Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 3. nóvember 2002

Svanfríður Jónasdóttir 

Fjarkennsla framhaldsskóla
á Austurlandi

Getur leið þeirra verið fyrirmynd
annarra lítilla framhaldsskóla?

Í greininni er fjallað um hvernig fjarkennsla og ný tækni er notuð til að takast á við ýmsan vanda sem fylgir því að starfrækja skóla í dreifbýli. Litið er sérstaklega á framhaldsskólana þrjá á Austurlandi, samstarf þeirra og breytta aðstöðu til að bjóða fram fjölbreytt nám í fjórðungnum. Greinin er að stofni til námsritgerð við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Höfundur er alþingismaður.

Inngangur

Grein gerð fyrir verkefninu og þeirri spurningu sem reynt verður að svara

Almenn samstaða virðist um mikilvægi þess að gera aðgengi að menntun sem greiðast, fyrir sem flesta. Það byggir bæði á skilningi á því hversu menntun er mikilvæg fyrir þróun atvinnulífsins í landinu, aukinn hagvöxt og efnalega hagsæld, og því að menntun sé mikilvæg fyrir lífshamingju einstaklingsins. Mikilvægi aðgengis að menntun er talið fara vaxandi og því er sérlega áhugavert að fylgjast með því hvernig samskiptatæknin er notuð til mæta ólíkum kröfum fólks og fyrirtækja, og til að upphefja ýmsa erfiðleika sem fylgja því að starfrækja skóla í dreifbýli.

Í stóru og dreifbýlu landi eins og Íslandi hefur möguleikum til fjarkennslu og fjarnáms verið tekið fagnandi. Vöxtur hefur verið mikill í ýmis konar tækifærum til fjarnáms og nú stundar stór hópur landsmanna fjarnám bæði á framhalds-og háskólastigi. Samkvæmt svari menntamálaráðherra á 127. þingi við fyrirspurn þ.a.l. kemur fram að á haustönn 2001 voru á þriðja þúsund nemendur skráðir í fjarnám á þessum skólastigum, nánast jafnt á báðum.

Það er afar mikilvægt að þeir sem eru að undirbúa fjarkennslu eða vinna við hana fylgist með því og kynni sér það sem er að gerast á þeirra sviðum, bæði tæknilega og kennslufræðilega. Þannig má læra af reynslu annarra og líkur eru á að takmörkuðu þróunarfé verði betur varið. Þegar er orðin til margþætt reynsla sem hægt væri að draga lærdóm af við framhaldið.

Í þessari ritgerð mun ég fyrst og fremst fjalla um það hvernig fjarkennsla og sú tækni sem er forsenda nútíma fjarkennslu, er notuð til að takast á við ýmsan vanda sem fylgir því að stafrækja skóla í dreifbýli. Ég skoða sérstaklega framhaldsskólana þrjá á Austurlandi og hvernig samstarf þeirra hefur styrkt stöðu skólanna og breytt aðstöðu þeirra til að bjóða uppá fjölbreyttara nám í fjórðungnum. Sú meginspurning sem ég reyni að svara er hvort leið þeirra geti verið fyrirmynd annarra framhaldsskóla á landsbyggðinni.

Skólameistarar framhaldsskólanna þriggja, þau Eyjólfur Guðmundsson, Helga M Steinsson og Helgi Ómar Bragason, veittu mér upplýsingar um það sem mestu máli skipti við þessa samantekt. Fyrir það kann ég þeim hinar bestu þakkir.

Skólarnir þrír

Þeir skólar sem um ræðir eru Menntaskólinn á Egilsstöðum, http://www.me.is, Verkmenntaskóli Austurlands, http://www.va.is, og Framhaldsskólinn í Austur-Skafrafellssýslu, http://www.fas.is.

Menntaskólinn á Egilsstöðum (ME) var stofnaður haustið 1979. Áður voru framhaldsdeildir við grunnskólann á Egilsstöðum. Í ME voru á síðasta skólaári 270 nemendur í dagskóla. Ef allir nemendur sem skólinn þjónar; dagskólanemar, kvöldskólanemar, fjarkennslunemar og utanskólanemendur eru taldir með voru þeir um 400. Við ME er löng hefð fyrir utanskólanemendum og má segja að skólinn hafi beitt þeirri aðferð til að halda nemendum í sambandi við skólann í stað þess að þeir hættu alveg, enda talið líklegra að slíkir nemendur komi þá aftur í fullt nám við skólanum.

Verkmenntaskóli Austurlands (VA) var stofnaður 1986 uppúr framhaldsskóla Neskaupstaðar sem áður var Iðnskólinn í Neskaupstað. Höfuðstöðvar skólans eru í Neskaupsstað. Á haustönn 2001 voru 129 dagskólanemendur en að viðbættum utanskólanemendum, öldungardeildarnemendum (meistaranám og 30 tonna námskeið) og fjarkennslunemendum urðu nemendur alls 207. Sambærilegar tölur fyrir vorönn 2002 voru 130 og 187.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) er um 100 nemenda skóli, til húsa í Nýheimum á Höfn. Fyrirrennari FAS var framhaldsdeild við Nesjaskóla í eitt ár og þar áður framhaldsdeild við Heppuskóla. Í skólanum hafa verið um 100 dagskólanemendur og 70100 í fjarnámi frá öðrum skólum, eða allt að 200 nemendur alls.

Úr vörn í sókn

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997 kom fram býsna mikill niðurskurður á framlögum til nokkurra lítilla framhaldsskóla, aðallega á landsbyggðinni (http://www.althingi.is/altext/121/s/0001.html). Skýringar menntamálaráðherra voru þær að verið væri að færa gildistölu þessara skóla til samræmis við ýmsa aðra skóla á landsbyggðinni. Á mannamáli þýddi það að gera ætti sömu kröfur til þessara skóla um hagkvæmni í rekstri og til hinna stærri skóla. Litið var á þessa tillögu sem alvarlega ógnun við sjálfstæði og jafnvel sjálfa tilvist þessara skóla. Mikil mótmæli voru höfð uppi og varð endirinn sá að niðurskurðarhugmyndum í upphaflegri mynd var vikið til hliðar við afgreiðslu fjárlaganna. Þeir skólar sem um ræddi og aðrir fámennir framhaldsskólar sáu þó sína sæng út breidda og svöruðu almennt þessari hótun um niðurskurð og kreppu með skapandi hætti.

Í umræðum á Alþingi um tillögur menntmálaráðuneytisins varðandi framhaldsskólana kom fram hjá menntamálaráðherra að hann teldi að aukið samstarf skólanna bæði á Norðurlandi og einnig á Austurlandi muni styrkja stöðu framhaldsskólanna (http://www.althingi.is/altext/121/10/r08163019.sgml).

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu átti samkvæmt upphaflegum tillögum að sæta hvað mestum niðurskurði. Það hefur vafalaust hreyft við hinum skólunum á Austurlandi. Skólarnir tóku því allir jákvætt í frumkvæði ráðuneytisins að formlegu samstarfi og haustið 1997 var komið á samstarfsnefnd skólanna þriggja með þátttöku fulltrúa ráðuneytisins. Samstarf skólanna er samkvæmt sérstökum samstarfssamningi. Markmið hans er fyrst og fremst að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er og tryggja þeim sem bestan undirbúning undir frekara nám eða störf án tillits til búsetu.“ Önnur markmið í samstarfssamningnum sem skipta máli í þessu samhengi eru að draga úr vanda sem stafar af fámenni og vanbúnaði í einstökum skólum, að nýta aðstöðu og kennara í sem flestra þágu og að koma á markvissri samvinnu og verkaskiptingu á milli framhaldsskóla á Austurlandi þar sem styrkur og sérkenni hvers um sig fær notið sín til gagns fyrir sem flesta.

Þegar samstarfsnefndinni var komið á fót voru aðilar ekki með markaðar hugmyndir um það hvert skyldi halda. Niðurstaðan varð hins vegar sú að efnt var til samkennslu í formi fjarkennslu milli skólanna til að auka námsframboð og gera nemendum þannig kleift að ljúka námi sínu við viðkomandi skóla. Fulltrúi menntamálaráðuneytis sat í nefndinni í þrjú ár, en að þeim tíma liðnum má e.t.v. segja að samstarf skólanna hafi verið komið í þann farveg að þeir gætu einir þróað sína samvinnu áfram. Aðild fulltrúa ráðuneytisins að samstarfsnefndinni hefur ugglaust aukið á skilning menntamálayfirvalda á aðstæðum. Skólarnir fengu m.a. beinan fjárstuðningur vegna fjarfundarbúnaðar í þrjú ár og framlög úr Þróunarsjóði framhaldsskóla til að takast á við nýjar aðstæður, en í mars 1998 var sótt um styrk í þróunarsjóðinn vegna verkefnisins „Undirbúningur kennslu með fjarfundasniði“. Markmið verkefnisins var „að öðlast reynslu í notkun fjarfundarbúnaðar til kennslu á framhaldsskólastigi“ og „að samkenna fámenna áfanga og nýta þar með takmarkað fjármagn betur svo og sérþekkingu kennara sem til staðar er í skólunum.“

Aðferðir og tækni

Með tilkomu samnets Landssímans (ISDN) opnaðist raunhæfur möguleiki á að senda kennslustundir um símalínur með fjarfundarbúnaði. Myndsímar komu fyrst á markað um 1964 en náðu ekki mikilli útbreiðslu. Þróun myndsíma og fjarfundarbúnaðar hefur verið mjög ör á síðustu árum og verð búnaðar lækkað. Upphaflega fór fjarkennslan fyrst og fremst fram gegnum fjarfundarbúnað. Sú tækni sem skólarnir tóku í þjónustu sína hefur síðan þróast mikið og orðið fjölbreyttari.

Á árinu 1998 sömdu framhaldsskólarnir á Austurlandi við Landssímann h.f. um leigu á fjarfundarbúnaði og ótakmörkuð afnot af myndtengibrú Landssímans. Í hverjum skólanna þriggja var þá komið upp fjarfundarbúnaði sem er: 41“ sjónvarp, 20“ sjónvarp, skjalamyndavél, sjálfvirk myndavél, móttökubúnaður fyrir 3 ISDN-grunntengingar, PC-breytibúnaður, hjólaborð fyrir sjónvarp og auka hljóðnemi. Í fjarfundarkennsluveri er kennslustund tekin upp og send samstundis til annars staðar þar sem nemendur í fjarfundarveri sjá og heyra kennara og geta verið virkir þátttakendur í kennslustundinni líkt og væru þeir staddir hjá kennaranum.

Með þessum búnaði hafði skapast hin tæknilega forsenda fjarkennslunnar. Reynt var að útvega kennurum námskeið en ekki var um auðugan garð að gresja. Kennara sóttu sér þá fræðslu sem á boðstólum var en flest þau námskeið sem unnt var að fá lutu að tækninni fremur en kennslufræði.

Þróunarverkefni

Skólaárið 19981999 voru 5 áfangar samkenndir milli skólanna með fjarfundarbúnaði. Vinnan var hluti þróunarverkefnisins og í lok skólaársins var unnin skýrsla þar sem farið var yfir það hvernig til hafði tekist. Þar kemur fram að kennarar og nemendur virðist í aðalatriðum vera nokkuð sáttir. Ákveðins óöryggis gætti þó meðal nemenda og óánægju með að ekki skyldi vera unnt að bjóða uppá fullan kennslustundafjölda í þeim áföngum sem voru samkenndir. Það kom einnig fram að nemendum fannst til muna erfiðara að læra stærðfræði í fjarkennslu en t.d. félagsfræði. Námsárangur í áföngunum þótti þó viðunandi.

Við kennsluna var að mestu beitt hefðbundnum kennsluaðferðum með fyrirlestrum, glærum, sýnidæmum á töflu o.s.frv. Tölvupóstur var talsvert notaður við verkefna skil en spjallrásir ekkert. Ekki voru heldur útbúnar sérstakar vefsíður í tengslum við þessa áfanga. Óöryggi nemenda var m.a. vegna þess að þau höfðu ekki þá tækni á valdi sínu sem nota þurfti og höfðu áhyggjur af einkunum sínum. Þá var það mat bæði nemenda og kennara að mikilvægt væri að kennari heimsækti fjrnemendur sína a.m.k. tvisvar á önn.

Staðan í dag

Þegar þau líta til þess tíma sem liðinn er síðan þróunarverkefninu lauk, vorið 1999, er það mat skólameistara skólanna þriggja að þokkalega hafi tekist að ná þeim markmiðum sem samstarfsnefndin setti sér. Í viðtölum undirritaðrar við þau kom m.a. fram að fjarkennslan eykur námsframboð skólanna og gerir þeim öllum kleift að halda úti námi til stúdentsprófs. Með þessari leið sé hægt að bjóða uppá nám sem annars væri ekki. Horft væri á svæðið í heild og aukið samstarf skólanna sé mikill stuðningur bæði fyrir skóla og kennara.

Þegar námsframboð skólanna er skoðað sést hvaða áfangar eru fjarkenndir. Fjöldi þeirra hefur verið breytilegur milli anna og ráðist af því hve mikil aðsókn er í einstaka áfanga og/eða hvort heppilegra væri að ráða kennara að skólanum eða fá kennsluna frá öðrum hvorum hinna skólanna. Þannig sé litið til þess þegar verið sé að skipuleggja kennsluna hvort kennari er í hinum skólunum sem gæti tekið að sér kennslu lítilla námshópa í stað þess að ráða kennara að skólanum eða bæta kennslunni á einhvern annan sem ekki er menntaður á viðkomandi sviði.

Samvinnan hefur líka leitt það af sér að nú skipuleggja skólarnir þrír saman nýjar brautir þar sem gert er ráð fyrir þáttöku nemenda og kennara í öllum skólunum. Nýjasta dæmið um það er Upplýsinga- og fjölmiðlabraut sem skólarnir skipulögðu saman frá upphafi. Nemendur í öllum skólunum eru skráðir á brautina og kennarar í öllum skólum taka þátt í kennslunni.

Svo náin samvinna skóla kallar á mikla samræmingu. Skólarnir hafa þó haldið í ákveðin sérkenni sín þó það hafi bakað þeim vandræði við töflugerð. Þannig er FAS búinn að vera með klukkustunda kennslulotur í nokkur ár á meðan ME er með fimmtíu mínútna lotur og stuðningstíma. VA er síðan verkmenntaskóli sem skapar honum ákveðna sérstöðu. Skólarnir eru með samræmt skóladagatal og lagður er sameiginlegur grunnur að töflu þannig að teknir eru frá ákveðnir tímar fyrir fjarkennslu.. Sá skóli sem sér um kennsluna fær greiðsluna fyrir áfangann. Því viðhorfi var líka lýst að í stað samkeppni um nemendur á svæðinu stuðli þessi mikla samvinna skólanna miklu frekar að því að kakan stækki, þ.e. möguleikar hvers þeirra um sig til að bjóða uppá fjölbreyttara nám og að nemendur geti lokið framhaldsskólanámi við skólana laði einfaldlega að fleiri nemendur.

Skólarnir fá aðallega fjarkennslu frá hver öðrum. Þó eru dæmi um að áfangar hafi verið keyptir frá VMA, einkum þá að einstaka nemendur kaupi slíka áfanga til að bæta e-u við sig. ME kaupir nú tölvufræðiáfanga fyrir hóp nemenda frá Fjölbrautarskóla Suðurlands og er áfanginn í kerfi FS en kennari frá ME er tengiliður og býður uppá stuðning.

Hlutur kennaranna

Geta allir kennarar orðið fjarkennarar? Það er mat skólameistaranna að góður kennari verði líka góður fjarkennari. Tölvuvæðing og aðgengi að netinu láti reyndar fáa kennara ósnortna því flestir nýti sér upplýsingar af netinu sem ítarefni við kennslu og vísi nemendum sínum á netið til dýpkunar á efni og til upplýsingaöflunar. En vissulega reyni meira á þá kennara sem taki að sér fjarkennslu og sú aðferð skilji e.t.v. meira á milli góðu kennaranna og hinna. Þeir þurfi, auk fagþekkingar sinnar og kennslufræði, að hafa tæknina á valdi sínu og að skipuleggja bæði önnina og hvern tíma nákvæmar en ef einungis væri um að ræða nemendur í stofu þar sem frekar sé unnt að leika af fingrum fram ef undirbúningi er eitthvað áfátt. Líklega sé meira um verkefnaskil og mat því e.t.v. eitthvað annað. Fjarkennarar séu líka sífellt að laga sig að möguleikum tækninnar sem sé í örri þróun. Nú séu skólarnir t.d. komnir með WebCT ásamt fjarfundarbúnaðinum sem gefi fleiri möguleika í kennslunni og samskiptum við nemendur. Líklega sé sá tími vanmetinn sem kennararnir þurfi til undirbúnings. Kennarar fá álag á laun sín í fyrsta skipti sem þeir fjarkenna áfanga en síðan eru þeir jafnsettir öðrum kennurum í launum.

Skólameistarar telja að sú kennslufræði sem stuðst sé við sé í sjálfu sér sú sama og í hefðbundinni kennslu enda hafi hvorki farið fram miklar rannsóknir á kennslufræði netsins séstaklega né sé um auðugan garð að gresja vilji kennarar fara á slík námskeið eða lesa sér til. Þau námskeið sem boðið sé uppá séu fyrst og fremst í tækninni.

Þau telja að þetta fyrirkomulag sé faglega jákvætt fyrir kennara og að betri nýting verði á fagþekkingu þar sem meiri líkur séu á að kennari við lítinn skóla geti með þessum hætti nýtt fagþekkingu sína í stað þess að vera e.t.v. settur til kennslu við grein sem hann hefur litla þekkingu á. Kennslukraftar nýtist þannig betur. Og sú skoðun kom fram að þátttaka í fjarkennslu gæti verið jákvæð ögrun fyrir kennara. Fjarkennslan er þó ekki komin í það horf sem þau vildu sjá til framtíðar. Enn eru ýmis mál óleyst, bæði tæknilega og faglega. En farvegurinn til fjölbreyttara námsframboðs er fundinn.

Og svo eru það nemendurnir

Gengur öllum nemendum vel að fóta sig við þessar nýju aðstæður? Það kom fram bæði hjá skólameisturum og í umsögnum nemenda í fylgiskjali með skýrslunni sem unnin var um þróunarverkefnið, að undirbúningur nemenda þyrfti að vera betri áður en þeir hefja fjarnám. Tryggja þurfi að allir nemendur hafi netfang og hafi sæmilega tölvufærni. Einnig að ef nemendur þurfi að nota tiltekin forrit að þau séu til staðar sem og þekking nemenda á notkun þeirra. Þá telja skólameistarar afar mikilvægt að kennarar komi og hitti nemendur. Samskipti kennara við fjarnemendur eru enn sem komið er aðallega í gegnum fjarfundarbúnaðinn og svo með tölvupósti. Kennari og nemendur þyrftu hins vegar að hittist tvisvar til þrisvar á önn til að hópurinn og kennari þeirra kynnist. Það sé líka vilji kennara. Slíkt þurfi hins vegar að skipuleggja strax í upphafi svo það gangi upp og nýtist öllum. Það hafi ekki alltaf tekist.

Einnig er skólameisturum ljós nauðsyn þess að nemendur eigi stuðning vísan í sínum heimaskóla í þeim áföngum sem þeir fá fjarkennda. Þá er þeim ofarlega í huga hversu miklu máli það skiptir á hvaða aldri nemendur séu. Fjarnám krefjist meiri sjálfsaga af nemanda en hefðbundið nám og betri skipulagningar á vinnunni. Nemendur í fjarkennsluáföngum fá ekki jafn marga tíma og ella væri og kennsla þeirra og vinna skipulögð miðað við það. Það sé því að jafnaði þannig að eldri og þroskaðri nemendum gangi betur að fóta sig við þessar aðstæður en ungmennum sem eru að hefja framhaldsskólnám. Flestir nemendur finni sig öruggari með kennara hjá sér. Því sé svo mikilvægt að kennarar heimsæki nemendahópinn. Það virðist þó svo að nemendur hafi meiri velþóknun á námi í gegnum tölvu en fjarfundarbúnað.

Mikilvægi viðveru kennarans er aldurstengt og í viðtölum við skólameistara tóku þeir dæmi um kvöldskólanám þar sem fjarkennsla hefur gefið afar góða raun fyrir fullorðið fólk. Nefnd voru til sögunnar leiðsögumannanám sem var blanda af fjarnámi, staðnámi og verkefnum, og skrifstofutækninám þar sem svipað fyrirkomulag var viðhaft, en þessi námskeið voru á vegum skólanna eystra.

Nemandi í fjarnámi sem nær góðum tökum á námi sínu eftir þeirri leið fær þá þjálfun sem viðbót við nám sitt. Það er mat margra að slíkir nemendur séu að jafnaði betur búnir undir hvort sem er háskólanám, endur- og viðbótarnám í framtíðinni eða atvinnulífið. Það að vera í fjarkennsluáföngum með staðkennslu skapi líka meiri fjölbreytni og vinni þannig gegn skólaleiða. En þessi aðferð við kennslu sem gerir aðrar og meiri kröfur til nemenda, greini líka góða og slaka nemendur meira að en hefðbundin kennsla.

Hvernig verður framtíðin?

Skólameistarar framhaldsskólanna á Austurlandi telja að í framtíðinni verði allir kennarar fjarkennarar og sú aðferð að fjarkenna og taka við kennslu frá öðrum stað verði eðlilegur hluti af skólastarfi í landinu. Með betri tækni og meiri þekkingu á kennslufræði netsins hljóti það að verða þróunin. Og eitthvað í þá áttina virðist vera að gerast því nú sýnist vart vera sá framhaldsskóli í landinu að hann ekki ýmist selji fjarkennsluáfanga eða kaupi, nema hvorutveggja sé. Og er þetta þá bara ekkert mál? Eru öll mál leyst?

Reynsla skólanna fyrir austan af fjarkennslubúnaðinum hefur verið góð. Það hefur þó verið erfitt að tengja saman fleiri skóla en tvo og hljóðgæði hafa ekki alltaf verið uppá marga fiska. Þetta stendur til bóta með nýrri tækni. Skólameistararnir sjá ekki stórar breytingar á næstunni nema hvað tæknin batnar og festir þetta fyrirkomulag í sessi. Og netið og tölvur verða nýtt meira. Fartölvuvæðing framhaldsskólanna hraði þeirri þróun. Skólarnir hafa verið að bæta WebCT við fjarfundarbúnaðinn, FAS hefur t.d. notað WebCT í eitt og hálft ár, og þykjast þau sjá að með því aukist gæði kennslunnar og möguleikar.

Tæknin skiptir miklu og tækjum mun fjölga jafnframt því að menn komast yfir tækniörðugleikana. En það er ekki nóg. Það er mat skólameistaranna að beina þurfi athyglinni meira að kennslunni sjálfri og menntun kennara. Núna vantar fyrst og fremst kennara sem hafa tæknina á valdi sínu og geta þar með hellt sér í frekari þróun á kennslunni sjálfri. Það vanti námskeið, endurhæfingu fyrir kennara og að kennaramenntunin taki mið af veruleika fjarkennslunnar. Eins og staðan er í dag séu það fyrst og fremst kennarar sem sjálfir hafa sótt sína menntun með fjarnámi sem hafi öryggi gagnvart tækninni. Sá ótti var látinn í ljósi að ef fjarkennsla, tæknin og kennslufræðin, yrðu ekki snar þáttur í allri kennaramenntun gæti það orðið nýr þröskuldur fyrir kennara með hefðbundna kennaramenntun að fara út á land þar sem ljóst mætti vera að landsbyggðarskólarnir mundu a.m.k. fyrst um sinn nýta sér þessa möguleika meira en stærri skólarnir í þéttbýli.

Starfandi kennarar þurfi líka að læra betur að beita þessari aðferð við kennslu. Það sé því afar mikilvægt að meiri viðurkenning fáist á því hve mikinn tíma undirbúningur fjarkennslu og vinnan við hana taki, ef vel á að vera.

Varðandi nemendur virðast skólameistarar sammála um mikilvægi þess að litið sé til aldurs nemenda þegar þjónustan við þau er skipulögð. Samkvæmt þeirri úttekt sem gerð var eftir þróunarverkefnið virtist ekki munur á árangri nemenda eftir því hvort þeir nutu fjarkennslu eða voru í staðnámi. Eigi að síður er það tilfinning kennara að betur þurfi að taka á með þeim sem lakar standa því þeim virðist erfiðara að takast bæði á við námið og það að þurfa að skipuleggja tíma sinn og aga sig til náms eins og fjarkennslan gerir kröfu um. Það væri liður í að jafna aðstöðu nemenda enn frekar. Þá þurfi að hyggja betur að undirbúningi nemenda þannig að þau hafi þá færni sem krafist er þegar þau hefja fjarnám.

Undanfarin ár hefur ný kostnaðarvitund orðið til í framhaldsskólum landsins. Hugtök eins og reiknilíkan og nemendaígildi hafa sín áhrif á þróun skólanna og viðhorf þeirra sem þar bera ábyrgð. Fjarkennslunámskeið eru seld á milli skóla í einhverri mynd og einstakir framhaldsskólanemendur kaupa námskeið af öðrum skólum. Það er full ástæða til að vera á varðbergi gagnvart þessari þróun sem augljóslega gæti leitt til þess að framhaldsskólanám yrði með tímanum að stórum hluta greitt af nemendum sjálfum.

Er hér komin fyrirmynd fyrir aðra sem líkt er ástatt um?

Markmið samstarfssamnings skólanna eru eins og áður sagði; „að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er og tryggja þeim sem bestan undirbúning undir frekara nám eða störf án tillits til búsetu“ og einnig „að draga úr vanda sem stafar af fámenni og vanbúnaði í einstökum skólum, að nýta aðstöðu og kennara í sem flestra þágu og að koma á markvissri samvinnu og verkaskiptingu á milli framhaldsskóla á Austurlandi þar sem styrkur og sérkenni hvers um sig fær notið sín til gagns fyrir sem flesta.“ Þegar farið er yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja um það hvernig til hafi tekist miðað við þessi markmið sýnist sem svo að vel megi við una. Skólarnir hafa haldið sjálfstæði sínu og sérstöðu þrátt fyrir hið þétta samstarf sem þeir eiga sín í milli. Og samstarfið hefur gert það að verkum að þeir hafa getað bætt aðgengi nemenda að fjölbreyttu námsframboði. Fjarkennslan hefur sannarlega dregið úr þeim vanda sem stafar af fámenni og vanbúnaði í einstökum skólum þar sem skólarnir hafa getað nýtt aðstöðu og fagþekkingu kennara í þágu fleiri nemenda. Þannig séð finnst mér að skólarnir hafi náð bærilega þeim markmiðum sem sett voru.

Þessi markmið eru hin hliðin á vanda margra lítilla framhaldsskóla sem þurfa að halda úti heildstæðu námi til að þjóna nemendum sínum og samfélagi, en eiga þess varla kost m.a. vegna þess að það er tæpast hægt að bjóða nemendum og kennurum uppá það að kennari fái einungi hlutakennslu í sinni grein en þurfi síðan að fylla stöðu sína með kennslu í e.t.v. alls óskyldri grein. Þennan vanda hefur leið þeirra Austfirðinga leyst. Mér sýnist hún þess vegna geta verið fyrirmynd ýmissa annarra skóla sem svipað er ástatt um.

Mér sýnist líka að leið þeirra geti verið ágæt leiðbeining við frekari uppbyggingu framhaldsnáms í landinu. Krafan um aukinn aðgang að námi á framhaldsskólastigi mun vaxa frekar en hitt. Það er mikilvægt að litið verði til slíks náms sem eðlilegrar þjónustu við fólk og fyrirtæki. Einkum þarf að huga að þeim sem hafa litla formlega menntun, en það liggur fyrir að menntunarstig er mun lægra úti um landið en á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu máli er því sterkur byggðapólitískur vinkill.

Lokaorð

Ótrúlega mikið hefur verið að gerast og ótrúlega hratt á undanförnum árum í fjarkennslumálum. Sú tilfinning verður líka áleitin að það séu of margir að berjast í því að finna upp hjólið, að fáir megi vera að því að bíða eftir því að sjá hvernig tilraunum hinna reiðir af, hvað þá að læra af þeim mistökum sem ugglaust eiga sér stað við þessar aðstæður. Þó menn hafi tæknina er ekki þar með sagt að þeir séu að skila fjarkennslu af þeim gæðum sem nemendur eiga heimtingu á.

Þeir miklu möguleikar sem tölvur gefa við kennslu og nám, bæði fjar-og staðnám, hljóta að hafa mikil áhrif á þróun hugmynda um nám og kennslu á næstu árum. Kenningar um mikilvægi samræðunnar við nám eru nú skoðaðar í leit sérfræðinga að frekari skilningi á því hvernig nám fer fram (Ho, S. 2002). Tækni sem gefur nemanda tækifæri til að leita inn á ný mið og dýpka þekkingu sína með því að smella á „stiklu" (hypertext)er talin afar mikilvæg fyrir virkni og sjálfstæði nemanda. Þá er talið að samvinnunám á netinu geti aukið við og stutt árangursríkt nám. Það er talið mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kenna nemendum að finna upplýsingar, meta þær og gagnrýna og deila skilningi sínum á þeim með öðrum. Það er athyglisvert þegar tilraunir með „hönnun“ fjarkennslu leiða til þeirrar niðurstöðu að samræða um efnið á netinu, ásamt stilkutextum með krækjum í ýmsar heimildir og ítarefni, sé árangursríkasta aðferðin við fjarnám. (Brown, A.1997). Sú niðurstaða rímar vel við kenningar um mikilvægi samvinnunáms (Þuríður Jóhannsdóttir 2001) og þann góða árangur sem ýmsir telja sig hafa staðreynt af slíkri námstilhögun.

Kenningar um það hve samræður á netinu geti hjálpað þeim til virkrar þátttöku sem hafa minna sjálfstraust eða treysta sér ekki af einhverjum ástæðum til þátttöku í umræðum á vettvangi eru líka allrar athygli verðar (Brown, A. 1997). Þannig getur nám á netinu jafnað stöðu nemenda í ýmsum skilningi.

Þessar kenningar og niðurstöður hljóta að hafa áhrif á þróun fjarkennslunnar. Þeir sem lengst eru komnir hafa líka gert sér grein fyrir mikilvægi þess að nemendahópar hittist, kennari hitti nemendur sína og að námsumhverfið á netinu sé þannig að það gefi kost á samræðu um námsefnið; að nemendur geti skiptst á skoðunum og deilt upplýsingum.

Heimsóknir kennara til nemendahópa, samræður á netinu og samvinna, ásamt nýtingu vefsins fyrir efni sem er gætt stiklutextum með krækjum til dýpkunnar á efninu eru allt atriði sem almennt hljóta á næstu árum að verða að veruleika í fjarkennslunni. Skólarnir fyrir austan sem ég skoðaði sérstaklega eru mislangt komnir hvað það varðar en eiga alla möguleika á að vinna úr þeim á næstu árum.

Það var athyglisvert að heyra viðhorf skólameistaranna til þess sem er að vænta í næstu framtíð og sömuleiðis hvað þeir telja mikilvægast. Nú, þegar þeim finnst þeir vera að komast fyrir vind hvað varðar tæknina, fara þeir að skoða betur hvernig kennslan sjálf sé og hvernig þeir möguleikar sem tæknin býður uppá eru nýttir. Það eru vonandi líka viðhorf annarra þeirra sem hafa verið að vinna við að þróa fjarkennsluna.

Rannsóknum á árangursríkum kennsluaðferðum sem taka mið af möguleikum tölvunnar og fjarkennslu ýmis konar hlýtur að fjölga á næstu árum og niðurstöður þeirra að setja mark sitt á þróunina. Þar er mikill akur sem þarf að vinna betur. Á næstu árum, við betri tækni, munu kröfur um fjölbreytni og gæði aukast. Við því þurfa skólarnir að bregðast.

Heimildir

Brown, A. 1997. Designing for learning: What are the essential features of an effective online course? Australian Journal of Educational Technology, 13(2), 115126. http://www.ascilite.org.au/ajet/ajet13/brown.html

Brown, Byron W. og Liedholm, Carl. Janúar 2002. Can Web Courses Replace the Classroom? Lessons from Microeconomics. http://www.msu.edu/~brownb/vstudy.htm

Gísli Ó Pétursson. 1999. Fáein orð um fjarkennslu og fjarnám. http://www.simnet.is//gop/gopfrett/kennsla/fjarnam/fjark_01.htm

Helgi Ómar Bragason og Anna Líneik Sævarsdóttir. 1999. Undirbúningur kennslu með fjarfundarsniði ásamt fylgiskjölum. Skýrsla vegna þróunarverkefnis.

Ho, S. 2002. Encouraging online participation? Focusing on the Student. Proceedings of the 11th Annual Teaching Learning Forum, 56 February 2002. Perth: Edith Cowan University. http://cea.curtin.edu.au/tlf/tlf2002/ho.html

Vefur Alþingis. 121. löggjafarþing. Frumvarp til fjárlaga 1997, þskj.1. http://www.althingi.is/altext/121/s/0001.html

Vefur Alþingis. 121. löggjafarþing. Umræður um frumvarp til fjárlaga 1997. http://www.althingi.is/altext/121/10/r08163019.sgml

Vefur Alþingis. 127. löggjafarþing. Svar menntamálaráðherra, þskj.188. http://www.althingi.is/altext/127/s/0188.html

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. 2001. Veiðum menntun í netið. Reykjavík, Kennaraháskóli Íslands. http://ust.khi.is/tjona/medw.htm

Munnlegar heimildir

Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu

Helga M Steinsson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands

Helgi Ómar Bragason, skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum