, ,

Hnignandi frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningshluta PISA frá 2000 til 2015: Leiðir til að snúa þróuninni við

► Höfundar greindu niðurstöður íslenskra unglinga í lesskilningshluta PISA-rannsóknarinnar árið 2015 og báru saman við fyrri niðurstöður allt frá árinu 2000. Að þeirra mati nemur lækkun mælanlegs árangurs um hálfu skólaári. Höfundar benda á að rannsóknir sýni að orðaforði sé sá þáttur sem hafi helst áhrif á lesskilning unglinga. Orðaforði og málskilningur þróist frá fæðingu en máluppeldi á heimilum skipti þar verulegu máli. Lestrariðkun sé forsenda framfara í lestri, en munur á orðaforða og lesskilningi barna hafi tilhneigingu til að aukast með aldri. Í greininni eru lagðar fram rökstuddar tillögur um það hvernig skóli og samfélag geti tekið höndum saman um að snúa við neikvæðri þróun lesskilnings meðal íslenskra ungmenna. Horfa verði til máluppeldis, ekki aðeins í skólum, heldur líka á heimilum. Bent er á að vefmiðlar gegni veigamiklu hlutverki í samskiptum, dægradvöl og upplýsingamiðlun til ungmenna, en þar sé efnið að miklu leyti á ensku. Hlutverk skóla sé að gefa öllum nemendum tækifæri til að efla með sér þá hæfni og þekkingu sem nútímasamfélag geri kröfur um. Lestur, sem felist í því að finna, velja, túlka og meta upplýsingar, sem miðlað er á fjölbreytilegan hátt, þarfnist stöðugrar þjálfunar. Höfundar leggja til að framleiðsla og útgáfa íslensks efnis verði efld, jafnt prentaðs og stafræns og efnis á ljósvakamiðlum. Loks nefna höfundar að auka þurfi þekkingu á íslenskum orðum sem liggi til grundvallar námsárangri, og þá sér í lagi lágtíðniorðum. Slíkar upplýsingar sé hægt að nýta sem grunn við þróun námsefnis og mælitækja, og þær geti því leitt til markvissari náms- og kennsluhátta. ► Sjá grein