Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun

Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands

Ritrýnd grein birt 9. janúar 2002

Sigríður Pálmadóttir

Barnagælur og þulur

Greinin lýsir rannsókn höfundar á barnagælum og þulum í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu. Rannsóknin beinist að tónlistinni, einkennum sönglaga og flutningi. Lög eru greind og skráð og kannað hvort finna megi sömu laggerðir í hljóðritum eða á nótum. Greininni fylgja nótur og fjöldi tóndæma. Höfundur er lektor við Kennaraháskóla Íslands.

 

Ég skal kveða við þig vel

Ég skal kveða við þig vel,
viljirðu hlýða barnkind mín,
pabbi þinn er að sækja sel,
sjóða fer hún mamma þín.

Ágrip

Í grein þessari er kynnt rannsókn á barnagælum og þulum í flutningi Ásu Ketilsdóttur kvæðakonu (f.1935). Efnið er fengið úr þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi. Hljóðritun gerði Rósa Þorsteinsdóttir þjóðfræðingur árið 1999.

Rannsóknin beindist fyrst og fremst að tónlistinni, einkennum sönglaganna og flutningsmáta. Laglínur voru skráðar í nótum og þær greindar með tilliti til lag- og hrynrænnar uppbyggingar. Skoðað var hvort finna mætti sömu laggerðir í hljóðriti eða skráðar á nótum.

Efnið skiptist í tvo meginflokka. Annars vegar eru stökur ortar undir rímnaháttum. Stemmurnar sem hafðar eru við stökurnar eru sautján talsins. Ráðandi tóntegund er dúr; endurteknir tónar og þröng tónbil einkenna laglínurnar. Runuform er algengt. Hins vegar er að finna 16 þulur sem margar eru samsettar, þ.e. tvær eða fleiri þulur hafa runnið saman. Þulurnar hafa allar utan ein svipaða tónsetningu sem einkennist af stefjum með endurteknum tónum, þröngum tónbilum og litlu tónsviði. Tóntegundin er dúr. Tónsetning þulunnar sem er frábrugðin hinum er hljómrænni og tóntegundin er moll. Auk framangreinds efnis eru nokkrir kveðlingar sem flestir eru kveðnir á svipaðan hátt og þulurnar. Flutningurinn í heild ber vott um mikla sköpunargleði og er túlkun Ásu á tónefninu gædd sérstökum þokka.

Lykilorð: Barnagælur, stökur, húsgangar, þulur, stemmur, þululög, þulustef, laggerðir, flutningsmáti.

Efnisyfirlit

Ágrip

Inngangur

Rætur Ásu

Efniviður

Inntak og úrvinnsla

Rannsóknarspurningar og vinnuferli

Tónmál og hugtök

Greining á stemmum

Greining á þulum

Samantekt

Þakkir

Heimildaskrá

Inngangur

Í Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi er varðveitt á segulböndum mikið safn þjóðfræðaefnis. Elstu upptökurnar eru afrit af töluðu orði og íslenskum alþýðusöng sem Jón Pálsson bankagjaldkeri hljóðritaði á vaxhólka á árunum 1903–1906. Einnig eru þar afrit af þjóðlögum og rímnakveðskap sem Jón Leifs tók upp með sams konar tækni á árunum 1926 og 1928. Vaxhólkar þessara frumherja í upptökum á Íslandi eru varðveittir í Þjóðminjasafni. Þá ber að geta þess að Jónbjörn Gíslason tók rímnalög upp á vaxhólka á árunum 1920–1923 og er það efni varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar.

Með tilkomu segulbandsins opnuðust nýir möguleikar í hljóðritun. Á vegum stofnunar Árna Magnússonar og í samvinnu við aðra, einkum Ríkisútvarpið, var farið að safna þjóðlegum fróðleik. Að þessu unnu einkum Hallfreður Örn Eiríksson sem hóf söfnun 1959, Helga Jóhannsdóttir og Jón Samsonarson sem söfnuðu miklu efni, aðallega á árunum 1963–71. Í þjóðfræðasafni stofnunarinnar eru einnig söfn annarra fræðimanna og áhugafólks um þjóðleg fræði, afrit af þjóðfræðaefni frá Ríkisútvarpinu, Kvæðamannafélaginu Iðunni og Þjóðminjasafni sem fyrr var nefnt. Rósa Þorsteinsdóttir hefur umsjón með þjóðfræðasafninu og hefur undanfarin ár unnið að tölvuskráningu safnsins sem gerir efnið aðgengilegt fræðimönnum og almenningi.

Hljóðritið sem fjallað er um í þessari grein er úr fórum þjóðfræðasafnsins. Greinin er sú fyrsta af þremur sem ætlunin er að birtist í Netlu. Önnur greinin mun fjalla um upptökur Helgu Jóhannsdóttur og Jóns Samsonarsonar sem þau gerðu með söng Ásu á árunum 1969, 1970 og 1980. Þar er einnig gerður samanburður á þessum upptökum og þeirri sem hér er kynnt. Þá er tónefni og flutningur Ásu borinn saman við upptökur sem til eru í safninu af söng föður hennar, Ketils Indriðasonar og föðursystur hennar, Sólveigar Indriðadóttur. Í þriðju og síðustu greininni verður velt upp spurningunni hvort hægt sé að gefa gamalli arfleifð nýtt líf, hvort stökur og þulur sem kveðnar voru við börn í sveitasamfélagi 20. aldar eigi erindi við uppvaxandi kynslóð 21. aldar. Þá verður og fjallað um þær breytingar sem verða þegar söngefni sem varðveist hefur munnlega er gefið út í hljóðriti og/eða á prentuðum nótum.

Við rannsókn þessa hefur víða verið leitað fanga til að fá sem skýrasta mynd af þeim barnagælum og þulum sem hér um ræðir. Sú heimild sem hefur þar gegnt lykilhlutverki er hið mikla safnverk Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög. Bjarni var prestur og tónskáld á Siglufirði og vann á árunum 1880–1905 að því að safna og skrá á nótur mikinn fjölda þjóðlaga. Afrakstur þessa starfs, ritið Íslenzk þjóðlög, var gefið út 1906–1909 á kostnað Carlsberg-sjóðsins í Kaupmannahöfn. Í bókinni eru auk þjóðlaganna m.a. ritgerðir um söngiðkun Íslendinga fyrr á tímum. Hér er um að ræða grundvallarrit fyrir þá sem áhuga hafa á íslenskum þjóðlögum og hafa bæði tónskáld, útsetjarar og kennarar löngum sótt efni í safnið. Einnig skal getið hér lagboðasafns Kvæðamannafélagsins Iðunnar sem hefur reynst mikilvæg heimild. Hér er um að ræða prentaða útgáfu af lagboðavísum. Þriðja útgáfa safnsins sem ber titilinn Lagboðar við kvæðalög kom út árið 1984 og hefur að geyma 500 lagboðavísur. Árið 1935 var hafist handa við að hljóðrita kvæðalögin fyrst á plötur og síðar á segulbönd eftir að sú tækni ruddi sér til rúms um 1950.

Rætur Ásu

Ása Ketilsdóttir er fædd og uppalin á Ytra-Fjalli í Aðaldal. Foreldrar hennar voru Jóhanna Björnsdóttir, húsfreyja, og Ketill Indriðason, bóndi á Ytra-Fjalli. Ung að árum yfirgaf Ása heimahagana og fluttist vestur á firði. Hún hefur stundað búskap að Laugalandi við Ísafjarðardjúp í 43 ár, fyrst með eiginmanni sínum, Halldóri Þórðarsyni, og síðan sonum þeirra eftir að Halldór lést.

Á uppvaxtarárum sínum á Ytra-Fjalli lærði Ása mikið af stökum, kvæðum og þulum. Faðir hennar var fastheldinn á gamlar hefðir og var mikið kveðið og sungið á heimilinu. Móðir Ásu hafði yfir kvæði og fór með barnagælur sem Ása og systkini hennar lærðu. Faðir Ásu kvað rímur og fór með þulur sem gengið höfðu í ættinni mann fram af manni. Ása rekur þær til Sigurlaugar Jósepsdóttur, langömmu sinnar í föðurætt sem aftur lærði af ömmu sinni Helgu Sæmundsdóttur ættaðri úr Bárðardal.

Efniviður

Kveðskapurinn sem Ása Ketilsdóttir fer með er heimild um umhverfi, smámyndir sem lýsa veröld barna, tjáning í bundnu máli sem lifað hefur og verið varðveitt munnlega mann fram af manni, frá einni kynslóð til annarrar. Að stærstum hluta eru þetta þjóðkvæði, stökur og þulur sem ekki er tilgreindur höfundur að.

Enginn grein kveðskapar er eins langt frá því að geta talist bókmenntagrein og þulur og barnagælur. Þær falla langflestar undir það sem kallast þjóðkvæði og þjóðvísur. Það er kveðskapur sem hefur orðið til munnlega og flyst þannig áfram. Hann er numinn og fluttur nær eingöngu án stuðnings bóka. Texti sem varðveitist þannig munnlega tekur alltaf einhverjum breytingum og þannig koma upp mismunandi gerðir kvæðanna sem allar verður að telja jafngildar. Aldrei er hægt að finna upprunalega gerð og nafn höfundar er oftast löngu gleymt. Meginforsenda fyrir munnlegri varðveislu kvæðanna er iðkun þeirra í daglegu lífi; við störf karla og kvenna og við leiki og skemmtanir innan heimilis og utan (Rósa Þorsteinsdóttir 2000:36).

Heimildir skilgreina hugtakið barnagæla á nokkuð mismunandi hátt. Í ritinu Íslenzkar þulur og þjóðkvæði eftir Ólaf Davíðsson (1898–1903:254–70) eru t.d. undir titlinum Barngælur og barnavísur settir eftirfarandi flokkar: ljúflingskvæði, ljúflingsdilla, gamlar barngælur og kvöldvísur. Í Íslenzkar þjóðsögur og sagnir, efni skráð af Sigfúsi Sigfússyni, er eitt hefti með titlinum Rím-Gaman. Sigfús flokkar efnið í gælur, þulur og grýlur.

Gælur eru blíðlætiskjass, sem helst er haft við börn, eða aðra ástvini, sem kunnugt er; getur líka verið haft við húsdýrin. Oft eru þær og oftast, þá hægt er, í bundnu máli svo unnt sé að raula þær, og eru því ærið þýðingarmiklar fyrir börn, þar eð þær eru eitt það fyrsta, sem börnin hljóta að læra. Gælurnar eru oft í þulna-, en oft líka í ýmsu vísnaformi; en langoftast gamanþulur (Sigfús Sigfússon 1958:9).

Sigfús segir gælurnar tíðast stuttar og margar í venjulegu vísnaformi en flestar þulurnar séu með eins konar langlokuháttum. Þulurnar séu margs konar stefjabálkar og er þá trúlega verið að vísa til endurtekningar sem er algeng í mörgum kvæðanna. Að mati Sigfúsar sýna gælurnar margt af því blíðasta og besta í mannsnáttúrunni en þulur telur hann blendnari og gáskameiri. Loks flokkar Sigfús sem grýlur „það sem hefur gengið almennt um Grýlu í kvæðum“ og er þar um að ræða langa kvæðabálka um Grýlu og hennar fólk (Sigfús Sigfússon 1958:33, 67). Í nýrri útgáfu á safni Sigfúsar sem prentuð er eftir eldri handritum hans er umfjöllun um barnagælur ítarlegri og flokkunin nokkuð frábrugðin. Í flokki sem nefndur er Ljóðleikar skiptir Sigfús efninu í tvo aðalkafla og útskýrir á eftirfarandi hátt:

A Við börn, þ.e. þær gælur er virðast hafa verið ortar og kveðnar við vöggubörn eða ungbörn. Þessum kafla raða ég svo niður í smærri kafla eftir því að hverju hvað miðar.

 1. Gælur sem fela í sér trú og guðsdýrkun, andlegs eðlis.

 2. Heillaóskir, og mun margt til af þess háttar.

 3. Skjall og gaman ýmislegt og er feiknamikið til af því dóti.

 4. Gríngælur, einkum grýluþulur er gengu fyrr meir út á það að hræða börn til hlýðni en eru nú einungis grínkennt gaman. Þessari grein ættu raunar að fylgja grýlukvæðin.

 5. Gælur sem hafðar hafa verið við og um dýrin. Þetta atriði mun hafa verið ærið víðflugtugt.

B Við unglinga og ef til vill fullorðna. Þar á meðal munu fljóta ástarvísur til kvenna og annað því um líkt skjall er ei verður þó með vissu séð að sé af þeirri rót, einkum gamallegt. Þessi grein skiptist sem hin fyrri í önnur smærri atriði til hægðarauka fyrir þá er lesa og eftir efni.

 1. Ástaskjall. Munu þar kunna að fljóta mansöngvar.

 2. Um unglinga og til þeirra, svo sem vísur um unglinga sem eru að læra að skrifa.

 3. Heilræði ort til unglinga eða svo stálpaðra barna að slíkt fái skilið.

(Sigfús Sigfússon 1991:294–295)

Af öðrum heimildum má ráða að hugtakið barnagæla sé annars vegar notað sem heildarheiti yfir kveðskap sem hafður var yfir við börn. Þá er átt við stökur, þulur og lengri kvæði. Hins vegar er talað um barnagælur og þulur. Þá er þulan aðskilin frá öðru efni sem sérstakt kveðskaparform (Rósa Þorsteinsdóttir 2000:42).

Hið lausa form þulunnar með mislangar ljóðlínur, óreglulegt rím og án erindaskila er vissulega ólíkt öðrum bragarháttum. Í tímaritinu Skírni, 1. hefti 1914, skrifar Guðmundur Finnbogason: „Þulan kann allan gang; hún getur verið stórstíg, hlaupið og stokkið langar línur, og hina stundina tifað og trítlað eins og ‚nótentáta‘; hún getur verið langminnug – rímað saman orð á löngu færi – eins og kona minnist fornra ásta, en stundum kemur sama hending í langri runu, eins og koss á koss ofan. Þulan er kvennlegur bragarháttur.“ Í sama tímariti, 4. hefti 1914, hugleiðir Theodora Thoroddsen orð Guðmundar um að þulur séu oftar en ekki runnar undan tungurótum kvenna og telur sig jafnvel vita hvernig það gerist. Theodora lýsir móður sem er búin að koma kornabarni í svefn og þarf að nota stundina til að gera við flíkur barna og bónda en á pallinum eru þrír til fjórir eða jafnvel fleiri ærslabelgir sem eru vísir til að rífa upp litla barnið. Og hvað er þá til ráða?

Konan grípur þá til þess örþrifaráðs, að setja saman í hendingum og hljóðstöfum það sem kallað er þula. Enginn tími er til þess að vanda mál og rím, því síður að kveða til lengdar um sama efni, tekið er það sem í hugann flýgur, hvað svo sem er, og börnin taka þakklát móti þessum nýja fróðleik um krumma og kisu, stássmeyjar með gullspöng um ennið, sem ekki geta setið nema á silfurstól, og ekki sofið nema á svanadún, riddara sem gefa stúlkunni sinni gullið allt í Rínarskóg, kongshöllina, þar sem framreiddir eru uggar og roð og kongurinn drekkur syrju og soð, um álfa, dverga, tröll og marbendla og margt margt fl. (Theodora Thoroddsen 1914:416).

Theodora heldur svo áfram með hugleiðingar sínar og lýsir því þegar stúlkubarnið, sem komið er „í sama sköturoðshnakkinn“ og móðirin fyrrum, rifjar upp fyrir sér þulurnar sem móðir hennar kenndi henni þegar hún var barn. Hún man þær ekki orðrétt en skeytir saman brotunum eftir því sem henni hugkvæmist og bætir í skörðin frá eigin brjósti. Þannig megi greina sama stofninn í þulu sem fólk fer með á ólíka vegu. Lýsing Theodoru ber með sér hvernig þulan var notuð til að hafa ofan af fyrir börnum, þeim var haldið í skefjum með litríkum orðaleik sem að hluta til var spuni augnabliksins.

Annar þáttur sem tengist barnagælum og þulum er líkamleg snerting og hreyfing henni samfara. Hinn fullorðni tekur barnið í fang sér og rær með jafnri púlshreyfingu um leið og raulað er. Taktföst tónmynd stökunnar laðar fram hreyfingu. Einnig má skilgreina reglubundna hreyfinguna sem aflvaka fyrir tónmálið. Sömu áhrif koma fram þegar barn er látið stíga.

Þá situr einhver og heldur um hendur barnsins sem það réttir fram; barnið stendur nokkuð gleitt á gólfinu fyrir framan hann og vaggar sér til hliðanna og stígur á víxl af öðrum fætinum á hinn eftir hljóðfalli einhverra kviðlinga sem hinn fullorðni raular á meðan; barnið lyftir fótunum án þess að beygja hnén, og hinn fullorðni hreyfir sig ekki meira en þarf til að vagga barninu (Jón Samsonarson 1964:cxxvi).

Ófeigur J. Ófeigsson læknir gaf úr bókina Raula ég við rokkinn minn sem er safn af barnagælum og þulum. Í eftirmála skrifar hann:

Ég mun hafa verið fimm til sex ára að aldri, þegar Ásta Jónasdóttir, frá Litlu-Drageyri í Skorradal, var hjá foreldrum mínum. Ekki get ég munað, hvernig þessi gamla kona leit út, en ég man vel, að hún sat með mig í kjöltu sinni við eldavélina, hélt utan um hendur mínar sem ég kreppti í lófum hennar, og réri sér ífram; um leið og hún sagði mér sögur, raulaði vísur eða fór með þulur. Ég man enn, hve heillaður ég var af gömlu konunni, og hversu gaman mér þótti að því, sem hún hafði yfir (Ófeigur J. Ófeigsson 1945:159).

Þessi orð lýsa í hnotskurn mannlegum samskiptum, athöfn sem beinist að því að hafa ofan af fyrir barni, sefa, kæta eða kenna, dæmi um uppeldi og afþreyingu innan heimilis í íslensku sveitasamfélagi á fyrri hluta 20. aldar. Barnagælurnar og þulurnar sem Ása flytur eiga rætur í sama jarðvegi.

Inntak og úrvinnsla

Hljóðritið sem fjallað er um í þessari grein er nærri 60 mínútna langt. Efnið skiptist í tvo meginflokka, þ.e. stökur og þulur. Ása fer með 84 stökur sem eru að stærstum hluta húsgangar, þ.e. vísur sem eru þekktar víða um land en höfundur óþekktur, en meðal þess kveðskapar þar sem höfundur er þekktur eru fjölskylduvísur þar sem kveðið er um börn úr fjölskyldunni á Fjalli. Fjórir ættliðir kasta þarna fram stökum. Hér má heyra Ásu kveða við yngsta son sinn.

Ása kveður við yngsta son sinn

Þulurnar sem Ása kveður eru 16 talsins margar þeirra samsettar, þ.e. tvær eða fleiri þulur sem hafa runnið saman. Auk þess eru nokkrir kveðlingar, stundum nefndir þulubrot, þ.e. stutt kvæði sem hafa ekki sérstakan bragarhátt. Einnig syngur Ása brot úr kvæðinu Sveinn dúfa (Runeberg) eftir Matthías Jochumsson og notar þar tvær mismunandi laglínur. Þá fer Ása með þuluna um Brúsaskegg en það er eina efnið sem ekki er sungið í þessu hljóðriti. Þetta tvennt síðastnefnda er óskylt meginefninu og því látið liggja á milli hluta í þessari grein.

Rannsóknarspurningar og vinnuferli

Rannsóknarspurningar voru eftirfarandi:

 • Hvaða laggerðir eru notaðar, þ.e. hvernig er lag- og hrynræn uppbygging í söngnum?

 • Hvað einkennir flutningsmátann?

 • Er um að ræða þekkt sönglög sem finna má í hljóðriti eða skráð á nótum?

Vinnuferlið var þríþætt. Fyrst voru textar skráðir og sönglögin færð í nótur. Á grundvelli þeirrar vinnu var efnið greint út frá tónmálinu, þ.e. laggerð og túlkuninni í söngnum. Nótnaheimildir frá fyrri hluta 20. aldar voru skoðaðar, þar á meðal Íslenzk þjóðlög eftir Bjarna Þorsteinsson,  með það í huga hvort finna mætti sömu lög og Ása syngur. Í sama tilgangi var Lagboðasafn Iðunnar (hljóðrit) athugað. Tekið skal fram að ekki var ráðist í á þessu stigi að hlusta á önnur hljóðrit með stemmum og þululögum sem til eru í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar.

Tónmál og hugtök

Það er alkunna að í alþýðusöng, þar sem farið er með stökur og þulur, er laginu oft fyrst og fremst ætlað það hlutverk að þjóna orðinu. Margir telja að ekki sé um eiginleg sönglög að ræða, þetta sé ómarkvisst raul, eða söngl, einhvers konar hreimur til að lyfta upp textanum. Á þetta viðhorf ekki síst við flytjendur slíks efnis og má það merkilegt teljast þar sem þeir nota oftar en ekki fastmótaðar laglínur og beita söngröddinni á hefðbundinn hátt.

Hvað hugtakanotkun varðar skal tekið fram að sagnirnar að fara með, syngja og kveða eru hér notaðar jöfnum höndum um flutningsmátann. Athygli skal vakin á því að með sögninni að kveða er ekki átt við þá raddbeitingu sem tíðkast við flutning rímna (Hreinn Steingrímsson 2000:41). Hugtakið stemma er notað yfir þau lög sem höfð eru við stökurnar en tónsetning við þulur er nefnd þululag. Við kveðlingana er annað hvort höfð stemma eða notað þululag.

Greining á stemmum

Í töflunni hér að neðan er laggerð skráð á nótum. Gerð er grein fyrir hversu stórt tónsvið stemman hefur, hver tóntegund er, takttegund og form. Tónhendingar eru auðkenndar með litlum bókstaf nema þegar hendingar eru óvenjulega langar, þá er hástafur notaður. Hafi stemman fundist á nótum eða í Lagboðasafni Iðunnar er þess getið.

Í endurteknum flutningi á sömu stemmunni koma fram margvísleg tilbrigði í laglínu. Sérstaklega er þetta áberandi hvað hrynmynd varðar. Sama stemman getur t.d. haft jafna áttundapartshreyfingu eða ójafna. Ójöfn hreyfing getur byggst upp á löngum og stuttum tónum eða stuttum og löngum. Einnig getur hrynmynd breyst þar sem hún er aðlöguð að orðum stökunnar hverju sinni. Tilbrigði í tónhæð eru oftast í formi tengi- og skreytinótna en einnig koma fram breytingar sem ná yfir heilar hendingar. Nótnaskráningin hér að neðan sýnir grunnmynd hverrar stemmu sem hefur verið greind með því að bera saman sömu stemmuna í endurteknum flutningi. Skráð er niður sú mynd sem oftast kemur fyrir. Þar sem sama laglínan kemur oft fyrir og þá sungin í mismunandi tónhæð var valið að skrá tóndæmin þannig að þau hljómi miðsviðs raddlega séð.

Tafla 1

Stemma

Tónsvið Tóntegund Taktegund Form Hljóðrit/Nótur
1 stór níund frá grunntóni dúr taktskipti
(4-3-4-2-4)
a b a1 c Lagboðar við kvæðalög
Nr. 100
2 hrein fimmund frá grunntóni + 6. tónn og  leiðsögutónn í neðri áttund dúr 2/4 a b c d  
3 hrein fimmund frá grunntóni + leiðsögutónn í neðri áttund dúr 2/4 a b c d Lagboðar við kvæðalög
Skyldleiki við
nr. 119
4 hreinn áttund frá grunntóni dúr 6/8 a b a b 20 íslensk þjóðlög Skagfirðingalag
5 stór sjöund frá grunntóni dúr 6/8 a b a b Lagboðar við kvæðalög
Skyldleiki við
nr. 2
6 stór sexund frá grunntóni  dúr 2/4 a b c d Nýtt söngvasafn
seinni hluti
Bí, bí og blaka
Íslenzk þjóðlög
fyrir solo-rödd
seinni hluti
Bí, bí og blaka
7 hrein áttund frá grunntóni dúr 2/4 a a1 b c Lagboðar við kvæðalög
Skyldleiki við
nr. 17
8 stór þríund upp frá grunntóni + leiðsögutónn í neðri áttund dúr 6/8 a b a b1  
9 stór þríund frá grunntóni + fortónn, 6. tónn og leiðsögutónn í neðri áttund dúr 3/4 AA  
10 hrein áttund dúr 6/8 a b c d  
11 hrein ferund óræð 3/4 a b a b1  
12 hrein fimmund frá grunntóni +
7. tónn í neðri áttund
moll taktskipti
(4-3-4-3-4-3-4)
a b a b  
13 hrein fimmund frá grunntóni + leiðsögutónn og fortónn í neðri áttund dúr 3/4 a b c d Íslenzk þjóðlög
Reið ég Grána
Carmina canenda
Vina
Ljóð og lög
Þótt hann rigni
14 hrein ferund dúr taktskipti
(2-3-2-3-2-3-2)
a a1 b  
15 stór þríund dúr taktskipti
(2-3-2-4-2)
a b c  
16 hrein fimmund + leiðsögutónn í neðri áttund dúr 2/4 a b c d  
17 hrein fimmund dúr taktskipti
(6/8-9/8-6/8)
a b c d  


Í flutningi á stökunum hefur Ása þann hátt á nota að jafnaði ekki fast lag heldur eins og hún segir sjálf „grípur þá stemmu sem kemur upp í hugann hverju sinni“. Þetta er frábrugðið því sem gerist hjá kvæðamönnum sem nota ákveðnar vísur, svokallaða lagboða, til að minna sig á hvaða stemmu eigi að syngja (Njáll Sigurðsson 1989:17–18). Stemmurnar sem Ása grípur oftast til eru þær þrjár fyrstu sem skráðar eru í töflu 1 (Stemma 1, 2, 3).

Hér á eftir koma nokkrar stemmur úr hljóðritinu. Þær sýna hver á sinn hátt helstu frum- og túlkunarþætti tónefnisins. Fyrst (tafla 2) má heyra Ásu flytja sama bænarvers með tveimur ólíkum stemmum (stemma 1 og 11).  Langamma hennar, Sigurlaug Jósepsdóttir, var vön að hafa þetta vers yfir. Sama vers er að finna í safni Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög. Þar er það nefnt í sambandi við vöggulög án þess að vera tengt ákveðnu lagi (sjá Bjarni Þorsteinsson 1906–09:832).

Tafla 2

Vaki englar vöggu hjá Stemma 1

Stemma 11


Þó meginreglan hjá Ásu sé að nota mismunandi stemmur við sömu stökuna eru samt undantekingar þar á. Dæmi um það er braghenda (tafla 3) eftir Ketil Indriðason. Í flutningi eru áhersluatkvæði lengd sem gefur stemmunni mýkt og rólegt yfirbragð.

Tafla 3

Sérðu blessað sólskinið Stemma 15


Einkennandi fyrir stemmurnar er að laghrynur er oft nærri hrynjandi stökunnar í mæltu máli, aðeins teygt á sérhljóðum hér og þar. Tónendurtekning í réttum tvílið er algeng en það má telja eitt af megineinkennum þjóðlagsins. Formið er oft runukennt (a,b,c,d). Hér (tafla 4) syngur Ása nokkrar stökur við stemmu sem sýnir þessi einkenni.

Tafla 4

Hér er komin beinaborg
Hinrik pabbi að heiman fór
Drengurinn hjá dalli rann
Kveða skal kollhúfumann
Stemma 2


Í töflu 5 má heyra sömu stemmu og í töflu 4, nú með breytum í hrynmynd. Þungur tónn verður stuttur en léttur langur. Þetta hefur verið nefnt andkveðin áhersla. (Hallgrímur Helgason 1980:126). Tilgáta mín er að þessi hrynmynd eigi uppruna sinn í hreyfingu sem oft er viðhöfð þegar kveðið er. Þetta kemur skýrt fram þegar róið er með barn eða stigið við það. Stuttur áherslutónninn gefur festu en langi áherslulausi tónninn tíma fyrir hreyfinguna.

Tafla 5

Sitja á palli systurnar
Situr á bita Sigurður
Stemma 2


Af stemmunum sautján hef ég fundið fjórar sem sýna skyldleika við stemmur í lagboðasafni Iðunnar. Ein þeirra er lausavísustemma sem er skráð undir lagboðanum Ég er að horfa hugfanginn (nr.100). Lagið er kveðið inn árið 1936 og talið vera úr Dalasýslu. Ása notar þessa stemmu alloft og túlkar hana á mjög blæbrigðaríkan hátt, bæði hvað varðar hryn og skreytingar laglínutóna.

Tafla 6

Farðu að sofa
Hafðu ekki hátt
Við skulum fara að sofa senn
Stemma 1


Fyrri hluti lags í töflu 7 er samhljóma fyrri hluta stemmu við lagboða nr. 119 í lagboðasafni Iðunnar. Sama skyldleika má finna í rímnalagi sem Bjarni Þorsteinsson skráir í þjóðlagasafni sínu við stökuna Fara á skíðum (sbr. Bjarni Þorsteinsson 1906–09:897). Andkveðandi kemur í seinni hluta stökunnar auk þess sem tilbrigði eru í laglínu í seinni hluta þriðju stemmunnar. Heyra má á stöku stað að Ása notar örsmá tónbil til að renna sér upp í tóninn. Þessi túlkunarmáti setur sterkan persónulegan blæ á flutninginn.

Tafla 7

Sunneva er klædd í kjól
Anna mín er klædd í kjól
Líney er svo löt og körg
Ranka undir rúminu
Stemma 3


Stemmurnar þrjár sem fylgja hér (tafla 8, 9 og 10) eru vel þekktar og hafa birst á nótum. Lagið í töflu 8 má m.a. finna í Nýju söngvasafni (1940) sem seinni hluta af Bí, bí og blaka. Eins má finna það í heftinu Íslenzk þjóðlög fyrir solo-rödd með pianoforte accompaniment eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1949). Enn kemur andkveðandi við sögu í flutningi Ásu.

Tafla 8

Kisa situr á bitanum
Láttu smátt en hyggðu hátt
Eitt sinn stukku
Stemma 6


Næsta tóndæmi (tafla 9) er kvæðalag þekkt sem Skagfirðingalag yngra. Ása syngur það á þann hátt að hún fer upp í seinni hluta lagsins eins og gert er þegar lagið er sungið í tvísöng. Stemmu þessa má m.a. finna á nótum í útsetningu Hallgríms Helgasonar (Hallgrímur Helgason 1945).

Tafla 9

Hýrt er auga
Komdu hingað kindin mín
Hún er suður í hólunum
Stemma 4


Stemman hér að neðan (tafla 10) sker sig úr vegna þess að um þekkt erlent lag er að ræða. Það er lagið Oh my darling sem hefur notið vinsælda á Íslandi m.a. við vísuna Jólasveinar einn og átta. Ása syngur lagið við stökuna Göngum eftir götum fornum sem er eftir föður hennar, Ketil. Bjarni Þorsteinsson skráir þetta sama lag í þjóðlagasafni sínu (bls. 892) við stökuna Reið ég Grána með eftirfarandi athugasemd: „lagið lærði ég af Sigurði Pálssyni lækni á Sauðárkrók; lét honum sérlega vel að kveða við raust með þessu lagi bitlingarímuna í Alþingisrímum“. Ekkert er minnst á erlendan uppruna lagsins. Í Carmina canenda (1945) er lagið skráð sem enskt og haft við kvæðið Vina eftir Örn Snorrason. Í Ljóð og lög (1949) er höfundur skráður P. Montrose og lagið haft við ljóðið Þótt hann rigni eftir Hannes Hafstein.

Tafla 10

Göngum eftir götum fornum Stemma 13

4. 4 Greining á lögum við þulur og kveðlinga

Að frátöldu laginu við þuluna Vappaðu með mér Vala er tónsetning þulanna svo lík að hún er hér skilgreind að stofni til sem eitt þululag sem er samsett úr fjórum stefjum. Stefin eru innbyrðis skyld, bæði hvað tónsvið, tón- og takttegund varðar. Ása segir tónsetningu þulunnar ekki fastmótaða og því má ætla að tilviljun ráði hvernig stefin raðast saman og hvort þau koma öll fyrir í flutningi.

Til hægðarauka er fyrrgreint þululag merkt I en lagið við Vappaðu með mér Vala merkt II. Þulustefin eru aftur á móti merkt með 1, 2, 3, 4.

Hér að neðan (tafla 11) eru stefin fjögur og er skráning þeirra hliðstæð og í stemmunum, þ.e. skrifuð er upp grunnmynd sem greind hefur verið með því að bera saman sama stefið í endurteknum flutningi. Skráð er niður sú mynd sem oftast kemur fyrir. Við stefin er oft spunnið niðurlag þegar form þulunnar krefst viðbótar.

Tafla 11

Þulustef

Tónsvið Tóntegund Taktegund Hljóðrit/Nótur
1 ferund frá grunntóni + leiðsögutónn í neðri áttund dúr einföld, tvískipt Íslensk þjóðlög Gimbill eftir götu rann
2
Tilbrigði
af þulustefi 1
fimmund frá grunntóni + leiðsögutónn í neðri áttund dúr einföld, tvískipt  
3 fimmund frá grunntóni dúr einföld, tvískipt  
4 sexund frá grunntóni + leiðsögutónn og 6. tónn í neðri áttund dúr einföld, tvískipt Fljúga hvítu fiðrildin
söngbók barnanna Krumminn í hlíðinni.


Þulustef 1 má finna í safni Bjarna Þorsteinssonar Íslenzk þjóðlög í III.kafla sem ber heitið Lög, skrifuð upp eptir ýmsu fólki. Í undirkafla þar sem fjallað er um lög úr Húnavatnssýslu er þetta lag skráð við Gimbill eptir götu rann. Eftirfarandi texti fylgir:

Þetta lag lærði ég á Kornsá í Vatnsdal árið 1885, en síðan hef ég fengið það nóterað alveg eins frá Bened. Jónssyni á Auðnum í Þingeyjarsýslu, og segir hann lagið þar mjög algengt við ýmsar barnagælur og þulur t.d. Bíum, bíum bamba,| börnin litlu ramba | fram á fjallakamba | að leita sjer lamba (Bjarni Þorsteinsson 1906–09:564).

Þulustef 2 er tilbrigði við fyrsta stefið og eru breyturnar á síðasta tóni í fyrsta og þriðja takti en í báðum tilvikum fer tónninn upp um þríund. Þulustef 3 einkennist af tónendurtekningum í fyrstu fjóru töktunum og gefur það laglínunni annað svipmót en það sem hin stefin bera. Þulustef 4 er þekkt, að vísu í örlítið annarri mynd, t.d. þegar farið er með Krumminn í hlíðinni (sbr. Fljúga hvítu fiðrildin – Söngbók barnanna 1986).

Hér á eftir eru 4 þulur úr hljóðritinu. Þulan Bárður Björgúlfsson (tafla 12) hefur þrjú fyrstu stefin og er heildarformið eftirfarandi: 1 - 2 - 1 - 1 - 3 - 1 - 3 (tilbrigði/stytt) - 1 - 1 (niðurlag/stytt).

Tafla 12

Bárður Björgúlfsson Þululag I


Í Stígum við stórum (tafla 13) koma við sögu þulustef eitt, tvö og fjögur og mynda eftirfarandi form: 4 - 4 - 1 - 2 - 1 (tilbrigði) - 1  - 1 (með innslagi úr stefi 2).

Tafla 13

Stígum við stórum Þululag I


Dæmin um tónsetningu á þulunum hér að ofan (tafla 12 og 13) eru sýnishorn af því hvernig stefjunum er raðað saman en eins og áður sagði gæti uppröðun orðið önnur við endurtekinn flutning því hér ræður spuni ferðinni. Tónsetning þulunnar Nú skal syngja um karlinn er nokkuð frábrugðin vegna sérstaks forms þulunnar. Inngangsstefið Nú skal syngja um ... er alltaf sungið eins (3 tónar) en í sjálfri upptalningunni eru þulustef 1 og þulustef 4 sem kemur oftast fyrir. Niðurlag hvers hluta þulunnar hefur tónendurtekningar og Sá var smiður ... er sungið á þröngu sviði (3–4 tónar). Þessa þulu má finna í svipaðri mynd í Íslenzkar þulur og þjóðkvæði (sbr. Ólafur Davíðsson 1898–1903:288) en lagið hef ég ekki fundið skráð á nótum.

Tafla 14

Nú skal syngja um karlinn Þululag I – tilbrigði

 
Lagið sem Ása hefur við Vappaðu með mér Vala er gjörólíkt hinu þululaginu. Andstætt við það er hér um moll-tóntegund að ræða, tónsviðið er stærra og lagið er byggt á brotnum hljómum sem gefur því hljómrænan blæ. Segja má að hér sé um fastmótað sönglag að ræða.

Tafla 15

Vappaðu með mér Vala Þululag II

 
Við kveðlingana notar Ása oftast þulustef 4:

Tafla 16

Stígur, stígur lalli Þulustef 4


Stemma 6 er líka notuð við kveðlinga og spinnur þá Ása niðurlag til viðbótar ef þörf krefur:

Tafla 17

Dó, dó og dumma
Bíum, bíum, bíum, bí
Stígur, stígur lalli
Stemma 6


5. Samantekt

Helstu niðurstöður varðandi tónefnið eru eftirfarandi:

Hrynrænir þættir

 • Stemmurnar eru með fastmótaðar grunntónmyndir með hrynmynd sem er lík hrynjandi stökunnar í mæltu máli.

 • Hryntilbrigði eru algeng í stemmunum. Jafnir tónar breytast í ójafna, þ.e. langt/stutt eða stutt/langt (andkveðandi).

 • Takttegundir í stemmunum eru bæði einfaldar og samsettar.

 • Nokkrar stemmur eru með taktskipti.

 • Hrynmynd þululaganna er lík hrynjandi þulunnar í mæltu máli.

 • Þululögin eru í tvískiptum takti.

Tónrænir þættir

 • Tónsvið stemmunnar er yfirleitt minna en áttund.

 • Flestar stemmurnar eru í dúr.

 • Tengi- og skreytinótur gera tilbrigði í tónhæð stemmunnar.

 • Endurteknir tónar í réttum tvílið, tvíundir og þríundir eru algengustu tónbilin í stemmunum og þululagi I.

Form

 • Hið fasta form stökunnar mótar stemmuna.

 • Runuform er algengt í stemmunum.

 • Þululag I byggir að mestu leyti á fjórum innbyrðis skyldum stefjum.

Túlkun

 • Stundum er rennt upp í tóninn og setur það sérstakan blæ á flutninginn. Á það bæði við stemmur og þululög.

 • Yfirleitt er stakan ekki fastbundin einni stemmu.

 • Form þululags I byggir á spuna og því tilviljunarkennt hvaða stef er notað hverju sinni.

Ekki hefur tekist að finna á nótum né í hljóðriti nema brot af barnagælunum sem um ræðir. Sé litið á tónefnið í heild er ljóst að um er að ræða tónsköpun sem hefur að stærstum hluta orðið til og verið varðveitt munnlega í langan tíma. Laggerðirnar sem hér hefur verið fjallað um eru tónmyndir sem Ása Ketilsdóttir hefur tekið í arf og miðlað áfram á sinn persónulega skapandi hátt. Barnagælurnar og þulurnar eru frásagnir sem fá aukið gildi með þeim ramma sem sönglagið gefur þeim. Töfrarnir liggja í samspili orðs og tóna sem í einfaldleika sínum mynda ljóð- og lagræna heild.

Þakkir

Njáll Sigurðsson, Rósa Þorsteinsdóttir og Steindór Andersen fá þakkir fyrir veitta aðstoð. Sérstakar þakkir eru færðar Ásu Ketilsdóttur sem lagði til tónefnið og gaf góðfúslega leyfi til birtingar þess í Netlu.

Heimildaskrá

Bjarni Þorsteinsson. 1906–09. Íslenzk þjóðlög.  Carlsbergsjóðurinn. Kaupmannahöfn.

Carmina Canenda. Söngbók íslenskra stúdenta. 1945. Jón Þórarinsson og Bárður Jakobsson tóku saman. 2. útgáfa. [Gefin út að tilhlutan stúdentaráðs háskólans] Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.

Guðmundur Finnbogason. 1914. „Ritfregnir“. Skírnir, Reykjavík.

Jón Samsonarson. 1964.  Kvæði og dansleikir I.Íslensk þjóðfræði. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Hallgrímur Helgason. 1980. Íslenskar tónmenntir. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík.

Hallgrímur Helgason. 1945. Tuttugu íslensk þjóðlög. [Útgefanda og útgáfustað vantar]

Hreinn Steingrímsson. 2000. Kvæðaskapur. Mál og mynd, Reykjavík.

Sveinbjörn  Sveinbjörnsson. Íslenzk þjóðlög fyrir solo-rödd með pianoforte accompaniment 1949. [Útgefanda og útgáfustað vantar].

Lagboðar við kvæðalög. 1984. Kvæðamannafélagið Iðunn, Reykjavík.

Ljóð og lög, 75 söngvar handa samkórum 1946. VII hefti. Þórður Kristleifsson tók saman.  [Útgefanda vantar] Reykjavík.

Njáll Sigurðsson.1989. „Um rímur, kveðskaparlist og kvæðalög“. Kvæðamannafélagið Iðunn 60 ára. Reykjavík.

Nýtt söngvasafn handa skólum og heimilum.  1949. Friðrik Bjarnason og Páll Halldórsson bjuggu til prentunar. [Gefið út fyrir atbeina fræðslumálastjórnar.]

Ófeigur Ófeigsson.1945. Raula ég við rokkinn minn. Gefið út af höfundi, Reykjavík.

Ólafur Davíðsson. 1898–1903. Íslenzkar þulur og þjóðkvæði. Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöfn.

Rósa Þorsteinsdóttir. 2000. „Þulur og barnagælur“. Orðið tónlist (The word music). Smekkleysa sm. ehf. Reykjavík.

Sigfús Sigfússon.1958. Íslenzkar þjóðsögur og sagnir XV. Víkingsútgáfan, Reykjavík.

Sigfús Sigfússon. 1991. Íslenzkar þjóðsögur og sagnir X. Grímur M. Helgason og Helgi Grímsson bjuggu til prentunar. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Theodora Thoroddsen. 1914. „Þulur“. Skírnir 4: 413–420.