Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Þórunn Júlíusdóttir 

Fámennir leikskólar kalla á umræðu

Í greininni er rætt um sérstöðu fámennra leikskóla og dregið fram hve mikilvægt er að hefja öfluga umræðu um málefni þeirra og sóknarfæri. Greinin byggir á erindi sem haldið var á ársþingi Samtaka fámennra skóla 20. október 2001. Þórunn Júlíusdóttir leikskólastjóri brautskráðist úr Fósturskóla Íslands vorið 1987 og starfaði um skeið á leikskólanum Sólbrekku á Seltjarnarnesi. Haustið 1989 hóf hún störf við leikskólann Kærabæ á Kirkjubæjarklaustri.

Málefni fámennra leikskóla

Hér er ætlunin að reifa málefni fámennra leikskóla. Fyrst vaknar spurning sem í fyrstu virðist eiga sér augljóst svar en þegar á reynir er svo ekki. Þetta er spurningin: Hvað er fámennur leikskóli? Við hvað á að miða? Nemendafjölda? Deildaskiptingu? Fjölda starfsmanna?

Ég tel eðlilegt að kalla þann leikskóla fámennan, sem starfar í einni deild og mér finnst raunar að fara betur að tala um litla leikskóla en fámenna.

Litlir leikskólar eru eins og aðrir leikskólar landsins fyrsta skólastig barnsins og starfa samkvæmt Lögum um leikskóla nr. 78/1994. Rekstraraðilar eru í flestum, jafnvel öllum tilvikum sveitarfélögin í landinu og eftirlitsaðilinn er menntamálaráðuneytið.

Við undirbúning þessarar greinar setti ég mig í samband við við leikskólastjóra á nokkrum litlum leikskólum. Alls staðar fann ég fyrir miklum áhuga hjá þeim á faglegu samstarfi og allar töluðu þær um þörf á því að fá að vita eitthvað um starfshætti annarra lítilla leikskóla, t.d. í sambandi við starfsaðferðir, starfsmannahald og sumarlokanir. Einnig er ofarlega í huga okkar hvað við getum gert til að fá fleiri börn úr sveitunum til að koma til okkar en alltof algengt er að börn eru heima þar til að skólaskyldu kemur.

Málefni lítilla leikskóla er afar yfirgripsmikið og því engin leið að gera því tæmandi skil í stuttri grein. Hér verður því að duga að tæpa á nokkrum atriðum og líta á það sem upphaf umræðna.

Þegar rætt er um litla leikskólann skiptir máli að afstaða okkar til hans getur verið mjög mismunandi eftir því hvort við nálgumst hann með hliðsjón af barninu sjálfu, starfsfólkinu á leikskólanum, foreldrum eða rekstraraðila.

Hverjir eru kostirnir?

Lítum fyrst á kosti litla leikskólans. Þar eru mér þessi atriði efst í huga:

  • Barnahópurinn er samkvæmt orðanna hljóðan lítill.

  • Andrúmsloftið er heimilislegt og notalegt.

  • Börnin njóta oftar en ekki einstaklingsumönnunar.

  • Aldursblöndun er er mikil. Börnin sem ekki eiga systkini fá tækifæri til að umgangast börn á öðrum aldri.

  • Starfsmenn eru fáir sem er kostur fyrir börn og foreldra.

  • Foreldrar eru í mikilli nálægð og persónulegum tengslum við leikskólann, þeir þekkja jafnvel starfsfólkið áður en barnið byrjar í leikskólanum.

Þá er að nefna að yfirleitt er auðvelt að koma til móts við þarfir barna og foreldra hvað leikskóladvöl varðar því afar sjaldgæft er að biðlistar myndist. Á mínum leikskóla hefur það aldrei komið fyrir í 30 ára sögu hans. Því geta foreldrar komið börnum sínum inn á leikskólann með stuttum fyrirvara.

Hvað um ókosti?

En litli leikskólinn hefur einnig ákveðna ókosti. Vegna smæðar eru fá börn á sama aldri og af þeim ástæðum er oft erfitt að vera með hópastarf sem miðast við þarfir og getu t.d. fimm ára  barna eða þriggja ára barna.

Til baga getur verið að börnin sækja ekki leikskólann á reglulegum tímum vegna vinnu foreldra og mikilla vegalengda á milli heimilis og skóla. Börn koma gjarnan í leikskólann þá daga sem foreldri sækir vinnu en þar sem langt er að fara í skólann er ekki komið alla daga vikunnar. Skaftárhreppur, minn rekstraraðili, hefur samþykkt reglugerð um rekstur leikskólans þar sem gert er ráð fyrir að ekkert barn hafi minni viðveru en 20 tíma að jafnaði í hverri viku, þ.e. hálft pláss. Foreldrar gefa þá leikskólanum upp fyrirfram ákveðinn tíma barnanna líkt og tíðkast á stærri stöðum. Þetta er mikilvægt svo að unnt sé að skipuleggja starfið til lengri tíma.

Á sama hátt og það telst til kosta fyrir foreldra að engir biðlistar myndast tel ég það til ókosta að fyrir rekstraraðilann. Nýting leikskólans bæði húsnæðis og starfsmanna verður aldrei eins góð og ef barnahópurinn væri stöðugri.

Sem dæmi langar mig að nefna að haustið 2000 voru tuttugu og tvö börn á skrá á litla leikskólanum mínum. Í janúar 2001 voru þau orðin 14 og í ágúst sama ár voru þau einungis sjö. Hópurinn stækkaði þó aðeins í september og eru börnin nú átján á skrá og vonast ég til að þau verði í vetur. „Barngildi“ þessa hóps eru 23.2, þ.e. 2.9 starfsmenn samkvæmt reglugerð en við það er miðað að hver starfsmaður sinni átta „barngildum“. Til skýringar má nefna að árs gamalt barn telst tvö „barngildi“ en fimm ára gamalt barn 0.8 „barngildi“. Vegna mikilla breytinga á barnahópnum og kringumstæðum foreldra eru stöðugildi starfsmanna oft óljós og geta tekið breytingum með stuttum fyrirvara. Rétt er þó að taka fram að frestur til að segja upp leikskólaplássi er einn mánuður.

Þegar nær dregur sumri gerist það alltaf að hluti barnanna hættir í leikskólanum en kemur svo ef til vill aftur að hausti. Á hinn bóginn er í mínu samfélagi mikil ferðamannaþjónusta og alltaf er eitthvað um það að foreldrar sem vinna við hana vilji fá að nýta vannýttan leikskólann fyrir börn sín yfir sumartímann. Þær raddir verða stöðugt háværari sem að leikskólinn skuli vera opinn allt árið. Sveitarfélagið vill veita þá þjónustu sem fólkið þarf á að halda og fyrir þessa þjónustu er greitt þó að um fyrsta skólastig barnsins sé að ræða. Á móti kemur að Félag leikskólakennara hefur haft það að stefnu að öll börn fái a.m.k. fjögurra vikna samfellt sumarfrí og orlofsréttur starfsfólks er að lágmarki 24 virkir dagar.

Aðrir skólar í samfélaginu hafa upphaf og endi á skólaárinu og spyrja má hvort svo þurfi ekki einnig að vera í leikskólanum. Í litlum leikskóla getur svo atvikast að aðeins þrjú til fjögur börn séu í skólanum yfir sumarmánuðina. Mér er kunnugt um rekstrarnefnd leikskóla sem ákvað að leikskólanum yrði ekki haldið opnum allt sumarið ef börnin yrðu ekki nema tvö eða þrjú. Vissulega er eðlilegt að hafa hér einhver mörk en hver eiga þau að vera?

Þá er mér kunnugt um lítinn leikskóla sem rekinn er með alltof fáu starfsfólki. Leikskólakennarinn er einn fram að hádegi með hóp barna, m.a. barn á fyrsta ári. Leikskólakennarinn þar segir ekkert þýða að auglýsa - það sé margsinnis búið að reyna það þannig að hún brettir bara upp ermarnar og „gerir það sem gera þarf“. Þetta finnst mér vera skýrt dæmi um það hvað litlir leikskólar í dreifbýli eru einangraðir og starfsfólk jafnvel í óþægilegri nálægð við rekstraraðilann sem oft býr við miður góða afkomu.

Það er oftast langt í næsta leikskóla og því getur fagleg einangrun starfsfólksins verið mikil, auk þess sem mjög sjaldgæft er að fleiri en einn leikskólakennari starfi við hvern leikskóla. Hversu lágt má fagfólk leggjast? Og hversu fátt starfsfólk er rekstraraðila stætt á að hafa? „Barngildin“ geta orðið mjög fá, svo fá að þau duga ekki fyrir einu stöðugildi.

Hefja þarf öfluga umræðu

Mikilvægt er að hefja öfluga umræðu um málefni lítilla leikskóla. Miklu skiptir að viðurkennt sé að litlir leikskólar eiga sinn tilverurétt. Börn í fámennum byggðarlögum eiga sinn siðferðalega rétt á möguleikum til skólagöngu. Til þess að þeir dafni þarf markvissa vinnu og fræðslu út í hinar dreifðu byggðir landsins. Sýna þarf fram á mikilvægi þess að börn fái tækifæri til að læra í gegnum leik með öðrum börnum. Leikurinn er eðlislæg leið barnsins til náms. Sjálfsögð krafa fólks í dreifbýli er að þeirra börn njóti handleiðslu faglærðs fólks og því þarf að tryggja að a.m.k tveir leikskólakennarar starfi við hvern leikskóla jafnvel þó að barnahópurinn minnki hluta ársins.

Öll samvinna við grunnskóla og tónlistarskóla er sjálfsögð og eðlileg ekki hvað síst í litlum samfélögum þar sem grunnskóli er aðeins einn og öll börnin fara í hann þegar skólaskyldualdri er náð. Sum leikskólabörn eru jafnvel byrjuð í tónlistarskólanum þar sem oft er boðið upp á tónlistarkennslu í tengslum við leikskólann. Þó má aldrei gleyma sérstöðu leikskólaaldursins. Höldum áfram að kynna okkur hvað aðrir eru að gera, hvernig málin eru leyst í öðrum skólasamfélögum og á öðrum skólastigum minnug þess að leikskólinn er „ ...lítill heimur, ljúfur, hýr, eins og ævintýr …".