Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 3. júní 2005

Sif Einarsdóttir

Lögfræðingur, læknir eða prestur?

Flokkun íslenskra starfslýsinga samkvæmt
kenningu Hollands um starfsáhuga

Markmið þessarar rannsóknar var að flokka íslenskar starfslýsingar samkvæmt kenningu Hollands um að starfsáhuga megi skipta í sex meginsvið. Gæði flokkunarinnar voru metin og hún notuð til að hanna rafrænt upplýsingakerfi með starfslýsingum sem gefnar hafa verið út hérlendis (Gerður G. Óskarsdóttir, 1990; 1996; 2001; Samtök iðnaðarins). Slíkt rafrænt kerfi auðveldar ráðþegum öflun upplýsinga um störf sem falla að áhugasviðum þeirra.

Sérfræðingamati (e. judgement method) var beitt til að flokka starfslýsingarnar en þrír matsmenn, allt námsráðgjafar sem hafa þekkingu á kenningu Hollands, voru þjálfaðir til að meta hversu einkennandi hvert áhugasviðanna sex er fyrir hverja hinna 278 starfslýsinga sem flokkaðar voru. Í ljós kom að áreiðanleiki flokkunarinnar var innan ásættanlegra marka. Tengsl áhugasviðanna voru að miklu leyti í samræmi við formgerðarkenningu Hollands sem styður réttmæti matsins.

Rannsókn þessi sýnir að kenningu Hollands má beita við flokkun íslenskra starfa á áreiðanlegan og réttmætan hátt. Flokkun þessi er fyrsti vísir að skipulögðum rafrænum upplýsingagrunni um störf sem gagnast getur fólki í leit að námi og störfum sem hæfa áhugasviðum þeirra. Höfundur er dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Áhersla hefur verið lögð á hérlendis að nota áhugasviðskannanir til að auka sjálfsskilning fólks sem stendur frammi fyrir náms- og starfsvali (Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, 1998). Hins vegar hafa ráðþegar ekki haft eins greiðan aðgang að gagnlegum upplýsingum um íslenskan vinnumarkað og eðli starfa sem auðveldlega má tengja við áhugasvið hvers og eins. Hérlendis hafa verið gefnar út almennar starfslýsingar fyrir um 300 algeng störf og eru þær notaðar í náms- og starfsráðgjöf til að hjálpa fólki við að glöggva sig á eðli og innihaldi starfa (Gerður G. Óskarsdóttir, 1990; 1996; 2001; Samtök iðnaðarins). Kenning Hollands (1973; 1985; 1997) um að skipta megi starfsáhuga og starfsumhverfi í sex svið hefur verið ráðandi í áhugasviðsmati (Savickas og Spokane, 1999). Til að starfslýsingarnar sem til eru gagnist sem best við leit að námi eða störfum er mikilvægt að þær séu flokkaðar og hver þeirra fái kóða sem sýnir undir hvert af sex áhugasviðum Hollands hún fellur. Rafrænt upplýsingakerfi sem er skipulagt þannig að auðvelt sé að kalla fram þau störf sem falla að tilteknum áhugasviðum gerir fólki mögulegt að kynna sér störf sem falla að áhugasviðum þeirra. Þannig miðast leit einstaklingsins fyrst og fremst við hans eigin áhuga og verður þ.a.l. sjálfsmiðuð og mun skilvirkari. Hér verður greint frá flokkun og kóðun íslenskra starfslýsinga eftir kerfi Hollands og gerð rafræns upplýsingakerfis fyrir starfslýsingarnar. Eitt meginmarkmiðið með þessari rannsókn er að kanna gæði flokkunarinnar með því að meta áreiðanleika og réttmæti mats þriggja sérfræðinga á starfslýsingunum.

Samsvörun milli einstaklings og umhverfis

Náms- og starfsval er ein af mikilvægustu ákvörðunum sem nemendur á lokastigum grunnskólans og í framhaldsskólunum standa frammi fyrir. Í þekkingarsamfélagi nútímans þarf ungt fólk, og jafnvel þeir sem eldri eru, að taka flóknar ákvarðanir um framtíð sína, lífsleiðir, náms- og starfsvettvang. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að fólk þekki sjálft sig og styrkleika sína en þá þekkingu má leggja til grundvallar við náms- og starfsval í síbreytilegu umhverfi og virkja einstaklingana til sjálfstæðrar ákvarðanatöku (Blustein og Flum, 1999). Einnig er mikilvægt að sá sem stendur frammi fyrir vali á starfsvettvangi hafi aðgengilegar upplýsingar um nám og störf sem auðveldlega má tengja eða para við persónueinkenni hans. Hugmyndin um að fólk verði ánægt og nái árangri í starfi ef að það finnur starfsumhverfi sem hæfir einstaklingsbundnum einkennum þess ( e. person-environment fit theories) er kjarninn í flestum kenningum sem fram hafa komið í sálfræði starfs og rauði þráðurinn í starfi náms- og starfsráðgjafa (Rounds og Tracey, 1990; Walsh og Holland, 1992).

Mat á starfsáhuga (e. vocational interests) hefur lengi leikið lykilhlutverk í náms- og starfsráðgjöf. Kenning Hollands um flokkun og formgerð starfsáhuga hefur reynst mjög gagnleg bæði í ráðgjöf og við rannsóknir (Savickas og Spokane, 1999). Holland (1973; 1985; 1997) heldur því fram að flokka megi starfsáhuga og starfsumhverfi í sex meginsvið (þýdd hér sem handverkssvið, vísindasvið, listasvið, félagssvið, athafnasvið og skipulagssvið, skammstafað HVLFAS; sjá ensku heitin og nánari lýsingu á hverju sviði í viðauka). Skyldleiki þessara sviða er tilgreindur í formgerðarlíkani með því að staðsetja þau á hornum sexhyrnings eða dreifa þeim jafnt á hring (sjá mynd 1). Samkvæmt líkani Hollands eru þau svið sem liggja saman á sexhyrningnum líkust, eftir því sem fjarlægðin á milli þeirra eykst eiga sviðin minna sameiginlegt og þau áhugasvið sem liggja gegnt hvort öðru í formgerðarlíkaninu eru ólíkust. T.d. eru athafnasvið (A) og skipulagssvið (S) líkari en athafnasvið (A) og handverkssvið (H) sem eru fjær hvort öðru, vísindasvið (V) og athafnasvið (A) sem eru lengst frá hvort öðru eða andstæð á sexhyrningnum eru ólíkust að gerð og innihaldi. Líkan Hollands hefur þótt mjög gagnlegt í náms- og starfsráðgjöf, fyrst og fremst vegna þess að það myndar einfaldan túlkunarramma fyrir niðurstöður áhugakannana og gerir ráðþega kleift að finna samsvörun milli starfsáhuga og umhverfisins (e. person-environment fit) (Borgen, 1986).

Mynd 1 - Kenning Hollands

Hér á landi hefur verið lögð áhersla á að gera aðgengilegt áhugasviðsmat sem byggir á kenningu Hollands með því að þýða nokkrar bandarískar áhugakannanir (sjá Áhugakönnun Strong: Harmon, Hansen, Borgen & Hammer, 1994; Leitaðu sjálfur að starfi: Brynhildur Scheving-Thorsteinsson, 2004; Holland, Powell og Fritzsche, 1997 og IDEAS: Anna María Pétursdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Kristín Þ. Magnúsdóttir, 1996; Johansson, 1990). Til að slíkt áhugasviðsmat gagnist sem best og hafi það leitargildi (e.exploration validity) sem því er ætlað (Randahl, Hansen og Haverkamp, 1993) er mikilvægt að ráðþeginn hafi samsvarandi upplýsingar um einkenni starfa á íslenskum vinnumarkaði svo hann geti fundið starf við hæfi. Hérlendis hefur hins vegar skort mjög á að nemendur og aðrir hafi skipulegar upplýsingar um umhverfisþáttinn þ.e. störf á vinnumarkaði sem þeir geta parað sig við (Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, 1998).

Í Bandaríkjunum eru gefnar út handbækur og rafræn upplýsingakerfi sem innihalda upplýsingar um undir hvaða áhugasvið störf falla (Gottfredson og Holland, 1989; 1996; Rounds, Smith, Hubert, Lewis og Rivkin, 1999). Hvert starf fær þannig eins til þriggja stafa Holland kóða, en hver stafur stendur fyrir eitt af sex áhugasviðum hans. Sem dæmi má nefna fær starfið grunnskólakennari kóðann FLA (því starfið fellur undir félags-, lista- og athafnasvið, sjá t.d. Gottfredson og Holland, 1996). Röð kóðanna felur í sér þær upplýsingar að starfið falli helst að félagssviði, síðan listasviði en beri einnig einhver einkenni athafnasviðs. Þannig getur ráðþegi sem fengið hefur niðurstöður úr áhugasviðsmati (áhugi hans fellur t.d. á félags og listasvið) farið í gagnagrunninn og kallað fram allar starfslýsingar fyrir þau störf sem falla að hans áhugasviðum (t.d. FL). Hingað til hafa íslenskir ráðgjafar aðeins getað vísað ráðþegum sínum á erlendar bækur til að komast að því hvaða störf tilheyra áhugasviðum þeirra en ekki er ljóst hvort íslensk störf og bandarísk eru að fullu sambærileg. Ráðþegar hafa einnig haft aðgang að starfslýsingum sem hér hafa verið gefnar út en ekki verið skipulagðar samkvæmt kerfi Hollands og gagnast því ekki ráðþegunum sem skyldi.

Rannsóknir hafa stutt réttmæti kenningar Hollands hérlendis og notagildi áhugakannana með íslenskum ráðþegum (Einarsdóttir, Rounds, Ægisdóttir og Gerstein, 2002; Konráðs og Haraldsson, 1994). Gildi kenningarinnar hérlendis við áhugasviðsmat er forsenda þess að hún gagnist einnig við flokkun íslenskra starfslýsinga. Nauðsynlegt er að huga bæði að mati á áhugasviði einstaklinga og umhverfisins, en ekki eingöngu einstaklingsins eins og hér hefur verið gert fram að þessu. Rafrænt upplýsingakerfi sem inniheldur starfslýsingar sem eru skipulagðar samkvæmt áhugasviðskerfi Hollands myndi líklega gera val fólks á námi og störfum mun auðveldara og skilvirkara og auka möguleika á að samsvörun náist milli einstaklingsins og starfsumhverfisins.

Aðferðir notaðar við flokkun starfslýsinga

Erlendis hafa verið notaðar þrjár meginaðferðir við að flokka störf og starfslýsingar samkvæmt áhugasviðum Hollands. Það eru starfsgreinaaðferðin (e. incumbent method), raunprófunaraðferðin (e. empirical method) og matsaðferðin (e. judgment method). Þessum þremur aðferðum og notkun þeirra ásamt kostum og göllum er lýst stuttlega hér á eftir.

Starfsgreinaðferðin er sú leið sem Holland (1997) lagði til að yrði farin til að flokka starfsumhverfi. Holland-kóði eða -kóðar (einn til þrír í mikilvægisröð) eru ákvarðaðir fyrir hvert starf með því að leggja áhugakönnun fyrir úrtak fólks sem vinnur þau störf sem ákvarða þarf kóða fyrir. Til dæmis mætti leggja áhugasviðskönnun fyrir dæmigert úrtak grunnskólakennara, skoða meðaltöl þeirra á áhugasviðunum sex og ákvarða Holland-kóða starfsins út frá þeim hæstu. Þessi aðferð er í samræmi við þá hugmynd Hollands að áhugasvið fólksins sem vinnur tiltekin störf skilgreini hvaða áhugasvið starfið falli undir og er það einn helsti kostur aðferðarinnar. Aðferðin hefur verið notuð í tengslum við Áhugakönnun Strong (Harmon o.fl., 1994) og áhugakönnun sem þróuð var af American College Testing (ACT: Swaney, 1995). Einhver óvissa fylgir þessari leið, sem er annar af helstu göllum hennar, þar sem ekki er öruggt að þeir sem valist hafa í starfið hafi áhuga á því sem starfið býður upp á (Harmon o.fl., 1994). Annar galli við þessa aðferð er að hún er bæði tímafrek og kostnaðarsöm (Rounds o.fl., 1999).

Raunprófunaraðferðin hefur verið notuð til að flokka öll störf sem er að finna í starfaskrá bandarísku vinnumálastofnunarinnar (Dictionary of Occupationl Titles; DOT: US Department of Labor, 1991). Aðferðin byggir á gagnagrunni um eðli starfa því gerð hafði verið greining og mat á störfum til að ákvarða hverjar áherslurnar í starfinu eru t.d. hvort helst er unnið með hluti, gögn eða fólk. Gottfredson, Holland og samstarfsmenn þeirra notuðu starfsgreiningargögnin ásamt upplýsingum um þau störf sem þegar höfðu verið flokkuð (með t.d. starfsgreinaaðferð) og beittu sundurgreinandi tölfræðiaðferðum (e. discriminant function analysis) sem ákvarðar út frá rauntengslum á hvaða svið hvert starf fellur. Hvert starf í DOT fékk þannig þriggja stafa Holland-kóða (Gottfredson, Holland og Ogawa, 1982; Gottfredson og Holland, 1989; 1996). Helsti kosturinn við þessa aðferð er sá að hægt var að flokka mikinn fjölda starfa með minni tilkostnaði en ef starfsgreinaaðferðinni er beitt. Gallarnir eru helst þeir að annar og þriðji kóðinn eru ekki alltaf áreiðanlegir því sum störf falla aðeins að einu áhugasviði Hollands en ekki mörgum og að starfsgreiningargögnin sem flokkunin byggir á eru ekki heldur fullkomlega áreiðanleg (Gottfredson og Holland, 1996; Rounds o.fl., 1999).

Matsaðferðin er þriðja og nýjasta leiðin sem farin hefur verið við flokkun starfa eftir kerfi Hollands. Hún felst í því að matsmenn, oftast sérfræðingar á sviði náms- og starfsráðgjafar, sem þekkja vel kenningu Hollands og innviði áhugasviðanna sex, eru fengnir til að meta hversu vel starfslýsingarnar falla að hverju sviðanna. Mikilvægt er að samræmi sé í niðurstöðum matsmanna. Hvert starf fær einn til þrjá Holland-kóða byggt á meðaltalsmati þriggja matsmanna. Þessi aðferð var notuð meðal annarra til að flokka tæplega 1200 starfslýsingar við gerð upplýsinga- og matskerfis (O*NET ) um störf og persónuleg einkenni þeirra sem leita starfa á vegum bandarísku vinnumálastofnunarinnar (U.S. Department of Labor, 2004). O*NET er netvætt upplýsinga- og matskerfi sem á meðal annars að taka við hlutverki DOT. Gæði matsaðferðarinnar voru borin saman við raunprófunaraðferðina og starfsgreinaaðferðina. Matsaðferðin reyndist gefa áreiðanlegri niðurstöður við flokkunina en hinar tvær og féllu niðurstöður einnig betur að formgerðarkenningu Hollands sem styður réttmæti aðferðarinnar (Rounds o.fl., 1999). Matsaðferðin er auk þess einföldust þessara þriggja aðferða í framkvæmd og ódýrust og var þess vegna ákveðið að nota hana við flokkun íslenskra starfslýsinga. Þessi rannsókn er að miklu leyti byggð á þeim aðferðum sem beitt var við flokkun og kóðun starfslýsinga í O*NET-verkefninu.

Vorið 2003 var ákveðið að kanna gildi matsaðferðarinnar við flokkun íslenskra starfslýsinga. Þrír nemendur í námsráðgjöf við Háskóla Íslands unnu lokaverkefni sem fól í sér forprófun á þessari aðferð hérlendis (Ásdís Schram, Eyrún Björk Valsdóttir og Svanhildur Svavarsdóttir, 2003). Þær voru þjálfaðar sem matsmenn og mátu 40 starfslýsingar úr öllum þremur bókum Gerðar G. Óskarsdóttur (1990; 1996; 2001) og af Iðunni, upplýsingavef Samtaka iðnaðarins um nám og störf. Áreiðanleiki flokkunarinnar reyndist vera 0,77 mældur með samræmisstuðlinum Gamma (Goodman og Kruskal, 1954). Einnig var kannað hvort flokkunin félli að kenningu Hollands um tengslin á milli áhugasviðanna sex og reyndist svo vera að miklu leyti (Correspondence Index var 0,53, p < 0,05, sjá nánar síðar). Í ljósi þessara niðurstaðna var ákveðið að ráðast í að flokka og kóða eftir kerfi Hollands þær starfslýsingar sem eftir stóðu af þeim tæplega 300 sem gefnar hafa verið út hérlendis.

Aðferð

Matsmenn

Þrír matsmenn, allt nemar sem voru að ljúka námi í náms- og starfsráðgjöf, höfðu sótt námskeið þar sem fjallað var um kenningu Hollands og áhugasviðsmat. Þeir fengu einnig sérstaka fræðslu um kenninguna og þjálfun við að flokka starfslýsingar eftir áhugasviðunum sex. Fræðslan fór fram áður en ráðist var í flokkun 40 starfslýsinga í forprófun sem áður er um getið. Í þjálfunarferlinu var lögð áhersla á að kynna vel inntak áhugasviðanna og tengsl þeirra, hver matsmaður las a. m. k þrjá texta þar sem fjallað var um kenningu Hollands (þ.e. Holland, 1997, Harmon o.fl., 1994; Scharf, 2002). Verkefnisstjóri, sem hefur tíu ára reynslu af notkun kenningarinnar í námsráðgjöf og rannsóknum á sviðinu, hélt einnig fyrirlestur og umræðufund um áhugasvið Hollands og hugmyndafræðina að baki kenningunni. Því næst fengu matsmennirnir hver og einn tólf starfslýsingar sem átti að flokka hver í sínu lagi. Notaður var sjö punkta kvarði og þeir beðnir að meta hversu einkennandi hvert áhugasviðanna sex er fyrir hvert starf (sjá nánar síðar). Verkefnisstjóri fór yfir niðurstöðurnar og hélt fund með matsmönnum þar sem rætt var um samræmi í matinu auk þess sem inntak og tengsl áhugasviðanna var rætt í þaula þar til komist var að sameiginlegri niðurstöðu. Einnig var rætt um merkingu kvarðans og hvort sameiginlegur skilningur ríkti um notkun hans.

Starfslýsingar

Gerður G. Óskarsdóttir (1990; 1996 og 2001) hefur ritstýrt útgáfu starfslýsinga sem eru sérstaklega ætlaðar nemendum og öðrum sem standa frammi fyrir náms- eða starfsvali. Starfslýsingarnar eru byggðar á viðtölum við a.m.k tíu einstaklinga í hverju starfi og var DOT notuð sem fyrirmynd að gerð þeirra. Samtök iðnaðarins hafa einnig byggt upp upplýsingavef um nám og störf (sjá http://www.idan.is/6000/06,05_storf.html) sem m.a. inniheldur starfslýsingar. Hluti lýsinganna á vefnum er byggður á starfslýsingum Gerðar, en hin síðari ár hafa verið gerðar nýjar starfslýsingar sem unnar eru í samvinnu við nemendur og kennara í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands (Ingi Bogi Bogason, samkvæmt viðtali 27. mars 2003).

Eftir samantekt kom í ljós að 278 starfslýsingar reyndust nothæfar til flokkunar. Miðað var við að hver lýsing væri ekki styttri en fimm setningar. Ef starfslýsingar fyrir sama starf var bæði að finna á vef Iðunnar og í bókum Gerðar voru þær síðarnefndu aðeins notaðar. Flestar þeirra, eða 265, reyndust vera frá Gerði en aðeins 13 lýsingar voru notaðar til flokkunar af Iðunni. Til að kanna hversu vel starfslýsingarnar endurspegla þau störf sem til eru á íslenskum vinnumarkaði voru þessi 278 störf felld að Ístarf95, starfaflokkun Hagstofu Íslands (1994). Ístarf95 inniheldur um 1800 starfsheiti og eru þessar 278 starfslýsingar sem til eru um 15% allra starfsheita sem eru upptalin í flokkuninni hérlendis. Mynd 2 sýnir fjölda starfa og starfslýsinga sem til eru í hverjum flokki Ístarf95. Hlutfall starfslýsinganna af heildarfjölda starfsheita er hæst í flokkunum: Sérfræðingar og tæknar en fæstar starfslýsingar eru til í flokkunum bændur og fiskimenn og véla og vélgæslufólk.

Reynt var að afla upplýsinga um hversu stórt hlutfall fólks á vinnumarkaði vinnur við þau störf sem starfslýsingar eru til fyrir, en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu, Kjararannsóknarnefnd og þeim stéttarfélögum sem leitað var til, eru ekki til áreiðanlegar tölur um fjölda starfandi eftir starfsheitum. Þegar farið er yfir starfslýsingarnar kemur hins vegar í ljós að þar eru lýsingar fyrir mjög fjölmennar stéttir, t.d. grunnskólakennara, hjúkrunarfræðing, lækna og sjúkraliða. Því er mjög líklegt að þessi 278 störf sem til eru starfslýsingar fyrir nái yfir hátt hlutfall þeirra sem eru starfandi á vinnumarkaði.

Mynd 2 - Fjöldi starfa og starfslýsinga í starfaflokkum Ístarf95

Framkvæmd

Matsmennirnir þrír voru beðnir um að ákvarða hversu lýsandi eða einkennandi hvert hinna sex umhverfa eða áhugasviða í kenningu Hollands (handverkssvið, vísindasvið, listasvið, félagssvið, athafnasvið og skipulagssvið) er fyrir starfið eftir að hafa lesið yfir hverja starfslýsingu. Í samræmi við Rounds o.fl. (1999) voru þeir beðnir að meta hvert sviðanna sex á sjö punkta kvarða þar sem endarnir og miðjan voru merkt á eftirfarandi hátt: 1 = alls ekki einkennandi, 4 = einkennandi og 7 = mjög einkennandi og færa inn á þar til gerð matsblöð. Mikilvægt var að fá óháð mat þriggja matsmanna á störfunum. Því var lögð áhersla á það við matsmennina að þeir mættu alls ekki hafa samráð sín á milli eða ræða matið á starfslýsingunum meðan á flokkuninni stóð. Fyrst voru 40 starfslýsingar metnar í febrúar og mars 2003 sem hluti af lokaverkefni matsmannanna í námsráðgjöf. Meirihluti starfslýsinganna var flokkaður á haustmánuðum sama ár, eftir að rifjuð höfðu verið upp helstu atriði í kenningu Hollands og inntak áhugasviðanna sex.

Niðurstöður

Til að kanna hve sammála matsmennirnir þrír voru við flokkun og kóðun starfslýsinganna, var áreiðanleiki milli matsmanna metinn (e. inter-rater reliability). Við mat á réttmæti flokkunarinnar var mest áhersla lögð á að kanna hvort að niðurstöðurnar féllu að formgerðarkenningu Hollands. Einnig voru niðurstöður flokkunar á íslensku starfslýsingunum bornar saman við sambærilega flokkun á bandarískum starfslýsingum.

Áreiðanleiki

Áreiðanleiki milli matsmanna er jafnan kannaður með því að finna tengsl matsniðurstaðna fyrir sömu atriðin milli allra para námsráðgjafa. Til að geta borið niðurstöðurnar saman við fyrri flokkarnir voru þrír mælikvarðar á tengsl notaðir til að meta áreiðanleikann svipað og gert var í O*NET-verkefninu. Þeir eru Pearson-fylgnistuðull, sem er einn algengasti mælikvarðinn á fylgni en er aðallega notaður þegar niðurstöðurnar eru mældar á jafnbilakvarða, Spearman-fylgni fyrir raðkvarða og þó aðallega Gamma (Goodman og Kruskal, 1954) sem metur áreiðanleikann með því að setja niðurstöðurnar upp í krosstöflur og nota hlutfallið milli matsniðurstaðna sem eru í samræmi og þeirra sem ekki eru í samræmi milli tveggja matsmanna. Tafla 1 sýnir samantekt á áreiðanleikastuðlunum milli allra para matsmanna fyrir hvert af sex áhugasviðum Hollands. Áreiðanleikinn milli allra mögulegra para matsmanna er mjög svipaður og heildaráreiðanleikinn fyrir allar starfslýsingarnar 278 (starfslýsingarnar 40 úr forprófun taldar með) mældur með Gamma var 0,77 eins og í forprófuninni. Heildaráreiðanleikinn mældur með Pearson-fylgni reyndist vera 0,70 og 0,65 mældur með Spearman-fylgni.
 

Áhugasvið Pör matsmanna
M1 og M2 M1 og M3 M2 og M3 Alls
Handverkssvið 0,848 0,843 0,875 0,855
Vísindasvið 0,907 0,913 0,915 0,912
Listasvið 0,786 0,829 0,693 0,769
Félagssvið 0,760 0,782 0,658 0,733
Athafnasvið 0,775 0,656 0,763 0,731
Skipulagssvið 0,672 0,613 0,521 0,602
Alls 0,791 0,773 0,738 0,767


Tafla 1 - Áreiðanleiki mældur með Gamma fyrir hvert par
af matsmönnum fyrir sex áhugasvið Hollands

Ákvörðun Holland-kóða

Til að ákvarða eins til þriggja stafa Holland-kóða fyrir hvert starf, sem lýsir hvaða áhugasviði eða
-sviðum hver starfslýsing fellur best að, var meðaltalsmati matsmannanna þriggja á hverju áhugasviðanna sex breytt í hlutföll. Þetta var gert með því að deila í meðaltalsmatið fyrir hvert af áhugasviðunum sex með heildarmati fyrir starfið, þ.e. samanlagt mat fyrir öll sex sviðin. Það áhugasvið sem fékk hæsta hlutfallstölu ákvarðaði fyrsta Holland-kóðann og næst hæsta talan annan og svo framvegis. Miðað var við að hvert áhugasvið sem fengi hlutfallstölu yfir 0,17 væri látið gilda við kóðunina en það viðmið var einnig notað í O*NET-verkefninu (Rounds o.fl. 1999). Ef tvö áhugasvið fengu jafnháa hlutfallstölu eftir að fyrsti kóði hafði verið ákvarðaður var starfslýsingin kóðuð samkvæmt því sviði sem fellur nær því áhugasviði á Holland-sexhyrningnum sem á undan kom. Ef tvær hæstu hlutfallstölurnar voru jafnar úrskurðaði verkefnastjóri um hvor kæmi á undan.

Réttmæti

Til að kanna hversu vel niðurstöður flokkunarinnar falla að formgerðarkenningu Hollands um tengsl og skyldleika þeirra (sexhyrningnum) var svokallað „Randomization test“ (Hubert & Arabie, 1987) notað ásamt fjölvíddargreiningu (Multidimensional Scaling: Kruskal og Wish, 1978) sem gerir okkur kleift að skoða tengslin myndrænt. Randomization prófið metur hvort tengslin (t.d. mæld með fylgni) á milli áhugasviðanna í gögnunum falli að því sem líkanið spáir fyrir um. Líkanið tilgreinir t.d. að tengslin milli vísindasviðs og handverkssviðs (sem eru hlið við hlið á sexhyrningnum) séu meiri en tengslin milli vísindasviðs og athafnasviðs (sem eru staðsett gegnt hvort öðru í líkaninu) og ef flokkunin fellur að kenningunni á fylgnin milli vísinda- og handverkssviðs að vera meiri en milli vísinda- og athafnasviðs. Því betur sem gögnin falla að öllum þeim forspám (samtals 72) sem líkanið gerir um tengslin milli áhugasviðanna því hærri verður svokallaður „Correspondence Index“ (CI). RANDALL-forritið (Tracey, 1997) var notað til að gera prófið. CI-stuðullinn er reiknaður með því finna fjölda þeirra tengsla sem falla að líkaninu og þeirra sem ekki falla að því og finna hlutfallið þar á milli. CI er líkur fylgnistuðlum að því leyti að hann er staðlaður og getur tekið gildi frá -1 til 1. Því nær 1 sem CI-stuðullinn er því betur falla tengslin sem mæld eru í gögnunum að líkaninu og er hægt að túlka sem svo að því betur fellur flokkunin að formgerðarkenningu Hollands (sjá nánar Rounds, Tracey og Hubert, 1992; Einarsdóttir o.fl., 2002).

Þegar niðurstöðurnar fyrir allar 278 starfslýsingarnar lágu fyrir var kannað hversu vel tengslin falla að formgerðarkenningu Hollands og reyndist CI-mælikvarðinn vera 0,40 (p < 0,05). Hægt er að hafna núll-tilgátunni um að tengslin séu tilviljunarkennd (e. non-circular structure) þó svo gögnin falli ekki fullkomlega að kenningunni. Ekki var nákvæmlega sama aðferð notuð við að meta hversu vel flokkunin í O*NET verkefninu fellur að formgerðarkenningu Hollands og því ekki hægt að gera beinan samanburð á niðurstöðunum. Niðurstöðurnar gefa þó til kynna að íslenska flokkunin falli ekki eins vel að formgerðarkenningu Hollands og þegar matsaðferðinni var beitt á sama hátt á 1200 starfslýsingar í Bandaríkjunum (Rounds o.fl., 1999). Ein möguleg skýring er sú að matsmennirnir hafi ekki haft næga reynslu af notkun kenningarinnar í náms- og starfsráðgjöf þar sem þeir höfðu nýlokið námi.

Til að kanna hvort hægt væri að bæta réttmæti flokkunarinnar var því ákveðið að fá þrjá mjög reynda námsráðgjafa, sem notað hafa kenningu Hollands við túlkun niðurstaðna úr áhugasviðskönnunum í áratug eða lengur, til að flokka sömu 40 starfslýsingar og flokkaðar höfðu verið í forprófuninni. Reyndu matsmennirnir (sem svo verða kallaðir hér eftir) fóru í gegnum svipað þjálfunarferli og þeir óreyndari sem lokið höfðu flokkun sinni.Við mat á réttmæti flokkunarinnar reyndist CI vera 0,63 (p < 0,05). Til samanburðar var CI-stuðullinn í forprófuninni þar sem þessar sömu 40 starfslýsingar voru notaðar 0,53 (p > 0,05) hjá óreyndari matsmönnunum. Niðurstöðurnar sýna að flokkun reyndari ráðgjafanna féll betur að formgerðarkenningu Hollands.

Í framhaldi fór verkefnastjóri yfir niðurstöðurnar fyrir allar starfslýsingarnar í flokkun óreyndu matsmannanna og mat hversu réttmæt flokkunin væri út frá þremur meginviðmiðum: 1. innihaldi áhugasviða Hollands, 2. tengslum áhugasviðanna og 3. niðurstöðum flokkanna á sömu störfum erlendis. Allar starfslýsingarnar, eða 41 talsins, sem reyndust ekki í samræmi við það sem búast mætti við m.t.t. einhvers þessara þriggja þátta voru flokkaðar að nýju af reyndari námsráðgjöfunum þremur. Þar með hafði 81 starfslýsing verið flokkuð af tveimur hópum þriggja matsmanna, annars vegar óreyndum nemum í námsráðgjöf og hinsvegar reyndum námsráðgjöfum.

Áreiðanleikinn reyndist vera 0,64 mældur með Gamma hjá reyndari ráðgjöfunum fyrir þá 81 starfslýsingu sem þeir mátu. Til að fá betri samanburð byggðan á mati fleiri starfslýsinga á hversu vel niðurstöður reyndra og óreyndra ráðgjafa falla að kenningu Hollands voru niðurstöður „randomization“-prófsins bornar saman fyrir þessa 81 starfslýsingu sem hafði verið metin af báðum hópum matsmanna. CI-stuðullinn var 0,49 (p < 0,05) hjá óreyndari matmönnunum en 0,68 (p < 0,05) hjá þeim reyndari. Þessar niðurstöður gefa til kynna að niðurstöður flokkunarinnar hjá óreyndu ráðgjöfunum séu innan ásættanlegra marka en niðurstöðurnar hjá reyndu ráðgjöfunum falla betur að formgerðarkenningu Hollands.

Til að kanna betur í hverju þessi munur liggur var fjölvíddargreiningunni beitt en niðurstöður hennar fyrir þessa 81 starfslýsingu hjá reyndu og óreyndu matsmönnunum sjást á mynd 3. Eins og sjá má er það helst vísindasviðið sem ekki fellur að kenningunni og lendir á milli handverks og skipulagssviðs í stað handverks og listasviðs hjá óreyndari matsmönnunum. Þetta gerist ekki hjá reyndari ráðgjöfunum og sviðin falla betur að formgerðarkenningu Hollands bæði hvað varðar fjarlægðir milli þeirra og röðina en athafnasvið og félagssvið hafa þó skipt um sæti (er HVLAFS í stað HVLFAS).

Mynd 3 - Niðurstöður fjölvíddargreiningar hjá óreyndum (efri mynd)
og reyndum ráðgjöfum (neðri mynd)

Í ljósi þessara niðurstaðna var ákveðið að nota Holland-flokkun reyndra ráðgjafa fyrir þá 81 starfslýsingu sem var flokkuð af báðum hópum matsmanna en flokkunin á 197 starfslýsingum er byggð á mati óreyndari námsráðgjafa. Þetta eru þær niðurstöður flokkunar íslenskra starfslýsinga samkvæmt kenningu Hollands sem notaðar voru við gerð rafræna upplýsingakerfisins (sjá http://vefir.khi.is/bendill/).

Til að kanna frekar gildi flokkunarinnar hérlendis voru niðurstöðurnar sem notaðar voru til að ákvarða endanlegan Holland-kóða fyrir gagnagrunninn bornar saman við niðurstöður flokkunar starfslýsinga úr O*NET-verkefninu, þar sem sömu aðferð var beitt (Rounds o.fl. 1999). Mikilvægt er að benda á að starfslýsingarnar hérlendis og í O*NET-kerfinu eru ekki samskonar en voru búnar til á svipaðan hátt. Ekki er útilokað að störfin séu ólík milli landanna og starfslýsingarnar þar af leiðandi. Tveir tvítyngdir sérfræðingar, annar á sviði námsráðgjafar og hinn á sviði vinnumarkaðar fundu störfin sem höfðu verið flokkuð hjá O*NET (þau má nálgast á vef kerfisins á slóðinni http://www.onetcenter.org) og pöruðu þau saman við íslensku starfsheitin á starfslýsingunum. Sérfræðingarnir voru sammála um að af þeim 278 íslensku starfsheitum sem notuð verða í rafræna gagnagrunninum væru 172 þeirra úr O*NET-verkefninu þau sömu.

Þrjár aðferðir voru notaðar til að bera saman lokaniðurstöður flokkunarinnar hérlendis og í Bandaríkjunum. Fyrst var kannað hversu stórt hlutfall starfanna bæri sama fyrsta Holland-kóðann, svo reyndist vera með 80% af þeim 172 starfslýsingum sem tókst að para milli landanna. Í öðru lagi var Pearson-fylgni milli meðalmats þriggja matsmanna í hvoru landanna fyrir hvert áhugasvið reiknuð. Heildarfylgnin (Pearson) fyrir öll áhugasviðin sex reyndist vera 0,78. Í þriðja lagi var svokallaður Iachan-index (Iachan, 1984a, 1984b) notaður til að meta samræmi milli fyrstu þriggja Holland-kóðanna hérlendis og erlendis. Kosturinn við þennan mælikvarða er sá að hann tekur einnig tillit til tengslanna á milli áhugasviða Hollands eins og þau eru tilgreind í formgerðarlíkani hans. Iachan-index getur tekið gildi frá 028. Hann reyndist vera 23,7 (sf = 5,2) fyrir þær 172 starfslýsingar sem voru til fyrir sömu störf hérlendis og í Bandaríkjunum. Þessar niðurstöður sýna að það er töluvert mikið samræmi milli íslensku flokkunarinnar og þeirrar bandarísku þó svo starfslýsingarnar fyrir sömu störf séu ekki nákvæmlega eins.

Umræða

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að notkun matsaðferðar við Holland-flokkun og -kóðun starfslýsinga sem hafa verið gefnir út hérlendis gefur góða raun. Áreiðanleiki flokkunarinnar er innan ásættanlegra marka. Athugun á réttmæti flokkunarinnar sýnir að hún fellur ágætlega að formgerðarkenningu Hollands, sérstaklega hjá þeim hópi matsmanna sem hafa mikla reynslu af notkun kenningarinnar í ráðgjöf. Niðurstöður flokkunarinnar eru einnig í meirihluta tilfella í samræmi við erlendar niðurstöður Holland-flokkunar á starfslýsingum fyrir sömu störf þar sem matsaðferðinni var einnig beitt.

Eins til þriggja stafa Holland-kóði, einn fyrir hvert af sex mögulegum áhugasviðum Hollands (HVLFAS), var ákvarðaður fyrir hverja starfslýsingu byggt á heildarmati þriggja matsmanna. Niðurstöður flokkunar voru notaðar til að skipuleggja rafrænt upplýsingakerfi fyrir starfslýsingarnar (http://vefir.khi.is/bendill/). Slíkt flokkunarkerfi og rafrænn gagnagrunnur er mikilvægt hjálpartæki fyrir nemendur og aðra sem standa frammi fyrir náms- og starfsvali og þurfa að afla upplýsinga um mögulegan starfsvettvang. Hingað til hafa íslenskir nemendur haft tiltölulega greiðan aðgang að áhugasviðsmati en aftur á móti hefur skort sambærilega flokkun á íslenskum störfum. Gagnagrunnur sá sem hér hefur verið búinn til bætir úr brýnni þörf og eykur leitargildi áhugakannanna (Randahl, o.fl. 1993) og líkurnar á því að samræmi náist milli áhugasviða einstaklingsins og þess starfsvettvangs sem hann velur sér.

Við notkun rafræna upplýsingakerfisins er þó mjög mikilvægt að hafa í huga að aðeins eru til íslenskar starfslýsingar fyrir 278 störf af þeim um 1800 störfum sem er að finna í Ístarf95, starfaflokkun Hagstofu Íslands (1994), eða innan við fimmtungur. Þar sem ekki eru til nógu nákvæmar upplýsingar um hversu margir eru starfandi í hverjum starfaflokki er ekki ljóst hversu stórt hlutfall þessi 278 störf ná yfir af íslenskum vinnumarkaði. Einnig er mikilvægt að hafa í huga við notkun gagnagrunnsins að starfslýsingarnar sem til eru dreifast mjög ójafnt á starfaflokka. Aðeins eru til starfslýsingar fyrir um
27% starfa í fimm af níu starfaflokkum Ístarf95. Þessir flokkar eru: Bændur og fiskimenn, véla- og vélgæslufólk, kjörnir fulltrúar og æðstu embættismenn, skrifstofufólk og ósérhæft starfsfólk. Ljóst er að starfslýsingarnar sem hér voru notaðar endurspegla ekki íslenskan vinnumarkað og getur notkun gagnagrunnsins því mögulega bæði takmarkað leitarmöguleika fólks og beint notendum meira inn á ákveðin starfssvið en önnur. Mikilvægt er að halda áfram gerð starfslýsinga sem gagnast fólki í leit að hentugum starfsvettvangi og Holland-kóðun þeirra svo að gagnagrunnurinn sem hér hefur verið settur á laggirnir muni í framtíðinni endurspegla íslenskan vinnumarkað. Þessi staða vekur spurningar um hver eða hvaða stofnanir ættu að sinna gerð starfslýsinga hérlendis en bagalegt er að það skuli ekki vera gert af opinberum aðilum eins og í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Ætla má að notkun gagnagrunnsins eins og hann er með nauðsynlegum fyrirvara sé þó betri kostur en að geta ekki bent ráðþegum á neinar upplýsingar af þessu tagi.

Þegar gæði flokkunarinnar voru könnuð kom í ljós að lítill munur er á áreiðanleika flokkunarinnar milli matsmannanna þriggja fyrir þær starfslýsingar sem til eru hérlendis (Gamma = 0,77) og fyrir samskonar mat á um 1200 starfslýsingum við gerð O*NET-verkefnisins í Bandaríkjunum (Gamma = 0,81) (Rounds o.fl., 1999). Niðurstöðurnar voru einnig sambærilegar að því leyti að áreiðinleiki matsins er lægstur fyrir skipulags- og athafnasvið í báðum löndunum. Niðurstöðurnar sýna að námsráðgjafar sem hafa þekkingu á kenningu Hollands og þjálfun í að meta innihald starfslýsinga með tilliti til áhugasviðanna eru að mestu leyti sammála um hvaða áhugasviðum lýsingarnar falla best að.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að flokkun minna reyndu matsmannanna þriggja fellur ekki fullkomlega að kenningu Hollands (1997) en er innan ásættanlegra marka. Reyndist flokkun reyndari matsmanna falla betur að formgerðarlíkani hans og því má segja að réttmæti niðurstaðnanna hafi verið betra en hjá óreyndari ráðgjöfunum. Reyndari ráðgjafarnir virðast hafa tekið meira tillit til þekkingar sinnar á formgerðarlíkaninu við mat á störfunum en þeir óreyndari. Á hinn bóginn mældist áreiðanleikinn aðeins minni hjá reyndu ráðgjöfunum en þeim óreyndu.

Af hagkvæmnisástæðum var ekki hægt að ráðast í endurflokkun á öllum starfslýsingunum til að bæta réttmæti flokkunarinnar. Því var ákveðið að bæta réttmæti niðurstaðnanna þar sem mest var þörf. Voru reyndu námsráðgjafarnir fengnir til að meta allar starfslýsingarnar sem verkefnisstjóri taldi að ekki höfðu verið flokkaðar á réttmætan hátt í fyrstu umferð. Holland-flokkun íslenskra starfslýsinga sem birt er í rafrænum gagnagrunni (http://vefir.khi.is/bendill/) byggir því að mestu leyti á flokkun óreyndari námsráðgjafanna en um þriðjungur á endurflokkun reyndu námsráðgjafanna.

Íslensku niðurstöðurnar hjá þessum tveimur hópum matsmanna féllu ekki eins vel að formgerðarkenningu Hollands eins og í sambærilegu mati sérfræðinga á 1200 starfslýsingum í Bandaríkjunum (Rounds o.fl., 1999). Ástæður þessa eru óljósar en mögulegt er að þær starfslýsingar sem til voru hérlendis séu ekki dæmigert úrtak fyrir íslenskan vinnumarkað. Einnig gæti skýringin á þessum mun verið að kenning Hollands lýsi ekki eins vel íslenskum vinnumarkaði og bandarískum. Á hinn bóginn er athyglisvert að töluvert mikið samræmi er milli íslensku flokkunarinnar og þeirrar bandarísku. Þrátt fyrir að starfslýsingarnar fyrir sömu störfin séu ekki eins og sum störf voru ekki til staðar í O*NET-kerfinu, styðja þessar niðurstöður ytra réttmæti íslensku Holland-kóðunarinnar. Niðurstöðurnar gefa til kynna að störfin sem hægt var að para saman falli undir sömu áhugasvið fyrir mestan hluta þeirra. En einnig er vert að hafa í huga að aðeins var hægt að finna um 60% af þeim störfum sem íslenskar starfslýsingar hafa verið gefnar út fyrir í bandaríska O*NET-kerfinu. Þetta gefur til kynna að vinnumarkaðurinn á Íslandi og Bandaríkjunum séu að nokkru leyti ólíkir að samsetningu og gerð.

Náms- og starfsráðgjöf er ung grein á Íslandi sem byggir að miklu leyti á erlendri hugmyndafræði, þekkingu og hefðum. Kenning Hollands sem upprunnin er í Bandaríkjunum og áhugasviðskannanir sem hannaðar eru til að meta starfsáhugasvið hans hafa reynst vel í náms- og starfsráðgjöf. Rannsóknir hafa einnig stutt gildi kenningarinnar og réttmæti áhugasviðskannanna hérlendis (Einarsdóttir o.fl., 2002; Konráðs og Haraldsson, 1994). Niðurstöðurnar í þessari rannsókn sýna að kenningin reyndist einnig ágætlega við flokkun á íslenskum starfslýsingum og hefur því ekki aðeins gildi við áhugasviðsmat heldur einnig við sambærilega flokkun starfa á íslenskum vinnumarkaði. En eins og bent var á hefur bæði skort upplýsingar um íslenskan vinnumarkað (t.d. fleiri starfslýsingar) og að nemendur og aðrir ráðþegar hafi greiðan aðgang að þeim. Einn meginkosturinn við samsvörunarkenningar (e. person-environment fit) sem kenning Hollands fellur vel að, er að áhersla er lögð á að einstaklingurinn finni umhverfi sem hæfir sálfræðilegum einkennum (áhuga, gildismati, hæfni) hans. Víða erlendis er að finna flokkunarkerfi fyrir störf og vinnumarkað líkt og Ístarf95-kerfi Hagstofu Íslands. Holland-kerfið í Bandaríkjunum er einstakt að því leyti að það felur í sér nálgun við flokkun starfa sem fyrst og fremst tekur mið af sálfræðilegum eiginleikum einstaklinganna. Slíkt kerfi greiðir aðgang fólks að upplýsingum sem hæfa markvissri leit að störfum og byggir fyrst og fremst á sjálfsþekkingu einstaklingsins og ýtir undir sjálfstæða ákvarðanatöku í síbreytilegu samfélagi nútímans.

Viðauki

Sex áhugasvið Hollands
H-Handverkssvið (R-Realistic)

Sviðið lýsir þeim sem líkar vel að að vinna með höndunum og beita alls kyns verkfærum, tækjum og tólum. Flest líkamleg störf höfða til þeirra auk starfa sem unnin eru utandyra. Þeim líkar að vera í ævinýralegu umhverfi og útistörf og útivist hvers konar höfða gjarnan til þeirra.

V-Vísindasvið (I-Investigative)

Sviðið lýsir þeim sem hafa gaman af því að leysa vandamál með vísindalegum aðferðum, útreikningum og rannsóknum og beita rökhugsun. Þeir vilja vinna sjálfstætt og í störfum sem krefjast mikillar einbeitingar. Þeir hafa fjölþætt áhugamál og eru gjarnan opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

L-Listasvið (A-Artistic)

Sviðið lýsir þeim sem hafa mestan áhuga á að vinna að sköpun og tjáningu. Þeim finnst oft mikilvægara að tjá tilfinningar sínar en að nota rökhugsun og kjósa gjarnan að vinna sjálfstætt og vera frumlegir. Þessir einstaklingar fara gjarnan óhefðbundnar leiðir í lífinu og eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og reynslu.

F-Félagssvið (S-Social)

Sviðið lýsir þeim sem hafa fyrst og fremst áhuga á að vinna við mannleg samskipti. Þeir hafa áhuga á að hjálpa öðrum, leiðbeina eða kenna. Samvinna, skipting ábyrgðar og sveigjanleiki í samskiptum skiptir þá helst máli í starfi. Þeir leggja áherslu á að leysa málin með því að ræða þau út frá tilfinningum og samskiptum við aðra.

A-Athafnasvið (E-Enterprising)

Sviðið lýsir þeim sem hafa áhuga á að ná fram ákveðnum markmiðum, persónulegum eða efnahagslegum. Þeir vilja vinna með öðrum en hafa mestan áhuga á að stjórna og hafa áhrif. Þeir eru gjarnan í viðskiptum, stjórnmálum og stjórnunarstörfum og vilja vera virkir í athafnalífi. Þeir eru oft tilbúnir til að taka áhættu í starfi og eru miklir keppnismenn.

S-Skipulagssvið (C-Conventional)

Sviðið lýsir þeim sem vilja hafa gott skipulag á vinnu sinni. Þeir vilja vinna við skýrt afmörkuð verkefni þar sem hægt er að leita skynsamlegra og hagnýtra lausna á vandamálum. Þeir eru áreiðanlegir, vilja hafa reglu á hlutunum og vinna gjarnan með gögn og skýrslur. Þeir vilja frekar vinna undir stjórn annarra eða þar sem farið er eftir skýrum áætlunum en að stjórna öðrum sjálfir.

 

Þakkir

Jónínu Kárdal og Eyrúnu B. Valsdóttur eru færðar bestu þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir við handrit. Ég vil einnig þakka Gerði G. Óskarsdóttur og Inga Boga Bogasyni gott samstarf og leyfi til að nota starfslýsingar sem gefnar hafa verið út á þeirra vegum. Rannsókn þessi var styrkt af Starfsmenntaráði Félagsmálaráðuneytisins.

 

Heimildir

Anna María Pétursdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, og Kristín Þ. Magnúsdóttir (1996). Áhugasviðskönnunin IDEAS: Þýðing og forprófun á interest, determination, exploration and assessment system. Óbirt lokaverkefni í námsráðgjöf. Háskóli Íslands.

Ásdís Schram, Eyrún Björk Valsdóttir og Svanhildur Svavarsdóttir (2003). Flokkun íslenskra starfslýsinga eftir kenningu Hollands. Óbirt lokaverkefni í námsráðgjöf. Háskóli Íslands.

Blustein, D.L. og Flum, H. (1999). A Self-determination perspective of interests and exploration in career development. Í Savickas, L. M. & Spokane, A. R. (ritstj.) (pp. 345368). Vocational interests: Meaning measurement and counseling use. PaloAlto, CA: Davis-Black.

Borgen, F. H. (1986). New approaches to the assessment of interests. Í W. B. Walsh og S. H. Osipow (ritstj.), Advances in vocational psychology, Vol. I: The assessment of interests (pp. 83125). Hillsdale, NJ: Lawrence Erlbaum.

Brynhildur Scheving-Thorsteinsson (2004). Íslensk staðfærsla og stöðlun: Í leit að starfi. Reykjavík: Námsmatsstofnun.

Einarsdóttir, S., Rounds, J., Ægisdóttir, S. og Gerstein, L. H. (2002). The structure of vocational interests in Iceland: Examining Holland´s and Gati´s RIASEC models. European Journal of Psychological Assessment, 18(1), 8595.

Gerður G. Óskarsdóttir (ritstj.). (1990). Starfslýsingar, sérfræði, tækni og stjórnunarstörf. Reykjavík: Iðunn.

Gerður G. Óskarsdóttir (ritstj.). (1996). Starfslýsingar II: Sérgreinar í iðnaði og þjónustu. Reykjavík: Iðnú.

Gerður G. Óskarsdóttir (ritstj.). (2001). Starfslýsingar III: Almenn störf í framleiðslu og þjónustu. Reykjavík: Iðnú.

Goodman, L. A. og Kruskal, W. H. (1954). Measures of association for cross classification. Journal of the American Statistical Association, 49, 732764.

Gottfredson, G. D. og Holland, J. L. (1989). Dictionary of Holland occupational codes. Odessa, FL: Psychological Assessment Resources.

Gottfredson, G. D. og Holland, J. L. (1996). Dictionary of Holland occupational codes. Odessa, FL: Psychological Assessment Resources.

Gottfredson, G. D., Holland, J. L. og Ogawa, D. K. (1982). Dictionary of Holland occupational codes. Palo Alto, CA: Consulting Psychologist Press.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir (1998). Að byggja nám. Afmælisrit félags náms- og starfsráðgjafa, 1214.

Hagstofa Íslands (1994). ÍSTARF95: Íslensk starfaflokkun (1. útg.). Reykjavík: Hagstofa Íslands.

Harmon, L. W., Hansen, J. C., Borgen, F. H., og Hammer, A. L. (1994). Strong Interest Inventory: Applications and technical guide. Palo Alto, CA: Consulting Psychologists Press, Inc.

Holland, J. L. (1973). Making vocational choices: A theory of careers. Englewood Cliffs, NJ: Prentice-Hall.

Holland, J. L. (1985). Making vocational choices: A theory of careers (2nd ed). Englewood Cliffs, NJ: Prentice-Hall.

Holland, J. L. (1997). Making vocational choices: A theory of vocational personalities and work environments (3rd ed.). Englewood Cliffs, NJ: Prentice-Hall.

Holland, J. L., Powell, A. B. og Fritzsche, B. A. (1997). The Self-Directed Search (SDS): Professional user´s guide. Odessa, FL: Psychological Assessment Resources.

Hubert, L. og Arabie, P. (1987). Evaluating order hypothesis within proximity matrices. Psychological Bulletin, 102, 172178.

Iachan, R. (1984a). A family of differentiation indices. Psychometrika, 49, 217222.

Iachan, R. (1984b). A measure of agreement for use with Holland´s classification system. Journal of Vocational Behavior. 24, 133141.

Johansson, C. B. (1990). IDEAS: Interest determination, exploration and assessment system. Minnesota: National Computer Systems, Inc.

Konráðs, S. og Haraldsson, E. (1994). The validity of using US based interest norms of the Strong Interest Inventory for Icelandic college population. Scandinavian Journal of Educational Research. 38(1), 65-76.

Kruskal, J. B. og Wish, M. (1978). Multidimensional scaling. Newbury Park, CA: Sage.

Randahl, J. G., Hansen, J-I. C. og Haverkamp. B. E. (1993). Instrumental behaviors following test administration and interpretation: Exploration validity of the Strong Interest Inventory. Journal of Counseling and Development, 71, 435439.

Rounds, J. og Tracey, T. J. (1990). From trait-and-factor to person-environment fit counseling: Theory and process. In W. B. Walsh & S. H. Osipow (ritstj.), Career counseling (pp. 144). Hillsdale, NJ: Erlbaum.

Rounds, J., Tracey, T. J., og Hubert, L. (1992). Methods for evaluating vocational interest structure hypothesis. Journal of Vocational Behavior, 40, 239259.


Rounds, J., Smith, T., Hubert, L., Lewis, P. og Rivkin, D. (1999). Development of Occupational Interest Profiles for O*NET. North Carolina: National Center for O*NET Development.

Samtök iðnaðarins, Iðan vefur fyrir ungt fólk um íslenskan iðnað, sótt á http://www.idan.is.

Savickas, L. M. og Spokane, A. R. (ritstj.). (1999). Vocational interests: Meaning measurement and counseling use. Palo Alto, CA: Davis-Black.

Scharf, R. S. (2002). Applying career development theory to counseling (3rd. ed.). Pacific Grove, CA: Brooks/Cole.

Swaney, K. B. (1995). Technical manual: Revised Unisex edition of the ACT Interest Inventory (UNIACT). Iowa City, IA: American College Testing.

Tracey, T. J. G. (1997). RANDALL: A Microsoft FORTRAN program for randomization test of hypothesized order relations. Educational and Psychological Measurement, 57, 164168.

US Department of Labor (1991). Dictionary of occupational titles (4th.ed.).
revised 2nd volume).Washington DC: US Government Printing Office.

US Department of Labor (2004). Occupational information network resource center,
sótt 12. ágúst 2004 á http://www.onetcenter.org.

Walsh, W. B. og Holland, J. L. (1992). A theory of personality types and
environments. In W. B. Walsh, K. H. Craik, og R. H: Price (ritstj.), Person
environment psychology: Models and perspectives
(pp. 3570). Hillsdale, NJ:
Erlbaum.