29.11.2017
Michael Dal, Guðbjörg Pálsdóttir og Sigurður Konráðsson
Faggreinakennsla á vettvangi : Sjónarmið og viðhorf kennaranema í meistaranámi í grunnskólakennarafræði

Að mati kennaranema hjálpar teymisvinna í vettvangsnámi þeim að sjá eigin kennslu í nýju ljósi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri grein í Netlu þar sem viðhorf kennaranema og mat þeirra á vettvangsnámi var rannsakað. Í greininni er fjallað almennt um vettvangsnám og hvernig það er skipulagt og framkvæmt í námskeiðinu Faggreinakennsla á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsakað var viðhorf kennaranema í grunnskólakennarafræði og mat þeirra á vettvangsnáminu. Einnig er gerð grein fyrir mismunandi viðhorfum fræðimanna til vettvangsnáms, vægi kennslufræða og faggreina og ekki síst eðli og formi þessa brýna en vandasama hluta kennaranáms. Verkefni og ritgerðir nema í námskeiðinu á árunum 2013–2015 voru greindar og niðurstöður skoðaðar í ljósi hugmynda og markmiða kennara námskeiðsins. Helstu niðurstöður um viðhorf nema eru þær að þeim finnst mjög áhugavert að vinna í teymi í vettvangsnáminu því þannig læri þeir mismunandi kennsluaðferðir og það hjálpi þeim að sjá eigin kennslu í nýju ljósi. Nemum finnst einnig gagnlegt að kynnast mismunandi hugsunarhætti og nálgun í faggreinum. Í námskeiðinu virðast þeir líta á vettvangsnámið sem samstarf sitt og kennara í grunnskóla. Einnig kemur fram að teymisvinna hvetji nema til að samþætta tvö eða fleiri viðfangsefni í kennslu og að þeir ræði um skólastarf og skólamenningu vettvangsskólans. Í umræðum eru niðurstöður ræddar í fræðilegu ljósi og bent á hvað hugsanlega mætti betur fara. Höfundar leggja áherslu á að niðurstöður þessarar rannsóknar á teymisvinnu benda til þess að huga mætti oftar að teymisvinnu þar sem hún á við í vettvangsnámi en hingað til. Enn fremur þarf að auka samstarf Menntavísindasviðs og vettvangsskóla.