18.06. 2017
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir
Aukið álag og áreiti: Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf

Áhrif og afleiðingar efnahagshrunsins 2008 á starfsemi leikskóla eru tilefni rannsóknarinnar sem sagt er frá í greininni, Aukið álag og áreiti: Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf, eftir þær Önnu Elísu Hreiðarsdóttur og Eygló Björnsdóttur. Rannsóknin fór fram vorið 2014 og hafði það að markmiði að leita svara við því að hvaða marki leikskólastjórar teldu að niðurskurður í kjölfar hrunsins hefði haft áhrif á starfsemi leikskóla, bæði hvað varðar rekstrarlega þætti og þætti sem snúa að faglegu starfi í leikskólanum. Rafrænn spurningalisti var sendur til 106 leikskólastjóra og var svarhlutfall 64%. Spurt var um þær aðstæður sem sköpuðust í leikskólanum eftir hrun, en einnig um mat leikskólastjóra á áhrifum þeirra. Spurningar voru bæði lokaðar og hálfopnar og megináhersla var lögð á að greina eigindleg svör. Niðurstöður sýna að efnahagshrunið hefur haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi leikskóla, ekki hvað síst á starfsmannahald, samráðsfundi kennara og stjórnun. Námskrárgerð og þróunarstarf hefur setið á hakanum og álag á skólastjóra og kennara hefur aukist. Aðrar íslenskar rannsóknir á áhrifum hrunsins á leikskólastarf hafa gefið svipaðar niðurstöður. Það gefur tilefni til að álykta að niðurskurður hafi komið niður á faglegu starfi og að hlúa hafi þurft betur að leikskólum fjárhagslega.