Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 10. september 2002

Guðrún Kristinsdóttir 

Gerð rannsóknaráætlana - skipulag eða óreiða?

Andstæður og átök
í návígi við sköpunarkraftinn

Í greininni er fjallað um gerð og gildi rannsóknaráætlana, um nauðsyn áætlanagerðar og inntak hennar. Bent er á veikleika sem fylgja ofurtrú á skipuleg vinnubrögð í þessu sambandi og um þann lausa taum og þá óreiðu sem einkennir góða rannsóknarvinnu og fjalla má um út frá orðunum:

· áhugi og afsakanir
· tími og gerjun
· vísindabyltingar
· flæði og sköpunarkraftur

Höfundur er prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Inngangur

Öllum sem stunda rannsóknir er nauðsyn að temja sér ákveðin vinnubrögð til að árangur náist og ekki síður til að verða gjaldgengir á vettvangi fræðanna.[1] Algeng forskrift að þessu kveður á um að gerð sé rannsóknaráætlun áður en hafist er handa. Þar sé verkefninu lýst, afmörkun þess og kenningarlegum grunni. Þar komi fram markmið með rannsókninni, skilgreining á viðfangsefni og mikilvægi þess, meginspurningar sem svara á og hvaða aðferðir verði viðhafðar. Þar sé gerð grein fyrir gerð og uppbyggingu rannsóknarinnar, fjallað um þýði og úrtak og um ýmis siðfræðileg atriði, hvernig staðið verði að því að afla leyfa og því um líkt. Loks sé vikið að hugsanlegum vandamálum, fjármögnun og tímaáætlun.

Samkvæmt slíkum forskriftum mætti halda að auðvelt sé að halda rauðum þræði í rannsókn með því að feta sig stig af stigi í gegnum áfanga í áætluninni. Því er reyndar stundum bætt við að oft fari eitt og annað úrskeiðis og verði maður að vera viðbúinn því.

Í kennslu um almenn atriði sem lúta að aðferðafræði rannsókna auk leiðbeininga um gerð áætlana er oft staldrað við atriði sem fram koma í eftirfarandi staðhæfingum:

 • Það er nauðsynlegt að hafa fullbúna rannsóknaráætlun þegar maður byrjar að vinna að rannsókn.

 • Áríðandi er að fylgja áætlun sinni nákvæmlega eftir.

 • Öll hugtök sem lögð eru til grundvallar þarf að kryfja til mergjar.

 • Vandinn er að búa til nógu vel afmarkaðar spurningar.

 • Þegar maður er búinn að safna gögnum þarf að vinna vel úr þeim öllum.

 • Eitt af því mikilvægasta við framkvæmd rannsókna er að vera á verði gagnvart huglægum atriðum sem skekkja rannsóknina.

 • Þegar á allt er litið er enginn grundvallarmunur á megindlegum og eigindlegum rannsóknum.

 • Eigindlegar rannsóknir eru góðar sem sem undanfari megindlegra rannsókna til að móta rannsóknarspurningar.

Við þekkjum öll svona eða ámóta upptalningu. Hún er vitaskuld ekki tæmandi en fremur dæmi um margt sem gjarnan er tekið á í þessu samhengi. Hér er ekki ætlunin að veita innsýn í þessi atriði, fremur að ræða um aðra hlið málsins sem er á jaðri hugmynda um ögun í vinnubrögðum, meðal annars um þá nauðsyn að rannsakandinn gefi sér nokkuð lausan tauminn í starfi sínu.

Þeir sem staðfesta atriðin í upptalningunni hér að ofan gætu verið á villigötum og líklega verið ósammála sumu af því sem ég mun halda fram. Handan við trú á gildi skipulags, öguð vinnubrögð, skýrt afmarkaðar spurningar og meitlaðar tilgátur er að finna hversdagsleika rannsakandans sem oft einkennist af óvissu, óreiðu, tímaskorti og reikulum tilraunum til að hefjast handa. Þar er að finna misgáfuleg rissblöð með þýddum textabrotum sem við fyrsta lestur virtust vekja með rannsakandanum mikla hugljómun, en sýnast síðar ýmist hversdagsleg, flatneskjuleg eða illa þýdd, ef ekki óskiljanleg. Oft á rannsakandinn í fórum sér misgömul og ófrágengin handrit í nokkrum ólíkum útgáfum sem minna á baráttu aðalpersónunnar við skrifræðið í leikriti Dario Fos Stjórnleysingi ferst af slysförum. Við skulum þó vona að ekki fari eins illa fyrir okkur og honum.

Í skilgreiningu á rannsóknarhugtakinu er viðtekið að vísað sé til skipulegra og nákvæmra vinnubragða sem forsendu þess að starfsemin sé talin vera vísindaleg eða fræðileg (Páll Skúlason, 1987, Silverman, 2000). Sú mynd virðist bæði sönn og ósönn, þetta er að vissu leyti rétt, hinn rauði þráður fræðastarfanna þarf að vera til staðar. Oft er hins vegar langur vegur frá því að vegurinn sé beinn og auðfarinn. Rannsóknarleiðangrar feta sig gjarnan krókótta leið og ýmislegt óvænt verður á vegi.

En getur verið að það sé ekki alfarið af hinu illa, heldur séu útúrkrókarnir oft uppspretta nýrra hugmynda og óvæntrar innsýnar? Hér verður reynt að skyggnast handan við lýsingar, áætlanagerð og rannsóknarferli og ræða spurninguna um uppsprettu og inntak þess sem nefnt er nýsköpun þekkingar.

Uppsprettur frjórrar hugsunar

Efnið má brjóta upp í margar og nokkuð flóknar spurningar og að sjálfsögðu hvorki ætla ég né get svarað þeim öllum heldur reifa ég málið frá ýmsum hliðum. Þegar ég fór að hugsa um þetta efni tók ég aftur fram nokkrar ritgerðir um hugtökin sköpunarkraft og flæði, tvö fyrirbæri sem tengjast því að við hugsum eitthvað „nýtt“ eða uppgötvum eitthvað „nýtt“ í leit okkar að þekkingu.[2] Greinin byggir að talsverðu leyti á þeim.

Í þessu samhengi er við hæfi að spyrja: Hverjar eru uppsprettur frjórrar hugsunar og hvað eflir hana? Hvers konar átökum lendum við í og hvers konr áskoranir þurfum við að takast á við? Hvað er sköpunarkraftur og flæði? Lítum fyrst á hugtakið sköpunarkraftur.

Inntak orðsins hefur verið skilgreint á ýmsa vegu, t.d. að það sé lífsstíll, leit að ævintýrum, hugrekki til að brjóta gegn hefðinni, frelsun undan oki hugmyndafræðilegrar spennitreyju og nýstárlegt framlag til einstaklinga og samfélags (Klein, 1990).[3] Sænskur krabbameinslæknir og meðlimur í sænsku vísindaakademíunni, Georg Klein (1990) telur í sinni umfjöllun að orðið merki nánast að maðurinn öðlist jafnvægi með sjálfum sér, hann skapi lífi sínu merkingu með því að beita sköpunarkrafti. Hann fjallar þannig nokkuð almennt um hugtakið og í hans umfjöllun virðist mér að það merki nánast að njóta lífshamingju. Hann bendir einnig á þrengri skilgreiningu Bomans um að vísindaleg sköpunargáfa sé fólgin í því að finna upp á því að fást við óleyst vandamál á réttu augnabliki. Þetta er í samræmi við umfjöllun Chalmers (1982) um áræðni, þar sem hann ræðir um nauðsyn þess að skoða gildi uppgötvana í tengslum við þann tíma og það samhengi sem þær koma fram í. Afstæðiskenning Einsteins var áræðin 1915 vegna þess að þá var álitið að ljósið ferðaðist í beinum brautum en kenning hans var að þetta væri afstætt og háð þyngdaraflinu. Eins var um stjörnufræði Kóperníkusar á 16. öld sem var djörf þar sem hún gekk gegn hugmyndum um að jörðin væri miðpunktur alheimsins en kenning hans er auðvitað ekki talin áræðin nú á tímum. Þannig skiptir tímapunkturinn, staða þekkingar á hverjum tíma, miklu máli við mat á því hvað telst nýsköpun, áræðni og frumleiki. Á þetta hafa margir bent.

Hér er leitað að þrengri merkingu hugtaksins hvað fræðimennsku snertir. Silverman (2000) ræðir um atriði þessu skylt, þar sem hann fjallar um hugtakið frumleika í rannsóknum. Hann telur að venjulega sé átt við að rannsakandinn vandi vinnubrögð sín og beiti gagnrýninni hugsun. Þetta eru vissulega taldar mikilvægar forsendur þess að starfsemi sé talin til vísinda (Páll Skúlason, 1987). Við þurfum að gera greinarmun á hugtökum hér og ef til vill er krafan um frumleika í rannsóknum nokkuð þrengra atriði en það sem átt er við með því að einhver sýni af sér sköpunargáfu. Ekki vil ég draga úr gildi vandaðra vinnubragða, hvað þá heldur gagnrýninnar hugsunar en eins og sjá má eru margar hliðar á málinu. Eitt af því sem vekur athygli er að Silverman segir nokkur dæmi þess að Nóbelsverðlaunahafar vitni í Edison þegar þeir eru spurðir um snilligáfu sína. Hann á að hafa svarað því til að snilligáfa sé 1% „inspiration“ og 99% „transpiration“.[4] Nýsköpun byggir samkvæmt þessu ekki hvað síst á vinnu og erfiði. Margir víkja að mikilvægi vinnusemi í þróun nýrrar þekkingar og mun ég nefna nokkur dæmi um það hér á eftir.

Rómantík og vísindi

Anders Nässil (1990) telur að líklega séu fyrst og fremst til tvær andstæðar hugmyndir um sköpunargáfu. Önnur sé rómantísk hugmynd um að sköpunarkraftur verði til við sjaldgæfa hugljómun augnabliksins, hin að nýsköpun hvíli á vísindalegum grunni og hana sé ávallt unnt að sannreyna með prófunum. Nässil segist hafa tvíbenta afstöðu til þessara ólíku hugmynda og tengir það á skemmtilegan hátt við það að hann hefur lokið tvenns konar starfsnámi, hann segir:

Tungumálakennarinn og sjúkraþjálfarinn í mér hamast hvor gegn öðrum og verða til þess að ég sveiflast örvinglaður, nánast eins og Hamlet milli þessara tveggja hugmyndaheima. (Nässil, 1990, 211)[5]

Í tilraun til að sameina hugmyndirnar tvær segir Nässil að viðleitnin til nýsköpunar líkist leik sem einkennist af hikandi leit. Rannsakandinn tekst í fyrstu á við mótsagnir, andstæður en leitar að lokum að samræmi; í átt til samruna eða heildar. Við fylgjum umfjöllun Nässil enn um sinn og hann segir:

Sagt er að heilanum líki andstæður og víst er að oft verður eitthvað andstæðukennt uppspretta nýsköpunar. (Nässil, 1990, 211)

Þetta má orða á ýmsa vegu: Á skilum gamals og nýs sést hið nýja, við skyndilegar breytingar birtist okkur ný mynd, án bakgrunns er engin mynd sjáanleg, smávægileg breyting á sjónarhorni getur orðið til þess að öll sýn á viðfangsefnið umvarpast. Nässil bendir líka á að hversdagsleg rútína verður stundum til þess að ljósi er varpað á andstæðu hennar. Hugmyndir um nýsköpun eru þannig andstæðukenndar og þetta á ekki bara við um fræðirannsóknir heldur heyrist þetta oft í umfjöllun um gerð skáldverka enda eru ekki skýr mörk á milli starfs rithöfundarins og fræðimannsins.

Hin rútínukennda vinna, krefst ögunar, menn verða að einbeita sér að verki. Margir minnast í þessu sambandi orða Pasteurs „il faut travailler“ eða „maður verður að vinna“. Þetta á hann að hafa heyrst tauta fyrir munni sér og vildi þá líklega minna sjálfan sig á gildi einbeitninnar. Við höfum orð ýmissa reyndra vísindamanna fyrir því að ekki nægi að bíða þess aðgerðalaus að hugljómunin birtist sem himnasending.

Á hinn bóginn hefur verið talsvert fjallað um óreiðu (kaos) sem uppsprettu skapandi hugsunar. Í þessari umræðu eru gjarnan nefndir til sögunnar heimsfrægir rithöfundar sem einnig hafa verið taldir sérkennilegir á ýmsa vegu, t.d. Kafka og Hemingway. Þá er rætt um óreiðu sem uppsprettu nýjunga á kreppu- og óaldartímum, og um að styrjaldarátök leiði til nýsköpunar, um það eru mörg ólík dæmi, t.d. þekkt framlag landflótta menntamanna af ættum gyðinga í Bandaríkjunum um og eftir síðari heimstyrjöld. Annað tilbrigði við þetta snertir óöryggi, tilvistarlegs og efnislegs eðlis – t.d. rithöfundurinn Anthony Burgess sem fór að skrifa þegar hann vissi að hann var með heilaæxli og vildi skilja eftir sig höfundarlaun fyrir eiginkonuna.

Af þessu má ráða að margar ólíkar hugmyndir og skilgreiningar eru á lofti um það hver sé uppspretta frjórrar hugsunar og sköpunarkraftsins. Nässil minnir okkur á hið margkveðna að díalektík andstæðra fyrirbæra, á íslensku nefnd þráttarhyggja, sé ein af uppsprettum frjórrar hugsunar.

Tvenns konar hugmyndir virðast samkvæmt þessu mest áberandi um uppsprettu frjósamrar hugsunar. Annars vegar sífelld yfirvegun, klappið á steininn sem að lokum ryður brautina eða lýkur upp veggnum sem virðist loka allri útsýn. Hins vegar eggjun andstæðnanna, það að setja sjálfan sig og fræðin sífellt í ný samhengi og valda þannig hugarróti. Þetta má álykta á grundvelli umfjöllunarinnar í þeim ritgerðum sem ég vísa til en ljóst er að umfjöllunin hér er takmörkuð og má bæði víkka hana og dýpka. Víkjum nú beint að nokkrum atriðum í ferli rannsókna.

Að byrja – einbeitni eða afsakanir

Á fyrstu stigum rannsóknar mæta okkur nokkrar spurningar: Hvernig á þá að fara að? Er sama hvernig maður byrjar? Arabískur málsháttur hljóðar eitthvað á þessa leið: 

Sá sem vill eitthvað finnur leið til að gera það.
Sá sem ekki vill finnur sér afsökun.
(sbr. Nässil, 1990, 215)

Ekki þurfum við að leita langt yfir skammt til að finna svipað íslenskt orðatiltæki; hálfnað er verk þá hafið er, segjum við gjarnan. Að finna réttu leiðina til að byrja er mörgum fjötur um fót. Efi er nokkuð sem við tökumst oft á við í fræðastörfum og ekki síst í byrjun nýs verkefnis.

Upphaf verks kallar ekki alltaf á skipulag, fremur mættum við minnast orða ýmissa fræðimanna sem halda fram gildi einbeitni og áræðni. Það er áríðandi að staldra ekki of lengi við á byrjunarstigi og reyna að komast fljótlega á flug. Málshættirnir tveir minna á hve upphafið getur verið torvelt og hve auðvelt er að finna sér afsakanir til að hefjast ekki handa. Hver kannast ekki við það? Maður þarf að kasta sér út í laugina en einnig að gæta að dýpt hennar og lögun.

Margrét Guðnadóttir prófessor hélt nýlega ræðu á samkomu hér í Reykjavík. Hún sagði eitthvað á þá leið, að við vinnu sína hefði hún og samstarfsfólk hennar unnið við að gera tilraunir og þegar þær tókust ekki hafi verið sjálfsagt að endurtaka þær. Þetta er mörgum kunnugt því hún er þekkt fyrir rannsóknir sínar. Boðskapur Margrétar sem tengdist að þessu sinni endurskoðun á stefnum og straumum var að undirstrika gildi þess að halda verkunum áfram þrátt fyrir að mistök komi upp. Aftur er hér á ferðinni vísindamaður sem minnir á gildi einbeitni í rannsóknarstörfum. Ég efast ekki um að þær tilraunir sem Pasteur og Margrét vísa í hafi verið þaulskipulagðar. En svo sem frægt er, hafa margar uppgötvanir orðið til við algera tilviljun og það er jafnvægiskúnst að hafa einhverja reiðu á óreiðunni án þess að áætlanagerðin hefti um of.

Á hinn bóginn má spyrja hvort einbeitnin geti orðið of mikil? Eru sístarfandi fræðimenn stundum fyrst og fremst taugaveiklaðir þrælar undir oki stritsins eins og sumir vilja halda fram? Er nóg að vera alltaf að eða er hægt að vera skapandi án þess? Sænski kvikmyndaleikstjórinn Ingmar Bergman sagði eitt sinn að sá sem vildi skapa eitthvað fyndi fyrr eða síðar leið til þess ef þörfin væri nógu sterk.[6] Víst er að sköpunarþörfin og áhuginn skiptir miklu. Það er hægt að teyma hestinn að vatninu til að brynna honum en ekki að þvinga hann til að drekka, gildi áhugahvatar er vel þekkt á okkar sviði. Hér gildir líka sú leiðbeinandi regla að það að laga sig að aðstæðum er jafn mikilvægt og þær stundir sem við höfum til umráða. Víst er að maður fær ekkert fyrir ekkert.

Að verða ástfanginn af aðferð

Fetum okkur örlítið lengra og að spurningunni – hvernig? Að velja aðferð – að sníða rannsóknina. Mig langar að ræða þetta með lítilli sögu. Þegar ég var í doktorsnámi var ég með ákaflega skemmtilegan og örvandi kennara, prófessor Bengt Börjeson, sem síðar gerðist rektor Kennaraháskólans í Stokkhólmi. Námskeið hans um eigindlegar aðferðir fannst mörgum okkar mun meira ögrandi en þegar hann og aðrir tóku til við að kenna okkur megindlegar rannsóknaraðferðir. Sum okkar héldu greinilega að eigindlegar aðferðir væri hið eina rétta, þrátt fyrir skýrar útlistanir prófessorsins um að það væri alveg nauðsynlegt að velja aðferðir í samræmi við hina alþekktu reglu; að láta spurningarnar, viðfangsefnin ráða vali á rannsóknarsniði og aðferðum. Þetta fólk hafði greinilega ekki bara látið heillast af kennslu prófessorsins, heldur einnig orðið ástfangið af eigindlegum aðferðum og af bakgrunni fræðanna, af túlkunarfræðunum, af Verstehen-hefðinni sem kennari okkar, sálfræðingur að mennt, útlistaði á lifandi hátt með ívafi sálgreiningarkenninga, tilvistarstefnu og krítískra kenninga. Sum okkar féllu kylliflöt fyrir þessu. Nokkrir lentu í talsverðum vandræðum, eins og einn samnemandi minn sem hljóðritaði viðtöl við hundrað viðmælendur, hlustaði fyrst á þau öll fram og til baka og endaði með því að fara að telja saman bakgrunnsbreytur úr frásögnunum og gera tölfræðilegar greiningar úr þessu efni. Þetta tók mörg ár og var gott dæmi um að þarna höfðu hvorki rétt snið né réttar aðferðir verið valin í upphafi. Þessi dæmisaga gæti verið víti til varnaðar um að passa sig á ástinni! 

Tíminn

Dæmið hér á undan minnir okkur aftur á tímann sem mikilvægan þátt í þessari umræðu. Sum mistök eru reyndar þess virði að eyða tímanum í þau en hann gerir mönnum á hinn bóginn stundum nokkurn grikk. Við getum í þessu samhengi aftur minnst orða Pasteurs um að vinnan, erfiðið sé forsenda nýsköpunar.[7] Ýmsir hafa tekið undir þetta, s.s. Baudelaire sem á að hafa sagt á gamansaman hátt að það væri ekki eins leiðinlegt að vinna og að skemmta sér.[8]

Allir sem stunda rannsóknir vita að þær taka tíma og verður ekki nógsamlega á það minnt hve hratt stundin flýgur þegar við byrjum fyrir alvöru. Þarna þarf hver að þekkja sjálfan sig. Grúskarinn er til dæmis í ákveðinni hættu við heimildaleit, hann finnur svo margt áhugavert og á erfitt með að vinsa úr það sem hæfir hans athugunum. Hinn nákvæmi þarf að hafa hemil á sér við meitlun skilgreininga. Íslenskumaðurinn skyldi ekki sökkva sér niður í prófarkalestur á minnisblöðum sínum á þeim tímapunkti sem texti hans er óravegu frá því að vera fullmótaður.

Gerjunin – handan rökhugsunar

Ernberg (1990) skrifaði eina þeirra ritgerða um sköpunarkraft sem ég tók að glugga í þegar ég setti niður þessi orð. Hann minnir á áhrif dulvitundarinnar á sköpunarkraftinn. Einbeitingin, segir Ernberg, leiðir til þess að efniviðurinn þrengir sér inn í dulvitundina og beinir sér þar greinilega mest að óleystum efnum og þar með að tilfinningalegri og vitsmunalegri togstreitu sem skapast af þeim. Glíman við viðfangsefnið heldur áfram í dulvitundinni þar sem rökhugsun okkar þrýtur. Ernberg bendir í anda Freuds á það að hin andlegu átök í rannsóknarstarfinu eru að hluta til órökvís og ómeðvituð. Rannsóknarvinna reynir oftar en ekki á þolrifin og þarna getur dulvitundin veitt góðan liðsstyrk. Sú gerjun sem fer fram í dýpstu sálarkimum er langt fjarri skipulegri greiningu en getur verið mikilvægur liður í nýsköpuninni.

Mér virðist mega bæta við að í hvíld frá vinnunni, fæðast einnig hugmyndir. Ég fór ef til vill heldur óvirðulegum orðum um rissblöð og minnisatriði í upphafi og vil því undirstrika að stundum þegar slakað er á koma óvænt fram góðar hugmyndir. Hún getur því reynst notadrjúg, dagbókin á náttborðinu, við eldhúsvaskinn eða í göngutúrnum.

Nú skulum við líta í aðra átt – til hins ytra, þess umhverfis sem rannsóknirnar fara fram í.

Frumleiki mestur í hefðbundnum menntastofnunum?

Hingað til hefur málið einungis verið rætt út frá einstaklingnum en í umræðu um nýsköpun þekkingar velta menn oft fyrir sér áhrifum umhverfisins. Í hvernig kringumstæðum þrífst sköpunargáfan best? Á þessu eru að minnsta kosti tvær áhugaverðar hliðar, svigrúm einstaklinga, að þeir njóti sín til skapandi starfa og gildi samvinnu.

Hvað hið síðarnefnda snertir gildir ekki endilega að lík börn leiki best. Því er oft haldið fram að ólíkir einstaklingar vinni betur saman í rannsóknum. En þetta getur verið jafnvægiskúnst því að þarna spila saman sérkenni einstaklinganna sem þurfa að njóta sín og síðan hið frjóa samtal og sameiginleg þekkingarleit hópsins.[9]

Ernberg, sá sem áður varð minnst, staldrar við hugmyndina um togstreitu sem frjóa leið til nýsköpunar og tengir það við áhrif í umhverfi vísindamannsins. Góð leið til að skapa álitamál, samkvæmt Ernberg, (1990) er að trúa sterklega á ákveðnar kennisetningar, vinna með skýrar tilgátur, og þegar kennari og kennslubækur eru nánast strangtrúaðir (auktoritær). Jafnframt er góður rannsakandi samkvæmt Ernberg, sá sem nálgast athuganir sínar, án þess að gefa sér forsendur, amk. að því marki að hann uppgötvi átökin við hinar ströngu reglur, tilgátur og kennimið. Með því að gefa sér ekki slíkar forsendur og nálgast viðfangsefnið með opnari huga, rekst fræðimaðurinn á hinar ströngu reglur fræðanna. Hann neyðist, ef svo má segja, til að takast á við þær. Sum álitamál eru næstum alltaf til staðar. Hvert kennimið hefur sín takmörk, það er aldrei fullkomið.

Ernberg heldur áfram og segir: Þetta var það sem Popper skildi þegar hann setti fram kenninguna um hrekjanleikann, hið sama sem Kuhn fékkst við í kenningu sinni um formgerð vísindalegra umbyltinga og einnig það sem Feyerabend átti við með hugmynd sinni um hröðun í þróun þekkingar sem fengist með því að gera vísindalegar umbyltingar að eins konar vinnuaðferð - með því að leita alltaf að andstæðri tilgátu.

Kuhn talaði á svipuðum nótum í ræðu sinni í Salt Lake City 1959, þegar hann ræddi um “the essential tension” og hélt því fram að gagnstætt því sem flestir héldu fram væru það hefðbundnustu menntastofnanirnar sem fæddu af sér flesta og mesta vísindamenn.[10]

Auðvitað þarf að hugsa til hins táknræna verðmætis stofnana sem draga til sín metnaðarfulla vísindamenn. En er staðhæfing Kuhns ekki athyglisverð hérlendis í dag þar sem hinu gagnstæða er oft haldið fram, því að sú sprotahugsun sem nokkuð er uppi í umræðu hérlendis um þróun á háskólastigi virðist ólík þessu? Nú kann einhver að spyrja – hvaða tal er þetta um vísindabyltingar? Hér á okkar heimaslóðum, okkar vinnustað? Vissulega á sú spurning rétt á sér þar sem þessi umfjöllun var fyrst sett fram í tengslum við starfsdag um eflingu rannsókna við Kennaraháskólann.

Hver sníður sér stakk eftir vexti og ég ætla hvorki að spá um þróun rannsóknanna né um það í hve margra mílna fjarlægð okkar fræði og vísindi eru frá hinum stærstu umbyltingum vísindanna! Umfjöllunin um þessi atriði er ekki eingöngu bókstafleg, hún snýr almennt að inntaki, skilyrðum og forsendum frjórrar hugsunar og nýsköpunar þekkingar eins og sagði í upphafi.

Ég hef nú minnst á gildi skipulegrar vinnu og stofnana, agaðrar hugsunar annars vegar og um gildi óreiðu, nýbreytni og ögrunar hins vegar. Hér mætti halda áfram og fjalla um skipulag sem kæfir og óreiðu sem tærir. Skipulag sem öryggisnet og óreiðu sem eggjun. Spyrja mætti hvað einkennir þessi fyrirbæri í starfi og í stofnunum sem slíkum. Einnig mætti athuga hvernig er hægt að virkja sköpunarmátt með því að koma á og viðhalda „skipulagi með innbyggðri óreiðu” og fleira í þessum dúr. Þetta læt ég kyrrt liggja að svo stöddu og við snúum okkar að enn öðru hugtaki, sem er flæði.

Flæði

Í umfjöllun um hvernig nýsköpun tengist tíma og einbeitingu má minna á enn eitt atriði sem er þetta svolítið einkennilega hugarástand sem allir þekkja sem hafa sökkt sér á bólakaf niður í eitthvað viðfangsefni. Það hugarástand sem þar kann að skapast getur verið náskylt því er sumir tala um sem „flow”. Flow má útleggja sem flæði, eða að komast á flug á íslensku. Hvað er átt við?

Ungverskt-ættaði sálfræðingurinn Csikszentmihalyi hefur skilgreint hugtakið þannig:

Breytt hugarástand sem verður við það að takast á við spennu og erfiði sem fylgir áskorun /.../ einkennist af fullkominni einbeitingu samhliða því að finna til tímaleysis og sælutilfinningar (eufori).
(Mihály Csikszentmihalyis, 1990,8)

Flæði birtist samkvæmt þessu meðal annars í því að maður missi tilfinninguna fyrir tíma og rúmi. Eins og Nässil bendir á er þetta einkar áhugavert þar sem það reynist stundum erfitt að útskýra hvernig hugmyndir þróast.

Mér virðist skilgreining Csikszentmihalyis minna á að maðurinn sé einn með viðfangsefninu á annan hátt en fyrr og hlutir fari að gerast. Er flæði eitthvað í líkingu við þá tilfinningu að penninn fari að skrifa sjálfur?[11] Er það flæði þegar fram kemur einhver áður ókunnuglegur háttur við það að setja fram eða tengja saman efni eða hugrenningar? Eitthvað sem gerist eftir mikla setu við vinnu. Enn og aftur vinnan, einbeitingin sem máli skiptir.

Lokaorð

Hér hafa verið dregin fram ýmis atriði önnur en hinar þekktu vörður í hagnýtum forskriftum að rannsóknaráætlunum og því haldið fram að þau skipti okkur að minnsta kosti eins miklu máli og þau almennu skipulagsatriði sem þar eru yfirleitt tíunduð. Skilningur á þessu og áframhaldandi umfjöllun um þessi atriði getur ef til vill orðið okkur einhver stoð í framtíðarstarfi.


Aftanmálsgreinar

 1. Frekari útfærsla á glæruerindi um gerð rannsóknaráætlana, flutt á starfsdegi um rannsóknir 18. mars 2002 í Kennaraháskóla Íslands.

 2. Sbr. ritgerðir í Ödman, 1990, sjá heimildalista. Í þessari umfjöllun er að mestu sneitt hjá spurningunni um hvað og að hvaða marki eitthvað er nýtt í rannsóknum.

 3. Kreativitet, creativity.

 4. Inspiration=innblástur, andagift; transpiration=útgufun, sviti; í þessu sambandi nánast blóð, sviti og tár eða erfiði.

 5. Þýðingar á beinum tilvitnunum eru mínar eigin.

 6. Sbr. Nässil, 1990.

 7. Sbr. Ernberg og Nässil, 1990.

 8. Sbr. Nässil, 1990.

 9. Ernberg, 1990, Philipson, 1990.

 10. Sbr. Ernberg, sem vísar í Kuhn 1959, textinn var endurprentaður 1977. The essential tension. Univ. of Chicago Press, Chicago, 225–239.

 11. Fremur en að tala um penna, mætti nú segja að lyklaborðið fari að spila af sjálfu sér.

Heimildir

Chalmers, A., F. 1982, What is this thing called science? Milton Keynes, Open University Press.

Csikszentmihalyis, M.1990. Att uppleva “flow". Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 38–49.

Ernberg, I. 1990. Språket et fängelse. Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 123–132.

Klein, G. 1990. Är vetenskapsmän kreativa? Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 50–64.

Nässil, A. 1990. Disciplin och skapande. Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 211–220.

Philipson, L. 1990. Den kreativa gruppen. Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 116–122.

Páll Skúlason 1987. Pælingar. Reykjavík, Ergo. Kaflarnir: Hvað eru vísindi?, 131–144.

Silverman, D. 2000. Doing Qualitative Research. A Practical Handbook. London, SAGE.

Smith, G. 1990. Testad kreativitet. Ödman, M. (ritstj.) Om kreativitet och flow. Värnamo, Brombergs, 273–283.