,

Læsi sem félagsleg iðja: Dæmi úr íslenskukennslu heyrnarlausra

► Höfundur greinarinnar skrifar hér um lestur og lestrartækni er lýtur fyrst og fremst að sköpun merkingar. Að mati höfundar ræðst slík merkingarsköpun bæði af ólíkri reynslu einstaklinga og „ótal aðstæðubundnum þáttum“ eins og það er orðað í núgildandi aðalnámskrá. Höfundur bendir á að þegar við lesum eða skrifum séum við óhjákvæmilega í ákveðnum félagsmenningarlegum aðstæðum sem setji mark sitt á það hvernig við skiljum texta sem við lesum og hvernig við skrifum. Þannig tengist læsi því sem höfundur nefnir félagslegar iðjur einstaklinga. Sem kennari, kennararannsakandi og háskólakennari hefur höfundurinn þróað með sér hugmyndir um læsi sem félagslega iðju sem nýta megi til að skoða og takast á við þann veruleika sem mætir kennurum og nemendum innan veggja skólans. Höfundur lýsir því hvað felst í félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi, þar sem áherslan er á læsi sem félagslega iðju. Kynnt eru til sögunnar íslensk heiti yfir þekkt fræðiorð þessu tengd, til dæmis svonefndir læsisatburðir (e. literacy events), sýnileg atvik þar sem lestur og ritun eiga í hlut, og læsisiðjur (e. literacy practices), sem vísa í það sem að baki liggur þegar fólk les og skrifar. Einnig skoðar höfundur tengsl læsis og valds sem birtast með skýrum hætti í sögu heyrnarlausra. Þessi grein er innlegg í að þróa frekar íslenska orðræðu sem snertir félagsmenningarlegar hugmyndir um læsi og tengja hana íslenskum veruleika. Í greininni nýtir höfundur gögn úr doktorsverkefni sínu, starfendarannsókn sem hún vann sem íslenskukennari í kennslu heyrnarlausra. ► Sjá grein