Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 14. febrúar 2005

Helgi Skúli Kjartansson

Er hulduþjóðin horfin?

eða

Hvaða tungumál
tala íslenskir unglingar
heima hjá sér?

Í greininni er vakin athygli á óvæntri sérstöðu Íslands sem ekki snýst um frammistöðu í námi en kom fram í niðurstöðum PISA-rannsóknar frá árinu 2000 og hlaut staðfestingu í PISA-rannsókninni árið 2003. Þeir eru fleiri unglingarnir sem segjast tala annað mál heima fyrir en talað er í skólanum en þeir eru unglingarnir sem segjast eiga foreldra fædda erlendis. Í tveimur löndum Austur-Evrópu má rekja hliðstæðar niðurstöður til þjóðernisminnihluta en á Íslandi verður að leita annarra skýringa. Höfundur er prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Ég hafði, eins og fleiri, beðið spenntur eftir niðurstöðum nýju PISA-rannsóknarinnar. Ekki þó svo mjög eftir tölum um frammistöðu unglinganna á prófunum sjálfum, heldur langaði mig að sjá hvort nýja rannsóknin staðfesti mjög óvænta sérstöðu Íslands í fyrri könnuninni hvað varðar nemendur með erlendan bakgrunn.

PISA-rannsóknirnar eru nefnilega ekki bara merkilegar sem frábærlega vönduð mæling á getu eða frammistöðu unglinga á mikilvægum sviðum, heldur eru upplýsingarnar, sem safnað er í leiðinni um ýmsa félagslega þætti, bráðmerkilegar í sjálfu sér, einkum fyrir það hve víðtækan samanburð þær leyfa milli landa. Ég á þá við atriði eins og það hve lítið er um það að íslensku unglingarnir séu börn einstæðra mæðra og annað af þeim toga.

Eitt slíkt atriði, úr PISA-rannsókninni 2000, var dregið fram í skýrslu sem kom ekki út fyrr en á liðnu sumri. Hún var þá birt á vef menntamálaráðuneytisins, svo að það hljóta fleiri en ég að hafa opnað hana og leitað að nafni Íslands til að sjá hvað um okkur væri sagt.

    

Skýrslan heitir Integrating Immigrant Children into Schools in Europe, samin á vegum Eurydice-áætlunar Evrópusambandsins, og nýtir m.a. gögn úr PISA-rannsókninni, bæði um uppruna nemenda (nánar til tekið fæðingarland þeirra sjálfra og foreldra þeirra) og heimilistungumál.

Indigenous linguistic community?!

Þarna kemur Ísland við sögu á nokkuð óvæntan hátt (bls. 31):

In three countries (Hungary, Iceland and Bulgaria), the proportion of pupils whose first language is not the one used at school is greater than the proportion of those whose parents were born abroad. This apparently atypical situation may be attributed to the size of indigenous linguistic communities whose native language is not an official national language.

Ísland er sem sagt eitt þeirra þriggja landa sem skera sig úr að því leyti, að í PISA-rannsókninni voru þeir 15 ára unglingar fleiri sem sögðust ekki tala mál landsins eða skólans heima hjá sér en þeir sem sögðu foreldra sína fædda erlendis.

Höfundar skýrslunnar draga af þessu þá ályktun, sem mér finnst líka liggja beint við um Ungverjaland og Búlgaríu, að þarna séu þjóðernisminnihlutar sem enn tali sín eigin móðurmál þótt þeir séu svo gamlir í landinu að hvorki unglingarnir né foreldrar þeirra séu fæddir erlendis. Þarna munar væntanlega einna mest um tyrkneskt þjóðarbrot í Búlgaríu (9% landsmanna) en sígauna og Þjóðverja í Ungverjalandi (4% og 3% – þó er sagt að ungverska sé mál 98% landsmanna, og liggur misræmið væntanlega í því að tvítyngdir séu þar taldir ungverskumælandi).

En á Íslandi? Hér vitum við að engin þvílík skýring á við; ekki er hér neinn gamall þjóðernisminnihluti sem sendir börn sín í íslenska skóla en talar útlensku heima hjá sér. Hvernig stendur þá eiginlega á þessum tölum?

Nú er kannski óþarfi að kippa sér mikið upp við þetta. Í stóru gagnasafni liggur efni í fjölmargar ályktanir, flestar réttar og traustar, en líka einhverjar hæpnar eða rangar. Þarna gæti t.d. legið að baki einhvers konar skekkja í gögnum eða óhapp í úrvinnslu. Þess vegna beið ég spenntur eftir nýju könnuninni, til þess að sjá hvort þessi útlenskumælandi hulduþjóð kæmi enn fram í íslensku gögnunum.

Heimilistunga og fæðingarland foreldra

Og viti menn: það gerir hún, þótt hennar sjái ekki alveg eins greinilega stað eins og í fyrri rannsókninni.

Í eftirfarandi töflu eru það fyrsti og síðasti dálkur sem sýna þetta, fyrir Ísland bæði samkvæmt fyrri og síðari PISA-rannsókn (feitletrað), en til samanburðar fyrir hin norrænu ríkin eftir síðari rannsókninni.
 

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Fædd erlendis Báðir foreldrar fæddir erlendis
Ísland 2000 1,89 5,82 0,76
Ísland 1,61 5,89 0,97
Noregur 4,37 5,43 5,51
Danmörk 3,77 5,36 6,29
Svíþjóð 6,46 7,99 11,42
Finnland 1,77 3,17 1,86

 

Sérstaða Íslands fer ekki á milli mála. Þótt vitund hafi fækkað þeim unglingum sem segjast tala annað mál en íslensku heima hjá sér (úr 1,9% í 1,6), þá er það enn verulega umfram fjölda þeirra sem eiga báða foreldra sína fædda erlendis (1,0%). Í hinum löndunum er munurinn á annan veg, hvort sem þar er mikið um innflytjendur (Noregur, Danmörk og sérstaklega Svíþjóð) eða lítið (Finnland).

Samt vitum við enn sem fyrr að á Íslandi er enginn gamall þjóðernisminnihluti þar sem innflytjendur af þriðju kynslóð (eða enn síðari) tala erlent mál heima. Hvað er hér eiginlega á ferðinni?

Úrtakið – allir með?

Til þess að skyggnast nú um allar gáttir, þá sakar ekki að rifja upp hverjir eru þátttakendur í PISA-rannsóknunum. (Sjá viðauka A3 við PISA-skýrsluna, bls. 320 o.áfr.)

Rannsóknin beinist að heilum fæðingarárgangi, sem var 15 ára um áramót fyrir rannsóknina, tekið úrtak af skólum hvers lands og af nemendum innan skólanna, en vegna þess hve úrtakið á að vera stórt þurfti Ísland að taka með allan árganginn. Meiningin var sú að leita uppi nemendur á réttum aldri hvar sem þeir voru í skólakerfinu, frá 7. bekk og upp úr. En vegna þess hve aldursdreifing er lítil í íslenska grunnskólanum var rannsóknin aðeins gerð í 10. bekk.

Hvert land má fyrirfram útiloka frá úrtakinu vissa skóla, bæði vegna erfiðra samgangna og vegna eðlis skólanna. Með þetta var farið á nokkuð ólíkan hátt. Víðast hvar voru 0,5%–2% árgangsins í útilokuðum skólum, Ísland í neðri kantinum með 0,6% (26 nemendur). Sérstakir skólar, þar sem kennt er á erlendum málum (alþjóðlegir skólar eða skólar á vegum erlendra ríkja), eru væntanlega útilokaðir í flestum löndum, því að í rannsókninni er gengið út frá því að kennt sé á þjóðtungu. Á Íslandi gæti þetta átt við um um örfáa nemendur í skóla bandaríska sendiráðsins.

Í úrtaksskólunum má síðan fyrirfram útiloka nemendur, sem talið er að geti ekki leyst verkefnin á marktækan hátt, m.a. vegna fötlunar. Þessa heimild nota löndin mjög mismikið. Flest útiloka þó á þennan hátt milli 1% og 2% nemenda, Ísland í hærri kantinum með 2,0% (79 nemendur). Undir þetta ákvæði má m.a. fella nemendur sem skilja illa málið sem prófað er á, þó því aðeins að þeir hafi í minna en eitt ár notið kennslu í málinu. Þannig falla út 22 unglingar nýfluttir til Íslands, sem er ekki óeðlilegt miðað við önnur lönd. Annars virðast löndin gera misstrangar kröfur til kunnáttu í málinu; Danir útiloka t.d. af þessum sökum nærri þrefalt hærra hlutfall en Svíar, og er þó minna um nýbúa í Danmörku.

Síðan eru það 85% af íslenska úrtakinu sem heimtust í könnuninni, og er það fremur lágt, a.m.k. miðað við Norðurlönd. Þau 15% sem á vantar, vegna veikinda eða annarra fjarvista, eru sjálfsagt fremur úr þeirra hópi sem af einhverjum ástæðum forðast skólann, og skekkir það úrtakið eitthvað, en það er skekkja sem ætti að gæta meira eða minna í öðrum löndum líka.

Hvernig sem þessu er velt, þá er ómögulegt að sjá að neins konar sér-íslenskt brottfall hefði átt að leiða til vantalningar á nemendum með tvo foreldra fædda erlendis, fremur en nemendum sem tala erlent mál heima hjá sér.

Unglingar fæddir erlendis
 

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Fædd erlendis Báðir foreldrar fæddir erlendis
Ísland 2000 1,89 5,82 0,76
Ísland 1,61 5,89 0,97
Noregur 4,37 5,43 5,51
Danmörk 3,77 5,36 6,29
Svíþjóð 6,46 7,99 11,42
Finnland 1,77 3,17 1,86

 

Hér kemur taflan, sú sama og áður, en athygli beint að fæðingarlandi unglinganna sjálfra. Af íslensku nemendunum, þeim sem til náðist í rannsókninni, eru 6% fæddir erlendis, mun fleiri en í Finnlandi og ívið fleiri en í Danmörku og Noregi, þó að fyrir Svíþjóð sé hlutfallið enn hærra.

En á Íslandi er þetta hlutfall allt annars eðlis en í hinum löndunum, vegna þess hve mikið er um að íslenskir foreldrar eignist börn erlendis þar sem þau dvelja um tíma við nám eða störf. Af íslensku unglingunum, sem sjálfir eru fæddir erlendis, segja 63% að báðir foreldrar sínir séu fæddir á Íslandi, og eru það 3,7% af öllum rannsóknarhópnum. Í hinum löndunum er það kringum 1% rannsóknarhópsins (fæst í Finnlandi, flest í Svíþjóð) sem eiga tvo innlenda foreldra og eru sjálf fædd erlendis. Og af öllum erlendis fæddum eru þau minnihluti, frá 31% í Finnlandi niður í 16% í Svíþjóð.

Þannig segir fæðingarstaður Íslendings tiltölulega lítið um þjóðerni hans eða uppruna. Það er meira að marka þegar fæðingarland foreldranna bætist við. Það hlýtur að vera býsna sjaldgæf tilviljun að tveir Íslendingar, báðir fæddir erlendis en aldir upp á Íslandi, eignist svo barn saman og að það gerist líka erlendis.

Fæðingarlönd foreldra
 

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Fædd erlendis Báðir foreldrar fæddir erlendis
Ísland 2000 1,89 5,82 0,76
Ísland 1,61 5,89 0,97
Noregur 4,37 5,43 5,51
Danmörk 3,77 5,36 6,29
Svíþjóð 6,46 7,99 11,42
Finnland 1,77 3,17 1,86

 

Hver þátttakandi í PISA-rannsókn á að merkja við, um (a) sjálfan sig, (b) móður sína og (c) föður sinn hvort hann sé fæddur í rannsóknarlandinu (Íslandi í íslensku rannsókninni) eða öðru landi. Með „móður“ og „föður“ virðist ekki endilega átt við kynforeldra, heldur aðra uppalendur ef því er að skipta. (Sama gildir þar sem spurt er um störf og menntun foreldra.) Ættleiðslubörn ættu a.m.k. ekki að gefa upp erlent fæðingarland foreldra. Ekki er þó auðséð af tiltækum gögnum hvaða fyrirmæli þátttakendur fengu í þessu efni, og er hugsanlegt að það hafi valdið misskilningi. Auk annars er það eitthvað misjafnt milli tungumála hversu einskorðuð orðin um „föður“ og „móður“ eru við kynforeldra.

Virkilega „útlend“ börn er helst að þekkja á því að foreldrarnir séu bæði fædd erlendis. Það er afar sjaldgæft um unglinga í íslenskum skólum, jafnvel sjaldgæfara en í Finnlandi, og gjörólíkt því sem gerist í innflytjendalöndum eins og Noregi, Danmörku og alveg sérstaklega Svíþjóð.

Þegar upplýsingar vantar
 

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Báðir foreldrar fæddir erlendis Eða í
mesta lagi
Ísland 2000 1,89 0,76  
Ísland 1,61 0,97 2,73
Noregur 4,37 5,51 7,02
Danmörk 3,77 6,29 7,96
Svíþjóð 6,46 11,42 12,63
Finnland 1,77 1,86 3,21

 

Þessi tafla er að stofni til sú sama og áður. Í miðdálki sömu tölur og áður um foreldra fædda erlendis. Þar eru reyndar taldir þeir unglingar einir sem gáfu skýr svör um fæðingarland beggja foreldra sinna. En það gerðu ekki allir. Ef í staðinn eru taldir allir þeir sem ekki gáfu upp heimalandið sem fæðingarland annaðhvort föður síns eða móður (sem sagt gert ráð fyrir að foreldrarnir séu fæddir erlendis ef ekki kemur annað fram), þá hækka tölurnar upp í það sem hér er sýnt í síðasta dálki. Röð landanna breytist ekki, en íslenska talan, sem er lág fyrir, hækkar hlutfallslega mest. Og vel upp fyrir tölu þeirra sem, skv. 1. dálki, tala erlent mál heima. Þannig virðist hugsanlegt að ónógar upplýsingar um fæðingarstað foreldra valdi miklu eða mestu um þá annarlegu niðurstöðu sem ég er hér að rýna í.

Gætum þess að á bak við hlutfallið 0,97% eru þó ekki nema 33 íslenskir unglingar sem gáfu upp erlent fæðingarland beggja foreldra sinna, en 26 í rannsókninni 2000. Svona lágar tölur eru viðkvæmar fyrir hvers konar ónákvæmni.

Hvað t.d. um þau 57 börn, sem gáfu ekki gild svör um fæðingarland a.m.k. annars af foreldrum sínum? Það er að vísu fjarri lagi að telja þau öll nýbúabörn, eins og gert er í síðasta dálki töflunnar. Af þeim voru aðeins tvö sem sögðust fædd erlendis en 26 á Íslandi; og bara fjögur sem sögðust tala erlent mál heima en 29 gáfu upp íslensku. Það hlutfall, 15%, bendir reyndar til þess að það séu hlutfallslega fleiri nýbúabörn en innfædd sem ekki tókst að gefa upplýsingar um fæðingarstað foreldra sinna. Og svo vekur athygli að 24 unglingar náðu ekki að gefa gildar upplýsingar um neitt af þessu, ekki heldur eigið fæðingarland eða heimilistungumál.

Á ekki við?

Í úrvinnslu rannsóknarinnar er gerður greinarmunur á því hvort nemandi gefur „ekkert svar“, „ógilt svar“ eða hvort spurningin „á ekki við“ (missing – invalid answer – not applicable eins og það heitir í skýrslunum). Langflest svörin, sem eru gagnslaus um allar fjórar spurningarnar, eru flokkuð sem „á ekki við“ – 21 af þeim íslensku, svipað hlutfall í Danmörku og Noregi; í Svíþjóð er meira um „ekkert svar“, en hjá Finnum er nauðalítið um að svör vanti.

Nú mætti kannski ímynda sér að fyrir ákveðna nemendur, t.d. ættleiðingarbörn, teljist upplýsingar um fæðingarland „ekki eiga við“, og að fyrir aðra teljist „ekki eiga við“ að spyrja hvaða tungumál þau tali mest á heimilum sínum (ef þau tala t.d. táknmál eða eiga heima á stofnun frekar en heimili). En þar sem það eru ævinlega sömu nemendurnir sem fá „á ekki við“ fyrir allar þessar upplýsingar (það gildir um hin löndin líka), þá hlýtur skýringin að liggja með einhverjum hætti í framkvæmd prófsins.

Hvernig sem því er varið, þá myndi talan 33 hækka eitthvað ef tæmandi upplýsingar lægju fyrir um fæðingarlönd allra foreldra. En ef sú hækkun væri veruleg, þá væri það vegna nýbúabarna sem engar upplýsingar gáfu, ekki heldur um heimilistungumál, og tala sennilega ekki íslensku heima fyrir. Þannig getur ónákvæmni af þessu tagi ómögulega verið meginskýring á því sérkennilega hlutfalli sem Ísland deilir með Búlgaríu og Ungverjalandi.

Tala útlensku heima
 

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Þar af fædd
innanlands
Þar af
foreldrar
fæddir innanlands
Ísland 1,61 0,72 0,47
Noregur 4,37 1,55 0,38
Danmörk 3,77 2,15 0,74
Svíþjóð 6,46 2,35 0,09
Finnland 1,77 0,12 0,04

 

Hér sýnir fyrsti dálkur sömu tölur og áður, þ.e. hve stór hluti unglinganna segist tala aðallega „annað mál“ heima hjá sér. Þ.e.a.s. ekki málið sem kennt er á í skólanum, og ekki heldur annað opinbert mál í landinu, eða aðra mállýsku. Þarna eru því ekki meðtalin börn sem ganga í sænskan eða norskan skóla og tala samísku heima fyrir, eða finnskir nemendur sem nota sænsku heima og finnsku í skólanum eða öfugt. Danir nota hins vegar ekki sérstaka flokkun fyrir þýskuna þrátt fyrir þýska þjóðarbrotið á Suður-Jótlandi.

Í næsta dálki kemur fram að af unglingunum með erlent heimilismál er röskur þriðjungur fæddur í heimalandinu. Mjög fáir í Finnlandi, þar sem til skamms tíma var nauðalítið um innflytjendur, en hátt hlutfall í Danmörku. Ísland sker sig ekki úr.

Ísland sker sig ekki úr heldur í síðasta dálki, sem sýnir hve mikið eru um að unglingar segist tala erlent mál heima þó að báðir foreldrarnir séu fæddir í landinu – og unglingurinn sjálfur þá nærri undantekningarlaust líka.

Löndin falla þarna í tvo mjög ólíka flokka. Annars vegar Finnland og Svíþjóð með hverfandi lágar tölur, Finnland af því hvað þar er lítið um innflytjendur af þriðju (eða síðari fjórðu) kynslóð, Svíþjóð þrátt fyrir það hve mikið er af þeim í landinu. Það virðist vera nærri algilt að þriðja kynslóð innflytjenda til Svíþjóðar sé farin að tala sænsku heima hjá sér á unglingsaldri. Allt annað virðist eiga við um Noreg og Danmörku, auk þess sem suður-jóskir Þjóðverjar hækka dönsku töluna eitthvað.

Misfljót að taka upp þjóðtunguna?

Ef þetta er rétt ályktað, þá ætti sami munur að koma fram hjá annarri kynslóð innflytjenda, þ.e. PISA-unglingunum sem sjálf eru fædd í viðkomandi landi en foreldrar þeirra erlendis:
 

Þátttakendur,
PISA 2003
Fædd
innanlands
en foreldrar
erlendis
Þar af tala
innlent mál
heima, %
Þar af tala
erlent mál
heima, %
Vantar
upplýsingar,
%
Ísland 5 (40) (60) (0)
Noregur 95 39 42 19
Danmörk 136 53 32 15
Svíþjóð 239 50 36 15
Finnland 3 (67) (33) (0)

 

Hér eru íslensku og finnsku þátttakendurnir of fáir til að þær tölur sé nokkuð að marka. Milli hinna landanna, sem hafa einhvern umtalsverðan fjölda innflytjenda af annarri kynslóð, kemur ekki fram neinn sláandi munur á heimilistungumálum. Í Noregi virðast innflytjendur heldur seinni til að taka upp norskuna, en munurinn milli Svía og Dana, sem var svo áberandi í síðustu töflu, kemur alls ekki fram hér.

Lítum á part af henni aftur:

% þátttakenda
í PISA 2003
Tala erlent mál heima Þar af fædd
innanlands
Þar af
foreldrar
fæddir innanlands
Ísland 1,61 0,72 0,47
Noregur 4,37 1,55 0,38
Danmörk 3,77 2,15 0,74

 

Þessar tölur í síðasta dálki, svo merkilega háar saman borið við Finnland og Svíþjóð, þær eiga ekkert endilega við um innflytjendur af þriðju og fjórðu kynslóð. Við vitum a.m.k. að á Íslandi getur sú skýring ómögulega átt við. Þetta eru börn fædd 1987, foreldrar þeirra fæddir á Íslandi, væntanlega einkum á árunum 1955–1965, og á þeim árum áttu íslenskir nýbúar yfirleitt börn með innfæddum Íslendingum (hvað annað gat dregið fólk til landsins?), ekki hver með öðrum. Og með þeim hætti haldast tungumál ekki í ættum.

Útlend mál á al-íslenskum heimilum?

Þessi 0,47% af íslensku þátttakendunum, það er að vísu ekki stór hópur. Einir 16 krakkar, þar af tveir fæddir erlendis, 14 á Íslandi. En þessir 16, það er þó mun stærri hópur en hinir tveir (af alls fimm) sem segjast tala íslensku heima þó að foreldrarnir séu fæddir erlendis.

Þarna er þá komin skýringin á þessu einkennilega hlutfalli, sem fékk skýrsluhöfundana til að álykta um indigenous linguistic community á Íslandi. Innflytjendabörn, fædd innanlands, eru bara svo hverfandi fá í íslenska PISA-úrtakinu (þó að þau séu sjálfsagt fleiri í yngri aldursflokkum). Í flestum löndum eru þau miklu fleiri, og þó að það sé kannski minnihluti þeirra sem talar þjóðtunguna heima hjá sér, þá er það þó umtalsverður hópur. Ekki tvær hræður eins og á Íslandi.

Eftir standa þessi 16 íslensku ungmenni, börn innfæddra foreldra, sem segjast ekki tala mest íslensku heima hjá sér, heldur „annað mál“. Svörin eru of fá til að gera neitt við þau sem tölfræði. En þau eru of mörg til að ekki sé einhver veruleiki á bak við þau, og sá veruleiki (sem kannski á sér nokkra hliðstæðu í Danmörku og Noregi líka, en merkilegt nokk ekki í Svíþjóð eða Finnlandi), hann er nokkurrar umhugsunar verður.

Einhvers konar erlendan bakgrunn hafa þessir krakkar. Hugsanlega eitthvað af erlendum öfum og ömmum. Tvö, eins og fyrr segir, fædd erlendis. Og langlíklegast að flest eða öll hafi átt heima í útlöndum og gengið þar í skóla. Síðan þau hófu skólagöngu hafa um 8% íslenskra ríkisborgara átt heima erlendis á hverjum tíma, sumt af því varanlegir innflytjendur til annarra landa, en margt líka fjölskyldufólk sem kemur og fer. Af íslenska PISA-úrtakinu, 3350 ungmennum, hljóta margir tugir, ef ekki hundruð, að hafa reynslu af búsetu og skólagöngu erlendis, og sum hafa verið nýlega flutt heim eftir langa útivist.

Á slíku heimili er mjög eðlilegt að erlenda málið sé talað að einhverju leyti, kannski milli systkina enn frekar en við foreldrana. Meðan útlendur gestur er í heimsókn er íslenskan kannski lögð til hliðar að mestu. (Ekki talaði sonur minn mikla íslensku þá vikuna í fyrrasumar sem hann hafði sænskan vin sinn í heimsókn.)

En hvort eitthvað er um það að íslenskar fjölskyldur, heimfluttar frá útlöndum, forðist það skipulega og alfarið að taka upp íslensku sem heimilismál, það væri fróðlegt að vita.