Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Valgerður Gunnarsdóttir

Fámennir framhaldsskólar
– staða þeirra og framtíðarhorfur

Í greininni eru teknir saman nokkrir punktar um fámenna framhaldsskóla, dregnir fram kostir og gallar sem felast í fámenninu og fjallað um möguleika skólanna til markaðssóknar. Greinin byggist á erindi sem haldið var á ársþingi Samtaka fámennra skóla að Stóru-Tjörnum 20. október 2001. Höfundur er skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. 

Fámennir framhaldsskólar

Á bak við hugtakið fámennir framhaldsskólar stendur ákveðinn fjöldi nemenda í einstökum skóla. Í erindi sem Helga Steinsson hélt á þingi fámennra skóla að Stórutjörnum vorið 2001 skilgreindi hún þá framhaldsskóla fámenna sem væru með 300 og færri nemendur. Í þessari grein er talað um fámenna framhaldsskóla ef nemendafjöldi er 200 eða færri. Miðað við þá skilgreiningu teljast eftirtaldir framhaldsskólar vera í hópi þeirra fámennu:

 • Framhaldsskólinn á Laugum – FL

 • Framhaldsskólinn á Húsavík – FSH

 • Menntaskólinn á Laugarvatni – ML

 • Framhaldsskólnn í Austur-Skaftafellssýslu – FAS

 • Verkmenntaskóli Austurlands – VA

 • Stýrimannaskólinn í Reykjavík

 • Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

 • Hússtjórnarskólinn í Reykjavík

 • Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – Bændadeild

 • Vélskóli Íslands.

Þegar litið er á námsframboð þessara skóla kemur eftirfarandi skipting í ljós:

 • Framhaldsskólarnir á Laugum, Húsavík og Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólinn á Laugarvatni og Verkmenntaskóli Austurlands eru hefðbundnir verk- og bóknámsskólar.

 • Hússtjórnarskólarnir á Hallormsstað og í Reykjavík, Stýrmanna- og Vélskólinn og Bændadeild Landbúnarðarháskólans eru sérskólar.

 • Allir skólarnir eru heimavistarskólar utan einn, Framhaldsskólinn á Húsavík.

 • Þrír þeirra eru staðsettir úti í sveit, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Laugarvatni og Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað.

 • Þeir þrír eru einnig staðsettir á grónum skólasetrum og byggja því á sögu og hefðum, ásamt nýbreytni.

Fyrsti skóli á Laugum var alþýðuskóli, sem síðan var breytt í héraðsskóla. Hann varð síðan að framhaldsskóla 1988. Á Laugum var einnig húsmæðraskóli í áratugi.

Kostir fámennra framhaldsskóla

 • Persónulegri þjónusta við hvern einstakan nemanda

 • Auðveldara að fylgjast með námsgengi einstakra nemenda

 • Nemendur „týnast“ ekki – vinir styðja

 • Þroskar félagsfærni nemenda

Það fylgja því bæði kostir og gallar að vera nemandi eða starfsmaður við fámenna framhaldsskóla. Hver einstakur nemandi fær persónulegri þjónustu frá starfsmönnum skólans vegna nálægðar og fámennis. Það er kostur fyrir nemandann, en aukið álag á starfsmennina, sem þurfa að gefa mun meira af sér í samskiptum í skólanum og utan hans, vegna þess að nemandinn „þekkir“ hann svo vel. Starfsmenn verða óhjákvæmilega ígildi foreldra, þegar upp koma persónuleg vandamál, sem jafnvel krefjast úrlausnar á staðnum.

Vegna fámennis er auðveldara að fylgjast með námsgengi einstakra nemenda og veita þeim meira aðhald og örvun. Nálægð við aðra kennara auðveldar upplýsingaflæði um námsgengi og ástundun hvers nemanda. Það tekur því skemmri tíma að fá upplýsingar um einstaka nemendur þegar miðla þarf þeim til forráðamanna og í mörgun tilfellum geta umsjónarkennarar svarað til um stöðu nemandans beint, ef forráðamaður hefur samband. t.d. símleiðis. Þetta er kostur og forráðamenn finna að fylgst er með og haldið utan um „unglinginn þeirra“.

Í fámennum skóla eru samskipti nemenda mikil og „allir þekkja alla“. Þegar upp koma vandamál eru þeir tilbúnir að styðja hver við annan, eins og hægt er og afar sjaldgæft er að nemendur séu einir á báti. Það þroskar þá jafnframt félagslega að þurfa að taka tillit hver til annars í námi og félagsstarfi innan skólans. Þátttaka hvers nemanda í félagslífinu er afar mikilvægt og fæstir geta setið auðum höndum og verið aðgerðalausir þiggjendur. Langflestir þurfa að taka að sér eitthvert hlutverk og hluti þeirra þarf að takast á við skipulagningu og stjórnun, sem er gott veganesti út í lífið.

Gallar fámennra framhaldsskólaskóla

 • Námsframboð ekki eins fjölbreytt

 • Fjárhagur þrengri, vegna þess að skólar fá fjármagn 
  í samræmi við fjölda nemenda sem gengur til prófs

 • Allir vita allt um alla

Í fámennum framhaldsskóla er þess ekki kostur að hafa jafn fjölbreytt námsframboð og í stærri skólunum. Mikilvægt er að nýting í námshópa sé góð og er þá miðað við að nemendur séu sem næst 25 í bóklegum áföngum og 12–15 í verklegum áföngum. Það leiðir t.d. af sér að framboðnir valáfangar eru færri og áfangastjóri verður hugsanlega að stýra nemendum í ákveðna námsáfanga. Á móti kemur hins vegar að nemendum gefst kostur á að stunda fjarnám við aðra stærri skóla, gegn ákveðinni greiðslu til þess skóla, en heimaskóli býður nemandanum e.t.v. upp á stuðning við fjarnámið. Því er þannig háttað hér á Laugum. Skólinn greiðir stuðningskennara fyrir að hafa umsjón með fjarnáminu og að aðstoða nemandann við að fylgja því eftir.

Fjárframlög til framhaldsskóla miðast að stórum hluta við fjölda nemenda sem gengur til prófs á hverri önn. Ýmis útgjöld eru hin sömu við skólana áháð stærð. Staðsetning leiðir einnig af sér kostnaðarauka, s.s. fyrir þá skóla sem eru út í sveit og þurfa að sækja þjónustu og aðföng um lengri veg.

Vegna nálægðar og fámennis, sérstaklega í heimavistarskólum út í sveit, er svigrúm til einkalífs minna. Það hentar sumum eflaust illa og jafnvel þeir sem hafa þol til þess, verða stundum þreyttir á að geta  „varla snúið sér við, án þess að allir viti það“, hvort heldur um er að ræða nemendur eða starfsmenn.

Markaðssetning fámennra framhaldsskóla

 • Hver skóli þarf að skapa sér ákveðna sérstöðu.

 • Markaðssetning er afar mikilvæg í upplýsingasamfélagi nútímans.

 • Stjórnendur og starfmenn þurfa að hafa staðfasta trú á að “varan“ sem selja á sé sérstök og eftirsóknarverð.

 • Stöðugt gæðaeftirlit er nauðsynlegt.

Til þess að halda velli í samkeppni um nemendur, sem nú er orðin staðreynd, þarf hver skóli að skapa sér ákveðna sérstöðu. Nemendur framhaldsskóla eru ekki af einhverju tilteknu upptökusvæði, eins og reyndin er með grunn- og leikskóla.

Fámennir framhaldsskólar þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum, vegna þess að þeir eru ekki eins hagkvæm rekstareining og stærri skólarnir og því er fyrir hendi sá möguleiki að þeir verði lagðir niður, ef nemendum fækkar. Því er nauðsynlegt að hver skóli skapi sér ákveðna sérstöðu. Bjóði upp á nám, aðstöðu, félagslíf eða annað sem greinir hann frá öðrum og gerir það eftirsóknarvert að vera nemandi og starfsmaður við þann skóla.

Það er jafnframt nauðsynlegt að kynna það sem skólinn hefur upp á að bjóða, markaðssetja "vöruna" til þess að „neytandinn“ viti af henni og geti nálgast hana.

Þeir sem starfa við skólann, stjórnendur og starfsmenn þurfa að hafa skýra sýn á hvaða þjónustu skólinn á að veita, vinna sameiginlega að því að hún sé sem best og hafa staðfasta trú á að „þjónustan/varan“ sé sérstök og eftirsóknarverð.

Það er afar mikilvægt að stöðugt gæðaeftirlit eigi sér stað. Að ekki verði stöðnun í einhverju sem einu sinni var frábært og gott, en er það ekki lengur, vegna þess að ytri eða innri aðstæður hafa breyst.

Hvert á að beina markaðssetningu ?

 • Til væntanlegra nemenda.

 • Til foreldra/forráðamanna.

 • Til næsta skólastigs á undan.

 • Ánægðir „kaupendur“ eru langbesta auglýsingin.

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að markaðssetja, þarf að gera sér grein fyrir hvert á að beina henni. Í framhaldsskólunum er um að ræða næsta skólastig á undan, grunnskólastigið og jafnvel sama skólastig, því alltaf er eitthvað um að nemendur færi sig milli skóla.

Jafnframt því að beina markaðssetningu að væntanlegum nemendum, er einnig mikilvægt að ná sambandi við foreldra/forráðamenn þeirra sem enn eru ólögráða, eða undir 18 ára aldri. Foreldrar láta sig varða í hvers konar umhverfi unglingurinn þeirra er að fara og hvernig allur aðbúnaður er til náms, félagslífs og grunnþarfa.

Markaðssetning tekur tíma og fyrir hana þarf að borga. Skili hún árangri er þeim tíma og fjármunum vel varið. Hins vegar er afar mikilvægt að hafa það í huga að ódýrasta og besta markaðssetningin eru ánægðir nemendur sem bera skólanum vel söguna og draga með sér nýja nemendur til skólans.

Framtíðarhorfur

 • Fjölbreytt skólaflóra er nauðsynleg. Fámennir framhaldsskólar henta sumum nemendum betur.

 • Stjórnvöld verða að vera tilbúin að leggja fjármagn í þessa skólagerð.

Framhaldsskólar landsins eru hver með sínu sniði, hvað varðar nemendafjölda, aðstöðu til náms og félagslífs, hefðir, umhverfi, viðhorf innan skólans, svo dæmi séu tekin. Langflestir eru staðsettir í þéttbýli, en eins og fyrr var greint eru þrír þeirra staðsettir úti í sveit. Sú fjölbreytni sem er til staðar í skólaflóru landsins er nauðsynleg, svo koma megi til móts við mismunandi þarfir nemenda.

Fámennir framhaldsskólar eru dýrari rekstareining en hinir fjölmennari. Fjármagni sem ætlað er til að reka framhaldsskólana og er allt of lítið, er skipt milli skólanna með ákveðnum hætti. Telji stórnvöld að draga þurfi saman seglin, er sú hætta fyrir hendi að fámennu framhaldsskólarnir verði lagðir af. Sú alúðarvinna sem lögð er í hvern nemanda fámennra skóla verður aldrei verðmetin, en samfélagið nýtur þeirra. Það er ákvörðun stjórnvalds hverju sinni, hvort leggja á fjármagn í þessa skólagerð sem er styður við einstaklinginn og styrkir það samfélag sem kemur til með að njóta hans krafta.