Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 17. desember 2002

Aldís Yngvadóttir

Lífsleikni

Gamalt vín á nýjum belgjum?

Í greininni er fjallað frá ýmsum hliðum um stöðu lífsleikninnar sem nýrrar námsgreinar í grunnskólum og velt upp álitamálum sem tengjast kennslu í greininni. Greinin byggir á erindi sem höfundur hélt á 6. málþingi Rannsóknarstofnunar KHÍ föstudaginn 4. október 2002.

Aldís Yngvadóttir nam afbrotafræði og uppeldisfræði við Stokkhólmsháskóla og uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda við Háskóla Íslands. Mest allan sinn starfsferil hefur hún starfað að mennta- og forvarnamálum, fyrst sem námstjóri í menntamálaráðuneytinu með fíknivarnir sem sérsvið og nú sem ritstjóri námsefnis í lífsleikni hjá Námsgagnastofnun. Aldís tók þátt í gerð Aðalnámskrár grunnskóla 1989 og var í hópi þeirra sem sömdu hefti um lífsleikni í Aðalnámskrá grunnskóla 1999. Hún hefur stýrt fjölmörgum námskeiðum um lífsleikni fyrir kennara.

Litið um öxl

Höfundur þessarar greinar hefur unnið að framgangi þeirra hugmynda sem nú eru kenndar við lífsleikni í hartnær 15 ár. Í fyrstu kom ég að þessu sem áhugaverðri og brýnni hugmynd um nýjar áherslur í skólastarfi. Nú er lífsleikni orðin sjálfstæð námsgrein á grunn- og framhaldsskólastigi og er einnig á dagskrá í leikskólum.

Í þessari grein verður fjallað um lífsleikni með hliðsjón af Aðalnámskrá grunnskóla 1999, einkum um þá möguleika sem felast í markvissri kennslu hennar. Einnig verður vikið að mikilvægi greinarinnar og stöðu hennar er í skólum og áhersla lögð á að auka veg hennar.

Orðið lífsleikni á sér ekki langa sögu í málinu. Uppruna þess má með nokkurri vissu rekja til enska hugtaksins „life skills education“. Eftir því sem næst verður komist kemur orðið fyrst fyrir á prenti á íslensku árið 1990 í skýrslu menntamálaráðuneytisins um tilraunakennslu á bandarísku námsefni þar sem áhersla var lögð á heilbrigða lífshætti og lífsleikni eins og segir í skýrslunni. Þær hugmyndir sem búa að baki lífsleikninni voru því farnar að ryðja sér til rúms innan skólasamfélagsins talsvert áður en hafist var handa um að setja þær í búning nýrrar námsgreinar, sem varð við útkomu Aðalnámskrár 1999. Fyrir útgáfu námskrárinnar má segja að orðið lífsleikni hafi verið notað sem samnefnari náms- eða kennsluefnis þar sem áhersla var lögð á að styrkja félags- og tilfinningalega hæfni nemenda. Viðfangsefni lífsleikninnar voru raunar komin á dagskrá í mörgum skólum áður en námsgreinin varð til. Ástæða er til að taka fram að sú sem átti hvað mestan þátt í þróun og kynningu lífsleikninnar síðasta áratug og jafnvel lengur var án nokkurs efa Erla Kristjánsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands og er þá engri rýrð kastað á þá aðra sem lagt hafa af mörkum.

Lífsleikni í nýrri námskrá

Í Aðalnámskrá grunnskóla 1999 er viðfangsefnum lífsleikni skipt í tvo flokka. Sett eru fram markmið fyrir hvorn flokk. Fyrri flokkurinn nefnist sjálfsþekking, samskipti, sköpun og lífsstíll en sá síðari samfélag, umhverfi, náttúra og menning. Fyrri flokkurinn er sagður kjarni greinarinnar og meginviðmið. Viðfangsefni hans fela í sér markmið mannræktar og sjálfsþekkingar og auk þess markmið sem stuðla eiga að frumkvæði, sjálfstæðri, skapandi og gagnrýninni hugsun, aðlögunarhæfni og siðviti til að taka ákvarðanir í síbreytilegum veruleika (Aðalnámskrá grunnskóla: Lífsleikni. 1999: 7). Síðari viðfangsefnin sem heyra undir flokkinn samfélag, umhverfi, náttúru og menningu eru sveigjanlegri og hafa kennarar meira frjálsræði um útfærslu þeirra með hliðsjón af sérstöðu, staðháttum og áherslum í skólastarfi. Við þetta bætast ýmis ákvæði önnur um fræðslu samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum. Sem dæmi má nefna umferðarfræðslu, tóbaksvarnir, umhverfsimál og umfjöllun um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar eru aðilar að.

Þau markmið sem sett eru fram í Aðalnámskrá fyrir viðfangsefni sem snúa að sjálfsþekkingu, samskiptum, sköpun og lífsstíl, lúta að því að efla félags- og tilfinningamiðað nám í skólum (social and emotional learning, SEL) og eiga að tengja saman á heildstæðan og markvissan hátt tilfinningar, skilning og hegðun nemenda. Þetta er kjarni og meginviðmið greinarinnar. Áhersla er á að nemendur læri að þekkja tilfinningar sínar og af hverju þær stafa, að nemendur átti sig á tengslum tilfinninga og hegðunar og skilji að maður getur haft áhrif á og stjórnað tilfinningum sínum, að nemendur séu læsir á tilfinningar annarra og geti sett sig í spor annarra, að nemendur þekki sjálfa sig. Að hver og einn líti á sig sem hluta af stærri heild, – bekknum, fjölskyldu, samfélaginu og læri að byggja upp og viðhalda innihaldsríkum samskiptum við aðra. Að læra að beita gagnrýninni og skapandi hugsun, m.a. til að geta tekið ákvarðanir. Að læra aðlögunarhæfni til að geta brugðist við breytingum og ýmsum aðstæðum. Að verða færari um að takast á við kröfur og áskoranir í daglegu lífi. Um þetta snýst lífsleikni fyrst og fremst. Kjarni lífsleikninnar kallar líka á breytta kennsluhætti, – fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem nemendur eru virkir og bera ábyrgð á eigin námi. Ef við ætlum til að mynda að kenna nemendum virka hlustun eða að leysa ágreining og hafa hemil á reiði sinni, með öðrum orðum að kenna þeim samskiptahæfni, þurfa þeir að fá tækifæri til að æfa sig í þeirri hegðun sem við viljum að þeir tileinki sér.

Staða lífsleikni í skólum

En hvernig hefur námsgreininni reitt af í íslenskum skólum þau ár sem hún hefur verið að slíta barnsskónum og hver er staða hennar um þessar mundir? Greinarhöfundi eru ekki kunnar neinar rannsóknir á þessu, en byggir þess í stað á á viðtölum við fjölmarga kennara, m.a. í tengslum við kennaranámskeið og útgáfustarf hjá Námsgagnastofnun, sem og á eigin reynslu sem foreldri grunnskólabarna.

Þeir kennarar sem fyrstir fóru nýta sér námsefni til að efla félags- og tilfinningaþroska nemenda fyrir rúmum áratug spurðu gjarnan þessarar spurningar: „En, hvaðan á ég að stela tíma?“ Þessi sjónarmið komu gjarnan fram á fyrstu lífsleikninámskeiðunum sem haldin voru fyrir kennara. Slíkar viðbárur heyrast varla lengur. Og þrátt fyrir tímaskort á þessum árum „stálu“ margir kennarar tíma. Þetta voru frumkvöðlarnir. Fullyrða má að nú sé þörfin fyrir þessa kennslu viðurkennd af flestum kennurum. Margt bendir þó til þess að sums staðar sé pottur brotinn í kennslu greinarinnar og má það að líkindum rekja til innra skipulags og úreltrar forgangsröðunar í skólum. Einnig má ætla að í byrjun hafi sumir óttast þessa grein af því hún kallaði á nýjar áherslur og breytt vinnubrögð. Nýjungar eru æði oft ógnvekjandi. Ætla má að mikið hafi dregið úr þessum ótta og að sífellt fleiri kennarar hafi öðlast öryggi gagnvart greininni nú þegar tóm hefur gefist til að melta hana og þróa í mörgum skólum. Brýna nauðsyn ber að styðja vel við bakið á kennurum varðandi lífsleiknina, bæði í grunnnámi og einnig með símenntun.

En þó staða lífsleikninnar sem mikilvægs viðfangsefnis virðist smám saman vera að styrkjast er langur vegur frá því að unnt sé að segja að hún hafi unnið sér traustan sess. Þetta sést vel þegar viðmiðunarstundaskrá er skoðuð en samkvæmt henni er ein kennslustund á viku ætluð til kennslu greinarinnar í 4.–10. bekk en engin í 1.–3. bekk, en þar á hún að tengjast og fléttast inn í aðrar námsgreinar. Hér má staldra við og benda á að það er auðvitað íhugunarefni út af fyrir sig að ætla eina kennslustund fyrir þau fjölmörgu viðfangsefni sem rúmast eiga innan greinarinnar. Ekki hvarflar að neinum að kenna lestur eða íslensku eina kennslustund á viku. Og samþætting við aðrar námsgreinar, eins og gert er ráð fyrir í Aðalnámskrá leysir ekki allan vandann. Í námskránni segir að fyrir utan þessa einu stund sé það „val skólastjórnenda hvort þeir nýta sér þann möguleika að bæta við kennslustundum í lífsleikni“. Líklega vita flestir lesendur hvaða námsgreinar verða oftast fyrir valinu þegar ráðstafa skal ógreinabundnum kennslustundum!

Í viðræðum mínum við kennara hefur einnig komið fram að þess eru því miður dæmi að kennslustundir í lífsleikni séu notaðar í uppgjör á fjarvistum, til að spjalla um daginn og veginn, til að koma tilkynningum til nemenda eða jafnvel sem aukatímar í öðrum greinum.

Þetta eru neikvæð dæmi. Hin jákvæðu eru miklu fleiri og auðvitað ætti að byrja á þeim – eins og kennt er í lífsleikni. Dæmi eru um skóla þar sem lífsleikni er kennd í tvær kennslustundir á viku. Nýlega hitti ég í fyrsta sinn kennara sem skipaðir hafa verið fagstjórar í lífsleikni. Fagstjórum í greininni á áreiðanlega eftir að fjölga. Margir skólar eru komnir vel á veg við gerð lífsleikniáætlunar eins og áhersla er lögð á í Aðalnámskrá. Lífsleikniáætlun á að vera hluti af skólanámskrá. Í lífsleikniáætlun setur skólinn fram markmið sín fyrir greinina og þar kemur fram hvaða viðfangsefni eru í öndvegi hverju sinni, hvernig þeim er raðað niður á árganga og ennfremur hvernig markmiðum áætlunarinnar verður náð. Þetta er gríðarlega mikilvægt ekki síst í ljósi þess hve víðtæk greinin er og hve mikil skörun er við aðrar námsgreinar eins og náttúrufræði, íþróttir, heimilsfræði, kristinfræði og samfélagsgreinar svo einhverjar séu nefndar. Í lífsleikniáætlun er einnig mikilvægt að fjalla um þátt foreldra og samstarf við þá því að með þeirra stuðningi og samstarfi aukast líkur á að góður árangur náist með kennslunni, enda uppeldislegir þættir greinarinnar augljósir.

Dæmi um heildstæða stefnu

Hér skal tekið dæmi úr grunnskóla þar sem mótuð hefur verið heildstæð stefna í greininni sem nær til alls skólasamfélagsins. Við skulum kalla þennan skóla Íslandsskóla.

 • Í Íslandsskóla er lögð áhersla á að efla félags-, samskipta- og tilfinningafærni allra nemenda.

 • Í Íslandsskóla er boðið upp á metnaðarfullt skólastarf sem byggir á góðu starfsumhverfi, góðri samvinnu starfsfólks, nemenda, foreldra og annarra samstarfsaðila skólans.

 • Í Íslandsskóla er lögð áhersla á að nemendur fái kennslu við hæfi, að þeir séu metnaðarfullir og líði vel í skólanum.

 • Í Íslandsskóla eru gerðar kröfur til nemenda og starfsfólks um góða ástundun, ábyrgð, dugnað, reglusemi, góða umgengni og kurteisi sem byggir á gagnkvæmri virðingu og trausti.

 • Í Íslandsskóla er stuðlað að heilbrigðum lífsháttum og jákvæðum lífsstíl nemenda.

Markmið fyrir 1.–4. bekk eru að nemendur:

 • öðlist færni í samvinnu

 • sýni tillitssemi og umburðarlyndi

 • beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum

 • geti sett sig í spor annarra

 • geti hlustað á aðra og sýnt kurteisi

 • þekki muninn á réttu og röngu

Markmið fyrir 5.–7. bekk eru að nemendur:

 • sýni sanngirni

 • sýni réttlæti og kurteisi

 • geti leyst ágreining á farsælan hátt

 • geti tjáð og fært rök fyrir hugsunum, skoðunum, tilfinningum og væntingum

 • nýti sér þekkingu sína á réttu og röngu á jákvæðan hátt við eigin ákvarðanir

Markmið fyrir 8.–10. bekk eru að nemendur:

 • sýni sjálfsaga og sjálfstraust í samskiptum

 • geti tjáð og rökrætt hugmyndir sínar og skoðanir og tjáð tilfinningar sínar og væntingar

 • séu færir um að beita gagnrýninni hugsun

 • geti sett sér markmið og framtíðaráætlun

 • geri sér grein fyrir verðmæti jákvæðra gilda og heilbrigðra lífshátta

Eins og sjá má í þessari lífsleikniáætlun eru sett markmið fyrir yngsta stig grunnskólans sem, eins og fyrr var að vikið, er ekki er gert í Aðalnámskrá. Samkvæmt Aðalnámskrá er hugmyndin sú að nám yngstu barnanna "einkennist af kennsluháttum sem má skilgreina sem lífsleikninám". Mín skoðun er sú að það hefði tvímælalaust verið miklu sterkara og flýtt fyrir því að greinin festi sig í sessi ef einnig hefðu verið skilgreind markmið fyrir fyrstu þrjá bekkina líka.

Mikil þróunarvinna hefur farið fram við gerð lífsleikniáætlunar í Íslandsskóla. Svo kallað lífsleikniteymi skólans var sett saman að frumkvæði skólastjóra og sá það um allt skipulag og stjórnaði vinnunni, en allir starfsmenn skólans komu að gerð áætlunarinnar, bæði með þátttöku á námskeiði og með vinnufundum. Umsjónarkennarar útfærðu viðfangsefni greinarinnar fyrir hvern árgang þar sem höfð var í huga eðlileg samfella og samþætting við aðrar greinar. Lykilatriði við gerð þessarar lífsleikniáætlunar voru að skólastjóri hafði frumkvæði og studdi kennarana og að lagt var upp með að semja áætlun sem næði til skólans í heild þar sem áhersla var lögð á vellíðan allra og jákvætt og öruggt námsumhverfi. Þarna hefur farið fram mikið og gott starf sem gæti verið öðrum hvatning.

Gerð vandaðrar lífsleikniáætlunar er forsenda þess að lífsleiknikennsla skili sem bestum árangri. Góð áætlun er ekki síst mikilvæg í ljósi þess hve námsgreinin er viðamikil og hversu náið hún tengist mörgum öðrum námsgreinum. Lífsleikniáætlun eykur líkur á markvissri kennslu, stuðlar að samfellu í náminu og kemur í veg fyrir að ýmis mikilvægir þættir týnist úr.

Framboð á námsefni

Þar sem greinarhöfundur vinnur að útgáfu námsefnis er ekki hægt að láta hjá líða að víkja að framboði á námsefni í greininni. Frá útgáfu Aðalnámskrár 1999 hef ég nokkuð oft heyrt kennara færa þau rök fyrir því að námsgreinin sé ekki kennd að það sé ekkert námsefni á boðstólum. Oftast tekst að sannfæra þá um hið gagnstæða. Gott námsefni getur að sjálfsögðu verið mikil hjálp fyrir kennara og nemendur. Á hinn bóginn er auðvitað ljóst að námsefni þarf ekki endilega að vera forsenda fyrir góðri kennslu. Sumir nota ekkert útgefið námsefni. En framboð á námsefni ætti ekki að hindra kennslu í lífsleikni því eins og komið hefur fram er úr ýmsu að moða. Áríðandi er að kennarar séu vakandi fyrir því sem í boði er og fylgist vel með nýjungum.

Óhætt er að segja að lífsleiknin hafi fengið byr undir báða vængi við útbreiðslu og auknar vinsældir kenninga um tilfinningagreind og fjölgreindir. Það varð greininni til framdráttar að ýmis félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir sáu ástæðu til að styrkja framgang hennar. Sem dæmi um góða og velheppnaða aðild félagasamtaka að lífsleikni mætti nefna Rauða kross Íslands sem gefið hefur út námsefni um skyndihjálp og ofbeldisvarnir. Lionshreyfingin hefur styrkt þessa kennslu með margvíslegum hætti, þó mestu muni um Lions-Quest samstarfsverkefnið sem beindist að útgáfu á kennsluefninu Að ná tökum á tilverunn, þar sem áhersla er lögð á félags- og tilfinningalega hæfni og útgáfu námsefnisins Í sátt og samlyndi þar sem áhersla er á samskiptahæfni. Að síðustu má nefna verkefnablöð Geðræktar fyrir 4–12 ára börn. Á það má einnig benda að fjöldi fyrirtækja styrkir þessi félagasamtök.

Lífsleiknikennarar

Sú skoðun hefur lengi verið almenn að kennsla í lífleikni sé best komin í höndum umsjónar- eða bekkjarkennara. Þeir þekki sína nemendur best og séu því best til þess fallnir að fjalla um félags- og tilfinningaleg málefni með þeim. Um þessa viðteknu skoðun má hafa ýmsar efasemdir. Kennari sem hefur áhuga og þekkingu á viðfangsefninu, er góður í samskiptum, jákvæður og með opinn persónuleika, hefur með öðrum orðum sterka sjálfsþekkingar- og samskiptagreind eða tilfinningagreind, getur kennt hvaða bekk sem er lífsleikni óháð því hvort hann eða hún er umsjónarkennari eða ekki. Þeim umsjónarkennara sem ekki hefur kynnt sér námsgreinina sérstaklega er gerður óleikur að vera skikkaður í lífsleiknikennslu, að ekki sé minnst á þann sem ekki hefur áhuga á viðfangsefnum greinarinnar.

Ég þekki þess dæmi úr grunnskóla hér á landi að sami kennari annist alla lífsleiknikennslu á unglingastigi og lofar sú reynsla mjög góðu. Í þessu sambandi má geta þess að þessi háttur er yfirleitt á hafður við kennslu greinarinnar í bandarískum skólum.

Hitt er svo annað mál að þó að lífsleiknikennsla sé ekki á allra færi frekar en kennsla í stærðfræði, þýsku eða eðlisfræði er augljóst að allir kennarar eru í raun lífsleiknikennarar og verða að vera það. Kennarar eru nemendum fyrirmyndir um samskipti og framkomu. Börn læra það sem fyrir þeim er haft og gullna reglan er auðvitað einn af hornsteinum lífsleikninnar.

Ný námsgrein Brýnt viðfangsefni

Í heiti þessarar greinar er spurt hvort lífsleikni sé gamalt vín á nýjum belgjum. Margir eru þeirrar skoðunar að lífsleiknikennsla sé engin nýlunda. Skólinn hafi sinnt þessu í uppeldisstarfi sínu allar götur og sinni enn. Til hvers að vera að búa til nýja námsgrein fyrir viðfangsefni sem skólinn hefur ávallt sinnt? Þessu er að nokkru svarað í Aðalnámskránni þar sem áhersla er lögð á að greinin eigi að koma til móts við kröfur um aukið uppeldishlutverk skóla og skapa skólum tækifæri til að sinna lögboðnum og samningsbundnum fræðsluskyldum á heildstæðan hátt. Í mínum huga felst mikilvægi greinarinnar ekki síst í þeim tækifærum sem kjarni hennar og meginviðmið skapa til þess að hjálpa nemendum að læra á lífið í nútíma-, hátækniþjóðfélagi.

Lífsleikni hefur alltaf verið mikilvægt viðfangsefni en þróun samfélagsins krefst þess að henni sé gert enn hærra undir höfði. Hér nægir að nefna hraðari breytingar, síbreytilegar og miklar kröfur, vaxandi neysluhyggja, minna félagslegt samneyti, aukin samfélgsleg vandamál af ýmsum toga, aukna tíðni þunglyndis og geðraskana af ýmsu tagi, áfengis- og fíkniefnaneyslu, almennt agaleysi og farald kynsjúkdóma meðal ungs fólks, svo nokkuð sé nefnd. Sorglegar upplýsingar hafa nýlega komið fram um fjölda þeirra unglinga sem reynt hafa sjálfsvíg. Á ráðstefnu um lýðræðisleg gildi í skólastarfi sem haldin var fyrir skömmu lýsti Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti áhyggjum sínum yfir einstaklings- og neysluhyggju ungu kynslóðarinnar, þar sem viðmiðið væri „What's in it for me?“ og að lífsstíllinn kristallaðist í orðunum „shop and fuck“.

Í þessu ljósi er lífsleikninni ætlað sérstakt forvarnarhlutverk. Við sem vinnum að skóla- og menntamálum í samvinnu við heimilin og foreldra verðum að bregðast við þeim neikvæðu teiknum sem við nú stöndum frammi fyrir og og reyna að vinna úr þessum aðstæðum eins og við best getum. Markviss og heildstæð lífsleiknikennsla er liður í því að mínu mati. Og við þurfum að vinna að því að lífsleiknin skipi sama og jafnmikilvægan sess og aðrar námsgreinar. Það er forsenda þess að nemendur beri virðingu fyrir þeim mikilvægu viðfangsefnum sem í greininni felast.

„Við erum nemendur í dag, í skólum frá því í gær, þar sem kennarar frá því í fyrradag nota aðferðir frá miðöldum til að búa okkur undir vandamál morgundagsins.“ Þessa setningu er að finna í námsbók um siðfræði fyrir ungt fólk, Leið þinni um lífið, sem er nýlega komin út. Ætli leynist í þessu sannleikskorn eður ei? Svari hver fyrir sig!

Lífsleikni er ný námsgrein. Námsgrein sem getur verið liður í því að gera setninguna úr siðfræðibókinni hér að ofan ósanna. Lífsleikni er ætlað að skapa nýja umgjörð utan um ný og gömul viðfangsefni skólastarfs og almennrar menntunar. Enda þótt líkja megi sumum viðfangsefnum lífsleikninnar við gamalt vín á nýjum belgjum varðar einnig miklu að greinin skapar tvímælalaust nýja möguleika og svigrúm til þess að sinna mikilvægum þáttum menntunar á markvissan og skipulegan hátt alla skólagönguna. Hún býður okkur að hjálpa nemendum að læra að þekkja tilfinningar sínar og að hafa stjórn á þeim og að vera næmir á það hvernig öðrum líður. Að eiga uppbyggileg samskipti við aðra, að geta tekið ákvarðnir og leyst mál og beitt til þess gagnrýninni og skapandi hugsun. Hún býður okkur að hjálpa nemendum að setja sér markmið og tileinka sér siðvit og góðan lífsstíl. Lífsleikni færir okkur ný og dýrmæt tækifæri til þess að sinna félags- og tilfinningamiðaðri menntun þannig að ungt fólk sé raunverulega undir það búið að lifa og starfa á 21. öld og læri sem best á lífið. Hvaða viðfangsefni getur talist brýnna?

 

Námsefni í lífsleikni þar sem fjallað
er um samskipti og tilfinningar

Yngsta stig


Ég hef tilfinningar
Myndaspjöld með 23 ljósmyndum. Útg. 1987.

Um mig og þig
Handbók. Fjallað um tilfinningar og ýmislegt fleira. Útg. 1989.

Gaman saman
Kennaramappa með kennsluviðfangsefnum sem þjálfa félags- og tilfinningalega hæfni. Byggir á aðferðum atferlisstefnunnar (límmiðar í verðlaun).

Miðstig


Samvera
Nokkur hefti: Ræðum saman heima, Verum vinir, Verum saman í frímínútum, Vinnum saman í skólastofunni. Handbók fyrir foreldra og kennara og kennsluleiðbeiningar fylgja. Þjálfun í samskiptafærni. Útg. 1992.

Ég er bara ég
Fjallar um tilfinningar og samskipti með áherslu á jafnrétti, að allir séu jafnir óháð útliti, kyni, trú o.fl. Kennsluleiðbeiningar í vefútgáfu. Útg. 2000.

Venjulegur dagur
Í heftinu er fjallað um tilfinningar og samskipti. Kennsluleiðbeiningar fylgja. Útg. 1998.

Að ná tökum á tilverunni (Lions-Quest)
Sumir skólar kjósa að byrja að kenna þetta efni í 6. bekk og halda áfram í 7. bekk. Aðaláhersla í efninu er þjálfun í samskiptum og að skilja og ráða við tilfinningar. Handbók kennara. Sérstök foreldrabók, Árin sem koma á óvart. Lesbók fyrir nemendur, Breytingar (nú til á hljóðbók), vinnublöð til ljósritunar í handbók. Útg. 1990/ 2001.

Unglingastig


Að ná tökum á tilverunni (Lions-Quest)
Algengast er að kenna þetta efni í 7. og 8. bekk. Sjá að ofan.

Í sátt og samlyndi (Lions-Quest)
Mappa með leiðbeiningum og vinnublöðum til ljósritunar. Efninu er ætlað að efla samskiptafærni og koma í veg fyrir ofbeldi þegar ágreiningur rís. Sérstaklega fjallað um einelti og yfirgang. Bæklingur fyrir foreldra fylgir. Útg. 1998.

Er ekki allt í lagi?
Skyggnur í möppu ásamt verkefnum. Fjallað um samskipti, kynlíf, ofbeldi o.fl. Kennarahefti fylgir. Útg. 1990.

Lítum á samskiptin
Skyggnur í möppu ásamt verkefnum. Fjallað um tilfinningar, samskipti, umburðarlyndi o.fl. Kennarahefti fylgir. Útg. 1994.

Hvað finnst þér?
Fjallað um tilfinningar, samskipti og nokkuð fleira. Kennsluleiðbeiningar fylgja. 2. útg. 1992.

Lífsgildi og ákvarðanir
Samþætting líffræði og lífsleikni. Um er að ræða kynfræðsluefni sem tekur á siðfræðilegum og líffræðilegum þáttum kynlífs. Kennarabók, 13 stuttir þættir á myndbandi og foreldrabók.

Kynlega klippt og skorið
Úrklippubók unglings sem er að velta fyrir sér málefnum kynjanna. Ýmis félagsmótandi öfl skoðuð í spéspegli. Efninu ætlað að vera kveikja að umræðum og verkefnum um málefnið. Kennsluleiðbeiningar fylgja í vefútgáfu. Útg. 2001.

Leið þín um lífið
Siðfræði fyrir ungt fólk – Fjallað um ýmsa þætti mannlegrar tilveru á forsendum siðfræði/heimspeki. Mörgum áleitnum spurningum beint til nemenda. Fjölbreytt verkefni og mikið myndefni. Útg. 2002.

 

Sjá nánar um námsefnið á vef Námsgagnastofnunar,
http://www.namsgagnastofnun.is og í kynningarskrám.