Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Þorvaldur Örn Árnason

Um Aðalnámskrá grunnskóla
– Náttúrufræði og samræmd próf 

Í greininni er fjallað um breytingar á náttúrufræðikennslu sem verða með nýrri námskrá, nýjum námsgögnum, samræmdu prófi og tilfærslu námsatriða frá framhaldsskólum til grunnskóla. Aðalnámskráin er lítið eitt gagnrýnd, en sett fram hörð gagnrýni á hvernig staðið er að undirbúningi fyrsta samræmda prófsins. Beinist gagnrýnin einkum að prófatriðalista sem Námsmatsstofnun gaf út sumarið 2001 og könnun sem gerð var í grunnskólum í des. 2000. Höfundur telur könnunina og listann hvorki taka nægilegt mið af námskránni né viðleitni skóla til að nálgast markmið hennar. Höfundur er líffræðingur, kennari og fyrrum námstjóri. Hann er í námsleyfi við Kennaraháskóla Íslands veturinn 2001–2002.

Nú eru rúm tvö ár síðan aðalnámskrá grunnskóla kom út og þar á meðal náttúrufræðinámskráin sem hér verður fjallað um (Aðalnámskrá grunnskóla – Náttúrufræði 1999). Ég man ekki eftir að hafa séð bitastæða umfjöllun um hana á prenti, aðeins lauslega kynningu. Mig grunar að fundi sem haldnir hafa verið um þetta mál sé hægt að telja á fingrum annarrar handar.

Merkilegt, ef satt reynist, að svo þýðingarmikið plagg skuli ekki vera á milli tannanna á fólki, svo sem kennara, skólastjórnenda og náttúrufræðinga. Yfirleitt er þögn túlkuð sem samþykki. Kannski er þetta eðlilegt framhald á skorti á almennri umræðu um málefni náttúrufræðinnar þau ár sem námskráin var í smíðum. Verkið var vel undirbúið og hóparnir unnu vel, en kynning þeirra, umræða og gagnrýni átti nánast öll að fara fram á netinu og það fyrirkomulag virkaði einfaldlega ekki (M. Allyson Macdonald. 2000:70-72).

Kannski finnst öllum námskráin óaðfinnanleg. Nema menn séu svo niðursokknir í dagleg störf að þeir gefi sér ekki tíma til að rétta ögn úr sér og líta á landslagið í kring. Það gæti verið skýringin á þögninni. Ég fann mér t.d. ekki tíma til að móta mér skoðun á plagginu í heild fyrr en nú, eftir að ég hef neyðst til að hjakka tvisvar í gegnum það lið fyrir lið vegna samningar og endurskoðunar skólanámskrár skólans sem ég kenni við. Nú er ég kominn í námsorlof með tækifæri til að stela tíma frá eigin námi — eða eigum við að líta jákvæðar á málið og segja að þessi stutta úttekt gæti e.t.v. orðið einn þátturinn í námi mínu og rannsóknum.

Nú er framundan samræmt próf í náttúrufræði, það fyrsta í rúma 2 áratugi. Þá reynir á aðalnámskrána og menn hljóta að fara að rýna í hana af fullri alvöru.

Breytingar í náttúrufræðikennslu?

Breytir það einhverju þó gefin sé út ný námskrá? Geta menn ekki sleppt því að fara eftir henni líkt og hægt var með fyrri námskrá? Ég dreg það í efa, því það hefur fleira breyst en að komið hafi út ný bók.

 1. Samræmd próf í náttúrufræði munu (vonandi) miðast við námskrána. Hvaða skóli vill ekki að nemendur hans skori sem flest mörk á samræmdu prófi? Ég held að skólastjórar séu nú að átta sig á að náttúrufræði er eitt af því sem þarf að vanda til, gefa góðan tíma og góða kennara.

 2. Verið er að auka náttúrufræðikennslu í grunnskóla á sama tíma og dregið er úr henni í almennum kjarna í framhaldsskóla. Gerðar eru kröfur um að allmargir námsþættir sem kenndir voru í framhaldsskóla verði afgreiddir í grunnskóla fyrir fullt og allt. Dæmi: tegundaþekking og flokkun lífvera sem er alveg búið að þurrka út úr kjarna framhaldsskóla, eða jarðvegsfræði, jarðfræði, veðurfræði og stjörnufræði sem nú á að kenna á öllum aldursstigum grunnskóla. Einnig bætast við náttúrufræðina jarðvísindaþættir sem áður heyrðu til samfélagsfræði á yngri aldursstigum.

 3. Samkvæmt aðalnámskránni á kennslutími í náttúrufræði að aukast nokkuð, hlutfallslega meira en í öðrum greinum. Það er m.a. að þakka ötulli baráttu Félags náttúrufræðikennara í grunnskólum, FNG, á meðan samning námskrár stóð yfir. Við lengingu skólaársins aukast möguleikar á útikennslu vor og haust.

 4. Nú er loks til meira en nóg af góðum námsbókum fyrir elstu árganga grunnskóla þó enn skorti handhæg gögn fyrir þau yngstu. Flest þessi námsgögn eru samin með hliðsjón af eldri námskrá og passar efnisval í þeim ekki sem skyldi við þrepamarkmið þeirrar núgildandi.

Allt þetta kostar verulega uppstokkun í grunnskólunum. Þar þarf að færa nánast allt námsefni til milli ára. Nú verður þess krafist af miklum fjölda almennra bekkjarkennara að kenna ýmislegt sem þeir hafa aldrei lært og skilja mjög takmarkað. Grunnskólakennarar hafa helst haft jarðfræði í námi sínu innan landafræðivals í KHÍ (ásamt því að ferðast og lesa sér til). Ég býst við að allt of fáir hafi það val og að jarðvísindaþekking grunnskólakennarastéttarinnar sé helst til takmörkuð. Sama máli gegnir um eðlisvísindin, allt of fáir hafa tekið þau sem valgrein.

Næst þegar þær raddir heyrast í þjóðfélaginu að nemendur þekki ekki lóu frá þresti eða viti ekkert um gróðurhúsaáhrif eða jarðvegseyðingu er rökrétt að kenna grunnskólanum um.

Ég held að grunnskólarnir standi frammi fyrir miklu átaki til að koma náttúrufræðikennslunni á góðan skrið í sæmilegu samræmi við námskrána.

Uppbygging og kaflaskipan

Mér fannst vel til fundið að skilja milli náttúrufræði og samfélagsfræði á yngri aldursstigum í námskránni, eins og nú hefur verið gert. Það tryggir vonandi betur að hvorug greinin verði alveg útundan en hindrar þó vonandi ekki samþættingu á því stigi. Nú er enga náttúrufræði lengur að finna í samfélagfræðinámskrá fyrir yngstu stigin. Hins vegar er landafræðin á 8. þrepi í samfélagsfræði nú að meirihluta náttúrufræði, þ.e. jarðvísindi (sólkerfi, tímatal, jarðskorpa, lofthjúpur, sjór, orkulindir). Þetta er eina jarðfræðin á unglingastigi (einu jarðvísindin þar eru stjarnvísindi) en skarast mikið við náttúrufræði á 7. þrepi (7. bekk). Mér finnst þessu ekki heppilega fyrir komið og viðbrögð mín í skólanámskrárgerð voru að fella þessa þætti að mestu niður í 7. bekk en kenna þá því betur í landafræðinni í 8. bekk. Til er þýdd bók frá Námsgagnastofnun um þetta efni, Landafræði handa unglingum, 1. hefti, sem fellur algjörlega að þessum landafræðimarkmiðum (sem bendir til að markmiðin hafi verið samin eftir bókinni).

Ég er nokkuð sáttur við uppbyggingu námskrárinnar eins og henni er lýst á bls. 5: „Áfangamarkmið eru meginviðmið í öllu skólastarfi. Þeim er deilt niður á þrjú stig, þ.e. 1.–4. bekk, 5.–7. bekk og 8.–10. bekk. Áfangamarkmiðin eru flokkuð undir yfirheitin hlutverk og eðli náttúruvísinda, eðlisvísindi, jarðvísindi, lífvísindi og vinnubrögð og færni.“

Síðan eru sett fram þrepamarkmið fyrir 10 þrep sem svara til námsáranna. Þrepamarkmiðin taka aðeins til inntaksatriða, þ.e. þátta um eðlisvísindi, jarðvísindi og lífvísindi. Það fyrirkomulag að þrepamarkmiðin taka ekki til „hlutverks og eðlis náttúruvísinda“ né heldur „vinnubragða og færni“ býður heim þeirri hættu að þessi mikilvæga hlið náttúruvísindanna verði skilin útundan í skólanámskrám, kennslu og prófum. Þar með er t.d. vísindasaga, tækni, umhverfismál, tjáning, og túlkun gagna sett út í kuldann.

Inntak námskrárinnar

Aðalnámskráin gerir miklar kröfur til nemenda og skóla, um mikla vinnu og mikið nám. Að nokkru leyti er fylgt spíralhugmyndum, þ.e. að komið er að sömu atriðunum aftur og aftur með með nokkurra ára millibili. Þó finnast mér gallar á þeirri útfærslu. T.d. er mannslíkaminn á 6. og 7. þrepi og síðan ekki meir. Hann verður því væntanlega ekki með í samræmdum prófum framvegis. Alvarlegt brot á spíralhugmyndinni sem annars virðist einkenna aðalnámskrána nokkuð.

Allmörg jarðfræðimarkmið er að finna á yngri stigum og ná þau hámarki á 7. þrepi (7. bekk) — en síðan ekki söguna meir! Jarðfræðin bara gufar upp! Á 8. og 10. þrepi eru alls engin jarðvísindi en á 9.þrepi eru stjarnvísindamarkmið. Því getur verið rökrétt að hafa alls enga jarðfræði á samræmdu prófunum í náttúrufræði, heldur verði hana að finna í samfélagsfræðiprófinu (sbr. landafræðmarkmið í 8. bekk)!

Eins og áður sagði er lífheimurinn nú aðeins kenndur í grunnskólanum, þ.e. að þekkja, greina og flokka lífverur. En mér finnst hann tæplega nógu bitastæður þar, eiginlega hvergi veruleg áhersla á hann nema á 9. og dálítil á 5. þrepi. En það er hvergi minnst á neina hryggleysingja (t.d. ekki liðdýr, lindýr og liðorma). Samkvæmt námskránni væri þó hægt að fjalla um þau í vistfræðilegu samhengi eða sem dæmi um dýr í dýraríkinu, en það mætti alveg eins sleppa þeim. Frumverum er einnig sleppt, svo og mosum sem þó setja mikinn svip á flóru okkar. Engu að síður er nemendum ætlað að hafa „heildarsýn á flokkunarkerfi lífvera“ við lok 10. bekkjar.

Á nokkrum stöðum finnst mér of mikil krafa til ungra nemenda um að skilja flókið samhengi og að yfirfæra þekkingu. Ég byggi þá skoðun mína ekki á rannsóknum heldur á reynslu, ég hef reynt að kenna eldri nemendum þessi eða mjög svipuð atriði og þeim hefur reynst erfitt að læra þau. Undirstrikanir eru mínar og tilvísanir í prentaða útgáfu eða pdf-útgáfu).

Mér finnst ekki sanngjarnt að krefjast þess:

 • að nemandi í 4. bekk geri sér grein fyrir að kraftur kemur ávallt við sögu þegar breyting verður á hreyfingu (bls.20).

 • að sami nemandi þekki að jörðin er byggð upp af nokkrum lögum og geti ályktað um hitastig og þrýsting þegar innar dregur (bls.22).

 • að hugtakið ljósár sé á 3. þrepi (bls.31), áður en nemendur hafa almennilega skilið hvað km/klst. þýðir.

 • að nemandi á 1. þrepi þjálfist í að flokka lífverur eftir skyldleika (bls.28).

 • að nemandi við lok 7. bekkjar geri sér grein fyrir að vísindaleg þekking felst í alhæfingum út frá takmörkuðum staðreyndum og því geti hún aldrei orðið algildur sannleikur (bls.38).

 • að nemandi í 8. bekk geti skilgreint hugtökin massatala og samsæta (bls.68).

 • að nemendur í 10. bekk geti beitt hugtakinu endurröðun gena (bls.63); gert greinarmun á flæði og osmósu (bls.64); gert sér grein fyrir „hverju mögulegt er að leita svara við innan náttúruvísindanna“ (bls.64); eða „geta flokkað upplýsingar eftir gerð og vægi og metið áreiðanleika þeirra samkvæmt því“ (bls.66).

Mér finnst sem sagt skotið yfir markið á nokkrum stöðum, en á allflestum stöðum ætti boltinn að geta legið laglega í markinu eftir mikið og markvisst puð kennara og nemenda.

Spannar samræmda prófið námsmarkmið aðalnámskrárinnar?

Eitt af yfirlýstum markmiðum með þessari aðalnámskrá var að hægt væri að prófa markmiðin. Nú er fyrsta samræmda prófið framundan. Námsmatsstofnun er búin að setja á vefinn upplýsingar um hvernig það verði byggt upp (Námsmatsstofnun 2001:7–11). Þá bregður svo við að samhengið við námskrána er vægast sagt óljóst. Að vísu er margsinnis vísað í námskrána, bæði áfangamarkmið við lok 10. bekkjar og þrepamarkmið 8–10, og sagt að spurningarnar 40–60 spanni „námsmarkmið Aðalnámskrár í náttúrufræði“. Svo segir: „Ennfremur hafa verið skilgreindir áhersluflokkar fyrir þá útfærslu á námsmarkmiðum í náttúrufræði ... “.

Síðan er birtur afar langur listi, „Inntakstafla fyrir efnisatriði raungreina“. Þar er romsað upp u.þ.b. 130 hugtökum, en yfirleitt kemur ekki fram hvað nemendur eigi að geta gert við þessi hugtök, hvort þeir eigi að kannast við þau, geta útskýrt þau, beitt þeim o.s.frv. Slíkar upplýsingar eru yfirleitt mjög skýrar í námskránni. Þá ætti að vera hægt að leita í námskránni að svörum við því hvað eigi að gera við hugtökin, en það er enginn hægðarleikur því lítið samræmi er milli uppröðunar hugtaka á listanum og í námskránni, né heldur á orðalagi. Samræmið við kaflaheiti sumra námsbókanna er öllu skýrara.

Við nánari athugun kemur í ljós að atriðalistinn er nákvæmlega sá sami og í könnun sem send var í skóla seint á árinu 2000 vegna undirbúnings prófanna. Sömu atriði í sömu röð! Meira að segja sömu villurnar, að ég held. T.d. er eitt atriðið tvítekið, bæði í könnuninni og á listanum! Spurt var um efnasambönd tvisvar með þriggja lína millibili. Það merkilega er að niðurstöður eru allt aðrar þegar orðið er endurtekið (10% fleiri segjast leggja áherslu á atriðið þegar spurningin er endurtekin!). Ég hélt að e.t.v. væri með þessu verið að prófa áreiðanleika svara kennaranna. En þegar þetta birtist óbreytt án skýringa í lista yfir efnisatriði til prófs hallast ég að því að þetta hljóti að vera mistök sem gleymst hafi að leiðrétta!

Mig grunar að nokkru neðar sé önnur villa, en þar stendur „sölt, sykur, basar“. Mér finnst eðlilegra að þar stæði sölt, sýrur, basar. Ég benti á þetta hvort tveggja í svari mínu við könnuninni, en það hefur ekki haft áhrif. Samt hefur falli allra orðanna verið breytt, því í könnuninni voru þau í þolfalli en í nefnifalli á atriðalistanum.

Könnunin var býsna ítarleg og ég skráði hjá mér að það tók mig 1½ klukkustund að svara henni. (Sem betur fer hélt ég eftir ljósriti!) Þar var spurt um fleiri atriði, svo sem hvaða bækur væru kenndar, áherslur í kennslu og námsmati, kennslustundir í viku og upplýsingar um kennara. Það eitt hversu mikla áherslu ég sagðist leggja á hvert hugtak sagði ekki allt um hvaða kröfur ég var að gera til nemendanna, þ.e. hvort þeir ættu bara að hafa lesið og heyrt um hugtakið eða beitt því og þurft að útskýra það.

Ég skildi könnunina svo að spurt væri um hvað kennt væri skólaárið 2000–2001 og svaraði samkvæmt því. Nú er það svo í okkar skóla að við erum að breyta kennslunni ár frá ári í flestum bekkjum til að færa hana í sem best samræmi við aðalnámskrána. Þannig eru töluverður munur á hvað kennt er í sumum bekkjum í fyrra og nú í ár. Könnunin mælir því í besta falli stöðuna í fyrra en ekki það skólaár sem prófið verður tekið.

Könnun sem þessi getur aldrei verið tæmandi. Maður svarar bara því sem spurt er um! Að vísu var hægt að gera athugasemdir og nefna þar þætti til viðbótar þeim sem spurt er um, en það virðist sem fáir hafi gert það, því engin atriði til viðbótar hafa ratað inn á prófatriðalistann margnefnda. Því er erfitt að meta hversu vel könnunin endurspeglar raunverulegar áherslur í kennslu, en Námsmatsstofnun gefur sér að svo sé. Á vefsíðunni segir m.a., þegar búið er að gera grein fyrir áherslu sem lögð verður á einstaka námsþætti: „Með þessum hætti endurspegla samræmd próf þau námsmarkmið sem lögð er ríkust áhersla á í kennslu án þess að ýta öðrum námsmarkmiðum með öllu út í horn“. Ég get ekki skilið hvernig það er hægt!

Ég hef hvergi séð koma fram hve margir skólar sendu inn svar við könnuninni. Á listanum á vefsíðunni er tíðni svara gefin upp í hundraðshlutum með einum aukastaf og með hliðsjón af vinnureglum um marktækar tölur mætti álykta að nokkur hundruð skólar hafi svarað!

Ég dreg sem sagt í efa að könnunin — og þar með efnisatriðalistinn — sýni neitt sérstaklega vel hvað menn leggi áherslu á í kennslu. En ætli hann sé þá ekki í góðu samræmi við aðalnámskrána? Þeirri spurningu verð ég að svara neitandi af eftirfarandi ástæðum:

 • Framsetningarmáti er annar. Í aðalnámskránni eru sett fram markmið en í könnuninni var spurt um efnisatriði í ætt við fyrirsagnir og þau rötuðu óritskoðuð inn í prófatriðalistann. Andi aðalnámskrárinnar er sniðgenginn.

 • Efnisröð er önnur. Prófatriðin eru að vísu flokkuð í eðlisvísindi, jarðvísindi og lífvísindi, en að öðru leyti er efnisröð önnur, í sæmilegu samræmi við kafla í námsbókum.

 • Segja má að 2/5 af aðalnámskránni sé kerfisbundið sniðgenginn í könnuninni og listanum fyrir samræmda prófið. Í könnuninni var að vísu spurt hvaða áherslu menn leggi í kennslunni á: „yfirsýn um kenningar eða lögmál“, „flokkun fyrirbæra“, „hlutverk lögmála í hversdaglegum atburðum“ og „reynslu af tilraunum“. Þetta orðalag er ekki sótt í aðalnámskrána og ég skil ekki vel við hvað er átt. Menn hljóta að hafa svarað því til í könnuninni að þeir leggðu voðalega litla áherslu á þvílík atriði því í prófatriðalistanum er ekkert þeirra að finna. Þar er afar fátt að finna sem fellur undir yfirskriftirnar „Um hlutverk og eðli náttúruvísinda“ eða „Um vinnubrögð og færni“. Sum þessara markmiða er erfitt að prófa á aðsendu bóklegu prófi, en mörg þeirra ætti þó að vera auðvelt að prófa. T.d. spyr Námsmatsstofnun kennara ekki um eitt einasta atriði varðandi umhverfismál og því rata þau að sjálfsögðu ekki inn á prófatriðalistann. Hins vegar eru þar fáein atriði sem ekki er að finna í markmiðum fyrir 8.–10. bekk í aðalnámskrá, heldur á yngri stigum, þó að það sé yfirlýst markmið að prófa úr markmiðum fyrir 8.–10. bekk.

Niðurstaðan er því sú að þó að prófinu sé ætlað að spanna námsmarkmið aðalnámskrár grunnskóla er útilokað að það gerist ef fylgt verður þeirri stefnu sem Námsmatsstofnun hefur kynnt á vef sínum.

Á hvað verður lögð áhersla í prófinu?

Ég hef leitt að því rök að áherslur í prófinu verði að líkindum í óþarflega litlu samræmi við aðalnámskrána. Athugum því næst á hvað ætlunin er að leggja áherslu.

Efnisatriðunum á listanum er skipað í 4 áhersluflokka eftir því hvað kennarar sögðust í könnuninni leggja mikla áherslu á hvert þeirra í kennslu. Flokkur 1 þýðir minnst áhersla og flokkur 4 sýnir mesta áherslu. Flokkun þessi er skýr og vel skiljanleg. Mörg atriði í efnafræði og frumufræði lenda í efsta áhersluflokki. Atriði um mannslíkamann, kjarneðlisfræði og stjörnufræði lenda flest í lægsta áhersluflokki. Áhersla á hvert fagsvið hlýtur að fara bæði eftir því hversu mörg atriði eru nefnd (eða hvort nokkur séu yfirleitt nefnd!) og hvernig þau raðast í áhersluflokka.

Í töflunni hér á eftir er gerð tilraun til að varpa ljósi á hversu mikla áherslu Námsmatsstofnun hyggst leggja á 5 yfirflokka og 22 flokka áfangamarkmiða aðalnámskrár við lok 10. bekkjar. Einnig er leitast við að greina að hve miklu leyti áherslan skýrist af skoðun kennaranna sem svöruðu könnuninni og að hve miklu leyti af gerð spurningalistans. Flokkarnir í 1. dálki eru taldir upp í sömu röð og í námskránni. Úr dálknum fjöldi atriða í könnun er hægt að lesa hversu mörg atriði í hverjum flokki var spurt um í könnuninni. Í dálknum Summa áhersluflokka á prófatriðalista hafa einfaldlega verið lagðar saman tölurnar sem tákna áhersluflokkana, þ.e. 1, 2, 3, eða 4, í því skyni að fá mælikvarða á hversu mikla áherslu kennararnir sem svöruðu könnuninni sögðust leggja á atriðin í flokknum í heild.

Tökum eitt dæmi: Í þriðju línu töflunnar kemur fram að spurt var um 3 atriði sem falla undir sögu vísinda. Tvö af þessum atriðum eru í áhersluflokki 3 en eitt í áhersluflokki 2. Summar áhersluþátta verður þá 3+3+2=8.

Í síðasta dálki töflunnar er sýnt hlutfall talnanna í dálkunum tveimur fyrir framan. Hátt hlutfall bendir til að kennarar leggi mikla áherslu á atriðið en lágt hlutfall að þeir leggi litla áherslu á það en höfundur könnunarinnar hafi kosið að spyrja um mörg atriði í þessum flokki og á þann hátt lyft upp summu áhersluflokkanna. Í dæminu um vísindalega þekkingu er hlutfallið 2,6, þ.e. nálægt meðaltali, sem bendir til að áherslan sem kennarar sem svöruðu könnuninni hafi verið í meðallagi á þessi 3 atriði sem spurt var um.

Flokkar áfangamarkmiða 
í aðalnámskrá
Fjöldi atriða 
í könnun
Summa áherslu-
flokka í könnun
Hlutfall áherslna
og atriða
Um eðli og hlutverk nátt.vísinda 8 21 2,6
Hagnýting þekkingar (mæling.,ein.) 1 4 4
Vísindaleg þekking 1 4 4
Saga vísinda 3 8 2,6
Vísindi, tækni, samfélag 3 5 1,6
Viðhorf til náttúru, umhv. og vísinda 0 0  
Úr eðlisvísindum 56 138 2,5
Efni og sérkenni efna 30 86 2,9
Kraftur og hreyfing 17 36 2,1
Ljós hljóð og bylgjuhreyfing 3 4 1,3
Rafmagn og seglar 1 2 2
Orka og orkunýting 5 10 2
Úr jarðvísindum 13 19 1,5
Jörðin í alheimi 13 19 1,5
Úr lífvísindum 43 134 3,1
Einkenni og fjölbreytni lífvera 11 33 3
Lífsferlar 6 18 3
Erfðir, aðlögun, þróun 8 20 2,5
Tengsl lífvera innb. og við umhv. sitt 8 25 3,1
Bygging og starfsemi lífvera 10 38 ! 3,8
Atferli 0 0  
Um vinnubrögð og færni  0 0  
Skilgreining viðfangsefna 0 0  
Áform og skipulag 0 0  
Framkv., skráning og úrvinnsla uppl. 0 0  
Túlkun og mat 0 0  
Framsetning og miðlun 0 0  
       
(Jarðfræði og líkamsfræði, 
ekki í 8.–10. bekk)
(2+4) (7+5)  
  Samtals: 126  Samtals: 324 Meðaltal: 2,6

 

Jafnvægi í lífvísindunum er í góðu lagi, nema:

 • áherslan á byggingu og starfsemi lífvera er býsna mikil. Það er kennurunum að kenna frekar en höfundi spurningalistans!

 • atferlið er úti í kuldanum, enda ekki spurt um neitt slíkt atriði!

Að öðru leyti er jafnvægið engan veginn í lagi og skrifast það fyrst og fremst á það hvernig spurningalistinn í könnuninni var saman settur.

Í töflunni hér á eftir er athugað hversu mikið ætlunin er að prófa úr efni helstu námsbóka á unglingastigi sem allar eru gefnar út af Námsgagnastofnun.

Helstu námsbækur 
á unglingastigi
Fjöldi atriða 
í könnun
Summa áherslu-
flokka í könnun
Hlutfall áherslna
og atriða
Efnafræði (1987, 95 bls.) 26 73 2,8
Sérkenni efna (1983, 55 bls. útg. hætt) 6 20 3,3
Kraftur og hreyfing (1998, 85 bls.) 18 40 2,2
Orka (1997, 160 bls.) 10 18 1,8
Sól, tungl og stjörnur (2000, 150 bls.) 13 19 1,5
Einkenni lífvera (1997, 130 bls.) 25 80 3,2
Lifandi veröld (1999, 180 bls) 14 41 2,9
Erfðir og þróun (1999, 95 bls.) 12 27 2,3
Heilsubót (1991, 140 bls.) 5 6 1,2
Landafr. h. grunnsk.1.h. (samf.fr.) 2 7  
  Samtals: 131 Samtals: 331 Meðaltal: 2,5

 

Efnafræði og Einkenni lífvera bera hér ægishjálm yfir önnur rit og svo virðist sem bæði höfundar spurningalistans og kennar sem svöruðu hafi hér lagst á eitt um að gera veg þessa efnis sem mestan. Kennarar hafa gefið þáttum úr Sérkennum efna hvað mest vægi, enda mikilvægt efni og góð bók sem því miður er hætt að gefa út og skólar þurfa nú að fjölfalda. Það er eðlilegt að kennarar hafi gefið atriðum úr Sól, tungli og stjörnum minnst vægi því bókin kom út um það leyti sem könnunin var gerð. Einkennilega lítil áhersla er lögð á Orku, þegar þess er gætt að það er elsta og efnismesta bókin á sviði eðlisvísinda í bókaflokknum Almenn náttúruvísindi.

Það er skiljanlegt að fá atriði úr Heilsubót hafi ratað inn á spurningalistann þar sem mikið af efni hennar er ekki meðal námsmarkmiða fyrir 8.–10. bekk. Þó er markmið að kenna um orsakir sjúkdóma en ekki var spurt um það atriði. Mér finnst hins vegar erfitt að skilja hve litla áherslu kennarar segjast leggja á þau fáu atriði sem spurt var um, því fyrir tæpum áratug virtist mér að Heilsubót væri kennd í 9. eða 10. bekk í vel flestum skólum.

Þegar undanfarandi töflur eru skoðaðar og bornar saman ætti að vera ljóst að prófatriðalisti Námsmatsstofnunar er í mun betra samræmi við námsbækurnar en aðalnámskrá.

Þó ber að hafa í huga að töflur þessar eru ekki hárnákvæmar, því flokkun inntaksþáttanna var í sumum tilvikum vafamál og einhver atriði hafa orðið útundan og einhver tvítalin. Það sést m.a. á því að summu prófatriða ber ekki saman í töflunum. Rétt tala mun vera 128. Þrátt fyrrir þennan veikleika ættu töflurnar að vera gagnlegt hjálpartæki til að átta sig á málinu.

Hvernig verður spurt á prófinu?

Ljóst er að engin prófatriði verða úr þeim fimmtungi námsmarkmiða í aðalnámskrá sem fjalla um vinnubrögð og færni. Þá vaknar sú spurning hvort ekki mætti rétta ögn þá miklu slagsíðu með því að láta reyna á þessa þætti um leið og önnur atriði eru prófuð, t.d. með því að láta reyna á færni nemenda í skráningu og úrvinnslu upplýsinga, túlkun, mati og ekki síst framsetningu og miðlun. Það mætti láta þau vinna með lítið gagnasafn og skrifa stutta ritgerð þar sem í ljós kemur færni þeirra til að „geta komið frá sér á vandaðan hátt og vel ígrunduðum greinargerðum … skriflega með tölum og orðum ... eða … myndrænt með líkönum og teikningum“ (Aðalnámskrá bls.67). Auðvitað ætti þá að taka fram á vefsíðunum að ætlunin sé að láta reyna á slíka færni á prófinu.

Ætli sú verði raunin? Nei, því miður. Á vefsíðu Námsmatsstofnunar segir nefnilega: „Stefnt er að því að prófið samanstandi af 40–60 fjölvalsspurningum“. Það segir þó ekki alla söguna því fjölvalsspurningar geta verið mismunandi upp byggðar. Venjulegast er þó að láta nemendur velja milli 4–5 stuttra, hnitmiðaðra staðhæfinga sem yfirleitt varða staðreyndir. Próf með 50 spurningum af því tagi myndu flestir nemendur mínir ljúka við á 20 mínútum! Eitt er ljóst, að það er handhægt að taka og fara yfir slík próf og áreiðanleiki þeirra og réttmæti getur mælst mjög mikið ef horft er fram hjá fúski við val prófatriða.

Það er þó hægt að prófa t.d. hæfni til að meta og túlka með fjölvalsspurningum, t.d. með því að birta mynd, sögu eða gagnasafn sem nemendur þurfa að vinna með áður en þeir geta valið milli þeirra 4–5 svarmöguleika sem gefnir eru upp. Að mínu viti er þó erfitt – ef ekki ómögulegt – að prófa framsetningu og miðlun á þann hátt.

Að taka krossapróf er eins og að versla í kjörbúð. Maður þarf bara að velja úr því sem aðrir hafa búið til og sett í hillurnar. Maður þarf ekki að búa neitt til sjálfur eða muna eftir neinu sem ekki er fyrir augunum. Spurningin er hvort við ætlum einungis að þjálfa hæfileika nemenda til að velja úr því sem aðrir hafa stillt upp fyrir framan þá – og kalla það vísindi!

Lokaorð

Þær staðhæfingar Námsmatsstofnunar að samræmda prófið í náttúrufræði spanni námsmarkmið aðalnámskrár fá ekki staðist. Í könnuninni sem byggt er á var ekki kannað hversu mikið kennarar væru að vinna að markmiðum aðalnámskrár heldur hversu mikla áherslu þeir legðu á ákveðna kafla og hugtök í útgefnum bókum.

Í ljósi þess að aðalnámskráin er nýlega komin út og skólar því hvergi nærri búnir að laga starf sitt að henni, auk þess sem námsgögnin sem nú eru tiltæk eru flest samin eða valin eftir fyrri námskrá, er ég sammála þeirri viðleitni stofnunarinnar að taka ekki einungis mið af námskránni, heldur líka því sem almennt tíðkast í skólum. Könnunin sem gerð var í skólum hefði þó þurft að kanna öðru fremur hversu langt kennarar eru komnir í að nálgast hin ýmsu lokamarkmið fyrir elstu bekki eins og þau eru skilgreind í aðalnámskránni, en það gerði hún ekki.

Mér virðist hafa verið kastað til höndum við samningu spurningalistans með þeim slæmu afleiðingum að samræmda prófið verði í allt of litlu samræmi við aðalnámskrá. Sú ákvörðun að ætla að prófa með fjölvalsspurningum eingöngu bætir gráu ofan á svart.

Af framansögðu er ljóst að nauðsynlegt er að stofnunin geri sem fyrst könnun á því hvar grunnskólarnir á landinu eru staddir í viðleitni sinni til að sníða náttúrufræðikennsluna að aðalnámskrá.

Heimildir

M. Allyson Macdonald. 2000. Stefnur og straumar í náttúrufræðimenntun. Áhrif þeirra á námskrá og kennslu. Uppeldi og menntun. Tímarit Kennaraháskóla Íslands. 9:57-76

Menntamálaráðuneytið, 1999. Aðalnámskrá grunnskóla – Náttúrufræði. http://www.ismennt.is/vefir/namskra/g/nattura/welcome.html

Námsgagnastofnun, 2001. Námsbækur í náttúrufræði fyrir unglingastig. http://www.namsgagnastofnun.is/wpp/ngs.nsf/search (október 2001).

Námsmatsstofnun, 2001. Samræmd próf í 10. bekk 2002 – Uppbygging prófa í íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku og náttúrufræði. [PDF-skjal]  http://www.namsmat.is/samrpr/til_skola_sp2002.pdf (október 2001).

Þakkir 

Drög að þessari grein voru skrifuð 17.–19. september 2001. Allyson Macdonald las þau yfir og gaf góðar ábendingar, einkum varðandi aðalnámskrána, og benti á atriði sem þörfnuðust betri útskýringa. Greinin var lagfærð og færð í nær endanlegt horf 23. október 2001.