Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Kristinn R. Sigurbergsson

Þröngir skór

Um athyglisbrest með ofvirkni

Í greininni er fjallað um athyglisbrest með ofvirkni, AMO. Lýst er leiðum til að móta atferli ofvirkra barna í skóla og möguleikum kennara til að laga kennslu sína að þörfum ofvirkra nemenda. Greinin byggir á námsritgerð við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands í janúar 2001.

Höfundur brautskráðist frá KHÍ 1986 (stærðfræði- og eðlisfræðival) og 1987 (smíðar) og haustið 1999 hóf hann nám í tölvu- og upplýsingatækni við framhaldsdeild KHÍ. Hann hefur kennt við Grunnskólann í Borgarnesi, við sérdeild Laugarnesskóla og frá haustinu 2001 við Garðaskóla. Einnig hefur Kristinn unnið hjá RKÍ sem unglingaráðgjafi í Rauðakrosshúsinu.


ÉG HEF GERT ÓGNVEKJANDI UPPGÖTVUN!

Það er ÉG sem er ráðandi þáttur í kennslustofunni!
Starfsandinn ræðst af viðhorfi MÍNU.
Lunderni MITT skapar skilyrðin.
Sem kennari get ÉG gert líf barns gleðisnautt eða gleðiríkt
ÉG get plagað og pínt eða laðað fram það besta.
ÉG get skelft eða skemmt, huggað eða hoggið.
Hvað sem öðru líður er það á MÍNA ábyrgð
hvort vandinn eykst eða minnkar,
hvort barnið vex og dafnar eða visnar og deyr.
SVO NÚ VERÐ ÉG AÐ BREGÐAST VIÐ!

Dr. Haim G. Ginott (greinarhöfundur sneri)

Inngangur

Stór hluti af agavanda í grunnskólanum tengist gjarnan hegðun lítils hluta nemenda og oft virðist lítið um fyrirbyggjandi aðgerðir. Hluti vandans er örugglega andvara- eða sinnuleysi gagnvart börnum sem glíma við athyglisbrest með ofvirkni (yfirleitt stytt í ofvirkni). Rannsóknir benda til að 3–5% barna séu ofvirk, að meðaltali um eitt barn í hverjum bekk. Alls eru því um 1300–2200 ofvirk börn í grunnskólum landsins. Aðeins lítill hluti þeirra er í sérdeildum því flest geta vel stundað nám í almennum bekkjum. (Ægir Már Þórisson 2000).

Á hinn bóginn þarf allt að helmingur ofvirkra barna sérkennslu vegna námsörðugleika, þ.s. athyglisgáfu er ábótavant og einbeiting lítil. Þeim standa hins vegar sjaldnast til boða sérúrræði vegna hins raunverulega vanda. Því verða kennarar að laga námsumhverfið að þörfum barnanna, auk þess að þrýsta á viðbótarstuðning í bekk.

Þótt oft sé lítið gert til að mæta þörfum ofvirkra barna í kennslustofunni er enn síður hugsað um að þau þurfa sérstakan stuðning þegar kemur að frímínútum, vettvangsferðum eða í félagsstarfi skólans. Á þessum vígstöðvum eiga þau að fóta sig til jafns við önnur börn og ef upp kemur árekstur fá þau orð í eyra fyrir ósæmilega hegðun!

Í þessari samantekt verður fjallað um:

 • Athyglisbrest með ofvirkni (AMO).

 • Nokkrar leiðir sem hafa verið notaðar til að móta atferli ofvirkra barna í skóla.

 • Möguleika í kennslufræðilegri aðlögun fyrir ofvirk börn.

Í síðastnefnda þættinum er sérstaklega horft til möguleika tölvu- og upplýsingatækninnar. Hún er auðvitað ekki nein töfralausn fyrir ofvirk börn en örugglega gott hjálpartæki í baráttunni sem þau heyja hvern dag.

Um ofvirkni

Það sem við í daglegu tali köllum ofvirkni er stytting úr athyglisbrestur með ofvirkni (AMO). Barn sem greinist með AMO er ekki endilega með óeðlilega hreyfiþörf. Athyglisskortur eða hvatvísi getur allt eins verið aðalvandamálið. Hegðun barna með AMO er yfirleitt skipt í þrjá flokka (Ægir Már Þórisson 2000).

 • Athyglisbrestur: Barnið á erfitt með að beina athygli sinni að einhverju einu í tiltekinn tíma. Því gengur þó oft vel að fylgjast með því sem höfðar til þess eða býður upp á fjölbreytni, s.s. sjónvarpsefni eða tölvuleikir. Það á hins vegar í miklum erfiðleikum með að skipuleggja og ljúka þeim verkefnum sem fyrir það er lagt.

 • Ofvirkni: Barn sem er ofvirkt á í vandræðum með að sitja kyrrt og talar oft mjög mikið. Ef barnið þarf að sitja kyrrt er það oft allt á iði, danglar t.d fótunum, snertir allt í kringum sig eða slær blýanti í borð.

 • Hvatvísi: Barn sem er hvatvíst á í erfiðleikum með að halda aftur af sér. Það talar gjarnan án þess að hugsa og framkvæmir það fyrsta sem í hugann kemur án þess að íhuga afleiðingarnar. Hvatvísin veldur barninu líka erfiðleikum ef það á að bíða þar til röðin kemur að því.

Stundum er AMO skipt í þrjá undirhópa:

 • Aðallega athyglisbrestur.

 • Aðallega ofvirkni og/eða hvatvísi.

 • Sambland af hvorutveggja.

Í þessa hópa raðast kynin dálítið misjafnjafnlega. Í fyrsta hópnum eru mun fleiri stúlkur en strákar. Í samanburði við hina hópana eru námsörðugleikar algengari, því þessi börn gleymast frekar þar sem lítið fer fyrir þeim. Börnin upplifa sig þá sem slaka nemendur sem hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra. Í hinum hópunum tveimur eru strákar í miklum meirihluta. Við greiningu á ofvirkni er skoðað hversu algeng hegðunin er og hve lengi hún hefur varað. Í öðru lagi er hegðunin borin saman við hegðun jafnaldra og í þriðja lagi athugað hvort vandamálið er stöðugt eða breytilegt eftir aðstæðum (Ægir Már Þórisson 2000).

AMO er ein algengasta geðröskun barna og talið er að á 35% þeirra glími við hana eða um eitt barn í hverri kennslustofu. Þrisvar til fimm sinnum fleiri drengir greinast með AMO heldur en stúlkur. Í fyrstu var talið að AMO myndi rjátlast af börnum á unglingsaldri eða snemma á fullorðinsaldri. Nú er hins vegar vitað að um helmingur barna með AMO á áfram í erfiðleikum eftir að þau fullorðnast. Fólk getur hins vegar lært að lifa með röskuninni með því að gera sér grein fyrir hvar veikleikar þess liggja (Ægir Már Þórisson 2000 ).

Mannsheilinn er flókið fyrirbæri sem við þekkjum enn ekki nema að litlu leyti þrátt fyrir fjölda rannsókna. Til að kanna orsakir AMO hafa rannsóknir á athygli og einbeitingu fólks verið viðamestar. Komið hefur í ljós að við verkefni sem krefjast einbeitingar er minni virkni á vissum svæðum í heila hjá fólki með AMO. Þótt tekist hafi að sýna fram á slík tengsl, er orsök vandans ekki þar með fundin því enn á eftir að komast að því hvað veldur því að virknin er minni (Ægir Már Þórisson 2000).

Erfðaþátturinn virðist þó vera sterkur. Til marks um það eiga börn með AMO oftast eitt náið skyldmenni sem einnig er ofvirkt. Þá hefur komið í ljós að rúmlega þriðjungur allra feðra sem hafa haft AMO eignast ofvirk börn. Ekki er hægt að fullyrða um þátt erfða eingöngu út frá slíkum niðurstöðum, því hugsanlega læra börnin þessa hegðun af foreldrum sínum. Það sem helst styður hlutdeild erfða eru sterkar líkur á því að greinist eineggja tvíburi ofvirkur þá sé hinn það líka. Þá virðist vímuefnaneysla móður á meðgöngu stuðla að aukinni hættu á að barnið fái AMO. Reykingar og óhófleg áfengisneysla kunna líka að vera áhrifavaldar (Ægir Már Þórisson 2000).

Ofvirk börn eiga oft við önnur geðræn vandamál að stríða. Um helmingur allra drengja er t.d. einnig með s.k. mótþróaþrjóskuröskun. Auk þess að vera þrjósk fá þessi börn gjarnan reiðiköst og ganga þvert gegn fyrirmælum. Þau eru því líklegri til að lenda í vandræðum í skóla. Margir glíma líka við kvilla sem er kallaður hegðunarröskun. Hegðun þeirra barna getur oft haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér, s.s. þjófnað, íkveikjur og eignaskemmdir. Það er því mikilvægt að þau börn fái aðstoð eins fljótt og auðið er. Loks má geta þess að fjórðungur ofvirkra drengja finnur einnig fyrir kvíða og þunglyndi (Ægir Már Þórisson 2000).

Ýmis lyf eru notuð til að meðhöndla einkenni AMO. Örvandi lyf virðast henta best og þekktast er sjálfsagt Rítalín. Það dregur verulega úr ofvirkni og bætir athygli hjá tveimur af hverjum þremur. Margir foreldrar óttast að lyfin leiði til vímuefnavanda síðar í lífinu. Á móti má benda að lyfin auðvelda t.d skólagöngu, félagslíf og öll samskipti. Á þann hátt minnka í raun líkurnar á frekari geðrænum vandamálum og vímuefnaneyslu.

Lyfin hjálpa fólki þó ekki að takast á við öll vandamálin sem fylgja AMO, þótt þau dragi úr einkennum. Þess vegna er nauðsynlegt að fleira komi til. Yfirleitt er beitt atferlismeðferð samhliða lyfjagjöf. Rannsóknir sýna að með þessu tvennu má oft ná mjög góðum árangri.

Atferlismeðferð má auðvitað beita þó barnið sé ekki á lyfjum. Ein og sér hefur hún margsannað gildi sitt til að takast á við hegðunarerfiðleika. En ef hún á að gagnast vel krefst það mikillar vinnu og staðfestu af hendi foreldra og kennara.

Það er augljóslega ekki létt verk að glíma við AMO og skiljanlegt að þessi börn séu stundum reið og pirruð. Eðlilega reynir þetta líka á foreldra og kennara því barnið á erfitt með að fylgja fyrirmælum og venjulegar uppeldisaðferðir duga skammt.

Atferlismótun í skóla

Atferlismeðferð beinist að því að bæta hæfni barnsins á tilteknum sviðum. Þá er yfirleitt notað kerfi sem gengur út á umbun og sektir. Í samvinnu við barnið tilgreina foreldrar eða kennarar hvaða hegðun er æskileg við tilteknar aðstæður. Ef barnið hagar sér í samræmi við það sem til er ætlast er því umbunað, ef ekki er hægt að sekta það. Markmiðið er að hjálpa barninu að hafa stjórn á eigin hegðun og sýna því fram á að æskilega hegðunin er í raun áhrifaríkari heldur en sú óæskilega. Um leið og reynt er að koma í veg fyrir óæskilega hegðun verður að sýna barninu aðra og betri leið.

Áður en fjallað verður nánar um umbun og sektir er rétt að minna á nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga þegar reynt er að móta atferli ofvirkra barna í skólanum:

 • Kennarinn og annað starfsfólk þarf að vera jákvætt í garð barnsins og sýna því skilning á erfiðleikum þess.

 • Allar upplýsingar frá fagaðilum verður að þekkja vel og taka mið af þeim. T.d. skiptir miklu máli að upplýsingar um barnið og þjálfun/kennslu þess í leikskóla sé komið á framfæri við grunnskólann/kennarann. Þannig er hægt að byrja þar sem frá var horfið og hafa til hliðsjónar aðferðir sem notaðar voru í leikskólanum og báru árangur ( Kristín Eyjólfsdóttir 2000 ).

 • Allt starfsfólk skólans þarf að fá upplýsingar um hvernig á að bregðast við hegðun barnsins og jafnvel sitja þjálfunarnámskeið.

 • Barnið þarf að eiga málssvara í skólanum (kennarann).

 • Barnið þarf að vita hver ræður þegar á reynir og má ekki halda annað.

 • Ef sefa þarf barn í bræðiskasti er vænlegt að beina athygli þess að einhverju öðru, lifa sig inn í geðshræringu þess og viðhorf, en leiða það svo inn á sjónarsvið sem vekur æskilegar kenndir (Goleman, Daniel 2000, bls. 133 ) .

 • Náið samstarf foreldra og kennara er nauðsynlegt, auk þess sem skólastjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um framgang mála.

 • Í frímínútum, félagsstarfi, vettvangsferðum og á öllum þeim stöðum þar sem mörg börn eru saman komin, þurfa þau líka viðbótarstuðning.

 • Kennarinn þarf að þekkja styrkleika barnsins ekki síður en veikleika þess, til að vinna út frá.

 • Hegðun ofvirkra barna er um margt ábótavant. Því þarf að beina sjónum að fáum útvöldum þáttum sem mikilvægast er að laga hverju sinni.

 • Námið þarf að vera hluti af meðferðinni, því mörg ofvirk börn eiga líka í námserfiðleikum sem hafa bein áhrif á hegðunina. Í því skini þarf kennarinn að útbúa einstaklingsnámskrá, í samráði við foreldra. Í henni þarf að setja skammtíma- og langtímamarkmið í námi barnsins og félgasmótun.

 • Þessi börn eru ólíkir einstaklingar og með mismunandi þarfir.

 • EKKI GEFAST UPP Á BARNINU ÞÓTT Á MÓTI BLÁSI.

Umbun

Umbunarkerfi byggja yfirleitt á gjaldmiðli sem er notaður til að greiða fyrir góða hegðun. Gjaldmiðilinn er svo notaður til að borga fyrir eitthvað sem þykir eftirsóknarvert. Það er mikilvægt að barnið eigi góða möguleika á að mæta væntingum og fá umbun.

Umbunarkerfin geta verið margvísleg og henta misvel eftir einstaklingum eða námshópum. Sjálfur hef ég reynslu af einu slíku kerfi og notað í Sérdeild Laugarnesskóla. Það er kallað Broskallakerfið (eftir broskallastimplinum) og er í grófum dráttum þannig: Hver nemandi getur unnið sér inn tvo broskalla á dag ef hegðun hans er viðunandi. Viðunandi hegðun er auðvitað afstæð og er í samræmi við getu hvers og eins. Þó eru nokkrar sameiginlegar reglur sem ekki má brjóta, án þess að tapa broskalli, t.d. er ofbeldi eða æðiskast ekki liðið. Í lok dagsins er haldinn broskallafundur og rætt hvað gekk vel og hvað betur mátti fara. Ef dagurinn gekk nógu vel fær nemandinn tvo broskallastimpla á þar til gert hegðunarblað. Í lok vikunnar er svo borgað út með sérútbúnum brospeningum. Peningarnir eru notaðir til að borga með í brosvali. Eins og nafnið gefur til kynna er brosval valtími og er einn slíkur tími á viku. Þá er hægt að kaupa sér mismunandi afþreygingu, t.d. fara í tölvu, spila, mála, leira eða út að leika. Valið er misdýrt eftir því hvað það þykir eftirsóknarvert. Til að komast í brosval þarf að ná helmingnum af brosköllum vikunnar, eða 5 hafi maður mætt alla daga. Þeir sem ekki komast í brosval læra áfram (námið virkar þá eins og refsing en okkur hefur ekki dottið neitt betra í hug). Þeir sem fá „rauða viku“ (broskallastimpillinn er rauður), 10 broskalla, fá aukatíma í tölvunni. Í lok hvers mánaðar er svo broskall/broskelling mánaðarins valin og fær 5 brospeninga í bónus. Við förum líka í broskallaferðir á 5 vikna fresti. Í ferðirnar komast þeir sem hafa náð 40 broskörlum af 50 mögulegum (eða 80% af mögulegum fjölda). Ferðirnar eru farnar á kennslutíma (t.d. í sund, keilu, sleða- eða óvissuferð).

Sektir

Til að móta atferli barna er ákjósanlegast að styrkja jákvæða hegðun, draga úr neikvæðri athygli, hrósa og umbuna. Ef það dugar ekki til verður stundum að grípa til annara ráða, t.d. að „sekta“ barnið. Sektir verður þó að nota í hófi. Hér eru nokkur dæmi um sektir.

Glatað tækifæri er leið til að fá barn til að láta af óæskilegri hegðun. Kennarinn þarf auðvitað að sjá til þess að það sem glatast þyki eftirsóknarvert. Langar skammarræður skila oft litlu og næg skilaboð fólgin í glötuðu tækifæri. Einnig verður að skoða hvaða áhrif missirinn hefur. Ef þau eru lítil þarf að finna eitthvað annað sem virðist skipta máli.

Leikhlé felst í því að barnið er tekið úr aðstæðum tímabundið. Leikhlé ætti að nota í þeim tilfellum sem brotin eru hvað alvarlegust (t.d. líkamlegt ofbeldi, stöðug truflandi hegðun, æðisköst) og annað virðist ekki duga. Leikhlé er vandmeðfarið hjálpartæki við atferlismótun, t.d. getur barnið notað það sem flóttaleið frá verkefnum. Auk þess er tilhneiging til að ofnota þau. Ef þeim fjölgar jafnt og þétt er meðferðin ekki á réttri leið og tími til að endurskoða hana.

Skipulagt afskiptaleysi getur verið áhrifarík leið til að fá barn til að láta af óæskilegri hegðun. Ef ekki er nóg að kennarinn sýni afskiptaleysi getur þurft að fá bekkjarfélagana til að hunsa slíka hegðun og sýna nemandanum sinnuleysi þegar það á við.

Samskiptabók

Samskiptabók sem fer á milli heimilis og skóla er mikilvægt hjálpartæki í kennslu og atferlismótun ofvirkra barna. Hún auðveldar flæði upplýsinga á milli foreldra og kennara og veitir þannig betra aðhald. Þegar kennari hringir í foreldra er það oft til að finna að einhverju. Samskiptabókin býður upp á tækifæri til að hrósa og ýta undir jákvæða hegðun líka. Hún skilar þó ekki alltaf tilætluðum árangri. Sumir foreldrar eru t.d. líka ofvirkir og því síður undir það búnir að takast á við þetta verkefni.

Með hjálp upplýsingatækni eigum við líka kost á að hafa samband við forráðamenn í gegnum Netið. Póstforrit eða heimasíður eru góð viðbót og geta jafnvel verið „samskiptabók“, ef hægt er að loka á aðgang annarra en hlutaðeigandi. Þau hafa það líka umfram samskiptabækur að „týnast“ ekki ef skilaboðin eru neikvæð, auk þess sem sum skilaboð eru e.t.v. aðeins ætluð foreldurum.

Sjálfstjórn

Mörg ofvirk börn geta tamið sér ákveðna hegðun um stundarsakir en eru síður fær um það til lengri tíma, þau skortir sjálfstjórn. Til eru leiðir sem hjálpa þeim að efla sjálfstjórnina, s.s. sjálfsvöktun (self-monitoring) og sjálfstýring (self-management) (Reid, Robert 1999, bls. 1-19).

Sjálfsvöktun felst í því að börnin meta sjálf hvort þau ná tilsettu markmiði. Í skólanum er m.a. hægt að nota sjálfsvöktun ef um er að ræða athyglistengda þætti. T.d. er hægt að koma fyrir tæki sem gefur hljóð- eða ljósmerki á 10–90 sek. fresti. Við hvert merki á barnið að huga að því hvort það hafi verið með athyglina við verkefnið og merkja svo við „já“ eða „nei“ á þar til gerðu blaði. Sumum er um megn að leggja þannig mat á eigin hegðun og þá er hægt að nota myndbandsupptökuvél til að hjálpa þeim.

Einnig er hægt að nota eggjaklukku. Þá eru athafnir eða verkefni tímasett (t.d. námsvinna og hvíld í 5 mín. til skiptis) og verðlaun veitt ef markmiðið næst í ákveðin skipti. Reynslan sýnir að ofvirk börn uppfylla sett markmið nær 100% með þessari aðferð og án þess að mögla.

Sjálfstýring byggir á samræmi í mati kennarans og sjálfsmati barnsins. Kennarinn leggur til stigagjöf og til að barnið geti notað þessa aðferð verður það auðvitað að skilja sambandið á milli hegðunar sinnar og stigagjafarinnar. Mögulegur kvarði gæti verið svona:

5 = Frábært, fór alltaf eftir öllum reglum.

4 = Mjög gott, aðeins eitt lítið frávik.

3 = Meðal gott, fylgdi yfirleitt reglum og án stórra yfirsjóna.

2 = Undir meðallagi, braut eina eða fleiri reglur, þ.a. hegðunin var óásættanleg.

1 = Braut eina eða fleiri reglur nær allan tímann.

0 = Óviðunandi, braut eina eða fleiri reglur allan tímann.

Þegar ákveðnu atferli eða verkefni er lokið gefa kennarinn og barnið sitt hvora einkunnina. Ef stigagjöf barnsins er aðeins einu stigi frá því sem kennarinn gefur heldur það stigunum. Ef einkunn beggja er sú sama fær barnið eitt aukastig. En ef það munar tveimur stigum eða meira er ekkert stig gefið. Hér er því ekki er verið að verðlauna hátt skor heldur samræmi í skoðun kennarans og barnsins og efla þannig sjálfsvitund barnsins. Þegar að ákveðnum stigafjölda er náð er því umbunað.

Sjálfstýring hentar ekki nema undir vissum kringumstæðum. Atferlið sem meta á þarf að vara frekar stutt, kannski 5–15 mínútur. Bekkjarkennari gæti hugsanlega nýtt sér hjálp stuðningsfulltrúa eða kennara í skiptistundum.

Captain’sLog

Það er ekki mikið til af hugbúnaði sem sérstaklega er ætlaður ofvirkum börnum. Þó má nefna forrit sem heitir Captain´sLog. Það er notað til að efla ýmsa hugræna (cognitive) þætti, s.s. einbeitingu eða athygli. Enn hafa aðeins verið gerðar nokkrar einstaklingsrannsóknir og rannsóknir á litlum hópum sem gefa þó góð fyrirheit.

Í einni slíkri rannsókn voru fjögur börn þjálfuð með Captain´sLog. Auk þess að vera ofvirk glímdu þau við ýmsa aðra geðkvilla. Þau voru 7–11 ára, ein stúlka og þrír drengir og voru öll í lyfjameðferð. Rannsóknin fór fram á meðferðarheimili sem þau bjuggu á. Þar höfðu þau dvalið mislengi, frá 4 og upp í 45 mánuði. Öll höfðu verið beitt líkamlegu ofbeldi og voru árásargjörn. Börnin voru þjálfuð fjórum sinnum í viku, 30 mínútur í senn, í 16 vikur (Slate og fleiri 1998,  bls. 415-437).

Ýmis próf og önnur mælitæki voru notuð til að meta þau fyrir og eftir rannsóknina. Niðurstöður sýndu að öll börnin tóku framförum í viðbragðsstjórnun (response control), höfðu betri stjórn á hvatvísi sinni og hegðun sem tengist ofvirkni. Öll veittu þau líka verkefnunum meiri athygli eftir þjálfunina. Þrjú þeirra náðu betri árangri í stærðfræði, lesskilningi, luku verkefnunum betur, voru fljótari að vinna þau og höfðu færri villur. Tvö þeirra bættu árangur sinn á kvarða sem mældi almenna hegðun, þ.s. annað barnið tók mjög miklum framförum.

Þjálfunarforrit á borð við Captain´sLog virðist því vera mikilvæg viðbót við hefðbundna meðferð á ofvirkum börnum. Einnig má geta þess að börnunum fannst þjálfunin skemmtileg og vildu helst halda henni áfram.

Almennir kennarar geta auðvitað ekki sinnt svona þjálfun inni í bekk en hugsanlega gætu sérkennarar tekið verkefnið að sér. Einnig er mögulegt að nota svona þjálfun í sérdeildum, þ.s. fá börn eru á hvern kennara.

Kennslufræðileg aðlögun

Kennslufræðileg aðlögun snýst um þá þætti í námsumhverfinu sem kennarinn hefur möguleika á að stýra, m.a. til að fyrirbyggja vandamál. Ef kennari upplifir að vandamál í bekknum séu of tíð, ætti það að vera honum áminning um að huga að stjórnuninni og finna nýjar leiðir. Hér verður tæpt á því helsta sem gott er að hafa í huga.

Bekkjarstórnun

Ef kennari ætlar að ná til (ofvirkra) barna er mikilvægt að beita árangursríkri bekkjarstjórnun. Hún er m.a. fólgin í því að geta brugðist við óvæntum uppákomum en ekki síður fyrirbyggjandi aðgerðum og vönduðum undirbúningi. Með slíkum vinnubrögðum sýnir barnið oftar æskilega hegðun. Ýmislegt getur orðið til þess að ofvirku barni tekst síður að sýna æskilega hegðun, s.s. hávaðasamur bekkur, óreiða eða skortur á samkvæmni í stjórnun kennarans og væntingum.

Markviss og skýr stjórnun einkennist m.a. af:

 • Að ná athygli áður en leiðbeiningar eru gefnar. Ná augnsambandi og nota jafnvel snertingu.

 • Stuttum og hnitmiðuðum leiðbeiningum. Langlokur eru til þess fallnar að ofvirkt barn hættir að hlusta.

 • Skriflegum leiðbeiningum um verkefni dagsins og í tímasettri röð, t.d. á glæru, töflu, tölvu eða minnismiða.

 • Minna á hvað þarf til að vinna hvert verkefni, t.d. „þið þurfið að nota vinnubók og blýant“.

 • Vera nákvæmur um hvað maður vill, t.d. „setjið vinnubókina í pappaöskjuna og pennaveskin í töskuna“ í stað „takið til á borðinu ykkar“.

 • Oft borgar sig að endurtaka leiðbeiningarnar eða umorða þær.

 • Athuga hvort nemendur hafi skilið sig, t.d. með því að biðja þau um að segja hvað á að gera eða sýna skilning sinn í verki (Reid 1999:1-20).

Að ná tökum á hegðun nemenda er mikilvægasti hlekkurinn í góðri bekkajarstjórnun. Kennarinn ætti í því skyni að sjá til þess að bekkurinn setji sér reglur. Ofvirk börn þurfa oftar en önnur að vera minnt á til hvers er ætlast af þeim. Þau þurfa helst stöðuga svörun á frammistöðu sína. Jákvæð svörun eða hrós er mun einfaldara að veita en neikvæða. Það er alls ekki sama hvernig maður áminnir ofvirkt barn. Ef það fer ekki eftir settum reglum þá hafa óskir eða bón um bætta hegðun lítið að segja. Vænlegra er að hafa eftirfarandi í huga ef áminna þarf ofvirkt barn:

 • Gera það á rólegan hátt og forðast tilfinningasemi.

 • Ná augnsambandi og snerta um leið viðkomandi.

 • Vera ákveðinn (t.d. „byrjaðu strax að vinna“).

 • Vera skýr og skorinorður svo að það sem máli skiptir komist til skila og athygli annarra barna beinist síður að því ofvirka.

 • Veita áminninguna strax eða sem fyrst eftir óæskilega hegðun.

 • Varast að gefa misvísandi skilaboð (t.d. bæði ósk og kröfu um bætta hegðun) eða nefna eitthvað jákvætt (brosa) um leið og áminnigin er veitt (Reid 1999:1-20).

Óþarfa ráp ofvirkra barna er stundum til vandræða. Ef svo er þarf að stjórna því markvisst t.d. með því að hafa ákveðinn tíma fyrir nauðsynlegar ferðir og reyna jafnvel að ákveða tímalengd á þær.

Gera þarf kröfu um að nemendur séu snöggir að skipta á milli verkefna og umbuna þeim ef þeir standa sig. Þeir þurfa líka að vita að allt slugs sé á kostnað umbunarinnar eða að ókláruð verkefni þurfi að vinna heima. Þeir læra þá fljótt að slugsið er ekki leið til að komast hjá því að ljúka verkefnum.

Kennsluaðferðir

Kennurum tekst misvel að halda nemendum að verki. Sumir kennarar halda nemendum að verki að jafnaði 90% kennslutímans meðan öðrum tekst það aðeins í um helming tímans. Því hefur verið haldið fram að þetta sé meðal þeirra atriða sem ráði hvað mestu um árangur í kennslu (Rúnar Sigþórsson og fleiri 1999).

Í bókinni Litróf kennsluaðferðanna eftir Ingvar Sigurgeirsson er stuttlega fjallað um á sjöunda tug kennsluaðferða, svo af nógu er að taka. Þótt sumar kennsluaðferðir henti ofvirkum börnum síður (t.d. hópvinna) er ekki er hægt að segja að ein kennsluaðerð sé annarri betri, þar sem kennsla er flókið ferli og margir óvissuþættir. T.d. hefur fas, framkoma og verklag hvers kennara mikið að segja um hvort kennsluaðferð ber tilætlaðan árangur. Því verður hver kennari að finna hvaða kennsluaðferð hentar honum og bekknum/einstaklingunum sem hann kennir (Ingvar Sigurgeirsson 1999:12).

Mikilvægt er að haga kennslunni þannig að hún reyni á sem flest skilningarvit. Rannsóknir sýna að ofvirk börn læra mest með áþreifanlegum kennslugögnum og með því að lýsa því sem þau gera. Ein slík rannsókn sýndi að þau ná:

 • 10% af því sem þau lesa.

 • 26% af því sem þau heyra.

 • 30% af því sem þau sjá.

 • 50% af því sem þau sjá og heyra.

 • 70% af því sem þau segja.

 • 90% af því sem þau segja og gera, þ.e. lýsa verkum sínum (Rief 1993).

Skipulag kennslustofunnar

Skipulag kennslustofu tekur til tveggja þátta. Annars vegar hvernig hús- og kennslubúnaði er fyrir komið og hins vegar sætaskipan nemenda.

Ofvirk börn truflast auðveldlega við minnsta áreiti. Skipulagið hefur því mikið að segja, t.d. hentar opið kennslurými þeim illa. Sum ofvirk börn hafa þörf fyrir meiri hreyfingu en önnur. Það gæti t.d. hentað þeim að tveimur borðum sé komið fyrir í sitt hvoru horninu, fremst í kennslustofunni og þau hafi leyfi til að færa sig á milli. Öðrum hentar betur að standa þegar þau vinna. Til að koma til móts þau væri hægt að útbúa borð þar sem borðplatan er í brjósthæð.

Oftar en ekki er heppilegra að ofvirk börn sitji nálægt kennaranum til að auðvelda stjórn og hvatningu. Allavega ætti ekki að láta þau sitja þar sem umgangur er mikill, t.d. nærri dyrum eða ruslafötu. Það hentar þeim heldur ekki að sitja þar sem eitthvað fangar athyglina auðveldlega, eins og útsýni úr glugga.

Það gæti verið óvitlaust að útbúa vinnubás í kennslustofunni, ætlaðan ofvirka barninu. Til að koma í veg fyrir að básinn sé álitinn refsivist þarf að leyfa öllum að nota hann að einhverju marki og kannski gefa honum jákvætt nafn, t.d. mætti kalla hann „skrifstofu“. Á skrifstofunni þarf að sýna tilhlýðilega hegðun og vinnusemi (nemendur geta jafnvel sett nafnspjaldið sitt á skrifstofuna).

Athygli jafnaldra hefur augljós áhrif á hegðun ofvirkra barna. Þeim hentar oft best að sitja einum eða hugsanlega sem hluti af tvennd. Að raða börnunum í raðir frekar en í þyrpingar er heppilegra fyrir ofvirka barnið, ef námsvinnan krefst ekki annarskonar uppröðunnar. Jafnvel vinna í litlum hópum er þeim oft um megn. Þau líta á það sem tækifæri til samskipta eða láta á sér bera. Í hópvinnu er gott að láta þau vinna með „sterkum“ nemanda sem þau líta upp til (Reid 1999:1-20).

Námsefnið

Námsefnið stýrir auðvitað hegðun nemenda. Að halda ofvirkum börnum að verki í sjálfstæðri vinnu getur reynst erfitt, þ.s. slík vinna krefst sjálfsaga. Að ýmsu þarf að hyggja til að bæta vinnugetu og auka vinnugleði ofvirkra barna:

 • Er verkefnið hæfilega þungt og mátulega umfangsmikið.

 • Höfðar verkefnið til barnsins, getur það tengt efnið eigin reynslu.

 • Notkun lita, lögunar eða fjölbreytni í efnisnotkun.

 • Fjölbreytni í vinnuaðferðum.

 • Nota verkefni sem reyna á hreyfileikni jafnt sem aðra þætti.

 • Er mögulegt að vinna verkefnið í tölvu eða á ritþjálfa.

Kennarinn þarf að vera nokkuð viss um að ofvirkt barn geti leyst verkefnið áður en hann gerir ráð fyrir sjálfstæðri vinnu. Þess vegna þarf að þjálfa mjög vel alla þætti.

Lengd eða umfang verkefnisins hefur mikið að segja. Margþætt verkefni geta breyst í ljón á vegi þessara barna, þ.s. skipulagsgáfu þeirra er ábótavant. Ofvirkt barn er líklegra til að hegða sér illa ef of mikillar vinnu er krafist. Það hreinlega gefst upp áður en verkið hefst og vinnur því jafnvel ekkert eða missir einbeitingu og klárar það síður. Til að koma í veg fyrir þetta getur því verið nauðsynlegt að stytta verkefnin, skipta þeim upp eða útbúa vinnulýsingu sem lýsir því sem á að gera skref fyrir skref, skipta örar á milli verkefna eða auka fjölbreytni í vinnulagi.

Handskrifuð verkefni eru þessum börnum yfirleitt erfið, þ.s. rithönd þeirra er oft ábótavant. Enn erfiðara reynist þeim að endurskrifa eða endurtaka hluti. Heppilegast er því að hafa handskrifuð verkefni í lágmarki og nota tölvu eða ritþjálfa í staðinn.

Heimanám

Heimanám veldur ofvirkum börnum oft erfiðleikum. Skólinn reynist þeim gjarnan streituvaldur og ef við bætist mikið heimanám verður það til þess að þau hafa minni tíma til að pústa út. Heimanámið reynir líka gjarnan um of á samband foreldra og barna. Afleiðingin getur orðið sú að barnið kemur í uppnámi í skólann og er enn síður tilbúið að takast á við verkefnin þar. Heimanám þarf að sjálfsögðu að miða við getu og þörf hvers og eins en helst ætti að gefa ofvirkum börnum tækifæri til að klára mest allt námið í skólanum. Það hentar sumum nemendum vel að vita í upphafi hvers tíma hvað þarf að klára svo ekki þurfi að vinna heima. Þeir leggja sig þá gjarnan alla fram við námið.

Eins og fyrr greinir er handskrift þessum börnum oft þung raun og ef um heimanám er að ræða ætti kennarinn að hafa það í huga. Þegar verkefnin krefjast ritunar ættu þeir því að leyfa notkun allra hjálpartækja sem kostur er á, s.s. tölvu eða ritþjálfa.

Póstforrit og heimasíður gefa kennurum einnig möguleika á að setja verkefnin inn á tölvu og auðvelda ofvirkum börnum þannig lífið. Auk þess að komast þannig hjá handskrift er hægt gera verkefnin áhugaverðari, með öllum þeim litum, hreyfingu og gagnvirkni sem tölvan býður upp á.

Endurgjöf

Ofvirkum börnum gengur best ef þau fá endurgjöf á vinnu sína með stuttu millibili. Þau kunna hins vegar oft síður að bera sig eftir eðlilegri hjálp og vilja gjarnan fá viðbrögð strax. Möguleg leið til að koma til móts við þetta er að útbúa spjald þar sem öðrum megin stendur „Mig vantar hjálp“ og hinum megin „Reyndu að vinna áfram“. Þegar barnið er lens snýr það spjaldinu á hjálparhliðina og ef kennarinn getur ekki sinnt því strax snýr hann því við. Barnið veit þá að það hefur náð athygli og á von á hjálp innan tíðar. Fleira getur þó líka komið til móts við þessa þörf, t.d. svör á blaði eða spólu.

Aðstoð bekkjarfélaga getur líka nýst ofvirkum börnum vel og létt undir með kennara. Það getur haft róandi áhrif ef barnið veit að það á athygli einhvers vísa og minnkar líkurnar á að það kalli eftir neikvæðri athygli. Það er hins vegar ekki á allra færi að veita slíka aðstoð og best ef það er „sterkur“ einstaklingur sem ofvirka barnið ber virðingu fyrir. Slík aðstoð getur líka haft jákvæð áhrif á námsáhugann og minnkað ráp og eirðarleysi (Seay, Bob 2000).

Auk þess er hægt að skipta bekknum í tvo hópa þar sem nemendur í hvorum hóp keppast um að veita hver öðrum sem besta hjálp og hljóta jafnvel eitthvað að launum.

Síðast en ekki síst má nefna að til eru fjölmörg kennsluforrit í tölvu sem eru gagnvirk og veita því svörun strax. Þannig vinna hentar þessum börnum aðvitað mjög vel. Mestu skiptir þó að nokkrar hjálparleiðir séu mögulegar ef börnin ráða ekki við námið.

Tölvan sem hjálpartæki – samantekt

Hér að framan hefur þegar verið bent á kosti tölvunnar til að koma til móts við þarfir ofvirkra barna. Þeir helstu eru:

 • Kennsluforrit og önnur tölvuvinna fangar athygli ofvirkra barna betur en bækur og blöð.

 • Skjót endurgjöf er ofvirkum börnum mikilvæg, gagnvirkni tölvunnar er því góður kostur.

 • Ritvinnsla er góður kostur, þ.s. skrift er þeim yfirleitt erfið og ætti að vera í lágmarki.

 • Samskipti við foreldra þessara barna þurfa að vera tíð og nauðsynlegt að boðskiptin séu greið. Ýmislegt getur komið í veg fyrir að hægt sé að koma skilaboðum í samskiptabækur. Auk þess vilja þær „týnast“ ef skilaboðin eru neikvæð. Auðvitað er enn hægt að nota símann en póstforrit og heimasíður eru góð viðbót til að auðvelda samskiptin (ef tryggt er að óviðkomandi komist ekki að þeim upplýsingum).

 • Ofvirk börn eiga oft erfitt með skipulag og að skrá niður upplýsingar, t.d. um heimanám. Póstforrit og heimasíður geta hjálpað þar til.

 • Tölvur gefa möguleika á að heimanámið þurfi síður að vinna skriflega, t.d. er hægt að setja verkefnin á heimasíður.

 • Nú eru að koma fram þjálfunarforrit (Captain´sLog) sem gætu reynst gott hjálpartæki í baráttunni við AMO.

Mergurinn málsins

Að framansögðu er má ljóst vera að gjarnan gleymist að taka tillit til þarfa ofvirkra barna og oft er ætlast til að þau séu eins og „önnur börn“. Um leið er verið að gera kröfur sem þau ráða illa við, sum kikna undan álaginu og vandræðin taka við. Upplifun þeirra hefur verið líkt við ferð í skóbúð! Ímyndaðu þér að þú sért að máta nýja skó. Þú finnur að þeir eru of þröngir. Þú finnur til þegar þú stendur upp og getur varla gengið. Hvernig leysir þú málið? Til allrar hamingju er lausnin einföld, þú mátar stærri skó.

Í huga ofvirkra barna er námsumhverið oft eins og þröngir skór. Þar er búist við ákveðinni hegðun sem þau geta illa uppfyllt og það getur verið kvalafullt. Því miður er oft ætlast til þess að barnið lagi sig að þessum aðstæðum. Afleiðingin er yfirleitt hegðun sem er til vandræða. Í samanburði við skóna er þetta svipað og ætla að skera af sér tærnar til að skórnir passi. Sú lausn þykir líklega ekki raunhæf. Að búast við því að ofvirkt barn breyti eðli sínu er álíka óraunhæft.

Við getum ekki breytt eðli ofvirkra barna. Það er ekki hægt að lækna AMO og þessi röskun eldist aðeins af hluta fólks. Skólafólk verður því að skoða hvernig hægt er að laga námsumhverfið að ofvirkum börnum, því óæskileg hegðun orsakast yfirleitt af ósamræmi á milli námsumhverfisins og þarfa barnsins.

Þetta sjónarhorn beinir athyglinni að úrlausnum kennara, það eru jú þeir sem ráða mestu um mótun námsumhverfisins. Eins og hér hefur verið tæpt á eru ýmsar leiðir færar. Þær kalla tímabundið á aukna vinnu af hálfu kennarans. Án efa skilar sú vinna sér þegar frá líður, því í dag taka ýmis agavandamál góðan skerf af vinnutímanum. Aðlögunin sem hér um ræðir nýtist auk þess ekkert síður öðrum börnum.

Markviss aðlögun krefst sem sagt tíma og endurmats á kennsluháttum. Það eru ekki til neinar skyndilausnir og leiðirnar þurfa að taka mið af einstaklingunum. En ef áhrifarík leið er valin og notuð á kerfisbundinn hátt, getur árangurinn orðið mjög góður.

 

Heimildir

Björg Árnadóttir. 1994. Ofvirka barnið. Glæður 4,2:4-10.

Braintrain. Software to Train and Test the Brain. 2000. http://www.braintrain-online.com/ (nóv. 2000).

Brennan, Wilfred K. 1985. Curriculum for Special Needs. Open University Press, Philadelphia. 

Dornbush, Marilyn P, Sheryl K. Pruitt. 1995. Teaching the tiger. Hope Press, Duarte.

Fischer, Joannnie Schrof. 2000. Taking a picture of a mind gone awhirl. New imaging method bolsters ADHD diagnosis. U.S. News and World Report,  Washington.

Goleman, Daniel. 2000. Tilfinningagreind.  Iðunn, Reykjavík.

Health-Center. 2000. [Vefur]. http://adhdlivingguide.com/ (des. 2000).

Ingvar Sigurgeirsson. 1999. Litróf kennsluaðferðanna. Æskan, Reykjavík.

Katharina, Fachin. 1996. Teaching Tommy: A second-grader with Attention Deficit Hyperactivity Disorder. Phi Delta Kappan, Bloomington.

Kristín Eyjólfsdóttir. 2000. Vefráðstefnukerfi Íslenska menntanetsins. http://webboard.ismennt.is/~tolvupp00/login (nóv. 2000).

Kotwal, Dilnavaz, William J. Burns,  Doil D. Montgomery,. 1996. Computer-assisted cognitive training for ADHD: A case study. Behavior Modification.  Sage Publications, Beverly Hills.

Parkin, Andrew. 2000. Computers in clinical practice: Applying experience from child psychiatry. British Medical Journal.

Reid, Robert. 1999. Focus on Exceptional Children. Attention deficit hyperactivity disorder: Effective methods for the classroom.  Love Publishing Company, Denver.

Rief, Sandra F. 1993. How to Reach and Teach ADD/ADDH Children. West Nyack. New York. 

Rúnar Sigþórsson, Börkur Hansen, Jón Baldvin Hannesson, Ólafur H. Jóhannsson, Rósa Eggertsdóttir og Mel West. 1999. Aukin gæði náms – Skólaþróun í þágu nemenda. Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans, Reykjavík.

Seay, Bob. Attention Deficit Disorder. About – The Human Internet. 2000. http://add.about.com/health/add/cs/adhdforteachers/index.htm (nóv. 2000).

Slate, Suzanne E., Tracy L. Meyer, William J.Burns. 1998. Behavior Modification – Computererized cognitive training for severely emotionally disturbed children with ADHD.  Sage Publications, Beverly Hills.

Unnur Heba Steingrímsdóttir og Sólveig Guðlaugsdóttir. 1998. Ofvirkni barna. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 74,2:93-95.

Yahoo – health. 2000. http://health.yahoo.com (des. 2000)

Ægir Már Þórisson. 2000. Geðheilsa.Persona.ishttp://persona.is/ (nóv. 2000).