Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Þóra Rósa Geirsdóttir 

Samstarf leik- og grunnskóla

Sérstaða fámennra skóla

Í greininni er rætt um skil leik- og grunnskóla. Sagt er frá þróunarstarfi við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og bent á möguleika fámennra skóla til að verða öðrum fyrirmynd um samfellu í námi barna. Greinin byggist á erindi sem haldið var á ársþingi Samtaka fámennra skóla að Stóru-Tjörnum 20. október 2001. Þóra Rósa Geirsdóttir sérkennari er kennsluráðgjafi við skóla- og félagsþjónustu ÚtEy, skóla og ráðgjafarþjónusta við utanverðan Eyjafjörð. Hún hefur verið við grunnskólakennslu í tæp 30 ár, síðustu 5 árin sem skólastjóri Húsabakkaskóla.

Stefna og reynd

,, Mikilvægt er að samstarf sé á milli leikskóla og grunnskóla til að stuðla að samfellu í upppeldi og menntun barnsins og að það upplifi grunnskólann sem eðlilegt framhald af leikskólanum.“

(Aðalnámskrá leikskóla 1999, bls. 33)

,, Það er augljóslega hagur barnanna að kennarar á báðum þessum skólastigum séu kunnugir viðfangsefnum, starfsháttum og vinnuskipulagi hvers annars.“

(Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti 1999, bls. 9)

Þessi afstaða menntamálaráðuneytisins byggir á því að í þekkingu og kunnáttu felist auður sem líklegur sé til að bæta hag barna. Er þá verið að vísa til þekkingar og kunnáttu fagfólks á báðum skólastigum og benda á mikilvægi þess að þeir þekki til starfa hvers annars. Því miður er á þessu síðarnefnda verulegur brestur og þar sem ekki er þekking er grunnt á fordómum. En hverjir eru fordómarnir og hvaða óleik gera þeir okkur?

Við grunnskólann er ríkjandi það sjónarmið að leikskólakennarinn vinni ekki eins merkilegt starf, þurfi ekki eins að standa skil á framförum og árangri barna, annist litla hópa og búi við auðveldara vinnuumhverfi. Þar er líka talið að í leikskóla sé verið að leika sér og að leikskólakennarar eigi ekkert að koma nærri neinu sem hægt er að flokka undir ,,nám“, þeir hafi hvorki þekkingu né færni til að takast á við það enda sé ,,nám“ verkefni grunnskóla. Og fyrir fáum árum var því haldið fram að það væri verk leikskólanna að börnin væru ekki lengur stillt og hlýðin.

Við leikskólann eru staðlaðar hugmyndir um skólastarf sem birtast til dæmis í vinnu með ,,skólahópa“. Eina slíka dæmisögu kann ég:

Óli hafði verið í leikskóla í nokkur ár og var nú orðinn 5 ára. Þennan síðasta vetur var Óli í skólahóp. Þegar leið að vori og farið var að tala um væntanlega skólagöngu tilkynnti Óli ömmu sinni að hann langaði ekkert í skóla, þar væri leiðinlegt. Og skýringin var þessi: „Maður þarf alltaf að sitja kyrr og gera bara það sem kennarinn segir og ekkert að tala.“

Þessi drengur hafði ekki aðra þekkingu á grunnskóla en þá sem honum birtist gegnum æfingar í skólahópi leikskólans. Þetta var hans upplifun af því sem þar fór fram.

Þarna eru á ferðinni tortryggni og þekkingarleysi á báða bóga.

Skólaganga er í raun einn heill þráður sem taka á mið af börnunum, menntun þeirra og uppeldi. Það er síðan pólitísk ákvörðun hvers þjóðfélags hvar skuli vera skil á þeirri göngu hvað það varðar að sækja leikskóla, grunnskóla og skólastig fyrir lengra komna.

Skilin á milli leik- og grunnskóla sem ákveðin hafa verið af stjórnvöldum felast í því meðal annars að nemendur eru ólíkir að aldri og því að annar er skylda allra barna en hinn frjálst val fullorðinna. Auk þessara skila tel ég að í vinnubrögðum og skipulagi séu afgerandi skil á milli þessara skólastiga. Í stuttu máli og með svolitlum alhæfingum má segja að í leikskóla séu tveggja til fimm ára börn og að skólinn sé til fyrir þau. Í grunnskóla eru hins vegar sex til sextán ára börn og þeim er ætlað að falla inn í skipulag kerfisins. Eða þannig birtist þetta mér of oft.

Í leikskóla er viðurkenndur munur á einstaklingum, lögð rækt við frjálst starf og leik. Í grunnskólanum er mismunur einstaklinganna ekki heppilegur kerfinu og námsleiðirnar leikur og frjálst val ekki lengur hátt skrifaðar – þar taka við námsleiðir sem lýsa má með stikkorðum eins og borð – bók, blað – blýantur, hlusta – framkvæma.

Hver segir að það sé svo afdrifaríkur munur á fimm og sjö ára börnum að það réttlæti slíkan mun á námsleiðum?

Í ljósi þessa alls hafa komið fram tilmæli um samstarf og samstillingu leik- og grunnskóla. Skólarnir hafa verið að þreifa fyrir sér um það samstarf í mörg ár og hægt miðar. Í dag birtist það helst í því að leikskólarnir líta á það sem hlutverk sitt að undirbúa börnin fyrir grunnskólann, t.d. með ,,skólahóp“ síðasta árið, heimsóknum í grunnskóla og skilum til þeirra á upplýsingum um færni barnanna á þáttum sem snerta væntanlega skólagöngu. Grunnskólar hafa aftur á móti mér vitanlega ekki talið sig hafa mikið að sækja til leikskólans. Þannig hefur það aðallega verið hlutur leikskólans að sjá um þessa tengingu skólastigana. Til er þó á nokkrum stöðum samstarf um vinnu sem beinist að markvissri málörvun og rökhugsun. Leikskólinn virðist hafa þrýst á um aukin verkefni handa börnunum og grunnskólinn veitt þeim nokkurn stuðning, líkt og úthlutað viðfangsefnum í smáum skömmtum.

Hvað er til ráða?

Hægagangurinn í þróun þessa samstarfs vekur upp þá spurningu hvort við séum ekki komin í blindgötu og hvort ekki sé þörf fyrir nýja hugsun. Verðum við ekki að hætta að horfa til samstarfs um undirbúning barna fyrir næsta skólastig og horfa heldur til þess að gera skólagönguna að samfelldri heild fyrir börnin með samvinnu kennara og samstillingu í vinnubrögðum. Ekki bara að byggja brú heldur gera nemendum fært að klífa skólastigann í litlum og samfelldum þrepum. Þá þurfa bæði skólastig þegar þau mætast að nýta það besta sem hitt hefur upp á að bjóða. Grunnskólinn þarf að nýta sér þekkingu leikskólakennarans hvað varðar að vinna í gegnum leik, virkja sköpunargleði og horfa til einstaklingsþarfa. Leikskólinn þarf aftur á móti að styðjast við þá þekkingu grunnskólakennarans sem snýr að málvitund og rökhugsun til að geta stutt nemendur fyrstu sporin í lestrar- og stærðfræðinámi. Ekki til að undirbúa börnin fyrir grunnskóla heldur til að þau hefji nám. Það er ekki einkaréttur grunnskólans að halda utan um nám. Þarna þarf á raunverulegu samstarfi að halda þar sem kennarar beggja stiga vinna saman, koma saman með sína fagþekkingu og setja saman heildstæða námskrá fyrir fimm til sjö ára börn.

Þar með væri orðið til lágt þrep á milli fjögurra og fimm ára barna og svo aftur lágt þrep á milli sjö og átta ára barna. Þarna yrði til þrep eða stig með einkennum beggja skólastiga og tæki yfir þrjú ár. Og kjöraðstæður fyrir svona skólagöngu eru til á Íslandi, það eru fámennu skólarnir þar sem öll börn byggðarlagsins ganga í sama leikskóla og að því loknu í sama grunnskóla. Þar er hægt að reka einn skóla fyrir öll börn á aldrinum tveggja til sextán ára. Slíkur skóli kallar á samfellu og býður upp á þetta millistig þar sem fimm til sjö ára börnin vinna saman, þar sem leikur er aðalnámsaðferðin en námsmarkmiðin þau sömu og í grunnskólanum.

Í nokkrum fámennum skólum hafa þegar verið þreifingar í þessa átt. Einn slíkan þekki ég og hef komið að og ætla til gamans að segja frá því hér ef verið gæti að það yrði til að hvetja aðra til þess að skoða slíkt fyrirkomulag.

Þróunarstarf við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal

Húsabakkaskóli í Svarfaðardal er skóli fyrir þriggja til fjórtán ára börn. Árið 1994 var þar tekið fyrsta skrefið í átt til barna undir grunnskólaaldri. Enginn leikskóli var í sveitarfélaginu og þess vegna var fimm ára börnum boðið að koma  í tvær klukkustundir einu sinni í viku í heimsókn til yngstu barna skólans. Markmiðið var skýrt – að búa börnin undir grunnskólagönguna. Þetta smá þróaðist og árið 1997 var formlega stofnuð leikskóladeild við skólann. Í dag starfar leikskóladeildin þrjá morgna í viku. Börnin koma með skólabílnum í fylgd systkina eða annarra barna. Þau eru síðan sótt um hádegi og um það sjá foreldrar sjálfir. Á þessum tíma fá börnin morgunmat í skólanum eins og grunnskólabörnin. Það sem helst tengir leikskóladeild og grunnskóladeid er að:

  • Útileiksvæði er það sama og börnin hittast því alla jafna í frímínútum.

  • Samverustundir og söngstundir eru fyrir þriggja til fjórtán ára börn.

  • Sunnudagaskóli á vegum sóknarprestins er í boði einu sinni í mánuði.

  • Tónlistarkennari skólans hefur líka starfað í leikskóladeild.

  • Í danskennslu við skólann er yngsti hópurinn þriggja til sex ára.

  • Stuttar ferðir yngri barna grunnskóladeildar eru einnig ætlaðar leikskóladeildinni.

  • Árshátíð skólans er fyrir öll börnin og leggur leikskóladeildin þar sitt af mörkum eins og aðrir.

  • Foreldrafélag skólans nær yfir báðar deildir og allt starf á vegum þess er skipulagt með allan barnahópinn í huga.

  • Þemadagar að vori eru fyrir öll börnin.

  • Námstilboð fyrir fimm ára börn hvað varðar málvitund og rökhugsun eru sett upp í samstarfi kennara sex til sjö ára barnannna og leikskólakennarans.

Þetta hefur allt tekið sinn tíma að þróast og er enn í mótun og enn að styrkjast í sessi. Þessi tilraun og samstilling er dæmi um hægfara þróun út frá byrjunarpunkti sem var skýr og í átt að lokamarkmiði sem ekki hefur verið alveg gengið frá. Dæmi um hugsjónastarf sem komið er framúr upphafsmarkmiði. Nú er svo komið að það liggur beint við að sameina í einn hóp fimm til sjö ára börn svo að næstu skref í þessu þróunarstarfi eru verulega spennandi.

Möguleikar fámennra skóla

Fámennu skólarnir þurfa á öllum þeim styrk sem þeir geta orðið sér út um að halda og leikskóladeild við grunnskólann styrkir fámennan skóla. Sterkur skóli styrkir búsetu í sveitum, því fátt er mikilvægara fyrir ungt fólk sem vill setjast að í dreifbýlinu og til sveita en að þar sé góður og sterkur skóli.

Ekki síður þá gefur það okkur í fámennu skólunum enn eitt tækifærið til að sanna að við störfum svo sannarlega eftir aðalnámskrá – með því að tryggja góð tengsl milli leik- og grunnskóla. Þegar ég segi enn eitt tækifærið þá vísa ég til þess að reynsla mín er sú að fámennir skólar hafi frábæra möguleika til að mæta þörfum hvers og eins, draga úr því að flokka í félagahópa blint eftir aldri, þjálfa unglinga í því að taka tillit til yngri barna og sýna yngri börnum að unglingar eru þess verðir að til þeirra sé litið sem félaga og samherja. Í raun miklu fleiri möguleika, held ég, en við nýtum okkur. Það eru sóknarfæri í fámennu skólunum bæði stór og smá. Eitt þeirra er samfella í námi barna á leik- og grunnskólaaldri. Á þeim vettvangi gætu fámennir skólar verið brautryðjendur nýrrar hugsunar um skipulag námshópa.

Heimildir

Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.

Aðalnámskrá grunnskóla – Almennur hluti 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.