3.12.2013
Anh-Dao Tran og Hanna Ragnarsdóttir
Framtíð í nýju landi: Þróunarverkefni með innflytjendum í framhaldsskólum

Framtíð í nýju landi (FÍNL) var tilraunaverkefni um stuðning við víetnömsk ungmenni á Íslandi. Almennt má segja að víetnömsk ungmenni hafi komið sér áfram í íslensku samfélagi. Ungmennin sem þátt tóku í rannsókninni höfðu flest gert tilraunir til að snúa aftur í skóla til að læra íslensku eða einhverja iðngrein en hætt aftur, aðallega vegna slakrar íslenskukunnáttu, skorts á heppilegum íslenskunámskeiðum, skorts á innri hvatningu og sjálfsvirðingu og erfiðra fjölskylduaðstæðna. Þau fengu aðstoð við heimanám, stuðning frá mentorum og annan skipulagðan stuðning og ráðgjöf. Með verkefninu var stutt við þátttakendur og stuðlað að umbótum til að liðsinna ungu fólki af erlendum uppruna. Þróað var líkan til nota hvar sem henta þykir í heiminum til að lýsa því hvernig þeir, sem mest áhrif hafa á framgang ungra innflytjenda og annarra ungmenna, sem eiga undir högg að sækja, geta unnið saman til að auðvelda skólagöngu þeirra og aðlögun.