Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 12. júní 2004

Anna Magnea Hreinsdóttir

Tóti var einn í Tölvulandi,

á tölvuspilið var snjall

Athugun á tölvunotkun leikskólabarna

Í greininni segir frá rannsókn höfundar á tölvunotkun í leikskólastarfi. Leitað var svara við þeim spurningum hvernig tölvunotkun barna væri háttað í leikskólum, hvernig hún félli að hugmyndafræði leikskóla og hvernig starfsfólk væri í stakk búið til að innleiða þessa nýjung í skólastarfið. Niðurstöður benda til fremur jákvæðrar afstöðu starfsfólks og mikillar ánægju barnanna af leik við tölvuna. Greinin byggir á meistaraverkefni höfundar við Kennaraháskóla Íslands. Höfundur er leikskólastjóri.

Inngangur

Í Aðalnámskrá leikskóla (1999:28) er þess getið að börn í leikskóla þurfi að kynnast tölvu og læra að nota hana. Tilgangur rannsóknar sem hér verður greint frá var að skoða hvernig notkun tölvu í leikskóla samræmist öðru leikskólastarfi og þeirri hugmyndafræði sem þar ríkir. Meginspurningar rannsóknarinnar voru: Hvernig samræmist tölvunotkun barna hugmyndafræði leikskólans og hvernig nota leikskólabörn tölvur? Hvernig er starfsfólk leikskóla í stakk búið til að innleiða þessa nýjung í leikskólastarfið?

Til þess að leita svara við þessum spurningum var tölvunotkun í leikskólastarfi rannsökuð í völdum leikskólum á höfuðborgarsvæðinu. Viðtöl voru tekin við börn og starfsfólk og viðhorf og þekking starfsfólks leikskólanna til tölvunotkunar leikskólabarna könnuð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að börn nota tölvur til leikja í leikskólum. Viðhorf þeirra til tölva er jákvætt og þeim finnst ákaflega gaman að vera í tölvunni. Starfsfólk leikskóla lagði áherslu á að tölvur eru góð viðbót í leikskólastarfið og var það að fikra sig áfram með notkun þeirra í starfi með börnunum.

Leikur er hornsteinn leikskólastarfs og í gegnum leik læra börn á umhverfi sitt og samskipti við aðra. Í leik læra börn hvert af öðru eftir óformlegum leiðum. Leikur við tölvu samræmist námstækni ungra barna með tilliti til sjálsfstæðs uppgötvunarnáms og leiks (Haugland og Wright 1997:10). Í leik fær barnið að öðlast nýja færni við tölvuna, láta forvitnina ráða ríkjum og gera nýjar uppgötvanir. Fyrsta reynsla barns af tölvunotkun virðist hafa mikið um það að segja hvort barnið fái áhuga á tækinu og vilji nota það aftur (Nelson 1995:36). Það virðist vera ákjósanlegt að kynna ungum börnum tölvunotkun í leikskólum þar sem þau geta uppgötvað möguleika hennar í leik, innan um félaga sína og undir eftirliti fagfólks.

Nám barna og upplýsingatækni

Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að líta á börn sem hæfa einstaklinga með hæfileika til að læra og þroskast (Jessen og Andersen 1999). Í mörgum greinum um nýjar barnarannsóknir er litið á börn sem virka gerendur sem hafa áhrif á umhverfi sitt, nám sitt og hvernig þeir öðlast færni á hinum ýmsu sviðum. Það fellur vel að kenningum Piaget (1951:56) en þær byggja á þeirri hugmynd að nemandinn læri í samræmi við það þroskastig sem hann er á hverju sinni. Piaget lagði áherslu á að nám ætti að vera virk uppgötvun á raunveruleikanum en ekki snúast um að læra tilbúinn sannleika. Má segja að þetta sé kjarninn í kenningum hugsmíðahyggju. Undir þær falla m.a. kenningar Piaget og Vygotsky um uppbyggingu þekkingar. Piaget taldi að það væri tilhneiging til þess að líta á leik barna sem einangrað athæfi, en hann taldi að allar athafnir barna væru leikur (Piaget 1951:147).

Seymour Papert var nemandi Piaget og lagði kenningar Piaget um nám ungra barna til grundvallar þegar hann tók að fjalla um tölvunotkun barna. Papert (1993:24) taldi að uppgötvanir við tölvuna hefðu hvetjandi áhrif á nám barna og að tölvan gæti nýst sem námsumhverfi sem nemandinn getur notað á skapandi hátt. Hann lagði áherslu á að nemandinn ætti að hafa stjórn á tölvunni og segja henni fyrir verkum. Papert vildi kenna börnum að forrita á tölvur til þess að gefa þeim tækifæri til að örva vitsmunaþroska. Í þessum skilningi er tölvan í augum Paperts „verkfæri barnsins“ (Papert 1993:6). Tölvunotkun í þessum anda einkennist af óformlegum námsleiðum þar sem tölvufærni barnanna þróast í innbyrðis samskiptum og tengslum. Papert er sannfærður um að besta námið fari fram þegar nemandinn ræður för (1993:25).

Áhrif tölvunotkunar á þroska barna

Umræður hafa verið um hvort að börn sem ekki hafa náð hlutbundinni hugsun eigi að nota tölvur. Samkvæmt Piaget (1971:11) fer barnið að skilja rökhugsun eða meginreglur á því stigi sem nefnist hlutlæg rökhugsun eða við 7–11 ára aldur og fer að beita þeim til þess að geta túlkað ákveðna reynslu eða skynjanir. Með því að beita rökhugsun lærir barnið að skilja grundvallaratriði talna, flokkunar og margra annarra ákveðinna eða hlutstæðra hugmynda.

Haugland og Wright (1997:9) hafa gert rannsóknir meðal leikskólabarna í Bandaríkjunum á nokkrum þáttum sem varða börn og tölvunotkun. Þau hafa komist að því að ef tölvunotkun tengist öðrum verkefnum sem unnin eru og ef börn fá hjálp frá kennara eða öðrum börnum við að staðsetja reynslu sína, þá öðlist þau hlutbundna reynslu af tölvunotkun.

Rannsóknir Fatoures, Downes og Blackwell (1994) sem gerðar voru í leikskólum í Bandaríkjunum sýndu að börn juku við þekkingu sína við notkun tölvu á sviðum eins og að læra stafrófið, að læra að skrifa, að skilja stærðfræðihugtök og að forrita. Rannsakendur benda á að vitsmunaþroski felst ekki einungis í að tileinka sér ákveðna færni heldur einnig þróun skapandi hugsunar, því að leysa verkefni, að taka ákvarðanir og að geta séð fyrir orsök og afleiðingu.

Rannsóknir Clements, Nastasi og Swaminathan (1993) sýndu að börn geta leikið sér saman við tölvur og að þau kjósa fremur að vera með félaga við tölvuna en ein. Fatoures, Downes og Blackwell (1994) benda á niðurstöður sínar og annarra varðandi aukin samskipti barna við tölvunotkun sem sýndu að samskiptin voru tvisvar sinnum meiri við tölvunotkun en við annan leik sem fram fer í leikskóla. Þessar niðurstöður benda til þess að samskipti barna og félagsskapur séu stór þáttur í tölvunotkun.

Myndbandstökur sænskra leikskólakennara af börnum við tölvunotkun benda í sömu átt (Appelberg og Erikson 1999:29). Aðrar erlendar rannsóknir benda einnig til þess að samskipti barna innbyrðis séu níu sinnum meiri við tölvuna heldur en barna sem púsla saman (Clements 1998:2). Nemendur tala meira um verkefni sín þegar verið er að nota tölvu en þegar verið er að vinna önnur verkefni (Sólveig Jakobsdóttir 1996).

Tölvunotkun virðist því geta haft jákvæð áhrif á vitsmuna- og félagsþroska barna sé notkunin tengd öðrum verkefnum og fari fram í samstarfi við önnur börn.

Gagnrýni á tölvunotkun leikskólabarna

Að mati margra uppalenda er þeim tíma sem barn eyðir fyrir framan tölvuna betur varið í fjölbreyttari leik. Þeir telja að leikur þar sem fengist er við fjölbreytt viðfangsefni, þykjustuleik og sköpun veiti mikilvægari reynslu en tölvunotkunin. Það er mat þeirra að mikilvægt sé fyrir börn að kynnast samhengi hluta og fá sem heillegasta mynd af lífinu (Ejefors 1997:20).

Einnig eru uppi sjónarmið sem lúta að því að börn fái ranga mynd af eiginleikum hluta í tölvum. Til eru teikniforrit sem eru þannig að barnið getur valið sér úðabrúsa og úðað að vild án þess að allt fyllist af málningu og úða í kringum það. Barnið getur valið sér strokleður og strokað út án þess að nokkur ummerki sjáist um það. Barnið lærir því ekki um eiginleika hluta eins og þeir eru í reynd. Þegar barnið málar í tölvunni sullast ekki niður, og barnið getur heldur ekki öðlast reynslu af því að blanda saman litum og sjá hvað þá gerist. Það kynnist ekki samspili pensils, blaðs og málningar (Cuffaro 1995:563).

Jane Healy (1998:206) hefur sett fram gagnrýni sem lýtur að tölvunotkun ungra barna. Hún telur að tölvunotkun eigi einungis eftir að sanna gildi sitt ef menntun er höfð í fyrirrúmi og tekin fram yfir skemmtun. Einnig leggur hún áherslu á að vel upplýst fagfólk sjái um tölvunotkun barna og þrói hana áfram með rannsóknum um tölvunám sem virkar innan skólans. Eftir þriggja ára rannsóknir telur hún sig hafa komist að þeirri niðurstöðu að venjuleg börn yngri en sjö ára séu betur komin án þess að nota tölvur. Þá skoðun byggir hún á vitmunaþroskakenningu Piaget. Hún telur að eftir því sem börn eru eldri, þeim mun betur komi tölvan þeim að gagni.

Healy (1998:208) telur að opin forrit eins og teikniforrit geti gefið einhver af skynjunaráhrifum þeim sem börn þurfa á að halda en þau verða í eðli sínu ólík þeirri skynjun sem allur líkaminn veitir þegar unnið er með annan efnivið. Hún bendir einnig á niðurstöður rannsóknar, sem gerð var í leikskólum í Bandaríkjunum og voru á þann veg að sú umönnun og samræður sem börnin áttu við fullorðna höfðu mest áhrif á vitsmunaþroska barna og jafnvægi í tilfinningalífi þeirra.

Gagnrýni varðandi tölvunotkun beinist því fyrst og fremst að því að hún taki tíma frá öðrum leik barna. Tölvunotkun ætti því að vera viðbót við annan leik fremur en að leysa hann af hólmi.

Kynjamunur

Mjög lítið er vitað um stöðu mála meðal barna í skólum hvað varðar kynjamun í tengslum við tölvunotkun og hvort beita þurfi sérstökum aðferðum til þess að stuðla að jafnrétti í þessum efnum. Í Aðalnámskrá leikskóla (1999:28) er þess getið að leita skuli hæfilegs jafnvægis milli stúlkna og drengja í leik með tölvu.

Til eru rannsóknir sem hafa bent til þess að sá kynjamunur sem hefur verið greindur við notkun heimilistölva hafi einnig verið í skólum en það gæti leitt til þess að stúlkur öðlist ekki eins mikla færni og drengir við tölvunotkunina. Nýrri rannsóknir sýna þó að eftir því sem hugbúnaðargerð fer fram minnkar munur milli kynja við tölvunotkun (Cassell og Jenkins 1998).

Drengir verja meira en tvisvar sinnum meiri tíma í viku í tölvuleiki en stúlkur og eru fimm sinnum líklegri til þess að eiga tölvuleikjagræjur (Griffiths og Hunt 1995). Í fyrstu var haldið að munurinn lægi í því hversu ofbeldisfullir tölvuleikir eru en líklegri ástæða þykir munurinn á leikjavali kynjanna, þar sem drengir velja fremur þykjustuleiki sem byggja á ímyndun en stúlkur velja fremur leiki byggða á raunveruleikanum. Tölvuleikir endurspegla hins vegar fremur ímyndun en raunveruleika, jafnvel þó að leikirnir séu hannaðir sérstaklega fyrir stúlkur (Subrahmanyam og Greenfield 1998).

Kynjamunur kom fram í rannsókn Lawry á tölvuleikjum. Það sem stúlkum þótti mikilvægast var söguþráður ásamt spennandi persónum og markmiðum. Jafnframt vildu þær að leikurinn snérist um félagsleg samskipti og sköpun. Drengjum fannst aftur á móti mikilvægast að skemmta sér í tölvuleikjum. Þeir vildu hafa mikinn hraða og spennu, ævintýri og ofbeldi (Margrét Pála Ólafsdóttir 2000).

Í athugun sem Kristín Norðdahl (1998) gerði á kynjamun á tölvunotkun leikskólabarna kom fram að helsti munur á kynjum laut að áhuga á leikjum sem byggðu á verðlaunum. Drengir voru mjög spenntir fyrir þessum leikjum en stúlkurnar sýndu þeim frekar lítinn áhuga.

Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum hugbúnaðar á drengi og stúlkur eru ekki samhljóða. Nokkrar rannsóknir sýna engan kynjamun varðandi gerð hugbúnaðar (Natan 1995:357) og kynferði aðalsögupersónu í forriti (Joiner 1996:179). Niðurstöður þeirra rannsókna benda hinsvegar til þess að reynsla barna af tölvunotkun hafi mikil áhrif á frammistöðu þeirra. Einnig bentu þær til þess að áhugasvið barna tengdust frammistöðu þeirra í tölvuverkefnum. Í athugun Kristínar Norðdahl (1998) kom fram hjá leikskólakennurum að stúlkur og drengir höfðu mismunandi smekk varðandi val á myndefni í teikniforritum.

Sjálfmetin færni við notkun tölvu hefur verið rannsökuð nokkuð. Í rannsókn Elliot (Elliot 1988) voru börn spurð að því hvort stúlkur eða dregnir væru færari á tölvu eða hvort þau væru jafn fær. Þriðjungur stúlknanna fannst þær bestar en 60% drengjanna fannst þeir bestir. Í rannsókn Sólveigar Jakobsdóttir (1999) á kynjamun tengdum tölvunotkun í íslensku skólastarfi kemur sama niðurstaða fram. Sjálfmetin tölvutengd færni er meiri hjá drengum en hjá stúlkum. Drengir eru meira sammála því að þeir séu „mjög klárir“ að nota tölvu.

Tölvusvæði og hugbúnaður í leikskóla

Í Aðalnámskrá leikskóla (1999:28) segir að tölvur skuli t.d. vera í leikstofu þar sem hljóðlátir leikir fara fram. Kennarar hafa komist að þeirri niðurstöðu að best sé að koma upp tölvusvæði inni á leikskóladeildinni frekar en í sérherbergi (Haugland og Wright 1997:6772). Ef tölvum er komið fyrir þar sem þær eru vel sjáanlegar inni á leikskóladeildinni geta þau börn sem ekki hafa prófað tölvu fylgst með álengdar og unnið upp kjarkinn til að setjast við skjáinn sjálf.

Ef aðgangi að tölvu er ekki stýrt, heldur gefinn frjáls eru meiri líkur á að kynjamunur komi fram (Sólveig Jakobsdóttir 1996:309). Rannsóknir hafa einnig sýnt að þeim mun meiri tíma sem barn eyðir fyrir framan tölvu, þeim mun jákvæðara viðhorf hefur það til hennar (Nelson 1995:36). Staðsetning og aðgengi að tölvunni hefur áhrif á það hvort stúlkur eða drengir sæki í að nota hana. Það virðist hafa góð áhrif á stúlkurnar ef hægt er að tengja notkun tölvunnar við heimiliskrók eða skapandi starf eins og teikningu. Ef tölvan er sett í sérherbergi þá hræðast stúlkur hana frekar (Nelson 1995:35). Þeim finnst betra að geta farið með vinkonum sínum að tölvunni heldur en að sitja einar í tölvuherbergi með kennara.

Tvær leiðir virðast vera fyrir leikskólakennara til að velja hugbúnað; annað hvort að nota til þess gerðan matslista en nokkrir matslistar hafa verið gerðir í Bandaríkjunum eða að meta hugbúnaðinn sjálfir. Haugland og Shade gerðu rannsóknir á börnum, þar sem mismunandi tegundir forrita voru prófuð og áhrif þeirra á þroska barnanna mæld (Haugland og Wright 1997:32-37). Með hliðsjón af niðurstöðum þeirra rannsókna bjuggu þau til mat til að nota við val á þroskavænlegum hugbúnaði. Sá mælikvarði byggir á kenningum Piaget, þar sem áhersla er lögð á virkni barnsins og að það eigi að læra með því að gera sjálft.

Forsendur og kringumstæður starfsfólks í leikskóla

Misjafnt er hversu opnir kennarar eru fyrir nýjungum í starfi og hversu tilbúnir þeir eru til þess að takast á við þær. Að hluta til ráðast slík viðhorf af starfsumhverfi og starfsaðstæðum en einnig af lífssýn, persónuleika og skapgerð viðkomandi kennara (Katz 1996:2527).

Í viðtalsrannsókn Svenssons (Appelberg og Eriksson 1999) við fjörutíu leikskólakennara í Svíþjóð kom fram að tölvunotkun hafði í för með sér jákvæðari afleiðingar en leikskólakennararnir höfðu gert sér í hugarlund. Leikskólakennararnir komu auga á margar leiðir til þess að nota tölvur í starfi sínu með börnum.

Fullan (1992:2) og fleiri fræðimenn leggja áherslu á að tölvunotkun í kennslu sé nýjung sem geri miklar kröfur til kennara og snúist ekki eingöngu um að tileinka sér nýjar kennsluaðferðir eða námsefni. Þeir benda á að tölvur séu sveigjanlegt verkfæri sem megi nota á margvíslegan hátt. Fullan (1992:33) telur að nýjung eins og notkun tölva í skólastarfi verði að teljast flókið og margþætt verkefni sem geri miklar kröfur til kennara og skili ekki árangri nema með samstilltu átaki. Einnig undirstrikar Fullan (1992:4950) að skólastjórinn gegni lykilhlutverki þegar hrinda á nýjungum í framkvæmd. Hlutverk hans sé að ryðja brautina og skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir starfsfólk skólans. Fullan bendir á að athuganir hafi sýnt fram á að kennarar séu tilbúnari til að reyna nýjungar í starfi njóti þeir stuðnings skólastjóra.

Í leikskólastefnu Félags leikskólakennara (2000) er ekki mótuð stefna um það hvernig tækni skuli notuð með ungum börnum en mikilvægt er að leikskólakennarar hafi áhrif á þá framvindu. Árið 1996 gaf National Association of the Education of Young Children í Bandaríkjunum út yfirlýsingu varðandi tækni og ung börn (NAEYC 1996). Þar kemur fram að kennarar þurfa að taka ábyrgð og hafa áhrif á framvindu mála sem hafa mikil áhrif á líf ungra barna og fjölskyldna þeirra. Stefna þessi nær yfir mörg atriði varðandi tölvunotkun ungra barna.

Kópavogsbær er eitt af fáum sveitarfélögum sem hefur gert áætlun um tölvur og tölvunotkun í leikskólum bæjarins. Í áætlun Kópavogsbæjar segir að tölvan eigi að vera eins og hvert annað leikfang sem eykur fjölbreytni í starfinu (Kópavogsbær 2002). Gerð er áætlun um kaup á tækjabúnaði næstu fjögur árin þar sem gert er ráð fyrir tölvu á hverja deild þar sem eru þriggja ára börn og eldri. Á deildum með tveggja til þriggja ára börnum er gert ráð fyrir einni tölvu á tvær deildir. Gert er ráð fyrir sterku lyklaborði, góðri mús og sítengingu við netið. Einnig er gert ráð fyrir ýmsum fylgihlutum eins og prentara, skanna, skjávarpa, teikniskjá og skrifara ásamt stafrænni myndbandsupptökuvél og stafrænum myndavélum.

Rannsóknarspurningar

Tilgangur þeirrar rannsóknar sem hér verður lýst var að skoða hvernig notkun tölvu í leikskóla samræmist öðru leikskólastarfi, hvernig börn nota tölvur og hvernig starfsfólki leikskóla gengur að innleiða þessa nýjung í skólastarfið. Þetta var gert með því að hafa eftirfarandi rannsóknarspurningar að leiðarljósi:

 1. Hvernig samræmist tölvunotkun barna hugmyndafræði leikskóla?

 • Hvaða tæknibúnaður er til staðar og hvar er hann staðsettur?

 • Hvaða hugbúnaður er notaður?

 • Hvernig er þess gætt að öll börnin noti tölvur og
  er jafnræðis gætt milli drengja og stúlkna?

 1. Hvernig nota leikskólabörn í tveimur leikskólum tölvur ?

 • Hvað gera börn fyrir framan tölvur?

 • Hvert er viðhorf barnanna til tölvunotkunar?

 1. Hvernig er starfsfólk leikskóla í stakk búið til að takast á við þessa nýjung í leikskólastarfi?

 • Hvert er viðhorf starfsfólks til tölvunotkunar leikskólabarna?

Aðferð

Rannsóknin fór fram á tveimur leikskólum á höfuðborgarsvæðinu.Valdir voru leikskólar sem notuðu tölvur í starfi sínu með börnum en á ólíkan hátt. Við val á leikskólum var markmiðsúrtaki beitt, þ.e. úrtak var valið af því að það hentaði tilgangi rannsóknarinnar (Silvermann 2000:104). Á báðum leikskólunum var hægt að fylgjast með elstu börnum leikskólans nota tölvu. Á báðum leikskólunum hafði starfsfólk verið að fikra sig áfram með tölvur í starfi með börnunum. Annar leikskólinn, Hóll, bauð öllum elstu börnum leikskólans þrjár skipulagðar tölvustundir og einnig aðgang að tölvum í vali á ákveðnum tímum. Í hinum leikskólanum, Furu, var frjáls leikur í hávegum hafður og laut tölvunotkun barnanna sömu lögmálum og annar leikur. Á báðum leikskólunum var ákveðinn starfsmaður sem hafði umsjón með tölvustarfi leikskólans.

Ég heimsótti leikskólana þrisvar sinnum og gerði þar vettvangsathuganir. Vettvangsathuganir hafa verið notaðar sem verkfæri í rannsóknum með góðum árangri. Þær geta komið að gagni þar sem rannsókn miðar að því að veita þátttakendum upplýsingar um hvernig betur mætti gera hlutina (Hitchcock og Hughes 1995:322). Þessi rannsóknaraðferð nýtist kennurum best, því að tilgangur hennar er að segja frá félagslegum aðstæðum við eðlilegar kringumstæður, þ.e. í skólanum eða á vinnustað. Það er hægt að nota vettvangsathuganir til að prófa ríkjandi kenningar eða starfsemi í hversdagslegu umhverfi, og eins er hægt að nota þær til þess að þróa nýjar kenningar eða bæta ríkjandi starfshætti. Niðurstöður slíkrar rannsóknar geta því nýst leikskólakennurum í starfi.

Hálfopin viðtöl voru tekin við börnin til að komast að því hvað þeim fannst um tölvunotkun. Ungum börnum geta þótt einstaklingsviðtöl undarleg og því eru litlir rýnihópar hentugri fyrir börn á leikskólaaldri (Mauthner 1997). Smáhópur með þremur börnum á sama aldri og sama kyni er sú aðferð sem er við hæfi þegar verið er að tala við ung börn (Mauthner 1997). Börn hafa þörf fyrir að tala um ýmislegt er varðar líf þeirra og er því ekki úr vegi að hafa viðtalsrammann víðan og leyfa börnunum að hafa eitthvað að segja um viðtalsefnið að einhverju leyti (Mauthner, Mayall og Turner 1993). Stuðst var við leiðbeiningar sem Doverborg og Samuelsson (2000:2546) hafa gert um hvað þarf að hafa í huga þegar verið er að taka viðtöl við börn. Þar kemur fram að mikilvægt sé að börnin séu vel undirbúin þannig að þau viti hvað standi til og hvenær. Í viðtalinu þarf að gæta þess að gefa börnunum nægan tíma til að svara spurningunum. Mikilvægt er að hafa spurningarnar þannig að börnin geti sagt frá og lýst því sem þau eru að hugsa. Einnig er talið mikilvægt að rannsakandi þekki börnin.

Teikning og önnur skipulögð verkefni geta verið góð kynning á viðtalsspurningum. Sú aðferð getur reynst vel fyrir eða á meðan á viðtali stendur og getur reynst hjálp fyrir börn til að einbeita sér að rannsóknarefninu (Backett og Alexander 1991, Turner 1991, Mayall 1993).

Í ljósi þessa ákvað ég að taka viðtöl við þrjú börn í einu af sama kyni og á sama aldursárinu. Í hverjum leikskóla tók ég viðtöl við þrjár stúlkur og þrjá drengi. Mér gafst því miður ekki tækifæri til þess að kynnast börnunum áður en viðtölin voru tekin en þau höfðu þó séð mér bregða fyrir og voru snemma farin að kalla mig „tölvukonuna“.

Hálfopin viðtöl voru tekin við starfsfólk leikskólana, en þau henta vel til að athuga reynslu, skynjun og fyrirætlanir fólks sem gefur rannsakanda og viðmælanda sveigjanleika. Kosturinn við slík viðtöl hefur verið talinn sá að þau gefa viðmælanda möguleika á að koma með nýja sýn eða víkka út sjónarhorn umræðuefnisins. Viðmælandi eða viðmælendur geti fremur haft áhrif á framgang viðtalsins en ef um staðlaðan spurningalista með opnum svarmöguleikum væri að ræða. Í hálfopnum viðtölum er gjarnan stuðst við viðtalsramma sem byggir á þemum eða sviðum þeim sem óskað er eftir að ræða í viðtalinu. Viðtalsformið gefur færi á að fara fram og til baka innan rammans (Hitchcock og Hughes 1995:157160).

Þetta er sú tegund viðtala sem ég studdist við og gekk ég út frá ákveðnum viðtalsramma sem byggði á þeim atriðum sem mér fannst mikilvægt að fá svör við. Viðtölin voru tekin upp á segulband og afrituð.

Með því að safna gögnum með mörgum aðferðum eru meiri líkur á að heildarmynd fáist af því sem verið er að rannsaka. Samkvæmt Hitchcock og Hughes (1995:323) tengist réttmæti í eigindlegum rannsóknum því að nota fleiri en eina aðferð við öflun gagna. Áreiðanleiki verður fyrst og fremst metinn með samanburði á fyrirliggjandi gögnum og rannsóknarniðurstöðum og með því að skoða rannsóknaraðferðir.

Niðurstöður Tölvunotkun barna í tveimur leikskólum

Á leikskólanum Furu er áhersla lögð á frjálsan leik. Eftir morgunmat og samverustund fá börnin að velja sér viðfangsefni og dvelja við það eins lengi og hugur þeirra girnist. Við þessar aðstæður ríkir ákveðið frelsi og börnin fá tækifæri til að gera sínar eigin uppgötvanir í leik. Í frjálsum leik er álitið að börnin séu á eigin forsendum og þar fer fram mikið nám. Þau svæði sem í boði eru fyrir börnin eru heimastofa, listasvæði, hreyfisvæði og tölvusvæðið fyrir eldri börnin við hlið listasvæðis og matsals. Yngri börnin hafa aðgang að tölvu inni á einni deildinni. Þegar börn höfðu ákveðið að leika sér á tölvusvæðinu hjálpaði starfsfólk leikskólans þeim að kveikja á tölvunni og fylgihlutum en síðan sáu þau sjálf um að velja forrit, ákveða hver stjórnaði músinni og hversu lengi þau vildu vera í tölvunni.

Á Furu var tölvusvæði í opnu miðrými í leikskólanum, þar sem aðstaða er fyrir hreyfileiki með mottur og trambolín. Einnig er svæði fyrir listsköpun og þar eru einnig borð og stólar. Þar er vítt til veggja og hátt til lofts og stórir gluggar á einni hlið. Við vegg sem snýr að annarri deildinni er langt borð með tölvu og fylgihlutum á. Fyrir framan borðið eru tveir stólar og annar þeirra er með bílsæti á. Þegar ég fylgdist fyrst með voru börnin að koma úr samverustund. Stúlka settist í bílsætið og fékk hjálp frá starfskonu við að kveikja á tölvunni og ræsa forritið Múmínálfar á siglingu. Hún fór að klæða Múmínpabba í föt. Önnur stúlka settist hjá henni og fylgdist með. Tvær stúlkur settust við borð nærri tölvusvæðinu og fóru að perla. Þrír drengir gengu framhjá, litu á það sem var að gerast á skjánum en héldu síðan annað. Stúlkan við tölvuna valdi aðra valmynd í forritinu og drengur bættist í hópinn. Hann settist við hlið stúlkunnar, við hliðina á þeirri sem hélt um músina. Þau fylgdust með því sem var að gerast á skjánum. Stúlkan sem horfði á sagði: „nú má ég“ en stúlkan sem hélt um músina sagðist ekki vera búin. Eftir nokkurn tíma skipti stúlkan sjálf um forrit, hætti í Múmínálfunum og valdi sér á skjánum forritið KidPix. Þar lék hún sér með hringi og form og teiknaði eina mynd. Stúlkan og drengurinn fylgdust með. Drengurinn benti henni á að velja stimpla, sem hún gerði og hann benti henni á það sem hún átti að velja af þeim. Liðnar voru 35 mínútur og stúlkan hélt enn um músina. Eftir að hafa leikið sér með stimplana ákváðu börnin að hætta í tölvunni. Börnin fengu því sjálf að ráða því hversu lengi þau sátu við og hversu lengi þau héldu um músina. Þau voru látin meta það sjálf hversu langan tíma þeim fannst þau þurfa við tölvuna.

Skipulagðar tölvustundir á leikskólanum Hóli eru við annars konar aðstæður en frjálsan leik. Stjórn er meira í höndum starfsmanns en í frjálsum leik þar sem börnin ráða ferðinni að mestu leyti. Í skipulögðum tölvustundum sér sami starfsmaður um hópa barna í ákveðinn fjölda skipta. Börnunum er skipt niður í hópa og eru það elstu börn leikskólans eða svokallaður skólahópur sem fær skipulagðar tölvustundir. Gert er ráð fyrir að sami hópurinn fari í skipulagða tölvustund þrisvar sinnum að hausti. Það skipulag sem stuðst er við er byggt á þróunarverkefni sem unnið var á leikskólanum Mánabrekku og Sólbrekku á Seltjarnarnesi. Fyrst er farið yfir umgengnisreglur við tölvuna (Leikskólarnir Mánabrekka og Sólbrekka 2001:33). Þær eru fáar en einfaldar og eru leiðbeiningar um góða tölvuumgengni. Síðan er farið yfir grunnatriði varðandi tölvur og fylgihluti hennar, hvað þeir heita og hvaða hlutverki þeir gegna. Þá eru forrit ræst og farið stig af stigi í ákveðin forrit sem starfsmaður hefur valið. Börnin skiptast á með skipulögðum hætti og eru jafn lengi í hvert skipti. Auk tölvustundanna hafa börnin aðgang að tölvu í heimastofu sinni í vali. Þar geta þau prófað sig áfram sjálf í þeim forritum sem farið hefur verið yfir í skipulögðum tölvustundum. Þegar gagnasöfnun stóð yfir var fyrsta tölvustund vetrarins og börnin höfðu ekki haft aðgang að tölvu fram að því. Skipulögðu tölvustundirnar fóru fram á skrifstofu leikskólastjóra og voru þar fimm börn í einu ásamt starfsmanni. Raðað var þremur til fjórum stólum við skrifborð leikskólastjóra og sat starfsmaður hjá börnunum. Skrifstofa leikskólastjóra er með glugga á einum enda hennar, hillur eru meðfram öðrum veggnum og skrifborð á hinum með tölvu og fylgihlutum hennar.

Á Hóli fylgdist ég með fyrstu skipulögðu tölvustund vetrarins. Hún stóð yfir í 45 mínútur. Það er sá tími sem fer í venjulegt hópastarf hjá þessum börnum, en þau tilheyra hópi elstu barna leikskólans. Það er tilviljanakennt hversu margir drengir og stúlkur eru í hverjum hópi, en í þessum hópi voru þrjár stúlkur og tveir drengir. Elva, sem er umsjónarmaður tölvustunda, raðaði upp fjórum stólum fyrir framan skrifborðið og börnin settust þar. Elva fór yfir umgengnisreglur við tölvuna, en í þeim kemur fram að fullorðnir ræsa og slökkva á tölvunni og lögð er áhersla á að gengið sé vel um tölvubúnaðinn. Börnunum var bent á að vera með hreinar hendur og að taka tillit til félaga sinna og að vinna saman. Síðan fór Elva yfir tölvubúnaðinn og nöfnin á honum. Börnin fylgdust áhugasöm með og ræddu sín á milli um fyrri kynni sín af tölvu. Elva sussaði á þau og sýndi þeim forritið Leikver. Hún valdi einn möguleika í því og sýndi börnunum hvað þau ættu að gera. Síðan tók hvert barnið við af öðru og prófaði að gera tíu sinnum, eða þar til forritið gaf þeim bikar að launum fyrir rétt leystar þrautir. Börnin voru hvött til þess að hafa hljóð á meðan og gátu því lítið spjallað um það sem fyrir augu bar. Þegar allir höfðu prófað valmöguleikann Maja mörgæs var farið í Magga málar og Hvað á Villi að velja? með sama fyrirkomulagi. Þegar allir voru búnir að prófa alla valmöguleika forritsins var tölvustundinni lokið.

Viðhorf barnanna

Börnin voru öll sammála um að það væri gaman í tölvunni og drengur bætti því við að það væri rosalega gaman í tölvunni. „Af því bara“ og „bara“ voru svörin sem gefin voru við því af hverju væri gaman í tölvunni.

Börnin voru dugleg að tjá sig um það sem þeim fannst skemmtilegast að gera í tölvunni og ein stúlka svaraði:

Fara í Dýraland og mála og fara í búðina og kaupa eitthvað að borða.

Drengirnir virðast vera hrifnir af keppnum og verðlaunum en þeim fannst skemmtilegast að:

Vinna leikinn, það eru svona fiskar og ef maður fær 20 þá vinnur maður það og maður á að sækja allt og síðan vinnur maður það og ef að maður finnur rétt föt á Múmínpabbann.

Mér finnst skemmtilegast að vinna allt og fara í stýrishúsið. Þar stýrir maður heim í Múmíndalinn. Ef maður lendir í sjónum þá þarf maður að fara aftur til baka. Ef maður sekkur og svo eru sjóræningjar og kolkrabbar eða hákarlar. Hattifattarnir koma straum í mann. Það fer bara framhjá. Það er erfiðasta brautin, hún er erfið. Það er erfiðast að fara eftir.

Það er hægt að klæða Múmínpabbann í sjóræningjaföt og allt og þegar hann fær rétt föt þá fer hann svona upp.

Á ég að segja í Múmínálfaleik á að stjórna honum. Maður ýtir á alla takka og örvarnar og maður á að finna Orra álf. Ef maður finnur hann strax, þá á maður að leita allsstaðar, þá kemur bara ný mynd, það eru Múmínálfar allsstaðar. Stundum er skrímsli að stríða mér.

Í Múmín eru allskonar leikir, vinna skipið og fara í allskonar feluleiki. Ef maður fær þrjá bikara þá fær maður að stýra skipinu. Í Reiknibílnum byggir maður hús, fer á byggingarsvæðið.

Öll börnin höfðu aðgang að tölvu heima og sögðust flest fara ein í hana og gera sjálf. Aðgengi barnanna að tölvum virtist hafa áhrif á það hversu klár börnunum þótti þau vera í tölvunni en stúlkurnar sögðu:

Stelpur vita meira bara af því að strákarnir eru alltaf uppi en stelpurnar niðri (þar sem tölvan er).

Mamma er miklu meira í tölvunni en pabbi í vinnunni.

Lítum á önnur svör stúlknanna:

Strákar eru klárir af því að pabbi er svo klár í leiknum sínum, hann lætur engan skjóta sig.

Strákar eru klárir af því að pabbi minn fer oft í flugvélaleik og þá getur hann flogið yfir sjóinn.

Pabbar af því að þeir eru svo klárir.

Drengirnir voru ekki eins hógværir. Svör drengjanna voru eftirfarandi:

Strákar eru klárari af því að ég veit mikið um tölvur.

Ég líka.

Ég líka og systir mín.

Það eru til gameboy-tölvur, rafmagnstölvur og alvöru tölvur og playstation-tölvur.

Ég veit um allar tölvurnar.

Pabbi minn veit ekki neitt um tölvur og ekki mamma mín. Hún er bara vitlaus í þessu. Mamma mín og pabbi kunna heldur ekki neitt.

Vitið þið hvað, mamma mín og pabbi kunna bara að tapa, bara tapa og tapa.

Forsendur tölvunotkunar í leikskólastarfi

Viðmælendur mínir töldu að viðhorf starfsfólks til þess að börnin notuðu tölvur væru jákvæð. Litið var svo á að tölvur væru efniviður sem ætti að vera í boði fyrir börnin en ekki mikilvægari efniviður en annar. Þar sem skipulagðar tölvustundir voru hafði leikskólastjóri skólans þetta að segja um viðhorf starfsfólks:

Mér finnst það vera jákvætt. Þetta er ekkert aðalaatriði í starfinu, við bjóðum bara upp á þetta eins og annan efnivið. Við reynum að skapa jákvætt viðhorf með því að hafa þessar tölvustundir og sjá til þess að stelpur jafnt sem strákar fái svona kynningu.

                                                                        (Ólöf leikskólastjóri á Hóli)

Það voru sömu áherslur á Furu, að gera ekki tölvustarfið að neinu aðalatriði í starfi leikskólans:

Almennt held ég að viðhorfið hjá starfsfólkinu sé jákvætt en við höfum alltaf talað um tölvuna sem eitt af atriðunum í húsinu, ekki meira og ekki minna.

                                                                        (Helga leikskólastjóri á Furu)

Þó gætti efa um það sem verið var að gera, óvissunnar um að verið væri að gera rétt:

Ég held að starfsfólkið sé jákvætt en ég held að það sé líka hugsandi og það kemur inn á að við höfum alltaf fengið fræðsluna á báða vegu, hvað er jákvætt og hvað er neikvætt.

                                                                        (Helga leikskólastjóri á Furu)

Óvissan um að verið væri að gera rétt kom frá fleiri aðilum:

Mér heyrist viðhorf starfsfólks bara vera mjög jákvætt og hef ekki heyrt neitt annað. Ætli það sé ekki eitthvert kunnáttuleysi og þá eru þær eitthvað smeykar við að skipta sér af.

                                                                        (Elva umsjónarmaður á Hóli)

Viðmælendum þótti mikilvægt að þekking á tölvunotkun og barnauppeldi héldust í hendur í starfinu. Það voru þó ekki sömu aðilarnir sem stóðu vel á báðum sviðum. Eitthvað virðist þekking á tölvum hafa með aldur að gera:

Við gerðum svona könnun á þekkingu og viðhorfi starfsfólks og auðvitað vantaði ýmislegt upp á, sérstaklega hjá eldri konunum, það er heldur minni þekking en hjá þeim yngri ... Það eru helst þessar yngri sem eru áhugasamar og hafa sýnt áhuga.

                                                                        (Ólöf leikskólastjóri á Hóli).

Eldra fólkið, sem hefur meiri reynslu og þekkingu, faglega þekkingu, það er hrætt við tölvuna, á meðan yngra fólkið er miklu hæfara að fara áfram með tölvuna en hefur þá kannski ekki eins mikla reynslu í barnauppeldi.

                                                                        (Helga leikskólastjóri á Furu)

Leikskólastjórar beggja leikskólanna höfðu verið hvatamenn að tölvunotkun barnanna og sýnt þessum þætti áhuga og velvilja. Í báðum leikskólunum var sérstakur „umsjónarmaður tölvustarfs“, eins og það var kallað. Misjafnt var eftir skólum í hverju það fólst og hversu vel það var skilgreint. Umsjónarmaður tölvustarfs á Hóli var ekki með fagmenntun en hafði mikinn áhuga á tölvum og hvernig þær gætu nýst í leikskólastarfi. Umsjónarmaður tölvustarfs á Furu var með leikskólakennaramenntun og var í framhaldsnámi í tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi við Kennaraháskóla Íslands.

Rekstraraðilar þeirra leikskóla sem rannsóknin nær til höfðu hvorki gert áætlanir um tölvuvæðingu leikskólanna né gert ráð fyrir rekstrarfé sérstaklega í þetta starf. Leikskólastjórarnir höfðu verið ótrúlega útsjónarsamir og bjargað sér á því sem til staðar var. Það sama á við um hina faglegu hlið málsins en starfsfólk leikskólanna sótti í fræðin m.a. á námskeiðum á vegum Kennaraháskóla Íslands og með því að yfirfæra þá þekkingu sem það hafði á öðru leikskólastarfi yfir á tölvunotkunina.

Leikskólastjórinn á Hóli hafði þetta að segja um aðkomu rekstraraðila að starfinu:

Það hefur verið skipaður starfshópur á vegum rekstraraðila en það hefur ekki komið nein áætlun frá þeim. Þar hefur verið rætt um heimasíðugerð og annað. Við erum með þessa heimasíðu í vinnslu og vorum að bíða eftir því að það kæmi eitthvað út úr þessari vinnu (starfshópsins) en það hefur ekki gerst.

Kostnað við starfið hafði leikskólastjóri Furu tekið af öðru starfi leikskólans:

Við höfum rekið heimasíðuna á okkar kostnað. Fjármagn hefur ekki komið frá rekstraraðila, við höfum borgað blekið, það fylgir þessu mikil bleknotkun og hún er dýr en það þýðir að við höfum bara minna rekstrarfé fyrir leikskólann. Það er ekkert sem hefur verið eyrnamerkt þessu starfi.

Samantekt og umræða

Misjafnt var hvernig tölvur voru notaðar í leikskólum þeim sem rannsakaðir voru. Þrjár skipulagðar tölvustundir voru í boði fyrir öll fimm ára börn annars leikskólans og á þann hátt var þá komið til móts við þá kröfu að gæta þess að öll börn leikskólans noti tölvu. Einnig gátu börnin valið að fara í tölvu með félögum sínum í heimastofu. Þar sem tölvur voru notaðar í frjálsum leik var þess ekki gætt að öll börnin notuðu tölvuna. Fór það eftir áhugasviði þeirra hvort þau notuðu hana og hversu mikið. Þá er hætta á því að einhver börn noti tölvuna mikið og önnur ekki og er einnig talið að drengir séu duglegri að fara í tölvuna þegar aðgengi að henni er frjálst. Skortur á viðeigandi tölvubúnaði, fáar tölvur og lélegt aðgengi að þeim virðist hamla því að tölvur séu notaðar sem sjálfsagður búnaður í leikskólunum. Sá hugbúnaður sem notaður var á leikskólunum voru innan við tíu forrit, sem telst ekki mikið miðað við t.d. bókakost leikskóla. Það á því enn langt í land að börn geti valið úr fjölbreyttu safni forrita að kanna.

Í rannsókninni kom fram að starfsfólk leikskólanna hafði verið að prófa sig áfram með staðsetningu á tölvusvæði fyrir börnin. Á Hóli hafði verið tilhneiging til þess að setja tölvur í sérherbergi þar sem starfsfólki fannst truflun af þeim inni á leikskóladeildinni. Ekki var gefið svigrúm fyrir samskipti á milli barnanna í skipulögðum tölvustundum og áhersla lögð á að þau hefðu hljóð. Þá fengu börnin ekki tækifæri til að viðra hugsanir sínar varðandi það sem þau voru að upplifa við tölvuna. Einnig hafði tölva verið staðsett í listasmiðju barnanna og sóttu börnin mikið í að nota hana þar. Starfsfólki fannst það hafa neikvæð áhrif á skapandi starf í smiðjunni og flutti tölvuna þaðan inn á deild. Af því má sjá að hafa verður í huga hvaða áhrif tölvunotkun hefur á annað starf barna í leikskólanum, finna henni heppilegan stað og stund.

Nokkurrar óvissu hefur gætt varðandi það hvort og hvernig eigi að kenna börnum á tölvur í leikskólum. Þróunarverkefni hafa verið unnin á nokkrum leikskólum þar sem lagt hefur verið upp með skipulagða kennslu á tölvur í sérherbergjum (Leikskólarnir Sólbrekka og Mánabrekka 2001:4). Leiðir að markmiðum breyttust þó í því þróunarverkefni þar sem hugmyndir starfsfólks um það hvernig börn læra á tölvur breyttust (Leikskólarnir Sólbrekka og Mánabrekka 2001:29). Í stað beinnar kennslu, sem var notuð í upphafi þróunarverkefnisins, var í lok þess lögð áhersla á að börnin lærðu í gegnum leik og með því að uppgötva sjálf. Óöryggi og reynsluleysi starfsfólksins gagnvart tölvum, og þá sérstaklega börnum og tölvum, gerði að verkum að athyglin beindist um of að tækinu sjálfu í stað barnsins.

Rannsóknin gefur vísbendingu um að börn geti sýnt sjálfstæði í tölvunotkun sinni og fannst börnunum þau ekki þurfa mikla hjálp frá starfsfólki að öðru leyti en að kveikja og slökkva á tölvunni. Börnin sóttu frekar aðstoð til annarra barna ef þörf var á. Hugmyndir sem byggja á kenningum Vygotskys eru áhugaverðar í þessu samhengi (Vygotsky 1978:135). Vygotsky lagði áherslu á að þróun væri byggð á samskiptum milli barna og milli barna og fullorðinna og að kennsla og þróun væru samvirk/gagnvirk (e. interactive). Kenning hans um þroskasvæði (e. zone of proximal development) gerir ráð fyrir náms- og þroskaferli þar sem félagsskapur og samvinna við duglegri félaga eða kennara gegnir mikilvægu hlutverki þar til barnið hefur öðlast færni og þekkingu sem það getur beitt af eigin rammleik.

Viðhorf barna til tölvunotkunar er mjög jákvætt. Þeim finnst rosalega gaman í tölvunni. Fram kemur í svörum munur á því hvað drengjum og stúlkum finnst skemmtilegast að gera í tölvunni. Mikilvægt er að gæta þess að sá hugbúnaður sem notaður er í leikskólum höfði til beggja kynja. Það kom einnig fram í svörum barnanna að það hversu fáar tölvur eru á leikskólum fyrir börn og hve slæmt aðgengi þau hafa að þeim hefur áhrif á það hvort þau vilji vera ein í tölvunni eða með félaga. Þeim fannst þau þurfa að bíða svo lengi eftir að fá að gera sjálf. Tölvunotkun meðal barna virðist vera félagsleg athöfn, þar sem samræður barna skipa stóran sess og þarf að leggja áherslu á samstarf barna við tölvuna í leikskóla.

Börnunum fannst gaman að nota tölvu og voru dugleg að tjá sig um það sem þeim fannst skemmtilegast að gera í tölvunni. Drengirnir voru þó uppteknari af verðlaunum og því að vinna leiki en stúlkurnar af því að mála eða fara í búð að kaupa. Þetta er í samræmi við rannsóknir Lawry (Margrét Pála Ólafsdóttir 2000) sem hafa sýnt að drengir nota tölvur öðruvísi en stúlkur. Einnig eru þessar niðurstöður í samræmi við könnun Kristínar Norðdahl (1998).

Varðandi það hversu klár börnunum fannst þau vera í tölvunni, þá svöruðu stúlkurnar því til að stelpurnar vissu meira af því að drengirnir væru ekki þar sem tölvurnar voru. Annars fannst þeim að strákarnir hlytu að vera klárari af því að pabbar þeirra væru svo klárir. Drengjunum fannst þeir vita allt um tölvur og töldu upp nokkur nöfn á tölvum, eins og rafmagnstölvur og alvöru tölvur. Sjálfmetin færni kynjanna hefur verið rannsökuð nokkuð. Í ástralskri rannsókn á leikskólabörnum voru börnin spurð að því hvort stúlkur eða drengir væru færari á tölvu eða hvort þau væru jafn fær (Elliot 1988:7). Þriðjungi stúlknanna fannst þær bestar en sextíu prósentum drengjanna fannst þeir bestir. Í rannsókn Sólveigar Jakobsdóttur (1999) um kynjamun tengdan tölvunotkun í íslensku skólastarfi komst hún að svipaðri niðurstöðu. Sjálfmetin tölvutengd færni var meiri hjá drengjunum en stúlkunum. Drengir í rannsókn Sólveigar voru meira sammála því að þeir væru „mjög klárir“ að nota tölvu.

Í rannsókn minni kemur fram að viðhorf þess starfsfólks, sem rætt var við, til tölvunotkunar í leikskólastarfi eru jákvæð og það bindur vonir við að tölvan verði góð viðbót við annað starf í leikskólanum. Það virðist vera sammála um að tölvur í leikskólum eigi rétt á sér og gefi börnum frekari tækifæri til leikja.

Í ljós kom að undirstaða eða kunnátta starfsfólks leikskóla, sem rætt var við, til að nota tölvur markvisst í leikskólastarfi er takmörkuð. Tækniþekking virðist tengjast eitthvað aldri starfsfólks, þar sem yngra starfsfólkið býr yfir meiri færni í tæknikunnáttu en eldra starfsfólkið meiri færni í uppeldi ungra barna. Að mati viðmælenda var lítil formleg menntun á sviði tölvunotkunar barna í leikskólum fyrir hendi og litlir möguleikar á endurmenntun. Starfsfólk leikskólanna hafði sótt ýmsa þá menntun sem í boði er um tölvur í leikskólastarfi og virtist hún nýtast þeim í starfi sínu. Með tilkomu tveggja eininga námskeiðs í upplýsingatækni á leikskólabraut Kennaraháskóla Íslands er tryggt að leikskólakennarar sem útskrifast þaðan hafi ákveðna grunnþekkingu á upplýsingatækni. Námskeið um börn og tölvur er að mínu viti mikilvægt grunnatriði, þar sem fjallað er um þá þætti sem tengjast þroskavænlegri notkun tölvu með ungum börnum. Nauðsynlegt er að flétta saman þjálfun í almennri tölvufærni og þjálfun á sviðum sem sérstaklega þarf að hafa í huga varðandi notkun tölva í skólastarfi.

Tölvutæknin gefur möguleika á nýbreytni í uppeldi ungra barna. Í augum hluta starfsfólks leikskóla er tölvutæknin enn nýjung og gætir óvissu um það hvernig hana eigi að nota í þágu uppeldisstarfsins. Ekki eru allir sammála því að börn á leikskólaaldri eigi að læra að nota tölvur. Sumir uppalendur telja þeim tíma sem barn eyðir fyrir framan tölvuna betur varið í annan leik. Þeir telja að fjölbreyttur leikur við fjölbreytt viðfangsefni, þykjustuleik og sköpun gefi mikilvægari reynslu en tölvunotkun (Ejefors 1997:20). Aðrir telja að tölvunotkun þröngvi upp á leikskólabörn kunnáttu og færni sem þau eru ekki tilbúin til að beita (Cuffaro 1995:562). Í rannsókn minni kom fram að börn virtust hafa mjög gaman af tölvunotkuninni og notuðu tölvuna sem leikfang til leikja. Þau forrit sem börnin notuðu voru ekki kennslumiðuð, heldur miðuðust þau við það að börnin gerðu sínar uppgötvanir sjálf í leik. Starfsfólk leikskólanna var jákvætt gagnvart tölvunotkun barnanna og ekki heyrðust gagnrýnisraddir í þá veru að tíma barnanna væri betur varið í annan leik.

Rannsókn mín gefur til kynna að afstaða leikskólastjóra til tölvunotkunar skipti verulegu máli og að frumkvæði þeirra og stuðningur hafi mikla þýðingu. Í viðtölunum kom fram að leikskólastjórarnir láta þó aðra um að sjá um starfið og leggja mikið upp úr því að starfsmannahópurinn sé með í ráðum þegar fjallað er um tölvustarfið og skipulag þess. Það þykir góð stjórnunaraðferð að fela starfsfólki að axla ábyrgð á afmörkuðum verkefnum og hafa umsjón með því. Fullan (1992:50) bendir á að þegar tölvur komu fyrst í skólana voru kennarar almennt illa undir það búnir og fáir höfðu þá kunnáttu sem til þurfti. Algengt var að frumkvöðlar tækju forystu og yrðu sjálfskipaðir umsjónarmenn. Oft var óljóst hvor bar ábyrgðina á tölvumálum skólans, skólastjórinn eða umsjónarmaðurinn. Þessa skipan mála mátti sjá í rannsókn minni, þar sem að í báðum leikskólunum var ákveðin umsjónarmaður sem bar ábyrgð á tölvustarfi leikskólans en hann fékk stuðning og hvatningu frá leikskólastjóranum. Mikil áhersla var lögð á það í báðum leikskólunum að starfsmannahópurinn væri með í ráðum þegar fjallað er um tölvustarfið og skipulag þess.

Búnaður við hæfi er skilyrði fyrir því að nota tölvur í leikskólastarfi. Af viðmælendum mínum mátti heyra að ekki hafi verið gert ráð fyrir tölvubúnaði handa börnunum í leikskólana af hendi rekstraraðila þó svo að næstum fjögur ár væru liðin síðan Aðalnámskrá leikskóla (1999) leit dagsins ljós. Samkvæmt henni ber að sjá leikskólabörnum fyrir aðgangi að tölvum.

Sveitarfélög þurfa að gera átak í tölvuvæðingu leikskóla, bæði hvað varðar búnað fyrir börnin og starfsfólkið og einnig hvað varðar endurmenntun starfsfólks til þess að uppfylla ákvæði Aðalnámskrár leikskóla um tölvur í leikskólastarfi. Börn í leikskólum eiga ekki að þurfa að nota tölvur sem eru orðnar úreltar og úr sér gengnar, heldur verður að gera þá kröfu á hendur sveitarfélaga að yngsta skólastigið fái jafn góðan búnað og er í boði á eldri stigum. Einnig þarf að gera ráð fyrir viðhaldi á tölvubúnaði og ráðgjöf hvað varðar notkun.

Lokaorð

Samþætting tölvunotkunar við námssvið leikskólans krefst undirbúnings, skipulags og þekkingar starfsfólks og er væntanlega næsta skref í þróun tölvustarfs í leikskólum. Þar þarf að koma til betri grunnmenntun leikskólakennara í að nota tölvur með börnum. Bjóða þarf uppá endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi leikskólakennara og annað starfsfólk leikskóla um þá möguleika sem gefast til þess að samþætta tölvunotkun öðrum leik og námi barna. Einnig mætti hugsa sér námskeið í tölvunotkun barna sem lyti að margmiðlun, sköpun, málörvun, menningu og samfélagi svo að fátt eitt sé nefnt.

Látum leikskólann endurspegla það samfélag sem við búum í og þann búnað sem þar er í notkun. Leyfum börnunum að kynnast þeim verkfærum sem notuð eru til náms og notum leikinn sem námsaðferð. Leyfum þeim að njóta félagsskapar hvert af öðru og eiga samtal við félaga sína. Verum þeim innan handar um stuðning og hvatningu en gefum þeim svigrúm til þess að „gera sjálf“.

Heimildir

Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Reykjavík. Menntamálaráðuneytið.

Appelberg, L. og M.L. Erikson. 1999. Barn erövrar datorn – en utmaning för vuxna. Lund, Studentlitteratur.

Backett, K. og H. Alexander. 1991. Talking to children about health: methods and findings. Health Educational Journal 50(1):3438.

Cassell, J. og H. Jenkins. 1998. Computer games for girls: What makes them play? From Barbie to mortal Kombat: gender and computer games (ritstj. J. Cassell og H. Jenkins), bls. 20. Cambridge, MIT press.

Clements, D., B.K. Nastasi og S. Swaminathan. 1993. Young children and computers: Crossroads and directions from research. Young Children 48(2):5664.

Clements, D. 1998. Young Children and Technology. ERIC Document Reproduction Service ED 416 991.

Cuffaro, H. 1984. Microcomputers in Education: Why is earlier better? Teachers College Record 85(4):560568.

Doverberg, E og I. P. Samuelsson. 2000. Att förstå barns tankar. Stockholm, Liber.

Ejefors, L. 1997. Det finns annat än datorer. Forskolen 8:2022.

Elliot, A. 1988. Sex typing of Young Children´s Behaviors in a Computer Active Preschool Classroom. Project Report. ERIC Document Reproduction Service ED 302 334.

Fatouros, C., T. Downes og S. Blackwell. 1994. In Control, Young Children learning with Computers. Wentworth Falls, Social Science Press.

Félag leikskólakennara. 2000. Leikskólastefna. Reykjavík, Félag leikskólakennara.

Fullan, M. G. 1992. Successful school improvement. Buckingham, Open University Press.

Griffiths, M.D og N. Hunt. 1995. Computer game playing in adolescence: Prevalence and demographic indicators. Journal of Community and Applied Social Psycology 5:189193.

Haugland, S. og J. Wright. 1997. Young Children And Technology. Needham Heights, Allyn and Bacon.

Healy, J. M. 1998. Failure to Connect. New York, Touchstone.

Hitchcock, G. og D. Hughes. 1995. Research and the Teacher. A Qualitiative Introduction to School-based Research. New York, Routledge.

Jessen, C. og B. Andersen. 1999. Det kompetente börnefællesskab. Leg og læring omkring computeren. Sótt 10. október 2002. http://www.hum.ou.dk/center/kultur/cj/kompe.htm

Joiner, R. 1996. Gender, Computer Experience and Computer based Problem Solving. Computer Education 26:57.

Katz, J.K. 1996. Socio-pedagogical issues affecting computer assisted instruction and learning. The impact of technology. From practice to curriculum. London, Chapman og Hall.

Kópavogsbær. 2002. Áætlun um tölvur og tölvunotkun í leikskólum Kópavogs. Kópavogur.

Kristín Norðdahl. 1998. Riddarar og drekar eða blóm og lítil dýr: Rannsókn á kynjamun í tölvunotkun leikskólabarna. Kennaraháskóli Íslands. [Óbirt verkefni.]

Leikskólarnir Mánabrekka og Sólbrekka. 2001. Skapandi notkun tölvu í leikskólastarfi. Seltjarnarnes, Seltjarnarnesbær. [Skýrsla til þróunarsjóðs leikskóla.]

Margrét Pála Ólafsdóttir. 2000. Gengi Hjallabarna í grunnskóla. Hefur kynjaskipt leikskólastarf áhrif á færni, líðan og viðhorf stúlkna og drengja þegar í grunnskóla er komið? Kennaraháskóli Íslands. [Óbirt meistararitgerð.]

Mauthner, M. 1997. Methodological Aspects of Collecting Data from Children: Lessons from Three Research Projects. Children and Society 11:1628.

Mayall, B. 1993. Keeping healthy at home and school: It´s my body so it´s my job. Sociology of Health and Illness 15:4.

Minkel, Walter. 2000. Does not Compute. School Library Journal 46:12.

NAEYC. 1996. Position Statement on Technology and Young Children, Ages 3 through 8. Washington, D.C, NAEYC.

Natan, R. 1995. The Effects of Gender, Program Type and Content on Elementary Children´s Software Preferences. Journal of Research on Computing in Education 27(3):35.

Nelson, C. S. 1995. The Computer Gender Gap: Children´s Attitudes, Performance and Socialization. Montessori Life 7:3335.

Papert, S. 1993. The Children´s Machine. Rethinking School in the Age of the Computer. New York, Basic.

Piaget, J. 1951. Play, Dreams and Imitation in Childhood. London, Routlegde and Kegan Paul LTD.

Piaget, J. 1971. The Science of Education and the Psycology of the Child. New York, Viking.

Silverman, D. 2000. Doing Qualitative Research. A Practical Handbook. London, SAGE Publications Ltd.

Sólveig Jakobsdóttir. 1996. Elementary School Computer Culture: Gender and Age Differences in Student Reactions to Computer Use. University of Minnesota. [Óbirt doktorsritgerð.]

Sólveig Jakobsdóttir. 1999. Tölvumenning íslenskra skóla: kynja- og aldursmunur nemenda í tölvutengdri færni, viðhorfum og notkun. Uppeldi og menntun 8:119140.

Subrahmanyam, K. og P. Greenfield. 1998. Computer games for girls: What makes them play? From Barbie to mortal Kombat: gender and computer games (ritstj. J. Cassell og H. Jenkins), bls. 2527. Cambridge, MIT press.

Turner, S. 1991. Research into children´s understanding about food and diet what are the implications for teaching? Teacher Education in the Nineties: Towards a New Coherence 2:349362.

Vygotsky, L.S. 1978. Mind in society: The development of higher psychological processes. Cambridge, MA: Havard University Press.

Þuríður Jóhannsdóttir. 2001. Veiðum menntun í netið. Um námskenningar og nýja miðla og áhrif þeirra á nám og kennslu. Kennaraháskóli Íslands. [Óbirt M.Ed-ritgerð.]