23/03/2018

Greinaflokkur um kennaramenntun

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Greinaflokkur af góðu tilefni
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun var fyrst birt og afhent í tengslum við sextugsafmæli Ólafs J. Proppé 9. janúar 2002 og sá er formlegur stofndagur ritsins. Útgáfa veftímarits um uppeldi og menntun þótti marka tímamót enda voru vefrit á Íslandi enn fátíð við upphaf aldarinnar. Ólafur veitti þessu tilrauna- og grasrótarverkefni brautargengi sem rektor Kennaraháskóla Íslands og fyrir áhuga og góðan stuðning var ritið fljótt að skjóta rótum.

Á tíu ára afmæli Netlu, 9. janúar 2012, þegar birst hafa í ritinu og fylgiritum vel á þriðja hundraðið af greinum og tugir greina frá síðustu Menntakviku eru í farvatninu, birtir Netla í nýjum búningi greinaflokk um kennaramenntun til heiðurs Ólafi sjötugum. Ritstjórar greinaflokksins eru Ingvar Sigurgeirsson, Börkur Hansen og Ragnhildur Bjarnadóttir og þeim til fulltingis eru Heiðrún Kristjánsdóttir og Torfi Hjartarson. Fjórar greinar voru birtar á sjálfan afmælisdaginn og fleiri greinar fylgja í kjölfarið. Fyrst fer grein eftir forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands en annars eru greinarnar birtar í þeirri röð sem þær berast.

 

Greinaflokkur um kennaramenntun til heiðurs Ólafi J. Proppé sjötugum
á tíu ára afmæli Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun

9.1.2012
Jón Torfi Jónasson
Hugleiðingar um kennaramenntun
Höfundur fjallar um álitamál og ólík sjónarhorn í menntun og starfsþróun kennara; inntak, markmið og umgjörð. Hann leggur m.a. til að rædd verði og mótuð stefna um menntun kennara frá mun víðari sjónarhóli en oft er gert. Líta verði á allan starfsferil kennara og allt litróf menntunar og skólastarfs. Horfa þurfi fram á veg af miklu meiri áræðni en hingað til hefur verið raunin. Þá þurfi þeir sem mennta kennara að vera fyrirmyndir um starfshætti og þróun skólastarfs bæði í eigin ranni og í samstarfi við kennara í menntastofnunum landsins.

9.1.2012
Jóhanna Einarsdóttir
Leikskólakennaramenntun í mótun
Höfundur fjallar um leikskólakennaramenntun á Íslandi, einkum þróun síðustu ára frá því að námið fluttist á háskólastig. Þróun námsins er skoðuð í ljósi breytinga sem orðið hafa á leikskólakennaramenntun á Norðurlöndum. Mat höfundar er að Íslendingar hafi að ýmsu leyti verið í forystu á Norðurlöndum hvað varðar skipulag og tilhögun leikskólamála.

9.1.2012
Ragnhildur Bjarnadóttir
Stefnumótun í kennaranámi: Áhersla á rannsóknir – Áhersla á vettvang
Höfundur ræðir mótun stefnu í kennaranámi í Kennaraháskóla Íslands, síðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, frá árinu 2004 til 2011. Markmiðið var að auka gæði námsins, m.a. með því að efla tengsl við rannsóknir og vettvang. Niðurstaða höfundar er að vel hafi miðað í þessum efnum; sátt virðist hafa náðst um að öll námskeið tengist rannsóknum og fyrstu skrefin verið tekin í að útfæra markmið þar sem samvinna og samábyrgð háskólans og almennra skóla um kennaramenntun er í brennidepli.

Grein birt 9.1.2012
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Grunnþættir menntunar í aðalnámskrá og fagmennska kennara: Hugleiðing til heiðurs Ólafi J. Proppé
Í greininni ræði höfundur hvaða áhrif má ætla að hugmyndir um svokallaða grunnþætti menntunar í nýrri aðalnámskrá hafi á hlutverk kennara og fagmennsku þeirra. Lagt er út frá grein sem Ólafur J. Proppé skrifaði árið 1992 um fagmennsku kennara og skólastarf. Niðurstaðan er m.a. sú að mestu skipti að kennarar taki frumkvæði að breytingum sem stuðli að því að nemendur verði virkir þátttakendur.

8.3.2012
Hanna Ragnarsdóttir
Kennarar í fjölmenningarsamfélagi: Aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi
Greinin fjallar um kennara í fjölmenningarsamfélagi og aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi. Dregið er fram mikilvægi þess að kennaramenntun á Íslandi sé aðgengileg fjölbreyttum nemendahópum og að búið sé í haginn fyrir þá með réttum áherslum. Sagt er frá þremur rannsóknum meðal erlendra nemenda í kennaranámi og menntunarfræði á Íslandi. Einnig er vísað í erlendar rannsóknir og skýrslur á tímum hnattvæðingar og félagslegs fjölbreytileika.

15.4.2012
Þuríður Jóhannsdóttir
Að læra að verða kennari í starfi á vettvangi
Hér segir frá því hvernig kennarnemar lærðu að starfa sem kennarar þegar þeir unnu sem leiðbeinendur í skólum jafnframt því að stunda kennaranám í fjarnámi sem skipulagt var með reglubundnum staðlotum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á aðstæður kennaranema sem starfa á vettvangi og var byggt á menningarsögulegri starfsemiskenningu sem hefur reynst vera gagnlegt verkfæri til að greina samspil einstaklingsbundinna og samfélagslegra þátta í þróun og námi. Á grundvelli greiningarinnar voru þróaðar tilgátur um atriði sem mestu máli skipta í því ferli að læra til starfa sem kennari.

27.6.2012
Lilja M. Jónsdóttir
„Það er náttúrulega ekki hægt að kenna manni allt“: Viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennaranáms síns
Hér er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum fimm ungra grunnskólakennara til kennaranáms síns. Þetta er langtímarannsókn þar sem rætt var við kennara um reynslu þeirra fyrstu fimm árin í starfi frá brautskráningu. Rannsóknin byggist á rannsóknaraðferð sem höfundur kallar narratífu og veit hann ekki til þess að sú aðferð hafi áður verið notuð í menntarannsóknum hér á landi. Kennaranámið þótti að mestu leyti góður undirbúningur undir kennarastarfið og í langflestum tilvikum hefði það nýst vel. Kennararnir höfðu samt mjög ákveðnar skoðanir á því hvað þyrfti að bæta í kennaranáminu. Lögðu þeir mesta áherslu á lengingu námsins, aukið vettvangsnám, meiri hagnýta kennslufræði, aukna fræðslu um námsefni grunnskólans, aga og bekkjarstjórnun, hvernig best verður komið til móts við nemendur með sérþarfir og foreldrasamstarf.

28.9.2012
Gunnlaugur Sigurðsson
Óboðinn gestur í orðræðu um börn
Í sjálfsprottinni umræðu í kennslustund á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem Óli prik kemur óvænt til skjalanna eru tvö lykilhugtök í boði, uppeldi og menntun. Annað þeirra verður tilfallandi fyrir valinu og umræðan fer fram á merkingarsviði þess en tekur óvænta stefnu vegna þriðja hugtaks sem sprettur, að því er virðist, óumhugsað upp innan þessa merkingarsviðs og reynist hafa afgerandi áhrif á framvindu umræðunnar. Í ljósi kenninga Platons, Rousseau, Alice Miller og Peter Winch reynir höfundur að draga fram ástæður þess að þetta hugtak fær svo ráðandi hlutverk. Greiningin leiðir í ljós samband hugmynda okkar og orða um börn og samband hugmynda okkar, gjörða okkar og félagslegra tengsla við börn.

2.12.2012
Gyða Jóhannsdóttir
Þróun menntunar fyrir norræna grunnskólakennara: Liggur leiðin í háskóla?
Greinin segir frá samanburðarrannsókn á þróun í menntun norrænna grunnskólakennara og kannar hvort og á hvern hátt þróun á Íslandi er sambærileg þróuninni á öðrum Norðurlöndum. Leitast er við að greina hvort og á hvern hátt þróunin endurspeglar bóknámsrek, hvort sú tilhneiging sé á Norðurlöndum að færa kennaramenntun í háskóla eða í stofnanir sem smám saman leitast við að haga starfsemi sinni á líkan hátt og gert er í háskólum. Sérstaklega er kannað hvernig bóknámsrek er tilkomið og hvernig það tengist menntapólitískum aðstæðum og uppbyggingu æðri menntunar í hverju landi. Þróunin endurspeglar mismikið bóknámsrek í löndunum fimm.

2.12.2012
Guðbjörg Pálsdóttir og Guðný Helga Gunnarsdóttir
Námssamfélag í kennaranámi: Rannsóknarkennslustund
Greinin segir frá rannsókn á rannsóknarkennslustund (e. lesson study) sem leið til að byggja upp námssamfélag í kennaramenntun. Í rannsóknarkennslustund felst að hópur kennara og kennaranema skipuleggur saman, rannsakar og ígrundar kennslustund með ákveðin markmið í huga. Rannsakað var hvernig námssamfélag myndaðist meðal stærðfræðikennaranema vormisserin 2009 og 2010 þegar þeir prófuðu að nota þessa aðferð með kennurum sínum. Niðurstöður sýndu að rannsóknarkennslustund getur stutt við myndun námssamfélags þar sem kennaranemar þróa færni sína í faglegri umræðu og auka um leið samstarfshæfni sína, en hvort tveggja er talið mikilvægt í kennaramenntun og kennarastarfi.