Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 18. september 2003

Heimir Pálsson

In the Company of Shakespeare

Afturhvarf til Bessastaðaskóla

Í greininni segir af kynnum höfundar og nemenda hans af einkar forvitnilegri og markverðri tilraun Donyu Feuer prófessors við Kennaraháskólann í Stokkhólmi. Feuer hefur átt langvinna samvinnu við breska skáldið Ted Hughes og sænska þjóðarleikhúsið Dramaten um vinnu með texta Shakespeares í grunnskóla og kennaramenntun. Greinin er að stofni til fyrirlestur á vegum Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands fluttur 27. nóvember 2002. Höfundur er dósent við Kennaraháskóla Íslands en gegnir sem stendur kennslu- og rannsóknarstöðu við Háskólann í Uppsölum.


Síðla árs 2001 gafst höfundi þessarar greinar færi á að kynnast verkefni sem staðið hafði í drjúgan áratug í grunnskólum í Stokkhólmi og víðar. Það hefur heitið In the Company of Shakespeare (ITCOS) og er kennslufræðitilraun sem unnin er í samvinnu Dramaten, þjóðarleikhúss Svía, og Kennaraháskólans í Stokkhólmi. Frumkvöðullinn er ekki kennslufræðingur heldur kóreógraf og leikstjóri, Donya Feuer, sem þó studdist mjög við samræður sem hún hafði átt um 20 ára skeið við Ted Hughes, lárviðarskáld Englendinga. Í þessum skrifum verður greint frá verkefninu og stöðu þess í ársbyrjun 2003.

Hugmyndin

Donya Feuer hefur greint svo frá að það hafi verið árið 1976 sem hún hnaut um verk Ted Hughes A Choice of Shakespeare’s Verse, undanfara bókarinnar The Essential Shakespeare, sem Hughes valdi í efni og skrifaði inngang að. Þarna er öllu blandað saman, sonnettum og leikritabútum, söngvum og lögð áhersla á sjálfstætt líf allra textanna með því að láta þess ekki getið nema í heimildaskrá við bókarlok hvaðan hver bútur er fenginn. Með þessu gekk Ted Hughes á hólm við hefðina, því eins og hann segir sjálfur í formála sínum: „Ef marka má flestar sýnisbækur enskra bókmennta orti Shakespeare aðeins sonnettur og söngva.“ En, segir Hughes, eintölin og vangavelturnar í leikritunum eru ekki síður sjálfstæð listaverk ef þau eru tekin út úr samhenginu. Það þarf ekki að velta neinu samhengi fyrir sér til þess að njóta eintals Macbeths sem hefst með orðunum „To-morrow, and to-morrow and to-morrow …“ og lýkur á hinni frægu niðurstöðu um lífið „... it is a tale / Told by an idiot, full of sound and fury, / Signifying nothing.“ „... það er saga / þulin af fífli, full af fyrirgangi / en innihaldslaus með öllu.“ 

The Essential Shakespeare í útgáfu Ted Hughes

Þessi skilningur Hughes varð Donyu Feuer að hugljómun og hún hófst þegar handa að semja leikhúsverkið Soundings, eintal leikkonu á áttræðisaldri með öll stóru hlutverkin í blóðinu; útgangspunkturinn textaval Ted Hughes úr verkum Shakespears. Upp úr þessu hófust símtöl og bréfaskipti milli Hughes og Feuer og stóðu í tæp tuttugu ár en á þeim tíma hittust þau aðeins einu sinni. Afrakstur samræðnanna varð hins vegar bókin Shakespeare and the Goddess of Complete Being (1992) sem Ted Hughes tileinkaði Donyu Feuer enda var bókin sett saman úr fimmtíu og fjórum bréfum sem hann hafði skrifað henni vorið 1990.

Þetta sama vor hafði Donya Feuer að eigin sögn byrjað að vinna í leiksmiðju með tveim tíu ára drengjum með ljóðlínuna „Take, O take those lips away“, sem ættuð er úr leikritinu Líku líkt (Measure for Measure) og lýsing hennar á því ferli er mikilvæg: „... beginning with just the physical effort of the saying of the words in English, then over to their rough Swedish translations, making it then possible to return to and ’use’ the original text.“ Þetta eru lykilorð að því sem hér verður enn sagt um þá kennslufræðilegu tilraun sem hófst í kjölfarið og er ekki lokið.

Hugmynd Donyu Feuer og Ted Hughes var margþætt. Í fyrsta lagi vildu þau gefa börnum og unglingum tækifæri til að tileinka sér bókmenntatexta. Þau lögðu áherslu á að það væri gert á frummáli skáldsins, þannig að börnin fengju strax tilfinningu fyrir að það væri framandi texti og forn, dulúðugur, eitthvað allt annað en bíómyndaenskan, staðfesting þess að sú tunga væri ekki bara sett saman af tveim orðum, sjitt og fökk.[1]

Í öðru lagi var draumurinn að börnin fengju þjálfun í að fara með textann, fyrst í kór, síðan með öllum mögulegum tilbrigðum, ein sér eða í smáhópum. Þetta felur ekki í sér það sem við köllum leikræna tjáningu heldur er vinnan textamiðuð, það eru orðin og setningarnar sem verða konfektmolarnir sem smjattað er á.

Í þriðja lagi var hugmyndin sú að börnin fengju að koma í heimsókn í leikhúsið og fara með textann sinn, helst af öllu á stóra sviðinu. Þessar leikhúsheimsóknir eru vitanlega líka hugsaðar sem leikhúskynning og litið svo á að með þeim sé verið að mennta leikhúsgesti framtíðarinnar.

Í fjórða lagi verður enski textinn tilefni til mikilla samræðna um tungumál. Börnin glíma sjálf við að þýða línurnar sínar, að sjálfsögðu með aðstoð fullorðinna. Þau giska, ræða málin og velta vöngum. Það var ótrúlega gaman að fylgjast með heilum bekk glíma við málsgreinina: „A fool! I met a fool in the forest!“, en sú lína á rætur í Jónsmessunæturdraumi. Þegar verið var að spá í þýðinguna á orðinu ’fool’ ljómaði allt í einu einn níu ára snáðinn upp og sagði: „Ég þekki svoleiðis úr Hamlet!“ Einhvern veginn var það ekki þetta sem maður átti von á en sýndi vissulega að textasafn nemendanna er sundurleitt og aldrei að vita hvað kemur að haldi.

Raunar var það einmitt svona sem móðurmálin voru kennd á dögum Shakespeares í Englandi og víðar og allt fram um miðja nítjándu öld hér. Frægasta og rómaðasta íslenskukennsla sem fram hefur farið er kennsla Sveinbjarnar Egilssonar og þeirra félaga á Bessastöðum. Og þar var vel að merkja ekki kennd nein íslenska. Þar var kennd latína, þar var kennd gríska, þar var kennd hebreska og til þess að læra þær tungur voru notaðar þýska og danska og svo var öllu saman snúið á íslensku! Vitanlega er freistandi að segja sem svo að líklega gegni nú öðru máli þegar fullorðnir nemendur eiga í hlut en börn á skólaskyldualdri. Og að sjálfsögðu er það rétt, auðvitað hljóta umræðuefnin að markast af nemendunum. En sænskir kennarar sem ég hef rætt við eru á einu máli um að í glímunni við Shakspeare-textana læri nemendur meiri sænsku en í mörgum sænskutímum! Og víkur nú sögunni nánar að framkvæmdum.

Veruleikinn

Framan af var um að ræða einfalda samvinnu milli Konunglega leikhússins Dramaten og einstakra grunnskóla í Stokkhólmi en árið 1996 hófst formlegt samstarf Dramaten og Kennaraháskólans í Stokkhólmi og það ár var Donya Feuer ráðin prófessor við skólann. Síðan hefur kennaranemum boðist að leggja stund á sem nemur 5–20 einingum í þessari kennsluaðferð og til leiðsagnar við þá og kennara sem vinna vilja með þessum hætti hefur Donya Feuer stuðning af Will’s Company, sem svo er kallað en það eru kennaranemar og kennarar sem sjálfir hafa verið In the Company of Shakespeare um mörg ár.

Eftir að til samstarfs Dramaten og Kennaraháskólans í Stokkhólmi kom hefur smám saman vaxið upp hópur kennara, „kennarasveitin“, sem hefur tileinkað sér aðferðina og sá hópur hittist reglulega á Dramaten til þess að þróa kennsluna og ræða kennslufræðitilraunina. Því þetta snýst umfram allt um kennslutækni og kennslufræði. Fyrrverandi rektor Kennaraháskólans í Stokkhólmi, sálfræðingurinn Bengt Börjesson, hefur skrifað:[2]

„Til þess að breyta veruleikanum þarf maður fyrst að eignast mál til að lýsa honum með.“ Hvaða ráðum á að beita til að gera börnum og unglingum kleift að gera þá stórfenglegu uppgötvun að þau búi yfir máli – eða öllu fremur að þau geti þroskað með sér mál – sem geti opnað reynsluheim þeirra fyrir þeim sjálfum? Getum við aðstoðað ungmennið við að finna hið ósvikna í sjálfu sér og að endurskilgreina tilvist sína frá þeim útgangspunkti? Er hægt að blása ungmennum þeim sjálfsskilningi í brjóst sem gefur þeim kraft til að gera uppreisn gegn menningarlegu arðráni og gerir þeim kleift að skilgreina fund sinn og umheimsins út frá eigin sjálfsvirðingu?

Þetta eru svo stórar spurningar að við þeim eru einungis til ófullkomin svör. Þær eru samt sem áður forsendan fyrir því menningarlega og uppeldisfræðilega verkefni sem hér verður lýst og Kennaraháskólinn í Stokkhólmi, Grunnskólar Stokkhólms, Dramaten, Kulturhuset og Svenska institutet hafa sameinast um. Umfram allt felur verkefnið í sér nýsköpun kennaramenntunar og „uppeldishlutverks“ skólans, þar sem farin er leiðin um texta Shakespeares til þess að mæta nemendum í hinum tilvistarlega miðpunkti – sjálfsmyndarsköpuninni. – Verkefnið á sér háleitt markmið því það stefnir umbúðalaust að því að skapa andóf gegn yfirborðsmennsku og skeytingarleysi.

Og í framhaldi af þessum orðum skrifaði sálfræðingurinn:

Viðteknar hugmyndir um forsendur náms og takmarkanir náms gilda ekki. Leikræna sköpunin sprengir bæði hið efnislega og táknræna uppeldisfræðirými!

Hér er ekki af setningi slegið, eins og Grímur Thomsen hefði orðað það og vitanlega er Börjesson málið skylt þar sem hann réð Donyu Feuer sjálfur í prófessorsstöðu við skólann með þeirri yfirlýsingu að þarna væri svo merkileg tilraun á ferð að hann teldi einsýnt að Kennaraháskólinn ætti að eiga hlut að henni.

Eftir að kennari hefur fengið ofurlitla þjálfun í vinnubrögðum, tileiknað sér hugmyndafræði verkefnisins og opnað augun fyrir fjölbreytilegum möguleikum sem það býður upp á, getur hann hafist handa, því í raun skapar hann aðferðina um leið og hann prófar hana. Og hann umturnar aldeilis ekki kennslu sinni. Shakespeare-verkefnið tekur í mörgum tilvikum ekki nema tíu mínútur á viku. Það veltur reyndar á áhuga nemendanna, kannski eru teknar tíu mínútur tvisvar í viku, en þung áhersla er lögð á að þessi þjálfun kemur ekki í staðinn fyrir annað nám. Ýmislegt bendir hins vegar til að hún geti haft umtalsverð áhrif á annað nám.

Bekkjarvinnan hefst með ofurlítilli kynningu á Shakspeare. Kannski er hún mestmegnis fólgin í að fiska eftir því sem nemendur vita eða hafa heyrt um hann. Í flestum bekkjum kannast einhver við einhverja titla, veit að þetta er löngu dauður kall. Það getur gefist vel að benda á að hann lauk aldrei námi heldur hætti og sneri sér að vinnu við leikhúsið, að hann var sjálfur leikari og að leikhóparnir á hans dögum voru gjarna farandleikarar þó svo leikhúsið hans væri alllengi á sama stað.

Síðan stingur kennarinn upp á að nemendur skoði í sameiningu eina línu úr leikriti eftir Shakespeare. Og þessi upphafslína er alltaf sú sama:

When my cue comes, call me! Call me, and I will answer – I will answer.

Séu nemendur læsir má nota sér það, annars er bara að læra línuna utan bókar, í sameiningu, og fara smám saman með hana í kór. Þetta er grundvallaratriði: að byrja með kórinn; þannig er skapað sameiginlegt verkefni fyrir bekkinn. Að vísu bara þá nemendur sem vilja vera með, því enginn er neyddur til þátttöku. Reynslan sýnir hins vegar að allir vilja smám saman vera með.

Á meðfylgjandi glefsu úr kynningarmyndbandi um verkefnið má sjá eitt dæmi um hvernig bekkur kýs að flytja þennan texta.


 


 

MYNDSKEIÐ 1  (WMV – 0,8 MB)

Sænskir nemendur flytja textabrot úr einu af leikritum Shakespeares:

 When my cue comes, Call me, and I will answer – I will answer.

Kórinn verður að vera samstilltur, allir að byrja í einu, og þar gegnir lurkurinn eða stafurinn lykilhlutverki. Við eigum því að venjast að kallað sé til sýningar í leikhúsi með bjöllu eða ljósabliki. Þannig erum við, leikhússgestir, kölluð inn í sal. Á dögum Shakespeares var þetta gert með því að berja í bumbu eða gólfið. Þrjú högg gátu kallað leikhúsgesti til salar, sjö eða níu högg kölluðu leikarana á svið. Allir sem unnið hafa með leikrænum aðferðum við kennslu munu gera sér grein fyrir að höggin 3+9 valda sviðskiptum fyrir nemendur. Þeir eru ekki lengur í kennslustofunni, þeir eru á afmörkuðu óðali þar sem tilheyrir að fara með leiktextann. Og smám saman er hægt að fara að gera allskonar tilraunir með textann. Það er ekki lagt neitt kapp á afskaplega lærðan framburð heldur að tileinka sér orðin, velta þeim upp í sér, finna hvernig er hægt að nota þau, hvernig skapa má hrynjandi með því að skipta textanum niður á hópinn, hver smáhópur fer bara með eitt orð og þá verða allir að hlusta til að vita hvenær þeir eiga að koma inn og hvenær þeirra „cue comes“.

Það fer allt eftir aðstæðum, aldri nemenda, áhuga þeirra o.s.frv. hversu lengi er unnið með þessa fyrstu línu. En stundum endist hún heilt misseri, jafnvel heilt ár. Hún er flutt á ímynduðum sviðum, uppi á borði, undir borði, hvar sem hugmyndaflugið segir til um. Svo fær bekkurinn að koma í heimsókn í leikhúsið og flytja Shakespeare á stóra sviðinu!

Og nú er brotinn ísinn og þá er hægt að vinna áfram. Það er gert með ýmsu móti, stundum einfaldlega með nýrri línu en samstarf kennaranna gerir líka mögulegt að fara aðra leið. Þegar Stokkhólmur var menningarborg Evrópu árið 1997 komu milli 6 og 8 þúsund nemendur að ’boðflutningi’ á Shakespeare. Það gerist einfaldlega þannig að hver nemendahópur tileinkar sér örfáar línur, ákveður hvernig hann fer með þær og kemur inn á réttum stað í boðflutningi, þar sem einn leysir annan af, sýningin einkennist af snöggum stílskiptum því nemendur hafa ólíkar skoðanir á því sem verið er að flytja. Tvö leikrit hafa einkum verið notuð þannig, Jónsmessunæturdraumur og Ofviðrið og þá í styttri gerð Ted Hughes.

Íslenski draumurinn

Víkur nú sögunni til Íslands. Það var, eins og áður sagði, á síðustu mánuðum ársins 2001 sem mér gafst kostur á að kynnast verkefninu In the Company of Shakespearae. Eftir stuttan undirbúning en snarpan fórum við Þuríður Einarsdóttir, klippari og persónulega kunnug Donyu Feuer, síðan á bak jólum til Svíþjóðar og sóttum kynningu á verkefninu á Dramaten 18. til 21. janúar 2002. Þessi heimsókn varð til þess að ég taldi einboðið að leita leiða til að kynnast málinu nánar, tókst með atbeina rektors Kennarháskólans að fá fjárstyrk frá menntamálaráðuneyti sem og frá Nemendafélagi Kennaraháskóla Íslands (nú Stúdentaráði) og í febrúar árið 2002 dreifði ég meðal þriðja árs nema kynningu þar sem meðal annars stóð:

Þrem til fjórum kennaranemum stendur til boða að fara til Stokkhólms 19.–23. apríl í vor og taka með 100 öðrum kennaranemum (sænskum, dönskum og e.t.v. norskum) þátt í því að flytja stytta útgáfu af The Tempest í Kulturhuset i Stokkhólmi. Undirbúningur er í höndum Heimis Pálssonar og hann kynnir málið nánar í stofu M203 mánudaginn 18. febrúar klukkan 16:00. Menntamálaráðuneyti greiðir ferðakostnað, Svíar kosta gistingu og uppihald.

Mánudaginn 18. febrúar, einmitt þegar þriðja árs nemar eiga að vera á kafi í að skrifa lokaritgerðina, fór þessi kynning fram og daginn eftir var búið að velja þátttakendur, og sem betur fer tók ég þá áhættu að velja fleiri en fjóra og treysta því að mér tækist að afla peninga. Þátttakendalisti breyttist að vísu síðar örlítið en kennaraefnin sem með mér fóru til Stokkhólms í apríl árið 2002 voru:

Benedikta Birgisdóttir
Bryndís Jónasdóttir
Gissur Jónsson
Halla Leifsdóttir
Stefanía Ragnarsdóttir og
Unnur María Sólmundardóttir

Suma þessara kennaranema þekkti ég áður, aðra ekki. Hins vegar sannfærðist ég fljótt um að þarna er á ferðinni einvalalið. Varðar það miklu um framhaldið. Þessi hópur, ásamt Kára Halldóri, Þuríði Einarsdóttur og höfundi þessarar greinar, kallar sig nú Villavini og ætlar að vinna að framgangi og þróun ITCOS á Íslandi næstu árin.

Áður en til Stokkhólms var farið voru haldnar býsna margar æfingar (minnst vikulega) þar sem skoðaður var styttur texti Ofviðrisins, bæði á frummáli og íslensku, og studdumst við þar einkum við þýðingu Eiríks Magnússonar fræðimanns í Cambridge. Var það gert með ráðum Donyu Feuer að nota gamla þýðingu til þess að undirstrika að þetta er fornlegur texti, ekki nútímamál, og þessi aðferð hefur verið notuð í Svíþjóð. Styttingu textans hafði Ted Hughes unnið sérstaklega fyrir verkefnið.

Eftir fyrstu fundina þar sem við lásum leikritið og ræddum lá fyrir að velja texta sem við vildum vinna með. Það tók ekki langan tíma að sameinast um bölbænir Kalibans og annan smákafla þar sem Trinkúló kemur að ófreskjunni Kaliban og veltir fyrir sér hvað þetta sé eiginlega. Fyrsta hugsunin er að það sé fiskur enda ýldulykt af því og það laðaði börn útgerðarþjóðarinnar einmitt að þeim textabút. Dæmið sem hér birtist sýnir hugsanlega ólíkar sjálfsmyndir þjóðanna tveggja, Norðmanna og Íslendinga! Fyrst koma Norðmenn, síðan íslenski hópurinn.


 


 

MYNDSKEIÐ 2  (WMV – 5,2 MB)

Nemendur flytja textabrot úr Ofviðrinu þar sem Trinkúló
kemur að ófreskjunni Kaliban, fyrst Norðmenn og svo Íslendingar:

What have we here? a man or a fish? dead or alive?
A fish: he smells like a fish: a very ancient and fish-like smell; ...

... Legg'd like a man !  and his fins like arms ! Warm, o' my troth !
 I do now let loose my opinion, hold it no longer;
 this is no fish, but an islander,
that hath lately suffered by a thunder-bolt. 

MYNDSKEIÐ 3  (WMV 3,4 MB)

Íslenskir nemendur flytja textabrot úr Ofviðrinu
þar sem ófreskjan Kaliban fer með bölbænir:

All the infections that the sun sucks up
From bogs, fens, flats, on Prosper fall, and make him
By inch-meal a disease! His spirits hear me,
And yet I needs must curse. But they´ll nor pinch,
Fright me with urchin-shows, pitch me i´ the mire,
Nor lead me, like a firebrand, in the dark
Out of my way, unless he bid them; but
For every trifle they are set upon me:
Sometime like apes, that moe and chatter at me,
And after, bite me; then like hedge hogs, which
Lie tumbling in my bare-foot way, and mount
Their pricks at my foot-fall; sometimes am I
All wound with adders, who, with cloven tongues,
Do hiss me into madness ...

Leiklist og ITCOS

Þar sem mér þótti ég heldur varbúinn til þess að fást við svo flókna samþættingu textafræði, leiklistar og heimspeki, leitaði ég ráða hjá persónulegum vini, Kára Halldóri Þórssyni, leikara, leikstjóra og leiklistarkennara. Samræður æxluðust svo að hann tók fullan þátt í öllum undirbúningi Stokkhólmsferðarinnar í apríl 2001, lagði á ráð og aðstoðaði með margvíslegum hætti og fór síðan með okkur til Stokkhólms. Og svo ég fipi nú frásögnina, eins og menn hefðu skrifað á 19. öld, þ.e.a.s. grípi framí fyrir sjálfum mér, þá skrifaði ég í apríl heimkominn frá Stokkhólmi mér til minnis og ræddi þar um fyrsta kvöld heimsóknarinnar:

Fyrsti lærdómur sem ég dró þennan dag var að ég hafði tekið Donyu of alvarlega þegar hún talaði um að stúdentarnir ættu bara að kunna textann. Sem betur fer hafði frábær aðstoð Kára Halldórs þjálfað þá í að bregðast við og leika sér að textanum þannig að frammistaða þeirra næstu sólarhringa fór fram úr glæstustu vonum mínum.

Eins og þessi orð bera með sér hef ég ástæðu til að þakka Kára Halldóri sérstaklega fyrir óeigingjarna hjálp, því það gildir jafnt um hann sem aðra Villavini að ekkert okkar hefur þegið greiðslur fyrir þetta verkefni þótt ég hafi vissulega reynt að sníkja fargjöld handa okkur eins og kennaranemunum og við að sjálfsögðu þegið gistiboð Svíanna í öllum aðalatriðum. Annan kostnað hafa þátttakendur borið sjálfir.

Hér er hins vegar afar brýnt að taka fram að ITCOS snýst ekki um leiklist, ekki um leikræna tjáningu heldur um texta, skilning hans og tileinkun. Það er sem sagt grundvallaratriði að sökkva sér niður í örfá orð, grandskoða þau, velta fyrir sér hvernig þau geta orkað á áheyrendur en þó einkum flytjanda. Allur texti er mýstískur, hann býr yfir miklu fleiri þáttum en við blasir í fyrstu.

Og hvað svo?

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að allir íslenskir Villavinir hafi frá upphafi verið sannfærðir um að þeir skildu það sem þeir væru að gera og væru vissir um ágæti þess. Fræðslan var ekki langvinn, aldeilis óvíst hvað sá sem hér skrifar skildi af því sem hann boðaði og svo framvegis. Kannski lýsti Gissur Jónsson þessu best eftir Stokkhólmsferðina þegar hann sagðist hafa ímyndað sér að allt væri í lagi þegar hann lagði af stað. Síðan hefði hann efast meira og meira föstudagskvöldið og laugardaginn „og á sunnudaginn (þegar við tókum þátt í flutningnum) var ég viss um,“ sagði Gissur, „að ég væri galinn. En á mánudaginn þegar við sáum krakkana, þá vissi ég að allt var ekki bara í lagi heldur hefði það ótvíræðan tilgang sem ég vildi vinna að.“

Nú er aftur tímabært að koma að því sem rektor Kennaraháskólans í Stokkhólmi sá í þessu dæmi.

Verkefnið er djörf kennlufræðitilraun. Það beinist að ungum nemendum sem margir hverjir hafa lágar einkunnir í ensku. Þeim er það einstæð uppreisn að fá að flytja Shakespeare á ensku. Til þess að hin leikræna sköpun verði sannfærandi þarf að vinna úr hverju smáatriði textans – maður verður að skilja merkingu hvers atkvæðis og hafa fulla tilfinningu fyrir heildarmerkingunni til þess að geta tjáð textann í orðum og hreyfingu.

Það er einmitt þetta sem hreif mig við fyrstu kynni af prófessor Donyu Feuer og verkefni hennar. Mér fannst ég skynja á börnunum sem ég sá að þeim hefði verið gefið eitthvað sem ekki yrði með orðum lýst heldur þyrfti tjáninguna alla, tjálistina sem okkur Kára Halldóri hafði orðið tíðrætt um. Og á þessum punkti stend ég enn. Ég er fullkomlega sannfærður um að félagsskapurinn, þetta að verða Villavinur eins og við köllum það, er ómetanlegur – ekki bara fyrir kennara og kennaranema heldur umfram allt fyrir börn og unglinga. Ég hef séð á annað hundrað kennaranema frá fjórum löndum og ríflega tvöhundruð grunnskólanema sænska flytja Ofviðrið í boðflutningi og ég efaðist ekki eitt augnablik um að þarna var á ferðinni eitthvað sem var allt öðruvísi en það sem ég þekkti áður, bæði að því er varðaði aðferðina og efnið. Og ég get ekki annað en viðurkennt að ég er afskaplega þakklátur tilviljuninni fyrir að hafa leitt mig á þetta spor og kennarasamningunum og háskólayfirvöldum fyrir að gera mér kleift að dveljast í nágrenni Stokkhólms og kennaraháskólans þar allt árið 2003 og læra meira af Donyu og félögum um tilraun hennar. Villavinum á Íslandi hef ég heitið stöðugu tölvupóstsambandi þannig að þeir geti áfram fylgst með, og takist áform okkar í kennaháskólunum í Reykjavík, Bergen, Silkeborg og Stokkhólmi þannig að við fáum norræna fjárveitingu til þess að byggja upp norrænt samstarfsnet gæti það á næstu árum orðið til þess að fleiri og fleiri grunnskólar á Íslandi ættu kost á því að nýta sér það allrabesta úr kennslufræði Sveinbjarnar Egilssonar rektors Bessastaðaskóla!

Hvað hefur lærst?

Að lokum er sjálfsagt að hafa fáein orð um þá reynslu sem fengist hefur af verkefninu In the Company of Shakespeare þegar hér er komið en þar eru sænskir grunnskólakennarar og kennaraskólakennarar sem ég hef rætt við á einu máli um nokkur atriði.

Í fyrsta lagi segja þeir engan vafa á að nemendum þyki gaman að vera í félagsskap Shakespeares með þessum hætti. Þeir skemmti sér og njóti sín í verkefninu. Sjálfsmynd þeirra styrkist og eflist.

Í öðru lagi segja þeir áþreifanlegt að verkefnið hafi mjög góð áhrif á bekkjaranda, efli samstöðu og samkennd í bekknum. Í því sambandi er oft minnst á einbeitingu og þjálfun hennar sem og markvissa æfingu í hlustun.

Í þriðja lagi, segja þeir, er enginn vafi á að fyrir nýbúa í blönduðum bekkjum sé þetta stórfengleg reynsla. Þarna standi allir með öðrum hætti jafnfætis en í öðru námi. Tungumálið sé ekki lengur yfirburðatæki heimamanna heldur tæki þar sem nýbúarnir geti jafnvel staðið betur að vígi.

Í fjórða lagi hafa seinfærir nemendur greinilega fengið persónulega uppreisn við að finna að þeir geta verið með á sínum forsendum. Fyrir þessa tvo síðastnefndu hópa er enginn vafi á sjálfsmyndarstyrkingunni.

Þegar spurt er um varanlegan árangur verkefnisins verður að vonum fátt um svör því tilraunin hefur ekki staðið nógu lengi til þess að slíkar ályktanir verði dregnar, en þeir sem verið hafa með allan tímann virðast samt ekki hafa áhyggjur af þeirri hlið mála. Þótt ekki sé annað en sú ánægja sem nemendur hafa haft af starfinu þá er það eitt nóg og skilar þeim betur út í nýjar aðstæður en ella hefði verið.

Og í blálokin. Einn af Villavinum skrifaði mér í septemberbyrjun 2002, hún var þá nýbyrjuð að kenna:

Ég skal bara segja þér það að ég prófaði … Shakespeare með nemendum mínum í dag. Það var æðislegt, ég ætlaði ekki að trúa þessu, þarna stóðu þeir uppi á borðum og fóru með When my cue comes. Ég ákvað að byrja með þau orð. Þetta var frábært, þeir voru frábærir. Ég byrjaði á því að spyrja þá hvort þeir hefðu séð e-ð leikrit og fékk nokkur svör. Þá sagði ég þeim að fyrir mörg mörg hundruð árum bjó maður í Bretlandi sem samdi leikrit sem urðu voða fræg. Þá spurði ég þá hvort þeir vissu hvaða tungumál væri talað þar og ein hugmyndin var bretlenska. Ég spurði hvort við ættum að prófa að fara með smá úr einu leikritinu og voru allir (15) til í það. Ég byrjaði á when og nemendurnir bara hermdu eftir svo spurði ég hvort við ættum að prófa annað orð þangað til við vorum komin með when my cue comes, þeim þótti þetta ótrúlega fyndið. Þá sagði ég þeim að fara undir borð, upp á borð, hvísla og fara með þetta hátt og vakti það lukku. Þú hefðir átt að sjá krakkana.

 

Reykjavík og Uppsölum 2002–2003.