Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 29. mars 2004


Svanborg R. Jónsdóttir

Nýsköpun í grunnskóla

Skapandi skóli í tengslum við raunveruleikann

Í greininni segir frá nýjum og spennandi vaxtarsprota í grunnskóla, nýsköpunarkennslu. Höfundur segir frá tildrögum nýsköpunarkennslu á Íslandi, námsefni á þessu sviði, reynslu af nýsköpunarkennslu í sveitaskóla á Suðurlandi og hugmyndaríkum nemendum sem komið hafa fram með margar gagnlegar og skemmtilegar hugmyndir um nýja nytjahluti. Bent er á að hönnun nytjahluta er einkar vel til þess fallin að vekja áhuga og tengja nám daglegu umhverfi nemenda. Einnig segir frá alþjóðlegu samstarfi um nýsköpunarkennslu í InnoEd-verkefninu, námi fyrir kennara um nýsköpun og árlegri nýsköpunarkeppni grunnskóla á Íslandi. Höfundur er nýsköpunarkennari við Brautarholts- og Gnúpverjaskóla.

Námsgreinin nýsköpun

Undanfarin átta ár hefur í Gnúpverjaskóla sem nú er Brautarholts- og Gnúpverjaskóli verið kennd námsgrein sem þeim sem hér skrifar þykir ná betur til fleiri nemenda en flest önnur viðfangsefni. Höfundur heldur því líka fram að námsgreinin sé í skýrari tengslum við daglegt líf nemenda en margt annað sem nemendur fást við í skóla. Þetta er námsgreinin nýsköpun en hún er helst þekkt vegna nýsköpunarkeppni sem haldin er á hverju ári meðal grunnskólanemenda.

Upphaf nýsköpunarkennslu á Íslandi má rekja til þess þegar Paul Jóhannsson, sem þá var kennari við Tækniskóla Íslands, vildi koma á nýsköpunarkeppni hér á landi. Hann hafði verið við kennslu í Svíþjóð og kynnst þar samskonar keppni, Finn upp, þar sem börnum er gefið tækifæri til að senda inn uppfinningar og hönnunarhugmyndir. Paul flutti nokkra fyrirlestra til að vinna þessu máli fylgi.

Í október árið 1989 var haldinn fræðslufundur á vegum Námsgagnastofnunar. Í framhaldi af þeim fundi hófst samstarf Pauls Jóhannssonar og Guðrúnar Þórsdóttur kennsluráðgjafa á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Í heilt ár leituðu þau að kennara til samstarfs.

Í nóvember 1990 varð Gísli Þorsteinsson smíðakennari í Foldaskóla þátttakandi í samstarfinu og myndaður var samstarfshópur sem í voru Guðrún Þórsdóttir, Paul Jóhannsson, Gísli Þorsteinsson og Bragi Einarsson uppfinningamaður. Hópurinn starfaði óslitið til 1998. Helstu verkefni hópsins voru að móta í samvinnu við kennara nýsköpunarstarf í grunnskóla og skipuleggja og framkvæma Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda. Markmið keppninnar voru meðal annars að vekja athygli á hæfileikum barna til nýsköpunar og vekja áhuga í grunnskólum fyrir nýsköpun í skólastarfi.

Fyrsta Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda var haldin 20. apríl 1992 í Tækniskóla Íslands. Hún vakti strax mikla athygli innan skólanna, í fjölmiðlum og atvinnulífi. Mikið starf fór í hönd við að þróa nýsköpun í skólastarfi og móta hugmyndafræðina sem var grundvallaratriði fyrir framhaldið. Keppnin óx hratt og örugglega og fór úr 75 umsóknum í fyrstu keppninni í yfir í 3000 umsóknir. Þróun skólastarfsins hófst í Foldaskóla og nokkrum árum síðar varð skólinn móðurskóli í nýsköpun. Hann er það enn árið 2004.

Sumarið 1992 unnu Bragi Einarsson og Guðrún Þórsdóttir að gerð vasaminnisbókar sem fékk heitið Bókin hans Braga og hefur æ síðan verið ómissandi í nýsköpunarferli nemenda. Guðrún Þórsdóttir og Gísli Þorsteinsson unnu meðal annars að þróun námsefnis og settu saman efni undir yfirskriftinni Frumkvæði sköpun. Námsefnið var kennt í Foldaskóla veturinn 19931994. Kennararnir sem kenndu efnið voru mjög ánægðir með það og vildu halda kennslunni áfram. Kennararnir sögðust sjá mun á börnunum og líka mun á því hvernig þau sjálf nálguðust nám barnanna. Nemendurnir létu líka í ljós ósk um að halda áfram með nýsköpun og sama máli gegndi um foreldra sem höfðu samband við skólann.[1]

Rósa Gunnarsdóttir hóf kennslu við Foldaskóla 1993 sem náttúrufræðikennari og veitti athygli því nýsköpunarstarfi sem Gísli og Guðrún stóðu fyrir. Hún taldi sig sjá að starf þeirra hefði skýr áhrif á nemendur sem hún var að kenna náttúruvísindi (Rósa Gunnarsdóttir 2001). Rósa og Gísli hófu samstarf sem leiddi af sér gerð námsefnis undir heitinu Nýsköpun og náttúruvísindi. Efnið var fullbúið árið 1996 og geymir meðal annars námsefnið úr Frumkvæði sköpun. Námsefnið spannar fjögur námsár og er hugsað fyrir nemendur á aldrinum níu til tólf ára. Þar má finna umfjöllun um hugmyndafræði nýsköpunarkennslu, stuðningsefni fyrir kennarann ásamt kennsluefni og kennsluáætlunum. Námsefninu er ætlað að ýta undir og örva sköpunargáfu barna með því að kenna þeim ákveðnar vinnuaðferðir og sérstakt tjáningarform (orðfæri og teikningar). Efnið var líka samið með það fyrir augum að hjálpa kennurum að koma til móts við nemendur sem einstaklinga, gera kennurum kleift að gegna því hlutverki sínu að bjóða nemendum upp á mismunandi leiðir í námi og hugsun. Eitt meginmarkmiðið með efninu er að nemendur móti með sér ígrundaða og sjálfstæða sjálfsmynd sem uppfinningamenn. Námsefni þetta hefur verið notað í Foldaskóla og fleiri íslenskum skólum sem grunnurinn að formlegri kennslu í nýsköpun sem námsgrein.

Nýsköpun var tekin inn í aðalnámskrá grunnskóla árið 1999 og komið fyrir í námskrá um upplýsinga- og tæknimennt. Þar er hún án sérstakrar tímaúthlutunar sem þverfagleg námsgrein og er skólastjórnendum í sjálfsvald sett hvort þau nýta sér markmiðin til að samþætta við aðrar námsgreinar (Aðalnámskrá grunnskóla Upplýsinga- og tæknimennt 1999). Stungið er upp á þremur leiðum til að koma nýsköpun fyrir í skólastarfi:

1. að samþætta við tíma annarra greina.
2. að nýta eigin ráðstöfunartíma fyrir greinina eða
3. að blanda leið 1 og 2 saman.

Fjórða leiðin er einnig til sem sumir skólar hafa notað og hún er sú að bjóða upp á nýsköpun sem námskeið utan skólatíma og er það þá greitt af sveitarfélaginu aukalega.

Í námskránni er nýsköpunarkennslan meðal annars rökstudd á eftirfarandi hátt:

Atvinnulíf nútímans byggist í vaxandi mæli á þekkingu og hugmyndavinnu. Umhverfi þess er síbreytilegt vegna sífelldra nýjunga í tækni og þekkingu. Til að takast á við þetta atvinnuumhverfi þurfa einstaklingar að geta aðlagast nýjungum á skjótan hátt, komið auga á möguleika nýrrar þekkingar, auk þess að búa yfir færni í að hagnýta nýja þekkingu og vinna úr henni verðmætar afurðir. (1999:31)

Ennfremur segir í námskránni:

Tilgangurinn er að efla siðvit nemandans og frumkvæði gegnum skapandi starf þar sem nemandi þjálfast í kerfisbundnum aðferðum við að útfæra hugmyndir sínar frá fyrstu hugdettu til lokaafurðar. (1999:31)

Í aðalnámskránni frá 1999 segir að hún skuli að fullu vera komin til framkvæmda eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku. Á haustmánuðum 2003 voru innan við 20% íslenskra grunnskóla að kenna nýsköpun sem námsgrein, samkvæmt megindlegri spurningakönnun sem greinarhöfundur gerði (Svanborg R. Jónsdóttir 2003). Í rannsókninni kemur fram talsverður áhugi á kynningum á nýsköpun fyrir kennara og stjórnendur skóla og má því telja ljóst er að ástæða lítillar útbreiðslu nýsköpunakennslu sé fremur skortur á þekkingu á námsgreininni en áhugaleysi. Trúlega má líka rekja ástæður lítillar útbreiðslu til þess að námsgreinin fær ekki sérstaka tímaúthlutun í viðmiðunarstundaskrá. Þarft væri að skoða nánar hvað tefur almenna útbreiðslu námsgreinarinnar nýsköpun í íslenskum grunnskólum.

Margar góðar uppfinningar

Greina mætti frá mörgum mjög góðum hlutum sem krakkarnir í Gnúpverjaskóla hafa fundið upp. Sumar þessara uppfinninga hafa hlotið sérstaka athygli eða viðurkenningar og aðrar ekki. Ein þeirra hugmynda sem hlaut nokkra athygli fyrir nokkrum árum var hönnun eftir Valgerði Kristmundsdóttur í Haga í Gnúpverjahreppi. Þetta var svonefndur vandamálaleysir til að auðvelda fjölskyldum að taka á ýmsum vandamálum.

 

Vandamálaleysirinn Þarfaþing

Valgerður Kristmundsdóttir í Haga afhendir forsætisráðherra Þarfaþing
á sjöttu nýsköpunarkeppni grunnskóla árið 1997.

 

Hugmynd Valgerðar var að vandamál væru skrifuð á blað og þeim stungið í vandamálaleysinn, fallega hannaðan þríhyrningslagaðan kassa“ sem síðar fékk nafnið Þarfaþing. Síðan átti fjölskyldan að halda fund einu sinni í mánuði og taka vandamálin fyrir og reyna að leysa þau en setja þau óleystu í kassann aftur. Þessi hugmynd hlaut þann heiður að búin var til málmslegin frumgerð úr fallegum viði sem Valgerður afhenti Davíð Oddssyni forsætisráðherra að gjöf. Ríkisstjórn Davíðs hefur setið við völd síðan.

 

Dælubrúsi undir tannkrem

Hér sést uppfinning sem er lausn á því vandamáli að tannkremstúpur eru svo sóðalegar á stútnum.
Vandinn er leystur með því að nota dælubrúsa með tannkremi í örlítið þynnra formi
en við eigum að venjast. Þessi hönnun er eftir Auði Gróu Valdimarsdóttur á Stóra-Núpi.

 

Þrifalegi hænsnafóðurkassinn

Hönnun þeirra Einars Einarssonar á Heiðarbrún og Guðna Björgvins Guðnasonar í Laxárdal
var einföld en afar árangursrík útfærsla á fóðurkassa.  Hænur geta alls ekki
saurgað kassann með úrgangi sínum að sögn þeirra kaupenda sem reynt hafa vöruna.
Þarna var fundin lausn á því vandamáli að hænur skíta í fóðrið sitt.

Hvað er gert í nýsköpunartímum?

Í nýsköpunarkennslu eru þjálfuð nokkur grunnatriði sem lögð eru til grundvallar í námsefninu Nýsköpun og náttúruvísindi. Eins og fram kom hér á undan spannar námsefnið fjögur námsár.

Eitt meginatriði í námsefninu er svokölluð þarfaleit en þá eiga nemendur að finna þarfir (vandamál) í umhverfi sínu. Þar er strax komin skýr tenging við þeirra eigið líf en námsefni í ýmsum greinum hefur gjarnan verið því marki brennt að vera í litlum tengslum við þann veruleika sem nemendur þekkja best. Nóg er til af þörfum eða vandamálum í daglegu lífi nemenda. Eitt af því sem er svo skemmtilegt við þessa námsgrein er að námið, eins og það birtist í þarfaleit og úrlausnum, endurspeglar óvenju vel samfélag og umhverfi nemenda. Hér eru dæmi um vanda eða þarfir sem börnin í sveit höfundar hafa fundið:

 • Skítugir traktorar

 • Lausgangandi hænur skíta í fóðrið sitt

 • Plastið á heyrúllunum rifnar

 • Hundar bíta hver annan

 • Maður fær í sig rafmagn af að klifra yfir rafmagnsgirðingar

 • Það er erfitt að komast upp á hesta

 • Skólabílar eru lengi á leiðinni í skólann

 • Dýr klóra sér á girðingarstaurum og skemma þá, brjóta þá

 • Það er ekkert pláss fyrir stóru heyrúllurnar

 • Það er erfitt að kaupa jarðir sem kosta margar, margar milljónir

 • Fjósagallar vilja týnast

 • Göt á rúlluböggum

 • Í mjólkurhúsinu hellist niður mjólk

 • Hestar týnast

 • Höft á beljum eru ekki nógu sterk

Þetta eru bara örfá dæmi en við eigum orðið safn af þörfum í skólanum, sem skipta hundruðum og eru sumar þeirra sammannlegar og gætu fundist í flestum eða öllum samfélagsgerðum.

Í nýsköpuninni hagnýta börnin þá þekkingu sem þau búa að fyrir, nýta eigin reynslu. Tilgangurinn með frekari þekkingarleit liggur líka ljós fyrir börnunum. Nemendur leitast við að leysa vandamál úr eigin lífi, afla sér upplýsinga og leita lausna á vandamálum sem þau greina sjálf í sínu nánasta umhverfi. Við þetta verður til verðmæt þekking, bæði um leitina sjálfa og það sem út úr henni kemur.

 

Þarfaleit við skóla

Annað grunnatriði sem þjálfað er í nýsköpun er notkun lítillar minnisbókar sem nemendur eiga að bera með sér, helst alltaf. Litla nýsköpunarbókin er til þess að geta hvenær sem er rissað upp eða skrifað niður hugmyndir sem koma óvænt upp sem hugsanleg lausn á þörfum eða vandamálum. Rannsóknir á skapandi einstaklingum hafa sýnt að þeir nota gjarnan slíkar minnisbækur (Csikszentmihalyi 1996:78). Undirvitundin virðist oft vera að störfum þó að við gerum okkur ekki grein fyrir því og hugmyndir geta skotið upp kollinum á óvæntustu augnablikum.

Samþætting

Nýsköpunarnámsgreinin samþættir margar námsgreinar en eins og skólafólki er kunnugt hefur oft verið gagnrýnt að skólakerfið bútar tíma nemenda niður í margar námsgreinar sem tengjast lítið innbyrðis. Í nýsköpun er skilningur á tækni og vísindum aukinn með verkefnum á borð við hönnun drifbúnaðar. Íslenska er þjálfuð með hönnun á auglýsingum, miklum umræðum og fundarhöldum sem öll hafa sérstakan tilgang, t.d. að ákveða hvað á að gera við gróða sem verður til við sölu á vörum sem nemendur framleiða. Stærðfræði er þjálfuð með teikniaðferðum sem nemendur læra til að geta teiknað hugmyndir, aðferðir á borð við hlutfallateikningu, þrívíddarteikningu og skávörpun. Smíði kemur mikið við sögu þar sem nemendur útfæra eigin uppfinningar og hugmyndir um hönnun.

 

Þjálfun í hlutfallateikningu

Upplýsingatækni og tölvunotkun er nýtt með margvíslegum hætti; nemendur kynna sér gamlar uppfinningar, hafa samskipti við aðra nemendur, vinna teiknivinnu, búa til auglýsingar og afla sér upplýsinga á Netinu hvenær sem ástæða er til.

Tengsl við atvinnulíf

Í nýsköpun eru tengsl við lífið utan skólans ekki bara fólgin í þeirri nýsköpunarvinnu sem tengist lífi nemendanna gegnum þarfaleitina heldur komast nemendur í tengsl við atvinnulífið með heimsóknum í verksmiðjur eða á aðra vinnustaði. Þar skoða nemendur framleiðsluferil frá hráefni til fullunninnar vöru. Heimsóknin er gjarnan undirbúin í nýsköpunartímum og unnið úr henni þegar heim kemur.

 

Heimsókn í Kertasmiðjuna á Blesastöðum á Skeiðum

6.bekkur í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla heimsótti í febrúar 2003 tvær verksmiðjur á Selfossi; plastverksmiðjuna Plastiðjuna og röraverksmiðjuna Set og svo Kertasmiðjuna á Blesastöðum á Skeiðum. Einnig heimsækja eldri nemendur skólans í nýsköpuninni raforkufyrirtæki. Árið 2002 heimsóttu nemendur rafstöð Landsvirkjunar í Búrfellsvirkjun.

Það sem skapar hvað sterkust tengsl nemenda við umhverfið utan skólaveggja er svo að eitt árið halda börnin markað þar sem þau selja uppfinningar sínar og aðrar söluvænlegar vörur. Þar kynnast þau því að gera kostnaðaráætlun og markaðskönnun. Þau þurfa að hanna og finna upp vörur sem líklegar eru til að seljast og þurfa þá að spá í hvaða atriði skipta máli fyrir kaupandann; verð, útlit og gæði.

Hvers vegna nýsköpunarkennsla?

Meginmarkmið með nýsköpunarkennslu eru þessi:

 • að efla og auka trú á eigin sköpunargáfu

 • að kenna ákveðin vinnubrögð í hugmyndavinnu

 • að gera nemendur meðvitaða um gildi hluta og umhverfis

 • að skoða umhverfið og greina þarfir þess og vandamál

 • að þjálfa nemendur í að finna lausnir á þörfum í umhverfi sínu

 • að læra að meta notagildi og útlit uppfinninga

 • að gera nemendur að sjálfbjarga, ábyrgum einstaklingum

Eitt af því sem stefnt er að er með útbreiðslu nýsköpunarkennslu er að nýsköpun verið hluti af almennri menntun þannig að frumkvæði allra þjóðfélagsþegna eflist og nýsköpun verði hluti af daglegri hugsun fólks. Þetta hljómar kannski langsótt eða ómögulegt en höfundur hef séð þetta gerast í námi barna í nýsköpun. Frumkvæði barnanna eykst og trú þeirra á að þau geti gert eitthvað í ólíklegustu vandamálum. Nýsköpun hefur orðið hluti af daglegri hugsun þeirra. Vandamál verða jafnvel skemmtileg viðfangsefni, þrautir til að leysa. Þau læra nefnilega að lausnir geta verið margvíslegar og ólíkar, misgóðar og að stundum eru bestu lausnirnar þær sem hljóma fáránlega í fyrstu. Það þroskar siðvit barna þegar þau verða meðvituð um vandamál í samfélaginu og gera þau að sínum.

Eitt af því sem höfundur telur mikilvægast í nýsköpunarkennslunni er að börnin eru að fást við raunveruleg viðfangsefni og að nám þeirra endurspeglar nærsamfélag þeirra, námið snýst um áþreifanleg viðfangsefni utan skóla. Sköpunargáfa nemenda er styrkt með því að tengja hana við hversdagslífið eftir leiðum sem eru skiljanlegar. Oft koma börnin fram með mjög skemmtilegar hugmyndir án þess að taka eftir því að þau eru í leiðinni frjórri en þau héldu. Svo virðist sem að með aðferðum nýsköpunarinnar takist að gera miklu fleiri einstaklingum en gengur og gerist í skólastarfi kleift að vera skapandi.

 

Unnið að framleiðslu á vöru fyrir markað.

Fjölbreyttar námsleiðir eru nýttar í nýsköpun sem gerir það líklegra að hver nemandi finni eitthvað við sitt hæfi. Þar er hlustað og rætt, skrifað og teiknað, skoðað myndefni og lesefni, teiknað, reiknað, hannað, málað, smíðað og mótað, rætt saman í litlum hópum, tveir og tveir og í stærri hópum og svo þurfa allir að tjá sig áfundum í bekknum. Það þarf að leita á Netinu, teikna með tölvupenna, vinna í ritvinnslu, vinna á heimasvæðum, tala í síma til að afla upplýsinga, spjalla á spjallrás innan skólanets, skrá hugmyndir á eigin svæði og senda í keppni ef þau vilja. Svo er þjálfun í því að hugsa, skoða þarfir og leysa, hanna og koma frá sér skriflega, með teikningu og stundum með því að gera hlutinn sjálfan. Þá er nýting upplýsingatækninnar í nýsköpun nútímaleg viðbót með endalausum möguleikum. Hér á eftir verður sagt frá því hvernig við höfum notað upplýsingatækni í nýsköpun í Brautarholts- og Gnúpverjaskóla.

InnoEd-verkefnið, upplýsingatækni og nýsköpun

Brautarholts- og Gnúpverjaskóli hefur í þrjú ár verið þátttakandi í Evrópuverkefninu InnoEd sem er styrkt af Evrópusambandinu. InnoEd gengur út á að kenna nýsköpun með aðstoð upplýsinga- og tölvutækni og að útbreiða nýsköpun í Evrópu. Einnig er eitt af markmiðunum að þróa og prófa framhaldsnám í fjarnámi fyrir kennara í nýsköpun. Kennaraháskóli Íslands hefur umsjón með verkefninu. Fyrstu nemendurnir voru útskrifaðir með diplóma í október 2003 og höfðu þá lokið 30 ECT-eininga fjarnámi, sem samsvarar íslensku framhaldsnámi í háskóla til 15 eininga. Aðalkennarar voru í Englandi og á Íslandi. Nemendur voru starfandi kennarar frá Íslandi, Finnlandi, Noregi og Englandi.

 

Nemendur vinna á vefsvæði InnoEd.

Í InnoEd-verkefninu eru prófuð ýmis tæki í upplýsingatækninni, s.s. vefmyndavélar, tölvuteiknipennar og fleira og svo ýmis tilraunir um kennsluaðferðir með stuðningi upplýsingatækni. M.a. eru nemendur skólanna að vinna í sýndarveruleika í tölvunum þar sem þau fara inn sem ákveðnar persónur sem þau geta hreyft. Í þessum sýndarheimi geta þau átt samskipti við aðra nemendur bæði á ensku og íslensku og unnið verkefni í nýsköpunarvinnu. Nú er búið að setja upp nýsköpunarvefinn http://www.innoed.is þar sem hvert barn fær sitt heimasvæði og getur unnið með hugmyndir sínar, þarfir og lausnir. Vinna með upplýsingatækni fellur mjög vel að námi og kennslu í nýsköpun. Í tímum helguðum nýsköpun og upplýsingatækni höfum við þjálfað eftirtalda grunnfærniþætti:

 • að ræsa tölvuna og opna forrit

 • að nota tölvupóst

 • að fara inn á heimasvæði

 • að nota nemendasvæði

 • að teikna með teiknipenna

 • að skanna

 • að prenta

 • að flakka á vefnum

 • að nota leitarvél

 • að vinna í sýndarveruleika

 • að spjalla saman á spjallrás innan lokaðs svæðis

Auðvelt er að bæta við þessa þjálfun fleiri færniþáttum þar sem möguleikarnir eru miklir bæði innan nýsköpunarinnar og ekki síður á Netinu og í tölvunum sjálfum. Á heimasvæði innoed.is fá nemendur ýmis fyrirmæli en á nemendasvæði geta nemendur nálgast ýmis tól, búið til litla heimasíðu eða kynningu á sjálfum sér og unnið að hugmyndum. Það skal tekið fram að aðgangur að slíku er lokaður öllum utanaðkomandi, aðeins skólafólk og nemendur hafa aðgang að innra efni auk þess sem hægt er að rekja alla umferð um vefsetrið. Hægt er að skoða hluta vefsins án þess að skrá sig inn en skólar þurfa að hafa ábyrgðarmann til að hægt sé að skrá nemendur sem notendur.

Svo nefnd séu dæmi um verkefni þar sem nemendur fást við nýsköpun með stuðningi upplýsingatækni hafa nemendur m.a. leitað að þörfum eða vandamálum á Netinu og skoðað síður um uppfinningar. Aðalvinnan fer þó fram á innoed.is þar sem nemendur skrá þarfir sem þau hafa fundið, vinna með lausnir, ýmist ein eða með öðrum nemendum, teikna í teikniforriti eða með teiknipenna, senda inn lausnir í keppnina, ef þau kjósa og eiga samskipti við aðra nemendur á spjallrás eða í sýndarveruleika.

Í skólanum hjá okkur er kennd nýsköpun í 4., 5., 6. og 7. bekk. Þar hefur verið farin sú leið kenna fremur hefðbundna nýsköpun framan af en auka þátt upplýsingatækni eftir því sem ofar dregur. Þannig hefur 7.bekkur fengist mest við tölvu- og upplýsingatækni í tengslum við nýsköpun. Með hefðbundinni nýsköpun er átt við mikla verklega kennslu, áþreifanleg verkefni þar sem útfærslur eru mögulegar í tölvum en þeim er ekki beitt að miklu marki.

Nám um nýsköpun á vegum InnoEd

Greinarhöfundur hefur nýlokið 30 ECT-eininga diplómanámi í nýsköpun á vegum InnoEd-verkefnisins og hafði Kennaraháskóli Íslands umsjón með náminu sem var með fjarnámssniði. Kennarar voru dr. Rósa Gunnarsdóttir sem er verkefnisstjóri InnoEd og vinnur að rannsóknum við Háskólann í Leeds, dr. Catherine Burke kennari við Háskólann í Leeds og Gísli Þorsteinsson lektor við Kennaraháskólann. Þetta nám verður áfram í boði og þeim sem hafa áhuga á að leita upplýsinga um það er velkomið að hafa samband við höfund (svanborg@ismennt.is) eða Rósu Gunnarsdóttur (rosag@khi.is). Þess má einnig geta að greinarhöfundur stundar nú meistaranám við Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum með nýsköpun sem rannsóknargrein.

Nýsköpunarkeppnin

Á Íslandi er nú haldin árlega nýsköpunarkeppni grunnskólanna með talsverðum glæsibrag. Umsjónaraðili keppninnar er Kennaraháskóli Íslands. Vegleg verðlaun eru í boði, keppt er í fjórum flokkum og veitt þrenn verðlaun í hverjum flokki. Flokkarnir eru UF uppfinningar, ÚF útlits- og formhönnun, HB hugbúnaður og ÞV þemaverkefni og eru þemaverkefnin breytileg. Nokkur undanfarin ár hefur forseti Íslands afhent verðlaunin við hátíðlega athöfn og opnun sýningar þar sem gefur að líta lýsingar og teikningar á hugmyndum grunnskólanemenda, líkön og frumgerðir.

Auk verðlaunaafhendingar er starfrækt í tengslum við úrslitahátíðina nýsköpunarsmiðja þar sem úrvali hugmyndasmiða er boðin aðstoð við að útfæra hugmyndir sínar, gera veggspjöld, líkön og frumgerðir þar sem því er við komið. Allir grunnskólanemendur eru gjaldgengir í þessa keppni. Hægt er að senda hugmyndir í keppnina af netinu á vefslóðinni http://nkg.is/.

Lokaorð um nýsköpun

Vonandi er lesandinn einhvers fróðari um nýsköpunarkennslu eftir að hafa lesið þessi skrif. Höfundur er eins og þegar hefur komið fram, mjög hrifin af þessari námsgrein og telur hana ekki nógu útbreidda. Við Brautarholts- og Gnúpverjaskóla er reynt að örva sköpunarmátt barnanna og hefur nýsköpunin reynst góð leið til að virkja og efla tengsl á milli hversdagslífs utan skóla og sköpunargáfu í námi og kennslu innan veggja skólans. Í stuttu máli telur höfundur að nám og kennsla í nýsköpun efli sköpunargáfuna. Þetta telur höfundur ákaflega mikilvægt jafnt með tilliti til landsbyggðar, þjóðarhagsmuna og hnattrænna málefna. Hvort sem litið er til dreifðra byggða, landsins alls eða alþjóðasamfélagsins þurfum við á jákvæðum, frjóum og skapandi einstaklingum að halda. Einstaklingum sem eru færir um finna nýjar leiðir í atvinnu- og athafnalífi og geta leyst margvísleg vandamál sem að okkur steðja.
 

Aftanmálsgrein

 1. Sögulegt yfirlit um nýsköpunarkennslu hér í inngangi er byggt á doktorsritgerð Rósu Gunnarsdóttur og athugasemdum Guðrúnar Þórsdóttur kennsluráðgjafa.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. Upplýsinga- og tæknimennt. 1999. Reykjavík. Menntamálaráðuneyti.

Csikszentmihalyi, Mihaly. 1996. Creativity: Flow and the Psychology of Discovery and Invention. New York, Harper Perennial.

Rósa Gunnarsdóttir. 2001. Innovation Education: Defining the Phenomenon. Leeds, England. School of Education, The University of Leeds.

Svanborg R. Jónsdóttir. Desember 2003. Nýsköpunarkennsla í grunnskólum á Íslandi 2003. Tölfræðileg rannsókn. Óbirt skýrsla, verkefni í tölfræðinámskeiði við uppeldis- og menntunarfræðiskor Háskóla Íslands.