Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Grein birt 9. janúar 2002

Hafdís Ingvarsdóttir

Fimmtíu ára afmæli kennslufræði
til kennsluréttinda

Hér eru kynnt tvö erindi af fleirum sem flutt voru á málþingi í tilefni af afmæli kennslufræði til kennsluréttinda við Háskóla Íslands 20. október 2001.

Á árinu 2001 voru liðin 50 ár síðan tekin var upp kennsla við Háskóla Íslands í Uppeldis- og kennslufræði fyrir kennaraefni. Markmið þessa náms var að undirbúa verðandi kennara í hinum ýmsu faggreinum undir kennslustörf á gagnfræða- og menntaskólastigi. Þetta var fyrsti vísir að kennaramenntun á háskólastigi á Íslandi. Uppeldis- og kennslufræði var upphaflega kennd við heimspekideild en með stofnun félagsvísindadeildar var hún flutt þangað og arftaki þess, Kennslufræði til kennsluréttinda, heyrir undir skor Uppeldis- og menntunarfræði.

Haldið var upp á afmælið með tvennskonar hætti; með námskeiði eða smiðju fyrir alla kennara greinarinnar og með afmælisþingi.

Föstudaginn 19. okóber var haldið námskeið undir stjórn Dr. Fred Korthagen prófessors frá Hollandi. Í námskeiðinu var fjallað um tengsl kenninga og fræða í kennaramenntun og skoðaðar kennsluaðferðir sem styrkja þessi tengsl, þ.e. yfirfærslu kenninga um kennslu til starfsins í kennslustofunni. Kennurum frá Kennaraháskóla Íslands og Kennaramenntunardeild Háskólans á Akureyri var boðið að taka þátt í þessum degi með okkur og er það í fyrsta sinn sem þessir hópar setjast niður til að læra saman. Það var samdóma álit fólks að þetta námskeið hefði heppnast einstaklega vel og gefið þátttakendum gott veganesti í starfi. Þátttakendur voru sammála um að halda samstarfi áfram.

Laugardaginn 20. október var svo haldið málþing í Odda undir yfirskriftinni: Kennarinn í spegli samtímans. Þar voru fluttnir 5 fyrirlestrar um kennarastarfið og kennaramenntun. Þeir sem þá fuluttu voru Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor, Sigurjón Mýrdal dósent, Oddný Harðardóttir aðstoðarskólameistari og Hafdís Ingvarsdóttir lektor. Aðalfyrirlesari var fyrrnefndur prófessor Korthagen sem setti fram mjög athyglisverðar kenningar í erindi sínu um tengsl fræða og framkvæmda í kennaramenntun. Í upphafi og á milli atriða fluttu nemendur tónlist og lásu úr valda bókmenntakafla og ljóð sem fjölluðu um kennara og skólastarf. Þetta framlag nemenda setti mjög skemmtilegan svip á málþingið. Málþinginu lauk með pallborðsumræðum undir stjórn Sölva Sveinsssonar skólameistara. Málþingið þótti takast með miklum ágætum og var ágætlega sótt.

Hér birtast tvö af þeim erindum sem flutt voru á afmælisþinginu.