aðalnámskrá grunnskóla.

Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum. Hlutur grunnskólans felst einkum í því að sjá nemendum fyrir formlegri fræðslu og taka þátt í félagslegri mótun þeirra. Þetta sameiginlega verkefni heimila og skóla kallar á náin tengsl, gagnkvæmt traust, gagnkvæma upplýsingamiðlun, samábyrgð og samvinnu. (Aðalnámskrá grunnskóla almennur hluti, Menntamálaráðuneytið 1999, bls. 14)

Úr því að ætla má að um 40% þjóðarinnar séu á móti Káranhjúkavirkjun, má gera ráð fyrir að í hverjum einasta bekk, sem telur fleiri en örfáa nemendur, séu börn sem eiga foreldra sem eru á móti Kárahnúkavirkjun. Ef Landsvirkjun fær að fara inn í innsta kjarna skólastarfsins með samkeppni sem miðar að því að velja börn til að taka þátt í byggingu Kárahjúkavirkjunar er grafið undan gagnkvæmu trausti skóla og foreldra. Þetta atriði er sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að á síðustu misserum hefur verið lögð áhersla á náið samstarf kennara og foreldra.

(3) Grunnskólar eru ekki vettvangur til að velja börn
til þátttöku í umdeildum framkvæmdum

Meginmarkmið verkefnisins er ekki fræðsla heldur að velja börn til að taka þátt í framkvæmdunum við Kárahnjúkavirkjun með því að leggja hornstein að virkjuninni. Fræðsluþátturinn er einungis leið að til að ná þessu markmiði. Þetta kemur skýrt fram í bréfinu sem Landsvirkjun sendi skólastjórum og áður var vitnað til.

Landsvirkjun [hyggst] bjóða fulltrúum ungu kynslóðarinnar að taka þátt í að leggja [hornstein að Kárahnjúkavirkjun]. Til að velja þessa fulltrúa mun Landsvirkjun efna til samkeppni þar sem nemendum verður boðið að vinna verkefni tengd orkumálum og verða þau sniðin að mismunandi aldursstigum grunnskólans.

Landsvirkjun getur auðvitað upp á sitt einsdæmi ákveðið hvaða seremoníur hún vill hafa í kringum lagningu hornsteinsins. Hún getur t.d. viljað hafa falleg og greind börn á staðnum. En Landsvirkjun á ekkert með að beita skólanum fyrir sig sem tæki til að velja börn, frá 6 ára aldri, til að taka þátt í umdeildum framkvæmdum. Grunnskólar landsins eiga ekki að vera vettvangur fyrir svona val vegna þess að þeir eiga ekki að vera tæki fyrirtækja úti í bæ til að ná markmiðum sem varða sérhagsmuni fyrirtækjanna.

Við verðum að spyrja okkur spurningarinnar: Hverskonar stofnun er grunnskólinn? Grunnskólinn er stofnun sem á að setja hagsmuni barna í fyrirrúm, sér í lagi þá hagsmuni sem lúta að menntun og þroska einstaklinganna. Þessu markmiði má ekki víkja til hliðar með því að gera grunnskólann að tæki til að ná markmiðum sem hafa ekkert með menntun og þroska einstaklinganna að gera. Þess vegna má ekki víkja menntamarkmiði grunnskólans til hliðar fyrir það markmið Landsvirkjunar að gera skólann að tæki til að velja börn til þátttöku í virkjanaframkvæmd.

En nú mætti spyrja hvort menntamarkmið grunnskólans geti ekki verið samrýmanleg markmiði Landsvirkjunar. Vissulega geta menntamarkmið grunnskólans verið samrýmanleg margvíslegum markmiðum sem hafa ekkert beinlínis með menntun og þroska barna og unglinga að gera. Líklega er það ástæðan fyrir því að ekki er amast að ráði við mjólkurdegi Mjólkursamsölunnar. En það sem gerir samkeppni Landsvirkjunar sérstaklega óásættanlega er að kjarninn í skólastarfinu er virkjaður til að ná markmiðum sem liggja algerlega utan við menntamarkmið grunnskólans – og eru auk þess mjög umdeild. Landsvirkjun getur auðvitað efnt til hvaða samkeppni sem er, auglýst hana í blöðum og boðið börnum að vinna verkefni í frístundum sínum. Landsvirkjun gæti jafnvel, ef forsendur og framkvæmd samkeppninnar þykja ásættanlegar, fengið að auglýsa hana í grunnskólum landsins. En slík samkeppni á ekkert erindi inn í innra starf grunnskólanna.

(4) Börnin eru notuð sem tæki til að ná markmiðum
sem þau varðar ekkert um

Loks er verður að taka það mjög alvarlega að samkeppni Landsvirkjunar beinist að börnum – börnum sem eru allt niður í sex ára gömul. Yngstu börnin eru nýkomin úr leikskóla og þeim er boðið að taka þátt í samkeppni. Þetta er spennandi. Og ekki nóg með það, samkeppnin er samofin nýju og örugglega mjög flottu námsefni. Þetta er sannarlega spennandi. Og ekki nóg með það, heldur eru vinirnir að taka þátt í þessari samkeppni og sá sem vinnur fær að hitta forsetann og setja verkefnið sitt inn í vegg í stærstu virkjun Íslandssögunnar. Þetta er verulega spennandi. Þessi verðlaun kunna að vera spennandi í augum barnsins en þau eru ekki hugsuð til að þjóna hagsmunum þess. Þeir hagsmunir sem hér ráða ferðinni eru hagsmunir Landsvirkjunar – nefnilega að fegra ásýnd umdeildustu framkvæmdar Íslandssögunnar. Börnin eru einungis notuð sem tæki til að þjóna þessum hagsmunum. Menntamarkmiðin eru í algjöru aukahlutverki, enda má hæglega ná þeim án nokkurrar samkeppni.

Stundum eru börn notuð sem tæki án þess að við kippum okkur upp við það, t.d. í bleyjuauglýsingum í sjónvarpi. Og raunar notum við börnin okkar oft sem tæki með næsta sakleysislegum hætti, t.d. þegar við bregðum á það ráð að tala um þau til að forðast vandræðalegar þagnir. Það sem skiptir kannski mestu máli er að jafnframt því sem við notum þau sem tæki, þá lítum við á þau sem sjálfstæða einstaklinga sem eru umfram allt verðmætir í sjálfum sér. Hið sjálfstæða verðmæti barnanna má aldrei setja skör lægra en verðmæti þeirra sem tækis. Og grunnskólinn er sá staður í samfélaginu, ásamt leikskólanum, þar sem allt starfið á að hverfast um sjálfstætt verðmæti barnanna – verðmæti barnanna þeirra sjálfra vegna. Þess vegna segir líka í Aðalnámskrá grunnskóla:

Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska hvers og eins. (Aðalnámskrá grunnskóla almennur hluti, Menntamálaráðuneytið 1999, bls. 14)

Ef grunnskólar landsins er gerðir að vettvangi til að velja börn til að vinna að hagsmunum fyrirtækja sem eru börnunum óviðkomandi hefur verið vikið frá þessu grundvallargildi í öllu skólastarfinu – að verðmæti barnanna sjálfra ráði ferðinni.

Í samtímanum er sífelld ásókn í að nota börn sem tæki, og raunar ekki bara börn heldur flestar manneskjur. Fullorðið fólk hefur margvísleg úrræði til að bregðast við slíkum tilhnneigingum, ekki síst þroskaða dómgreind og heilsteypt gildismat. Börnin skortir hvoru tveggja og þess vegna eru þau líka oft auðvelt skotmark óprúttinna afla.

Af framangreindum fernskonar ástæðum ætti að vera ljóst að samkeppni eins og sú sem Landsvirkjun hyggst efna til er óásættanleg. Kennarar, skólastjórar og skólayfirvöld almennt ættu að hafna henni fortakslaust.

Þessi fyrirhugaða samkeppni Landsvirkjunar vekur upp áleitnar spurningar sem varða bæði skólana í landinu, og raunar sumar af forsendum sjálfs menntakerfisins, en einnig spurningar um hvað það er fyrir stórfyrirtæki að vera samfélagslega ábyrg. Slík ábyrgð stórfyrirtækja birtist m.a. í því að þau leggja margvíslegum velferðarmálum lið og þá menntamálum ekki síður en öðrum. En þau atriði sem ég hef rætt, einkum liðir (1) til (3), sýna að til þess að vera raunverulega ábyrgir aðilar í samfélaginu verða stórfyrirtæki að fara afskaplega varlega þegar að menntamálum kemur. Þau atriði sem ég ræði undir lið (4) sýna að jafnvel þótt góður hugur kunni að búa að baki geta verkefnin hæglega snúist upp í algera andhverfu sína: Í stað þess að stuðla að velferð geta þau grafið undan mikilverðustu gildum samfélagsins.

Þessar hugmyndir Landsvirkjunar sýna raunar að það er tímabært að bæði skólayfirvöld marki skýra stefnu um aðkomu fyrirtækja að starfi í leik- og grunnskólum en einnig að samtök atvinnulífsins axli ábyrgð og setji sér siðareglur um samskipti fyrirtækja og menntastofnana.