31.12.2015
Jóhanna T. Einarsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir
Málsýni leikskólabarna: Aldursbundin viðmið
Tilgangur rannsóknarinnar var að finna aldursbundin viðmið fyrir máltjáningu íslenskra leikskólabarna út frá sjálfsprottnu tali eins og það birtist í málsýnum. Skoðaðir voru eftirtaldir þættir: Meðallengd segða (MLS), heildarfjöldi orða (HFO), fjöldi mismunandi orða (FMO) og hlutfallslegur fjöldi villna auk kynbundins munar á þessum mæliþáttum. Þátttakendur voru 221 íslensk leikskólabörn 2,6–6,6 ára, eintyngd og ekki með greind þroskafrávik. Tekið var hentugleikaúrtak og níu leikskólar valdir. Hugbúnaðurinn Málgreinir var notaður við úrvinnslu gagna. Helstu niðurstöður voru þær að MLS lengdist og HFO og FMO hækkaði með auknum aldri. Málfræðivillur voru hlutfallslega sjaldgæfar í máli barnanna og fækkaði þeim marktækt með auknum aldri. Mikil dreifing var innan barnahópsins og einstaklingsmunur á því í hversu löngum setningum börnin töluðu og hvað þau notuðu fjölbreytt orð. Ekki var marktækur munur eftir kynjum á þessum mæliþáttum. Niðurstöðurnar hafa gildi fyrir alla þá sem vinna með og rannsaka málþroska íslenskra barna. Þær eru mikilvægar við greiningu á málþroskafrávikum, athugun á greiningu barna sem tala íslensku sem annað mál og mælingum á framförum í meðferð og skipulagningu íhlutunar. Málsýni af sjálfsprottnu tali eru mikilvæg viðbót við athuganir og rannsóknir á málþroska samhliða stöðluðum prófum.