Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Fanney Ásgeirsdóttir

Sérstaða fámennra grunnskóla
í skólakerfinu

Í greininni er rætt um fámenna grunnskóla, sérstöðu þeirra, ögrandi tækifæri og möguleika sem þeir bjóða til framsækinna vinnubragða í skólastarfi. Greinin byggist á erindi sem haldið var á ársþingi Samtaka fámennra skóla að Stóru-Tjörnum 20. október 2001. Höfundur lauk B.Ed.-prófi við kennaradeild Háskólans á Ákureyri vorið 1999 og er skólastjóri Grunnskóla Svalbarðshrepps í Þistilfirði.

Forréttindi að vera við fámennan skóla

Ég nýt þeirra forréttinda að vera skólastjóri í Grunnskóla Svalbarðshrepps í Þistilfirði. Skólinn er í hópi þeirra fámennustu á landinu, með 21 nemanda sem skiptast í 8 árganga.

Það er varla hægt að segja að fámennum skólum sé hampað í skólamálaumræðunni í dag. Reyndar er einna helst litið á þá sem hálfgert neyðarbrauð þar sem miklar vegalengdir koma í veg fyrir að hægt sé að hagræða í menntamálunum með sameiningu skóla. Ég lít hins vegar á það sem forréttindi að fá að starfa í fámennum skóla. Ekki vegna þess að skólinn sé svo lítill og notalegur að þar þurfi ég eiginlega aldrei að gera neitt, heldur af því að þessi skólastærð gerir okkur kleift að gera nánast allt sem okkur langar til í skólastarfinu og við getum gert það þannig að allir taki virkan þátt í því.

Þegar vel tekst til er fámenni skólinn með skemmtilegri vinnustöðum sem völ er á. Skýringin á því liggur m.a. í þeim nánu tengslum sem myndast milli kennara og nemenda og reyndar einnig við foreldra og samfélagið allt. Ef maður hefur á annað borð gaman af að verja tíma með börnum og unglingum, sem ég held reyndar að hljóti að vera forsenda þess að ná árangri í skólastarfi, þá hlýtur maður að kunna að meta þá nánd sem þar skapast. Í skólanum okkar vinna nemendur og kennarar daglangt hlið við hlið að því að afla sér þekkingar og miðla henni, borða saman matinn sem þeir hjálpuðust að við að elda og fara svo saman út að leika sér á eftir.

En það er ekki nóg að það sé gaman í vinnunni. Hver er árangurinn af starfinu í fámennu skólunum? Hvernig sinna þeir því hlutverki sínu að búa nemendur sem best undir lífið?

Menntun kennara og fámennir skólar

Það er ljóst að það sem mestu ræður um gæði skólastarfs er að þar starfi hæft og vel menntað starfsfólk. Og þar liggur helsti vandi fámennu skólanna. Þeir búa því miður flestir við skort á réttindakennurum. Einhverra hluta vegna er lítið um að menntaðir kennarar sæki um störf í fámennum skólum. Af hverju skyldi það stafa?

Þegar ég hafði ráðið mig sem kennara í Svalbarðsskóla, hitti ég að máli manneskju sem hefur mikið starfað að skólamálum og kennslu og sagði henni frá þessum áformum mínum. Ég verð að segja að ég varð frekar undrandi þegar hún horfði á mig með áhyggjusvip og ýjaði að því að það væri nú illa farið með framtíðina að fara að hanga í einhverjum pínulitlum skóla og láta mér leiðast þegar það væri nú búið að bjóða mér vinnu í stóru skólunum inni á Akureyri.

Ætli það sé útbreitt viðhorf innan kennarastéttarinnar að í litlu skólunum úti á landi sé ekkert betra hægt að gera í kennslustofunni en láta sér leiðast? Ef svo er, hvað getum við gert til að breyta því?

Það er í raun dálítið sérstakt að kennarar skuli ekki sækja meira í fámennu skólana, í ljósi þess að mér finnast helstu umkvörtunarefni kennara í stórum skólum vera; agavandamál, of stórir bekkir og þar af leiðandi. vöntun á því að geta veitt hverjum nemanda kennslu við sitt hæfi eins og skylt er.

Þessi vandamál eru ekki til staðar í fámennu skólunum. Það er kannski of djúpt tekið í árinni að segja að agavandamál þekkist þar ekki, en unnt er að fullyrða að þau eru ólíkt smærri í sniðum en í stóru skólunum og yfirleitt auðveldara að taka á þeim þar sem nemendahópurinn er fámennari.

Það er líka staðreynd að góðir kennarar eru alltaf dýrmætir en enn dýrmætari í fámennu skólunum þar sem hver einstaklingur vegur þyngra í heildarmyndinni en í fjölmenninu. Í fámennu skólunum er í flestum tilvikum auðvelt fyrir kennarann að setja mark sitt á skólastarfið og hafa þar raunveruleg áhrif.

Það ættu því að vera forréttindi fyrir metnaðarfullan kennara að komast í starf í fámennum skóla. Þar er nokkuð víst að hann fær að nota alla sína hæfileika til fullnustu, hann hefur yfirleitt umtalsvert frjálsræði í starfi og bestu aðstæður til að prófa sig áfram með allskonar hópvinnu, þemaverkefni og annað frjótt skólastarf, þar sem nemendahópurinn er af viðráðanlegri stærð.

Það hlýtur að vera okkar helsta keppikefli að fá inn í fámennu skólana fleira metnaðarfullt, vel menntað og hæft starfsfólk og til þess að svo megi verða þurfum við að breyta því viðhorfi að það taki því ekki að fara að kenna í skóla þar sem ekki séu nokkur hundruð börn. Við þurfum öll að velta fyrir okkur leiðunum að því marki.

Það er reyndar athyglisvert í þessu sambandi að ég hef átt samtöl við kennara, sem hafa útskrifast á undanförnum árum úr kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands. Þar kemur fram að þeim finnst þeir hafi enga kennslu fengið um samkennslu árganga eða kennsluhætti í fámennum skólum. Þeir halda því t.d. fram að í kennaranáminu hafi ekki verið fjallað um það í náminu hvernig raða má niður námsefni þegar sömu árgöngum er ekki alltaf kennt saman (og því þarf helst að skipuleggja t.d. kennslu í samfélagsgreinum nokkur ár fram í tímann). Þessi skólagerð virðist því ekki fá mikla umfjöllun í almenna kennaranáminu. Gæti verið að það eigi sinn hlut í því hve kennarar skila sér illa út í skólana okkar.

Miklir möguleikar í starfi fámennra skóla

Að því gefnu að fámennu skólarnir séu vel mannaðir er skoðun mín sú að þar fáum við betri tækifæri en annars staðar í skólakerfinu til að hjálpa sérhverjum nemanda að ná þeim námsárangri og þroska sem hann er fær um að ná á þessum árum. Í því sambandi nægir að nefna að hver nemandi fær persónulegri þjónustu en ella og auðveldara er að fylgjast með líðan og framförum hvers og eins.

Í kennslufræðum nútímans er æ meiri áhersla lögð á fjölbreytni í kennsluaðferðum, samþættingu námsgreina og sveigjanlega stundaskrá og kennsluhætti. Því minni sem skólinn er því auðveldara er að beita þessum sveigjanleika og hann er raunar yfirleitt til staðar því sú aldursblöndum sem er í kennslustofum fámenna skólans gerir sjálfkrafa kröfur um meiri breidd í kennslunni en ella.

Þessi aldursblöndun er í mínum huga afar mikilvæg. Hún veitir nemendum aukin tækifæri til að læra hver af öðrum og miðla þekkingu sín á milli. Hún léttir þeirri pressu af slakari nemendum í árgangi að vera alltaf þeir í stofunni sem minnst kunna og geta, og hún veitir afburðanemendunum aukið svigrúm og færi á að takast á við verkefni, sem hæfa þeim, með öðrum nemendum af svipaðri getu.

Nú er að sjálfsögðu hægt að aldursblanda nemendum í stærri skólum og það er gert, oftast þó í afmörkuðum verkefnum, en fámennu skólarnir eru kjöraðstæður aldursblöndunar og samvinnunáms.

Önnur afleiðing aldursblöndunarinnar og fámennisins er sú að nemendur þekkjast mjög vel innbyrðis og taka yfirleitt allir virkan þátt í félagslífi skólans. Því færri sem nemendur eru, því mikilvægara er t.d. fyrir leiki þeirra að allir séu með og þess vegna leggja þeir sig fram um að drífa alla með í hópinn. Á sama hátt er auðveldara að koma því við að allir fái góða þjálfun í að koma fram fyrir stærri og minni hópa fólks og öðlist þannig það öryggi og þá fágun í framkomu, sem mikilvæg er hverjum einstaklingi, sem vill geta látið til sín taka og komið skoðunum sínum á framfæri í framtíðinni.

Félagslíf, val um námskosti og faglegt samstarf

Nú er ég búin að vera að hrósa fámenna skólanum á hvert reipi. Því fer þó fjarri að þessi skólagerð sé fullkomin. Vissulega geta fylgt því ýmsir ókostir að vera fá og smá og langt í burtu frá stóru þéttbýliskjörnunum þar sem ýmislegt áhugavert er í boði bæði fyrir nemendur og kennara. Við verðum að gera okkur grein fyrir þessum ókostum til þess að geta dregið úr áhrifum þeirra.

Hvað nemendur varðar er tvennt sem gjarnan er nefnt, annars vegar lítill og oft einsleitur félagahópur og því einhæft félagslíf og hins vegar lítill möguleiki til að bjóða upp á val í námi, einkum á unglingastiginu. Flestir skólar hafa reynt að bregðast við þessu eftir föngum, t.d. með sameiginlegum uppákomum nágrannaskóla, samskóladögum og samskólaböllum. Í okkar skóla standa nemendur t.d. frammi fyrir því að þurfa að skipta um skóla eftir 8. bekk og færa sig til Þórshafnar. Við förum með alla nemendur okkar einu sinni í viku á Þórshöfn í leikfimi og sund í íþróttahúsinu okkar þar og í haust hófum við að samkenna elstu nemendunum okkar og jafnöldrum þeirra á Þórshöfn lífsleikni, í eyðu sem myndast í íþróttakennslunni. Hugmyndin með þessu er að hrista þessa hópa vel saman, auðga félagslíf þeirra og auðvelda nemendum okkar skólaskiptin. Þessi hópur er þegar farinn að hittast utan við skóla og gera ýmislegt skemmtilegt saman og það gengur mjög vel fyrir sig. Þetta er eitt dæmi um að stundum er hægt að stækka félagahópinn með tiltölulega lítilli fyrirhöfn.

Hvað varðar fjölbreytni í námsframboði þá er hún öllu snúnara viðfangsefni, bæði vegna þess að erfitt er að halda uppi mikilli breidd í námsframboði þar sem nemendur eru fáir og vegna þess að alls ekki er sjálfgefið að hver fámennur skóli fyrir sig hafi yfir að ráða margvíslegri sérþekkingu. Sú hugmynd kom þó upp í góðum hópi hér í nágrenni við mig, nú á dögunum, að nágrannaskólar tækju sig saman um að leysa þennan vanda og fjölbreytnin yrði þá meira í formi námskeiðsdaga, eða skólabúða, þar sem samnýtt yrði þekking kennara á svæðinu og þannig hægt að fá fjölbreyttara úrval viðfangsefna. Þetta held ég að sé hugmynd sem vert er að hlúa að.

En hvað með kennarana? Hverjir eru helstu ókostir þess að starfa í fámennum skóla? Kennarar nefna gjarnan faglega einangrun, þeir séu t.d. einu tungumálakennararnir í skólanum og hafi engan til að ráðfæra sig við eða bera sig saman við. Reynslan sýnir að nýir kennarar þurfa mjög á því að halda að geta rætt starf sitt og ákvarðanir við aðila sem þeir treysta til að ráða sér heilt. Þetta virðist oft nauðsynleg forsenda fyrir vellíðan og öryggi kennara í starfi sínu. Annað sem gjarnan vex jafnt menntuðum kennurum sem leiðbeinendum í augum í fyrstu er samkennslan og skipulag hennar, niðurröðun á námsefni og val á kennsluaðferðum. Það er svo sem ekkert skrýtið í ljósi þess sem áður kom fram um kennaranámið.

Ögrandi verkefni

Allt eru þetta þó hlutir sem hægt er að bæta úr og hér reynir á skólastjórnendur fyrst og fremst. Það er mikilvægt fyrir fámenna skóla að vinna saman að þessum málum, sameinast um námskeiðahald af ýmsum toga og leitast við að veita kennurum tækifæri til að hittast og ræða málin. Á tímum tækninnar og tölvupóstsins er líka orðið auðvelt fyrir kennara að eiga samskipti milli skóla og fjarlægð og einangrun því afstæð hugtök. Þó tölvupóstsamskipti komi aldrei fyllilega í stað þess að hittast og skiptast á skoðunum og reynslusögum, þá má nota þau til að fylgja eftir starfi sem hafið er á námskeiðum og þau gera kennurum mismunandi skóla kleift að vinna saman að ýmsum verkefnum og fá þannig stuðning og hvatningu í starfi.

Umfram allt þurfum við þó að breyta því viðhorfi að í litlu skólunum sé ekkert betra að gera en láta sér leiðast. Við þurfum að finna leið til að sannfæra kennara, sveitarstjórnir og þjóðfélagið yfirleitt um möguleika fámennu skólana til að veita öllum nemendum sínum tækifæri til að blómstra bæði námslega og félagslega, í öruggu umhverfi, þar sem auðvelt er að bera persónulega umhyggju fyrir hverjum og einum.