Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 5. maí 2005

Guðrún Kristinsdóttir og Rúnar Sigþórsson

Glíman við rannsóknaráætlanir

Í þessari grein er fjallað um ýmsar spurningar og álitaefni sem glíma þarf við þegar gerðar eru rannsóknaráætlanir. Höfundar hafa hvor sína framsögu og skiptast því næst á skoðunum. Byggt er á umfjöllun höfunda um gerð rannsóknaráætlana á Samræðuþingi um eigindlegar rannsóknir sem fór fram við Háskólann á Akureyri 17. og 18. september 2004. Þetta er nokkuð breytt útgáfa af þeirri samræðu. Guðrún er prófessor við Kennaraháskóla Íslands og Rúnar dósent við Háskólann á Akureyri og doktorsnemi við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Hvort kemur fyrst kenning eða athugun í menntarannsóknum og á skyldum sviðum? Eru fræðilegar pælingar og skrif nauðsynlegur undanfari gagnaöflunar? Má líkja beinum spurningum rannsakanda við árás? Eru áhorfsathuganir án beinna spurninga góð aðferð við athuganir á skólastarfi og skyldum viðfangsefnum? Er rannsóknaráætlunin spennitreyja? Á hvaða sjónarhóli stendur byrjandi sem stígur sín fyrstu skref inn í veröld vísinda og fræða? Við upphaf rannsóknar þarf að taka margar ákvarðanir og þær geta vafist fyrir ýmsum. Hér verður fjallað um þessar spurningar sem vakna við gerð rannsóknaráætlunar.

Framsaga Guðrúnar: Ögun og óreiða; hlutskipti rannsakandans

Hefðbundnar gæðakröfur er varða vísindarannsóknir leggja áherslu á nákvæmni í aðferðum, gott skipulag og gagnrýna hugsun. Byrjendum, t.d. nemendum í framhaldsnámi, er yfirleitt uppálagt að leggja fram talsvert ítarlegar greinargerðir sem lýsa áformum þeirra í væntanlegum rannsóknum. Í umsóknum um rannsóknastyrki hafa ámóta kröfur aukist að miklum mun á síðari árum hérlendis og snýr það að sjálfsögðu jafnt að nemendum sem reyndari fræðimönnum.

Rannsóknir miða, eins og kunnugt er, að nýsköpun þekkingar. Mismiklar kröfur eru þó gerðar til nýnæmis og fáir búast við snillingum hvert sem litið er. Áhyggjur af þessu eru algengar í upphafi ferilsins en byrjendur ættu að anda léttar. Fyrir þá snýst frumleikakrafan um það að hugsa á gagnrýninn hátt um eigin rannsókn, að geta þróað hugtök eða aðferðir, að geta byggt á fyrri rannsóknum og um að sýna hæfni til að sveigja af braut ef rannsóknin krefst þess (Silverman 2005). Jafnvel er sagt að krafa um snilligáfu og skilyrði til doktorsprófs fari alls ekki saman. Sagan segir að við doktorspróf Ludwig Wittgenstein hafi prófdómararnir, Bertrand Russell og G. E. Moore, talið hann sér fremri og að hann væri snillingur. Í áliti þeirra kemur fram að þetta séu tvö sjálfstæð matsatriði því að þar stendur: Þetta er verk snillings. Það fullnægir líka kröfum um doktorspróf í Cambridge. (Silverman 2005, bls. 73) Annað dæmi nefnir Silverman um þetta og segir að reyndir vísindamenn, til dæmis Nóbelsverðlaunahafar, geri oft mun minna úr frumleika uppgötvana sinna en aðrir og vísi í því sambandi til stuðnings sem þeir hafi notið frá fjölmörgum aðilum (Silverman 2005). Flestir rannsakendur halda sig innan þess sem Kuhn kallaði normalvísindi og valda ekki umbyltingum með verkum sínum sem geta engu að síður verið góðra gjalda verð (Kuhn 1996.)

Engu að síður miða allir vísinda- og fræðimenn sem standa undir nafni að nýnæmi með rannsóknum sínum. Þetta krefst umtalsverðs andrúms. Rannsóknaráætlunin er krefjandi form, ekki síst fyrir byrjandann. Hún er mikilvæg þar sem hún er oftar en ekki forsenda fjármagns, framkvæmda og viðurkenningar á verkefninu. Hún er þannig einnig stjórntæki vísindasamfélagsins og stofnana sem þjálfa nýja vísindamenn. Spyrja má hvort krafan um áætlunina sé fremur spennitreyja en uppspretta frumleika og hvernig eigi þá að leysa úr slíkri togstreitu? Í leiðsagnartímum með nemendum mínum verð ég stundum vör við óþreyju; þeir kunna að spyrja hve langt áætlunin þurfi að ná, hve nákvæm hún þurfi að vera.

Ég hef áður haldið því fram að handan við trú á gildi skipulags, ögun, skýrt afmarkaðar spurningar og nákvæmar áætlanir sé að finna hversdagsleika rannsakandans sem oft einkennist af óvissu, óreiðu og tímaskorti (Guðrún Kristinsdóttir 2002). Myndin af vísindastarfi sem byggir fyrst og síðast á föstu skipulagi virðist því bæði sönn og ósönn. Hinn rauði þráður fræðastarfsins þarf vissulega að vera til staðar en óreiða gerir yfirleitt vart við sig í leitinni að öruggum efnistökum. Óvæntir útúrkrókar lengja gjarnan leiðina og gera rannsakendum óhægt um vik. Algengt er að mæta þurfi ofangreindum kröfum um skipulag og nákvæmni, t.d. í formi framvinduskýrslna og áfangaskila en vanskil á slíku loka oftar en ekki tækifærum til framhalds. Tími sem verja þarf til slíkra verka kann að taka mikinn toll og þrengja að svigrúmi til nýsköpunar.

Oft er bent á að óreiða sé uppspretta skapandi hugsunar. Ef við gefum okkur að óreiða ríki í upphafi; hvernig á að komast yfir fyrsta hjallann í rannsóknarvinnunni? Við því eru mörg svör og sumir telja best að kasta sér í djúpu laugina! Aðrir telja þó öruggara að kanna fyrst lögun kersins og dýpt. Hvað segir þú Rúnar?

Framsaga Rúnars: Glíman við rannsóknaráætlun

Mitt innlegg til samræðunnar byggist á tvennu: Í fyrsta lagi á eigin reynslu af vinnu við rannsóknaráætlun fyrir doktorsverkefni þar sem ég valdi eigindlega rannsóknaraðferð og í öðru lagi á eigin reynslu af leiðsögn við nemendur í diplómu- og meistaranámi.

Rannsóknaráætlun á lokastigi er yfirleitt nokkuð slétt og felld á yfirborðinu. Hún getur þó hafa verið lengi í smíðum og tekið miklum breytingum frá fyrstu drögum. Að baki henni liggur mótunarferli sem er svolítið eins og að móta leirklump í höndum sér aftur og aftur þangað hann tekur á sig endanlega mynd sem maður er þokkalega sáttur við. Þessu ferli fylgja oft áhyggjur og átök. Því má til dæmis lýsa ágætlega með orðum Guðrúnar Kristinsdóttur um óvissu, óreiðu, tímaskort, og reikular tilraunir til að hefjast handa (Guðrún Kristinsdóttir 2002). Við það mætti bæta togstreitu milli ólíkra hugmynda sem liggja að baki ýmsum grundvallarákvörðunum sem taka þarf.

Um þetta óreiðustig á mótunarferli rannsóknaráætlana er það að segja að hjá flestum er það eðlilegur þáttur í mótun verksins sem mikilvægt er að gefa tíma án þess að vera á nálum út af meintu getuleysi á rannsóknarsviðinu. Hér skipta hins vegar sköpum eiginleikar á borð við bjartsýni, von og þrautseigju. Líklega lýsir fátt þeim eiginleikum betur en arabíski málshátturinn sem Guðrún vitnar til í áðurnefndri grein sinni: Sá sem vill finnur leið – sá sem ekki vill finnur afsökun.

Í framhaldi af þessum hugleiðingum ætla ég að nefna tvo þætti sem eru dæmigerðir fyrir nokkrar af þeim grundvallarákvörðunum sem fólk glímir við þegar það gerir rannsóknaráætlun. Þessir þættir eru: Spurningar um að hve miklu leyti hægt er ákveða fræðin fyrirfram og valið um snið innan eigindlegu hefðarinnar.

Að ákveða fræðin fyrirfram

Hryggjarstykkið í flestum rannsóknaráætlunum er fræðilega undirbyggingin. Hin hefðbundna aðferð segir að ekki megi sleppa nemum af stað í rannsóknarvinnu fyrr en þeir hafa skrifað svo og svo ítarlegan fræðilegan inngang. En hvernig á að velja þessi fræði fyrirfram og kenningagrunninn sem maður byggir undir verk sitt? Að hve miklu leyti er raunhæft að ætla sér að gera þetta fyrirfram? Við þessu er vafalaust ekkert einhlítt svar en hér verðum við að hafa í huga að eigindlegar rannsóknir eru því marki brenndar að þróast í rannsóknarferlinu eftir því sem hugtökin skýrast og mynd okkar af rannsóknarefninu kemur smátt og smátt í ljós. Við vitum ekki alltaf fyrirfram hvert eigindleg rannsókn leiðir okkur. Þar af leiðir óvissa um hvaða fræði og kenningar við þurfum að hafa handbær þegar upp er staðið til að púkka undir niðurstöður okkar og kallast á við umræðurnar um þær. Við getum þess vegna staðið frammi fyrir því í lokin að nota ekki nema hluta af fræðikaflanum sem við lögðum svo mikla vinnu í að skrifa fyrirfram eða þurfa að umbylta honum meira og minna. Ég er þess vegna farinn að hallast nokkuð eindregið á sveif með Silverman (2000) og öðrum sem halda því fram að fræðikaflann eigi maður að skrifa síðast.

Hvers konar eigindleg rannsókn?

Að því gefnu að það hafi nú verið rétt ákvörðun að velja eigindlega fremur en megindlega aðferð, þá er næsta álitamál hvers konar snið innan eigindlegu hefðarinnar er skynsamlegt að nota. Hér verður hver og einn að vera reiðubúinn til að svara áleitinni samviskuspurningu: Valdi ég rannsóknaraðferð af því að hún hentaði viðfangsefninu eða valdi ég hana af því að hún hentaði mér? Dettum við kannski í gildruna sem Guðrún Kristinsdóttir (2002) kallar að verða „ástfanginn af aðferð“ sem leiðir til þess að við einblínum á eina aðferð og gefum öðrum einfaldlega ekki möguleika. Í mínu tilviki varð fyrir valinu tilviksrannsókn, sem reyndar felur í sér ýmsar mismunandi leiðir við gagnaöflun. Hér gefst ekki tóm til að rökstyðja þá ákvörðun nánar en kannski réðu þessi orð Hitchcock og Hughes einhverju:

Við höldum því fram að eigindleg eða etnógrafísk tilviksrannsókn sé það rannsóknarsnið sem hefur mest að bjóða kennurum vegna þess að megineinkenni aðferðarinnar er að endurskapa (reproduce) félagslegar athafnir í sínu eðlilega umhverfi, þ.e. í kennslustofum og á vinnustöðum, og að rannsóknarsniðið sé hægt að nota hvort heldur sem er til að prófa kenningar sem þegar eru til, setja fram nýjar kenningar eða bæta og þróa ríkjandi starfshætti (Hitchcock og Hughes 1995, bls. 323).

Við vitum að það er hægt að fara ólíkar leiðir að því að afla þeirra gagna sem við teljum okkur þurfa. Möguleikarnir eru margir en tímans vegna ætla ég að kristalla þessa togstreitu í valinu milli þess að horfa og hlusta, annars vegar, og spyrja hins vegar. Er til dæmis alltaf besta leiðin að ganga að fólki og spyrja það út úr. Er kannski staða etnógrafíska rannsakandans, sem fyrst og fremst horfir og hlustar, vænlegri? Þessu má lýsa þessu á einkar myndrænan hátt með orðum Elspeth Huxley (1982).

Besta leiðin til að komast að einhverju er ekki alltaf að spyrja spurninga. Að spyrja spurningar er eins og að hleypa af byssu – skotið ríður af og allir hlaupa í felur. En ef þú situr kyrr og læst ekki vera að skoða neitt koma allar litlu staðreyndirnar og hópast í kringum fæturna á þér, aðstæðurnar koma rambandi út úr skógarþykkninu og ætlanirnar skríða út úr skuggunum og leggjast upp á stein til að sóla sig. Sértu nógu þolinmóður muntu sjá og skilja miklum mun meira en byssumaðurinn gerir (Fitzpatrick, Sanders og Worthen. 2004, bls. 139–140 ).

Samræðan

Guðrún: Upphafið; fræðilegi kaflinn er leitarleiðangur

Menn hafa misjafna afstöðu til þess hve meitluð hin fræðilega undirstaða þarf að vera frá upphafi. Margir álíta þó að lausar forætlanir dugi skammt. Hve mikla vinnu á að leggja í þetta? Hér þarf hver að þekkja sjálfan sig. Grúskarinn er í ákveðinni hættu, hann finnur svo margt áhugavert, á erfitt með að greina kjarnann frá hisminu. Ofurhuginn gæti fallið fyrir „grand theory“, sem kemur inn á svo mörg og ólík fræðasvið að það verður honum ofviða. Þessi umræða tengist líklega einnig þeirri nálgun sem valin er. Hún tengist t. d. þeirri líflegu umræðu sem fram hefur farið um greiningu, ritun og framsetningu niðurstaðna. Verður byggt á smættunaraðferð Miles og Huberman? Eða verður stuðst við þéttriðinn samanburð gagna og kenninga sem kenndur er við grundaða kenningu (Strauss og Corbin 1994; Punch 1998)? Eða er um ræða einhverja hinna ýmsu frásagnarnálgana, t.d. leiðum Van Maanen, sem fjallar um raunsæisstíl, opinskáan stíl (confessional) og impressjónískan stíl (Hitchcock og Hughes 1995)? Hver leiðin sem farin er, má líta á kröfuna um nákvæmar áætlanir í upphafi sem hækju fyrir óöruggan byrjandann sem þarf að skýra hugsun sína og fyrirætlanir.

Kenningar og athugun gagna þurfa að haldast í hendur. Eigindlegar rannsóknir markast af því sem þú, Rúnar, lýsir réttilega, að rannsóknarferlið er sveigjanlegt og að nokkru ófyrirsjánlegt til hvaða kenninga verður gripið til að komast að haldbærum niðurstöðum. Þetta á reyndar ekki einungis við um kenningar heldur einnig um gögnin en látum það liggja milli hluta.

Kenningin ein og sér er eins og bátur án veiðarfæra. Og þetta gildir einnig á hinn veginn; án kenninga verður rannsóknarviðfangið einungis tilefni til vangaveltna heima í sófa. Óvæntar athuganir og uppgötvanir í gögnunum kalla á fræðin, hvar sem er í ferlinu. Fræðilega ígrundun ber því hvorki að skrifa eingöngu fyrst eða síðast heldur þarf tengja hana við einstakar túlkanir á gögnunum, takast þar á við andstæður og undantekningar og leita loks að samræmi, samruna eða heild. Trausta fræðilega sýn verður þó maður að hafa í farteskinu frá upphafi; án þess vafrar maður stefnulaust um.

Þar sem þú, Rúnar, ræðir þetta út frá etnografíu vík ég að henni sérstaklega. Eins og ýmsir etnografískir rannsakendur hafa bent á er mælt með því að menn ætli sér nægan tíma á vettvangi. Reglan um að færa sig smám saman frá ræðandi til spyrjandi hegðunar er hér gullvæg (Wadel 1991; Bogdan og Biklen 1992; Hitchcock og Hughes 1995). Hinn etnografíski rannsakandi hallar sér til hlés í fyrstu, hann setur sig í stöðu lærlingsins líkt og starfsmaður sem stígur sín fyrstu spor á nýjum vinnustað. Smám saman vakna spurningar og samhliða myndast það traust sem frekari kynni af vettvangi færa honum ef vel tekst til (Bogdan og Biklen 1992).

Samkvæmt ofansögðu er líklega ekki rétt að taka Silverman bókstaflega þegar hann segir að skrifa eigi fræðilega kaflann síðast! Önnur skrif hans um beitingu kenninga benda enda til þess að þær skuli vera með í farteskinu frá upphafi. Hann er líklega fremur að ydda rök sín um sveigjanlegt rannsóknarferli með þessari staðhæfingu. Þar sem við ræðum þetta frá sjónarhóli byrjandans ber að líta á upphaflega kenningakaflann í rannsóknaráætluninni sem leit að fræðilegri grind til að byggja á. Eigindlegar túlkanir í rannsóknum hljóta ávallt að vera byggðar á kenningum; þetta er í raun sjálfsagt en hnykkja má á því. Greining á gögnum hjá byrjandanum miðar oftast að því að þróa hugtök og þau eiga sér að sjálfsögðu kenningalegan grunn, án þess verða þau lauslegar vangaveltur. En athuga ber að þessi þróun er gagnvirk; hugtökin spretta úr samþjöppun túlkana, með nýju hugtaki kemur fram merking sem nota má við frekari rannsóknir.

Rúnar: Fræðileg yfirsýn er nauðsynleg í upphafi

Hér verðum við auðvitað að hafa hugfast að þótt ég aðhyllist þá hugmynd að ekki sé raunhæft að sjá fyrir í upphafi allt sem á að standa í fræðilegum kafla og skrifa hann helst áður en hafist er handa við rannsókn, þýðir það ekki að sá sem ætlar að gera rannsókn verði ekki að lesa fyrirfram til að finna sér fótfestu í fræðunum. Slíkt er algerlega nauðsynlegt. Sá sem ætlar að gera rannsókn verður að kynna sér líkön, hugtök, kenningar og aðferðir (sbr. Silverman 2000) sem tilheyra rannsóknarsviðinu. Þannig öðlast hann nauðsynlega þekkingu og yfirsýn til að geta talað og hugsað um sviðið og spurt réttu spurninganna. Þessi lestur er hins vegar ekki alltaf nægilega markviss fyrr en gögnin fara að tala til rannsakandans. Ef við erum trú þeirri hugmynd að eigindleg rannsókn þróist á rannsóknartímanum og tilgangur hennar sé að öðlast dýpri og fjölþættari skilning á viðfangsefninu, verðum við undir lokin að endurskoða þá fræðilegu undirstöðu sem við þurfum til að byggja undir niðurstöður okkar og túlkun okkar á þeim. Þessa undirstöðu þurfum við reyndar að vera viðbúin að endurskoða og endurmeta hvenær sem á rannsóknarferlinu. Ég sé allt of oft í ritgerðum frá nemendum mínum heilu kaflana í fræðilega hlutanum sem hvergi er síðan vísað til í umræðum eða túlkun og velti þá fyrir mér hvaða erindi þeir eigi inn í verkið. Á svipaðan hátt sé ég nemendur reyna að túlka niðurstöður án þess að hafa á miklu að byggja vegna þess að undirstöðuna vantar inn í fræðilega hlutann. Í flestum tilvikum má rekja þetta misgengi til þess að nemendur voru of hlýðnir við kröfuna um að klára að skrifa fræðilega grunninn fyrst og fara svo að rannsaka á vettvangi en átta sig ekki á nauðsyn þess að endurmeta stöðu sína gagnvart kenningunum í ljósi þess hvert rannsóknin leiddi. Og svo er auðvitað þessi spurning: Hvenær er komið nóg af lestri? Hér má vissulega taka undir varnaðarorð Guðrúnar Kristinsdóttur (2002) til grúskaranna sem hættir til týna sér í heimildaleit og eyða í hana dýrmætum tíma sem betur væri varið í glímunni við rannsóknargögnin.

Guðrún: Að spyrja

Áður en ég kem að seinna atriðinu sem Rúnar ræddi um, vil ég skjóta inn að erfitt er að meta hvort leit nemendanna og grúsk hefur gildi fyrir þá. Ef til vill má líta á leitina sem nauðsynlega áhyggjuvinnu! Eins og þeir sem stundað hafa félagslega og sálfræðilega aðstoð vita er slík vinna orkufrek og allt er best í hófi, er það ekki?

Þessa umræðu mætti raunar dýpka, því að hún snýst að einhverju leyti um hvar rannsakandinn staðsetur sig gagnvart rófi ólíkra nálgana innan eigindlegrar rannsóknarhefða og hvaða skilning hann aðhyllist á Verstehen hugtakinu; lítur hann svo á að hér sé fyrst og fremst um að ræða tækni (aðferð) eða þekkingarfræðilega afstöðu til þess hvernig þekking verður til (Schwandt 1994).

Snúum nú að hugmynd Huxleys sem er athygliverð í ljósi þess hve eigindleg viðtöl eru mikið notuð. Að spyrja eða ekki spyrja er þó ekki spurningin! Maður hlýtur að spyrja þegar maður rannsakar, spurningin snýst um hvort, hvernig og hvenær maður beitir beinu viðtalsformi.

Í tilvitnun Huxley má sjá fyrir sér mann sem er nánast orðinn samofinn rannsóknarvettvangnum. Hann hefur náð því að vinna án þess að strita og það skynjar umhverfið. Þetta minnir einnig á að hvað gerist handan rökhugsunar. Ernberg (1990), sem ræðir um sköpunarkraft, minnir á áhrif dulvitundarinnar. Hann bendir á það hvernig efniviðurinn þrengir sér inn í dulvitundina og beinir sér þar mest að óleystum efnum, að tilfinningalegri og vitsmunalegri togstreitu sem af þeim leiða. Glíman við hið óleysta heldur áfram í dulvitundinni handan rökhugsunar. Í anda Freuds bendir Ernberg á að hin andlegu átök í rannsóknarstarfinu séu að hluta til órökvís og ómeðvituð. Sú gerjun sem fer fram í dýpstu sálarkimum virðist þannig langt fjarri skipulegri greiningu sumra nálgana í eigindlegum rannsóknum en getur verið mikilvægur liður í nýsköpuninni (Ernberg 1990). Reyndar aðhyllast sumir aðferðir sem standa nærri slíkri innlifun (Flick 1998).

Þetta minnir okkur á hugtakið Flow eða flæði sem Csikszentmihalyi hefur lýst þannig:

Flow er breytt hugarástand sem skapast við að takast á við spennu og erfiði sem felst í áskorunum ... það einkennist af fullkominni einbeitingu samhliða því að finna til sælutilfinningar (eufori) og að tímaskynið leysist upp (vitnað eftir Klein 1990, bls 8).

Flæði er spennandi hugtak sem virðist skipta miklu við nýsköpun þekkingar. Tengist nýsköpun og einbeiting flæði, þessu svolítið einkennilega hugarástandi sem allir kannast er sökkva sér á bólakaf í viðfangsefni? Tengist flæði því hvernig maðurinn verður einn með viðfangsefninu á annan hátt en fyrr og hlutir fara að gerast? Þetta virðist líkt og við skriftirnar þegar lyklaborð tölvunnar fer nánast að „spila“ af sjálfu sér.

Flæði virðist samkvæmt skilgreiningu Csikszentmihalyi vera torræður háttur við að tengja saman ýmis konar efni, kenningar, túlkanir og skyndilegar hugrenningar. Í samræmi við það virðist nauðsynlegt að fræðimaðurinn, óháð rannsóknarreynslu hans, hafi nægjanlegt svigrúm til að þetta ástand komist á. Til þess að það geti orðið þarf að gæta jafnvægis milli umræddra krafna um ögun og óreiðu í áætlanagerð. Huxley minnir okkur á nauðsyn yfirvegunar eða íhygli (contemplation) með „árás“ sinni á eitt mikilvægasta tækið í eígindlegum rannsóknum, spurninguna.

Tilvísanir

Bogdan, R. C. og S. K. Biklen (1992). Qualitative Research for Education. Boston, London, Toronto: Allyn and Bacon.

Ernberg, I. (1990). Språket et fängelse. Í  Klein, G. Kreativitet och flow. Värnamo: Bromberg Bokförlag, 123–132

Fitzpatrick J. L., Sanders J. R., o. fl. (2004). Program evaluation: Alternative approaches and practical guidelines (3. útg). Boston: Pearson Education.

Flick, U. (1998). An Introduction to Qualitative Research. London, Thousand Oaks, New York: Sage.

Guðrún Kristinsdóttir (2002). Gerð rannsóknaráætlana - skipulag eða óreiða: Andstæður og átök í návígi við sköpunarkraftinn. Netla - veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 10. september 2002. Sjá á þessari slóð: http://netla.khi.is/greinar/2002/013/index.htm

Hitchcock, H. og D. Hughes (1995). Research and the Teacher. A Qualitative Introduction to School-based Research. London: Routledge.

Klein, G., Ed ( 1990). Om kreativitet och flow. Värnamo: Brombergs.

Kuhn, T. (1996.). The Structure of Scientific Revolutions. Chicago: University of Chicago Press, 3. útgáfa.

Punch, K. F. (1998). Introduction to Social Research.Quantitative og Qualitative Approaches. London: Sage.

Schwandt, T. (1994). Constructivist, interpretive approaches to human inquiry. Í Denzin, N.K. og Y. Lincoln, Y., S. Handbook of Qualitative Research. Thousand Oaks: Sage, 118–137.

Silverman, D. (2000). Doing Qualitative Research. A Practical Handbook. London: Sage.

Silverman, D. (2005). Doing Qualitative Research. A Practical Handbook. London: Sage.

Strauss, A. og J. Corbin (1994, 15). Grounded theory methodology. An Overview. Í Handbook of Qualitative Research. N. Denzin, K og Y. Lincoln, S. N. Denzin, K og Y. Lincoln, S., Thousand Oaks, London, New Dehli: Sage, 273–283.

Schwandt, T. (1994). Constructivist, interpretive approaches to human inquiry. Handbook of Qualitative Research. Í N. Denzin, K og Y. Lincoln, S., Thousand Oaks, London, New Dehli: Sage, 118–137.

Wadel, C. (1991). Feltarbeid i egen kultur. Flekkefjord: Seek.