Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 30. maí 2002

Jóhanna Einarsdóttir 

Fleygjum við barninu
með baðvatninu?

Hér er brugðist við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagræn áhrif af styttingu grunn- og framhaldsskólanáms. Í greininni er dregið fram að ekki megi horfa fram hjá því mikilsverða námi sem á sér stað í leikskólum og þýðingarmiklum áhrifum sem leikskólinn hefur á vellíðan og þroska barna. Greinin byggir á erindi sem flutt var á málþingi uppeldis- og menntunarfræðiskorar Háskóla Íslands um breytingar á tilhögun skólagöngu á Íslandi 15. mars 2002. Höfundur er dósent við Kennaraháskóla Íslands.

Skýrsla Verslunarmannafélags Reykjavíkur

Þann 29. janúar s.l. kynnti Verslunarmannafélag Reykjavíkur niðurstöður viðamikillar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði að beiðni félagsins um áhrif styttingar grunn- og framhaldsskóla á einstaklinga, sveitarfélög, ríkissjóð og þjóðarframleiðslu (Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2002).

Í skýrslunni er fjallað um þrjár leiðir til að stytta grunnskóla og/eða framhaldsskóla á Íslandi.

 1. Færa grunnskóla niður um eitt ár þannig að nemendur hefji nám við 5 ára aldur. Nemendur myndu þá ljúka grunnskólaprófi við 15 ára aldur.

 2. Lengja hvert skólaár í grunnskóla þannig að hægt sé að stytta heildarnámstímann um eitt ár. Nemendur myndu þá ljúka grunnskólaprófi við 15 ára aldur.

 3. Lengja hvert skólaár í framhaldsskóla þannig að hægt sé að stytta heildarnámstímann um eitt ár. Nemendur myndu þá ljúka framhaldsskólaprófi við 19 ára aldur.

Hér verður einkum fjallað um þá hugmynd sem sett er fram um að færa grunnskóla niður um eitt ár þannig að eins og stendur í skýrslunni: „Nemendur hefji nám við 5 ára aldur“ (Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, 2002. Ágrip, bls. 3).

Í skýrslunni er sjónum einkum beint að ýmsum hagrænum þáttum sem þessar breytingar myndu hafa áhrif á. Lítið er hins vegar fjallað um ýmis önnur atriði, svo sem hvaða áhrif breytingarnar myndu hafa á skipulag kennslu og námskrár. Þess í stað er gengið út frá því að hægt yrði að hrinda þessum breytingum í framkvæmd og reynt að áætla hvaða áhrif þær myndu hafa á foreldra, nemendur, sveitarfélög, ríkissjóð og þjóðarframleiðslu.

Helstu áhrif þess að færa grunnskóla niður um eitt ár eru talin eftirfarandi:

 1. Gert er ráð fyrir að kostnaður sveitarfélaga aukist. 

 2. Meiri möguleikar skapast á dagvistun barna yngri en 5 ára þegar 5 ára börn setjast á grunnskólabekk. Þetta getur leitt til þess að sumir þeirra foreldra sem áður voru heimavinnandi og sinntu börnum leiti út á vinnumarkaðinn. Tekjur foreldra eru af þessum sökum taldar geta aukist.

 3. Gert er ráð fyrir að tekjur nemenda muni aukast.

 4. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting hafi nein bein áhrif á afkomu ríkissjóðs, þar eð rekstur grunnskóla er á vegum sveitarfélaga.

 5. Gert er ráð fyrir að þjóðarframleiðsla muni aukast.

Skýrsla Verslunarmannafélagsins er unnin af Hagfræðistofnun HÍ og er skrifuð út frá hagfræðilegu sjónarhorni, þar eru notuð hugtök eins og „notagildisfall“, en notagildisfall er skilgreint á eftirfarandi hátt:

„ ... gert er ráð fyrir að vali einstaklinga á ólíkum vörum og þjónustu megi lýsa með svokölluðu notagildisfalli. Einstaklingurinn hámarkar þetta notagildisfall með hliðsjón af þeim verðmætum sem hann ræður yfir á hverjum tíma, þ.e. tekjum og eignum. Notagildisfallið lýsir því samhengi ráðstöfunar verðmæta einstaklingsins og þeirrar hamingju eða ánægju sem af henni leiðir“ (bls.11).

Í skýrslunni er þeirri aðferðafræði beitt að samfélagsleg áhrif þessara breytinga á skipulagi skóla eru könnuð með því að skoða hvaða áhrif breytingarnar hafi á notagildisfall einstaklinganna. Áhrif þess að færa skólskylduna niður um eitt ár eru táknuð með eftirfarandi jöfnu:

Önnur sýn

Ekki verður reynt að véfengja þessa formúlu og útreikninga hér, hins vegar er leitast við að skoða þessa hugmynd um að færa grunnskólann niður um eitt ár út frá öðrum sjónarhóli en hagfræðinnar og þeir þættir sem ekki eru teknir fyrir í skýrslunni skoðaðir nánar. Einkum þó hvaða áhrif þessar breytingar kynnu að hafa fyrir nám og kennslu þessara 5 ára barna sem hér um ræðir.

Í skýrslunni er litið á leikskóla sem dagvistunarúrræði. Talað er um að færa grunnskólann niður um eitt ár þannig að nemendur hefji nám við 5 ára aldur. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir að börn læri í leikskólum.

Staðreyndin er hins vegar sú að í dag er um 91% allra 5 ára barna á Íslandi í leikskóla (Hagstofa Íslands, 2002) sem er skilgreindur samkvæmt lögum sem fyrsta skólastigið (Lög um leikskóla nr. 78/1994). Það nám sem fer fram í leikskólum er í skýrslunni ekki talið með eða talið þess eðlis að því megi flýta eða sleppa.

Síðastliðið vor voru tekin viðtöl við tæplega 50 leikskólabörn í Reykjavík sem voru að ljúka leikskóladvöl. Þetta voru börn sem höfðu flest verið nokkur ár í leikskóla og voru þau spurð um hvað það væri sem krakkar læra og gera í leikskóla. Samkvæmt því sem þessi börn segja læra börn heilmikið í leikskólum. Eftirfarandi atriði voru nefnd:

 • Föndra – teikna – mála – lita

 • Leika sér – hlutverkaleikur – leika úti

 • Boltaleikur – bílaleikur – púðaleikur – dýnuleikur

 • Byggja – spila – perla – púsla

 • Læra að hafa hljóð – vera þæg – ekki tala öll í einu

 • Læra að vera umsjónarmaður

 • Læra að vera í skóla – sitja kyrr – ekki meiða og berja 

 • Læra að lesa – búa til bækur – lesa bækur – skrifa

 • Læra táknmál

 • Reikna – læra á tölvur

 • Leika leikrit

 • Syngja – læra lög – læra kvæði

 • Hreyfing – leikfimi

 • Klifra upp á þak – hjóla án hjálpardekkja

Þessi svör barnanna eru í töluverðu samræmi við Aðalnámskrá leikskóla sem kom út árið 1999. Ef svörin eru skoðuð nánar kemur í ljós að leikur í ýmsum myndum er þeim ofarlega í huga, en í aðalnámskránni er lögð rík áhersla á leikinn sem náms- og þroskaleið leikskólabarnsins. Þroski og þarfir barnsins fremur en námsgreinar eru í brennidepli leikskólans. Námssvið leikskólans eru: hreyfing, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag, en börnin nefndu þessa þætti gjarnan í svörum sínum. Í námskránni er litið á námssviðin sem áhersluþætti í leikskólauppeldi. Jafnframt kemur fram að námssviðin skarast og að þau séu samofin undirstöðuþáttum leikskólastarfs, leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikni.

Áhersluþættir Aðalnámskrár leikskóla er engin tilviljun. Leikur, umönnun, samskipti og lífsleikni ásamt námssviðum eins og málrækt, hreyfingu, myndsköpun, tónlist, náttúru, og umhverfi og menningu eru áhersluþættir í námskrám leikskóla í flestum nágrannalanda okkar. Það eru þó undartekningar á þessu og má nefna Frakkland þar sem börn eru mjög ung þegar þau setjast á skólabekk í fyllstu merkingu þess orðs. Sömuleiðis hefur fagfólk í Bretlandi verulegar áhyggjur af þróuninni þar sem hefur verið í þá átt að færa námsefni grunnskólans neðar og leggja fyrir börnin samræmd próf á unga aldri (Leikskólar Reykjavíkur, 2001).

Rannsóknir á leikskólastarfi

Töluvert hefur verið unnið að rannsóknum á áhrifum mismunandi leikskólastarfs á börn. Þetta eru einkum bandarískar rannsóknir, en þar eru leikskólar mjög fjölbreyttir og samanburður á ólíkum vinnubrögðum því auðveldari. Komið hefur í ljós að leikskólastarf sem tekur mið af barnhverfri hugmyndafræði er í flestum tilfellum árangursríkara, þegar til lengri tíma er litið, en leikskólastarf sem er kennarastýrt og námsgreinamiðað. Hér verða nefnd örfá dæmi um rannsóknir af þessu tagi.

Niðurstöður rannsóknar á 62 leikskóladeildum í 52 bandarískum leikskólum benda til að börn í leikskólum sem aðhyllast námsgreinamiðaða hugmyndafræði, sýni nokkra yfirburði í þekkingu á bókstöfum. Hins vegar kom í ljós að þau eru oftar óörugg, eru háðari fullorðnum um leyfi og viðurkenningu og hafa meiri áhyggjur af skólagöngunni en börn í barnhverfum leikskólum (Marcon, 1999). Í annarri rannsókn var fylgst með 90 fjögurra og fimm ára börnum til að meta áhrif leikskóladvalar þeirra. Rannsóknarniðurstöður benda til þess að þjálfun í lestri, skrift og reikningi í leikskólum hafi ekki varanlegan ávinning í för með sér þegar til lengri tíma er litið. Í ljós kom að börn sem fengu þannig bóknámsþjálfun í leikskólum virtust vera síður skapandi, kvíðnari, í lélegra tilfinningalegu jafnvægi og neikvæðari gagnvart skólagöngunni en jafnaldrar í öðrum leikskólum (Hirsh-Pasek, 1991). Nýleg rannsókn á tengslum kennsluaðferða og hugmyndafræði leikskóla við streitu hjá börnum bendir til svipaðra niðurstaðna (Hart, Burts, Durland, Charlesworth, DeWolf og Fleege, 1998).

Rannsókn á um 230 fjögurra til sex ára börnum sýnir sambærilegar niðurstöður. Börn í námsgreinamiðuðum leikskólum höfðu meiri þekkingu og færni á bókstöfunum og í ritmálinu, en ekki á tölum og tölustöfum. Hins vegar voru þessi börn háðari fullorðnum, höfðu lélegra sjálfsmat og höfðu meiri áhyggjur af skólagöngunni (Stipek, Feiler, Daniels og Milburn, 1995). Aðrar rannsóknir á mismunandi leikskólaáætlunum sýna svipaðar niðurstöður. Kennsluaðferðir sem byggja á kennaramiðaðri færniþjálfun í leikskólum, svipað og tíðkast hefur í efri bekkjum grunnskólans virðist ekki skila sér sé horft til lengri tíma. Hins vegar er hætta á að aðrir mikilvægir þættir verði útundan svo sem tilfinninga- og félagsþroski og hætta er á álagi og kvíða í skólagöngunni (Rescorla, Hyson og Hirsh-Pasek, 1991).

Skólaskylda

Í flestum vestrænum löndum hefst skólaskylda í kringum sex ára aldurinn. Til dæmis byrja börn í Noregi, Frakkalandi, Bandaríkjunum og Íslandi 6 ára gömul í grunnskóla. Í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi byrja þau 7 ára en í Skotlandi eru 5 ára börn skólaskyld (Leikskólar Reykjavíkur, 2001). 
Í Noregi eru 6 ára börn nýlega orðin skólaskyld. Árið 1997 gekk ný námskrá í gildi fyrir allt grunnskólastigið í Noregi. Mikil vinna var lögð í undirbúning þess að færa 6 ára börnin í grunnskólann. Í tíu ár áður en breytingar urðu fór fram umfangsmikið þróunar- og breytingarstarf í grunnskólum og leikskólum. Undirbúningur var tvískiptur: Á árunum 1986-1990 var gerð tilraun sem kölluð var Tilraun með leiðir í uppeldi 6 ára barna í meira en 40 bæjarfélögum og var markmið tilraunarinnar að prófa mismunandi aðferðir. Fyrsta aðferðin var leikskóladvöl, önnur var skólavist og sú þriðja var samvinna leikskóla og grunnskóla. Þessar tilraunir urðu grundvöllur að undirbúningi breytinga á námskrá. Frá árunum 1990-1997 fóru margir skólar inn í annað stig undirbúningsins. Leikskólar og grunnskólar unnu að sameiginlegum verkefnum og einkunnarorðin Það besta frá leikskóla og skóla voru kynnt sem lýsing á því innihaldi sem bjóða ætti yngstu börnunum þegar þau kæmu í grunnskólann. Eftir að breytingarnar gengu í garð var starfið metið í ýmsum sveitarfélögum. Í Osló var gerð rannsókn að frumkvæði fræðslustjóraembættisins. Þar var annars vegar lagt mat á undirbúningsvinnuna og hins vegar reynt að kortleggja stöðu mála og meta vinnu skólanna við að koma námskránni í gagnið (Germetern, 1998).

Hvernig Norðmenn stóðu að breytingum á skólakerfinu er til mikillar fyrirmyndar og má margt af því læra. Sem dæmi má nefna hvernig þeir nýttu sér fagfólkið í háskólunum við að gera úttektir og rannsóknir áður en hafist var handa og svo aftur eftir að námskráin tók gildi (sjá t.d. Germetern, 2002).

Lokaorð

Það ber vissulega að fagna skýrslu Verslunarmannafélagsins því hún hefur hrint af stað töluverðri umræðu um skólamál. Mikilvægt er að huga að ýmsum leiðum og skoða hvernig best sé að koma málum fyrir. Mikilvægt er að skoða tengsl skólastiganna, leikskóla og grunnskóla og endurmeta og endurskoða námskrárnar og námsfyrirkomulagið í samhengi. Einnig að skoða alvarlega þá hugmynd sem Félag leikskólakennara hefur sett fram um að síðustu ár leikskólagöngu verði gerð að skyldu.
Ég tel hins vegar ekki að sú leið að færa námsefni grunnskólans neðar og flytja 5 ára börnin í grunnskólann, sé sú leið sem verði okkur til heilla í framtíðinni þrátt fyrir að við getum reiknað arðsemi í milljörðum út frá ákveðnum forsendum. Þegar við hugum að breytingum í skólakerfinu þurfum við að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og gæta þess að kasta ekki því jákvæða um leið og því neikvæða. Fleygja ekki barninu með baðvatninu.

Heimildir

Aðalnámskrá leikskóla (1999). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Germeten, S. (1998). På vei mot ny grunnskole i Oslo. HIO-skýrsla nr. 5. Oslo: Högskolen i Oslo.

Germetern, S. (2002). Grenser for undervisning? Frihet og kontroll i 6-åringernes klasserom. Stokkhólmur: HLS Forlag.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands (2002). Stytting grunn- og framhaldsskóla: Áhrif á einstaklinga, sveitarfélög, ríkissjóð og þjóðarframleiðslu. Skýrsla samin fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur. Vefslóð: http://www.vr.is [Tekið af vefnum 15. febrúar 2002].

Hagstofa Íslands (2001). Landshagir. Vefslóð: http://www.hagstofa.is [Tekið af vefnum 13. mars 2002].

Hart, C., Burts, D., Durland, M.A., Charlesworth, R., DeWolf, M. og Fleege, P. (1998). Stress behaviors and activity type participation of preschoolers in more and less developmentally appropriate classrooms: SES and sex differences. Journal of Research in Childhood Education, 12, 2, 176-196.

Hirsh-Pasek, K. (1991). Pressure or challenge in preschool? How academic environments affect children. Í L. Rescorla, M.C. Hyson og K. Hirsh-Pasek (ritstj.) Academic instruction in early childhood: Challenge or pressure? New Jersey: Jossey-Bass.

Leikskólar Reykjavíkur (2001). Elstu börnin í leikskólanum. Tengsl leikskóla og grunnskóla. Reykjavík: Leikskólar Reykjavíkur.

Lög um leikskóla nr. 78/1994.

Marcon, R.A. (1999). Differential impact of preschool models on development and early learning of inner-city children: A three-cohort study. Developmental Psychology, 35, 2, 358-375.

Rescorla, L., Hyson, M.C. og Hirsh-Pasek, K. (ritstj.) (1991). Academic instruction in early childhood: Challenge or pressure? New Jersey: Jossey-Bass.

Stipek, D., Feiler, R., Daniels, D. og Milburn S. (1995). Effects of different instructional approaches of young children’s achievement and motivation. Child Development, 66, 209-223.