Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 28. júní 2004


Eygló Friðriksdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir,
Hrund Gautadóttir og Þorgerður Hlöðversdóttir

Nýr skóli á nýrri öld

Þróun náms- og kennsluhátta við Ingunnarskóla

Í greininni segir frá mótun skólastarfs við Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík. Hönnun skólahúss sem nú er í byggingu er grunduð á hugmyndavinnu starfshóps um náms- og kennsluhætti á nýrri öld. Í þessum nýja skóla eru farnar nokkuð aðrar leiðir en lengi hafa tíðkast í íslenskum grunnskólum. Byggt er á samkennslu árganga, opnum rýmum þar sem allir nemendur eiga athvarf við vinnuborð og skáp, áherslu á samþættingu námsgreina og löngum námslotum í stundatöflu svo eitthvað sé nefnt. Höfundar starfa allir við skólann.

Frá því almenna til þess sérstæða (Design Down Process)

Þegar Ingunnarskóli, nýr skóli í Grafarholti, var hannaður var farin ný leið í hönnunarferlinu. Fyrst var ákveðið hvernig starfsemi skólans ætti að vera og svo var skólabyggingin hönnuð með hliðsjón af því. Þetta vinnuferli kallast Design Down Process eða frá því almenna til þess sérstæða. Kallaðir voru til í sérstakan starfshóp einstaklingar úr ýmsum hópum samfélagsins til að ræða væntanlega starfsemi skólans og hvernig byggingin gæti best þjónað slíkri starfsemi (Gerður G. Óskarsdóttir 2001). Í kjölfarið hafa önnur bæjarfélög farið svipaðar leiðir við hönnun nýrra skóla. Suðurbyggðaskóli á Selfossi (Skýrsla 2001), Sjálandsskóli í Garðabæ (Gunnar Einarsson 2003) og viðbygging á Hvolsvelli (Halldóra Magnúsdóttir 2003) eru dæmi um það.

Hugmyndirnar um nýju skólana sem hér voru taldir virðast eiga ýmislegt sameiginlegt og falla vel að markmiðum sem sett eru fram í Starfsáætlun Reykjavíkurborgar og þeirri framtíðarsýn sem Gerður G. Óskarsdóttur fræðslustjóri Reykjavíkur kynnir í riti sínu Skólastarf á nýrri öld. Ekki er hugsað á hefðbundinn hátt og gert ráð fyrir lokuðum kennslustofum þar sem kennarar eru yfirleitt einir í sinni stofu með einn bekk heldur byggð stór rými fyrir árgangablandaða stóra hópa. Þar munu kennarar vinna saman að því að skapa námsumhverfi fyrir nemendur þar sem þeir vinna að fjölbreyttum verkefnum, bæði sjálfstætt og í hópum.

Fyrsti bekkur að búa til stafakarla. Fyrsti bekkur í tölvum

Ingunnarskóli

Eins og fram kom í upphafi hefur ákveðin stefna verið mótuð fyrir Ingunnarskóla. Þar er áhersla lögð á einstaklingsmiðað nám, samvinnu, þemavinnu, blöndun árganga, flæði milli árganga og námsgreina og fleira. Höfundar þessarar greinar sitja í þróunarhópi skólans en þeim hópi er falið að halda utan um þróunarstarf í skólanum, framkvæma hugmyndir sem samræmast þeirri stefnu sem tekin var í hönnunarferlinu, ásamt því að gegna hlutverki stigsstjóra eða fagstjóra.

Markmið sem skólinn hefur sett sér eru m.a. að nemendur:

 • beri ábyrgð á námi sínu

 • verði sjálfstæðir í vinnu

 • skipuleggi námið að hluta til sjálfir

 • geti valið sér verkefni eftir áhugasviði

 • verði færir um að nýta sér tölvur og upplýsingatækni í vinnu sinni

 • þjálfi félagsfærni í samvinnu við aðra nemendur sem og kennara

 • fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og vinna með margskonar efnivið

 • verði færir um að meta stöðu sína í námi

 • verði færir um að meta vinnu sína og samnemenda á gagnrýninn og jákvæðan hátt

Annar bekkur í stærðfræði Fyrsti og annar bekkur í risaeðluþema

Kennslustofan

Í Ingunnarskóla verða fimm stór kennslurými, um 400 fm hvert, fyrir aldursblandaða hópa. Í hverju rými er reiknað með um 80–85 nemendum. Í hverju rými eru tvö 30 fm herbergi, annað er hugsað sem vinnuaðstaða fyrir kennarana og hitt sem hópherbergi fyrir nemendur. Starfsfólk Ingunnarskóla hefur fundað um innra skipulag í skólanum og útfært það nánar.

Í opnu rými verður hver nemandi með sitt skrifborð og lokaðan skáp. Lýsing gæti hjálpað til við að afmarka vinnustöð hvers nemanda með því að hver nemandi hafi lampa á stöðinni. Vinnustöðvar nemenda verða uppi við veggina allan hringinn þar sem nemendur sitja saman í 8–10 manna námsfjölskyldum afmörkuðum með skilrúmum.

Í miðju opna rýmisins verða vinnuborð fyrir hópa þar sem nemendur geta komið saman til að vinna en einnig töluvert af sessum ef þeir kjósa frekar sitja á gólfinu. Þar verða námstöðvar svo sem stærðfræðistöð með stærðfræðigögnum, lestrarstöð með bókum og tímaritum, náttúrufræðistöð með uppstoppuðum dýrum, myndum og bókum, eðlisfræðistöð með gögnum til að gera tilraunir, listgreinastöð með aðstöðu fyrir ýmisskonar vinnu. Þessar námstöðvar verður hægt að nýta í áætlun, þemavinnu, stöðvavinnu o.s.frv.

Í lokaða nemendaherberginu verður hægt að hafa innlagnir eða kenna hópamiðað þegar svo ber undir. Þess á milli yrði herbergið fyrir þá nemendur sem vilja vinna einir og í þögn. Bókasafn verður í hjarta skólans og þar verður einnig hægt að vinna.

Þriðji og fjórði bekkur
á Ásmundarsafni
Þriðji og fjórði bekkur í þemanu
Nýtt land, ný þjóð

Samkennsla

Í Ingunnarskóla er tveimur árgöngum kennt saman, 1. og 2. bekk, 3. og 4. bekk, 5. og 6. bekk og þannig koll af kolli, alltaf sömu árgangarnir saman. Að blanda ólíkum aldurshópum saman hvetur kennarann til að líta á nemendur sína sem einstaklinga, geta þeirra er misjöfn. Í grein Rúnars Sigþórssonar Samkennsla árganga (1990) segir hann frá rannsóknum sem benda til að samkennsla hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska nemenda, efli félagslega ábyrgð og forystuhæfileika. Einnig að samvinna og samskipti í getublönduðum hópi komi öllum nemendum til góða óháð námslegri stöðu. Hann nefnir líka að aldursbundin markmið og væntingar henti mörgum nemendum illa og geti aldursblandaðir hópar orðið þess valdandi að námsskráin verði sveigjanlegri. Rúnar dregur fram að tilgangurinn með samkennslu sé að skapa nemendum aðstæður til náms á eigin forsendum og varar við því að raða nemendum í hópa eftir námsgetu (vitnað eftir Rúnari, sbr. Katz, Evangelou og Hartmann 1990).

Í Skólastarfi á nýrri öld tekur Gerður G. Óskarsdóttir (2003:8) í sama streng og talar um að æskilegt sé að nemendur á mismunandi getustigum vinni saman að verkefnum og að fjölbreytileika einstaklinga sé haldið  á lofti.

Fimmti og sjötti  bekkur læra
um fléttur og skófir.

 Þriðji og fjórði  bekkur mála
handavinnupoka.

Dagsskipulag

Í Ingunnarskóla er skóladeginum skipt upp í 3 lotur, hver lota er 50 til 110 mínútur. Loturnar eru mislangar eftir aldri nemenda og tíma dags. Ein lota er notuð í áætlun, ein í þema eða svæði og ein í viðfangsefni á borð við íþróttir, sund eða listgreinar. Vel hefur reynst að hafa sömu lotuskipan flesta daga. Kennarar reyna að hafa áætlun á undan þemavinnu því nemendur virðast betur upplagðir í þannig vinnu í upphafi skóladags.

Dæmi um stundatöflu í Ingunnarskóla

Áætlanir

Frá og með 2. bekk gera nemendur vikuáætlanir með aðstoð kennara. Í áætluninni setja nemendur sér fyrst og fremst fyrir verkefni í íslensku og stærðfræði. Í upphafi hverrar viku fá nemendur viðtal við kennara. Þá er farið yfir áætlun síðustu viku, það sem þeir hafa gert er yfirfarið og ný vikuáætlun gerð. Nemendur vinna í grunnbækur eins og t.d. Einingu, Geisla, Ritrúnu o.fl. og þurfa að ljúka ákveðnu lágmark í þeim, einnig vinna þeir ítarefni eftir áhuga og getu. Ef nemendur ljúka áætlun fyrir vikulok mega þeir bæta við verkefnum að eigin vali.


Dæmi um áætlunareyðublöð í Ingunnarskóla


Nemendur og kennari fara yfir áætlun.

Nemendur gera áætlun.


Stærðfræðinni er skipt upp í stig. Miðað er við að meðalnemandi ljúki tveimur stigum á hverju skólaári. Kannanir eru eftir hvern efnisþátt og próf í lok stigsins. Nemandi getur haldið áfram á næsta stig fyrir ofan þegar hann hefur lokið stiginu sem hann er á. Þannig getur nemandi í 3. bekk klárað bæði stigin á þriðja námsári og haldið áfram og tekið stigin fyrir fjórða námsár. Þannig er komið til móts bæði við þá sem vinna hægar og þá sem vinna hraðar.

Verið er að skipta stafsetningu og málfræði í stig á svipaðan hátt og gert er í stærðfræðinni. Við skipulagningu íslenskukennslunnar verða hugmyndir um heildstæða móðurmálskennslu hafðar að leiðarljósi. Svanhildur Kr. Sverrisdóttir aðstoðar kennara skólans við skipulagningu íslenskunnar um þessar mundir. Í skýrslu hennar vegna verkefnis um heildstæða móðurmálskennslu á unglingastigi segir hún m.a.:

Þær kennsluaðferðir sem helst einkenna heildstæða móðurmálskennslu felast í því að tekist er á við raunverulega hluti. Nemendur tala um það sem verið er að læra, skrifa um eigin reynslu, eru hvattir til að lesa og leita upplýsinga. Þeir lesa upp fyrir aðra það sem þeir skrifa og skrifa með það í huga að aðrir en kennarinn lesi textann þeirra. Nemendur fá tækifæri til að velja sjálfir viðfangsefnið, þeir ræða saman um verk sín, hvaða bækur þeir eru að lesa, vandamálin sem þeir glíma við og tilraunirnar sem þeir framkvæma. Nemendur hjálpast að þegar spurningar vakna og vinna saman að lausnum (Svanhildur Kr. Sverrisdóttir 2000–2001).

Þessar hugmyndir samræmast vel því starfi sem þegar er verið að vinna í Ingunnarskóla þar sem áhersla er meðal annars á samþættingu námsgreina.

Þemu

Kristinfræði, samfélagsfræði, lífsleikni og náttúrufræði eru skipulögð í þemum. Farið var yfir Aðalnámskrá grunnskóla og viðfangsefni dregin út í þemu og skipulögð til tveggja ára. Hvert þema er endurtekið á tveggja ára fresti vegna samkennslunnar. Í þemum eru kennslubækur og aðrar bækur notaðar sem handbækur, nemendur afla sér upplýsinga af Netinu og fara í ýmsar ferðir. Þegar unnið er á þennan hátt er auðvelt að samþætta við aðrar námsgreinar, t.d. íslensku, stærðfræði, upplýsingatækni og listgreinar. Þemavinnu skipuleggja umsjónarkennarar og listgreinakennarar í sameiningu.

Þegar þemavinna er skipulögð fylla kennarar út ákveðið eyðublað sem stýrir undirbúningi þemans. Stuðst er við þrepamarkmið Aðalnámskrár grunnskóla fyrir allar greinar sem fléttast inn í þemavinnuna. Kennsluaðferðir eru ákveðnar ásamt því hvernig á að meta vinnu nemenda, hvaða kennslugögn og ítarefni á að nota og hvert á að fara í vettvangsferðir. Einnig er gerð tímaáætlun. Þegar þemavinnu er lokið er fyllt út matsblað.

Samkvæmt Carol Ann Tomlinson (1999:36–38) skiptir skýrleiki í kennslu miklu máli, að vera með skýr markmið og að með kennslu og námi sé stefnt ákveðið að því að ná þessum markmiðum. Þemun í Ingunnarskóla eru yfirleitt mjög vel afmörkuð og falla vel að þeim hugmyndum. Unnið er með þemun hjá bekkjarkennara og einnig í listgreinum. Markmiðið er að nemendur upplifi námið sem heild og sjái með því skýran tilgang.

Þemun sem nú eru í Ingunnarskóla eru endurskoðuð árlega. Fyrsti og annar bekkur hafa unnið saman í einhverjum þemum. Í framtíðinni munu þessir bekkir hafa sama heimasvæði og mögulega verða þá öll þemu sameiginleg.
  

Nemendur í þriðja og fjórða bekk
að fást við köngulóarþema.

Nemendur í fimmta og sjötta bekk í
þemavinnu um Snorra Sturluson.


Dæmi um eyðublað fyrir þemaskipulag
  

Fyrra ár   Síðara ár
 • Skólinn minn

 • Álfar

 • Merkisdagar

 • Húsdýrin

 • Risaeðlur

 • Líkaminn

 • Vatnið

 
 • Umhverfi

 • Nokkrir merkisdagar

 • Þjóðsögur

 • Fjölskyldan

 • Jólasveinar

 • Árstíðir

 • Fuglar

 • Lífvísindi

 • Ævintýri


Þemu fyrsta bekkjar


Annar bekkur við Tjörnina að skoða fugla.

Fyrsti og annar bekkur í fuglaþema

 

Fyrra ár   Síðara ár
 • Líkaminn

 • Vatnið

 • Risaeðlurnar

 • Land og þjóð

 • Sögurnar sem Jesú lærði

 • Jesús og fólkið

 
 • Vináttan

 • Fjölskyldan

 • Jólin nálgast

 • Ævintýri

 • Árstíðir

 • Fuglar


Þemu annars bekkjar


Fugl á hreiðri

Fyrra ár   Síðara ár
 • Köngulær

 • Tré

 • Ættfeður Ísraelsmanna

 • Inúítar

 • Ísland áður fyrr

 • Þjóðsögur – álfar og huldufólk

 
 • Plöntur

 • Tunglið

 • Umhverfið

 • Jólaguðspjallið

 • Nýtt land, ný þjóð

 • Reykjavík

 • Afríka

 • Þjóðsögur – tröll

 • Flýgur fiskisagan – fiskar


Þemu þriðja og fjórða bekkjar


Þriðji og fjórði bekkur í Afríkuþema

Þriðji og fjórði bekkur í Afríkuþema

 

Fiskiþrykk

Fiskiþema

 

Fyrra ár   Síðara ár
 • Náttúra Íslands

 • Snorri Sturluson

 • Líf og störf Jesú

 • Rafmagnið

 • Norðurlöndin

 • Vináttan

 
 • Vatnið

 • Landnám Íslands

 • Pláneturnar

 • Bókmenntir

 • Kristin trú

 • Íslenskir fuglar


Þemu fimmta og sjötta bekkjar


Fimmti og sjötti bekkur í þema
um landnám Íslands

Fimmti bekkur í Sogsvirkjun

Landnámsmaður eftir nemanda 
í fimmta og sjötta bekk

Fyrra ár   Síðara ár
 • Biblían sem bókmenntir

 • Siðferðisleg viðfangsefni

 • Borgir í Evrópu

 • Líkaminn

 • Blaðapassinn

 
 • Mattheusar guðspjall

 • Saga Ísraelsþjóðarinnar

 • Í fullorðinna tölu

 • Jón Sigurðsson

 • Mótun landslags

 • Þróun lífsvísinda

 • Hafið

 • Plánetan jörð

 • Lífverur


Þemu sjöunda og áttunda bekkjar


Sjöundi og áttundi bekkur
heimsækir listamann.

Sjöundi og áttundi bekkur í hreyfimyndagerð
í þemavinnu um Jón Sigurðsson

Listgreinar

Í Ingunnarskóla er orðið listgreinar notað yfir myndmennt, textíl og smíði. Oft er verkefnum og úrvinnslu í öllum þessum greinum fléttað saman og má segja að notaðar séu þrjár meginaðferðir við kennslu:

 • hefðbundin kennsla þar sem kennarinn ákveður verkefnin og allir nemendur gera það sama

 • þemavinna þar sem samfélagsfræði, náttúrufræði, kristinfræði og upplýsinga- og tæknimennt eru samþættar listgreinum

 • einstaklingsáætlanir þar sem nemendur velja sér verkefni út frá eigin áhuga og getu

Í vetur hefur verið unnið við gerð skólanámskrár í listgreinum þar sem annars vegar er skoðað hvernig best er að tengja listgreinakennslu við aðrar greinar í gegnum þemaverkefni og hins vegar hvað er unnið eingöngu út frá listgreinum. Samhliða því hefur verið unnið að þróun kennsluhátta og kennslugagna.

 

Foreldraskemmtun hjá fimmta og sjötta bekk,
atriðið fjallar um landsnámsmann.

Jurtalitun og vefnaður tengjast
náttúrufræði.


Vorið 2003 fékk Ingunnarskóli styrk úr Þróunarsjóði grunnskóla Reykjavíkur til eflingar list- og verkgreinakennslu með sérstakri áherslu á þemavinnu og samþættingu við aðrar greinar. Í verkáætlun var ákveðið að leggja aðaláherslu á þrjá þætti:

 • Þemavinnu

 • Námsmat

 • Verkefnaval

Síðastliðið haust var farið af stað með verkefni í 7. og 8. bekk sem kallast Verkefnaval. Í því felst að nemendur geta sjálfir valið sér verkefni í myndmennt, textíl og smíði. Hugmyndalisti liggur fyrir en nemendur hafa algjörlega frjálsar hendur um val sitt svo framarlega sem aðstæður innan skólans leyfa. Einnig var gerð tilraun með sérstök verkefni í tengslum við listasögu þar sem nemendur völdu sér íslenskan listamann og kynntu hann fyrir samnemendum og kennurum. Á næsta ári er hugmyndin að tengja verkefnið atvinnulífinu þannig að nemendur geti heimsótt listamenn og hönnuði og jafnvel unnið utan skólans í samvinnu við þá.

Skólinn fékk framhaldsstyrk nú í vor og verður hann notaður til að þróa þessi verkefni enn frekar.

Nemendur í fimmta og sjötta bekk safna
jurtum fyrir jurtalitun.
Fimmti og sjötti bekkur
lærir um vatnið.

Námsmat

Námsmat í Ingunnarskóla hefur verið með nokkuð hefðbundnum hætti en á næsta skólaári verður það endurskoðað og yfirfarið. Símat hefur verið í stærðfræði og íslensku. Námsefninu er stigskipt og nemendur taka próf eftir hvert stig. Einnig hafa verið próf í lok hverrar annar þar sem nemendur á sama aldri taka samskonar próf. Í þemum eru gjarnan próf hjá eldri nemendum og er þá eitt próf fyrir alla óháð aldri. Prófseinkunn er þá liður í lokaeinkunn fyrir viðkomandi þema en jafnframt er reynt að meta vinnulag nemenda. Nemendur fá hefðbundin einkunnablöð úr forritinu Stundvísi í lok hverrar annar.

Kennsluhættir og námsmat eru tvær hliðar á sama peningi. Nýbreytni í kennsluháttum á borð við starf Ingunnarskóla hlýtur að kalla á endurskoðun á því hvernig nám er metið.

Einstaklingsmiðað nám kallar á námsmat sem metur nám viðkomandi nemenda í stað hefðbundins námsmats sem mælir á grundvelli hópviðmiða. Í hefðbundnu námsmati er um lokamat að ræða þar sem tilgangurinn er að leggja mat á hvernig námið gekk en betra væri að hafa þetta leiðsagnarmat þannig að vinna mætti útfrá niðurstöðunum (Fitzpatrick o.fl. 2004:16-17). Einnig er nauðsynlegt að gera mati á vinnubrögðum hærra undir höfði vegna áherslu skólans á sjálfstæði og samvinnu. Hver einstaklingur á að vinna á eigin forsendum og því kemur upp þörf til að halda saman gögnum um hvern einstakan nemenda. Má því segja að námsmatið sé ekki í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið í skólanum og þurfi breytinga við. Því var haldinn kennarafundur um námsmat og kom þar fram að kennarar hafa áhuga á eftirfarandi matsaðferðum eða tækjum:

 • Marklistum í íslensku, stærðfræði og íþróttum

 • Samræmdu frammistöðumati í þemum og jafnvel hringekjum

 • Ferilsmöppum í 1. bekk og upp úr, bæði hefðbundnum og rafrænum

Marklistar

Nemendur vinna samkvæmt einstaklingsáætlunum í íslensku og stærðfræði. Námsefninu er stigskipt og áhersla er á símat. Kennarar í Ingunnarskóla hafa hug á að vinna marklista þannig að námsmatið fælist ekki eingöngu í einni einkunn heldur kæmi fram hvað viðkomandi nemandi kann eða kann ekki. Markmiðið er að gera námsmatið greinandi fyrir nemendur, foreldra og kennara þannig að hægt verði að bregðast við því sem fram kemur á prófum. Þar með verða þessi próf ekki eingöngu lokamat á námi nemandans heldur leiðsagnarmat sem hægt er að hafa til hliðsjónar við skipulagningu frekara náms (Fitzpatrick o.fl. 2004:16–17). Ingvar Sigurgeirsson (1998) segir að marklistar séu hafðir til hliðsjónar þegar meta á úrlausnir. Þeir byggja á því að skilgreindar séu á nákvæman hátt þær kröfur sem eru gerðar. Marklistar auka samræmi milli kennara og auðvelda þeim að fylgjast með stöðu nemenda og gera nemendum og foreldrum kleift að fylgjast með námsstöðu.

Ferilsmöppur (processfolios)

Áhugi er á að útbúa ferilsmöppur á rafrænu formi (geisladiski) fyrir hvern nemanda. Þetta verður ferilsmappa sem hefur margþættan tilgang en þó einkum þann að vera heimild um nám nemandans og gefa góða mynd af þeim verkum sem hann hefur unnið (Ingvar Sigurgeirsson 1998). Hægt verður að sjá valin verk nemandans, kynningar, skjöl, myndir af verkefnum. Mögulega verður hægt að leggja möppuna fram þegar sótt verður um framhaldsskóla. Nemendur munu byrja að safna verkefnum í fyrsta bekk en sérstök áhersla verður á unglingadeildina til að byrja með. Námsráðgjafi mun aðstoðaða nemendur við áhugasviðsgreiningu og í kjölfarið fá nemendur að fást við verkefni sem tengjast þeirra áhugasviði, bæði skólaverkefni og jafnvel vinnustaðaheimsóknir.

Frammistöðumat

Mikilvægt er að leggja mat á vinnu nemenda og meta hana til jafns við hefðbundin próf. Í Borgarnesi (Frá námskrá til námsmats 1996) hefur verið unnið markvisst að þessu. Þar hefur verið skilgreint að hvaða frammistöðumarkmiðum er stefnt og hvað liggur að baki hverju markmiði fyrir sig. Með því fæst sameiginlegur skilningur á hugtökum á borð við samvinnu og frumkvæði. Kennarar meta frammistöðu nemenda jafnóðum á kerfisbundinn hátt með hjálp ákveðinna tækja, s.s. gátlista og matslista. Kennarar treysta ekki á minni sitt heldur byggja á gögnum sem þeir hafa safnað saman (Ingvar Sigurgeirsson 1998). Náttúrufræði, samfélagsfræði, lífsleikni og kristinfræði eru kennd í þemum og eru unnin í samvinnu margra kennara, þ.á.m. listgreinakennara. Frammistöðumat hentar mjög vel þegar meta á þemavinnu. Margir kennarar koma að sama þemanu þannig að samræmingar í námsmati er þörf og áhersla er á fjölbreytt vinnubrögð sem þörf er að meta á annan hátt en með hefðbundnum prófum.

Markmið

Markmiðin með ofangreindri nálgun að námsmati eru eftirfarandi:

 •  Að útskrifa nemendur sem þekkja sjálfa sig, áhugasvið sitt, styrkleika og veikleika 
  og stefna á nám samkvæmt því.

 • Að kennarar geti fylgst með námi og þroska nemenda á markvissan hátt.

 • Að vinna nemenda verði metin til jafns við árangur í prófum.

 • Að nemendur taki virkan þátt í eigin námi með því að velja og meta verkefni 
  til að safna í rafræna ferilsmöppu.

 • Að marklistar, frammistöðumat og ferilsmöppur geri foreldrum kleift
  að fylgjast betur með námsframvindu og stöðu barna sinna.

 • Að allir kennarar í skólanum noti marklista, frammistöðumat og ferilsmöppur
  við mat á vinnu nemenda.

Skólinn hefur fengið styrk frá Þróunarsjóði grunnskóla og frá Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að þróa námsmatið sem vonandi verður til þess að fyrirhugaðar breytingar komist á.

Fyrsti bekkur syngur og leikur 
á samveru.
Þriðji og fjórði bekkur leikur á blokkflautur 
á samveru.

Lokaorð

Ingunnarskóli er nú að ljúka þriðja starfsári. Mikið þróunarstarf hefur verið unnið í skólanum og á næsta ári verður aðaláherslan lögð á námsmat auk þess sem áfram verður hugað að stigskiptingu í íslensku, stærðfræði og tungumálum.

Á næsta skólaári tekur til starfa útibú frá Ingunnarskóla, Sæmundarsel, í austurhluta Grafarholts. Í upphafi stóð til að þar yrði starfræktur skóli sem yrði svipaður Ingunnarskóla að stærð en nú er gert ráð fyrir að einungis verði þar nemendur í 1. til 6. bekk til að byrja með. Selið verður við Reynisvatn og þar verður lögð áhersla á náttúru- og raungreinakennslu fyrir alla nemendur Ingunnarskóla.

Nú á vordögum hafa nemendur sótt útikennslu upp við Reynisvatn og notið þar fjölbreyttrar náttúru, m.a. heimsótt himbrimapar sem heldur til á vatninu, skoðað fjölbreyttan gróður á svæðinu og hugað að því sem vatnið sjálft býr yfir.

Haustið 2005 flytur Ingunnarskóli í langþráða nýbyggingu og þá kemur í ljós hvernig gengur að útfæra hugmyndir og starfsaðferðir við nýjar aðstæður. Húsnæðið býður upp á margvíslega möguleika til nýbreytni og bætist meðal annars við aðstaða til tónmennta- og hljóðfærakennslu en hana hefur skort fram að þessu.

Heimildir

Fitzpatrick, J.L., J.R. Sanders og B.R. Worthen. 2004. Program Evaluation, 3. útgáfa. Boston, Pearson Education, Inc.

Frá námskrá til námsmats. Lokaskýrsla. 1996. Grunnskólinn í Borgarnesi. Elín Kristjánsdóttir, Hilmar Már Arason, Lilja Ólafsdóttir, Þór Jóhannsson.

Gerður G. Óskarsdóttir. Lýsing á undirbúningsferli hönnunar frá hinu almenna til hins sérstæða Design Down Process. Heimasíða Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.2001. http://www.grunnskolar.is/fraedslumidstodin.nsf/Files/lysing_undirbuningsferli/
$file/Lysing_a_undirbuningsferli_A4.pdf
. (20. nóv 2003).

Gerður G. Óskarsdóttir. 2003. Skólastarf á nýrri öld. Reykjavík, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Gunnar Einarsson. 2003. Nýr skóli á Sjálandi breytt samfélag breyttur skóli breytt hlutverk kennara. Heimasíða Garðabæjar.2003. http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=379. (20. nóv 2003).

Halldóra Kristín Magnúsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir. Skýrsla vegna byggingar. Heimasíða Hvolsskóla. 2003. http://hvolsskoli.ismennt.is/skýrsla_v_byggingar.htm. (19 nóv.2003).

Ingvar Sigurgeirsson. Námsmat byggt á traustum heimildum. 1998.  http://www.ismennt.is/vefir/fjarnogk/namsmatnogk/thkr/thkrist.htm. (16. feb. 2004.)

Rúnar Sigþórsson. Samkennsla árganga. Samtök fámennra skóla. 2003.
http://skolar.skagafjordur.is/sfs/2samkennsla.php. (11. apríl 2004).

Skýrsla um undirbúning Suðurbyggðaskóla á Selfossi. 2001. Óútgefið.

Staten,Gwendolyn. The Theory of Flow. The Key Learning Community. 2003. http://www.ips.k12.in.us/mskey/theories/flow/flow.html (20 nóv. 2003).

Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. 2000-2001. Lokaskýrsla vegna styrks úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir skólaárið 20002001. http://brunnur.stjr.is/mrn/mrn.nsf/b8c991610b696d61002567bc003a914b
/8eefeec4552644de00256b09003c1cfa?OpenDocument
(19. nóv 2003).

Tomlinson, C.A., 1999. The Differentiated Classroom: Responding to the Needs of All Learners. Association for Supervision & Curriculum Development.