Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 30. desember 2004

Stöllur á Lækjaborg
Öll réttindi áskilin – © Harpa Hrund Njálsdóttir 2004


Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir og Elsa Sigríður Jónsdóttir

Fjölmenningarstarf í leikskóla

Af þróunarverkefni og rannsókn

Í greininni segir frá fjölmenningarstarfi í leikskólanum Lækjaborg, þróunarverkefninu Fjölmenningarleikskóli á árunum 20012004 og niðurstöðum rannsóknar sem höfundar hafa gert á áhrifum fjölmenningarlegra starfshátta á starfsfólk, foreldra og börn. Öll börn og allt starfsfólk í leikskólanum tóku þátt í þróunarverkefninu. Greinarhöfundar stýrðu verkefninu í samvinnu við skólastjórnendur. Verkefnið naut mikils stuðnings og leikskólinn hlaut styrki frá nokkrum aðilum. Höfundar eru lektorar við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Hér verður sagt frá fjölmenningarstarfi í leikskólanum Lækjaborg en þar var starfrækt þróunarverkefnið Fjölmenningarleikskóli á árunum 20012004. Öll börnin í leikskólanum og allt starfsfólkið tók þátt í verkefninu og höfundar greinarinnar voru verkefnisstjórar. Leikskólastjóri í Lækjaborg er Svala Ingvarsdóttir og aðstoðarleikstjóri er Fríða Bjarney Jónsdóttir en hún hafði yfirumsjón með verkefninu í leikskólanum. Þróunarverkefnið naut frá upphafi mikils stuðnings og fékk leikskólinn styrki frá Leikskólum Reykjavíkur, Menntamálaráðuneytinu og Barnamenningarsjóði. Þegar á leið gerðum við verkefnisstjórar rannsókn á áhrifum fjölmenningarlegra starfshátta á starfsfólk, foreldra og börn og verður hér einnig sagt frá niðurstöðum rannsóknarinnar.

Tildrög

Tildrög þróunarverkefnisins voru þær breytingar sem nýlega hafa orðið á íslensku samfélagi. Fjöldi íbúa sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt hefur meira en tvöfaldast á fáum árum og er nú 3.5% af íbúafjölda landsins (Hagstofa Íslands, 2004). Fólkið sem hingað hefur flutt er margt frá fjarlægum menningarsvæðum og talar fjölda tungumála. Hér hefur orðið til fjölmenningarsamfélag með fjölbreyttu gildismati, viðhorfum og siðum. Nýjum íbúum fylgja börn sem eiga rétt á því að fá uppeldi og menntun í skólum landsins þar sem tekið er tillit til menningaruppruna þeirra og tungumáls. Þetta er nýtt og spennandi verkefni fyrir skólana en ekki er alltaf ljóst hvernig standa skal að verki. Við ákváðum því að fara af stað með þróunarverkefni til að geta í góðum hópi prófað okkur áfram með ýmsar aðferðir til þess að skapa fjölmenningarlegt umhverfi í leikskólanum.

Leikskólinn

Lækjaborg er þriggja deilda leikskóli og eru deildirnar aldursskiptar. Þar dvelja samtímis sextíu og tvö börn. Í leikskólanum eru sextán starfsmenn, þar af tveir af erlendum uppruna. Að meðaltali eru um tólf börn af erlendum uppruna í barnahópnum eða í kringum 18% barnanna og þau tala 1012 tungumál. Til samanburðar má nefna að meðaltalsfjöldi barna af erlendum uppruna í leikskólum Reykjavíkur er um það bil 9% og alls tala foreldrar barna í leikskólum Reykjavíkur 54 tungumál (Leikskólar Reykjavíkur, 2004 ). Leikskólinn Lækjaborg starfar skv. Lögum um leikskóla nr.78/1994 og Aðalnámskrá leikskóla (1999). Heimasíða Lækjaborgar er http://www.leikskolar.is/laekjaborg.
 

Afmælisfagnaður
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Í Lækjaborg hafa lengi verið börn af erlendum uppruna. Fyrir allmörgum árum voru haldnar þar menningarvikur þar sem menning hvers lands, sem börnin voru frá, var kynnt í eina viku. Menningarvikurnar voru skemmtilegar en starfsfólkinu fannst þær mjög vinnukrefjandi þannig að þeim loknum voru allir búnir að fá nóg í bili. Því má segja að í Lækjaborg hafi verið ákveðinn grunnur fyrir fjölmenningarstarfi og þegar hugmyndin um þróunarverkefnið var kynnt fyrir leikskólastjóranum áleit hann að leikskólinn væri alveg tilbúinn til að takast á við það. Einnig skiptu máli fyrir þróunarverkefnið þær uppeldishugmyndir sem eru ráðandi meðal starfsfólksins. Það telur nauðsynlegt að börnum finnist þau vera örugg, elskuð og virt. Einnig að þau fái að ráða ferðinni og læra í samræmi við áhuga sinn og getu.

Markmið

Við veltum talsvert fyrir okkur að hvaða markmiðum við ættum að stefna og varð niðurstaðan eftirfarandi:

 • Að öll börn í leikskólanum læri að fólk er ólíkt en samt jafnmikils virði.

 • Að leikskólastarfið endurspegli fjölmenningarlegt samfélag.

 • Að gera heimamál og heimamenningu að sjálfsögðum og virtum þætti í leikskólastarfinu.

 • Að starfsfólkið auki þekkingu sína og færni til að sinna fjölbreyttum hópi barna og foreldra.

Til að ydda markmiðin frekar drógum við út lykilorðin:

 • Jafnrétti allra barna

 • Menning allra – ekki bara íslensk

 • Tunga

Leiðir

Leiðirnar sem við hugðumst fara til þess að ná þessum markmiðum voru:

 • Að efla og fræða starfsfólkið.

 • Að gera umhverfi leikskólans fjölmenningarlegt.

 • Að vinna með samskipti og vináttu meðal barnanna.

 • Að efla skilning barnanna á fjölmenningu.

 • Að bæta og auka samstarf við foreldra.

Lýsing á þróunarverkefninu

Hér verður fjallað um framkvæmd þróunarverkefnisins eins og hún snéri að starfsfólki, börnum og foreldrum.

Efling og símenntun starfsfólks

Við byrjuðum á því að útskýra hugmyndir okkar fyrir starfsfólki og útvega lesefni. Fyrsta árið voru oft fundir og umræður, fyrirlestrar og námskeiðsdagar. Meðal annarra komu til okkar Kolbrún Vigfúsdóttir, Katrín Thuy Ngo og Ingibjörg Hafstað. Á fundunum og námskeiðsdögunum fór mikill tími í að ræða málin og skoða eigin viðhorf. Hvernig leit starfsfólkið sjálft á fjölmenningarlegt samfélag? Talsvert var rætt um þær leiðir sem hægt væri að fara til að kenna börnunum að fólk væri ólíkt en samt jafnmikils virði og fólk var sammála um að bæði lífsleikni og heimspeki með börnum nýttust vel í því skyni. Allan tímann sem þróunarverkefnið stóð hélt starfsfólkið áfram að leita sér þekkingar. Starfsmannafundum var fjölgað til að byrja með og fyrir þá undirbjó starfsfólkið sig með lestri greina og bókarkafla um fjölmenningarlegt efni.
 

Leikskólakennari með persónubrúðu á Lækjaborg
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Alls voru haldnir um tuttugu starfsmannafundir sem eingöngu fjölluðu um framkvæmd þróunarverkefnisins. Vinnuhópar voru skipaðir kringum ákveðin verkefni. Einnig sótti fólk ýmis námskeið og fyrirlestra sem tengdust fjölmenningu og fjölmenningarlegum vinnubrögðum. Tveir leikskólakennarar í Lækjaborg fóru í nám í fjölmenningarfræðum við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands og var það verkefninu mikil lyftistöng. Síðast en ekki síst fór flest starfsfólkið í námsferð til London þar sem skoðaðir voru skólar og sótt námskeið um persónubrúður hjá Babette Brown.

Fjölmenningarlegt umhverfi

Við álítum að allt umhverfið í leikskólanum, búnaður, leikföng, leikefni og bækur sé hluti af námskrá barnanna. Þess vegna var lögð áhersla á að umhverfið endurspeglaði fjölmenningu og að þar væru ekki bara myndir af hvítum börnum og hlutir með tilvísan til íslenskrar menningar. Brúðurnar væru ekki allar vestrænar í útliti og bækurnar hefðu fjölmenningarlega skírskotun og fjölluðu um alla vega fólk og alla vega aðstæður.
 


 

Ýmiss konar gögn hafa verið keypt til skólans vegna þróunarverkefnisins.
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Mikið hefur því verið keypt af bókum, púsluspilum, tónlist, dúkkum, hljóðfærum og öðru leikefni sem tengist fjölmenningu. Heimskort hanga uppi á öllum deildum og allir fánar leikskólans hafa verið gerðir sýnilegir, börnin hafa teiknað þá, lært hvað litirnir tákna og unnið hefur verið með þá á ýmsa vegu.

Til þess að gera móðurmál allra barna í leikskólanum sýnileg voru hengd upp kveðjuorð, til dæmis „Velkomin“ á tungumálum barnanna, fyrir jólin voru sett upp skilti með „Gleðileg jól“ á tungumálum leikskólans o.s.frv. Foreldrar af erlendum uppruna skrifuðu, að beiðni starfsfólks, ýmis algeng orð á eigin máli sem voru hengd upp á deildum leikskólans í augsýn barnanna.
 

Sól í tilefni af 30 ára afmæli leikskólans
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Sólina hér að ofan gerðu foreldrar fyrir 30 ára afmæli leikskólans árið 2002 og á geislunum stendur „Til hamingju með afmælið“ á móðurmálum barnanna.

Starfsmennirnir tveir sem eru af erlendum uppruna, hafa lesið fyrir börnin á móðurmáli sínu og kennt börnunum ýmis orð. Mjög vinsælir urðu kveðjusöngvarnir sem starfsfólkið samdi, en þar koma fyrir kveðjuorð á öllum tungumálum leikskólans og þá má sjá á heimasíðu leikskólans.
 

Þjóðsagan um Gípu á portúgölsku og íslensku
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Styrkur fékkst frá Barnamenningarsjóði til að þýða nokkrar barnabækur sem mikið eru notaðar í leikskólanum á móðurmál barnanna sem þar eru og hefur bókin Alli Nalli og tunglið eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur verið þýdd á fjögur tungumál, víetnömsku, portúgölsku, serbnesku og ensku. Einnig hefur þjóðsagan um Gípu verið þýdd á þrjú tungumál, arabísku, portúgölsku og víetnömsku og notaðar teikningar barnanna til að myndskreyta hana. Gípa er væntanleg á serbnesku og ensku.

Fjölmenningarlegir starfshættir

Á yngstu deildunum byggist fjölmenningarlegt starf mest á því að myndefni, bækur og leikföng eru af fjölbreytilegum toga, svo og vinnu með virðingu og samskipti barnanna. Tússtöflur eru talsvert notaðar þegar verið er að segja sögur og þá teiknar starfsfólkið fólk með mismunandi útlit.

Á eldri deildunum er hægt að vinna afmarkaðri verkefni, t.d. skrifuðu krakkarnir í hópavinnu sendibréf til ættingja, gjarnan í útlöndum. Bréfið var frá öllum í hópnum og börnin spurðu spurninga og teiknuðu myndir til að senda frænda eða frænku. Svo kom bréf til baka og þá var oft öllum spurningunum svarað og kveðja til allra barnanna. Hefðbundin vinna með laufblöð og farfugla fékk fjölmenningarlega vídd. Rætt var um löndin sem farfuglarnir fara til á haustin og þegar laufblöðunum var safnað var lögð áhersla á fjölbreytta lögun þeirra og liti. Önnur skemmtileg verkefni voru Stjarna vikunnar og Minningabókin. Hvert barn var stjarna í eina viku og athyglin beindist að heimili og fjölskyldu barnsins þá vikuna. Minningabókin fór heim með hverju barni yfir helgi og foreldrar og börn skrifuðu í og myndskreyttu að eigin vild.
 


Tvö brot úr Minningabókinni
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004
 

Samvinnuleikur
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Mikið var rætt um vináttu, virðingu og samvinnu allan tímann sem verkefnið stóð yfir og lögð áhersla á hvað allt gengur vel ef hjálpast er að. Þetta á raun við alla þætti starfsins, svo sem taka til eftir leik, hjálpast að í fataklefa, hugga hvert annað og vinna flókin samvinnuverkefni.

Vinátta var tekin fyrir sem þema og unnin verkefni í því sambandi. Kennarar hafa verið að prófa sig áfram með að kenna börnunum að hlusta á umhverfi sitt og velta fyrir sér hvernig öðrum börnum líður.

Samstarf við foreldra

Rannsóknir sýna að samstarf milli skóla og foreldra skiptir miklu fyrir velgengni barna af erlendum uppruna (Sneddon, 1997; Broussard, 2003). Þess vegna var lögð áhersla á að leikskólastarfsfólkið sýndi frumkvæði í samskiptum við erlenda foreldra og fyndi leiðir til að koma á góðu sambandi. Í upphafi verkefnisins var nokkuð algengt að samskipti við foreldra af erlendum uppruna væru lítil og það ríkti óframfærni á báða bóga í daglegum samskiptum. Starfsfólkið var hvatt til þess að tala við foreldrana að fyrra bragði og biðja þá að kenna sér orð og orð úr eigin máli og koma með eitthvað í leikskólann. Foreldrar tóku þessu vel og þess má geta að foreldrar hafa t.d. eldað mat og komið með í leikskólann á foreldrafundi.
 

Frá foreldrafundi
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Enn fremur var fyrsta viðtal við foreldra endurbætt og gert miklu ítarlegra, tveir starfsmenn taka viðtalið og barnið er með. Annar starfsmaðurinn sinnir barninu og leikur við það en hinn talar við foreldrana. Viðtalið getur tekið allt upp í tvo tíma. Markmiðið er að strax í fyrsta viðtali finni foreldrar fyrir áhuga leikskólans á þeim og barninu þeirra. Boðið er upp á að starfsmenn leikskólans komi heim á heimili barnsins og viðtalið sé tekið þar.

Rannsóknin

Eins og áður sagði gerðum við verkefnisstjórar rannsókn til að meta áhrif fjölmenningarlegra starfshátta á starfsfólk, foreldra og börn. Rannsóknin var eigindleg og helstu aðferðir voru þátttökuathuganir í leikskólanum og viðtöl við starfsfólk og foreldra. Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarsjóði Leikskólaráðs Reykjavíkur og Rannsóknarsjóði Kennaraháskóla Íslands. Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum rannsóknarinnar, en nánar verður greint frá þeim í væntanlegri skýrslu um þróunarverkefnið sem kemur út í byrjun árs 2005.

Starfsfólk

Í viðtölum við starfsfólk kom fram að í fyrstu var það óöruggt, en smám saman jókst sjálfstraustið og fjölmenningarleg vinnubrögð urðu sjálfsögð og eðlileg. Flestum þykir þróunarverkefnið skemmtilegt og starfsfólkið talar um að viðhorfin hafi breyst í leikskólanum. Það endurspeglast í umræðunni á kaffistofunni, þar er meiri áhugi á fjölmiðlaumfjöllun um málefni innflytjenda og aukinn skilningur á fordómum og misrétti. Áhugi starfsfólks hefur aukist og gagnrýnin vinnubrögð hafa orðið algengari. Einn starfsmaðurinn komst svona að orði:

Já, mér fannst skólinn breytast alveg rosalega mikið þegar þetta byrjar. Ekki bara í sambandi við þetta heldur bara allt. Einhvern veginn breyttist starfsemin ... hvernig fólk fór að hugsa í sambandi við það sem við vorum að gera með börnunum.

Starfsfólkið veltir oftar fyrir sér aðferðum og nálgun í sambandi við fjölmenningarlega kennsluhætti. Í upphafi var til dæmis talsvert rætt um hvort rétt væri að vekja athygli barnanna á ólíku útliti eða öðru því sem aðgreindi fólk. Gæti það ýtt undir eða jafnvel skapað fordóma? Starfsfólkið kynnti sér rannsóknir sem sýna að börn eru mjög ung þegar þau gera sér grein fyrir að fólk er ólíkt og nýtur mismunandi virðingar, sem oft ræðst af útliti og tungumáli. Niðurstaðan varð því sú að um leið og rætt væri um það sem væri ólíkt, væri dregið fram það sem fólk ætti sameiginlegt og lögð áhersla á að allir væru jafn mikils virði hvernig sem þeir litu út.
 

Við erum bæði lík og ólík.
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Starfsfólkið nálgast börnin öðru vísi nú en áður, sérstaklega börn af erlendum uppruna. Áður hafði nokkuð borið á því að þau væru „til hliðar“ eins og starfsfólkið orðaði það. Nú leggur starfsfólkið sig fram við að efla þessi börn og ýta undir áhugahvöt þeirra.

Þegar starfsfólkið var spurt að því hvort eitthvað hafi verið erfitt í sambandi við þróunarverkefnið kom m.a. fram að erfitt væri að sjá ekki strax árangur af fjölmenningarlegum vinnubrögðum. Hins vegar hefði verið skemmtilegt og gagnlegt að ræða eigin viðhorf „maður fór svona aðeins inn í sig og var að hugsa sko“. Einnig hefði verið mjög ánægjulegt að finna aukinn áhuga foreldra vegna meiri samskipta og sérstaklega hefði verið gaman þegar foreldrarnir komu inn á deild til krakkanna og gerðu eitthvað með þeim.

Mér fannst skemmtilegt að fá foreldra með eða þegar börnin, það er einhver hátíð í gangi og börnin koma með eitthvað, þú veist að halda upp á eitthvað sérstakt saman ... Þú veist fá þau með.

Margir starfsmennirnir nefndu að aukin foreldrasamskipti væri ánægjulegasti þátturinn í þróunarverkefninu og þessi góðu samskipti séu betri fyrir alla; foreldra, börn og starfsfólk.

Allt starfsfólkið er áhugasamt um að halda fjölmenningarstarfi áfram í leikskólanum. Það trúir því að gott leikskólastarf feli í sér fjölmenningarleg vinnubrögð. Þetta segir einn leikskólakennarinn eftir að þróunarverkefnið hafði verið starfrækt einn vetur:

Eftir þennan vetur þá viðurkenni ég að ég lít jákvæðari augum á blandaðan hóp en ég gerði áður. Í dag finnst mér það mjög jákvætt að sjá börnin mín alast upp við að allir séu á jafnréttisgrundvelli hvernig sem þú ert á litinn eða hvernig sem menning hvers og eins er. Ég lít svo á að við séum á réttri leið að byrja í leikskóla að vinna með fordóma og mismunandi menningu og að það skipti máli að góð samskipti og vinátta sé alltaf til staðar hvernig sem við erum ...

Foreldrar

Foreldrar sýna þróunarverkefninu almennt mikinn áhuga og eru jákvæðir gagnvart vinnunni sem þar fer fram. Þótt sumir erlendu foreldranna hafi ekki vitað mikið um það sem gert er í tengslum við verkefnið er áberandi hve vel þeir treysta leikskólanum. Það er einkennandi fyrir þennan hóp foreldra að þeir vinna mjög mikið og búa margir við erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir það sýndu þeir vilja til að leggja sitthvað af mörkum til leikskólastarfsins, t.d. koma og lesa eða segja börnunum frá einhverju, sýna þeim eitthvað frá sínu heimalandi eða gera eitthvað með þeim.

Íslensku foreldrarnir sem rætt var við virtust vita meira um þróunarverkefnið en erlendu foreldrarnir og nefndu ýmislegt af því sem verið er að gera í leikskólanum og lýstu ánægju sinni með það. Þeir voru líka ánægðir með samskiptin við leikskólann og ein móðir sem átti barn í skólanum fyrir mörgum árum sagðist finna gífurlegan mun: „Það er bara tvennt ólíkt, hvernig þróunin er, bara helmingi betra, sko“.

Aukin kynni og samskipti við erlendu foreldrana hafa sýnt starfsfólki fram á að þeir eru ólíkir hver öðrum rétt eins og gildir um allt fólk og að það er auðveldara að hafa samskipti við suma erlendu foreldrana en aðra. Starfsfólkið gerir sér einnig betur grein fyrir því að það verður að hafa frumkvæði í samskiptum. En almennt má segja að erlendu foreldrarnir hafa orðið virkari og sýnilegri í leikskólanum og þeir hafa fengið meiri athygli eftir að þróunarverkefnið fór af stað.
 

Kamerún í brennidepli
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Starfsfólkið tekur eftir því að foreldrar koma nú frekar inn á deild og staldra við þegar þeir koma í leikskólann og hafa meiri samskipti sín á milli. Þótt aðeins hluti foreldranna sé virkur í foreldrasamstarfi sýna margir foreldrar mikinn áhuga og erlendu foreldrarnir mæta betur á fundi eftir að verkefnið hófst.

Þrátt fyrir almenna ánægju foreldra með þróunarverkefnið sögðust tveir íslenskir foreldrar hafa heyrt gagnrýni annarra foreldra á verkefnið þegar það var að byrja. Það sneri annars vegar að því að í leikskólanum væru starfsmenn af erlendum uppruna sem ekki töluðu íslenskuna rétt og hins vegar að því að verið væri að kenna börnunum erlend orð og setningar, slíkt gæti truflað máltöku barnanna. Ein móðir sagðist sjálf hafa verið dálítið neikvæð til að byrja með af sömu ástæðum en það hefði alveg gjörbreyst eftir að hún fór að fylgjast með starfinu í leikskólanum.
 

Persónubrúða í hópavinnu
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Börnin

Vináttuþemað í leikskólanum hefur þjónað þróunarverkefninu mjög vel. Starfsfólkið heldur því fram að virðing og vinátta meðal barnanna hafi aukist. Það birtist m.a. í því að börnin bíða frekar róleg eftir að röðin komi að þeim, þau þegja frekar og hlusta betur þegar aðrir tala og láta sér fyrr segjast þegar starfsfólkið er að segja þeim til í sambandi við samskipti. Starfsfólk segir einnig að börnin passi meira hvert upp á annað, minni hvert annað á að þau eigi að vera vinir, láti vita ef einhver meiði sig og huggi hvert annað en það hafi þau ekki alltaf gert.

Starfsfólk merkir líka meiri áhuga barnanna á umheiminum. Börnin fá mikið af póstkortum frá foreldrum og starfsfólki sem fer til útlanda og þau senda sjálf bréf eins og fram hefur komið. Talsvert er unnið með heimskortin sem hanga uppi á hverri deild og börnin eru mjög áhugasöm um þau. Þau hafa gaman af því að benda á lönd sem þau þekkja og finna önnur sem þau hafa áhuga á og skoða fánana. Þá þekkja flest börnin á eldri deildunum þau lönd sem börnin á deildinni rekja uppruna sinn til.

Í þátttökuathugunum varð vart við áhuga á öðrum löndum en Íslandi í leik barnanna. T.d. fóru tvö börn í útilegu, fyrst til Búlgaríu og svo til Kína og vildu óð og uppvæg sýna hvar þessi lönd væru á heimskortinu. Og þau senda líka bréf til útlanda í leikjum sínum. Í viðtölum við foreldra kom fram að þessi áhugi á umheiminum birtist líka heima, t.d. í áhuga á þjóðfánum og frímerkjum og spurningum um ýmislegt er varðar hin og þessi lönd. Einnig spyrja þau mikið ef einhver í fjölskyldunni er að fara til útlanda. Foreldrar nefndu líka að börnin sýni öðrum tungumálum áhuga þegar verið sé að vinna með þau í leikskólanum, t.d. reyni þau að kenna foreldrum sínum að telja og segja góðan dag á viðkomandi tungumáli.
 

„Börnin böðuð.
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Fjölbreytilegt útlit fólks birtist líka í myndum barnanna því mismunandi húðlitur kemur fyrir í andlitsmyndum þeirra. Þau gera heldur ekki athugasemdir þó starfsfólk máli andlit í dökkum lit. Þegar leikskólakennari var að segja hópi fjögurra ára barna söguna um Gullbrá og bangsana þrjá, teiknaði hann um leið og hafði Gullbrá svarta. Enginn gerði neina athugasemd við það en ein stúlkan sagði: „Hún er alveg eins og systir mín” og virtist mjög ánægð með það en sú á systur sem er dökk á hörund.

Annað dæmi er sagan um Rauðhettu. Tvö börn voru að leika söguna, ljóshærður drengur og stúlka með dökkan hörundslit. „Ég vil vera Rauðhetta“ sagði stúlkan, en þá sagði strákurinn: „Þú getur ekki verið Rauðhetta, þú ert brún, þú verður að vera úlfurinn!“ Og þannig varð það, stúlkan var úlfurinn en strákurinn Rauðhetta. Að sögn starfsmannsins sem varð vitni að þessu tók stúlkan athugasemdinni án þess að mótmæla og leikurinn gekk snurðulaust og bæði virtust njóta sín vel, hvort í sínu hlutverki. Og hvernig á svo að túlka þetta dæmi? Getur Rauðhetta verið brún? Hvað var strákurinn að hugsa? Fannst honum það alls ekki passa að Rauðhetta væri brún eða fannst honum bara upplagt að stelpan væri úlfurinn af því að hún væri nú einu sinni brún? En honum fannst greinilega ekkert athugavert við það að hann, strákurinn, væri Rauðhetta og stelpunni reyndar ekki heldur.

Starfsfólk nefnir tvö dæmi um neikvæðar athugasemdir íslenskra barna í leikskólanum í garð barna af erlendum uppruna. Annars vegar var um að ræða stríðni vegna húðlitar eins barnsins og hins vegar var gert grín að öðru barni og móður þess þegar þau töluðu saman sitt mál. Í bæði skiptin brugðust önnur börn við og gerðu athugasemd við þessa hegðun.

 

Starfsfólki ber saman um að mikil breyting hafi orðið á mörgum börnum af erlendum uppruna eftir að þróunarverkefnið fór af stað. Breytingarnar koma helst fram í því að börnin eru opnari, áhugasamari og gera meiri kröfur en áður. Þá má einnig merkja aukinn áhuga þeirra á móðurmáli sínu, eftir að farið var að gera móðurmál barna af erlendum uppruna sýnilegri í leikskólanum. Börnin eru fúsari að segja starfsfólki og hinum börnunum hvað hitt og þetta heitir á þeirra máli og í viðtölunum við foreldra þeirra kom fram að sum barnanna eru áhugasamari og spyrja meira um heimaland foreldra sinna og sýna áhuga á að fara þangað í heimsókn. Hér má nefna tvær stúlkur sem báðar voru hlédrægar, töluðu lítið og voru ekki sterkar félagslega. Þær hafa báðar sprungið út. „Það er eins og búið sé að finna takkann til að kveikja á þeim“ eins og einn leikskólakennarinn orðaði það. Um aðra þeirra segir hann:

... núna er hún bara allt önnur. Og lætur mann svo sannarlega vita ef hún er ekki ánægð með hlutina. Og vill fá að velja fyrst og gera allt fyrst. Hún bara veit það að hún á eitthvað skilið. … Hún er farin að gera kröfur og manni finnst það mjög flott.

Þessar jákvæðu breytingar vill starfsfólk að einhverju leyti þakka auknum samskiptum við foreldra stúlknanna en einnig því að það nálgist börnin öðruvísi og sinni þeim meira. En stúlkurnar hafa líka elst og þroskast og þeim hefur farið fram í íslensku, sem auðveldar þeim samskipti.

Það gildir um öll börn að þau verða stolt af foreldrum sínum þegar þau verða vör við að foreldrar þeirra hafa eitthvað fram að færa og eru virt fyrir það. Slíkt er sérlega mikilvægt fyrir alla minnihlutahópa eins og börn af erlendum uppruna. Þessa verður vart í leikskólanum. Einn strákurinn benti á fána frá Filippseyjum og sagði: „Mamma mín er frá Filippseyjum, hún kom með þennan fána í leikskólann.” Eftir foreldrafund þegar foreldrarnir elduðu mat sagði ein stúlkan: „Manstu þegar mamma mín kom í leikskólann að elda.” Og stoltið leyndi sér ekki.
 

Útskriftarferð
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Mat á þróunarverkefninu

Eins og fram hefur komið hefur vel verið fylgst með framkvæmd þróunarverkefnisins Fjölmenningarleikskóli, en erfiðara er að segja til um hver árangurinn sé í raun og veru. Starfsfólkið hefur verið áhugasamt um ýmsar starfsaðferðir, viðhorfin í leikskólanum hafa breyst til aukins umburðarlyndis og áhugi á málefnum nýrra íbúa, barna sem fullorðinna hefur vaxið. Vegna aukins foreldrasamstarfs hafa börnin orðið glaðari og stoltari. Í heildina teljum við að þróunarverkefnið hafi haft góð áhrif á leikskólann, gert starfsfólkið áhugasamara og samheldnara, aukið samstarf við foreldra og þannig lyft leikskólastarfinu. Hér verður reynt að meta árangur starfsins út frá þeim markmiðum sem sett voru í upphafi.

Að starfsfólkið auki þekkingu sína og færni til að sinna fjölbreyttum hópi barna og foreldra.

Við teljum að hér hafi mikill árangur náðst. Starfsfólkið hefur verið áhugasamt og allir hafa aukið hæfni sína umtalsvert þótt hér sé auðvitað munur á starfsmönnum. Starfsfólkið hefur öðlast meira öryggi í samskiptum við alla foreldra og er áræðnara að taka upp viðkvæm mál. Starfsfólki finnst auðveldara að koma boðum til erlendu foreldranna og nýtir myndir til þess að auðvelda þeim skilning. Það leggur sig meira fram við óframfærna foreldra, sýnir þeim ýmislegt úr daglegu starfi sem viðkemur barninu þeirra og biður þau gjarnan um eitthvað til að brjóta ísinn. Þetta gefst yfirleitt vel og dæmi eru um foreldra sem aldrei komu inn á deild en koma nú oft inn til að skoða. Við álítum að sterkt og gott samstarf við foreldra sé ein besta leiðin til að bæta leikskólastarfið.

Að gera móðurmál og menningu tvítyngdra barna að virtum þætti í leikskólastarfinu.

Að einhverju leyti hefur þetta markmið þróunarverkefnisins náðst. Móðurmál barnanna í leikskólanum er sýnilegt strax þegar komið er inn í skólann. Allir í leikskólanum, starfsfólk og börn, vita hvaðan tvítyngdu börnin og starfsfólkið er og hvert er móðurmál viðkomandi. Mörg barnanna eru nú fús til að kenna starfsfólki og hvert öðru stök orð og setningar á móðurmálinu. Kveðjusöngvarnir vekja áhuga og ánægju. Fjölmenningarverkefni svo sem Stjarna vikunnar og Minningabókin hafa kynnt heimamenningu barnanna og flutt hana inn í leikskólann. Foreldrarnir hafa með heimsóknum sínum og þátttöku í leikskólastarfinu auðgað menningu skólans.

Að öll börn í leikskólanum læri að fólk er mismunandi en samt jafn mikils virði.

Fyrsta markmið þróunarverkefnisins miðar að því að hafa áhrif á börnin og kenna þeim að fólk sé jafn mikils virði þótt það sé ólíkt í útliti og háttalagi. Þegar áhrif þróunarverkefna í leikskólum eru metin er alltaf erfiðast að meta áhrifin á börnin, sérstaklega þegar reynt er að meta þau til lengri tíma. Þetta er þekkt umræða í leikskólastarfi þar sem starfið gengur oftar en ekki út á að undirbúa jarðveginn og sá í hann, svo notað sé sígilt líkingamál. Það er líka erfitt að meta hvað nákvæmlega ber árangur. Börnin í Lækjaborg virðast samþykkja fjölbreytnina í aðalatriðum. Er það vegna umræðunnar um það að við séum bæði lík og ólík? Má rekja aukna virkni og áhuga tvítyngdu barnanna til verkefnanna sem unnin hafa verið eða er það fyrst og fremst sú jákvæða athygli sem einstök börn fá, sem eflir þau?
 

Frá Lækjaborg
Öll réttindi áskilin – © Lækjaborg 2004

Lokaorð

Áhrif þróunarverkefna eru oft hverful og mikil starfsmannaskipti standa þeim almennt fyrir þrifum. Erfitt getur verið að þurfa sífellt að setja nýtt fólk inn í hugsunarhátt og starfsaðferðir sem starfsfólkið hefur verið lengi að þróa. Það getur líka verið erfitt að halda uppi stöðugum dampi í þróunarverkefnum sem taka nokkur ár. Oft standa og falla þróunarverkefni með nokkrum áhugasömum starfsmönnum sem í raun bera það uppi. Þetta allt á við þróunarverkefnið í Lækjaborg. Það reynir mikið á starfsfólk að halda fjölmenningarlegri hugsun gangandi án þess að það sé endilega verið að vinna að einhverjum sérstökum verkefnum sem geta kallast fjölmenningarleg. Takmarkið er að fjölmenningarleg viðhorf, hugsun og sjónarhorn gegnsýri allt sem gert er í leikskólanum.

Við vonumst til að það sem gert er í leikskólanum Lækjaborg kenni börnunum að meta þann fjölbreytileika sem við búum við í íslensku samfélagi, samþykkja hann og verða umburðarlyndari. Við vonumst líka til að starfið í leikskólanum efli börn af erlendum uppruna, geri þau stolt af uppruna sínum, auðveldi þeim að lifa í íslensku samfélagi og geri þeim hægara að hrærast í tveimur menningarheimum.

Heimildir

Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.

Broussard, C. A. 2003. Facilitating home-school partnerships for multiethnic families: School social workers collaborating for success. Children & Schools, 25, 4: 211222.

Hagstofa Íslands. 2004. Mannfjöldi eftir fæðingar- og ríkisfangslandi 31. desember 2003. [Sótt 17. desember 2004]

Leikskólar Reykjavíkur. 2004. Fjölbreytt mannlíf í leikskólum. [Sótt 17. desember 2004]

Sneddon, R. 1997. Working towards partnership: parents, teachers and community organisations. Home-school work in multicultural settings, bls. 145155. Ritstjóri John Bastiani. London, David Fulton.