Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 2. júní 2003

Ingvar Sigurgeirsson

Kennaramenntun og skólaþróun

Í þessari grein fjallar Ingvar Sigurgeirsson um kennaramenntun í ljósi skólaþróunar. Greinin er byggð á erindi sem hann hélt á ráðstefnu sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur efndi til 13. febrúar síðastliðinn undir heitinu Skóli á nýrri öld. Viðfangsefni ráðstefnunnar var nýbreytni í kennsluháttum. Höfundur er prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Nýtt átak á sviði skólaþróunar

Starfsmenn Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur hafa á undanförnum misserum markað nýja stefnu á sviði skólaþróunar. Þessum hugmyndum er m.a. lýst í bæklingi sem miðstöðin hefur gefið út undir heitinu Skólastarf á nýrri öld.[1] Höfundurinn, Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri í Reykjavík bregður í þessu riti upp mynd af framtíðarskólanum eins og hún sér hann þar sem áhersla er lögð á einstaklingsbundna kennslu, sjálfstætt nám, samvinnunám og þemabundin verkefni af ýmsu tagi.

Sá sem þetta ritar er í hópi þeirra sem hafa talið að almennt hafi talsvert vantað á að grunnskólinn, og raunar skólakerfið allt, hafi svarað síbreytilegum þörfum sem skyldi. Margt er afar vel gert í grunnskólum en þegar á heildina er litið verður því varla haldið fram að þar hafi farið mikið fyrir kröftugu þróunarstarfi. Það hefur þá farið hljótt – a.m.k. liggja upplýsingar um það ekki á lausu.

Og hví skyldi vera hægt að ætlast til þess að umfangsmikið þróunarstarf sé útbreitt í skólum? Ekki verður séð að starfskilyrði í skólum hafi – a.m.k. til skamms tíma – verið með með þeim hætti að vænta hefði mátt öflugs þróunarstarfs.

Undanfarin ár hefur sá sem þetta ritar varið umtalsverðum tíma í að fylgjast með skólastarfi, bæði í tengslum við rannsóknarverkefni og ekki síður í tengslum við mat á skólum víða um land.[2] Dást má að því hve vel mörgum kennurum tekst að byggja upp jákvæð samskipti við nemendur og skapa þeim notalegan vinnustað. Á hinn bóginn virðist vanta talsvert á að unnið sé markvisst að því að ná ýmsum þeim markmiðum sem mestu skipta. Hér má nefna markmið sem lúta að því að þroska með nemendum gagnrýna hugsun og gefa þeim tækifæri til að glíma með skapandi hætti við heildstæð og krefjandi viðfangsefni sem byggja á sjálfstæðum vinnubrögðum, heimildaleit, greiningu og úrvinnslu. Einnig bendir margt til þess að að of lítil áhersla sé lögð á tjáningu, samvinnu- og samstarfshæfni og frumkvæði.[3]

Skorður hefðar og námskrár

Alvarlegasti vandi grunnskólans virðist vera hve starfshefðir sýnast bundnar á þann klafa að ætla nánast öllum nemendum á sama aldri að ná sama marki á öllum sviðum. Í yfirgnæfandi fjölda þeirra kennslustunda sem höfundur hefur fylgst með á undanförnum árum er nemendum gert að kljást við sömu viðfangsefni á sama tíma (sjá t.d. Ingvar Sigurgeirsson 1994a og 1994b).

Í þessum efnum sýnist raunar hafa verið hert að með nýrri aðalnámskrá sem byggir á umfangsmikilli, nákvæmri og aldurstengdri markmiðssetningu sem gerir kröfur um mikla yfirferð námsefnis sem því miður kallar oft á einhæfa kennsluhætti.[4] Einnig má benda á aukna áherslu fræðsluyfirvalda á samræmd próf þar sem allir nemendur eru mældir með sömu stikunni. Auk þess að stuðla að því að allir þurfi að læra það sama hefur oft verið bent á að hætta sé á að samræmd próf leiði til áherslu á utanbókarnám og páfagaukalærdóm.[5]

Þessi áhersla á að allir læri það sama veldur margháttuðum vandkvæðum. Í þessu sambandi er áleitin staða margra nemenda, einkum drengja, á mið-, og þó sérstaklega á unglingastigi, sem ekki finna þar merkingarbær eða áhugaverð viðfangsefni og eru þjakaðir af námsleiða og neikvæðum viðhorfum til skólans vegna þess að bóknámið höfðar ekki til þeirra. Um þetta gæti höfundur nefnt átakanleg dæmi með hliðsjón af vettvangsathugunum sínum, t.d. um stóra hópa unglinga sem mæta í skólann dag eftir dag, viku eftir viku, án þess að læra þar nokkurn skapaðan hlut.

Ef vænta á verulegra breytinga á skólastarfi þurfa ýmsar aðstæður í skólum að breytast mikið. Til þess að hrinda af stað og viðhalda víðtækum skólaumbótum þarf róttækar breytingar á þeim skilyrðum sem við búum við úti í skólunum, sem og á kennaramenntuninni.

Þróunarstarf krefst svigrúms, stuðnings og samstöðu

Öflugt þróunarstarf krefst ákveðinna aðstæðna. Í fyrsta lagi má nefna verulegan tíma til undirbúnings, ígrundunar og samráðs. Þá krefst það ákveðinnar afstöðu, m.a. áhuga starfsliðs á skólaþróun og samstöðu um mikilvægi hennar. Þá þarf fjármagn, stuðning, ráðgjöf, leiðsögn og forystu.

Lítum t.d. á tímann. Hvaða tími er nú til þróunarstarfs í skólanum?

Miðað við núverandi uppsetningar hefur kennari tuttugu mínútur til að undirbúa hverja kennslustund og væntanlega verður hann að taka af þessum tuttugu mínútum alla úrvinnslu kennslustundarinnar.[6]

Vissulega er gert ráð fyrir nokkrum tíma til samráðs kennara og þar hefur orðið á nokkur breyting til bóta frá því sem áður var. Ekki er nokkur vafi á því að síðustu kjarasamningar höfðu jákvæð áhrif á skólaþróun. Þessir samningar sköpuðu nokkurt svigrúm.[7] Þetta svigrúm eru margir kennarar og stjórnendur að nýta sér, þó að vissulega megi halda því fram að þetta svigrúm sé ekki mikið og dugi varla nema til mjög takmarkaðs þróunarstarfs. Vilji samfélagið öflugra þróunarstarf í skólum þarf að kosta miklu meira til. Það verður að gera með því að kaupa þann tíma sem til þess þarf af kennurum. Lækkun á kennsluskyldu kennara er afar mikilvæg forsenda fyrir öflugra þróunarstarfi, bæði lækkun kennsluskyldu almennt, sem og fyrir einhverja úr hópi kennara og stjórnenda á hverjum tíma til að skapa þeim enn meira svigrúm til að undirbúa þróunarstarf og fylgja því eftir. Við erum á réttri leið en þurfum að stíga miklu stærri skref.

Stofnun sem lærir

Aukinn undirbúningstími – tími til samráðs – er mikilvægasta forsenda þess að unnt sé að byggja upp þróunarstarf svo um muni. Kennarar verða að fá svigrúm til þróunarstarfs, samstarfs og stöðugrar endurmenntunar. Þetta þrennt er vitaskuld samofið.

Um leið og aukið svigrúm er skapað þarf að laga kennaramenntun með miklu öflugri hætti en nú er unnt að gera að því meginhlutverki að búa verðandi kennara undir það að taka þátt í þróunarstarfi og að styðja við starfshefðir þar sem stöðug endurmenntun og skólaþróun er jafn sjálfsagður hluti af hverjum starfsdegi og að fara á kennarastofuna í löngu frímínútunum.

Hér er ekki endilega átt við endurmenntun sem sækja þarf út fyrir skólann. Hér er allt eins verið að vísa til hugmynda um skólann sjálfan sem námssamfélag, stofnun sem lærir. Benda má á áhugaverða grein um þetta efni eftir Ann Liberman í þýðingu Birgis Einarssonar sem birtist á síðasta ári í tímariti við Kennaraháskólann, Netlu Veftímariti um uppeldi og menntun.[8]

Kennaraháskóli Íslands er lang stærsta kennaramenntunarstofnun landsins. Kennaraháskólinn er manneskjulegur og vandaður skóli. Því má halda fram að skólinn og sú menntun sem hann veitir hafi verið að eflast og styrkjast á undanförnum árum, m.a. með uppbyggingu nýrra menntunarmöguleika í formi fjarnáms og framhaldsmenntunar, sem og með stóreflingu rannsókna við skólann og þjónustu- og ráðgjafarverkefna af ýmsu tagi. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun verður að horfast í augu við það að á kennaramenntuninni eru nokkrir mjög alvarlegir hnökrar, jafnvel innbyggðar og illviðráðanlegar mótsagnir, miðað við þær grunnuppsetningar sem við búum við.

Veganesti ungs kennara

Okkur er gert að mennta kennara á þremur árum. Á níutíu vikum eigum við að nesta hinn unga kennara þannig að hann geti með faglegum hætti tekið á þeim fjölmörgu og ólíku viðfangsefnum sem bíða hans.

Tökum dæmi af umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla. Hvernig búum við hann undir starfið? Hann þarf auðvitað að kunna vel allar þær námsgreinar sem hann á að kenna, en það eru gjarnan fimm til átta námsgreinar: Íslenska, stærðfræði, saga, landafræði, náttúrufræði, eitt eða tvö erlend mál, kristin fræði og trúarbragðafræði. Auk kunnáttu í greinunum þarf hann að hafa kennslu- og námsmatsaðferðir vel á valdi sínu, þekkja og geta beitt kennslutækni, kunna bekkjarstjórnun og að halda aga, kunna að kenna blönduðum nemendahópum, hafa góða þekkingu á sértækum námsörðugleikum, kunna að taka á samskiptavandamálum, einelti og áföllum í nemendahópnum og geta átt gefandi og uppbyggileg samskipti við nemendur, foreldra og samstarfsfólk, svo fátt eitt sé nefnt af þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem kennari þarf að takast á við í daglegu starfi. Þá má nefna nýjar kröfur í tengslum við skólanámskrárgerð, sjálfsmatsaðferðir, tölvu- og upplýsingatækni og fjölmenningarkennslu, að ekki sé minnst á nýjar námsgreinar (t.d. lífsleikni, nýsköpun, tæknimennt og leikræna tjáningu). Enn má nefna kröfur um þekkingu og hæfni í forvarnastarfi, þekkingu á fjölmiðlum, heilsuvernd, skyndihjálp, umhverfismennt og umferðarmálum. Þá þarf vel menntaður kennari vitaskuld einnig að þekkja uppeldis- og skólasögu, vera vel að sér um þroskasálfræði, námssálarfræði, félagsfræði og heimspeki menntunar og hafa innsýn í aðferðafræði og menntarannsóknir.

Og varla er hægt að hugsa sér menntaðan kennara nema hann þekki listasögu og hafi nokkra innsýn í listmenntir og fagurfræði svo nefndur sé einn af þeim þáttum sem vanræktur er í kennaramenntuninni eins og málum er nú skipað. Rannsóknum á námi og kennslu fleygir fram og þarf að hafa sig allan við til að fylgjast með þeim fjölmörgu áhugaverðu straumum nú leika um skólakerfið, en til þess þyrfti að verja miklum tíma í kennaranámi – en er ekki gert sem skyldi – sökum tímaskorts. Og þennan þráð má lengi spinna enn, þó að það verði ekki gert hér. Enn á líka eftir að nefna það hvernig kennaraneminn er búinn undir stöðuga þátttöku í flóknu og krefjandi þróunarstarfi. Og geta þess í leiðinni að auðvitað reynir starfsfólk skólans að gera sitt besta!

Til grunnmenntunar kennara eru gefin þrjú ár. Eftir þriggja ára nám – stysta kennaranám á Vesturlöndum – á nýútskrifaður kennari að vera vel að sér í því sem hér var á undan talið og vera leikinn í að fást við öll þau fjölbreyttu viðfangsefni sem geta mætt honum.

Pisa rannsókin hefur leitt athygli okkar að Finnum, en finnsk börn náðu þar hvað bestum árangri. Finnar gera kröfu um meistaragráðu, fimm ára háskólanám, fyrir grunnskólakennara.

Nýi kennarinn okkar, þessi með þriggja ára námið, fær vissulega stuðning þegar hann kemur út á vettvang – eða hvað? Líklega fær hann sér til halds og trausts reyndan kennara sem heldur í höndina á honum eina kennslustund á viku og sömuleiðis má ætla að hann fái einnar kennslustundar kennsluafslátt. Og áreiðanlega fær hann oft góðan jafningjastuðning – en formlegur stuðningur skólans nær ekki mikið lengra!

Lesendur eru hvattir til að bera kennaramenntunina og þróun kennarastarfsins saman við læknanám og með hvaða hætti læknar þróast í starfi. Af slíkum samanburði er óhemju margt að læra.

Tengsl kennaramenntunar við skólastarf

Í hugmyndum starfsmanna Fræðslumiðstöðvar Reykjavíku, sem vikið var að í upphafi greinarinnar, er lögð áhersla á einstaklingsbundið nám, námsaðgreiningu, samvinnunám, þemanám og samþættingu námsgreina. Vel er unnt að fullyrða að hvað inntak og áherslur varðar er ágætt samræmi milli þeirra hugmynda sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hefur að leiðarljósi og þeirrar kennslufræði sem flestir kennarar Kennaraháskólans leggja áherslu á. Ef skoðaðar eru kennsluáætlanir á námskeiðum um kennslufræði má sjá að þar eru á dagskrá virkir kennsluhættir, einstaklingsmiðað nám, skóli fyrir alla, samþætting námsgreina, skapandi skólastarf, könnunaraðferðir, leitarnám, samvinnunám, kennsla í anda fjölgreindarkenningar Howard Gardner - og þannig mætti lengi telja. Meira að segja hugtakið fjölþrepakennsla er komið í kennsluáætlanir. En hér er hið sama upp á teningnum. Það gefst afar takmarkaður tími til að skoða, greina og prófa þessar aðferðir. Þá má vekja athygli á því – án þess að ráðrúm sé til að brjóta það viðfangsefni til mergjar – að nokkuð kunni á það að skorta að nægilegt samræmi sé á milli þess hvernig talað er um kennslu í Kennaraháskóla Íslands og öðrum kennaramenntastofnunum – og hvernig kennaraefnum er sjálfum kennt. Alkunna er að ungir kennarar sækja hugmyndir um kennsluaðferðir mikið til sinna bestu kennara.

Og það verður einnig að horfast í augu við það að þrátt fyrir þriggja mánaða vettvangsnám virðist ekki nást að leggja þann kennslufræðilega grunn sem heldur. Ýmislegt bendir líka til þess að tengsl okkar við skólana séu ekki nægilega sterk. Þetta samstarf verður að treysta og ýmsar hugmyndir uppi um hvernig það megi gera. En allar kosta þær tíma – tíma til samráðs og sameiginlegs undirbúnings.

Hér hljóta augu að beinast að nýjum uppsetningum. Margoft hafa komið upp hugmyndir um kandidatsár; að nýir kennarar hefji störf sem aðstoðarkennarar og vinni í einhvern tíma með skipulegum hætti undir verkstjórn reyndra kennara. Hér má aftur vísa til læknastarfsins. Af læknastéttinni má margt læra.

Lenging kennaranáms er fyrir löngu orðin afar brýn. Engu að síður er ljóst að því fer fjarri að lenging ein og sér svari öllum þeim kröfum sem gera verður. Endurskoða verður frá grunni formgerð kennaramenntunar. Grunnmenntunin ein dugar ekki – og hefur auðvitað aldrei dugað – og mun aldrei duga til að að skapa þann þekkingar- og leiknigrunn sem nauðsynlegur er. Símenntun verður að vera fastur liður í kennarastarfinu, skilgreind sem órjúfanlegur og mikilvægur hluti þess.

Framhaldsnám lykilþáttur í símenntun og þróunarstarfi

Krafan um stöðuga endurmenntun verður sífellt áleitnari. Hvarvetna er verið að huga að þessu. Fyrirtæki sem hvað mestum árangri ná skilgreina nú endurmenntun sem stöðugt stærra hlutfall starfa – og menntun starfsmanna er jafnvel talin til eignaaukningar fyrirtækisins!

Á sama tíma má segja að símenntunarmál kennara séu með vissum hætti í uppnámi. Því uppnámi verður að linna. Hér verður að leita nýrra leiða. Og vissulega má greina jákvæða þætti. Einn þeirra tengist Kennaraháskólanum en það er framhaldsnámið sem hefur stóreflst á undraskömmum tíma. Aðdáunarvert er að sjá þann mikla fjölda kennara sem er að sækja sér heildstætt framhaldsnám þar sem gerðar eru ítrustu kröfur. Hér hefur í raun orðið hljóðlát bylting. Vel á fjórða hundrað grunnskólakennarar eru nú ásamt um 150 leikskólakennurum, framhaldsskólakennurum og þroskaþjálfum að treysta fagþekkingu sína og fagmennsku með þátttöku í rannsóknar- og starfstengdu framhaldsnámi í kennslufræði, sérkennslufræði, stjórnun, tölvu- og upplýsingatækni, námsefnisgerð og á mörgum fleiri sviðum. Aðeins átta ár eru síðan Kennaraháskólinn fékk fyrst heimild til að brautskrá nemendur með meistaragráðu en þegar þetta er ritað hafa tæplega áttatíu meistarar brautskrást frá skólanum. Rúmlega sjötíu grunnskólakennarar eru nú í meistaranámi. Ekki má gleyma þeim sem eru í framhaldsnámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Binda má miklar vonir við það þróunarstarf sem þetta fólk er farið að leiða og mun leiða úti í skólunum og þess sjást þegar margvísleg merki að þessi grunnur ráði nokkru um það að slíkt starf standi á traustari fótum en áður.

Þessa möguleika þarf að efla enn frekar og nú varðar miklu að stjórnvöld í landinu sýni þann skilning sem þarf, því framhaldsnám á háskólastigi kostar auðvitað sitt.

En þó framhaldsnám verði eflt enn frekar, eins og vonir standa til, er þess varla að vænta að allur meginþorri kennara treysti sér í heildstætt framhaldsnám. Hér þarf að huga að stöðugri endurmenntun sem nær til alls þorra kennara.

Kennaramenntun og þróun skólastarfs

Erfitt er að átta sig á því hvernig yfirvöld fræðslumála í landinu hugsa sér kennaramenntun í tengslum við skólaþróun. Sem dæmi má taka að í nýrri aðalnámskrá 1999 eru m.a. ákvæði um nokkrar nýjar námsgreinar og námsþætti, m.a. lífsleikni, tæknimennt, nýsköpun, leikræna tjáningu og dans. Hugsa fræðsluyfirvöld í landinu sér þetta á þann veg að það þurfi ekkert nema þessi ákvæði til að koma þessari nýju kennslu í framkvæmd? Innan þriggja ára eiga allir kennarar að geta farið að kenna þessi viðfangsefni! Ekki virðist eiga að þurfa neina menntun til þess, engin námskeið, engar handbækur, ekkert útbreiðslustarf! Í nágrannalöndunum er nýbreytni í kennslu fylgt eftir með umfangsmiklum áætlunum og víðtækum stuðningsaðgerðum til langs tíma. Hér virðist eins og öll þróun í skólamálum eigi nánast að verða af sjálfu sér.

Auðvitað reyna kennaramenntastofnanirnar að bregðast við og bæta þessum nýju viðfangsefnum ofan á námskrár sínar sem fyrir löngu er orðnar yfirfullar. Enn bætist á listann yfir mikilvæg viðfangsefni sem hlaupið er yfir á hundavaði.

Auðsætt er að þessi vinnubrögð skila ekki árangri. Hér þarf að leita nýrra leiða.

Í Kennaraháskólanum fara nú fram umræður um það með hvaða hætti sé best að byggja upp samofna grunn-, framhalds- og símenntun fyrir kennara og aðrar þær stéttir sem skólinn þjónar. Umræðan beinist að því að hverfa frá hugmyndum um aðskilda grunn-, framhalds- og endurmenntun, og huga þess í stað að samskipan þessara þátta, að skipulegri og stöðugri ævimenntun.

Opinn Kennaraháskóli?

Í umræðunni innan Kennaraháskólans er gjarnan vísað til hugmynda sem kenna má við "opinn" háskóla. Þessi umræða hefur fengið nokkurn byr í ljósi eflingar fjarnáms en eins og kunnugt er stundar nú meirihluti nemenda nám sitt við skólann sem fjarnám.

Á þessu skólaári eru milli tvö og þrjúhundruð námskeið kennd við skólann með fjarnámsniði. Mörg þessra námskeiða gætu verið opin starfandi kennurum. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þýðingu þess ef kennaraefni geta sótt námskeið með reyndum grunnskólakennurum. Af slíkri tilhögun er afar góð reynsla í staðbundnu námi við skólann en stór hópur kennara hefur á undanförnum árum sótt sér viðbótarnám í grunndeild skólans.

Þær breytingar sem hafa átt og eru að eiga sér stað í Kennaraháskólanum skapa fjölmörg ný sóknarfæri. Uppi eru hugmyndir sem ganga miklu lengra í þá átt að leyfa verðandi kennurum að ráða samsetningu náms síns en verið hefur. Engin sjáanleg rök eru fyrir því að allir nýir kennarar þurfi að hafa sömu menntun. Kennsla í nútímaskóla er samstarfsverkefni og samstarfið eflist ef að því koma einstaklingar með ólíka menntun, bakgrunn og reynslu. Fjölbreyttur kennarahópur er hverjum skóla styrkur.

Fjarnámið skapar óþrjótandi möguleika. Hér verða aðeins vikið að þrennu.

Kjörsvið í grunnnámi grunnskólakennara

Opnast hafa möguleikar fyrir kennara á að bæta við sig heildstæðu viðbótarnámi, t.d. á kjörsviðum, með starfi. Nefna má sem dæmi áhugaverð ný kjörsvið eins og nám og kennslu ungra barna og tölvu- og upplýsingatækni. Þá ætti að vera spennandi að að bæta við sig námi í íslensku og stærðfræði, en þessi kjörsvið hafa bæði verið stækkuð um helming. Og hví skyldi það ekki freista kennara að bæta við sig námi í samfélagsgreinum, náttúrufræði eða listgreinum séu þeir að kenna þessar greinar án þess að hafa hlotið til þess undirbúning?

Námskeið á brautum leikskólakennara, tómstundafræðinga og þroskaþjálfa

Enn má nefna að opna kennurum námskeið á öðrum námsbrautum. Áhugaverður og gagnlegur kostur fyrir grunnskólakennara er að bæta við sig námskeiðum á leikskóla-, tómstunda- eða þroskaþjálfabraut. Er ekki verið að huga að sameiningu og samstarfi leik- og grunnskóla víða um land? Eiga ekki fötluð börn og unglingar einhvern tímann í alvörunni að fá þann greiða aðgang að almennum skólum sem lög og sáttmálar ætluðu fyrir löngu að vera búin að tryggja þeim. Eins og málum er nú háttað er engu líkara en gert sé ráð fyrir því að allir almennir kennarar eigi að geta veitt þessa þjónustu án þess að hafa sérstaklega til þessa lært.

Valnámskeið í kennaranámi

Valnámskeið í kennaranámi gætu líka verið áhugaverður kostur en að undanförnu hefur sérstakt kapp verið lagt á að efla framboð á fjölbreyttum valnámskeiðum í Kennaraháskólanum. Í núgildandi náms- og kennsluskrá er boðið upp á fjölda valnámskeiða sem gætu nýst sem endurmenntun. Á dagskrá eru m.a. námskeið um hvernig kennarar geti komið til móts við ólíkar þarfir nemenda, aga og agavandamál, bekkjarstjórnun, áföll í nemendahópnum, gagnrýna hugsun, heildstæða móðurmálskennslu, leikræna tjáningu, samræðuaðferðir, námsmat og prófgerð, næringu og líkamsrækt, leiki í námi, tónlist í skólastofunni, starf umsjónarkennara, kennslu í blönduðum bekkjum, fjölmenningarlegt samfélag, táknmál, hnattvæðingu, kennslu í fámennum skólum, lífsleikni, neytendafræðslu, listir í skólastarfi, skapandi skólastarf, umhverfismennt, fjölmiðla og miðlalæsi og tengsl leik- og grunnskóla. Hér eru aðeins talin nokkur þeirra valnámskeiða sem í boði eru á grunnskólabraut.

Opin kennaramenntun og svigrúm til þróunar í starfi

Með opnun af þessu tagi gæti Kennaraháskólinn lagt sitt af mörkum til þróunar á hugmyndum um skólann sem lifandi námssamfélag. Við Kennaraháskólann starfa nú 120 háskólakennarar með rannsóknarskyldu. Sérþekkingu þessa hóps, sem og annnarra sérfræðinga sem við skólann starfa, er unnt að nýta mun betur í þágu skólastarfs en nú er gert.

Netið gerir kennurum kleift að vinna saman þvert á skóla. Þar hefur skapast nýr og greiðari aðgangur að rannsóknum og þróunarstarfi, sem og til að halda upp margháttuðu fræðslustarfi. Til þess að nýta þessa nýju möguleika þarf tíma. Ef skólakerfið á ekki að standa í stað verða kennarar að fá aukið svigrúm til að efla þekkingu sína og vinna að skólaþróun með markvissum hætti. Þess vegna er áríðandi að næstu árum verði stigin stór skref í þá átt að þeir geti varið eðlilegum hluta vinnutíma síns til að þróa sig í starfi. Skilgreina verður skólaþróun og endurmenntun inn í starfið með miklu markvissari hætti en nú er gert. Í þessum efnum vilja starfsmenn Kennaraháskólans leggja af mörkum.

Tilvísanir

 1. Gerður G. Óskarsdóttir 2003.

 2. Sjá t.d. yfirlit um matsverkefni Ingvars á þessari vefslóð: http://web.khi.is/~ingvar//matis.html

 3. Sjá t.d. Ingvar Sigurgeirsson 1993, 1994a, 1994b, 1998.

 4. Sjá um þetta t.d. Birgi Einarsson 1999 og Börk Vígþórsson 2003.

 5. Sjá m.a. Ingvar Sigurgeirsson 1999.

 6. Sjá Kjarasamning launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands
  fyrir grunnskóla
  2001.

 7. Sjá Ingvar Sigurgeirsson o.fl. 2002.

 8. Lieberman 2003.

 9. Náms- og kennsluskrá Kennaraháskóla Íslands 20022003.

 10. Sjá Ingvar Sigurgeirsson, Anton Bjarnason o.fl. 2002.

 11. Sjá t.d. Ingvar Sigurgeirsson 2003.

 12. Náms- og kennsluskrá Kennaraháskóla Íslands 20022003.

 

Heimildir

Birgir Einarsson. 1999. Opið bréf til menntamálaráðherra o.fl. Kennarablaðið, júní 1999.

Börkur Vígþórsson. 2003. Bót eða dót? Hugleiðingar um Aðalnámskrá grunnskóla 1999. Netla: Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 10. febrúar. [http://netla.khi.is/greinar/2003/002/index.htm]

Gerður G. Óskarsdóttir. 2003. Skólastarf á nýrri öld. Reykjavík: Fræðslumiðstöð Reykjavíkur.

Ingvar Sigurgeirsson.1993. Hvernig er íslenska kennd á miðstigi grunnskóla? Skíma. Málgagn móðurmálskennara, 16(1):14–25.

Ingvar Sigurgeirsson. 1994a. Notkun námsefnis í 10–12 ára deildum grunnskóla og viðhorf kennara og nemenda til þess. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson. 1994b. Notkun námsefnis og viðhorf til Námsgagnastofnunar í 200 grunnskólum. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson. 1998. Thoughts on School Reform in Iceland. Umræðugrein lögð fram í tengslum við alþjóðlega málstofu, The Challenge of School Transformation: What Works, sem haldin var í Berlín 26.–28. febrúar. [Sjá einnig á þessari slóð: http://web.khi.is/~ingvar//schreformis.html]

Ingvar Sigurgeirsson. 1999. Námsmat byggt á traustum heimildum. Í Steinum í vörðu til heiðurs Þuríði J. Kristjánsdóttur sjötugri (ritstjórar Helgi Skúli Kjartanasson o.fl.). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson. 2002. Framtíðarsýn: Samskipan grunn- og endurmenntunar. Skólavarðan, 2(8):8–9.

Ingvar Sigurgeirsson, Guðrún Karlsdóttir, Helgi Grímsson og Ólafur H. Jóhannsson. 2002. Framkvæmd kjarasamnings fyrir grunnskólakennara – Niðurstöður könnunar meðal skólastjóra og trúnaðarmanna vorið 2002. Skýrsla unnin fyrir Félag grunnskólakennara, Launanefnd sveitarfélaga og Skólastjórafélag Íslands. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson, Anton Bjarnason, Brynhildur Briem, Elín Jóna Þórsdóttir, Sigríður Pétursdóttir, Sigríður Stefánsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir. 2002. Skipulag vettvangsnáms í grunndeild Kennaraháskóla Íslands. Reykjavík: Kennaraháskóli Íslands.

Kjarasamnigur Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla. 2001. [http://www.samband.is/files/{9c34042b-b673-4bf4-bb58-87cfff0dd325}_kjarasamningur_ln_ki_2001_utgafa.doc]

Lieberman, Ann. 2002. Aðferðir sem styðja þróun kennara í starfi: Að breyta hugmyndum um það hvernig fagstéttir læra. Netla: Veftímarit um uppeldi og menntun. Grein birt 31. maí. [http://netla.khi.is/greinar/2002/012/index.htm]

Náms- og kennsluskrá Kennaraháskóla Íslands 2002–2003. (Ritstjóri Elín Jóna Þórsdóttir). Reykavík: Kennaraháskóli Íslands.