Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Gunnhildur Óskarsdóttir

Hugmyndir barna um húsdýrin
og önnur dýr

Í greininni er sagt frá athugun sem Katla Þórarinsdóttir vann í tengslum við B.Ed.-ritgerð sína við KHÍ undir leiðsögn greinarhöfundar. Athugun Kötlu byggir á rannsóknum Reiss og Tunnicliffe á hugmyndum barna um dýr. Höfundur greinarinnar er lektor við Kennaraháskóla Íslands. 

Hugmyndir barna um líkama og líffæri

Hugmyndir barna um ýmis fyrirbæri hafa verið athugunarefni margra fræðimanna. Bresku prófessorarnir Sue Dale Tunnicliffe og Michael Reiss (1999) hafa skoðað hugmyndir barna um eigin líkama, einkum heiti og staðsetningu líffæra ásamt hugmyndum þeirra um líffæri í ýmsum dýrum. Niðurstöður þessara rannsókna og umfjöllun um hugmyndir barna um líkama og líffæri hafa birst í nokkrum tímaritum og meðal annars vakið áhuga nemenda við Kennaraháskóla Íslands.

Hugmyndir og rannsóknir þeirra Tunnicliffe og Reiss hafa verið til umfjöllunar á námskeiðum í umsjón greinarhöfundar um náttúrufræðikennslu í yngstu bekkjum grunnskólans. Einn kennaraneminn, Katla Þórarinsdóttir, skrifaði lokaritgerð undir leiðsögn greinarhöfundar vorið 2001 um hugmyndir nokkurra 6 og 9 ára barna um húsdýrin og þá sérstaklega hugmyndir barnanna um kúna.

Athugun Kötlu

Katla valdi kúna af því hún taldi að nemendur hefðu einhverja þekkingu á henni enda neyta þeir flestir einhverra afurða hennar daglega. Könnun var framkvæmd í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og tók til tólf nemenda í 1. og 4. bekk. Úr hvorum bekk var þekking sex nemenda könnuð bæði með viðtali og greiningu á teikningum þeirra. Nemendur voru valdir af handahófi og var kynjahlutfall jafnt.

Viðtölin voru tekin upp á segulband og voru nemendur spurðir spurninga um húsdýrin en síðan voru þeir beðnir að teikna mynd af kú eins og hún lítur út utan frá en einnig það sem þeir töldu vera inni í henni. Að teikningu lokinni voru nemendur beðnir að útskýra myndina sína og merkja inn á hana hugtök sem áttu við.

Niðurstöður sýndu að hugmyndir barnanna um húsdýrin voru fjölbreyttar og að eldri nemendurnir höfðu yfir fleiri hugtökum að ráða og vissu meira um húsdýrin og kúna en yngri nemendur.

Skilgreiningin á húsdýrum virtist vera nokkuð á reiki hjá nemendum. Þeir gerðu lítinn greinarmun á húsdýrum og gæludýrum og þá sérstaklega yngri nemendurnir sem margir töldu gullfiska og páfagauka til húsdýra. Þegar eldri nemendur áttu að skilgreina hvað húsdýr væri þá sögðu eldri nemendurnir það vera þau dýr sem maðurinn hefði not af. Aftur á móti sögðu yngri nemendur að húsdýr væru dýr sem byggju í húsum en komust í vanda þegar þeir uppgötvuðu að hestur og kýr væru of stór til að hafa í venjulegum húsum. Samkvæmt íslenskri orðabók eru húsdýr tamin dýr sem menn hafa sér til félagsskapar eða gagns (Íslensk orðabók handa skólum og almenningi 1988).

Þekking nemenda á kúm var misjöfn og fór m.a. eftir því hvort þeir höfðu umgengist kýr. Þeir sem höfðu umgengist kýr að einhverju leyti höfðu meiri þekkingu en þeir sem bara höfðu séð þær. Helsti munur á þekkingu sex og níu ára barna var að eldri nemendurnir höfðu meira vald á hugtökum sem tengdust kúnni. Þeir vissu m.a. vel hvað hljóðið frá kúnum kallaðist (baul) og að kýr væru með klaufir og hala. Þessi hugtök vöfðust aftur á móti fyrir sex ára nemendunum. Enginn þeirra gat sagt hvað hljóðið sem kýrin gefur frá sér kallast þó öll gætu þau lýst því og leikið það (Katla Þórarinsdóttir 2001:24).

Allir nemendurnir sem þátt tóku í athuguninni gerðu sér vel grein fyrir að mjólkin er afurð kýrinnar og vissu að hún kæmi úr spenum. Eldri börnin höfðu fengið fræðslu um húsdýrin í skólanum árið áður en athugunin var gerð og fóru auk þess í heimsókn á sveitabæ. Yngri nemendurnir höfðu ekki fengið slíka fræðslu en sögðust hafa lært um dýrin af bókum og af fullorðnu fólki.

Teikningar nemenda og þær hugmyndir sem þar birtust voru flokkaðar eftir fyrirfram gerðum stigum. Gerðir voru tveir stigakvarðar með hliðsjón af flokkun sem Tunnicliffe og Reiss gerðu í tenglsum við athugun þeirra á hugmyndum barna á líkamanum (Tunnicliffe og Reiss 1999:31–32, Reiss og Tunnicliffe 1999:7–10). Annar kvarðinn var notaður til að greina og flokka þekkingu nemenda á beinagrind kýrinnar  hinn til að greina og flokka þekkingu nemenda á ýmsum líffærum.

Kvarði fyrir beinagrind

1. stig: engin bein

2. stig: bein gerð sem rendur eða strik 

3. stig: „hundabein“ staðsett tilviljunarkennt um líkamann

4. stig: ein gerð beina á réttum stað, t.d. hauskúpa, hryggur eða rifbein

5. stig: tvær gerðir beina staðsett rétt, t.d hryggur, rifbein eða hauskúpa

6. stig: beinagrind, hryggur, hauskúpa og rifbein

7. stig: beinagrind þar sem tengsl eru á milli mismunandi beina

Kvarði fyrir líffæri

1. stig: engin líffæri

2. stig: eitt eða fleiri líffæri staðsett tilviljunarkennt um líkamann

3. stig: eitt innra líffæri á réttum stað, t.d. heili eða hjarta

4. stig: tvö eða fleiri líffæri á réttum stað en engin tengsl á milli þeirra

5. stig: eitt líffærakerfi tengt saman, t.d. meltingarkerfið eða hjarta og blóðrás

6. stig: tvö til þrjú líffærakerfi staðsett rétt

7. stig: skilningur á fjórum eða fleirum líffærakerfum og rétt staðsett, t.d. hringrás blóðs, melting, loftskipti, taugakerfi o.fl.

Þegar myndir nemenda voru skoðaðar með hliðsjón af þessum stigum kom í ljós að hugmyndir þeirra eru afar breytilegar. Níu ára nemendurnir voru að jafnaði greindir á hærri stig en yngri nemendurnir og er það hliðstætt við niðurstöður úr viðtölum við nemendurna. Tafla 1 sýnir dreifingu nemenda eftir hugmyndum þeirra um beinagrindina. Eins og sést á töflunni ná sex ára nemendurnir hæst á stig fjögur eða tveir nemendur. Geta níu ára nemendanna er verulega dreifð þar sem tveir nemendur sýna engin merki um bein en aðrir tveir hafa vald á að teikna „fullkomna“ beinagrind þar sem bein tengjast saman og lenda því á 7. stigi.

Tafla 1

Tafla 2 sýnir dreifingu nemenda eftir hugmyndum þeirra um líffæri kýrinnar. Á töflunni sést að níu ára nemendurnir hafa meiri vitneskju um líffærin í kúnni en sex ára nemendur. Tveir sex ára nemendur teikna engin líffæri og lenda því á fyrsta stigi. Hæst lendir einn sex ára nemandi á 4. stigi þar sem hann getur teiknað nokkur líffæri á réttum stað. Níu ára nemendurnir eru allir á 3. til 5. stigi þar sem þeir hafa allir vitneskju um líffæri en enginn þeirra hefur öðlast skilning á tengingu á milli þeirra.

Tafla 2

Til að flokka hugmyndir nemenda niður á ákveðin stig skoðaði Katla bæði teikningar nemendanna og hlustaði á upptökur á skýringum nemenda á teikningunum. Stundum kom ekki fram á myndunum það sem börnin sögðu og útskýrðu í viðtalinu. Þetta þurfti höfundur að skoða saman og meta þekkingu og hugmyndir barnanna út frá bæði teikningu og viðtali.

Mynd 1

Á teikningum barnanna koma einnig fram aðrar hugmyndir en þær sem flokkast undir vitneskju um beinagrindina og líffærin. Þetta á aðallega við um sex ára börnin (sjá myndir). Eitt barnið lætur merkja inn á myndina að borða og að drekka. Nemandinn útskýrði að maturinn færi niður um ákveðna rennu og „drykkirnir“ niður um aðra (sjá Mynd 1). Annar sex ára nemandi segir að kýrin sé full af mjólk (Mynd 2). Myndir 3, 4 og 5 sýna teikningar 9 ára nemenda og á hvaða stigi teikningar þeirra og hugmyndir lenda.

Mynd 2

Mynd 3

Mynd 4

Mynd 5

Á þessu má sjá að hugmyndir nemenda eru mjög misjafnar bæði milli aldurshópa og jafnvel ekki síður innan sama aldurshóps og þó að könnunin hafi verið smá í sniðum gefur hún ákveðna mynd af því hvaða hugmyndir sex og níu ára börn geta haft um kúna og önnur húsdýr.

Í aðalnámskrá grunnskóla 1999, bæði í almennum hluta og náttúrufræðihluta er lögð áhersla á einstaklinginn, þekkingu hans og forhugmyndir. Katla bendir á að með því að kanna forhugmyndir nemenda, um hin ýmsu fyrirbæri og atriði sem fjalla skal um í skólastarfi, getur kennarinn betur og á markvissari hátt tekist á við skipulag kennslunnar og þar með komið til móts við hvern og einn.

Dæmi um rannsókn Reiss og Tunnicliffe

Í einni af rannsóknum áðurnefndra Reiss og Tunnicliffe skoðuðu þau hugmyndir barna (4–11 ára), unglinga (13/14 ára) og kennaranema (18–22 ára) um beinagrind og innyfli nokkurra dýra, þ.e. rottu, fugls (stara), fisks (síldar) og trjónukrabba. Kennaranemarnir (20 nemendur) voru allir í líffræðivali og 18 þeirra ætluðu sér að verða sérfræðingar í náttúrufræðikennslu á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla. (Tunnicliffe og Reiss 1999:1189)

Nemendur einbeittu sér að einu dýri í hvert skipti sem verkefnið var lagt fyrir og fengu að skoða hvert dýr vel áður en þeir teiknuðu það sem þeir héldu að væri innan í því. Í fimmta sinn sem verkefnið var lagt fyrir áttu nemendur að teikna það sem þeir héldu að væri innan í þeim sjálfum. Nemendur höfðu 10 mínútur til að teikna það sem þeir héldu að væri innan í mannslíkamanum. Einnig voru nemendur beðnir að merkja við einstaka líkamshluta og líffæri. Kennarinn þurfti að aðstoða yngstu nemendurna 4/5 ára og skrifa heiti líkamshluta upp eftir börnunum. Alls voru gerðar 572 teikningar sem voru flokkaðar og greindar eftir stigatöflunni sem sagt er frá hér að framan og Katla notaði í sinni rannsókn.

Í niðurstöðum rannsóknar Trunnicliffe og Reiss kemur ekki á óvart að því eldri sem nemendur eru því skýrari mynd hafa þeir af dýrunum og innri gerð þeirra. Niðurstöður sýndu einnig að nemendur sem skoruðu hátt í teikningum sínum af mannslíkamanum skoruðu einnig hátt í teikningum af dýrum. Nemendur skoruðu hærra í teikningum af innyflum og beinagrind fisksins en fuglsins og telja rannsakendur skýringuna geta verið þá að nemendur hafi oftar borðað fisk en fugl og þá jafnvel séð heila beinagrind fisks og hafi einnig oftar séð teikningu af beinagrind fisks en fugls í teiknimyndum, t.d. um Tomma og Jenna (Tunnicliffe og Reiss 1999:1197). Áberandi var að nemendur í öllum aldurshópum áttu erfiðast með beinagrindina af fuglinum.

Það sem kom höfundum sérstaklega á óvart var að lítill munur var á þekkingu nemenda á eigin beinagrind og á beinagrind annarra dýra. Sérstaklega kom á óvart hve fáir kennaranemar náðu 7. stigi í teikningum sínum. Aðeins 8 af 20 náðu 7. stigi í teikningum sínum af beinagrind mannsins, 2 af 19 náðu 7. stigi í teikningum af rottunni, enginn af kennaranemunum náði 7. stigi í teikningum sínum af síld og stara þrátt fyrir að allt sem þurfti til að ná 7. stigi var að teikna beinagrind þar sem tengd eru saman hryggjarsúla, rifbein, höfuðkúpa og útlimir.

Í könnun Kötlu voru teikningar tveggja níu ára nemenda á beinagrind kýrinnar á 7. stigi þar sem þeir sýndu þessi tengsl. Katla fékk einnig nemendurna til að útskýra myndirnar. Tunnicliffe og Reiss segja í umfjöllun sinni um niðurstöður sinnar rannsóknar að það hefði þurft að fá munnlegar útskýringar hjá nemendum (sérstaklega yngstu börnunum) varðandi teikningarnar þar sem stundum hafi verið gerðar línur sem ómögulegt hafi verið að greina hvort ættu að vera tengingar milli beina eða eitthvað annað.

Sjálf tók ég þátt í rannsókn Tunnicliffe og Reiss er ég sótti stutt námskeið hjá þeim í janúar 2001 á ráðstefnu Association for Science Education í Surrey á Englandi. Allir þátttakendur voru beðnir að teikna útlínur mannslíkamans og teikna síðan allt sem er innan í fólki. Við áttum að setja heiti og skýringar við það sem við teiknuðum. Einnig var kyn þáttakenda skrifað á blaðið. Við fengum 10 mínútur til að gera þetta en að þeim tíma liðnum var teikningunum safnað saman. Sjálf hef ég einnig látið nemendur í kennaranáminu gera þetta en hef ekki unnið úr þeim teikningum enn sem komið er.

Hugmyndir um húsdýr í námskrá og námsefni

Í aðalnámskrá grunnskóla – náttúrufræðihluta kemur fram að á 1. þrepi á nemandi að þekkja algengustu húsdýrin á Íslandi og þjálfast í að beita heitum og hugtökum yfir einstaka líkamshluta (Aðalnámskrá grunnskóla – Náttúrufræði 1999, bls. 28). Til að koma til móts við þessi markmið aðalnámskrár og fleiri markmið sem tengjast húsdýrunum hefur Námsgagnastofnun nýlega gefið út myndspjaldabók um íslensku húsdýrin fyrir yngstu nemendurna. Markmiðið með bókinni ,,er að börnin læri að þekkja íslensku húsdýrin, heiti þeirra, afurðir og vistarverur. Mikilvægt er að börnin þjálfist í að beita heitum og hugtökum yfir sjáanlega líkamshluta og ennfremur að þau geti flokkað dýrin eftir útliti.“ (Ragnheiður Hermannsdóttir og Sigrún Bjarnadóttir 2001:1). Einnig er hafin útgáfa á nýjum bókaflokki í náttúrufræði og samfélagsfræði fyrir yngstu nemendurna, Komdu og skoðaðu … . Ein bókin í þeim flokki heitir Komdu og skoðaðu líkamann og er henni m.a. ætlað að koma til móts við þau markmið í aðalnámskrá sem snúa að líkama mannsins. Fjölbreyttar kennsluhugmyndir og leiðbeiningar verða á vef Námsgagnastofnunar. Í kjölfarið ættu kennarar að hafa betra tækifæri til að skipuleggja kennslu sem tengist þessum mikilvægu þáttum og nemendur að öðlast aukna þekkingu á íslensku húsdýrunum og eigin líkama.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.

Aðalnámskrá grunnskóla – Náttúrufræði. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.

Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir. 2001. Komdu og skoðaðu líkamann. Reykjavík, Námgagnastofnun.

Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 1988. Ritstj. Árni Böðvarsson.
2. útgáfa. Reykjavík, Menningarsjóður.

Katla Þórarinsdóttir. 2000. Baulandi beljur. Hugsmíðahyggja, gildi hennar í skólastarfi ásamt hugmyndum 6 og 9 ára barna um kúna og önnur húsdýr. Óútgefin B.Ed.-ritgerð við Kennaraháskóla Íslands.

Ragnheiður Hermannsdóttir og Sigrún Bjarnadóttir. 2001. Íslensk húsdýr. Reykjavík, Námgagnastofnun.

Reiss, M. og Tunnicliffe, S.D. 1999a. Children´s Knowledge of the Human Skeleton. Primary Science Review. 60: 7–10

Tunnicliffe, S.D. og Reiss, M. 1999b. Research on Curriculum, Teaching and Learning. Science Educational 10 (1): 29–33.

Tunnicliffe, S.D. og Reiss, M. 1999c. Students´ understandings about animal skeletons. International Journal of Science Education. 11: 1187–1200.